Hæstiréttur íslands

Mál nr. 217/1999


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Réttargæslumaður


___

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 7. október 1999.

Nr. 217/1999.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Ingimundi Loftssyni

(Andri Árnason hrl.)

Kynferðisbrot. Miskabætur. Réttargæsla brotaþola.

I var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa ráðist að X, 16 ára gamalli stúlku, sem þá var við útburð dagblaðs í anddyri fjölbýlishúss, og þröngvað henni til holdlegs samræðis með ofbeldi. I bar við algeru minnisleysi vegna ölvunar um ferðir sínar og athafnir þegar atvik málsins áttu sér stað. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna sinna um sakarmat og refsiákvörðun, var talið, að framburður X um atvik málsins fengi stoð í rannsókn á sýnum sem tekin voru á vettvangi og úr buxum X, en samkvæmt rannsókninni reyndist vera um að ræða sæði úr I. Þótti verða að leggja til grundvallar þá frásögn X, að I hefði þröngvað henni með ofbeldi til samfara. Var I talinn hafa gerst brotlegur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992 og var hann dæmdur til að sæta tveggja ára fangelsi og greiða X miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Málinu var áfrýjað 3. júní 1999 að ósk ákærða með vísun til a. - d. liða 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákæruvaldið krefst þess, að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til greiðslu miskabóta í samræmi við kröfu réttargæslumanns kæranda.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar. Til þrautavara er þess krafist, að ákærða verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa, og hún höfð skilorðsbundin. Þá krefst ákærði þess, að framkominni bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara verði ákvörðun héraðsdóms um bótafjárhæð staðfest.

Skipaður réttargæslumaður kæranda fyrir Hæstarétti, Björn L. Bergsson hæstaréttarlögmaður, krefst þess, að ákærði verði dæmdur til að greiða kæranda 450.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga     nr. 25/1987 frá 10. október 1998 til greiðsludags auk málskostnaðar.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt nýtt bréf Ragnheiðar Indriðadóttur sálfræðings frá 14. september 1999. Þar segir, að hún hafi hitt kæranda tvisvar sinnum eftir uppsögu héraðsdóms. Í þeim viðtölum hafi komið fram, að kærandi óttist enn að rekast á ákærða meðal fólks og hún hafi enn erfiðar draumfarir vegna atburðarins, sem hún eigi erfitt með að rifja upp. Til að forðast þær erfiðu tilfinningar fari hún í vörn og bæli þær niður. Þannig verði misræmi á því, hvernig henni líði og hvernig hún komi fyrir og megi búast við því, að hún muni þurfa töluvert langan tíma til að vinna úr þessu.

Ákærði hefur ekki fært haldbær rök fyrir ómerkingarkröfu sinni. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakarmat og refsiákvörðun.

Með hliðsjón af gögnum málsins um hagi kæranda í kjölfar árásarinnar og ungum aldri hennar þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 450.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá verknaðardegi til dómsuppsögudags í héraði en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði verður staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. f. laga nr. 19/1991 er hlutverk réttargæslumanns að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal við að setja fram einkaréttarkröfur samkvæmt XX. kafla laganna, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999. Í 3. mgr. 44. gr. i laga nr. 19/1991 segir, að þóknun réttargæslumanns skuli greiðast úr ríkissjóði og teljast til sakarkostnaðar eftir 164. gr. laganna, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999. Við ákvörðun þóknunar verður að líta til umfangs málsins og þess, er telja má eðlilegt að vænta af réttargæslumanni við framgang þess í þágu brotaþola, svo sem mótun og framsetningu kröfugerðar um bætur. Réttargæslumenn kæranda í þessu máli hafa verið tveir, og hafa þeir báðir sett fram kröfugerð, sem þó hefur ekki verið samhljóða, og skýrt hana fyrir dómstólum. Réttargæslumaður kæranda í héraði var viðstaddur hluta aðalmeðferðar og þurfti tvívegis að gera grein fyrir kröfugerð kæranda, en málið var endurupptekið til nýs flutnings, eins og fram kemur í héraðsdómi. Réttargæslumaður kæranda fyrir Hæstarétti endurskoðaði kröfugerðina og aflaði hins nýja vottorðs frá sálfræðingi auk þess að reifa kröfuna fyrir réttinum. Þykir að öllu þessu athuguðu hæfilegt að ákvarða réttargæslumanni í héraði 50.000 krónur í þóknun og réttargæslumanni fyrir Hæstarétti 40.000 krónur.

Ákærði skal að öðru leyti greiða áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Ingimundur Loftsson, sæti fangelsi í tvö ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald hans frá 11. október til 14. október 1998 að báðum dögum meðtöldum.

Ákærði greiði X vegna ólögráða dóttur hans, Y, 450.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. október 1998 til 11. maí 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði er staðfest.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

Ákærði greiði réttargæslukostnað kæranda í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talda þóknun réttargæslumanns í héraði, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 50.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns fyrir Hæstarétti, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. maí 1999.

I.

 Mál þetta, sem dómtekið var 6. maí s.l., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 1. febrúar 1999, á hendur Ingimundi Loftssyni, [...], „fyrir nauðgun, með því að hafa árla morguns laugardaginn 10. október 1998, í anddyri fjölbýlishússins að H, ráðist á stúlkuna X fædda árið 1982 og með ofbeldi þröngvað henni til holdlegs samræðis.

 Telst þetta varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40, 1992.

 Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

 Af hálfu X er þess krafist að ákærði greiði kr. 1.000.000 í miskabætur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 10. október 1998 til greiðsludags, auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatt.”

 Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að miskabótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að krafan sæti verulegri lækkun. Í aðalkröfu er þess krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, verði lagður á ríkissjóð. Í varakröfu krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna.

II.

 Laugardaginn 10.október 1998 kl. 17:10 kom kærandi í máli þessu, X, [...] á lögreglustöðina í K ásamt vinkonu sinni E, í því skyni að kæra nauðgun sem hún hefði orðið fyrir snemma um morguninn þennan dag að [...]. Kærandi kvaðst hafa farið að bera út Morgunblaðið um kl. 05:45 umræddan morgun, en blaðið beri hún út [...]. Kvað hún móður sína hafa ekið sér á þann stað sem hún byrjaði að bera blaðið út. Hún kvaðst hafa verið á gangi á [...] er maður, sem hún þekkti ekki, hafi komið að henni og spurt hana til vegar og hvort hún gæti sýnt honum hvar [...] væri því hann ætlaði að heimsækja vinkonu sína þar. Hún hefði sagt honum að hún þyrfti fyrst að bera út nokkur blöð áður en hún gæti sýnt honum hvar [...] væri og hefði maðurinn síðan rölt með henni við blaðburðinn. Er þau komu að [...] hefði enginn reynst vera þar heima. Hefði maðurinn þá sagst ætla að rölta með henni áfram og hefði hún engar athugasemdir gert við það. Þau hefðu síðan rætt saman um daginn og veginn og maðurinn m.a. spurt hana að aldri og hún þá sagt „hvað heldur þú” og hann þá svarað „18-20 ára”. Hún hefði þá sagt manninum að hún væri 15 ára. Hún hefði síðan klárað að bera út blöðin í [...] og farið yfir á [...] og maðurinn fylgt henni eftir. Í anddyrinu á [...] hefði maðurinn byrjað að káfa á henni og reynt að kyssa hana. Hefði hún þá beðið hann að hætta þessu því hún vildi þetta ekki og væri með strák á föstu. Aðspurður um nafn hefði maðurinn muldrað eitthvað á þá leið að hann héti eitthvað sem endaði á „mundur”. Hefði hún ýtt manninum frá sér og farið inn í anddyrið á [...] og sett blöð þar í póstkassa. Maðurinn hefði komið á eftir henni, haldið áfram að káfa á henni og reynt að kyssa hana. Þá hefði hann stungið hendinni ofan í buxnastrenginn hjá henni. Hún hefði beðið hann að hætta þessu þar sem hún vildi ekkert með hann hafa. Hefði hún þessu næst farið inn í anddyrið á [...]. Maðurinn hefði komið á eftir henni og lokað á eftir sér. Hann hefði síðan rennt niður buxnaklaufinni og tekið út á sér kynfærin. Hún hefði sett blöðin í póstkassan en er hún ætlaði út hefði maðurinn hindrað för hennar. Hún hefði beðið hann að hleypa sér út en þá hefði hann gripið í hana og reynt að snúa henni við þannig að hún snéri baki í hann. Hann hefði síðan reynt að kippa buxunum niður um hana en hún haldið í þær þannig að honum tókst það ekki. Hún hefði síðan sagt honum að hún myndi öskra á hjálp ef hann sleppti henni ekki. Þá hefði hann gripið um munn hennar þannig að hún kom ekki upp hljóði. Hún hefði reynt að rífa sig lausa en við það hefði hún fallið í gólfið. Maðurinn hefði þá náð að kippa buxunum niður um hana. Síðan hefði hann sett liminn inn í hana og haft við hana mök. Hún hefði barist á móti honum en hann haldið fyrir munn hennar þannig að henni lá við köfnun. Hann hefði einnig haldið um hendur hennar. Hún hefði síðan náð að rífa sig lausa frá honum og hlaupið út úr anddyrinu. Þetta hefði tekið um 5-10 mínútur Ekki gerði hún sér grein fyrir því hvort maðurinn fékk fullnægingu inni í henni. Hún kvaðst hafa orðið mjög hrædd og hlaupið frá húsinu og því ekki séð hvað um manninn varð. Hún kvaðst hafa komið út úr umræddu húsi um kl. 06:45. Hún hefði síðan borið blöðin út í þær 3 blokkir sem eftir voru og farið heim. Þar hefði hún hitt mömmu sína sem hefði spurt hana hvers vegna hún hefði verið svona lengi að bera út blöðin. Hún hefði ekki þorað að segja mömmu sinni frá því sem kom fyrir en sagt henni að hún hefði hitt krakka á leiðinni sem hún þekkti. Kl. 15:30 um daginn hefði hún síðan farið til vinkonu sinnar E og sagt henni hvað fyrir hefði komið. E hefði hvatt hana til að leita til lögreglu og í framhaldi af því hefðu þær farið á lögreglustöðina. Hún lýsti manninum fyrir lögreglu.

III.

Í framhaldi af kæru stúlkunnar fór hún að tilhlutan lögreglu í fylgd föður síns á neyðarmóttöku vegna nauðgunar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur þar sem hún gekkst undir skoðun. Í niðurstöðu Kristínar Andersen læknis segir um stúlkuna að hún hafi verið mjög yfirveguð, gefið góða sögu, og komið eðlilega fyrir. Hún hafi haft magaverki. Engin áverkamerki hafi fundist á líkama. Engin áverkamerki hafi fundist á kynfærum. Tekin hafi verið sæðissýni frá leggöngum og leghálsi. Sæðisfrumur hafi ekki sést.

 Við endurkomu á Neyðarmóttöku 13. október 1998 skoðaði Kristín Andersen læknir kæranda og greindist þá nýlegur marblettur, ca. 1x1 cm innanvert á hægra læri. Var talið að marbletturinn gæti hafa orsakast af þrýstingi eða höggi. Jafnframt greindist nýlegur marblettur ca 1,5 x 1 cm aftan á vinstri kálfa. Talið var að hann gæti stafað af þrýstingi eða höggi.

 Við endurkomu á Neyðarmóttöku 27. október 1998 var kærandi yfirveguð og skýr í frásögn, en kvartaði yfir magaverkjum og spennu. Aðspurð kvaðst kærandi hvorki endurlifa atburði í vöku né svefni. Hún kvaðst ekki óttast árásarmann, ekki óttast að hann leiti hana uppi, ekki óttast að vera á ferli, ekki óttast að vera ein. Hún kvaðst ekki haldin sektarkennd/blygðun, ekki hafa glatað sjálfsvirðingu og ekki vera í sjálfsmorðshugleiðingum

 Við endurkomu á Neyðarmóttöku 21. janúar 1999 kvaðst kærandi ekki upplifa atburð í vöku en hins vegar fengi hún martraðir öðru hverju. Aðspurð hvort hún óttaðist árásarmanninn sagði kærandi að hún væri nú farin að bera blöðin út aftur í fylgd móður sinnar. Henni finnist óþægilegt að fara á staðinn þar sem árásin átti sér stað. Segir í skýrslu læknis að kærandi sé skýr og yfirveguð.

 Fram kom við aðalmeðferðina að kærandi hefði farið í endurkomu á Neyðarmóttöku daginn fyrir aðalmeðferð málsins.

 Kristín Andersen læknir á Neyðarmóttöku kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir skýrslunum frá Neyðarmóttökunni. Hún mundi eftir kæranda. Hún kvað það ekkert óvenjulegt að þolandi slíks verknaðar, sem kærandi lýsti, sé í tilfinningalegu jafnvægi við komu á Neyðarmóttöku. Hún kvað marbletti þá sem fram komu á kæranda geta stafað af atburðinum. Hún kvað ekki hægt að fullyrða með hliðsjón af skoðun á kæranda að samfarir hafi átt sér stað.

IV.

 Rannsóknardeild lögreglunnar í [...] kannaði vettvang þar sem stúlkan sagði nauðgunina hafa átt sér stað þ.e. að [...]. Á flísalögðu gólfi í anddyrinu fundust blettir sem grunur lék á að kynnu að vera sæði. Sýni voru tekin og þau send til rannsóknar á Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði. Þar fékkst síðar staðfest að um sæði væri að ræða og að sýnin væru nýtanleg til DNA samanburðarrannsóknar. Þá var fatnaður sem stúlkan hafði klæðst umræddan morgun sendur framangreindri rannsóknarstofu og fannst sæði í buxum hennar.

 Þann 22. október s.l. voru tekin blóðsýni úr ákærða á Rannsóknarstofu í rétarlæknisfræði til DNA samanburðarannsóknar við sæðissýni sem fundust á vettvangi og í fatnaði kæranda.

 Í álitsgerð Gunnlaugs Geirssonar, prófessors á Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði, segir að í sýnum þeim sem lögregla tók á vettvangi hafi verið sæði sem nota mátti til kennslagreiningar. Sama megi segja um bút úr buxum kæranda. Kemur fram í álitsgerðinni að sýnin hafi verið send til Rettsmedisinsk Institutt, Universitetet í Oslo. Svar rannsóknarstofunnar hefði borist 11. desember 1999. Í niðurstöðu álitsgerðar prófessorsins segir síðan að niðurstöður rannsóknar samrýmist því að sæðisblettir þeir, sem fundust á gólfi í anddyri brotavettvangs svo og sæðisblettur í buxum þolanda séu úr grunuðum. Prófessorinn kom fyrir dóminn, gerði grein fyrir rannsóknarferlinu og staðfesti álitsgerð sína.

V.

 Í málinu var lagt fram bréf frá Ragnheiði Indriðadóttur, sálfræðingi. Kemur fram í bréfi hennar að kærandi hefði fyrst komið til hennar á stofu þann 16. október 1998 að tilhlutan Neyðarmóttöku. Kærandi hefði fyrst komið í fylgd foreldra sinna. Foreldrar hennar hafi fundið fyrir mikilli reiði og vanmætti. Sérstaklega hefði móðir hennar fundið fyrir sektarkennd. Kærandi hefði sagt að líðan hennar eftir atburðinn hefði verið bágborin. Hún svæfi illa og fengi martraðir er tengdust ótta þeim er hún upplifði í áfallinu. Hún ætti erfitt með að fara út á meðal fólks og væri hrædd um að rekast á meintan geranda á förnum vegi. Hún hefði ekki treyst sér í skólann í eina viku eftir að þetta gerðist. Henni hafi fundist allir vita af þessu og þar af leiðandi finndist henni allir vera að horfa á sig. Hún hefði orðið vör við slæmt umtal um sig og hefði það aukið á vanlíðan hennar. Hún hefði einangrað sig til að byrja með og ekki farið út á meðal fólks og lokað sig inni í herbergi sínu. Þá segir að kæranda finnist töluverðar breytingar hafa orðið heima fyrir. Foreldrar hennar séu hræddir um hana og vilji helst að hún sé sem mest heima. Þetta hafi skapað togstreitu milli hennar og foreldra hennar nú þegar hún treysti sér betur til að fara út á meðal fólks. Segir sálfræðingurinn síðan að hún hafi hitt kæranda 8 sinnum síðan þetta gerðist og sé enn talsverður ótti í henni varðandi það að rekast á meintan geranda þegar hún fer út á meðal fólks. Hún fái alltaf af og til erfiðar draumfarir er tengjast atburðinum. Það sé því augljóst að atburðurinn hafi haft djúpstæð áhrif á líf hennar.

 Ragnheiður Indriðadóttir sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína um kæranda. Hún kvað ekkert óeðlilegt við það þótt kærandi hafi verið í andlegu jafnvægi við komu á Neyðarmóttöku. Hún kvað kæranda hafa komið með foreldrum sínum í fyrsta viðtalið og hafi hún þá virst í jafnvægi en foreldrarnir argir og reiðir. Hún lýsti fyrstu viðbrögðum kæranda sem losti og hafi hún haldið tilfinningunum frá sér. Þegar hún svo hafi komið ein í viðtal hafi ástand hennar verið annað. Hún hefði vitað að kærandi var ekki í jafnvægi heldur hafi verið um varnarviðbrögð að ræða. Þær hefðu rætt um atburðinn, líðan fyrir og eftir atburð og áhrif atburðarins á kæranda. Kærandi hafi síðan nálgast meira og meira sínar tilfinningar. Ætlunin sé að hún vinni úr þessum tilfinningum. Hún kvaðst ekki hafa lagt nein próf fyrir kæranda, aðeins rætt við hana. Hún kvað fyrri atburð hugsanlega hafa áhrif á viðbrögð kæranda í dag. Hið nýja áfall sé erfitt fyrir kæranda burtséð frá hinu fyrra.

VI.

 Af hálfu lögreglu var vettvangur og næsta umhverfi ljósmyndað og hafa verið lögð fram í málinu ítarleg gögn í því sambandi, bæði ljósmyndir og uppdrættir.

 Eftir skýrslutöku af kæranda vaknaði grunur um að meintur árásarmaður væri ákærði, Ingimundur. Var farið á heimili hans kl. 22:20 að kvöldi umrædds laugardags og hann handtekinn. Var jafnframt lagt hald á fatnað sem hann hafði klæðst nóttina áður. Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að hafa hitt kæranda umræddan morgun og kvaðst ekki vera sekur í málinu. Hann kvað kunningja sinn hafa ekið sér að [...] umrædda nótt þar sem hann hefði ætlað að hitta mann sem þar búi. Sá hefði ekki verið heima og hefði hann þá sofnað í móanum vestan við Samkaup. Er hann vaknaði hefði hann gengið heim til [...] frænku sinnar, sem búi að [...], og hefði hún ekið honum til [...].

 Í seinni skýrslum hjá lögreglu ítrekaði ákærði sakleysi sitt en bar við algeru minnisleysi um gerðir sínar umrædda nótt.

 Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 11. október 1998 var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til miðvikudagsins 14. október sl. kl 18:00.

VII.

 Ákærði neitaði sök fyrir dóminum. Í skýrslu sinni kvaðst hann hafa farið til vinnu föstudagsmorguninn 9. október 1998. Eftir að vinnu lauk hafi hann farið á svokallaða „októberfest” í Reykjavík. Þar hefði verið frítt að drekka og hefði hann drukkið eins mikið og hann gat. Hann gat þess að hann hefði verið búinn að vera á hálfgerðu fylliríi allt sumarið á undan. Eftir að hátíðinni lauk hefði hann farið á nokkra skemmtistaði í Reykjavík en síðan haldið til [...]. Þar hefði hann fyrst heimsótt mann en ekki dvalist þar lengi. Hefði hann síðan farið á skemmtistaði í [...]. Ekki mundi hann hvað klukkan var. Hann kvaðst hafa verið á veitingastöðunum fram að lokun um kl. 03:00 aðfaranótt laugardagsins 10. október. Hann kvaðst ekki muna hvert hann fór eftir það. Hann hefði reynt að rifja þetta upp en minnið kæmi hins vegar ekki. Hann kvað umræðu úti í bæ hafa truflað sig. Alls kyns sögur hafi verið í gangi. Hann mundi ekki eftir því við hverja hann talaði um nóttina. Hann kvaðst næst muna eftir sér er hann vaknaði í stigagangi fjölbýlishúss um kl. 11:00 umræddan morgun. Hann mundi ekki eftir því að einhverjir hefðu gefið sig á tal við hann í þessum stigagangi. Hann hefði í fyrstu ekki vitað hvar hann var staddur og orðið hræddur. Hann hefði síðan áttað sig á því hvar hann var staddur er hann kom út. Hefði hann þá farið til frænku sinnar [...]. Hún hefði spurt hann hvar hann hefði verið og hvers vegna hann væri rispaður. Hann hefði ekki verið viss um hvernig hann fékk áverkana, en þó minnst átaka á [...] við [...]. Hann kvað frænku sína síðan hafa ekið sér heim. Hann hefði síðan farið til vinar síns [...] og þeir farið saman í ríkið og keypt sér bjór. Hann kvaðst hafa sagt [...] að hann hefði gist fangageymslur lögreglu vegna slagsmála. Hann hefði skammast sín fyrir að vita ekki um ferðir sínar. Hann kvaðst ennþá hafa verið mjög drukkinn er hann hitti [...]. Hann kvað allt þurrkað út úr minni sínu sem gerðist umrædda nótt. Hann kvaðst hafa haldið að kunningi sinn frá [...] hefði ekið sér til [...].

Hann kvaðst hafa farið norður á [...] með móður sinni og dóttur eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi. Eftir stutta dvöl þar hefði hann farið í 10 daga meðferð á Vog og síðan í 28 daga áfengismeðferð á Vík. Síðan hefði hann flust til [...] til að skipta um umhverfi og halda sér allsgáðum. Hann hefði viljað flytjast frá [...] vegna umtals. Hann kvaðst áður hafa orðið fyrir algeru minnisleysi í tengslum við ölvun.

 Kærandinn sagði fyrir dóminum að ákærði hefði orðið á vegi hennar við [...] umræddan morgun. Hann hefði síðan labbað með henni. Hún hefði m.a. spurt hann að nafni, aldri og hvar hann hefði verið um kvöldið. Hann hefði viljað hjálpa henni að bera Morgunblaðið út. Hann hefði öðru hvoru gengið á bíla og ekki náð að ganga upp á kantsteina. Hann hefði verið fullur og óskýr. Hann hefði verið að syngja og tala við hana og gengið á eftir henni. Á [...] hefði hann byrjað að kyssa hana þar sem þau voru í anddyrinu. Hún hefði þá ýtt honum frá sér. Á [...] hefði hann kysst hana og byrjað að fara innan á hana að neðan. Hún hefði sagt honum að hætta þessu og að hún hefði samviskubit þar sem hún hefði kysst hann á [...] og að hún væri að vinna. Á [...] hefðu þau bæði sett blöð í póstkassa. Síðan hefði hún ætlað út. Ákærði hefði byrjað að kyssa hana aftur, hún ýtt honum frá sér, sagst vera að vinna og að hún væri með strák. Þá hefði ákærði sagst ætla að ríða henni eða eitthvað svoleiðis. Hann hefði verið mjög ákveðinn. Hann hefði sífellt verið verið að reyna að snúa henni við. Hún hefði reynt að opna hurð og fara út en hann þá ýtt henni inn í stigaganginn og sagt að hann ætlaði að ríða henni. Hún kvaðst sífellt hafa reynt að komast út en ákærði alltaf náð að halda henni. Hann hefði verið sterkur í sér. Ákærði hefði tekið í axlir hennar en hún alltaf reynt að berjast á móti. Hann hefði alltaf sagst ætla að ríða henni, en hún sagt nei, hann fengi það ekki þar sem hún væri með strák. Ákærði hefði samt sagst ætla að ríða henni. Hún hefði sagt að hún vildi hann ekki og beðið hann að láta sig í friði. Hún hefði þá farið í hornið milli ofns og hurðar og grúft sig niður. Hún hefði síðan staðið upp og ætlað að hlaupa út en hann náð henni og ýtt frá dyrum. Síðan hefði hann tekið tippið út úr buxnaklaufinni og hefði það verið í „standi”. Þá hefði hún reynt að opna en hann sett fótinn fyrir. Í kjölfarið hefði hann hrint henni svo hún datt í gólfið. Hann hefði síðan sest klofvega ofan á hana. Hann hefði spurt hvort hún vildi sjúga hann en hún sagt nei. Hún hefði reynt að koma honum af sér. Þá hefði hann spurt hvort hún vildi ekki gefa honum 1 ½ mínútu. Hann hefði þá haldið höndum hennar með fótunum, hún verið í klemmu og rosalega hrædd. Hún hefði misst allan kraft og verið hálflömuð. Hún hefði sagt nei við 1 ½ mínútu. Þá hefði ákærði sagt: „ég ætla að ríða þér”. Hún hefði þá verið orðin ofsalega hrædd og sagt: „þú færð eina mínútu og ég tek tímann”. Hún hefði litið á klukkuna en hann tekið hönd hennar þannig að hún sá ekki á úrið. Hún taldi stimpingarnar hafa staðið yfir í u.þ.b. kortér. Hún hefði verið í fötunum en eftir að hún sagði: „o.k. ein mínúta”, hefði hann náð að draga buxur hennar niður að hnjám og setja tittlinginn inn í hana. Hann hefði jafnframt reynt að kyssa hana. Hún hefði náð að ýta honum af sér og hefði hann þá lagst út af. Hún hefði síðan girt upp um sig og farið út. Í fyrstu hefði hún falið sig á bak við vörubíl, en síðan haldið áfram að bera Morgunblaðið út. Síðan hefði hún farið heim. Hún hefði ekki sagt móður sinni frá þessu. Hún hefði síðan farið upp í herbergi sitt, grátið, sofnað og sofið til kl. 14:00 um daginn. Þá hefði hún hringt í frænku sína í [...] og sagt henni hvað fyrir hefði komið. Hún hefði sagt henni að kæra. Þá hefði hún hringt í þáverandi vinkonu sína S og sagt henni frá þessu. S hefði áður oft verið búin að segja henni frá einhverjum „munda” í [...]. Ákærði hefði um morguninn sagt henni að hann hefði verið að spila í [...]. Eftir að hafa lýst ákærða hefði S sagt að greinilega væri þarna um Ingimund að ræða.

Kærandi kvaðst þessu næst hafa farið til vinkonu sinnar E og sagt henni alla söguna. E hefði þá sagt: „Nú förum við til lögreglunnar”. Í framhaldi af því hefðu þær farið til lögreglunnar í [...] þar sem hún lagði fram kæru. Hún hefði síðan verið í yfirheyrslum og foreldrar hennar komið á staðinn.Um kvöldið hefði hún farið á Neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur ásamt föður sínum og lögreglu. Þaðan hefði hún hringt í starfskonu Stígamóta, vinkonu sína D. Hún hefði kynnst henni hjá Stígamótum vegna annars atviks sem hún lenti í. Tveimur dögum síðar hefði hún farið aftur á Neyðarmóttökuna vegna athugunar á marblettum og eftir það í nokkrar endurkomur. Hún kvaðst síðan hafa gengið til sálfræðings. Hún hefði vitað að henni myndi líða betur gengi hún til sálfræðings.

Hún kvað sér í fyrstu ekki hafa fundist ákærði mjög ölvaður, en síðan veitt því athygli er hann gekk með henni.

Hún kvaðst ekki hafa átt kærasta á þessum tíma en nefnt hann sér til varnar. Hún hefði hins vegar áður verið með strák og því tekið getnaðarvarnarlyf. Hún kvaðst ekki hafa aðstoðað ákærða við að afklæða sig. Hún kvaðst ekki hafa reynt að leita undankomuleiða. Hún hefði hótað að öskra en þá hefði ákærði tekið fyrir munn hennar. Hún hefði hins vegar ekki reynt að öskra eftir að hann sleppti höndinni af munni hennar.

Aðspurð hvort hún hefði talið sig vera í mikilli hættu kvaðst hún ekki hafa vitað hvað ákærði myndi gera. Aðspurð um það hvort hún hefði ekki vitað um aðra undankomuleið en að samþykkja samfarir, sagðist hún hafa verið ofsahrædd og ekki hugsað um undankomuleiðir. Auðvitað hafi verið þarna hurð að geymslu, en hún hefði ekki hugsað um hana eða látið á hana reyna. Hún kvaðst alveg viss um að ákærði hefði náð að koma getnaðarlim sínum inn í hana, en hún vissi ekki hvort honum varð sáðfall. Henni hafi fundist sem af ákærða rynni á [...]. Hún hefði ekki talið sig geta ráðið við hann. Hann hefði hugsanlega getað tekið upp hníf. Hún hefði ekki viljað taka neina áhættu. Hún hefði síðan losnað frá ákærða með því að ýta honum af sér. Hann hefði legið eftir það eins og hann væri sofandi.

 Jóhannes Jensson lögreglufulltrúi, sem stjórnaði lögreglurannsókn í málinu kom fyrir dóminn og skýrði rannsóknargögn og staðfesti. Hann greindi m.a. frá töku sýna í anddyrinu að [...], sem reyndist vera sæði úr ákærða. Hann kvað engin ummerki hafa verið um átök á vettvangi, enda hafi aðstæður ekki verið slíkar að það ætti að sjást. Hann upplýsti að kærandi hefði áður sætt kynferðislegri misneytingu en það mál hefði ekki hlotið endanlega rannsókn sökum andláts meints geranda.

 Móðir kæranda I kom fyrir dóminn og skýrði frá því að þær mæðgur hefðu byrjað blaðaútbuð kl. 06:00 umræddan morgun og hefði hún þá ekið kæranda að [...]. Kærandi hefði síðan komið seinna heim en venjulega en sagt að hún hefði hitt vinkonur sínar og tafist. Seinna um daginn hefði kærandi sagt lítið en setið í stiga. Þá hefðu gestir verið í heimsókn. Hún hefði síðan klætt sig og farið út. Síðar um daginn hefði hún fyrst fengið vitneskju um atburðinn er lögreglan hringdi heim til hennar og skýrði frá málavöxtum

Hún kvað kæranda nú eiga erfitt með að vera innan um annað fólk. Mikið umtal hafi verið í skólanum um atburðinn. Kærandi sé alltaf með magaverki og þreytt. Læknar finni ekkert af hverju þetta stafi. Viðtöl við sálfræðing hafi hins vegar hjálpað kæranda mikið.

Vitnið A, [...] sem búsettur er að [...] bar fyrir dóminum að hann hefði farið niður í anddyri hússins eftir kl. 09:00 umræddan morgun og þá séð sofandi mann sem lá þar á grúfu. Hann hefði ýtt við manni þessum og reynt að tala við hann. Maðurinn hefði sagst búa í næstu blokk. Vitnið kvaðst hafa talið manninn drukkinn. Fyrir hádegi hefði maður þessi verið horfinn. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt manni þessum þannig athygli að hann gæti borið að um ákærða, sem hann sá í réttinum, væri að ræða.

Vitnið G, [...], sem er búsett að [...], bar fyrir dóminum að hún hefði séð sofandi mann í stigagangi hússins um kl. 10:00 umræddan morgun. Hún veitti manni þessum ekki slíka athygli að hún gæti borið að um ákærða, sem hún sá í réttinum, væri að ræða.

Vitnið E, [...], greindi frá því fyrir dóminum, að kærandi hefði komið heim til hennar um kl. 15:00 umræddan dag og hefði verið stressuð og eitthvað að. Hún hefði sagt vitninu frá atvikum og farið að gráta. Kærandi hefði sagt að sér hefði verið nauðgað við blaðburðinn og að hún vissi ekki hver þar hefði verið að verki. Vitnið kvaðst hafa sagt henni að hún yrði að kæra. Vitnið kvaðst hafa lánað kæranda nýjar buxur. Kærandi hefði sagt að hún væri búin að tala við S. Þær hefði síðan farið á lögreglustöðina og kvaðst vitnið hafa verið viðstödd er kærandi gaf skýrslu sína. Vitnið kvað kæranda nú viðkvæmari en fyrir atburðinn. Hún sé stressuð yfir því að hitta fólk og henni finnist allir tala illa um sig. Vitnið kvað kæranda hafa sagt að umræddur maður hafi sagst heita „mundur” eða þess háttar og að hann ætti heima í [...].

Vitnið S, [...], greindi frá því fyrir dóminum að ákærði væri vinur hennar og að kærandi hefði verið vinkona hennar. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða umrædda nótt fyrir utan [...]. Hann hefði verið fullur og hafi þau ekki ræðst við að viti. Ákærði hefði spurt hana hvort hún vildi totta hann. Þetta hefði verið sagt í gríni. Vitnið kvað kæranda hafa hringt í hana umræddan laugardag og spurt hvernig vinur hennar í [...] liti út og í hvernig fötum hann hefði verið kvöldið áður. Hún hefði síðan sagt að maður þessi hefði nauðgað sér. Hún hefði sagt hvar hún hefði hitt ákærða og að þau hefðu gengið á milli blokka. Hann hefði kysst hana og hún tekið á móti. Svo hefði hann beðið hana að totta sig í stigagangi en hún sagt nei þar sem hún hefði ekki tíma. Þá hefði ákærði spurt hvort hann mætti sofa hjá kæranda en hún sagt nei þar sem hún hefði ekki tíma. Þá hefði ákærði sagt „bara eina mínútu” og hefði kærandi þá svarað og sagt „ O.k. bara í eina mínútu”. Vitnið greindi frá því að eftir skýrslutöku vitnisins hjá lögreglu hefði kærandi hringt í hana og spurt hvort vitnið hefði nokkuð sagt frá „mínútutalinu”. Vitnið hefði þá spurt: „Hvaða mínútutal?” Vitnið kvaðst hafa verið búin að gleyma þessu. Þá hefði kærandi sagt: „ Þú veist að ég leyfði honum að ríða mér í mínútu”. Vitnið kvaðst hafa farið til lögreglu næsta dag og greint frá þessu í nýrri skýrslu. Vitnið kvað kæranda hafa skorað á hana að segja ekki frá „mínútutalinu” þar sem lögreglan gæti þá hankað hana þar sem hún hefði leyft ákærða þetta. Vitnið kvað kæranda hafa lýst atvikum í smáatriðum þegar hún hringdi fyrst í hana á laugardeginum og hafi hún ekkert frekar virst miður sín.

Er kærandi var spurð um það fyrir dóminum hvers vegna hún hefði ekki nefnt „mínututalið” í skýrslu sinni hjá lögreglu kvaðst kærandi hafa verið óörugg um það, hvort þetta skipti máli eða ekki. Hún játaði því að hún hefði ekki viljað að S segði frá „mínútutalinu”. Henni hefði ekki fundist það skipta máli.

 Um ástæður breytts framburðar kæranda sagði vitnið Jóhannes Jensson, rannsóknarlögreglumaður, að S hefði komið á lögreglustöðina að eigin frumkvæði og óskað eftir að fá að gefa skýrslu þar sem hún í fyrri skýrslu hefði ekki skýrt frá öllu sem hún vissi um málið. Vitnið hefði þá greint frá „mínútutalinu”. Kærandi hefði síðan verið boðuð aftur strax um kvöldið. Hún hefði í fyrstu neitað því að þetta hefði komið til tals milli hennar og S. Eftir að gengið hafði verið á hana, hún ítrekað spurð um þetta atriði og á hana skorað að skýra rétt frá, hefði hún breytt framburði sínum og kannast við þetta

Vitnið A, [...], sagði fyrir dóminum að hún hefði séð ákærða eftir kl. 03:00 umrædda nótt fyrir utan [...], þar sem hann hefði verið á tali við K. Hann hefði virst mjög ölvaður og hefði það m.a. heyrst á mæli hans. Hann hefði sagst ætla heim að sofa og hefði vitnið ásamt öðrum stelpum útvegað honum far með bifreið sem þær stöðvuðu, en í bifreiðinni hefðu verið stelpur sem vitnið þekkti. Ákærði hefði getað gengið óstuddur.

Vitnið SG, [...], sagði fyrir dóminum að hún hefði verið niðri í bæ með öðrum stelpum. Hún kvaðst hafa þekkt ákærða. Hún hefði hitt hann umrædda nótt og talað smávegis við hann. Hann hefði verið rosalega fullur og varla getað staðið í lappirnar. Hann hefði sest hjá henni við [...] og alveg verið að sofna. Vitnið kvaðst ásamt öðrum hafa útvegað honum far til [...] þar sem hann ætlaði að fara til frænku sinnar. Hafi þær hjálpað honum inn í bifreiðina.

Vitnið K, [...], kvaðst þekkja ákærða og hefði hún hitt hann niðri í bæ umrædda nótt. Þetta hefði verið eftir ball sem vitnið var á með vinkonum sínum. Hún kvaðst lítið hafa talað við ákærða sem hefði verið á leið inn á skemmtistað. Hún hefði síðan hitt hann aftur eftir lokun veitingastaða um kl. 05:00 á sama stað. Ákærði hefði þá verið mjög drukkinn og varla staðið í lappirnar. Hann hefði þá farið upp í bifreið sem ók honum til [...]. Vitnið kvað lítið hafa verið hægt að skilja hvað ákærði sagði.

Vitnið SÁ, [...], kvaðst fyrir dóminum hafa verið í bifreið á „rúntinum” umrædda nótt ásamt vinkonu sinni L. Fyrir utan [...] hefðu þær verið stöðvaðar af stelpum sem báðu þær að skutla ákærða heim. Vitnið kvaðst ekki hafa þekkt ákærða. Hann hefði verið ofurölvi. Þær hefðu ekið honum að [...] þar sem hann hefði yfirgefið bifreiðina. Hún hefði ekki séð hvert hann fór.

Vitnið L, [...], sagði fyrir dóminum, að hún hefði verið í bifreið á „rúntinum” ásamt SÁ, er þrjár stelpur sem þær þekktu stöðvuðu bifreiðina og báðu þær um að aka ákærða til [...]. Þær hefðu tekið hann upp í bifreiðina og ekið honum að [...]. Þær hefðu síðan farið heim. Ákærði hefði verið mjög fullur. Hann hefði verið mjög þvoglumæltur og erfitt að skilja hann. Hún kvaðst ekki hafa þekkt ákærða.

Vitnið SH, [...], frænka ákærða, sagði fyrir dóminum, að hún hefði hitt ákærða umrætt kvöld á [...] og hefði hann verið fullur. Næst hefði hún séð hann milli kl. 10-11 morguninn eftir er hann kom heim til hennar. Ákærði hefði sagt að hann hefði verið að leita að heimili hennar en ekki fundið. Hann hefði verið undir áfengisáhrifum. Hann hefði dvalið stutt hjá henni og hefði hún ekið honum heim. Þau hefðu ekki rætt mikið saman. Hann hefði verið með sár á hendi, en hún hefði séð hann kvöldið áður í átökum við [...].

Vitnið SÞ, [...], sem er kunningi ákærða kvað ákærða hafa komið til sín um kl. 12:00 umræddan dag. Hefði ákærði þá verið skrámaður og vel í því ennþá. Hann hefði sagst hafa gist fangageymslur lögreglunnar um nóttina vegna slagsmála. Það hefði hins vegar ekki verið rétt. Ákærði hefði ekki munað hvar hann var. Ákærði hefði greint honum frá ferðum sínum kvöldið áður á milli skemmtistaða. Hann hefði spurt ákærða hvort hann hefði hitt stelpur og hefði ákærði þá nefnt vinkonur þeirra. Þá hefði hann spurt ákærða hvort hann hefði haft samfarir um nóttina en hann svarað því neitandi. Slík mál ræði þeir oft.

VIII.

Niðurstaða.

 Ákærði ber við algeru minnisleysi vegna ölvunar varðandi ferðir sínar og athafnir allt frá því að hann yfirgaf miðbæ [...] síðla nætur laugardaginn 10. október 1998 og þar til hann vaknaði í anddyri fjölbýlishússins að [...]. Er einvörðungu við framburð kæranda að styðjast varðandi samskipti hennar og ákærða eftir að fundum þeirra bar saman umræddan morgun, svo og sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið og lögð hafa verið fram í málinu.

 Kærandi kærði atvikið strax sama dag og það á að hafa gerst. Hefur hún allt frá upphafi lögreglurannsóknar haldið því fram að ákærði hafi þröngvað henni til samfara. Áður en til þvingunar kom hafi hann hindrað hana í því að komast út úr fjölbýlishúsinu. Hefur kærandi lýst því svo að ákærði hafi hrint henni í gólfið, sest klofvega ofan á hana og haldið höndum hennar með fótum sínum þar sem þau lágu á gólfinu. Hún hefði reynt að koma honum af sér. Eftir nokkrar stimpingar hafi hún hins vegar orðið hálflömuð af hræðslu og þá leyft honum að hafa við sig samfarir. Ákærði hafi þá dregið buxurnar niður um hana og haft við hana samfarir. Er framburður hennar þannig eindreginn um það að ákærði hafi með ofbeldi þröngvað henni til samfara.

 Framburður kæranda um að ákærði hafi haft við hana samfarir fær stoð í niðurstöðu rannsóknar sem gerð var á sýnum, sem tekin voru á vettvangi og af buxum kæranda, en samkvæmt henni reyndist vera um að ræða sæði úr ákærða. Þá er framburður kæranda, um að ákærði hafi haft við hana samfarir með þeim hætti sem hún hefur lýst, trúverðugur að mati dómsins. Þá hefur ákærði ekkert haft fram að færa sem talist getur í andstöðu við framburð kæranda. Að öðru leyti hefur ekkert komið fram sem rýrir trúverðugleika þessarar frásagnar kæranda, enda verður sú ályktun ekki dregin af þeirri leynd sem í upphafi hvíldi af hálfu kæranda yfir framangreindu samþykki hennar, að hafna beri því meginatriði framburðar kæranda, að ákærði hafi með ofbeldi haft við hana samfarir.

 Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins, að byggja beri niðurstöðu í málinu á þeirri frásögn kæranda að ákærði hafi beitt hana valdi og þröngvað henni til samfara. Verður að leggja til grundvallar þá frásögn kæranda að hún hafi látið að vilja ákærða vegna mikils ótta í kjölfar valdbeitingar hans. Þá verður við það að miða að ákærði hafi mátt gera sér grein fyrir því, að hann væri að þröngva kæranda til þess, sem hún vildi ekki.

 Samkvæmt þessu telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og þar með gerst brotlegur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

Sakaferill og viðurlög.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum er hér skipta máli. Þegar tekið er tillit til ungs aldurs kæranda og atvika að öðru leyti þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingunni skal koma með fullri dagatölu gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 11. október til 14. október 1998.

Miskabætur.

Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður hefur fyrir hönd Y vegna ólögráða dóttur hans, kæranda, krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.000.000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. október 1998 til greiðsludags og málskostnaðar að mati dómsins. Miskabótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Talsmaður kæranda reifaði kröfuna við aðalmeðferð málsins.

 Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á kærandi rétt á miskabótum, og samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála á tjónþoli rétt á að fá greiddan kostnað, er hún hefur orðið fyrir við að halda kröfu sinni fram.

 Ljóst er, að slíkur atburður er hér um ræðir er til þess fallinn að valda þeim , sem fyrir verður, margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Verður ákærði dæmdur til þess að greiða kæranda bætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 350.000 krónur. Þá verður fallist á kröfu um kostnað kæranda við að halda kröfu sinni fram með 70.000 krónum. Verður ákærði samkvæmt þessu dæmdur til að greiða miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 350.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 10. október 1998 til dómsuppsögudags, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og til að greiða 70.000 krónur í málskostnað.

Sakarkostnaður.

Eftir úrslitum máls þessa ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar, héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur.

 Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Finnbogi H. Alexandersson, Gunnar Aðalsteinsson og Þorgeir Ingi Njálsson.

 Málið var áður munnlega flutt 23. mars 1999,en endurflutt 6. þessa mánaðar þar sem dómsuppsaga dróst vegna páskaleyfis, veikinda dómenda og anna þeirra við önnur embættisverk.

 Sigríður Jósefsdóttir, saksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Dómsorð:

 Ákærði, Ingimundur Loftsson, sæti fangelsi í 2 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald ákærða frá 11. október til 14. október 1998 að báðum dögum meðtöldum.

 Ákærði greiði Y vegna ólögráða dóttur sinnar X 350.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 10. október 1998 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og 70.000 krónur í málskostnað.

 Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar, héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur auk virðisaukaskatts.