Hæstiréttur íslands

Mál nr. 352/2007


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting


         

Fimmtudaginn 10. apríl 2008.

Nr. 352/2007.

Hörður Jónsson

(Anton B. Markússon hrl.)

gegn

Margréti Kolbrúnu Jónsdóttur og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Sakarskipting.

H varð fyrir bifreið er hann hljóp yfir þjóðveg 1 við Galtarvík og meiddist á hægri ökkla.  Ágreiningur málsins snerist eingöngu um sakarskiptingu. H krafðist þess að fá tjón sitt bætt að fullu en stefndu töldu hann hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og ætti því að bera þriðjung tjóns síns sjálfur. H hafði farið yfir veginn þrátt fyrir að hafa séð bifreið koma akandi, en hann var ölvaður.  Talið var að H hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hlaupa yfir þjóðveginn og hafi því átt nokkra sök á tjóni sínu sjálfur. Var talið að H hefði fengið þann hluta tjónsins sem hann gat krafið stefndu um að fullu bættan. Stefndu voru því sýknuð af kröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2007. Hann krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér óskipt 2.038.260 krónur með 4,5% ársvöxtum af 821.171 krónu frá 5. apríl 2003 til 15. nóvember sama ár og af 2.038.260 krónum frá þeim degi til 6. október 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hörður Jónsson, greiði stefndu, Margréti Kolbrúnu Jónsdóttur og Vátryggingafélagi Íslands hf., hvoru fyrir sig 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 15. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 27. júní 2006 af Herði Jónssyni, Galtarvík, Akranesi, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, og Margréti Kolbrúnu Jónsdóttur, Breiðvangi 26, Hafnarfirði.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda skaðabætur in solidum, að fjárhæð 2.038.260 krónur, ásamt vöxtum af 821.171 krónu, frá 5. apríl 2003 til 15. nóvember s.á., en af 2.038.260 krónum frá þeim degi til 6. október 2004, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefndu eru þær, að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.

Málavextir

Málsatvik eru þau að stefnandi lenti í umferðarslysi þann 5. apríl 2003. Slysið varð með þeim hætti, að dráttarbifreið, ZT-677, sem stefnandi var farþegi í á leið suður Vesturlandsveg, þjóðveg 1, stöðvaði í vegkantinum skammt sunnan við afleggjarann að Galtarvík til að hleypa stefnanda út. Stefnandi gekk aftur fyrir tengivagn bifreiðarinnar og hljóp yfir veginn. Í sama mund bar þar að bifreiðina F-836, sem einnig var ekið suður Vesturlandsveg, og lenti stefnandi á vinstra framhorni bifeiðarinnar. Í stefnu er haft eftir honum, að hann hafi séð bifreiðina nálgast, en talið hana það langt í burtu, að óhætt væri að hlaupa yfir.

Stefnandi hlaut töluverð meiðsl, þegar bifreiðin lenti á honum. Var hann fluttur á Sjúkrahús Akraness með sjúkrabíl. Við komu þangað var hann greindur með opið brot á hægri ökkla. Var hann sendur í bráðaaðgerð. Stefnandi varð fyrir varanlegu líkamstjóni vegna slyssins og var örorka hans, sem og miski, metin 17% af læknunum, Ragnari Jónssyni og Birgi G. Magnússyni. Er matsgerð þeirra dagsett 6. september 2004. Er ekki ágreiningur um niðurstöðu matsins.

Ökumaður bifreiðarinnar F-836, (fast númer IR-745) var Arnar Ingi Lúðvíksson, en eigandi hennar var stefnda, Margrét Kolbrún Jónsdóttir. Bifreiðin var á slysdegi tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.

Áður en slysið varð hafði stefnandi drukkið, að eigin sögn, nokkur glös af bjór og samkvæmt blóðrannsókn, sem gerð var á honum eftir slysið, reyndist áfengismagn í blóði hans vera 2,39 ‰.

Stefnandi krafði tryggingafélagið bóta á grundvelli ábyrgðartryggingarinnar. Með bréfi dags. 18. júní 2003 vísaði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., til 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og taldi stefnanda bera helming ábyrgðar. Félagið taldi slysið mega rekja til stórkostlegs gáleysis stefnanda, og rekja mætti háskaleg viðbrögð hans til ölvunarástands hans. Stefnandi mótmælti niðurstöðu félagsins á þeim grundvelli m.a., að skilyrði lagagreinarinnar um stórkostlegt gáleysi væri ekki uppfyllt, og að ökumaður bifreiðarinnar F-836 bæri fulla ábyrgð á slysinu. Á þau andmæli var ekki fallist og var málinu vísað til Tjónanefndar vátryggingafélaganna. Þann 29. júlí 2003 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að stefnandi skyldi bera þriðjung tjónsins sjálfur. Stefnandi var ekki sáttur við niðurstöðuna og skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum. Nefndin taldi, að stefnandi hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fara út á veginn, miðað við þær aðstæður sem voru fyrir hendi og taldi því hæfilegt, að stefnandi bæri þriðjung tjónsins sjálfur.

Þann 27. október greiddi tryggingafélagið bætur í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, og tók stefnandi við greiðslunni með fyrirvara um sakarskiptinguna.

Stefnanda var veitt gjafsókn í málinu með bréfi dómsmálaráðherra, dags. 6. september 2005.

Í lögregluskýrslu er haft eftir Arnari Inga, ökumanni bifreiðarinnar F-836, að hann hefði ekið umræddan dag eftir Vesturlandsvegi, þegar hann hafi séð hvar stór MAN vörubifreið með tengivagn var kyrrstæð hægra megin á veginum. Hann hafi sveigt yfir á vinstri vegarhelming til að aka fram hjá bifreiðinni og hafi hann þá um leið dregið úr hraðanum niður í 60-70 km. Hann hafi þá tekið eftir því hvar stefnandi gekk aftur fyrir dráttarvagninn. Hafi hann þá gefið hljóðmerki til að vara stefnanda við því að fara yfir veginn. Hafi stefnandi þá skyndilega tekið á rás út á veginn og í veg fyrir bifreiðina. Arnar Ingi hafi þá hemlað og sveigt bifreiðinni aftur yfir á hægri vegarhelming til þess að reyna að forða því að lenda á stefnanda. Það hafi þó ekki borið árangur og hafi vinstra framhorn bifreiðarinnar skollið á manninum og síðan hafi vinstra framhjólið farið yfir hægri fót hans.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Af hálfu stefnanda eru dómkröfur á því byggðar, að samkvæmt XIII. kafla laga nr. 50/1987, sbr. 88. gr. s.l., skuli sá, sem beri ábyrgð á skráningarskyldu ökutæki, bæta það tjón, sem hlýst af notkun þess, enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Samkvæmt 90. gr. umferðarlaga skuli skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) vélknúins ökutækis bera ábyrgð á því og vera fébótaskyldur samkvæmt 88. gr. og 89. gr. laganna. Þá kveði ákvæði 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga svo á um, að greiðsla á bótakröfu vegna tjóns, sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi, sem sér viðurkennt og skráð af dómsmálaráðherra. Stefnda, Margrét Kolbrún Jónsdóttir, hafi verið eigandi ökutækisins F-836 á tjónsdegi, en ökumaður ökutækisins, Arnar Ingi Lúðvíksson, hafi verið valdur að tjónsatburði. Ökutækið F-836 hafi verið vátryggt hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Stefnandi eigi því rétt til greiðslu úr framangreindri tryggingu og séu bætur miðaðar við að vera fullar skaðabætur. Dómkröfur stefnanda byggist á því, að stefndu beri að greiða stefnanda fullar skaðabætur vegna tjóns, sem hann varð fyrir vegna umferðarslyss þann 5. apríl 2003, sbr. I. kafli laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, sbr. einkum 1. gr. þeirra. Samkvæmt framanrituðu beinist kröfur stefnanda að stefndu, Margréti Kolbrúnu Jónsdóttur, sem eiganda ökutækisins F-836 við tjónsatburð, en kröfur stefnanda á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., beinist að félaginu sem vátryggjanda bifreiðarinnar við tjónsatburð.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt að áverka á hægri fæti sé að rekja til áðurnefnds tjónsatburðar, svo og óþægindi, sem af hafi hlotist. Samkvæmt því séu stefndu bótaskyldir í samræmi við það, sem að framan greini. Ótvírætt sé, að orsakatengsl séu á milli tjónsatburðar þann 5. apríl 2003 og meiðsla stefnanda.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að leggja beri niðurstöðu matsgerðar Ragnars Jónssonar læknis og Birgis G. Magnússonar hdl. til grundvallar útreikningi skaðabóta. Dómkröfurnar byggist á því að matsmenn hafi metið örorku stefnanda sem afleiðingu tjónsatburðar þann 5. apríl 2003 sem varanlegan miska 17% og varanlega örorku 17%. Matsgerð þeirra hafi að geyma viðhlítandi sönnun á tjóni stefnanda og beri stefndu að greiða stefnanda fullar skaðbætur í samræmi við ákvæði laga nr. 50/1993.

Í málinu liggi fyrir að bifreið hafi verið ekið á stefnanda. Eigi stefnandi því skýlausan rétt á fullum bótum vegna ábyrðartryggingar bifreiðarinnar.

Umdeilt sé, hvort rekja megi slysið til stórkostlegs gáleysis stefnanda. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., byggi á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og beri því þriðjung tjónsins sjálfur. Sönnunarbyrðin um að stórkostlegt gáleysi stefnanda sé fyrir hendi hvíli alfarið á stefndu í þessu máli. Ekkert í gögnum málsins sýni að svo hafi verið, heldur að ökumaður bifreiðarinnar F-836 hafi ekið of hratt miðað við aðstæður, ásamt því að gæta ekki nægilegrar varúðar, þegar hann sá gangandi vegfaranda fyrir aftan bifreiðina ZT-677.

Varðandi meinta ölvun stefnanda, þegar slysið átti sér stað, telji stefnandi, að um sé að ræða atriði, sem sé málinu óviðkomandi. Ölvun ein og sér firri menn ekki bótarétti og ekki sé hægt að jafna saman ölvun og gáleysi í ákveðnu tilfelli. Ekki sé um neina hlutlæga reglu að ræða í íslenskum rétti, sem mælir svo fyrir, að ef gengið sé yfir götu undir áhrifum áfengis megi keyra á viðkomandi án þess að greiða fullar bætur fyrir. Þannig sé ekki hægt að leiða líkur að gáleysi vegfaranda af meintri ölvun hans.

Þrátt fyrir að stefnandi telji áfengisáhrif samkvæmt framansögðu meintu gáleysi óviðkomandi, sé rétt að benda á að ökumaður ZT-677, sem ekið hafði með stefnanda, hafi gefið upplýsingar um áhrifin í skýrslutöku hjá lögreglu. Þar komi fram að hann hafi talið stefnanda undir sjáanlegum áfengisáhrifum, en hvergi komi fram að hann hafi verið mikið ölvaður. Alkóhólrannsókn hafi gefið til kynna 2.39 prómill hjá stefnanda, sbr. dskj. nr. 3.

Slysið hafi, samkvæmt framansögðu, ekki verið afleiðing ógætni stefnanda. Þó að það sé í sjálfu sér ekki í verkahring stefnanda að benda á orsök slyssins, telji stefnandi að það megi að öllu leyti rekja til þess að ökumaður bifreiðarinnar, sem ók á hann, Arnar Ingi Lúðvíksson, hafi ekki virt eftirgreind ákvæði 26. gr. og 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987:

26. gr. - Ökumaður, sem mætir eða ekur fram hjá gangandi vegfaranda, skal gefa honum tíma til að víkja til hliðar og veita honum nægilegt rými á veginum.

36. gr. - Ökuhraða skal jafnan miða við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis

annarra.

Ökumaður bifreiðarinnar F-836 hafi séð að stefnandi hugðist fara yfir veginn ásamt því að hann hafi séð, að bifreiðinni ZT-677 hafði verið lagt í vegkantinum. Hafi honum því borið að gæta fyllstu varúðar og draga verulega úr hraðanum, í stað þess að aka á fullri ferð fram úr ZT-677, sbr. lögregluskýrslu.

Jafnvel þótt ekki verði fallist á ofangreindar röksemdir og talið að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi, þegar ekið var á hann, nægi það ekki til þess að heimilt sé að skerða bætur hans. Í 2. mgr. umferðarlaga segi að bætur fyrir líkamstjón megi lækka, ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að tjóninu af stórkostlegu gáleysi. Mun meira þurfi til en gáleysi almennt í skaðabótarétti svo að fallist sé á stórkostlegt gáleysi. Réttarframkvæmd sýni að afar mikið þurfi til að koma svo fallist sé á að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða og þurfi nánast að hafa verið um ásetning að ræða. Augljóst sé að ekki hafi verið um stórkostlegt gáleysi að ræða í tilviki stefnanda.

Af framangreindu leiði að ósannað sé með öllu að slys stefnanda þann 5. apríl 2003 sé að nokkru leyti hans eigin sök og hafi því brostið grundvöll fyrir því hjá stefnda að hafna þriðjungi bótaskyldu vegna slyssins.

Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur aðili, og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.

Höfuðstóll kröfu stefnanda sé 2.038.260 krónur. Sé í fyrsta lagi um að ræða skaðabætur fyrir 17% varanlega örorku samkvæmt 5. og 6. gr. skaðabótalaga. Miðað sé við stuðulinn 7,69, þar sem stefnandi hafi verið 50 ára og 252 daga gamall á stöðugleikatímapunkti þann 15. nóvember 2003. Árslaunaviðmiðið sé 2.793.261 króna. Miðað við þessar forsendur eigi bætur fyrir varanlega örorku að nema 3.651.630 krónum, áður en bætt sé við vöxtum. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi þegar greitt 2.434.541 krónu vegna varanlegrar örorku. Standi því eftir 1.217.089 krónur ásamt vöxtum vegna varanlegrar örorku.

Bætur fyrir 17% varanlegan miska eigi að nema 953.445 krónum miðað við útreikning stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. Félagið hafi þegar greitt 635.661 krónu vegna þessa. Standi því eftir 317.784 krónur ásamt vöxtum vegna varanlegs miska.

Þjáningabœtur vegna slyssins eigi að nema 224.310 krónum miðað við útreikning stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. Félagið hafi þegar greitt 149.547 krónur vegna þessa. Standi því eftir 74.763 krónur ásamt vöxtum vegna þjáningarbóta.

Tímabundið tekjutap vegna slyssins eigi að nema 1.286.000 krónum miðað við útreikning stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. Félagið hafi þegar greitt 857.376 krónur vegna þessa. Standi því eftir 428.624 krónur ásamt vöxtum vegna tímabundins tekjutaps.

Samkvæmt framangreindu sé krafist samtals 2.038.260 króna ásamt vöxtum vegna varanlegs miska, þjáningabóta og tímabundins tekjutaps frá slysdegi þann 5. apríl 2003 til stöðugleikapunkts þann 15. nóvember 2003, af 2.038.260 krónum frá þeim tíma til 6. október 2004 ásamt dráttarvöxtum frá þeim tíma til greiðsludags.

Stefnandi vísar um bótaábyrgð til ákvæða XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 88. gr., 90. gr. og 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra meginreglna skaðabótaréttarins, sem gilt hafi á slysadegi. Um aðild stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., vísar stefnandi m.a. til 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga, en ökutækið hafi verið vátryggt hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Um aðild stefndu Margrétar vísar stefnandi m.a. til 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 97. gr. sömu laga. Varðandi málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um kröfu um virðisaukaskatt til ákvæða laga nr. 50/1988. Um varnarþing vísar stefnandi m.a. til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., eigi varnarþing í Reykjavík. Um dráttarvexti vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Um vexti er vísað í 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Málsástæður stefndu og lagarök

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann fór yfir Vesturlandsveg, þjóðveg 1, miðað við þær aðstæður sem hafi verið fyrir hendi er slysið átti sér stað. Með vísan til ákvæðis 2. mgr. 88. gr. umferðalaga nr. 50/1987 telji stefndu að stefnandi hafi verið meðvaldur að umræddu slysi og gerst sekur um stórkostlegt gáleysi. Því sé sanngjarnt að hann beri 1/3 hluta tjónsins sjálfur.

Stefndu mótmæli því sem fram komi í stefnu um að meint ölvun stefnanda hafi ekki verið ein ástæða slyssins. Gerð hafi verið blóðrannsókn á stefnanda þar sem grunur hafi vaknað um að hann væri verulega ölvaður. Niðurstöður blóðrannsóknar sýni að áfengismagn í blóði stefnanda hafi verið 2.39 ‰. Verði því að leggja til grundvallar í máli þessu að stefnandi hafi verið verulega ölvaður, en samkvæmt ákvæði 45. gr. umferðalaga teljist maður t.d. með öllu óhæfur til að aka bifreið, fari áfengismagn í blóði yfir 1.20 ‰, svo dæmi sé nefnt. Að mati stefnda, VÍS, verði að telja yfirgnæfandi líkur á því, að ölvun stefnanda hafi átt þátt í því að brengla dómgreind hans með þeim hætti að hann hafi skyndilega hlaupið í veg fyrir bifreið stefndu, Margrétar Jóhönnu, sem Arnar Ingi ók, án þess að Arnar Ingi gæti nokkuð gert til að varna slysinu. Þessu mati til stuðnings séu áðurnefnd orð stefnanda í lögregluskýrslu, þar sem hann segi orðrétt:

„Kvaðst Hörður ekki hafa gert sér grein fyrir því hvað bifreiðin F-836, var komin nálægt honum þegar hann hljóp út á veginn. Kvaðst Hörður vilja koma því á framfæri að slysið væri alfarið hans en ekki ökumanns bifreiðarinnar F-836.“

Áralöng dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands staðfesti að bótaréttur gangandi vegfaranda, meira að segja barna, hafi þó nokkrum sinnum verið skertur vegna stórkostlegs gáleysis og aðgæsluleysis þeirra við að fara yfir götu þar sem aðvífandi umferð er.

Stefnandi hafi ekki metið aðstæður með réttum hætti, m.a. vegna mikillar ölvunar. Arnar Ingi hafi gefið hljóðmerki til að vara stefnanda við að fara yfir veginn, en þrátt fyrir það hafi stefnandi ákveðið að hlaupa yfir götuna og hafi talið, eins og áður segi, að slysið væri alfarið sér að kenna en ekki Arnari Inga, ökumanni bifreiðarinnar, þar sem hann hafi ekki gert sér grein fyrir, hversu nálægt honum bifreiðin hafi verið komin. Arnar Ingi hafi virt ákvæði 26. gr. og 31. gr. umferðalaga nr. 50/1987 með því að gefa hljóðmerki til að reyna að ara stefnanda við, sem hafi komið skyndilega fram fyrir vörubílinn, sem lagt hafði verið í vegarkantinum. Slysið hafi orðið á þjóðvegi 1, þar sem 90 km hámarkshraði gildi. Um leið og stefnandi hafi orðið var við vöruflutningabifreiðina, sem hafi verið lagt við vegarkantinn, hafi hann hægt á bifreiðinni og gert sig líklegan til að aka fram fyrir vörubifreiðina, sem hafi tekið mikið pláss á veginum, enda með tengivagn aftan í. Að mati stefndu sé því ljóst, að Arnar Ingi hafi hagað akstri sínum í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Hann hafi hvorki sýnt af sér saknæma né ólögmæta háttsemi, þegar hann sveigði frá vörubifreiðinni, sem lagt hafi verið við hægri vegakant á þjóðvegi 1. Á grundvelli hlutlægrar bótaábyrgðar umferðarlaga beri stefnda, Margrét Jóhanna, þó ábyrgð á 2/3 hlutum tjónsins.

Með vísan til framangreinds og gagna málsins telji stefndi, VÍS, sannað, að stefnandi hafi verið meðvaldur að umræddu slysi af stórkostlegu gáleysi, þegar hann undir miklum áhrifum áfengis hafi metið aðstæður rangt, ekki virt hljóðmerkjaaðvörun Arnars Inga og tekið á rás yfir þjóðveg 1, þar sem ökuhraði bifreiða sé að jafnaði 90-100 km. Ekki hafi komið fram í málinu, hvers vegna stefnandi hafi verið að hlaupa yfir þjóðveginn. Stefnandi hafi ekki sýnt þá sérstöku aðgát gagnvart ökutækjum, sem honum hafi borið, er hann fór yfir akbrautina, sbr, ákvæði 12. gr. umferðalaga nr. 50/1987. Af þeim sökum telji stefndi, VÍS, að stefnandi eigi að bera 1/3 hluta tjónsins sjálfur.

Upphafstíma dráttarvaxtakröfu sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, sbr. niðurlagsákvæði 4. mgr. 5. gr., sbr. 9. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Málskostnaðarkrafa stefnda í aðalkröfu sé byggð á ákvæði 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi sem og Arnar Ingi Lúðvíksson, ökumaður bifreiðarinnar F-836, og Sigurður Kári Guðnason, ökumaður dráttarbifreiðarinnar.

Ágreiningur í máli þessu snýst einvörðungu um það, hvort stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi, þegar hann hljóp yfir veginn umrætt sinn og átt þannig sjálfur nokkra sök á tjóni sínu.

Það liggur fyrir í gögnum málsins að stefnandi var töluvert ölvaður þegar slysið varð og bar Sigurður Kári m.a. fyrir dómi að stefnandi hefði verið sýnilega ölvaður.

Það er haft eftir stefnanda í stefnu að hann hafi séð til bifreiðarinnar F-836 þegar hann hugðist hlaupa yfir veginn, en hann hefði metið aðstæður svo að bifreiðin væri nægilega langt í burtu til að honum tækist að komast yfir veginn tímanlega. Fyrir dómi bar stefnandi hins vegar að hann hefði gengið aftur fyrir dráttarbílinn, litið til beggja átta eftir umferð og ekki orðið neinnar umferðar var, svo hann hefði bara labbað yfir. Þegar hann hafi verið kominn u.þ.b. út á miðjan veg hefði hann séð bíl koma þar á mikilli ferð. Hann hefði þá reynt að hlaupa áfram en bíllinn hefði náð að keyra á hægri fót sinn. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að bifreiðin hefði gefið frá sér hljóðmerki. Hann taldi sig ekki hafa verið drukkinn þannig að það hefði heft sig og kvaðst hafa talið sig vera með þokkalega athygli. Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess, að lögregla hefði tekið af sér skýrslu á sjúkrahúsi eftir slysið og í lögregluskýrslu væri rangt eftir sér haft að hann hefði hlaupið út á veginn. Hann hefði fyrst hlaupið þegar hann varð var við bílinn en þá hefði hann verið kominn út á veg.

Framburður stefnanda fyrir dómi er í nokkru ósamræmi við þá málavaxtalýsingu, sem stefna byggir á. Verður að leggja til grundvallar þá frásögn, sem fram kemur í stefnu, að stefnandi hafi séð bifreiðina F-836 nálgast og tekið þá ákvörðun að hlaupa yfir veginn í trausti þess að það tækist. Er enda ekki trúverðugt að hann hafi ekki séð til bifreiðarinnar, hafi hann á annað borð litið eftir umferð, eins og hann bar fyrir dóminum, en samkvæmt gögnum málsins, sem einnig er stutt af framburði vitnisins Sigurðar Kára, var gott útsýni frá dráttarbifreiðinni til norðurs. Er þessi lýsing jafnframt í samræmi við atvikalýsingu Arnars Inga fyrir dómi, sem bar að stefnandi hefði hlaupið yfir götuna þegar Arnar Ingi nálgaðist á bifreið sinni.

Ekkert liggur fyrir um það í málinu, að bifreiðinni F-836 hafi verið ekið með óhæfilegum hraða miðað við aðstæður. Bifreiðin var komin yfir á vinstri vegarhelming þegar stefnandi hljóp af stað, en ökumaður hennar bar að hann hefði fært sig þangað til að taka fram úr dráttarbifreiðinni sem lagt hafði verið við vegarkantinn. Má því telja yfirgnæfandi líkur á, að hún hafi verið komin nokkuð nærri dráttarbifreiðinni, þegar stefnandi tók þá ákvörðun að hlaupa út á veginn.         

Svo sem að framan greinir sá stefnandi, eða mátti sjá, bifreiðina F-836 nálgast, en þrátt fyrir það tók hann áhættuna af því að hlaupa yfir veginn með margnefndum afleiðingum og þrátt fyrir að vera í ölvunarástandi, sem telja má yfirgnæfandi líkur á, að hafi skert dómgreind hans, þegar hann mat aðstæður umrætt sinn. Þykir hann þannig hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hlaupa í veg fyrir bifreiðina í stað þess að bíða þess að hún færi hjá. Má því fallast á með stefnda, að stefnandi skuli sjálfur bera 1/3 hluta tjóns síns. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns stefnanda, Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur hdl., greiðist úr ríkissjóði og þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur. Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Margrét Kolbrún Jónsdóttir, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns stefnanda, Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur hdl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.