Hæstiréttur íslands

Mál nr. 790/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Óvígð sambúð
  • Opinber skipti


                                     

Föstudaginn 12. desember 2014.

Nr. 790/2014.

A

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

B

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

Kærumál. Dánarbú. Óvígð sambúð. Opinber skipti.

Við opinber skipti á dánarbúi C kom upp ágreiningur milli málsaðila varðandi eignarhlut B, sambýliskonu C, í eignum sem skráðar voru á nafn C. Taldi A, dóttir C, að allar eignir ættu að koma til skipta en B taldi að hún ætti helming eigna á móti dánarbúi C. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, var talið að B hefði sýnt fram á það að með henni og C hefði verið svo rík fjárhagsleg samstaða að líta yrði á allar eignir þeirra sem eina heild í sameign þeirra beggja. Við það mat var einkum horft til þess að eignir þær sem skráðar voru á nafn C við andlát hans mynduðust nánast allar á 36 ára sambúðartíma þeirra en engar eignir voru skráðar á nafn B. Þá var höfð hliðsjón af vætti vitnis um ástæður þess af hverju þau töldu ekki sameiginlega fram til skatts, um stofnun og eignarhlut B í nánar tilgreindu sameignarfélagi og hvernig fé úr félaginu hefði verið ráðstafað. Þá var litið til þess að B ritaði í tvígang undir veðskjöl sem maki, hún tók í eigin nafni lán hjá lífeyrissjóði sínum með veði í fasteign skráða á nafn C og að þau gerðu sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá. Kröfu A var því hafnað og þess í stað viðurkennt að við skipti á dánarbúi C teljist nánar tilgreindar eignir að jöfnu í sameign B og dánarbúsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 14. nóvember 2014, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi málsaðila, sem reis við opinber skipti á dánarbúi C. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við skipti á dánarbúinu komi tveir þriðju hlutar eigna búsins í hennar hlut. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að tilteknar eignir verði taldar sameign hennar og C að jöfnu. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 14. nóvember 2014.

I

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 9. október sl. barst dóminum 8. nóvember 2013 með bréfi skiptastjóra í dánarbúi C síðast til heimilis að [...], [...]. Styðst málsskot þetta við 112. gr. sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Sóknaraðili er A, [...], [...]. Varnaraðili er B, [...], [...].

Dómkröfur

Sóknaraðili krefst þess að eignum dánarbús C verði skipt þannig að í hlut sóknaraðila komi tveir þriðju hlutar en þriðjungur komi í hlut varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess aðallega að við skipti á dánarbúi C verði lagt til grundvallar að eignir hennar og C hafi allar verið í sameign að jöfnu. Til vara er þess krafist að eftirtaldar eignir verði taldar í sameign hennar og C að jöfnu.

a) Bankainnistæða í Arionbanka á reikningum nr:

      a. [...]

      b. [...]

      c. [...]

b) Bifreiðin [...]

c) Innistæða í [...]

d) Málverk og innbú

e) [...]

f) [...], efri hæð

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

II

Atvik máls

      C og varnaraðili hófu sambúð á árinu 1976 og stóð hún óslitið í um 36 ár, allt þar til C lést [...] 2012. Þau áttu ekki börn saman en áður en sambúðin hófst eignaðist C A, sóknaraðila máls þessa og þá átti varnaraðili fyrir einn son, D. Dánarbú C var, með úrskurði dómsins, tekið til opinberra skipta [...] 2013 og Einar Sigurjónsson héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri. Á skiptafundi í dánarbúinu hinn 1. nóvember 2014 kom upp ágreiningur um kröfu sem sóknaraðili gerði í búið en hún krafðist þess að eignum búsins yrði skipt með þeim hætti sem fram kemur í kröfu hennar fyrir dóminum. Sama dag vísaði skiptastjóri ágreiningi þessum til dómsins.

Við upphaf sambúðar C og varnaraðila rak C, í eigin nafni, Saumastofuna [...]. Þá var hann þinglesinn eigandi efri hæðar fasteignarinnar nr. [...] við [...] á [...] auk þess sem einkafirma hans var eigandi fasteignarinnar nr. [...] við [...] á [...] og lóðar nr. [...] við sömu götu. Varnaraðili var við upphaf sambúðarinnar, samkvæmt skattframtali, skráður eigandi fasteignar við [...] í [...].

Á meðan sambúð sóknaraðila og C stóð rak hann saumastofuna áfram sem einkafirma allt til ársins 1988. Á því ári var reksturinn seldur en fasteignum haldið eftir en þó mun hluti fasteignarinnar við [...] á [...], sem saumastofan eignaðist 1980, hafa verið seldur með rekstrinum. Þá mun nokkur lager af vörum hafa verið til og var þeim komið í verð næstu árin á eftir. Rekstrarafkoma saumastofunnar var jákvæð árin 1976 til 1982, árin þar á eftir fram til 1988 ýmist jákvæð eða neikvæð. Á árinu 1984 keypti saumastofan fasteign við [...] í [...] og á árinu 1989 fasteignina [...] á [...]. Á árinu 1985 er fasteignin [...] í [...] keypt og skráð, líkt og aðrar eignir sem keyptar voru á sambúðartímanum, á nafn C. Sá hluti fasteignarinnar við [...] sem ekki var seldur 1988 var seldur á árinu 1996 og andvirði sölunnar nýtt til greiðslu skulda einkafirmans sem eftir það voru óverulegar.

Varnaraðili og C skiluðu hvort sínu skattframtalinu lengstum meðan á sambúðinni stóð. Með skattframtali fyrir árið 1989 óska þau eftir að skattframtöl þeirra fyrir árið 1988 verði sameinuð. Af framtölum sem fyrir liggja í málinu má ráða að þau töldu sameiginlega fram til skatts allt til ársins 1994, að árinu 1991 undanskyldu, og þá í samtals sex ár hafi ósk þeirra um samsköttun á árinu 1988 verið tekin til greina.

Í aprílmánuði árið 2000 stofnuðu C og D sameignarfélagið C sf. og átti C 99.999 krónur af stofnfé félagsins en D eina krónu. Hinn 9. september á árinu 2002 var gerður nýr samningur fyrir C sf. Þá var stofnfé félagsins aukið um helming og eignaðist varnaraðili 99.999 krónur í félaginu en hlutir C og D í krónum talið voru ábreyttir. Eftir þessa breytingu áttu C og varnaraðili því félagið nánast til helminga.

Hinn 9. október 2002 gerðu varnaraðili og C sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá. Í henni er mælt fyrir um að hið langlífara skuli erfa svo mikið af eignum þess skammlífara eins og framast er mögulegt samkvæmt þeim erfðalögum sem í gildi eru á þeim tíma. Þá segir að við andláti hins langlífara skuli skylduerfingjar hins skammlífara erfa 16,66% af eignum hins langlífara. Þá er einnig mælt fyrir um að erfðaskráin verði ekki afturkölluð eða henni breytt án samþykkis beggja aðila.

III

Málsástæður og lagarök

Sóknaraðili byggir á því að það sé meginregla að sambúð ein og sér myndi ekki sameign á milli sambúðarfólks og svo hafi ekki verið í þessu tilfelli þó sambúðartíminn hafi verið langur. Í dómaframkvæmd hafi því verið hafnað að beita reglum hjúskaparlaga með lögjöfnun þannig að skiptareglur hjúskaparlaga gildi um sambúðarfólk. Þvert á móti megi ráða af dómum að reglur fjármunaréttarins gildi um myndun sameignar milli sambúðarfólks í óvígðri sambúð. Þetta leiði til þess að til staðar þurfi að vera samningar milli sambúðarfólks svo unnt sé að slá því föstu að sameign hafi myndast. Af þessu verði ráðið að sá aðili sem heldur því fram að sameign hafi myndast verði að sýna fram á að hann hafi lagt fram fé til eignamyndunar. Í þessu máli sé ekkert sem bendi til þess að varnaraðili hafi lagt fram fjármuni til eignarmyndunar á sambúðartímanum. 

Sóknaraðili styður kröfu sína ennfremur við þá meginreglu að við sambúðarslit skuli hvor aðili fá í sinn hlut þær eignir sem hann átti við upphaf sambúðar. Af skattframtölum C fyrir árin 1975 og 1976 megi ráða að hann átti fasteignina [...] og bifreið og að hann rak á þeim tíma einkafirma sitt, Saumastofuna [...]. Félagið átti þá tvær fasteignir [...] og [...], birgðir, vélar og tæki. Byggir sóknaraðili á því að þessar eignir eða þær sem síðar komu í þeirra stað geti ekki hafa orðið andlag sameignar á sambúðartímanum. 

Sóknaraðili bendir á að allar eignir sem deilt er um í málinu séu skráðar eignir C. Fasteignirnar [...] og [...] hafi frá öndverðu verið þinglýstar eignir hans. Bifreið var skráð á hans nafn og þá hafi bankareikningarnir verið á hans nafni. Varnaraðili byggi á því að hún eigi helming allra þessara eigna en sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni. Sönnun staðhæfingarinnar hljóti að lúta að því að varnaraðili hafi lagt fram fé til öflunar þessara eiga eða að hún hafi orðið sameigandi að eignunum með öðrum hætti. Varnaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á fjárframlög hennar til eignamyndunar og virðist sóknaraðila sem varnaraðili vísi einkum til þess að langur sambúðartími og fjárhagsleg samstaða hafi myndað sameign. Sóknaraðili bendir á að skoða verði hvernig fjárhagsleg samstaða varnaraðila og C var í raun m.a. með því að horfa til skattframtala þeirra. Eignir hafi allan sambúðartímann eingöngu verið skráðar á nafn C. Þau hafi aðeins í þrjú ár af sambúðartímanum talið sameiginlega fram til skatts, sem að mati sóknaraðila bendi eindregið til þess að ekki hafi verið fjárhagsleg samstaða með þeim. Ómögulegt sé að byggja á því eingöngu að löng sambúð hafi hlotið að leiða til fjárhagslegrar samstöðu, einkum þegar litið er til þess hvernig sú samstaða horfi við í opinberum skrám.

Sóknaraðili segir varnaraðila byggja á því að hún hafi með C unnið að uppbyggingu Saumastofunnar [...] og virðist sem hún telji að með því hafi myndast sameign. Sóknaraðili hafnar þessum sjónarmiðum og bendir á að óumdeilt sé að varnaraðili hafi þegið laun fyrir vinnu sína hjá saumastofunni. Fær sóknaraðili ekki séð hvernig launuð vinna hjá fyrirtækinu geti leitt til þess að sameign hafi myndast um eignir þess. Þá verði að horfa til þess að það eru eignir C sem eru til skipta en ekki eignir sem varða rekstur fyrirtækisins. C hafi alla tíð verið skráður einkaeigandi Saumastofunnar [...] en það félag hafi ekki átt neinar eignir við andlát C og því þurfi í raun ekki að fjalla um eignarmyndun hjá því félagi en sóknaraðili ítrekar að hlutdeild í eignum fyrirtækisins hafi ekki myndast með launaðri vinnu hjá því. 

Af hálfu sóknaraðila er á það bent að í skiptagerð sé fjallað um sameignarfélagið C sf. og af stofnun þess dregin sú ályktun að fjárhagsleg samstaða C og varnaraðila hafi verið mikil. Í skiptagerðinni komi ranglega fram að félagið hafi verið stofnað árið 2002 en hið rétta sé að það hafi verið stofnað árið 2000 af C sem þá hafi verið eini eigandi þess. Varnaraðili og sonur hennar hafi komið inn í félagið árið 2002. Stofnun félags um rekstur tveggja fasteigna sýni hins vegar ekki fram á að um fjárhagslega samstöðu hafi verið að ræða um þær eignir sem koma eiga til skipta. Fasteignirnar tvær sem félagið var stofnað um hafi verið seldar á árunum 2004 og 2005. Um þessar eignir hafi eðli máls samkvæmt myndast sameign en aðrar ekki. Báðar fasteignirnar sem koma til skipta hafi verið til þegar sameignarfélagið var stofnað, en þær hafi ekki verið settar inn í félagið þannig að um þær myndaðist ekki sameign við stofnun félagsins. Skiptastjóri fjalli einnig nokkuð um að C hafi tekið fé út úr sameignarfélaginu til eigin nota og af því dregin sú ályktun að sameign hafi myndast. Sóknaraðili heldur því fram að enginn sé til frásagnar um það til hvers féð var notað en hafi C tekið út fé umfram eignarhlut sinn, þá verði til krafa á dánarbúið, en sameign myndist ekki á þeim eignum sem koma til skipta og voru aldrei hluti af eignum sameignarfélagsins.

Varnaraðili byggir kröfu sína á því að Hæstiréttur Íslands hafi á undanförnum árum ítrekað fjallað um fjárskipti við sambúðarslit. Lengst af hafi verið við það miðað, ef sambúð hafið staðið í nokkra hríð, að þá ættu báðir aðilar rétt á hlutdeild í þeirri eignamyndun sem orðið hefði á sambúðartíma, en líta mætti svo á að þau vermæti tilheyrði hvorum um sig sem hann eða hún hefði komið með í sambúðina. Þessar reglur hafi þótt sanngjarnar þar sem karlmenn voru oft skráðir fyrir öllum eignum og unnu fyrir stærstum hluta tekna heimilisins en sambýliskonur voru gjarnan heimavinnandi og ekki skráðar fyrir eignum. Varnaraðili telur að leggja verði þessa reglu til grundvallar en við hana hafi verið miðað á þeim tíma sem varnaraðili og C byggðu upp eignir sínar.

Hin síðari ár hafi Hæstiréttur Íslands í auknum mæli miðað við skráningu eigna við fjarskipti sambúðarfólks. Sú breyting skýrist af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Nú sé ekki óalgengt að einstaklingar búi saman um nokkurra ára skeið en eigi þó áfram hvor sínar eignir og greiði af þeim eins og efni hvors um sig leyfa. Nú sé afar óalgengt að sambúðarfólk skrái allar eignir á karlmanninn líkt og áður tíðkaðist. Varnaraðili telur dómvenju hafa skapast í þá veru að opinber skráning eigna verði almennt lögð til grundvallar eignarráðum nema sá sem heldur öðru fram leiði slíkt í ljós. Við úrlausn á ágreiningi um skiptingu eigna milli sambúðarfólks um það hvort miðað skuli við helmingaskipti eða önnum hlutföll sé einkum litið til lengdar sambúðar, fjárframlaga hvors aðila til kaupa á eignum og eftir atvikum framlaga sem felast í vinnu á heimili. Þegar fjárframlög hafa komið frá báðum aðilum hafi almennt verið litið svo á að sameign hafi myndast sem skiptist hlutfallslega án tillits til skráðra eignarheimilda. Jafnvel þegar engu er til að dreifa um framlög til eignarmyndunar hafi Hæstiréttur hengst til þess að viðurkenna óskráða eignarhluta í fasteignum þegar sambúð hefur staðið lengi og vísar dæmaskyni til dóms réttarins í máli nr. 704/2012.

Varnaraðili heldur því fram að alger fjárhagsleg samstaða hafi verið með henni og C líkt og þau hafi litið á allar eignir sínar sem sameignir. Afkoma þeirra hafi byggst á því fyrirtæki sem þau ráku saman. Þau hafi talið fram til skatts saman eða sitt í hvoru lagi eftir ráðleggingum endurskoðanda. Í því sambandi hafi skipt máli, einkum eftir að rekstri saumastofunnar [...] var hætt, að horft hafi verið til þess að reyna að hámarka litlar lífeyristekjur C og þess að skerða ekki lífeyristekjur varnaraðila. Þau hafi bæði reiknað sér endurgjald eigenda úr rekstrinum en þar sem félagið var skráð á C hafi varnaraðili að meginstefnu talið fram laun þó svo hún hafi ekki haft hefðbundna stöðu launþega í fyrirtækinu. Hún hafi þvert á móti sinnt hlutverki eiganda.

Varnaraðili vísar til þess að hún og C hafi í október 2002 gert sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá. Sú skrá tiltaki ekki hvaða eignir tilheyri þeim en hún sýni hins vegar hvernig þau litu á eignir sínar sem eina heild sem skipta skyldi fyrst á milli þess langlífara og skylduerfingja hins skammlífara en síðan á milli barna beggja. Ef skráning eigna væri lögð til grundvallar myndi erfðaskráin fela í sér ólíka niðurstöðu um endanlega skiptingu eignanna milli erfingja þeirra eftir því hvort þeirra félli fyrr frá. Varnaraðili heldur því fram að ef til hefði staðið að þau héldu hvort um sig þeim eignum sem á þau voru skráðar hefði verið út í hött að hafa erfðaskrána sameiginlega og gagnkvæma þar sem allar eigur þeirra hafi verið skráðar á C. Því hefði dugað að hann einn gerði erfðaskrá. Erfðaskráin beri með að þau litu á eignir sínar sem sameiginlegar og að með þeim hafi verið fjárhagsleg samstaða. Með skránni hafi þau gengið svo langt að gengið var út frá því að sóknaraðili myndi erfa varnaraðila, að henni genginni, þó á milli þeirra séu engin tengls. Með sama hætti hefði sonur varnaraðila erft C. Af þessu megi ráða að erfðaskránni var ætlað að tryggja að arfsskipti milli barna C og varnaraðila yrðu að lokum jöfn, burtséð frá því hvort þeirra yrði langlífara. Að mati varnaraðila felur skilningur sóknaraðila á erfðaskránni í sér lotterí um endanleg arfsskipti milli barnanna, þar sem úrslitum ráði hvort yrði langlífara, C eða varnaraðili.

Varnaraðili styður kröfur sínar ennfremur með því að eftir að rekstri saumastofunnar var hætt hafi fasteignir sem til urðu í rekstri hennar verið lagðar inn í sameignarfélag. Vart verði lengra gengið í að lýsa þeim sameiginlega skilningi að afraksturinn af rekstri stofunnar tilheyrði þeim sameiginlega. Frá þeim tíma hafi þau umgengist allar eigur sínar þ.m.t. bankareikninga þannig að enginn greinarmunur var gerður á hvað tilheyrði hverju. Þá bendir varnaraðili á að nærtækast sé að líta á úttektir C af reikningum sameignarfélagsins þannig að þær hafi verið í hans þágu og varnaraðila sameiginlega. Hafi þau ekki verið með sameiginlegan fjárhag liggi fyrir að C hafi tekið verulegt fé úr sameignarfélaginu til eigin þarfa, sem dánarbú hans skuldi þá sameignarfélaginu. Af gögnum málsins verði ráðið að andvirði eigna sameignarfélags varnaraðila og C var ráðstafað á persónulegan reikning C. Þaðan voru fjármunir síðan færðir í töluverðum mæli á reikning sameignarfélagsins en þaðan hafi C m.a. tekið út fé og greitt fyrir rekstur eigna sem skráðar voru á hann. Engin tilraun hafi verið gerð til að halda utan um fjárskipti C og sameignarfélagsins eða þess gætt að ekki hallaði á annan aðilann í þeim skiptum.

                Varnaraðili vísar jafnframt til skattframtala C fyrir tekjuárin 1987 til 1994 en þau beri með sér að á þeim tíma komu nær allar tekjur heimilisins frá varnaraðila og þær hafi staðið undir rekstri þess og afborgunum veðlána en C hafi t.d. engar tekjur haft árin 1988, 1989 og 1994.

                Varnaraðili heldur því fram máli sínu til stuðnings að allar eignir sem skráðar voru á C hafi orðið til eftir að hann og varnaraðili hófu sambúð sína og vísar í því efni í skattframtal C fyrir árið 1976. Af því verði ráðið að hann átti engin verðmæti í saumastofunni [...] á þeim tíma og heldur ekki í fasteigninni nr. [...] við [...] á [...]. Því hafi öll eignamyndun orðið á sambúðartímanum. 

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að á milli hennar og C hafi ávallt verið vissa fyrir því að eignir þeirra væru allar í sameign. Það komi berlega í ljós við skoðun á því hvernig fjármunir voru, án fyrirvara, fluttir á milli reikninga sem tilheyrðu C og reikninga sem tilheyrðu sameignarfélagi þeirra án þess að reynt hafi verið að halda utan um þær færslur. Þá telur varnaraðili að C hefði í raun beitt hana blekkingum ef skilja beri nefnda erfðaskrá þeirra þannig að eignir þeirra væru ekki í sameign en hann sjálfur talið allar eigur þeirra tilheyra honum einum. Sú háttsemi hans að leggja án heimildar töluvert fé sem fékkst fyrir eignir sameignarfélagsins inn á eigin reikning hefði þá verið refsiverð. Þetta telur varnaraðili sýna að það sé fjarstæðukennt að stilla fjárreiðum þeirra þannig upp að eigur þeirra hafi ekki verið í sameign.

                Varnaraðili bendir á að C hafi fengið hana til að rita undir skuldabréf með veði í [...] sem þinglýstan eiganda. Þá hafi hann fengið hana til að rita undir skuldabréf með veði í [...] sem þinglýstan eiganda og/eða maka. Krafa um slíka undirritun komi fram í 60. gr. hjúskaparlaga sem takmarkar rétt annars hjóna til veðsetningar á samþykkis hins. Þá hafi C skilað skattframtali þar sem gerð var gein fyrir greiðslum til varnaraðila úr skráðu einkafirma hans sem úttekt eiganda. Varnaraðili segir vandséð hvernig betur geti legið fyrir sá gagnkvæmi skilningur hans og varnaraðila að eignir sínar ættu þau saman. Varnaraðili heldur því fram að C hafi ekki eingöngu sýnt henni að hann teldi eignir þeirra vera í sameign heldur út á við einnig. Nefnir hún í því sambandi áðurnefnd skattframtöl og bréf til skattstjóra þar sem fram kemur að greiðslur til hennar úr einkafirma hans eru færðar sem greiðslur til eiganda. Erfðaskráin sem áður er getið þar sem varnaraðila er ætlaður arfur eftir C og syni hennar ætlaður arfur eftir C yrði C langlífari en varnaraðili og loks ritun varnaraðila á skuldabréfin sem áður er getið. Allt þetta sýni að C hafi út á við gefið til kynna að eignir þeirra væru sameign.

                Varnaraðili heldur því einnig fram að hún hafi lagt fram fé til öflunar og reksturs þeirra eigna sem til voru í búinu. Í fyrsta lagi hafi allar tekjur C og varnaraðila, fram til ársins 1990 orðið til í sameiginlegum rekstri þeirra á saumastofunni [...]. Í öðru lagi liggi fyrir af reikningsyfirlitum að sameiginlegum fjármunum þeirra var ráðstafað í mjög verulegum mæli, bæði til greiðslu veðlána af umræddum eignum og til reksturs þeirra. Þá sé augljóst af reikningsyfirlitum C og skattframtölum fyrir árin 1988 til 1995 að hann hafði engar tekjur á þeim árum til að standa undir rekstri eða afborgunum.

                Varðandi varakröfu sína vísar varnaraðili til þess að innistæður á bankareikningum á nafni C bera þess glöggt merki að þær eru allar til komnar við sölu á eignum sameignarfélags C og varnaraðila. Bifreiðin [...] hafi verið heimilisbifreið þeirra, rekin og greidd af sameiginlegu fé þeirra. Málverk og innbú hafi orðið til á sambúðartímanum og greitt af sameiginlegum tekjum þeirra. Fasteignin [...] hafi ekki aðeins verið rekin fyrir fé sem sannanlega tilheyrir varnaraðila og C sameiginlega heldur hafi sameiginlegt fé þeirra einnig verið notað til greiðslu veðlána og þannig notað til öflunar eignarinnar. Fasteignin [...] hafi verið sameiginlegt heimili þeirra í 40 ár. Öll eignarmyndun í eigninni sé til komin á sambúðartímanum. C hafi fengið varnaraðila til að undirrita áðurnefnt veðskjal sem þinglesinn eiganda. Nærtækt væri að velta því fyrir sér hvernig litið yrði á eignina ef hún hefði verið eina eignin í sambúðarslitamáli.

                Krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila er reist á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga um skipi á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.

IV

Niðurstaða

                Eins og áður er fram komið er mál þetta ágreiningsmál vegna skipta á dánarbúi C. Sóknaraðili er dóttir C en varnaraðili sambýliskona hans.

                Dánarbú C var tekið til opinberra skipta með úrskurði dómsins [...] 2013. Við skipti á dánarbúinu kom upp ágreiningur milli aðila máls þessa varðandi eignarhlut varnaraðila í eignum sem skráðar voru á nafn C. Taldi sóknaraðili að allar eignir sem skráðar voru á nafn C ættu að koma til skipta en varnaraðili taldi að hún ætti helming þeirra en helmingur tilheyrði dánarbúi C heitins. Skiptastjóri lagði til grundvallar að varnaraðili ætti helming eignanna en hinn helmingurinn kæmi til skipta. Sóknaraðili sætti sig ekki við niðurstöðu skiptastjóra og krefst þess að í hennar hlut komi tveir þriðju hlutar allra eigna sem skráðar eru á nafn C en þriðjungur komi í hlut varnaraðila.

      Samkvæmt framangreindu deila aðilar málsins um það hvort varnaraðili eigi helming þeirra eigna sem taldar eru upp í varakröfu varnaraðila og tillit tekið til þess við skipti á dánarbúi C heitins. Aðilar eru sammála um að eignum þeim sem tilheyra dánarbúinu skuli skipt milli þeirra þannig að í hlut sóknaraðila komi tveir þriðju hlutar en þriðjungur í hlut varnaraðila. Verður því við það miðað við úrlausn málsins að skilja beri kröfu sóknaraðila þannig að allar eignir sem skráðar voru á nafn C við andlát hans tilheyri dánarbúinu enda málið reifað og flutt þannig fyrir dóminum.

Leysa verður úr ágreiningi máls þessa eftir þeim óskráðu reglum sem gilda um slit sambúðar, þó svo um eiginleg sambúðarslit sé ekki að ræða. Hæstiréttur Íslands hefur á undaförnum árum ítrekað sagt að á grundvelli dómvenju hafi skapast sú regla að við slit sambúðar beri að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og sú meginregla gildi þá að hvor aðili taki sínar eignir og beri ábyrgð á sínum skuldum. Opinber skráning eigna og þinglýstar eignarheimildir verði lagðar til grundvallar um eignarráðin nema sá, er geri tilkall til eignaréttar, sem ekki fær samrýmst opinberri skráningu, leiði annað í ljós. Í samræmi við þetta hvílir á varnaraðila sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi innt af hendi bein og óbein framlög til eignamyndunar á sambúðartímanum og er sönnun í þeim efnum forsenda þess að fallist verði á kröfu hennar um að skipta beri þeim eignum sem skráðar voru á nafn C heitins við andlát hans til jafns milli hennar og dánarbús hans.

                Fyrir dóminum liggur skattframtal C heitins fyrir tekjuárið 1975 og af því má sjá að í lok þess árs var eignastaða C neikvæð. Ári síðar hefur orðið breyting á eignastöðu C og hún orðin jákvæð og má af skattframtali hans fyrir tekjuárið 1976 ráða að breytingin skýrist einkum af verulegri hækkun á fasteignamati [...]. Skattframtal varnaraðila fyrir tekjuárið 1976 sýnir jákvæða eignastöðu hennar en ári síðar hefur hún afsalað sér fasteign sinni í [...] og er eignastaða hennar samkvæmt því framtali orðin neikvæð. Samkvæmt þessu urðu allar þær eignir sem um er deilt í máli þessu til á þeim tíma sem C heitinn og varnaraðili voru í sambúð. Raunar má af skattframtölum C, sem rak um árabil í eigin nafni Saumastofuna [...], ráða að mjög misjafn gangur var á rekstri saumastofunnar. Stundum gekk reksturinn allvel en önnur ár illa en frá þeim rekstri hafði C nánast allar sínar tekjur á árunum frá því að hann og varnaraðili hófu sambúð allt til og með árinu 2000 þegar sameignarfélagið C sf. var stofnað. Á sama tímabili hafði varnaraðili tekjur frá Saumastofunni [...]en frá og með árinu 1991 fékk hún greiðslur úr lífeyrissjóði sínum og frá Tryggingastofnun ríkisins. Einnig hafði hún um fimm ára skeið tekjur frá [...] ehf. Af yfirliti unnu og staðfestu fyrir dóminum af vitninu E löggiltum endurskoðanda má ráða að á sambúðartímanum voru tekjur C samtals rúmlega 66 milljónir króna en tekjur varnaraðila rúmlega 41.000 milljón króna á verðlagi hvers árs.

                Vitnið E greindi frá því að hann hefði aðstoðað C heitinn við stofnun sameignarfélags á árinu 2000 og að tilgangurinn með stofnun þess hafi einkum verið sá að koma í veg fyrir að tekjur hans af rekstri fasteigna og síðar söluhagnaður skertu bætur til hans frá Tryggingastofnun ríkisins. C hafi verið kunnugt um að úttekt eiganda úr sameignarfélagi hafi verið heimil án sérstakra skattgreiðslna og slík úttekt hefði ekki áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun. Að sögn vitnisins töldu varnaraðili og C ekki saman fram til skatts til að koma í veg fyrir skerðingu á lífeyrisgreiðslum til varnaraðila. Þá bar vitnið einnig að við stofnun sameignarfélagsins hafi verið talið að varnaraðili gæti ekki verið sameigandi í félaginu vegna þess að hjón megi ekki eiga saman sameignarfélag. Síðar, á árinu 2002, hafi þetta verið leiðrétt með þeim hætti að varnaraðili kom inní félagið og eignaðist 49,99% hlut í því enda ekkert sem hamlaði því að sambúðarfólk ætti saman slíkt félag. Þá kom fram hjá vitninu að C hafi ekki gert einn greinarmun á eignum sínum og eignum varnaraðila heldur hafi hann litið á eignirnar sem sameiginlegar. Því hafi ekki verið lögð nein áhersla á á hvaða nafni bankareikningar voru heldur hafi C einfaldlega meðhöndlað það sjálfur og kvaðst vitnið ekki visst um að C hafi gert greinamun á því hvort reikningar voru í hans nafni eða sameignarfélagsins. Reikningarnir hafi einfaldlega verið til daglegra nota.

Í ársreikningi C sf. fyrir árið kemur fram að félagið hafi verið stofnað í apríl 2000. Það hafi keypt fasteignir og yfirtekið einkarekstur C frá og með 1. maí 2000. Fasteignirnar sem þannig komust í eigu sameignarfélagsins voru, nr. [...] við [...] á [...] og nr. [...] við [...] í [...]. Hins vegar verður ekki ráðið að sameignarfélagið hafi greitt nokkuð fyrir fasteignirnar eða reksturinn. Er það í samræmi við framburð vitnisins E sem bar að eignir hafi einfaldlega verið fluttar í sameignarfélagið á bókfærðu verði. Hinn 9. september 2002 gengur varnaraðili inn í sameignarfélagið um leið og stofnfé þess er aukið um helming. Er hún þar með, án nokkurs fyrirvara frá eigendum sem fyrir voru í félaginu og án þess að séð verði að hafi af þessu tilefni innt af hendi greiðslur til C orðin eigandi nánast helmings hlutar í sameignarfélaginu. Síðar, eftir að varnaraðili eignaðist sinn hlut í sameignarfélaginu, voru þessar eignir seldar og má sjá af reikningsyfirlitum að andvirði þeirra, án skýringa, var lagt inn á bankareikning í nafni C en ekki reikning sameignarfélagsins.

                Bankareikningar í nafni C heitins og sameignarfélagsins bera með sér að fé var ráðstafað þar á milli án þess að greina megi að nokkru skipti hvort um var að reiða fé C eða sameignarfélagsins eða hvort verið var að greiða reikninga sem tilheyrðu sameignarfélaginu eða C persónulega. Þannig var fé sem fékkst fyrir fasteignir sameignarfélagsins lagt inn á persónulega reikning C en ekki sameignarfélagsins. Þá var fjármunum af bankareikningi sameignarfélagsins m.a. ráðstafað til að greiða afborganir lána sem hvíldu á [...] í [...] og ýmis önnur gjöld sem tilheyrðu þeirri fasteign svo og gjöld vegna [...] en þessar fasteignir voru ekki skráðar eignir sameignarfélagsins. Þá var fé ráðstafað af reikningi sameignarfélagsins til að greiða af bílaláni vegna bifreiðar sem C keypti, til greiðslu fyrir hita, rafmagn, úttekta með kreditkorti o.fl.

                Varnaraðili og C heitinn gerðu í október 2002 sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá. Fallast má á með varnaraðila að aðkoma hennar að slíkri erfðaskrá hafi verið ónauðsynleg hafi C átt allar eignirnar sem skráðar voru á hann en hún eignalaus með öllu. Þá benda fyrirmæli erfðaskrárinnar um að við andlát hins langlífara skuli skylduerfingjum hins skammlífara erfa hið langlífara, til þess að þau hafi með gerð erfðaskrárinnar viljað gera stöðu sína sambærilega við það að þau hefðu verið í hjúskap.

                Þegar horft er til gagna málsins í heild og þess sem að framan er rakið um lengd sambúðar C og varnaraðila, vættis vitnisins E í hvaða tilgangi þau töldu ekki sameiginlega fram til skatts, stofnunar og eignarhlutar varnaraðila sameignarfélaginu C sf., en inn í það félag voru settar án nokkurs fyrirvara af hálfu C tvær áðurnefndar fasteignir og nefndrar ráðstöfunar á fé félagsins, gerðar og efnis erfðaskrárinnar, þess að varnaraðili ritaði a.m.k. í tvígang undir veðskjöl sem maki, til þess að hún tók í eigin nafni lán hjá lífeyrissjóði sínum með veði í [...], er það mat dómsins að varnaraðila hafi tekist að sýna fram á að með henni og C heitnum hafi verið svo rík fjárhagsleg samstaða að líta verði á allar eigur þeirra sem eina heild í sameign þeirra beggja. Í þessu efni verður ekki framhjá því horft að eignir þær sem skráðar voru á nafn C við andlát hans mynduðust nánast allar á 36 ára sambúðartíma hans og varnaraðila en ekki verður séð að varnaraðili sé skráð fyrir neinum eignum. Eru því ekki efni til að taka afstöðu til eignarhluta varnaraðila í einstöku eignum, en þær eru taldar upp í varakröfu varnaraðila, heldur ber að líta á eignir varnaraðila og dánarbús C sem eina heild. Samkvæmt þessu er kröfu sóknaraðila hafnað og krafa varnaraðila um helmings hlutdeild í eignum skráðum á nafn C heitins tekin til greina með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði.

                Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

                Af hálfu sóknaraðila flutti málið Árni Pálsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu varnaraðila Haukur Guðmundsson héraðsdómslögmaður.

                Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991 sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Úrskurðarorð:

                Kröfu sóknaraðila, A, þess efnis að eignum dánarbús C verði skipt þannig að í hennar hlut komi 2/3 hlutar skráðra eigna dánarbúsins en 1/3 hluti komi í hlut varnaraðila, er hafnað.

Viðurkennt er að við skipti á dánarbúi C teljist eftirtaldar eignir að jöfnu í sameign varnaraðila, B, og dánarbús C: Innistæður í Arionbanka á reikningum nr: [...],[...] og [...], bifreiðin [...], innistæða í [...], málverk og innbú, fasteignin [...],[...] fastanúmer [...] og fasteignin [...], efri hæð, [...], fastanúmer [...].

Málskostnaður fellur niður.