Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/2012
Lykilorð
- Kærumál
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2012. |
|
Nr. 446/2012. |
BNAP S.A.R.L. (Helgi Jóhannesson
hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Andri Árnason
hrl.) |
Kærumál.
EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit.
B kærði úrskurð héraðsdóms þar
sem hafnað var að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar
tilgreind atriði í tengslum við mál B og K hf. sem rekið var fyrir héraðsdómi.
Taldi Hæstiréttur að ekki yrði séð að svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum
sem B vildi fá svarað gætu haft þýðingu við úrlausn málsins. Brystu því
skilyrði samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 til að óskað yrði eftir ráðgefandi
álits EFTA-dómstólsins í málinu. Með vísan til þessa staðfesti Hæstiréttur
niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál
þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og
Garðar Gíslason.
Sóknaraðili
skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2012 sem barst réttinum ásamt
kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4.
júní 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits
EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál sem þar er rekið
milli aðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits
EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili
krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að
leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þeim álitaefnum sem krafa sóknaraðila
lýtur að. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins
kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í
hinum kærða úrskurði er lýst efni þeirra samninga sem sóknaraðili reisir kröfur
sínar á hendur varnaraðila á og framkvæmd þeirra. Fallist er á það mat sem fram
kemur í úrskurðinum, að ekki verði séð að svör EFTA-dómstólsins við þeim
spurningum, sem sóknaraðili vill fá svarað og þar eru greindar, geti haft
þýðingu við úrlausn málsins. Brestur því skilyrði samkvæmt 1. gr. laga nr.
21/1994 til að óska ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu á þeim
spurningum. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila
verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í
dómsorði.
Dómsorð:
Hinn
kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili,
BNAP S.A.R.L., greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 250.000 krónur í
kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2012.
Í þinghaldi í máli þessu hinn 15. maí sl. lagði
lögmaður sóknaraðila fram bókun um að sóknaraðili krefjist þess, með vísan til
laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um
Evrópska efnahagssvæðið, að dómurinn leiti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í
málinu. Varnaraðili mótmælir þessari kröfu og krefst þess að henni verði
hafnað. Var ágreiningur þessi tekinn til úrskurðar að loknum munnlegum
málflutningi hinn 22. maí sl.
Fjármálaeftirlitið
ákvað hinn 9. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja
félagsstjórninni frá störfum þegar í stað og skipa bankanum skilanefnd í
samræmi við ákv. 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 128/2008.
Var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og
slitastjórn var skipuð 25. maí 2009 skv. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002,
sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. ákvæðis II til
bráðabirgða við þau lög. Innköllun til kröfuhafa birtist fyrra sinni í
Lögbirtingablaði 30. júní 2009.
Krafa
sóknaraðila samtals að fjárhæð 511.311.266 evrur, eða 86.529.222.422 krónur
miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009, ásamt nánar tilgreindum
kostnaði, byggist á hlutdeild hans í fjórum samningum, sem bera yfirskriftina
innlánssamningur (Deposit Agreement),
dags. 2. apríl, 11. apríl, 6. september og 28. september 2007. Upphaflegur
viðsemjandi varnaraðila samkvæmt samningum þessum var Deutsche
Bank AG London Branch, hér eftir nefndur Deutsche Bank, og nam höfuðstóll þeirra samtals
1.300.000.000 evrum. Í kjölfar undirritunar hvers samnings, og eftir að
varnaraðili hafði sent Deutsche Bank þar til gerða
ádráttarbeiðni (utilisation request),
var samningsfjárhæðin lögð inn á reikning hjá Deutsche
Bank í Frankfurt þar sem hún mun hafa verið nýtt í rekstur varnaraðila hverju
sinni. Deutsche Bank framseldi hluta af
heildarfjárhæð kröfunnar til annarra fjármálafyrirtækja, en krafa sóknaraðila í
máli þessu byggist á framsali til hans frá BNAP L.L.C., þess aðila sem lýsti
kröfunni við slitameðferð varnaraðila. Slitastjórn varnaraðila samþykkti
höfuðstól kröfunnar ásamt áföllnum vöxtum, en hafnaði hins vegar kröfu um
kostnað, svo og að krafan nyti forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuhafi mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar með bréfi dags. 3. desember
2010. Fyrir slitastjórn var eftir það reynt án árangurs að jafna ágreininginn.
Við svo búið beindi hún málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur samkvæmt 2. mgr. 120.
gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili
vísar til þess að skv. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins
um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, og með hliðsjón af
fyrirliggjandi dómafordæmum, beri að leita álits EFTA-dómstólsins ef ætla má að
túlkun tiltekinna ákvæða EES-samningsins eða viðkomandi gerða Evrópusambandsins
geti að einhverju eða öllu leyti breytt niðurstöðu í því ágreiningsmáli sem til
meðferðar sé. Þegar afstaða sé tekin til beiðni um að leitað verði ráðgefandi
álits sé því óhjákvæmilegt að dómari taki að einhverju leyti afstöðu til þess
hvaða þýðingu röksemdir aðila um beitingu EES-samningsins eigi að hafa. Í þessu
máli byggist málsástæður sóknaraðila að verulegu leyti á þeirri forsendu að Deutsche Bank hafi haft lagalegan og ótakmarkaðan rétt til
að semja við varnaraðila um skilmála innstæðu sinnar á árinu 2007. Varnaraðili
hafi haldið því fram að samningar þeir sem mál þetta byggist á geti ekki talist
samningar um innstæðu í skilningi laga nr. 98/1999, m.a. vegna þeirra flóknu og
ítarlegu skilmála sem um innstæður gildi. Niðurstaða þessa ágreiningsmáls geti
því að miklu leyti snúist um túlkun á orðasambandi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar
94/19/EC, þ.e. „
lánastofnun ber að endurgreiða með skilmálum er gilda
samkvæmt
samningum
“, og hvort einhverjar hömlur séu settar á möguleika
aðila til að semja um skilmála innstæðu. Nauðsynlegt sé að fá álit
EFTA-dómstólsins til að skýra framangreint ákvæði tilskipunarinnar og sé það
sérstaklega mikilvægt þegar hafðir séu í huga þeir miklu fjárhagslegum
hagsmunir sem sóknaraðili hafi af þessu máli. Séu eftirgreindar spurningar
sniðnar að máli þessu og málsástæðum beggja aðila og standi þær óháðar þeim
spurningum sem Hæstiréttur hafi sent EFTA-dómstólnum í máli sínu nr. 169/2011:
1)
Getur
innlán eða millifærsla, sem banki A greiddi til banka B og sem banki B er
skuldbundinn til að endurgreiða banka A á fyrirfram ákveðnum degi ásamt vöxtum,
sem hafa verið sérstaklega ákveðnir í skilmálum samnings (innstæðusamnings),
sem báðir aðilar töldu vera innstæðu og var skilgreint sem slíkt í
efnahagsreikningi banka B, talist vera innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr.
tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 94/19/EB frá 30. maí 1994 um
innlánatryggingakerfi?
2)
Skiptir það
máli þegar 1. spurningunni er svarað hvort skilmálar samningsins
(innstæðusamningsins) hafa verið samdir með ítarlegum hætti og að þeir
skilmálar setja ýmsar kvaðir og skyldur á herðar banka B?
3)
Skiptir það
máli þegar 1. spurningunni er svarað hvort iðgjöld hafi verið greidd til
Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna þeirra innstæðna sem greidd
voru banka B?
4)
Skiptir það
máli þegar 1. spurningunni er svarað hvort innstæðan hjá banka B hafi ekki
verið á sérstökum bankareikningi í eigu banka A?
5)
Skiptir
máli þegar 1. spurningunni er svarað hvort heimaríki bankans B hefur nýtt
heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, sbr. 1.
tölulið I. viðauka tilskipunarinnar, til að undanþiggja innstæður
fjármálafyrirtækja innstæðutryggingarvernd?
6)
Getur
innstæðusamningur, sem kveður á um endurgreiðslu innstæðu með ýmsum ítarlegum
kvöðum, sem bæði banki A og banki B telja vera innstæðu í skilningi 1. mgr. 1.
gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 94/19/EB, og var skilgreint sem
slíkt í efnahagsreikningi banka B, verið talið verðbréf sem er undanskilið
tryggingarvernd í heimaríki banka B?
Varnaraðili
vísar til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu að hún sé
allt of seint fram komin. Ágreiningsmál við slit fjármálastofnana eins og hér
um ræðir, sem rekin séu á grundvelli XXIV. kafla laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl., eigi að hafa hraðan framgang fyrir dómstólum, en sú
hafi ekki verið reyndin í þessu máli. Sóknaraðili hafi í þinghaldi hinn 5. mars
sl. sett fram kröfu um frestun málsins þar til fyrir lægi álit EFTA-dómstólsins
í máli Hæstaréttar nr. 169/2011. Þessari kröfu sóknaraðila hafi dómari hafnað
með ákvörðun hinn 15. sama mánaðar. Ekkert hafi breyst síðan þá og sé krafa
sóknaraðila nú einungis sett fram í því skyni að tefja framgang þess, en
ákveðið hefði verið að stefna að því að aðalmeðferð þess færi fram
miðvikudaginn 30. maí sl. Þá sé ljóst að verulegir annmarkar séu á þeim
spurningum sem sóknaraðili óskar eftir að verði lagðar fyrir EFTA-dómstólinn.
Þannig liggi ekkert fyrir um hvort sú forsenda sé rétt sem gengið sé út frá í
spurningu 1 að báðir samningsaðilar hafi talið að um innstæðu væri að ræða. Sé
og mótmælt þeirri staðhæfingu í spurningunni að varnaraðili hafi skráð
samninginn í efnahagsreikningi bankans sem innstæðu. Þvert á móti hafi slíkir
samningar verið skráðir sem „borrowings“.
Niðurstaða
Samkvæmt 1.
mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu
samnings um Evrópska efnahagssvæðið getur dómari í tilteknu máli, þar sem taka
þarf afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með
honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið, kveðið upp
úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því
atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta. Byggir sóknaraðili kröfu sína
um að slíks álits verði aflað í máli þessu á því að fyrrgreindir fjórir
samningar séu í raun samningar um innstæður í skilningi laga nr. 98/1999 og að
við úrlausn og túlkun á því hvort svo sé verði að taka mið af áliti
EFTA-dómstólsins um það hvernig skýra eigi hugtakið innstæða í 1. mgr. 1. gr.
tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi.
Umræddir
samningar bera allir yfirskriftina „Deposit Agreement“, en fyrir liggur að þremur síðasttöldu samningunum var skilmálabreytt í febrúar 2008
og var þá á forsíðum skilmálabreytinganna, sem bera heitið „Amendment
and restatement agreement“, vísað til samninganna sem „Facility
Agreement“ en ekki sem innlánssamninga (Deposit Agreeement). Af gögnum
verður ráðið að samningarnir hafi verið „strúktúraðir“
lánasamningar (Structured Loan
Credit Facility“ til 10
ára. Upphaflegur viðsemjandi varnaraðila samkvæmt samningum þessum var Deutsche Bank, en sá banki mun hafa framselt stóran hluta
af lánahlutdeildinni til ýmissa annarra aðila, fjármálafyrirtækja og sjóða, á
árunum 2007 til 2009. Kemur þannig fram í kröfulýsingu Deutsche
Bank til varnaraðila, vegna hlutdeildar bankans í einum samninganna, að um sé
að ræða sambankalán („... is in syndicated
format“) og að bankinn hafi framselt rétt sinn til höfuðstólsgreiðslna og vaxta
til annarra aðila sem hafi þá orðið lánveitendur samkvæmt samningnum.
Samningarnir hafa að geyma mjög ítarlega skilmála sem gögn benda til að hafi
verið samdir sérstaklega af upphaflega lánveitandanum, Deutsche
Bank. Kemur þar m.a. fram að lánveitendur samþykki að veita lántaka aðgang að
lánsheimild sem nemi samtals heildarfjárhæð lánsloforða („... the Lenders make
available to the Borrower a term loan in
an aggregateamount equal to the
Total Commitments ...“). Þá
er kveðið á um innbyggða afleiðu (Fair Value Make-Whole
Amount) þannig að samningarnir beri fasta vexti fram
að tilgreindri dagsetningu en eftir þann tíma skuli vextir verða skilyrtir og
bundnir við ávöxtun tiltekinna vísitalna (FRB-index).
Skilyrtir vextir samningsins höfðu þó ákveðið hámark og lágmark auk þess sem
innra virði afleiðunnar hafði einnig tiltekið hámark og lágmark. Voru
samningarnir og „strúktúraðir“ með þeim hætti að á
upphafsdegi var innra virði afleiðunnar í hámarki en lækkaði svo í ákveðnu
hlutfalli við ávöxtun fyrrgreindra vísitalna. Heimilt var lánveitendum að
aðskilja afleiðukröfuna frá kröfu um greiðslu höfuðstóls og vaxta, þ.e.
aðskilja afleiðuna frá lánahlutdeildinni.
Enda þótt
yfirskrift eða heiti umræddra samninga sé eins og fyrr segir „Deposit Agreement“ verður ekki
séð að annars staðar í samningunum sé vísað til þess, eða kveðið á um, að
lánveiting Deutsche Bank á grundvelli þeirra sé í
formi innláns eða millifærslu, eða að
þar komi annað fram sem styðji þá staðhæfingu sóknaraðila að um innstæðu sé að
ræða í skilning 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Þvert á móti sýnist efni og
orðfæri í þeim samningum sem kröfur sóknaraðila byggjast á, ákvæði samninganna
er lúta að tilteknum heimildum til framsals þeirra, heimild til gjaldfellingar,
skyldum varnaraðila til upplýsingagjafar gagnvart lánveitanda o.fl., vera á
þann veg að engin efni séu til við úrlausn máls þessa að leita eftir skýringu
EFTA-dómstólsins á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um
innlánatryggingakerfi. Er kröfu sóknaraðila þar um því hafnað.
Ásgeir
Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, BNAP
S.A.R.L., um að leitað verði álits EFTA-dómstólsins í þessu máli.