Hæstiréttur íslands
Mál nr. 538/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 13. október 2006. |
|
Nr. 538/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 var felldur úr gildi þar sem dráttur hafði orðið á því að málið væri sent ríkissaksóknara og að tekin væri ákvörðun um ákæru á hendur honum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til 21. nóvember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 15. ágúst 2006 vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefna, fyrst á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 17. ágúst 2006 í máli nr. 447/2006, en frá 29. sama mánaðar á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laganna, sbr. dóm Hæstaréttar 1. september 2006 í máli nr. 480/2006. Í síðargreindum dómi var staðfestur úrskurður héraðsdóms um gæsluvarðhald varnaraðila allt til 10. október 2006. Í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi kom þá fram að rannsókn málsins væri á lokastigi.
Engin ný gögn hafa verið lögð fram um ætlaða aðild varnaraðila að innflutningi fíkniefnanna frá því að Hæstiréttur staðfesti framangreindan úrskurð héraðsdóms. Í rökstuðningi sóknaraðila í héraði fyrir kröfunni um framlengingu gæsluvarðhaldsins kemur fram að rannsókn málsins sé nú lokið. Verið sé að leggja lokahönd á frágang rannsóknargagna auk þess sem unnið sé að gerð greinargerðar sóknaraðila til ríkissaksóknara. Sé miðað við að málið verði sent honum á næstu dögum. Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti kemur ekkert nýtt fram um stöðu málsins.
Ljóst er að rannsókn á máli þessu gekk greiðlega í fyrstu enda var hún talin á lokastigi 29. ágúst 2006, eins og að framan greinir. Engin ný gögn hafa bæst við rannsóknargögn málsins síðan dómur Hæstaréttar gekk 1. september 2006. Eðli málsins samkvæmt hvílir rík skylda á sóknaraðila til að hraða meðferð máls eftir föngum, þegar sá sem rannsókn beinist að sætir gæsluvarðhaldi. Verður að telja að unnt hefði verið að senda málið til ríkissaksóknara og taka ákvörðun um ákæru á þeim tíma sem ákveðinn var með dómi Hæstaréttar 1. september 2006. Ekki hafa komið fram viðhlítandi skýringar á því hvers vegna það gekk ekki eftir. Við svo búið verður ekki fallist á kröfu sóknaraðila um framlengingu á gæsluvarðhaldi varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. nóvember 2006, kl. 16:00.
Í greinargerð rannsóknara kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meintan innflutning á miklu magni af fíkniefnum til landsins. Kærði sé grunaður um aðild að hinu meinta broti, en ætluð aðild hans sé talin varða skipulagningu, milligöngu og fjármögnun ferðarinnar. Vísað er til handtöku tveggja nafngreindra manna á Keflavíkurflugvelli 9. ágúst sl. sem hafi verið með mikið magn fíkniefna meðferðis. Þá er lýst skýrslum þessara manna og eins annars manns sem tengst hafi skipulagningu umrædds innflutnings. Þá kemur fram að kærði hafi játað að hafa vitað að þessi maður væri að skipuleggja innflutning fíkniefna og hafi hann reynt að útvega peninga vegna innflutningsins en ekki tekist. Í greinargerð rannsóknara kemur fram að rannsókn málsins sé lokið. Nú standi lokafrágangur rannsóknargagna yfir og einnig gerð greinargerðar rannsóknara til ríkissaksóknara. Sé miðað við að málið verði sent ríkissaksóknara til viðeigandi meðferðar á næstu dögum. Málið verði í framhaldi af því rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Í greinargerð rannsóknara kemur fram að kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti, en lagt sé til grundvallar að um mikið magn fíkniefna sé ræða sem hafi átt að fara í dreifingu til ótiltekins fjölda manna. Hann hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 15. ágúst sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðar á grundvelli almannahagsmuna sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 1. september sl. í máli nr. 480/2006. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Rannsóknari vísar í þessu sambandi til ýmissa dóma Hæstaréttar varðandi fíkniefnamál og einnig þess að engin ástæða sé til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir. Sé því skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála fullnægt í því máli sem hér um ræðir, sakarefnið geti varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.
Af hálfu kærða er vísað til þess að við fyrirtöku málsins 29. ágúst sl. hafi því verið lýst yfir af hálfu rannsóknara að rannsókn málsins væri á lokastigi en þá hafi verið fallist á gæsluvarðhald kærða til 10. október 2006. Að mati kærða fær frekari framlenging gæsluvarðhalds ekki samræmst þeim kröfum sem gerðar séu til hraða rannsóknarmáls þar sem sakborningar sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Vísar hann í þessu sambandi til nýlegra dóma Hæstaréttar.
Með vísan til dóms Hæstaréttar 1. september sl. í máli nr. 480/2006 verður að leggja til grundvallar að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið. Samkvæmt svörum rannsóknara við spurningum dómara við fyrirtöku málsins hefur rannsókn málsins eftir 29. ágúst sl. einkum beinst að öflun og úrvinnslu síma- og bankaupplýsinga og samræmist sú yfirlýsing rannsóknargögnum málsins. Eins og málið liggur fyrir dómara verður ekki séð að óhæfilegur dráttur hafi orðið á rannsókn þess að svo stöddu. Samkvæmt framangreindu verður krafa rannsóknara tekin til greina eins og hún er fram sett.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. nóvember 2006 kl. 16.00.