Hæstiréttur íslands
Mál nr. 670/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Samlagsaðild
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
Nr. 670/2008. |
Miðvikudaginn 14. janúar 2009. |
|
|
Guðrún F. Helgadóttir(Magnús Björn Brynjólfsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) Matvælastofnun(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) Framleiðnisjóði landbúnaðarins(Skarphéðinn Pétursson hdl.) Sigurði H. Helgasyni(enginn) Sveini Jóhannessyni og(Örlygur H. Jónsson hdl.) Þórsteini Arnari Jóhannessyni (Örlygur H. Jónsson hdl.) |
Kærumál. Samlagsaðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
G höfðaði mál á hendur Í, M, F, S, SJ og Þ og krafðist ógildingar á þremur ráðstöfunum sem allar tengdust jörðinni G. Til vara krafði G skaðabóta úr hendi M, F, Í, og S vegna þess að ofangreindar raðstafanir hefðu verið ólöglegar og ógildar. Ekki var talið að fullnægt væri skilyrðum 1. mgr. 19. gr. laga n.r 91/1991 til að hafa þessar dómkröfur uppi í sama máli og því fallist á að kröfum G yrði vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hnekkt og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir íslenska ríkið og Matvælastofnun krefjast þess aðallega að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað, en til vara er þess krafist að málskostnaður fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaður verði látinn niður falla. Varnaraðilinn Framleiðnisjóður landbúnaðarins krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Það athugast að í héraði varð útivist af hálfu Sigurðar H. Helgasonar, en Sveinn Jóhannesson og Þórsteinn Arnar Jóhannesson gerðu ekki kröfu um frávísun málsins.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Guðrún F. Helgadóttir, greiði varnaraðilum, íslenska ríkinu og Matvælastofnun annars vegar og Framleiðnisjóði landbúnaðarins hins vegar, hvorum um sig 150.000 krónur í málskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2008.
Mál þetta var höfðað 8. maí 2008 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfur 5. nóvember 2008.
Stefnandi er Guðrún Fjóla Helgadóttir, Grund, Akureyri. Stefndu eru íslenska ríkið vegna sýslumannsins á Húsavík og Akureyri, Matvælastofnun, Austurvegi 64, Selfossi, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Hvanneyrargötu 3, Borgarnesi, Sigurður Helgi Helgason, Vesturlandsbraut, Keldum, Reykjavík, Sveinn Jóhannesson, Hóli, Akureyri og Þórsteinn Arnar Jóhannesson, Bárðartjörn, Akureyri.
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
1. Stefnandi krefst þess að samningur um búháttabreytingu dags. 16.09.1985, samningur um ráðstöfun fullvirðisréttar dags. 23.02.1988 og tilkynningar um aðilaskipti að greiðslumarki suðfjárafurða dags. 22.12.1992, allt samningar vegna jarðarinnar Grundar, Akureyri, um alls 562 ærgildi milli Sigurðar Helga Helgasonar, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Matvælastofnunar, Sveins Jóhannessonar og Þórsteins Arnars Jóhannessonar, verði ógiltir með dómi.
2. Til vara er krafist að stefndu Matvælastofnun, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, íslenska ríkið og Sigurður Helgi Helgason verði dæmdir in solidum til greiðslu á 25.000.000 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt IV kafla laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.
3. Krafist er málskostnaðar in solidum af öllum stefndu að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á lögmannsþóknun.
Stefndu, íslenska ríkið og Matvælastofnun, krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, auk málskostnaðar að mati réttarins, og til vara að stefndu verði sýknaðir af kröfum stefnenda, auk málskostnaðar að mati réttarins, en til þrautavara að stefnukröfur verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
Framleiðnisjóður landbúnaðarins krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaðir af kröfum stefnenda og til þrautavara að stefnukröfur verði stórlækkaðar og stefnda aðeins gert að greiða þær að litlum hluta. Í öllum tilvikum krefst stefndi Framleiðnisjóður landbúnaðarins málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar aðalkrafa stefndu, Íslenska ríkisins, Matvælastofnunar og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins um frávísun málsins. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað og málskostnaðar sér til handa í þessum þætti málsins.
Málsatvik:
Málsatvik, sem skipta máli í þessum hluta málsins, eru í aðalatriðum þau að jörðin Grund í Grýtubakkahreppi varð óðalsjörð með kvöð sem þinglýst var á jörðina 9. maí 1955. Eigandi jarðarinnar var þá Helgi Snæbjörnsson, faðir stefnanda. Sigurður Helgi Helgason, meðstefndi í máli þessu og bróðir stefnanda, eignaðist jörðina ásamt eiginkonu sinni árið 1997, með afsali frá eigandanum, Helga Snæbjörnssyni, föður sínum. Með þeim þremur samningum, sem greint er frá í kröfukafla hér að ofan, ráðstafaði eigandi búmarki, fullvirðisrétt og greiðslumarki sem tilheyrðu jörðinni Grund. Stefnandi eignaðist Grund í Grýtubakkahreppi með afsali dagsettu 12. maí 1995, þinglýstu 24. maí 1995 og var afsalsgjafi bróðir hennar, Sigurður Helgi.
Stefnandi höfðaði árið 1996 mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, á hendur landbúnaðarráðherra, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins til ógildingar samninganna þriggja og til vara til greiðslu skaðabóta. Framhaldsstefna gegn Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Framleiðsluráði landbúnaðarins var þingfest 13. júní 1997, en málinu í heild vísað frá dómi með úrskurði dagsettum 13. október 1997.
Stefnandi ritaði Bændasamtökum Íslands bréf 11. október 2003 og krafðist þess að allt greiðslumark jarðarinnar yrði skráð aftur á ættaróðalið Grund og miskabóta vegna mistaka samtakanna og Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Bændasamtökin svöruðu erindi stefnanda með bréfi dagsettu 5. nóvember 2003 og höfnuðu kröfum hennar.
Þá lagði stefnandi fram stjórnsýslukæru til Landbúnaðarráðuneytis 4. febrúar 2004 þar sem kærð var synjun Bændasamtaka Íslands um að skrá aftur fullvirðisrétt á jörðina. Þeirri kæru var vísað frá með bréfi ráðuneytisins dagsettu 17. febrúar 2004.
Hinn 3. mars 2004 kærði stefnandi nefnda ákvörðun Bændasamtaka Íslands til úrskurðarnefndar um greiðslumark. Úrskurðarorð í úrskurði nefndarinnar frá 2. nóvember 2004 er svohljóðandi: „Felld er úr gildi staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins, nú Bændasamtaka Íslands, frá 22. desember 1992 á aðilaskiptum að greiðslumarki sauðfjárafurða óðalsjarðarinnar Grundar í Grýtubakkahreppi.“
Stefnandi ritaði Bændasamtökum Íslands tvívegis í framhaldi af nefndum úrskurði og krafðist m.a. þess að búmarki/greiðslumarki/fullvirðisrétti yrði skilað aftur til jarðar sinnar, auk þess sem hún krafðist bóta. Samtökin höfnuðu öllum kröfum stefnanda, en bentu í niðurlagi bréfs síns frá 14. desember 2004 á, að hægt væri að skjóta ágreiningi til kærunefndar um greiðslumark.
Þá sendi stefnandi erindi til Umboðsmanns Alþingis þar sem hún kvartaði yfir synjun Bændasamtaka Íslands á kröfu um að endurskrá greiðslumark mjólkur og sauðfjárafurða á jörðina Grund. Ítarlega rökstudd niðurstaða Umboðsmanns er að ekki sé tilefni til athugasemda af hans hálfu við þá afstöðu Bændasamtaka Íslands að þau hafi ekki getað fært það greiðslumark sem flutt var af jörðinni Grund, 22. desember 1992, aftur á jörðina Grund. Umboðsmaður tók síðan fram að með þessari niðurstöðu sinni hefði hann ekki tekið neina afstöðu til hugsanlegrar skaðabótaskyldu vegna staðfestingar Framleiðsluráðs landbúnaðarins á aðilaskiptum að greiðslumarki frá jörðinni Grund, en almennt væri það svo, að bætt væri úr afleiðingum slíks annmarka með skaðabótum úr hendi stjórnvalds, enda væru skilyrði um bótaábyrgð, aðild og sönnun um tjón uppfyllt.
Málsástæður og lagarök stefnanda:
Stefndi kveðst hafa orðið fyrir stórtjóni vegna athafna/athafnaleysis stefndu, Matvælastofnunar (áður Framleiðsluráð landbúnaðarins, Bændasamtaka Íslands, Landbúnaðarstofnunar), Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, sýslumannsins á Húsavík og Akureyri, Sigurðar Helgasonar, Sveins Jóhannessonar og Þórsteins Arnars Jóhannessonar. Þeir hafi með aðgerðum sínum og athöfnum brotið gegn VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976 með því að rýra jörðina af hlunnindum og fylgifé, ýmist með því að færa einhliða hlunnindi frá jörðinni (sic), og hafi þannig stærstu og mestu eignir ættaróðalsins, framleiðsluheimildirnar, verið teknar með ólögmætum hætti. Stefnandi áskilur sér rétt til að láta dómskvaddan matsmann meta verðmæti jarðar annars vegar og verðmæti fullvirðisréttar og greiðslumarks hins vegar.
Umrædd eignarréttindi sem tengist þeim þremur samningum sem krafist sé ógildingar á, falli öll undir skilyrðislaus eignarréttindi ættaróðalsins, skv. 47. gr., 48. gr. og 55. gr. jarðalaga, sem ekki hafi mátt skerða eða taka burt með einum eða öðrum hætti samkvæmt fyrrnefndum lögum. Stefnandi vekur athygli á því að um þinglýsta kvöð hafi verið að ræða, sem hafi bundið eiganda og alla viðskiptamenn hans við þá staðreynd að um ættaróðal væri að ræða með öllum réttindum og skyldum sem því fylgdi.
Stefnandi vísar til 67. gr. stjórnarskrár um að óheimilt hafi verið að skerða eignarréttindi óðalsins. Allir samningar um sölu hlunninda, afurða og fylgifjár frá óðalinu hafi verið óheimilir og ólöglegir. Samkvæmt 48. gr. jarðalaga hefði verið skylt að láta fylgja ættaróðali öll hlunnindi og allar afurðir sem framleiddar hafi verið á jörðinni. Framleiðsluréttindi falli öll undir hlunnindi og eignir ættaróðals í merkingu jarðalaga og ekki hafi undir neinum kringumstæðum mátt svipta óðalið t.d. þeim gögnum og gæðum sem geti framfleytt að minnsta kosti einni fjölskyldu, samkvæmt 47. gr. jarðalaga.
Enginn hinna stefndu hafi haft ráðstöfunarrétt á hlunnindum óðalsins. Stefndi Sigurður Helgi hafi ekki haft slíka heimild og ekki notið leiðsagnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Bændasamtakanna, nú Matvælastofnunar, heldur verið ginntur af þessum aðilum til að ganga til ólögmætra samninga. Margdæmt sé að eignarréttindi, eins og búmark, fullvirðisréttur og greiðslumark, tilheyri jörð og þar af leiðandi einnig ættaróðali. Þau séu ekki framseljanleg og hverfi hvorki af óðalinu fyrir fyrningu né tómlæti.
Þar sem verðgildi ættaróðalsins hafi verið stórkostlega rýrt með ólögmætri ráðstöfun, beri að ógilda allar umræddar ráðstafanir, enda verði litið svo á að réttindi þessi tilheyri enn jörðinni. Þau verði aldrei slitin frá ættaróðalinu og ekki hafi mátt ráðstafa þeim frá jörðinni undir neinum kringumstæðum. Um þetta gildi nánast sömu reglur og um stolinn varning, kaupandi stolins munar geti aldrei orðið eigandi hans og gildi einu hverju hann beri fyrir sig. Brotið hafi verið á stefnanda og komist stefndu upp með það sé verið að viðhalda lögbroti og ólögmætum ávinningi. Óframseljanleg réttindi hafi verið numin af jörðinni með ólögmætum hætti og sé haldið frá réttum eiganda og beri því að ógilda umrædda samninga.
Þá telur stefnandi stefndu, Framleiðnisjóð og Matvælastofnun (Framleiðsluráð landbúnaðarins), hafa brotið gegn 30., 31. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samninga. Þá hafi verið brotið á rétti stefnanda til atvinnustarfsemi samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár, þar sem verðmæti sem voru grundvöllur atvinnustarfsemi hans hafi verið tekin af stefnanda með ólögmætum hætti. Stefnandi telji að löggjafinn hafi, án heimildar, framselt til framkvæmdavaldsins vald til að setja reglur sem réðu úrslitum um eignir og afkomu stefnanda og hafi slík ráðstöfun brotið í bága við jarðalögin nr. 65/1976 og ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins.
Stefnandi telur að sýslumaður beri ábyrgð á því að hafa ekki fært þinglýstar kvaðir á þinglýsingarvottorð þegar það hafi verið útgefið. Í veðbókarvottorði útgefnu 10.9.1985, rétt áður en samningur um búháttabreytingu hafi verið gerður hafi kvaðar um ættaróðal hvergi verið getið. Nefndur samningur hafi verið að öllu leyti óheimill og ólögmætur þar sem ströng ákvæði þágildandi jarðalaga nr. 65/1976 hafi gilt um óðalsjarðir, samanber 48. gr. laganna. Stefnandi vísar einnig til 50. gr., 55. gr. og 60. gr. nýnefndra laga þar sem hnykkt sé á banni óðalseiganda að ráðstafa eignum, afurðum, tryggingum, styrkjum, skaðabótum sem falla til óðals.
Sýslumaður teljist ábyrgur samkvæmt 49. gr. laga nr. 39/1978 fyrir framangreindum mistökum og eigi stefnandi rétt á bótum úr ríkissjóði. Orsakasamhengi sé milli þess tjóns er eigandi ættaróðalsins hafi orðið fyrir og athafna eða athafnaleysis sýslumanns í þessum efnum. Allir gerningar sem gerðir hafi verið í kjölfar rangra veðbókarvottorða hafi verið ólögmætir og óheimilir og það veiti stefnanda rétt til bóta samkvæmt nýnefndri lagagrein og samkvæmt huglægum og hlutlægum reglum skaðabótaréttarins.
Stefnandi telur að stefndi Sigurður Helgason sé einnig að óskiptu ábyrgur fyrir því að hafa ráðstafað hlunnindum jarðarinnar í bága við skýra þinglýsta kvöð og ákvæði jarðalaga. Verði að ætla að hann hafi haft vitneskju um kvaðir sem hefðu átt að hindra öll aðilaskipti að greiðslumarki jarðarinnar. Samningar þeir sem stefnt er til ógildingar á og stefndi Sigurður undirritaði séu allir ógildir og komi fyrningarreglur ekki til álita, þar sem þeir hafi þegar er þeir voru undirritaðir verið ógildir. Stefnandi telur að Sigurður hafi verið ginntur af þáverandi stjórnvöldum til að afhenda búmark, fullvirðisrétt og greiðslumark. Umræddar stofnanir hafi unnið gegn betri vitund þegar þær ginntu Sigurð til að undirrita samningana, enda hafi þeim verið kunnugt um, eða átt að vera kunnugt um kvöðina um ættaróðal.
Stefnandi hafi keypt jörðina af stefnda Sigurði 12. maí 1995 og hafi strax þá gert reka að því að leiðrétta hina ólögmætu gerninga. Hafi stefnandi haft uppi samfellda baráttu fyrir því að aflétta ólögmætum veðum og flytja gögn og gæði aftur á óðalsbýlið sem af því hafi verið tekin með ólögmætum hætti.
Að því er varðar þátt Matvælastofnunar og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, byggir stefnandi á því að hinn síðarnefndi sjóður og Matvælastofnun sem arftaki Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Bændasamtakanna og Landbúnaðarstofnunar beri solidaríska ábyrgð á tjóni stefnanda, en stefndu hafi verið aðilar að öllum samningunum sem krafist sé ógildingar á í málinu. Dómkrafa stefnanda beinist að því að ógilda beri alla umrædda samninga sem umræddar stofnanir hafi staðið fyrir gegn betri vitund og af gáleysi heimilað í andstöðu við VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976. Fram kemur af hálfu stefnanda að samkvæmt skattframtali 1979 hafi óðalseigandi að Grund talið fram þennan kvikfénað: 180 ær, 6 kálfa, 24 gemlinga og 1 hryssu. Þá hafi óðalið átt 562 ærgildi og allt hafi þetta verið hlunnindi sem stefndi Sigurður hafi tekið við af föður sínum og ekki mátt selja eða ráðstafa með neinum hætti.
Ekki sé sjáanlegt að fjármunir sem komu fyrir búmark, fullvirðisrétt og greiðslumark hafi verið notaðir til uppbyggingar óðalsins sem komi í stað þeirra hlunninda. Ósannað sé og því mótmælt af hálfu stefnanda að til dæmis andvirði samnings um búháttabreytingu hafi verið notað til húsbóta eða annarra umbóta, samanber 55. og 57. gr. jarðalaga. Refabú sem komið hafi verið upp hafi verið sjálfstæð eign og utan óðalsins.
Stefndi telur að Matvælastofnun hafi komið fram sem sérfræðingur varðandi þá samninga sem krafist er ógildingar á í málinu og hafi auk Framleiðnisjóðs haft fjölda sérfræðinga á sínum vegum. Stofnunin og forverar hennar hafi brotið jarðalög og beri ótvíræða ábyrgð á öllum gerningum sem rýrt hafi jörðina gögnum og gæðum.
Varakröfu sína um bótaskyldu stefndu Matvælastofnunar og Framleiðnisjóðs byggir stefnandi á því að stefndu hafi brotið jarðalög, 50., 55. og 60. gr. laganna og ákvæði laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Stefndu hafi mátt vita betur og hafi gerst sekir um ásetning eða gáleysi og beri að greiða stefnanda bætur eftir almennu skaðabótareglunni um sök. Einnig sé byggt á hlutlægu saknæmi. Orsakasamband sé á milli athafna stefndu og þess tjóns er þeir hafi valdið stefnanda og sé dómafordæmi fyrir ábyrgð Framleiðsluráðsins og jafnframt því að nægilegt sé að stefna einvörðungu Matvælastofnun til greiðslu skaðabóta vegna greiðslumarks.
Að því er varðar hina ólögmætu samninga, sem hér er krafist ógildingar á, sérstaklega, byggir stefnandi á því, að því er varðar samning um búháttabreytingu frá 1985, að Framleiðsluráð landbúnaðarins og Framleiðnisjóður hafi ekki farið að lögum varðandi samninginn, sem gengið hafi út á verulega skerðingu greiðslumarks sem hafi verið beinlínis andstætt 48., 50., 55., 57. og 60. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Jörðin hafi áður verið í eigu ríkisins og hafi verið seld með því ófrávíkjanlega skilyrði árið 1955 að hún yrði ættaróðal. Stefndu Matvælastofnun (Framleiðsluráð) og Framleiðnisjóður hafi gegn betri vitund útbúið samninginn og beri ábyrgð á mistökum sem gerð voru og beri að ógilda samninginn að öllu leyti.
Að því er varðar samning um ráðstöfun fullvirðisréttar frá 1988, sem gerður var á milli Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og Sigurðar Helgasonar og talið var nauðsynlegt að Framleiðsluráð landbúnaðarins staðfesti, sérstaklega, byggir stefnandi á því að samningurinn hafi verð ólögmætur og í andstöðu við VII. kafla laga nr. 65/1976 um óðalsjarðir og þágildandi lög nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og beri því að ógilda hann. Þá hafi samningurinn brotið gegn samningalögum þar sem stefndi Sigurður hafi verið ginntur til að selja fullvirðisrétt frá óðalinu þvert ofan í gild jarðalög. Framleiðnisjóður hafi notað sér fákunnáttu Sigurðar til að afla sér hagsmuna samkvæmt 31. gr. samningalaga, þar sem bersýnilegur mismunur hafi verið á hagsmunum og endurgjaldi sem skyldi koma fyrir. Þá eigi 36. gr. samningalaga við þar sem víkja megi samningi til hliðar í heild þar sem ólögmætt og ósanngjarnt sé að bera hann fyrir sig. Samningurinn hafi brotið í bága við jarðalög og beri því að ógilda þennan samning eins og hinn fyrri.
Stefnandi byggir á því varðandi sölu greiðslumarks af jörðinni 22. desember 1992, að með úrskurði úrskurðarnefndar um greiðslumark frá 1. nóvember 2004 hafi sú sala verið úrskurðuð ógild. Hafi úrskurðarnefndin fallist á að greiðslumark hafi fallið undir hlunnindi jarðarinnar samkvæmt 48. gr. jarðalaga nr. 65/1976 og Framleiðsluráði landbúnaðarins (Matvælastofnun) verið skylt að afla samþykkis allra eigenda jarðarinnar. Af þessu megi vera ljóst að samningurinn hafi verið ógildur og marklaus samkvæmt 38. gr. laga nr. 99/1993. Framleiðsluráð landbúnaðarins hafi bakað stefnanda stórfellt tjón með ólögmætri ráðstöfun greiðslumarksins. Þá byggir stefnandi á því að viðkomandi stjórnvöld hafi notfært sér bágindi og fákunnáttu stefnda Sigurðar Helga, skýrt rangt frá atvikum sem skiptu máli og þagað yfir öðrum og ginnt stefnda til að ráðstafa greiðslumarkinu frá jörðinni þrátt fyrir bann jarðalaga og vísar stefnandi um þetta til 2. mgr. 31. gr. og 31. gr. samningalaga, auk þess sem vísað er til 36. gr. laganna varðandi heimild til að víkja samningi til hliðar ef ósanngjarnt yrði talið að bera hann fyrir sig.
Varðandi þátt stefndu Sveins Jóhannessonar og Þórsteins Jóhannessonar, sem áttu viðskipti við stefnanda um kaup á greiðslumarki árið 1992, er byggt á því af hálfu stefnanda að þeim hafi mátt vera ljós ákvæði VII. kafla jarðalaga og einnig að legið hafi frammi við samningsgerðina veðbókarvottorð sem gaf til kynna fleiri eigendur og þeim hefði því mátt vera ljóst að óheimilt hefði verið að selja greiðslumark frá jörðinni nema með samþykki allra eigenda. Hafi stefndu sýnt gáleysi í athöfnum sínum og verði að sæta því að umræddir samningar verði dæmdir ógildir.
Stefnandi áskilur sér í stefnu rétt til að dómkveðja matsmenn til að meta tjón stefnanda vegna þeirra ráðstafana sem krafist er ógildingar á í aðalkröfu og til að meta verðmæti jarðarinnar Grundar í Grýtubakkahreppi með gögnum og gæðum, fyrir og eftir sölu búmarks, fullvirðisréttar og greiðslumarks.
Stefnandi tekur fram varðandi aðild að Framleiðnisjóður landbúnaðarins sé sérstakur sjóður eða stofnun með eigin stjórn og lögheimili, stofnaður með lögum nr. 89/1966. Framleiðsluráð landbúnaðarins hafi hins vegar verið sameinað Landbúnaðarstofnun sem hafi tekið til starfa 1.1.2006. Landbúnaðarstofnun hafi skipt um nafn 1.1.2008 og heiti nú Matvælastofnun og gegni sama hlutverki og Framleiðsluráð landbúnaðarins, sem hafi verið lagt niður. Matvælastofnun hafi tekið við réttindum og skyldum Framleiðsluráðs með sama hætti og Landbúnaðarstofnun og Bændasamtök Íslands.
Málsástæður og lagarök stefndu:
Kröfu sína um frávísun málsins reisa stefndu íslenska ríkið og Matvælastofnun á því að verulega skorti á, samanber 18. gr, 19. gr. og d-, e- og f-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að stefnandi hafi útbúið mál sitt þannig úr garði að unnt sé að leggja dóm áð það.
Stefndu byggja á því að aðalkrafa stefnanda sé óljós, óákveðin og ódómhæf. Henni sé beint óskilgreint að öllum stefndu án tillits til efnis eða aðildar að samningum og tilkynningum og eigi staðhæfing í stefnukröfu um „562 ærgildi“ enga stoð í þeim. Samningur um búháttabreytingu frá 1985 fjalli um greiðslur úr Framleiðnisjóði gegn afsali á 300 ærgilda búmarki og séu aðilar hans stefndi Sigurður Helgason, Framleiðnisjóður og Framleiðsluráð landbúnaðarins. Samningur frá 1992 um sölu á 120 ærgilda fullvirðisrétti sé gerður á milli Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og stefnda Sigurðar. Þá varði tvær tilkynningar til Framleiðsluráðs landbúnaðarins árið 1992 annars vegar kaup Þórsteins Jóhannessonar á 883,5 kg. greiðslumarki og hins vegar kaup Sveins Jóhannessonar á 883,5 kg. greiðslumarki. Hvorki sýslumaður á Húsavík né á Akureyri séu aðilar að þessum löggerningum og enga reifun sé að finna í stefnu á því hvers vegna kröfu um ógildingu tilgreindra löggerninga sé beint að íslenska ríkinu vegna þeirra og málið sé algerlega vanreifað hvað þetta varðar.
Stefnandi málsins sé heldur ekki aðili að neinum þeirra gerninga sem aðalkrafa hennar tekur til og sé ekki gerð í stefnu viðhlítandi grein fyrir heimildum stefnanda til að krefjast ógildingar þeirra, þar dugi ekki að vísa til þess að um óðalsjörð sé að ræða og stefnandi hafi tekið við jörðinni árið 1995. Innbyrðis ósamræmi sé í málatilbúnaði varðandi ráðstöfunarrétt óðals og aðkomu óðalserfingja, en stefnandi standi ein að málshöfðun og hafi upp varakröfu um skaðabætur sér persónulega til handa.
Ekki sé á neinn hátt rökstutt af hálfu stefnanda á hvaða grunni hún geti rekið eitt mál um gildi allra gerninganna sem séu frá mismunandi tímum og milli mismunandi aðila.
Varakrafa stefnanda sé andstæð d-lið 80. gr. einkamálalaga og algerlega vanreifuð og ekki sé sérstaklega um hana fjallað í stefnu. Engin tengsl séu milli stefnanda og ótilgreindra þinglýsingavottorða, enga skiljanlega útlistun sé yfirhöfuð að finna á kröfugerð varakröfu í stefnu eða framlögðum gögnum og ekkert sé upplýst um búskap stefnanda á Grund. Algerlega skorti reifun á lagagrundvelli sem leiði til þess að stefnandi hafi beðið tjón á fjárhagslegum hagsmunum sínum og um orsakasamband, og öll gögn til stuðnings tjóni og tjónsfjárhæð skorti.
Aðalkrafa stefnanda gangi eingöngu út á ógildingu en í málsreifun í stefnu sé kröfugerðinni lýst þannig að allir gerningarnir verði ógiltir og krafist að heimildir samkvæmt þeim verði færðar á ný til óðalsins. Bótakrafa sem í kröfugerð sé sett fram sem varakrafa, sé í málsreifun stefnanda lýst eins og um samhliða kröfugerð sé að ræða, stefnandi kveðist þannig fyrir utan kröfu um ógildingu gera kröfu um að fá tjón sitt bætt samkvæmt matsgerð og áskilur sér rétt til að leggja fram sérstaka framsetningu síðar.
Staðhæfingar um ólögmætt framsal löggjafarvalds séu hvorki reifaðar né rökstuddar. Kröfugerð, reifun krafna, málsástæðna og lagaraka sé þannig ekki svo glögg og skýr sem áskilið sé í 80. gr. einkamálalaga og hvergi gerð til þess tilraun í sóknarskjölum að tengja tilgreind lagarök og málsástæður við bótakröfuna.
Af hálfu stefnda Framleiðnisjóðs landbúnaðarins er frávísunarkrafa byggð á því að verulega skorti á að uppfyllt séu skilyrði d-, e-, f- og g- liða í 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málatilbúnaður stefnanda sé að mati stefnda óskýr og algerlega vanreifaður og ekki sé nokkurt samhengi á milli framlagðra gagna, málsástæðna og dómkrafna. Aðalkrafa stefnanda virðist beinast að öllum stefndu án þess að tilgreint sé hverjir stefndu hafi átt þar aðild og gætu þar með átt lögvarða hagsmuni. Auk þess sé augljóst að stefnandi eigi ekki aðild að samningunum og langsóttar skýringar um meint óðalsréttindi stefnanda dugi engan veginn til að yfirfæra aðilastöðu til stefnanda. Stefnandi geti ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um sakarefnið þar sem fyrri eigandi hafi afsalað sér öllu greiðslumarki með samningum þeim sem nú sé krafist ógildingar á, löngu áður en stefnandi keypti jörðina. Þeir lögvörðu hagsmunir sem eigandi Grundar kunni að hafa átt hafi liðið undir lok við þessa samninga og síðari eigandi geti ekki gengið inn í þá hagsmuni við það eitt að kaupa jörðina, auk þess sem þeir séu löngu niður fallnir og úrlausn dómstóla á sakarefninu skipti því ekki máli fyrir stöðu stefnanda að lögum.
Þá telur stefndi að í reynd hafi jörðin Grund í Grýtubakkahreppi ekki uppfyllt skilyrði þess að geta verið óðal í skilningi laga svo áratugum skipti. Ekki einungis hafi jörðinni ítrekað verið afsalað án þess að samþykki óðalserfingja lægi fyrir eins og áskilið hafi verið í jarðalögum nr. 65/1976, heldur hafi enginn ábúandi verið á Grund, enginn búrekstur stundaður þar og enginn eigi þar lögheimili, sbr. t.d. b. lið 1. mgr. 68. gr. jarðalaganna frá 1976.
Stefndi byggir á því að skaðabótakrafa stefnanda sé vanreifuð og algjörlega órökstudd og hvorki sé að finna lagarök né útreikning á fjárhæð í málatilbúnaði stefnanda. Stefnandi krefjist bóta að fjárhæð 25.000.000 króna án þess að tilgreina eða vísa til haldbærrar réttarreglu til grundvallar skaðabótakröfu sinni. Vissulega nefni stefnandi sakarregluna og hlutlæga bótaábyrgð, en slíkar almennar fullyrðingar án tilvísana til eiginlegrar sakar, orsakatengsla eða sennilegra afleiðinga af háttsemi stefnda, auk almennra tilvísana í ákvæði stjórnarskrár, geti ekki talist fullnægjandi grundvöllur skaðabótakröfu. Áskilnaður um rétt til að dómkveðja matsmenn skipti engu máli varðandi bótagrundvöllinn.
Ef rétt sé, að umrædd framleiðsluréttindi séu eignarréttindi sem tilheyri jörðinni Grund og séu óframseljanleg, verði ekki séð að greiða beri stefnanda persónulega bætur vegna missis réttindanna. Þá sé skýrlega mælt fyrir um réttindaröð þeirra sem geti tekið við óðali, samanber 63. gr. laga 65/1976 og samkvæmt 42. gr. laga nr. 81/2004 sé óheimilt samkvæmt lögum að gera jörðina að óðali á ný. Stefndi telji að umræddir ættingjar, sbr. 63. gr. eldri jarðalaga, verði að eiga aðild að skaðabótakröfu og beri því að vísa málinu frá með vísan til 18. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi telur dráttarvaxtakröfu vanreifaða, þar sem hvorki sé vísað til vaxtafótar né vísað í viðeigandi lagaheimild og beri því að vísa henni frá dómi. Kröfugerð stefnanda sé þannig framsett að sakarefnið sé illskiljanlegt og sönnunarfærsla algerlega ófullnægjandi, málatilbúnaður ekki í samræmi við d-, e-, f- og g- liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og beri því að vísa málinu frá dómi.
Niðurstaða:
Ágreiningurinn í máli þessu virðist snúast um það hvort heimilt hafi verið á sínum tíma að ráðstafa frá jörðinni Grund í Grýtubakkahreppi hinum ýmsu framleiðsluhlunnindum, þ.e. búmarki, greiðslumarki og fullvirðisrétti. Krafist er ógildingar á þrennum ráðstöfunum frá árunum 1985, 1988 og 1992, sem allar tengdust jörðinni Grund og virðist þáverandi skráður eigandi jarðarinnar, meðstefndi Sigurður Helgason, hafa verið aðili að öllum þessum ráðstöfunum. Varakrafa stefnanda er um bætur vegna þess að ofangreindar ráðstafanir hafi verið ólöglegar og séu ógildar.
Stefndu byggja frávísunarkröfur sínar á því að ekki séu uppfylltar formreglur laga nr. 91/1991 að því er varðar aðild og málatilbúnað, hann sé óskýr og algerlega vanreifaður, auk þess sem skorti á samhengi á milli framlagðra gagna, málsástæðna og dómkrafna. Þannig sé ekki að finna í málsreifun stefnanda útlistun á því hvernig hver og einn stefndu tengist þeim ráðstöfunum sem krafist er ógildingar á, auk þess sem stefnandi hafi ekki verið aðili að þeim ráðstöfunum sem fjallað sé um, heldur eignast jörðina árið 1995, og ekki sé gerð grein fyrir heimildum hennar til að krefjast ógildingar ráðstafananna. Ekki nægi að vísa til þess að um óðalsjörð sé að ræða, innbyrðis ósamræmi sé í málatilbúnaði varðandi ráðstöfunarrétt óðals, en stefnandi standi ein að málshöfðun og krefjist bóta til handa sér persónulega. Þá skorti rökstuðning fyrir því af hálfu stefnanda hvernig hún megi í einu máli krefjast ógildingar allra ofangreindra þriggja ráðstafana, sem séu frá mismunandi tímum og á milli mismunandi aðila.
Að því er varðar varakröfu stefnanda um skaðabætur sér til handa, telja stefndu að hún sé andstæð d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og algerlega vanreifuð og órökstudd. Krafist sé bóta að fjárhæð 25.000.000 króna, en almennar tilvísanir til sakarreglu og hlutlægrar bótaábyrgðar geti ekki talist nægjanlegur grundvöllur bótakröfu, án tilvísana til eiginlegrar sakar, orsakatengsla eða sennilegra afleiðinga af háttsemi stefndu. Ekkert sé upplýst um búskap að Grund og reifun á lagagrundvelli sem gæti leitt til tjóns stefnanda á fjárhagslegum hagsmunum og öll gögn til stuðnings tjóni og tjónsfjárhæð skorti. Þá sé bótakrafan sett fram sem varakrafa, en í málsreifun sé henni lýst eins og um samhliða kröfugerð sé að ræða.
Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er að finna heimild til þess að sækja mál á hendur fleiri aðilum í sama máli, ef dómkröfur á hendur þeim eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Eins og máli þessu er háttað og reifun þess af hálfu stefnanda að því er varðar aðild stefndu að því, verður ekki séð að uppfyllt séu skilyrði tilvitnaðrar lagagreinar, en nokkuð skortir einnig á að í málinu sé rakið með fullnægjandi hætti hvernig hinir ýmsu stefndu, sem fæstir eru beinir aðilar að þeim ráðstöfunum sem krafist er ógildingar á, tengjast því þannig að beina megi að þeim kröfum í málinu.
Þá verður að fallast á það með stefndu að nokkuð skorti á að uppfyllt séu öll skilyrði d- til g- liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að því er varðar skýrleika sakarefnis og samhengi á milli málsástæðna, ekki síst er varðar tengsl á milli málsatvika, málsástæðna og aðildar.
Að því er varðar varakröfu stefnanda sérstaklega, verður að fallast á það með stefndu að nokkuð skorti á að hún sé reifuð með fullnægjandi hætti og að málatilbúnaður stefnanda varðandi varakröfuna sé ekki í samræmi við kröfur d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991
Þegar framangreint er virt og öll atvik málsins, verður ekki hjá því komist að verða við kröfum þriggja stefndu í málinu um frávísun þess frá dómi í heild sinni. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi úrskurðaður til að greiða stefndu íslenska ríkinu og Matvælastofnun annars vegar og Framleiðnisjóði landbúnaðarins hins vegar 100.000 krónur hvorum í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Guðrún F. Helgadóttir, greiði stefndu, íslenska ríkinu og Matvælastofnun annars vegar og Framleiðnisjóði landbúnaðarins hins vegar, 100.000 krónur hvorum í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.