Hæstiréttur íslands
Mál nr. 625/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Framlagning skjals
- Vitni
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Miðvikudaginn 5. desember 2007. |
|
Nr. 625/2007. |
Ákæruvaldið(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Framlagning skjala. Vitni. Frávísun frá Hæstarétti að hluta. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
X kærði úrskurð héraðsdóms sem hafnaði kröfu hennar um að krefjast þess að vitnið A læknir svaraði nánar tilgreindri spurningu, að Ó sýslumaður yrði leiddur sem vitni og að X fengi að leggja fram nánar tilgreind skjöl í málinu. Með gagnályktun frá a.-d. liðum 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála varð úrskurður héraðsdóms um synjun á framlagningu gagnanna ekki kærður til Hæstaréttar og varð því að vísa þessum þætti málsins frá Hæstarétti. Spurning sú sem X óskaði eftir að leggja fyrir vitnið A lækni, varðaði ekki atvik málsins sem hann gat borið um af eigin raun. Í ljósi þess að A hafði hvorki verið dómkvaddur sem mats- eða skoðunarmaður í málinu eftir ósk aðila eða eigin frumkvæði, sbr. 63. gr. laga nr. 19/1991, né til hans leitað af lögreglu við sérfræðilega rannsókn þess, sbr. 70. gr. sömu laga, staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins kærða úrskurðar að því er þennan þátt málsins varðaði. Ekki var fallist á með héraðsdómi að sýnilega þarflaust hefði verið að leiða Ó sem vitni í málinu, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991. Vitnaskylda hans yrði að ráðast af því hvort lagt yrði fram opinber skjal frá honum sem nægði til að svara spurningum X, sbr. 52. gr. sömu laga. Var ákvæði hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu X um að Ó yrði leiddur sem vitni í málinu því fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið að þessu leyti til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. nóvember 2007, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að nánar tilgreind spurning yrði lög fyrir vitnið A lækni, að Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi yrði leiddur sem vitni og að varnaraðili fengi að leggja fram nánar tilgreind skjöl í málinu. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og að fallist verði á allar framangreindar kröfur hans. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I.
Samkvæmt gögnum málsins ók varnaraðili bifreið vestur Suðurlandsveg frá Hvolsvelli aðfaranótt sunnudagsins 4. mars 2007. Um klukkan 02.20 missti hún stjórn á bifreiðinni og hafnaði utan vegar við Þingborg. Lögregla kom á vettvang og tók blóðsýni úr varnaraðila. Hún var beðin að undirgangast öndunarpróf í SD-2 mæli og var niðurstaða mælingar 1,3. Varnaraðili neitaði því að hafa ekið ölvuð en kvaðst hafa fengið sopa af einhverjum vökva að drekka frá vegfarendum eftir að hún hafnaði utan vegar. Hún kvaðst ekki vita hvaða vökvi þetta var eða hversu mikið hún drakk af honum. Varnaraðili var handtekin og færð á lögreglustöðina á Selfossi til þess að gefa þvagsýni í þágu rannsóknar. Varnaraðili neitaði hins vegar að veita lögreglu slíkt sýni. Eftir nokkurt þóf var tekin ákvörðun um að taka af henni þvagsýni með valdbeitingu og fór sú aðgerð fram á lögreglustöðinni.
Með ákæru, sem ríkissaksóknari gaf út 26. júní 2007, er varnaraðila gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni Y undir áhrifum áfengis (1,43 í blóði). Þá er varnaraðili sökuð um brot gegn valdstjórninni með því að hafa á lögreglustöðinni á Selfossi viðhaft hótanir í garð þriggja nafngreindra lögreglumanna og tveggja sjúkraflutningsmanna. Loks er hún sökuð um brot gegn valdstjórninni með því að hafa á sömu lögreglustöð veist að nafngreindum lögreglumanni og slegið hann í andlitið og síðar, þegar verið var að taka úr henni þvagsýni, hrækt tvisvar sinnum í andlit hans. Hinn 9. nóvember 2007 fól ríkissaksóknari lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að flytja málið fyrir Héraðsdómi Suðurlands af hálfu ákæruvaldsins.
Varnaraðili neitar sök í málinu.
II.
Við upphaf aðalmeðferðar málsins 12. nóvember 2007 óskaði varnaraðili eftir því að leggja fram gögn til sönnunar á ástandi sínu eftir þvagsýnitökuna og leiða að öðru leyti í ljós heilbrigðisástand sitt, sbr. d. lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991. Með úrskurði sama dag hafnaði héraðsdómur kröfu varnaraðila um að leggja fram fyrrnefnd gögn í málinu. Fyrir Hæstarétti er þess krafist að varnaraðila verði heimilað að leggja fram gögnin.
Þar sem aðalmeðferð málsins var byrjuð fyrir héraðsdómi þegar upp kom deila um framlagningu fyrrnefndra gagna verður niðurstaða úrskurðar héraðsdóms, að því er gögnin varðar, ekki kærð til Hæstaréttar samkvæmt gagnályktun frá 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Verður því að vísa þessari kröfu málsins frá Hæstarétti.
Við aðalmeðferð málsins krafðist varnaraðili að fá að leggja eftirfarandi spurningu fyrir vitnið A lækni: „Telur vitnið að það hafi, með hliðsjón af læknisfræðilegri menntun sinni, nægjanlegt að taka tvö blóðsýni úr ákærðu og því verið óþarft að taka þvagsýni úr ákærðu.“ Héraðsdómarinn meinaði varnaraðila að leggja þessa spurningu fyrir vitnið þar sem það hefði enga þýðingu við sönnun í málinu með vísan til 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991.
Ákvörðun um að þvagsýni yrði tekið hjá varnaraðila var tekin af lögreglu á Selfossi. Vitnið A tók ekki þátt í þeirri ákvörðun. Að beiðni lögreglu sá hann hins vegar um töku þvagsýnisins og hefur hann borið um það fyrir dómi hvernig að því var staðið. Af hálfu sóknaraðila hefur verið bent á að vitnið er ekki sérfræðingur á sviði réttarlyfja- eða réttarlæknisfræðilegra rannsókna. Spurning sú, sem varnaraðili óskar eftir að leggja fyrir A lækni, varðar ekki atvik málsins sem hann getur borið um af eigin raun. Í ljósi þess að A hefur hvorki verið dómkvaddur sem mats- eða skoðunarmaður í málinu eftir ósk aðila eða eigin frumkvæði dómarans, sbr. 63. gr. laga nr. 19/1991, né til hans leitað af lögreglu við sérfræðilega rannsókn þess, sbr. 70. gr. sömu laga, ber að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar um þennan þátt málsins
Í hinum kærða úrskurði var varnaraðila einnig synjað um að leiða Ólaf Helga Kjartansson sýslumann sem vitni. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og honum heimilað að láta hann gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni. Af kæru varnaraðila virðist mega ráða að hún hyggist meðal annars byggja vörn sína um ætluð brot hennar gegn valdstjórninni á því að ákvörðun lögreglu um að ráðast í að taka af henni þvagsýni með valdbeitingu hafi verið ólögleg, enda hafi hún eins og á stóð verið ónauðsynleg í ljósi 1. og 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga 50/1987. Þá hafi hún hvorki verið í samræmi við þær reglur sem um hana gilda né venjubundna framkvæmd. Ennfremur hafi ekki verið rétt staðið að slíkri þvagsýnitöku í ljósi þess hvernig, hvar og af hverjum hún var framkvæmd.
Samkvæmt gögnum málsins óskaði varnaraðili eftir því að leiða Ólaf Helga Kjartansson sýslumann sem vitni við aðalmeðferð málsins til þess að leggja fyrir hann spurningu um hvort hann hefði fyrirskipað verklag það sem viðhaft var við þvagsýnitöku í umrætt sinn og hverjar þær verklagsreglur væru sem lögreglan ynni eftir.
Í ljósi þeirra varna sem varnaraðili hyggst hafa uppi í málinu í héraði verður ekki fallist á að það hafi verið sýnilega þarflaust að afla þessara upplýsinga. Af þeim sökum standa ákvæði 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 ekki í vegi fyrir þessari sönnunarfærslu. Kemur þá til athugunar hvort ákvæði 52. gr. sömu laga komi í veg fyrir að sýslumaður á Selfossi verði kvaddur fyrir dóm. Samkvæmt ákvæðinu er embættis- og sýslunarmönnum óskylt að koma fyrir dóm til þess að vitna um atvik sem gerst hafa í embætti þeirra eða sýslan og leiða má í ljós með vottorði úr embættisbók eða öðru opinberu skjali. Þessi undanþága frá vitnaskyldu nær þó aðeins svo langt, sem vottorðið eða opinbera skjalið nægir til að svara spurningum, en sé brestur á því getur hlutaðeigandi ekki borið þessa reglu fyrir sig til að komast hjá að mæta fyrir dómi sem vitni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. apríl 1948 í máli nr. 3/1948 sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 276.
Meðal gagna, sem verjanda varnaraðila var meinað að leggja fram við aðalmeðferð málsins, er bréf frá sýslumanninum á Selfossi til ríkissaksóknara 9. júlí 2007, skrifað í tilefni af þvagsýnitöku á varnaraðila, þar sem vikið er að því álitaefni sem varnaraðili telur þurfa að upplýsa.
Þegar aðalmeðferð málsins í héraði verður fram haldið ræðst vitnaskylda sýslumanns af því hvort lagt verður fram opinbert skjal frá honum sem nægir til að svara spurningum varnaraðila. Að öðrum kosti ber að kalla hann fyrir dóm sem vitni.
Að þessu athuguðu verður að fella úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar, er lýtur að vitnaskyldu sýslumanns á Selfossi, og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið að þessu leyti til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.
Dómsorð:
Vísað er frá Hæstarétti kröfu varnaraðila, X, um að fá að leggja fram í málinu nánar tilgreind skjöl.
Ákvæði hins kærða úrskurðar, um að hafnað verði kröfu varnaraðila um að leggja tilgreinda spurningu fyrir vitnið A lækni, er staðfest.
Ákvæði hins kærða úrskurðar, um að hafnað verði kröfu varnaraðila um að Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi verði leiddur sem vitni, er fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið að því leyti til löglegrar meðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. nóvember 2007.
Mál þetta var höfðað með ákæruskjali dagsettu 26. júní sl., og hófst aðalmeðferð í því í dag.
I.
Þann 26. október sl. barst dóminum vitnalisti í máli þessi með rafpósti frá saksóknara. Á vitnalistanum eru tilgreind sextán vitni, þar á meðal Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri.
Við aðalmeðferð málsins krafðist verjandi X, Jón Egilsson hdl., að Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður, sem yfirmaður lögreglunnar gæfi skýrslu fyrir dóminum í því skyni að upplýsa um verklagsreglur embættisins, og hvernig hann komi að málinu. Kveður hann sýslumann hafa margítrekað tjáð sig um málið á opinberum vettvangi og haft í frammi ýmsar staðhæfingar eins og segir í símbréfi til dómsins frá verjandanum.
Í 52. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 segir að embættis- og sýslunarmönnum sé óskylt að koma fyrir dóm til þess að vitna um atvik sem gerst hafa í embætti þeirra eða sýslan og leiða megi í ljós með vottorði úr embættisbók eða öðru opinberu skjali. Fyrir liggja í máli þessu lögregluskýrslur þeirra sem að málinu unnu. Eru þær skýrslur opinber gögn sem stafa frá embættinu og þeir lögreglumenn sem þær gerðu eru þeir einu sem geta staðfest þær. Varðar það ákærulið I en þar segir að ákært sé fyrir umferðarlagabrot, „með því að hafa ekið bifreiðinni Y undir áhrifum áfengis (1,43o/oo í blóði) frá Hvolsvelli vestur Suðurlandsveg þar til ákærða missti stjórn á bifreiðinni og hafnaði utan vegar á móts við Þingborg“
Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt fram á að þörf sé á að lögreglustjórinn á Selfossi komi fyrir dóm til að bera vitni um starfsaðferðir lögreglu við rannsókn í ölvunarakstursmálum. Þá hefur komið fram hjá vitnum að lögreglan starfi við rannsókn slíkra mála samkvæmt verklagsreglum sem Ríkislögreglustjóri gefi út. Er því sönnunarfærsla, sem felst í vitnaskýrslu af Ólafi Helga Kjartanssyni sýnilega þarflaus til að upplýsa málið sbr. 4. mgr 128. gr. laga nr. 19/1991. Er því ekki heimilað að hann gefi skýrslu í málinu.
II.
Vitnið A, læknir kom fyrir dóm í málinu en hann hafði tekið þvagsýni úr ákærðu að beiðni lögreglunnar á Selfossi sem fór með rannsókn á meintum ölvunarakstri ákærðu. Krafðist verjandi ákærðu, Jón Egilsson hdl, að vitnið svaraði þeirri spurningu hvort það hafi ekki, með hliðsjón af læknisfræðilegri menntun sinni, talið nægjanlegt að tekin hefðu verið tvö blóðsýni úr ákærðu og óþarft hafi verið að taka þvagsýni.
Vitnið hafði þá þegar áður borið að það hafi verið tilkvatt af lögreglunni til að taka þvagsýni frá ákærðu en að öðru leyti hefði það ekki komið að málinu.
Að mati dómsins fellst í spurningunni krafa um svar um það hvort lögregla hafi gengið of langt við öflunar sönnunargagna í umrætt sinn og það sé ekki á sviði vitnisins að svara slíku eða vera með slíkar yfirlýsingar. Þá er spurningin þarflaus til að upplýsa málið sbr. 4. mgr 128. gr. laga nr. 19/1991. Verjanda málsins er því ekki heimilt að spyrja vitnið A lækni, að því hvort hann telji, með hliðsjón af læknisfræðilegri þekkingu sinni, að nægjanlegt hefði verið að taka tvö blóðsýni úr ákærðu og óþarft hefði verið að taka þvagsýni.
III.
Verjanda X, kt. [...], Jón Egilsson hdl., krefst þess að fá að leggja fram skjöl þar sem fram koma samskipti verjandans og Umboðsmanns alþingis, læknisvottorð vegna ákærðu sem snúa að slysi er hún varð fyrir á árinu 2001, samskipti ákærðu við Lækninga- og sálfræðistofu ehf og Stígamót, samskipti verjandans og Ríkissaksóknara, áverkavottorð, gögn tengd örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins og vottorð Óttars Guðmundssonar geðlæknis.
Í máli þessu hefur ríkissaksóknari gefið út ákæru þar sem ákærða X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík er ákærð fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni Y undir áhrifum áfengis frá Hvolsvelli vestur Suðurlandsveg þar til hún missti stjórn á bifreiðinni og hafnaði utan vegar á móts við Þingborg. Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, á lögreglustöðinni á Selfossi, viðhaft hótanir í garð lögreglumanna og sjúkraflutningsmanna, sem þar voru að sinna skyldustörfum og brot gegn valdstjórninni með því að hafa á sömu lögreglustöð, veist að lögreglumanni og slegið hann í andlitið og hrækt í andlit hans.
Þau gögn sem verjandi ákærðu krefst að leggja fram sem sönnunargögn í máli þessu, snerta ekki þá háttsemi sem ákært er fyrir, eru þarflaus og hafa ekki þýðingu við úrlausn máls þessa. Með vísan til 4. mgr. 128. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er kröfu verjanda X um að leggja ofangreind skjöl fram sem sönnunargögn hafnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfu Jóns Egilssonar hdl., að leggja ofangreinda spurningu fyrir vitnið A, lækni.
Hafnað er að Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður verði leiddur sem vitni í máli þessu.
Hafnað er kröfu Jóns Egilssonar hdl., að leggja fram ofangreind gögn í málinu.