Hæstiréttur íslands

Mál nr. 841/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. desember 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta kærða verði gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. desember nk. kl. 16.00. Þá er þess krafist að gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Af hálfu kærða hefur kröfu lögreglustjórans verið mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað.            

Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar mál er varði stórfelldan innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands frá Hollandi. Upphaf málsins megi rekja til þess að tilkynning hafi borist frá tollvörðum um að það hefði borist póstsending frá Hollandi með FedEx sem innihéldi ætluð fíkniefni. Skráður viðtakandi póstsendingarinnar hafi verið maður að nafni A, [...] í Reykjavík. Í sendingunni hafi verið að finna nokkur ílát sem við rannsókn tæknideildar lögreglu hafi leitt í ljós að innihéldu 4 kg af amfetamíni. Lögreglan hafi skipt efnunum og með heimild héraðsdóms hafi eftirfararbúnaði og hlustunarbúnaði verið komið fyrir í pakkningunni. Hinn 1. desember sl. hafi starfsmaður í útkeyrslu póstsendinga haft samband við A til að tilkynna honum að sendingin væri á leið til hans. A hafi ekki svarað en fljótlega hringt til baka og þá óskað eftir því að sendingunni yrði ekið að [...] í Reykjavík. Upp úr hádegi sama dag hafi A hringt í FedEx og spurst fyrir um pakkann. Honum hafi verið sagt að pakkinn yrði afhentur um kl. 15.00.

Þá er þess getið að A hafi opnað pakkann innandyra og þá séð að í pakkanum var upptökubúnaður frá lögreglu. Hann hafi haft samband við B og spurt hann hvað ætti að gera við þetta, tekið mynd af innihaldi sendingarinnar og sent honum. Við skoðun á símagögnum milli A og B megi sjá skilaboð á milli þeirra þar sem þeir ræði um sendingu sem væntanleg sé með FedEx. A hafi í kjölfarið verið handtekinn og gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 2. desember sl. B hafi einnig verið handtekinn sama dag og gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Í greinargerð aðstoðarsaksóknara segir jafnframt að við rannsókn málsins hafi komið í ljós að B hafi hitt mann að nafni C á veitingastaðnum [...] 1. desember sl., þ.e. sama dag og A var handtekinn. Þar hafi þeir B og C rætt ofangreinda sendingu og fleiri aðila sem mögulega tengist málinu. B hafi greint lögreglu frá því að maður að nafni X, þ.e. kærði, hafi komið að máli við C 1. desember sl. og sagt að fíkniefni væru í pakkanum og að hann þyrfti að komast í samband við A. B hafi síðan hitt C og X á bensínstöð í Hafnarfirði þar sem þeir hafi rætt um pakkann. Þar hafi þeir m.a. rætt um að það væri einhver hjá FedEx sem hefði valið A sem móttakanda pakkans þar sem hann fengi svo margar sendingar. B hafi lýst því að kærði segði starfsmann hjá FedEx vera með í þessu. C og kærði hafi báðir verið handteknir í kjölfarið og gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins. Hinn 10. desember sl. hafi kærði tjáð lögreglu að Z hefði staðið að innflutningi efnanna en samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi Z [...] þar til nokkrum dögum áður en áðurnefnd sending barst hingað til lands. Vegna þessara upplýsinga hafi Z verið handtekinn og honum gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins.

Aðstoðarsaksóknari segir í greinargerð sinni að við rannsókn málsins hafi komið í ljós að Z og kærði hafi ítrekað verið í samskiptum og átt fundi saman að frumkvæði kærða, allt frá því að pakkinn hafi verið keyptur úti í Hollandi og fram að handtöku þeirra. Kærði og Z neiti báðir sök. Kærði segi að Z eigi pakkann og að hann hafi verið að hjálpa honum að nálgast hann með því að kanna með A. Z segi að maður, sem hann vilji ekki nafngreina, eigi pakkann og að kærði eigi engan þátt í þessum innflutningi. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi C sagt að kærði hefði sagt sér að það væri amfetamín í pakkanum. Kærði hafi hins vegar ekki kannast við þennan framburð C en við skýrslutöku í gær hafi kærði sagt að hann hefði vitað um magn og tegund efnanna. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi Z borið um að hann hafi upplýst kærða um magn og tegund efnanna 1. desember sl. Það hafi komið honum á óvart að kærði vissi það þá þegar. Ljóst sé því að framburðum kærðu í málinu beri ekki saman. Við skýrslutöku af Z í gær hafi hann sagt að hann vissi hver ætti fíkniefnin en ekki viljað nafngreina þann sem í hlut átti. Z hafi sagt að kærði þekkti eiganda efnanna líka. 

Það er mat lögreglu að ljóst sé að einn eða fleiri menn tengist framangreindum innflutningi. Rannsókn lögreglu miði nú að því að upplýsa hver það sé. Ljóst sé að ef kærði gangi laus geti hann sett sig í samband við ætlaðan samverkamann, sem gangi laus, eða sett sig í samband við aðra kærðu. Lögreglan vinni einnig að því að skoða þau gögn, sem nú þegar hafi verið lagt hald á, og í samstarfi við erlend yfirvöld sé verið að rekja sendingu pakkans hingað til lands. Sæti kærði ekki einangrun í gæsluvarðhaldi gæti hann komið undan gögnum sem hefðu sönnunargildi í málinu en lögregla hafi enn ekki lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins.

Varðandi lagaskilyrði sé það mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í málinu. Kærði sé undir rökstuddum grun um stórfellt fíkniefnalagabrot sem talið sé varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum og geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram. Þá er þess krafist að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða:

Af gögnum málsins verður ráðið kærði er undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magni hættulegra fíkniefna hingað til lands og þar með að hafa gerst brotlegur við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Slíkt brot getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldsvist frá 9. desember sl. Eins og fram kemur í greinargerð lögreglustjóra hafa m.a. aðrir kærðu borið um aðkomu kærða að málinu. Þá hefur Z borið um að kærði viti hver eigandi fíkniefnanna er. Rannsókn lögreglu miðar nú að því að hafa upp á eiganda fíkniefnanna, skoða þau gögn, sem lagt hefur verið hald á í tengslum við hana, og rekja sendingu pakkans, sem innihélt fíkniefnin, hingað til lands. 

Af því sem fram hefur komið verður að fallast á það með lögreglustjóra að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan frekari rannsókn fer fram. Enn á eftir að rannsaka gögn, rekja sendingu fíkniefnanna og hafa upp á eiganda þeirra. Ætla má að kærði muni reyna að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fullnægt og verður því fallist á kröfu lög­reglu­stjórans um að kærði sæti gæsluvarðhaldi.

Þá hefur sækjandi fært að því fullnægjandi rök að uppfyllt séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr., laga nr. 88/2008 og verður því fallist á kröfu hans um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Að öllu framangreindu virtu verða kröfur lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu teknar til greina eins og í úrskurðarorði greinir.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. desember nk. kl. 16.00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.