Hæstiréttur íslands
Mál nr. 173/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2010. |
|
Nr. 173/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Júlíus Magnússon fulltrúi) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og b. liðir 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsvist.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærðir eru tveir úrskurðir Héraðsdóms Reykjaness 16. mars 2010, þar sem varnaraðila var annars vegar gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. mars 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur og hins vegar var hafnað kröfu hans um tilhögun gæsluvarðhalds. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður um gæsluvarðhald og einangrun verði felldur úr gildi, en til vara að hafnað verði kröfu um einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um gæsluvarðhald og einangrun varnaraðila.
Þegar báðir úrskurðirnir höfðu verið kveðnir upp var bókað eftir varnaraðila: „Kærði lýsir yfir að hann kæri framangreinda úrskurði til Hæstaréttar í því skyni að fá gæsluvarðhaldsúrskurðinn úr gildi felldan og í því skyni að fá tilhögun gæsluvarðhalds breytt þannig að ekki verði um einangrun að ræða.“ Í skriflegum greinargerðum málsaðila til Hæstaréttar eru ekki gerðar sérstakar kröfur um breytingu á síðarnefnda úrskurðinum.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um gæsluvarðhald varnaraðila og einangrun í gæsluvarðhaldinu verður hann staðfestur.
Eftir að síðastnefndur úrskurður hafði verið kveðinn upp var bókað í þingbók héraðsdóms: „Fulltrúi lögreglustjóra kynnir kærða tilhögun gæsluvarðhaldsvistar, sem sé með takmörkunum skv. b-, c- og d-liðum skv. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Kærði mótmælir tilhögun gæsluvarðhalds og krefst úrskurðar um þann ágreining.“ Að því búnu var síðari úrskurðurinn, sem varðar tilhögun gæsluvarðhaldsins, kveðinn upp og, eins og að framan greinir, bókað eftir varnaraðila að hann kærði báða úrskurðina til Hæstaréttar.
Með fyrri úrskurði héraðsdóms var varnaraðili úrskurðaður til að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi að kröfu sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008, þar sem um einangrun er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. laganna, en þar er kveðið á um að gæslufangar skuli aðeins látnir vera í einrúmi samkvæmt úrskurði dómara. Þrátt fyrir að ekki sé vísað til c- og d-liða 1. mgr. 99. gr. í 2. mgr. 98. gr., verður talið að í dómsúrskurði um einangrun gæslufanga felist að hann skuli ekki njóta þeirra réttinda sem á er kveðið í þessum stafliðum málsgreinarinnar. Það verður því að líta svo á að samkvæmt fyrrnefndri bókun hafi fulltrúi lögreglustjóra aðeins verið að lýsa fyrir varnaraðila tilhögun á gæsluvarðhaldi hans sem héraðsdómur hafði þegar kveðið á um í fyrri úrskurði sínum, það er að segja að varnaraðili skyldi sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu. Það voru því engin efni til að kveða upp nýjan úrskurð þó að varnaraðili hafi krafist, svo sem gæsluföngum er að jafnaði heimilt samkvæmt 3. mgr. 99. gr. laganna, úrskurðar héraðsdóms um tilhögun gæsluvarðhalds í einangrun sem hann hafði þegar verið úrskurðaður til. Verður hinn síðarnefndi úrskurður héraðsdóms því ómerktur og kröfu varnaraðila um tilhögun gæsluvarðhalds sem þar var kveðið á um vísað frá héraðsdómi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður um gæsluvarðhald varnaraðila, X, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur er staðfestur.
Hinn kærði úrskurður um tilhögun gæsluvarðhalds er felldur úr gildi og kröfu varnaraðila um það efni vísað frá héraðsdómi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. mars 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a og b liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...], pólskur ríkisborgari, með dvalarstað að [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. mars 2010 kl. 16.00.
Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður styttri tími.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að þann 31. janúar 2010 hafi pólskur ríkisborgari að nafni Y verið handtekinn í flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um innflutning á umtalsverðu magni af ávana- og fíkniefnum. Hann hafi verið með í fórum sínum 870 ml af glærum vökva sem hafi sýnt svörun sem amfetamín. Samkvæmt rannsókn Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði hafi efnið í flöskunni reynst vera amfetamín og a-fenýletýlamín. Samkvæmt matsgerð Jakobs Kristinssonar prófessors væri unnt að búa til allt að 5.983 g af amfetamíni úr efninu. Í fórum Y hafi fundist bréfmiði þar sem á hafi verið ritað símanúmerið [...] og heimilisfangið [...], [...]. Rannsókn lögreglunnar hafi leitt í ljós að símtæki kærða hafi tengst þessu símanúmeri. Fram hafi komið í málinu að kærði búi hjá konu að [...], [...] og hafi verið gerð húsleit þar. Þar hafi fundist 300.000 krónur í reiðufé sem kærða og konunni hafi ekki borið saman um hvernig séu tilkomnar. Þá hafi ennfremur fundist 70 g af hvítu efni sem lögreglan telji vera amfetamín. Auk þess hafi fundist kannabisefni og töluvert magn lyfjataflna svo og fimm farsímar og fimm farsímakort.
Lögreglan grunar kærða um að vera í tengslum við Y samkvæmt fyrrgreindum símaupplýsingum. Rannsóknin sé þó á frumstigi. Kærði sé útlendingur og því megi ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi. Rannsókn málsins beinist að innflutningi á miklu magni af fíkniefnum sem falli undir 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn þeirri lagagrein geti varðað fangelsi allt að 12 árum. Því telur lögreglan nauðsynlegt vegna rannsóknarhagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Rannsókn málsins er á frumstigi og rökstuddur grunur er um að kærði tengist stórfelldu fíkniefnabroti sem varðað geti allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður talið að uppfyllt séu skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur. Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.
Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. mars nk. kl. 16.00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. mars 2010.
X hefur krafist þess að gæsluvarðhald sem úrskurðað var fyrr í dag að hann skyldi sæta til þriðjudagsins 23. mars nk. kl. 16.00 verði hagað þannig að ekki verði um takmarkanir að ræða og er sérstaklega mótmælt takmörkunum að því er varðar b, c og d lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu lögreglustjórans á Suðurnesjum er kröfu kærða mótmælt og þess krafist að um tilhögun gæsluvarðhalds fari samkvæmt b, c og d lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Fyrir liggur að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Er rannsóknarhagsmunum þeim er liggja til grundvallar lýst í fyrrnefndum úrskurði um gæsluvarðhald. Með vísan til þess sem þar greinir, og að virtum öllum atvikum málsins, þykir skilyrðum fullnægt til að kærði sæti takmörkunum samkvæmt b, c-og d lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti takmörkunum í gæsluvarðhaldinu samkvæmt b, c og d lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.