Hæstiréttur íslands
Mál nr. 63/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
Þriðjudaginn 1. febrúar 2011. |
|
|
Nr. 63/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, skyldi afplána 480 daga eftirstöðvar refsingar, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að X hefði framið brot er varðað gæti allt að sex ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að afplána 480 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að „Hæstiréttur hafni alfarið kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um afplánun reynslulausnar.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fram er kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi, eftir að hann hlaut reynslulausn þá sem í hinum kærða úrskurði greinir, rofið skilorð reynslulausnarinnar með því að fremja brot sem varðað geta sex ára fangelsi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 480 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 23. nóvember 2006, dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 23. febrúar 2007 og dómi Hæstaréttar frá 28. febrúar 2008, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 13. júní 2010.
Af hálfu kærða er þess krafist að kröfunni verði hafnað.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að um kl. 04:30 síðast liðna nótt hafi hún fengið tilkynningu um yfirstandandi innbrot í ljósmyndastofu [...] við [...] í [...]. Á leið á vettvang hafi þær upplýsingar borist að gerendur væru að bera þýfi úr ljósmyndastofunni og út í rauðan [...] fólksbíl. Þegar lögreglan hafi komið inn á [...] hafi hún mætt bifreiðinni [...] sem sé rauð [...]. X hafi verið ökumaður og Y farþegi frammí. Hafi mátt sjá að Y héldi á Imac borðtölvu í fanginu. Y hafi sagt móður sína eiga ljósmyndastofuna og að hún væri stödd erlendis. Hafi Y aðspurð sagst vera með lykla að stofunni. Hún hafi breytt þeim framburði og sagst vita að móðir sín læsti aldrei stofunni. Síðar hafi komið í ljós, við skoðun á vettvangi, að búið hafi verið að spenna upp járnplötu sem hafi verið fyrir glugga á bakhlið hússins. Y hafi einnig verið með tvær fartölvur, einn farsíma og gamla antik myndavél í fanginu í tösku. Hafi hún sagst eiga þessa muni en antik vélinni hafi hún tekið úr ljósmyndastofunni. Hafi hún sagt að móðir sín hefði gefið sér þessar fartölvur fyrir þó nokkru síðan. Aðspurð af hverju hún hafi verið að ferðast með þær á þessum tíma dags hafi hún gefið þær skýringar að hún geymdi þær alltaf út í bíl þar sem hún hafi ekki treyst sér til þess að geyma þær í íbúðinni við [...] þar sem hún búi því það væri allskonar lið sem þar byggi. Y hafi einnig verið með jakkavasa troðinn af peningamynt sem hún hafi sagst hafa tekið úr sjóðsvél stofunnar. Farið hafi verið á ný á vettvang og hann ljósmyndaður. Ekki hafi verið hægt að ná í eiganda eða tengilið og hafi lögreglumenn því ekki komist þar inn. Y virðist hafa rifið jakka sem hún hafi verið í því bútur af honum hafi verið við gluggann þar sem farið hafi verið inn í stofuna. Hafi svo vel viljað til að á þessum efnisbút hafi verið vasi og í honum VISA-kort stílað á A en Y hafi sagt hann vera kærasta sinn. Í innkeyrslu bakatil þar sem Y og X hafi verið á ferðinni hafi einnig fundist bakpoki fullur af skóladóti stílað á B. Ekki hafi, þegar þessi skýrsla sé rituð, náðst að hafa samband við hann.
Þá kemur fram að vitni hafi gefið sig fram og sagst hafa séð þegar [...] bifreið hafi verið lagt í innkeyrslunni bakatil hjá ljósmyndastofunni. Karl og kona hafi verið að eiga við húsið og hafi þau séð þegar maðurinn hafi hjálpað konunni inn. Þegar hún hafi verið komin inn hafi hann farið aftur í bifreiðina og ekið að framhlið hússins. Kona hafi svo farið út úr ljósmyndastofunni og inn í bílinn með eitthvað í fanginu. Þau hafi svo ekið á brott.
Við yfirheyrslu hafi kærði neitað að hafa tekið þátt í þjófnaðinum, hann hafi verið að skutla Y á staðinn og hafi haldið hana vera að sækja muni í sinni eigu. Y hafi játað þátttöku X í þjófnaðinum.
Auk þessa máls hafi lögreglan X grunaðan um fleiri þjófnaðarbrot sem framin hafi verið þegar X hafi verið á reynslulausn:
„[...]
Í málinu er X grunaður um innbrot í [...] að [...] í Hafnarfirði þann 25. janúar sl. og stolið þaðan smámynt. Gerendur náðust á myndavélakerfi staðarins og er það mat lögreglu að þar sé á ferðinni X ásamt öðrum nafngreindum manni. Jafnframt liggur fyrir lýsing vitnis á klæðnaði X skömmu fyrir eða eftir innbrotið sem stemmir við fatnað annars geranda.
[...]
Í málinu er X grunaður um vörslu á 3,26 g af amfetamíni sem fannst í buxnavasa hans við leit lögreglu þann 17. nóvember sl.
[...]
Í málinu er X grunaður um innbrot í bílskúr við [...] í Kópavogi þann 14. nóvember sl., í félagi við annan mann. X var handtekinn á vettvangi.
[...]
Í málinu er X grunaður um líkamsárás þann 9. október við [...] í Reykjavík, með því að hafa kýlt nafngreindan mann hnefahöggi í andlit.
[...]
Í málinu er X grunaður um líkamsárás þann 3. október sl. við [...] í Reykjavík með því að hafa kýlt nafngreinda stúlku hnefahöggi í andlit. Tvö vitni voru að árásinni. Á heimili hans fundust jafnframt 0,33 g af amfetamíni.
[...]
Fyrir tilraun til þjófnaðar við [...] í Reykjavík þann 26. september sl., í félagi við annan mann, með því að reyna spenna upp glugga en horfið á braut er maður varð þeirra var. Fyrir liggur játning samverkamannsins um að X hafi verið með honum umrætt sinn og jafnframt passaði klæðaburður X er hann var handtekinn skömmu síðar við lýsingu vitnis á klæðaburðinum.“
Með ofangreindri háttsemi hafi kærði rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar sinnar, enda liggi fyrir sterkur rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um þjófnaði, fíkniefnabrot og líkamsárásir. Slíkt brot geti varðað allt að sex ára fangelsi.
Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005.
Meðal gagna málsins er bréf frá Fangelsismálastofnun ríkisins dagsett 27. janúar 2011 þar sem staðfest er að kærðu hafi verið veitt reynslulausn hinn 13. júní 2010 þegar afplánaður var helmingur af:
- 510 daga eftirstöðvum samtals 14 mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 23. nóvember 2006, 6 mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 23. febrúar 2007 og 14 mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar uppkveðnum 28. febrúar 2008.
- 15 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 13. október 2009.
Kærði er grunaður um þátttöku í innbroti í Hafnarfirði sl. nótt. Þá er hann grunaður um fíkniefnabrot 17. nóvember sl. Einnig er hann grunaður um tvö önnur innbrot þann 14. nóvember sl. og 25. janúar sl. og einnig um tilraun til innbrots 26. september sl. Þá er hann grunaður um líkamsárásir 3. og 9. október sl.
Þykir með þessu fullnægt skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 40/2005 um að hann hafi á reynslutíma rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar og að fyrir liggi sterkur grunur um að hann hafi framið brot sem varðað geta sex ára fangelsi og brot sem varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt ofanrituðu þykja uppfyllt skilyrði til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærða verði gert að afplána 480 daga eftirstöðvar refsinga sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar um reynslulausn 13. júní 2010.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal afplána 480 daga eftirstöðvar reynslulausnar sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 13. júní 2010.