Hæstiréttur íslands
Mál nr. 221/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 13. júní 2000 |
|
Nr. 221/2000. |
Tracee Lea Róbertsdóttir(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) gegn Andrési Andréssyni (enginn) |
Kærumál. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Talið var að T hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr því fyrir Hæstarétti hvort rétt hafði verið að vísa að hluta frá héraðsdómi máli, sem síðar hafði verið fellt niður vegna útivistar hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði í heild hrundið, en til vara að honum verði breytt á þann veg að ekki verði vísað frá dómi kröfu, sem sóknaraðili gerir um meðlag með barni málsaðilanna fyrir tímabilið frá 1. maí 1999 til 1. janúar 2000. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt héraðsdómsstefnu höfðaði sóknaraðili málið til heimtu skuldar að fjárhæð samtals 1.631.501 króna. Var því lýst þar að krafan væri annars vegar reist á úrskurði sýslumannsins í Hafnarfirði 10. ágúst 1994, þar sem varnaraðila hafi verið gert að greiða tvöfalt meðlag með tveimur börnum aðilanna, en þeirri skipan hafi sýslumaðurinn í Reykjavík breytt með úrskurði 4. október 1999, þannig að frá 1. apríl á því ári hafi varnaraðila borið að greiða einfalt meðlag með öðru barninu. Sóknaraðili hafi á öllu tímabilinu fengið greitt einfalt meðlag með hvoru barni hjá Tryggingastofnun ríkisins og kæmi það til frádráttar kröfu á hendur varnaraðila. Hins vegar væri krafa sóknaraðila studd við úrskurð sýslumannsins í Hafnarfirði 12. ágúst 1994, sem hafi verið staðfestur með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðherra 24. febrúar 1995. Þar hafi varnaraðila verið gert að greiða sóknaraðila 20.000 krónur mánaðarlega í lífeyri á tímabili, sem þau væru skilin að borði og sæng, en þó ekki lengur en í tólf mánuði. Með hinum kærða úrskurði var af ástæðum, sem þar greinir nánar, vísað frá dómi þeim hluta kröfu sóknaraðila, sem átti rætur að rekja til meðlags með börnum aðilanna eftir 1. nóvember 1995.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var sótt þing af hálfu beggja málsaðila. Í þinghaldinu tilkynnti héraðsdómari að málið yrði tekið fyrir á ný mánudaginn 5. júní 2000 kl. 9.30. Samkvæmt gögnum, sem hafa verið lögð fyrir Hæstarétt, varð útivist í þinghaldi þann dag af hálfu sóknaraðila, en engin forföll boðuð. Féll varnaraðili frá kröfu um málskostnað og var málið í kjölfarið fellt niður. Sóknaraðili getur ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr fyrir Hæstarétti hvort rétt hafi verið að vísa að hluta frá héraðsdómi máli, sem nú hefur verið fellt niður. Að því gættu verður að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.