Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-280

Samskip hf. (Geir Gestsson lögmaður)
gegn
A1988 hf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Aðfarargerð
  • Nauðasamningur
  • Vextir
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 3. desember 2020 leita Samskip hf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 20. nóvember sama ár í málinu nr. 602/2020: Samskip hf. gegn A1988 hf., á grundvelli 5. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Í málinu krefst leyfisbeiðandi þess að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 7. apríl 2020 um að stöðva aðfarargerð í máli nr. 2020-010199, þar sem leyfisbeiðandi krafðist fjárnáms hjá gagnaðila fyrir vaxtakröfu að fjárhæð 28.219.842 krónur samkvæmt dómi Landsréttar 20. desember 2019 í máli nr. 934/2018, yrði ógilt og gerðinni fram haldið.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðandi eigi rétt til fullnustu vaxta af fjárkröfu sinni á hendur gagnaðila sem nauðasamningur forvera hans, er staðfestur var 28. ágúst 2019, tók til og var efnd í kjölfar fyrrgreinds dóms Landsréttar með framsali á hlutabréfum í Eimskipafélagi Íslands hf. 19. febrúar 2020. Vaxtakrafa leyfisbeiðanda er tvíþætt. Annars vegar er krafan um vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. október 2009 til 12. október 2011 og hins vegar um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Miðar upphafstími vaxtakröfunnar við gjalddaga samningskrafna samkvæmt 2. gr. fyrrgreinds nauðasamnings en upphafstími dráttarvaxtakröfu við málshöfðun í héraði um réttmæti þeirrar kröfu leyfisbeiðanda sem endanlega var leyst úr með dómi Landsréttar. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu. Í forsendum úrskurðar Landsréttar er rakið að samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. beri samningskröfur, sbr. 29. gr. sömu laga, ekki vexti eftir að nauðasamningur kemst á nema þar sé kveðið á um það, en dráttarvextir falli á þær eftir almennum reglum verði vanefndir á samningnum. Þá breyti ágreiningur um réttmæti kröfu því ekki að hún verði talin samningskrafa eins og endanlega sé úr henni leyst. Landsréttur vísaði til dómaframkvæmdar um að nauðasamningur breyti ekki efni kröfu sem hún taki til heldur efndaaðferðinni og áhrifum hennar, sbr. síðari málslið 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 og að við efndir kröfu, eftir atvikum við fullnustu dóms við aðför, komi til úrlausnar með hvaða hætti og að hve miklu leyti efna beri kröfu samkvæmt ákvæðum nauðasamningsins. Með vísan til þess að nauðasamningurinn kvæði á um að engir vextir yrðu greiddir af kröfum lánardrottna frá þeim degi sem nauðasamningur kæmist á þar til afhending á hlutafénu færi fram féllst Landsréttur ekki á að leyfisbeiðandi ætti kröfu á hendur gagnaðila um greiðslu vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001. Landsréttur hafnaði því enn fremur að leyfisbeiðandi ætti kröfu á hendur gagnaðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga þar sem krafa leyfisbeiðanda, sem hann taldi gagnaðila ekki hafa efnt réttilega samkvæmt nauðasamningnum, hefði verið um afhendingu á hlutafé, en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. sömu laga yrði dráttarvaxta aðeins krafist af peningakröfum. Loks hafnaði Landsréttur því að stofnast hefði sjálfstæð krafa til vaxta og dráttarvaxta sem nauðasamningurinn tæki ekki til og lyti ekki réttaráhrifum hans.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Hann telur að úrskurðurinn sé reistur á málsástæðum sem gagnaðili hafi ekki haldið fram í málinu. Þá geti krafa um greiðslu dráttarvaxta ekki talist samningskrafa og komi ekki til endurskoðunar við aðför. Dómur Landsréttar 20. desember 2019 sé því endanlegur og bindandi um skyldu gagnaðila til greiðslu dráttarvaxta, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Að auki hafi heimild gagnaðila til að greiða fjárkröfuna með hlutabréfum ekki getað náð til vanefndahluta málsins. Leyfisbeiðandi telur málið hafa verulegt almennt gildi að því er varðar túlkun reglna um endanleika dómsúrlausna, heimild sýslumanns til að endurskoða kröfur við aðför, túlkun laga nr. 21/1991 um nauðasamninga og túlkun laga nr. 38/2001 um stofnunartíma vaxtakrafna og greiðslu dráttarvaxta við vanefnd skuldara þegar samið hafi verið um greiðslu með öðru en peningum í nauðasamningi.

Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.