Hæstiréttur íslands
Mál nr. 24/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Þinghald
- Sératkvæði
|
Föstudaginn 15. janúar 2010. |
|
|
Nr. 24/2010. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Hjálmar Blöndal hdl.) Y (Arnar Þór Stefánsson hdl.) Z og (María Kristjánsdóttir hdl.) Þ (Eiríkur Elís Þorláksson hrl.) |
Kærumál. Vitni. Þinghald. Sératkvæði.
Úrskurður héraðsdóms um að X, Y, Z og Þ skyldi gert að víkja úr þinghaldi þegar brotaþoli gefur skýrslu, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 12. og 13. janúar 2010, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. janúar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. janúar 2010, þar sem varnaraðilum var gert að víkja úr þinghaldi þegar brotaþoli gefur skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fram er komið að varnaraðilum verður gert kleift að fylgjast með skýrslugjöf brotaþola utan þingsalar og koma að spurningum á meðan hún fer fram. Brotaþoli er 19 ára gömul stúlka frá Litháen. Varnaraðilum er, ásamt tveimur öðrum karlmönnum, gefið að sök mansal, samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brotaþoli mun, samkvæmt ákæru, hafa verið svipt frelsi og neydd til að stunda vændi í heimalandi sínu áður en hún var send til Íslands með fölsuð skilríki 9. október 2009. Samkvæmt læknabréfi Andra Jóns Heide 5. janúar 2010 er andlegt ástand stúlkunnar slæmt. Þegar framanritað er haft í huga verður ekki vefengt það mat héraðsdómara að skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 eigi við um brotaþola. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur dómari samkvæmt kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærði verði látinn víkja úr þinghaldi meðan vitni gefur skýrslu fyrir dómi ef dómari telur nærveru ákærða geta orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Við skýringu þessa ákvæðis verður að taka tillit til þess að ákærður maður nýtur þess grundvallarréttar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar að mál hans hljóti réttláta meðferð fyrir dómi. Í því felst meðal annars að honum verður að meginreglu að gefast kostur á að vera staddur við þinghöld í máli sínu, þar á meðal til að hlýða á og taka afstöðu til sönnunarfærslu, láta leggja spurningar fyrir þá sem gefa skýrslu fyrir dómi og taka þannig þátt í málsvörn sinni. Verður í þessum efnum einnig að líta til ákvæða 1. mgr. og d. liðar 3. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
Varnaraðilum er í málinu gefið að sök að hafa átt að taka á móti vitninu við komu hennar til Íslands 9. október 2009 en það hafi ekki tekist þar sem lögregla hafi þá handtekið vitnið. Þeir hafi síðan sótt hana skammt frá dvalarstað hennar, sem hafi verið í húsnæði á vegum félagsmálayfirvalda, og hýst hana í tilgreindu húsi í tvo daga. Einn varnaraðila hafi síðan farið með vitnið á hótel í Reykjavík og skilið hana þar eftir. Varnaraðilar eru ekki sakaðir um að hafa beitt vitnið líkamlegu ofbeldi meðan á þessu stóð. Ljóst er að fyrir dómi verður meðal annars eftir því leitað að vitnið lýsi í skýrslu sinni í einstökum atriðum samskiptum sínum við varnaraðila eftir að vitnið kom til Íslands. Hefur ekki verið sýnt fram á að að nærvera varnaraðila við frásögn vitnisins um þetta geti verið henni til óþæginda. Ekki verður heldur séð með hvaða hætti nærvera varnaraðila ætti að getað truflað framburð vitnisins um lífsskilyrði hennar í Litháen áður en hún kom til Íslands. Skilyrði fyrrgreinds ákvæðis 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 er að nærvera sakbornings geti orðið vitni sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess og þurfa bæði þessi skilyrði að vera uppfyllt til að heimilt sé að verða við kröfu. Fer því að mínum dómi fjarri að sýnt hafi verið fram á að þessum skilyrðum sé fullnægt í málinu.
Að gættu því, sem að framan greinir, tel ég ekki unnt að fallast á að beita megi undantekningarheimild 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 til að víkja varnaraðilum úr þinghaldi á meðan vitnið gefur skýrslu. Tel ég því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi að því er varðar varnaraðilana.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. janúar 2010.
Réttargæslumaður brotaþola, Gunnhildur Pétursdóttir hdl., krafðist þess í dag að ákveðið verði að við aðalmeðferð málsins verði ákærðu gert að víkja úr þinghaldi á meðan brotaþoli gefur skýrslu.
Af hálfu verjanda er þessari kröfu mótmælt.
Krafan er reist á 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um sakamál.
Réttargæslumaður færir þau rök fyrir kröfu sinni að það geti orðið brotaþola þungbært, jafnvel ofviða, að sitja andspænis sex sakborningum, sem ákærðir séu fyrir mansal, og gefa skýrslu. Nærvera sakborninga gæti haft veruleg áhrif á framburð hennar.
Þegar litið er til gagna málsins og til rökstuðnings réttargæslumanns fyrir kröfunni verður fallist á að málið sé þess eðlis að það geti orðið brotaþola þungbært að gefa skýrslu að viðstöddum sakborningum, enda telja íslensk yfirvöld brotaþola stafa ógn af ákærðu. Verður því fallist á, sbr.1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um sakamál, að nærvera ákærðu geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Krafan verður því tekin til greina eins og hún er fram sett.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Ákveðið er að ákærðu víki úr þinghaldi þegar brotaþoli gefur skýrslu.