Hæstiréttur íslands
Mál nr. 366/2015
Lykilorð
Kynferðisbrot. Börn. Upptaka.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft í vörslum sínum samtals 34.714 ljósmyndir og 585 hreyfimyndir sem sýndu börn, eða fullorðna einstaklinga í hlutverki barna, á kynferðislegan og klámfengin hátt. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að X hafði ekki áður verið dæmdur til refsingar og að málsmeðferðin hefði tekið of langan tíma. Þá lá fyrir að sömu myndirnar og myndskeiðin komu ítrekað fyrir í málinu. Var refsing X ákveðin fangelsi í 15 mánuði en fullnustu 12 mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í tvö ár auk þess sem X var gert að sæta upptöku á umræddum ljós- og hreyfimyndum og þeim búnaði sem þær hafði að geyma.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og upptöku, en að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð og hún bundin skilorði.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði meðal annars sakfelldur fyrir vörslur á 123 ljósmyndum sem sýndu kynferðislegt ofbeldi á börnum sem fundust á hörðum diski Dell fartölvu er fannst hjá ákærða við húsleit, en hald var lagt á tölvuna og fékk hún munanúmerið 375075. Samkvæmt gögnum málsins fannst efnið í svokölluðum „Temporary Internet file“ í tölvunni. A, lögreglufulltrúi í tölvurannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, útskýrði þetta svo í vætti sínu fyrir héraðsdómi að um væri að ræða möppu sem „Internet Explorer vafrinn býr til og geymir gögn meðan hann er að birta þau á skjánum hjá viðkomandi. Síðan er þessum gögnum eytt jafnvel fljótlega eftir eða einhvern tímann seinna eftir notkunina, þegar búið er að slökkva niður á vafrann.“ Aðspurður kvað hann að ekki væri um að ræða varanlegar vörslur þegar efni væri í slíkri möppu en „allt efni sem er í Temporary Internet files, kemur þegar að viðkomandi hefur opnað vafra á einhverri vefsíðu og þessu er hlaðið niður af vefsíðunni til þess að geta birt það á skjánum.“ Samkvæmt þessu er ósannað að ákærði hafi haft vörslur á því efni sem hér um ræðir í skilningi 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, þó þannig að hafnað er upptöku framangreindrar fartölvu.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ekki verður gerð upptæk Dell fartölva með Hitachi hörðum diski (munanúmer 375075).
Ákærði, X, greiði áfrýjunarkostnað málsins 1.134.470 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 20. maí 2015.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 17. apríl sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 30. janúar 2015 á hendur ákærða; „X, kennitala [...], […], fyrir kynferðisbrot, með því að hafa föstudaginn 15. febrúar 2013, og um nokkurt skeið fram til þess dags, að […] og […], haft í vörslum sínum samtals 34.837 ljósmyndir og 585 hreyfimyndir, er sýna börn, eða fullorðna einstaklinga í hlutverki barna, á kynferðislegan og klámfenginn hátt, þar af 34.371 ljósmynd[...] og 562 hreyfimyndir að […] og 466 ljósmyndir og 23 hreyfimyndir að […].
Telst þetta varða við 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er krafist upptöku samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, á framangreindu myndefni og Toshiba hörðum diski (munaskrárnúmer 375051), Western Digital hörðum diski (munaskrárnúmer 375055), Western Digital hörðum diski (munaskrárnúmer 375057), Samsung hörðum diski (munaskrárnúmer 375066), USB minnislykli af óþekktri tegund (munaskrárnúmer 375076), USB minnislykli af óþekktri tegund (munaskrárnúmer 375078), Seagate hörðum diski (munaskrárnúmer 375056), Dell fartölvu með Hitachi hörðum diski (munaskrárnúmer 375075), turntölvu af óþekktri tegund með einum Western Digital hörðum diski og einum Seagate hörðum diski (munaskrárnúmer 374696), Business Line borðtölvu með tveimur Western Digital hörðum diskum (munaskrárnúmer 374699), Dvico TViX C-2000u lite myndbandsflakkara (munaskrárnúmer 375053), Western Digital hörðum diski (munaskrárnúmer 375085), tveimur JVC myndbandsspólum (DV) (munaskrárnúmer 375080), fjórum JVC myndbandsspólum (DV) (munaskrárnúmer 375079), Western Digital hörðum diski (munaskrárnúmer 375059), þremur CD geisladiskum af óþekktri tegund og tveimur DVD geisladiskum af óþekktri tegund (munaskrárnúmer 375087), turntölvu af óþekktri tegund með Western Digital hörðum diski (munaskrárnúmer 374698), Western Digital hörðum diski (munaskrárnúmer 375058), og sextán DVD geisladiskum af óþekktri tegund og tíu CD geisladiskum af óþekktri tegund (munaskrárnúmer 375074), allt búnaður sem myndefnið var geymt á, sem lögregla lagði hald á.“
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að allur sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og útlagður kostnaður hans, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var 15. febrúar 2013 framkvæmd húsleit á heimili ákærða að […], og á vinnustað hans að […], eftir að lögregla hafði fengið húsleitarheimild með úrskurði héraðsdóms vegna grunsemda um að ákærði hefði ætlað barnaklámefni í vörslum sínum. Á vinnustað ákærða reyndust vera þrjár borðtölvur sem allar voru tengdar við rafmagn og tölvuskjá. Við skoðun á innihaldi tölvanna á vettvangi fannst efni sem grunur lék á að væri barnaklám og voru þær haldlagðar. Í tölvu, sem fékk munanúmerið 374697, fundust samkvæmt leitarskýrslu fjölmargar ljósmyndir af nöktum börnum og unglingum í möppu sem hafði að geyma efni sem hafði verið eytt. Aðspurður á vettvangi kvaðst ákærði kannast við að hafa hlaðið þessum myndum inn í tölvuna. Við skoðun á tölvu, sem fékk munanúmerið 374698, mátti sjá á hörðum diski tölvunnar möppu sem innihélt nokkrar myndir af nöktu fólki, börnum og unglingum. Þá fundust einnig í tölvunni hreyfimyndir af nöktu fólki, bæði fullorðnum og ungmennum. Aðspurður kvaðst ákærði hafa hlaðið mörgum af þessum hreyfimyndum í tölvuna af rússneskri síðu. Í þriðju tölvunni, sem fékk munaskrárnúmerið 374699, fannst hreyfimynd af nöktum börnum hlaupandi við læk og mátti ætla að myndbandið hafi verið tekið hér á landi fyrir allmörgum árum. Aðspurður kvaðst ákærði hafi tekið upp myndbandið sjálfur og sett í tölvuna. Taldi hann að ekki væri um barnaklám að ræða heldur venjulegar fjölskyldumyndir. Við húsleitina var einnig lagt hald á harða diska, minnislykla, minniskort, myndavélakort, diska úr myndbandsupptökuvél, CD- og DVD-diska, myndbandsspólur, butterflyhníf og utanáliggjandi tölvudiska. Þá fundust einnig á verkstæðinu fjórar útprentaðar myndir af nöktum börnum. Á heimili ákærða fundust m.a. fartölva og borðtölva auk minnislykla, svo og CD-diskar, myndbandsspólur og flakkara.
Ákærði gaf skýrslur hjá lögreglu 15. febrúar 2013, 13. júní 2013 og 8. apríl 2014 og var þá m.a. borið undir hann það efni sem fannst og tilgreint er í ákæru.
Meðal málsgagna er yfirlit, dagsett 12. janúar 2015, yfir þær myndir og myndskeið sem ákærði er ákærður fyrir að hafa í vörslum sínum, sundurliðað eftir því númeri sem sá munur sem þær fundust á fékk hjá lögreglu. Þá eru myndirnar þar sundurliðaðar nánar eftir því á hvaða geisladiski, myndbandsspólu, minnislykli, tölvu, flakkara eða harða diski þær fundust. Þá er einnig tilgreindur fjöldi mynda eða myndskeiða sem fundust á hverjum mun fyrir sig og hvar viðkomandi munur fannst. Þá liggur fyrir sérstakt yfirlit þar sem fram kemur hversu margar myndir fundust á framangreindum munum og hversu margar þeirra og hverjar ákæruvald telur ekki falla undir skilgreiningu barnakláms. Eru tilgreindar myndir og myndskeið í ákæru í samræmi við þessi gögn. Þá liggur ætlað barnaklámsefni fyrir í heild sinni á rafrænu formi, m.a. á diskum og flakkar.
Fyrir liggur matsgerð B sálfræðings, sem dómkvaddur var sem matsmaður til að leggja mat á trúverðugleika ákærða, gera áhættumat, meta m.a. hvatir sakbornings og hugarfar hans til ungmenna/barna og andlegt heilbrigðisástand sakbornings. Í skýrslunni kemur m.a. fram að matsmaður hafi skilið útskýringar ákærða svo að [...]. Þá kemur fram í skýrslunni að matsmaður telji vera ljóst að matsþoli hafi kynferðislegan áhuga fyrir stúlkubörnum og að skýringar hans stangist á. Hluti þess myndefnis sem fannst í vörslum ákærða sé gróft barnaklám og augljóslega notað í kynferðislegum tilgangi. Loks telur matsmaður að ákærði hafi væga almenna kvíðaröskun en andlegt ástand hans hafi ekki áhrif á hugræna getu hans og hann skilji vel muninn á réttu og röngu. Ekkert hafi komið fram sem bendi til þroskavandamála og vandamála sem tengjast greind eða almennum skilningi.
III
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Aðspurður hvort hann kannist við að hafa verið með barnaklám í vörslum sínum kveðst hann ekki geta þrætt fyrir það þar sem það hafi fundist en það komi til af ýmsum ástæðum. Hann kvaðst, þegar húsleit var gerð, hafa verið með verkstæði að […]. Verkstæðið hafi verið rekið undir nafni Y sf. og sé hann eigandi og rekstraraðili þess félags. Hann sé rafvirki og hafi verið með rafmagnsverkstæði þar í tíu til tólf ár og hafi það einnig verið ruslageymsla. Hann hafi starfað þar einn og aðrir hafi ekki haft aðgang að verkstæðinu. Ákærði segir að honum sé ekki vel kunnugt um tölvur og tölvuvinnslu en kveðst hafa gert við tölvur fyrir aðra. Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa verið búsettur að […], ásamt þáverandi eiginkonu sinni og barnabarni. Hann kvaðst ekki hafa vitað að það væri barnaklámefni á heimili sínu en vissi að hann hafði farið inn á netið í verkstæðinu og þar hafi komið upp barnaklámefni. Á verkstæðinu hafi verið fullt af drasli, einnig diskar, sem hann hafi ekki vitað hvað var á. Bæði var þetta eitthvað sem fólk hafði komið með og eitthvað sem hann hafði hirt og ekki haft ástæðu til að skoða. Hafi efni verið eytt hafi hann ekki haft aðstæður til að komast í það. Hann hafi vitað af hluta efnisins og talið sig hafa verið búinn að eyða því. Fyrir hafi komið að hann hafi hlaðið efni niður af netinu. Þá hafi komið fyrir að það hafi „poppað upp“ vefsíður. Þetta hafi ekkert frekar átt að vera klámefni. Ákærði lýsti því að árið [...]. Þetta hafi haft slæm og djúp áhrif á hann og hafi hann verið haldinn miklu þunglyndi eftir þetta. Eitt af því sem gerðist þá er að hann varð náttúrulaus. Hann hafi rætt þetta við lækni sem hann hitti á förnum vegi sem hafi sagt honum að fara á netið og finna klámmyndir og athuga hvort þetta lagaðist ekki. Hann kvaðst ekki hafa sjálfur gert sér grein fyrir því að hann hafi verið með þunglyndi fyrr en hann fór til sálfræðings eftir að húsleitin var gerð hjá honum. Kvaðst hann telja að sú lögregluaðgerð hafi verið hreint og klárt hryðjuverk. Hann hafi skoðað eitthvað af því efni sem var á þeim síðum sem „poppuðu upp“ sem hann telji hafa verið með fullorðnum en taldi sig ekki vera með neitt efni sem væri ólöglegt. Hann kvaðst einungis kannast við að hafa séð kannski 10% af því efni sem lögreglan fann og telur að það sé að einhverju leyti margtalið. Hann kveðst ekki hafa verið að skoða þetta myndefni. Ákærði sagði netið vera fullt af þessu og það sé öllum opið, allir hafi þennan gagnabanka á bak við sig. Ákærða var bent á að efnið hafi fundist í margs konar tölvubúnaði, t.d. diskum og tölvum, og var hann spurður hvers vegna það hafi verið varslað í öllum þessum búnaði. Þessu svaraði ákærði svo að hann kannaðist ekki við að eitthvað hafi verið í fartölvunni. Hann kvaðst hafa lánað hana einhvern tímann og þá tekið út disk til að geyma sín gögn og sett annan í staðinn sem hann hafi keypt á eBay. Hann hafi ekki haft hugmynd um að það væri efni á disknum.
Þegar ákærða var bent á að meirihluti efnisins virðist vera af erlendum uppruna sagði ákærði að það væri af netinu. Ákærði kvaðst ekki hafa framleitt neitt efni sem hafi verið refsivert. Hann hafi tekið mikið af myndum, heimildarmyndir, ekki endilega af börnum, fjölskyldan að leika sér hingað og þangað. Ákærði var spurður hvort hann eigi þá t.d. við myndir af nöktum börnum að leik í [...], í sundi, í heitum potti og á lóð. Ákærði kvaðst ekki telja þetta vera refsivert og sagði þessar myndir ekki hafa verið af kynferðislegum toga. Þetta séu fjölskyldumyndir og annað slíkt. Hann kvaðst ekki geta gefið skýringu á því af hverju þetta íslenska efni hafi verið varslað á sama hátt og annað efni sem var haldlagt. Hann sagði að efnið virtist flakka á milli en hann sé ekki mjög fróður um tölvuvinnslu og hvernig hún virki. Hann kveðst hafa fengið þær leiðbeiningar að ætli hann að eyða efni þurfi hann fyrst að taka það úr tölvu og setja á disk og eyða því þannig.
Ákærða var kynntur munur nr. 375051, harður diskur af gerðinni Toshiba, er samkvæmt gögnum málsins fannst laus í hillu á verkstæðinu að […], og að á honum hafi fundist þrjár ljósmyndir og fimm hreyfimyndir sem flokkaðar séu sem barnaklám. Ákærði kvaðst ekki kannast við að það væri barnaklámefni á þessum diski. Hann kveðst kannast við diskinn og telur sig hafa átt hann en ekki vitað hvenær hann komst í hans vörslur. Hann kveðst ekki hafa vitað að öllu leyti hvað var inni á honum en hafa sett eitthvað sjálfur inn á hann, m.a. myndbrot sem hann hafi búið til.
Ákærða var kynntur munur nr. 375055, harður diskur af gerðinni Western Digital, er fannst laus á skrifstofu og á honum hafi fundist 128 ljósmyndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Aðspurður hvort hann kannist við diskinn sagði ákærði að það hafi verið fullt af svona diskum þarna inni sem hann hafi verið búinn „að hirða hingað og þangað“ og svo hafi hann fengið notaða diska af eBay. Hann kveðst aldrei hafa skoðað innihald disksins, ekki geta útskýrt af hverju barnaklám fannst á honum og ekki hafa hugmynd um það hvaðan þessi diskur kom.
Ákærða var kynntur munur nr. 375057, harður diskur af gerðinni Western Digital, er fannst laus á skrifstofu og að á honum hafi fundist 29 myndir og tvær hreyfimyndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Ákærði kvaðst ekki geta útskýrt af hverju barnaklám fannst á disknum.
Ákærða var kynnt að munur nr. 375066, harður diskur af gerðinni Samsung, er hafi fundist laus á skrifstofu og að á honum hafi fundist 24 myndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvað var á disknum eða hvernig þessi diskur komst til hans en telja að hann gæti hafa komið úr ónýtri tölvu. Hann kveðst hafa verið búinn að safna diskum saman og kallaði það söfnunaráráttu.
Ákærða var kynnt að munur nr. 375056, harður diskur af gerðinni Seagate, hafi fundist á verkstæði og á honum hafi fundist 160 myndir og ein hreyfimynd og hafi allar myndirnar verið flokkaðar sem barnaklám. Kvaðst ákærði ekki geta útskýrt af hverju barnaklámefni fannst á disknum.
Ákærða var kynnt að tveir munir nr. 374699, tveir harðir diskar af gerðinni Western Digital, hafi fundist í turntölvu sem hafi verið á gólfi undir skrifborði og á þeim hafi fundist samtals 107 myndir og 14 hreyfimyndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Ákærða var sýnd mynd af tölvunni og sagði að hann hafi verið með bókhaldið í henni og því hafi hún verið í notkun. Þegar ákærða var kynnt að í tölvunni hafi fundist barnaklámefni kvaðst hann ekki geta skýrt það og sagðist ekki hafa verið að horfa á þessar myndir. Hann kvaðst ekki vita hvernig þetta komst í tölvuna en hann gæti hafa hlaðið þetta niður en hafi ekki átt möguleika á að komast í myndirnar. Hann hafi einhvern tímann reynt það en ekki haft kunnáttu til þess.
Ákærða var kynnt að munur nr. 375053, vídeóflakkari af gerðinni Dvico TViX C-2000u lite, hafi fundist á verkstæði og í honum hafi verið 38 hreyfimyndir, sem séu að hluta til íslenskar, og 1311 ljósmyndir, og að allt þetta efni hafi verið flokkað sem barnaklám. Þá var ákærða kynnt að flakkarinn hafi verið tengdur við tölvu. Ákærði kveðst hafa átt flakkarann. Hann kannist við að hafa sett inn á hann myndir en kannist ekki við að hafa sett barnaklámefni á hann og telja að það hafi farið á hann í „einhverjum bunkum“.
Ákærða var kynntur munur nr. 375059, harður diskur af gerðinni Western Digital, er fannst laus á verkstæði og á honum hafi fundist 2308 ljósmyndir og 41 hreyfimynd sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Ákærði kvaðst ekki kannast við diskinn og sagði hann vera búinn að vera þarna lengi og sé hann búinn að „steingleyma þessu“.
Ákærða var kynntur munur nr. 374698, turntölva af óþekktri gerð, með hörðum diski af gerðinni Western Digital er fannst á skrifborði á verkstæði og var þá tengd rafmagni. Á honum fundust 1877 myndir og 26 hreyfimyndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Ákærði kvaðst hafa verið með afrit af bókhaldsgögnum í tölvunni og hafi eiginlega verið að færa það yfir í aðra tölvu. Sagði ákærði að hann hljóti að hafa sett íslenskt efni í tölvuna en það sé ekki barnaklám. Hann kvaðst ekki kannast við að þar væru 1874 ljósmyndir en sagði að vera kynni að hann hafi hlaðið þeim niður af rússneskri vefsíðu.
Ákærða var kynnt að munur nr. 375058, harður diskur af gerðinni Western Digital, hafi fundist laus á verkstæði. Þegar ákærða var kynnt að þar hafi fundist 3340 myndir og 29 hreyfimyndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám kvaðst hann ekki kannast við að þar væru íslenskar barnaklámmyndir.
Ákærða var kynnt að munir nr. 375074, 24 geisladiskar, hafi fundist á verkstæði og þeir væru allir taldir innihalda efni sem flokkað sé sem barnaklám. Ákærði sagði þetta vera eitthvað sem hann hafi verið búinn að „hreinsa út“ til að henda. Það hafi verið búið að segja honum að þá ætti hann að setja efnið á diska en hann hafi ekki verið búinn af henda þeim. Það hafi verið framtaksleysi. Hann kvaðst ekki muna hvenær hann setti þetta á diskana. Hann sagði efnið sem hann setti á diskana hafa komið af netinu í gegnum einhverja tölvu sem var nettengd, líklega þá sem var til vinstri á borðinu á verkstæðinu.
Ákærða var kynnt að munur nr. 375076, USB-minnislykill merktur [...], hafi fundist á borði í herbergi á heimili ákærða að […]. Á honum hafi fundist 44 myndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Ákærði sagði að verið gæti að þetta væri eitthvað sem hann hafi verið að taka út af tölvu og hafi átt eftir að eyða. Hann hafi líklega hlaðið þessu niður á vinnustað þar sem hann hafi ekki hlaðið efni niður heima hjá sér. Hann kvaðst ekki geta neitað því að hann hafi einnig séð eitthvert efni heima hjá sér. Hann hafi verið að rannsaka þetta, sérstaklega eftir að hafa fengið leiðbeiningar hjá Kastljósi. Þar hafi verið þáttur þar sem fram kom hvaða netsíður hægt væri að fara inn á. Hann hafi prófað síðurnar og þá hafi svona efni „poppað upp út um allt“. Aðspurður hvort hann hafi einnig hlaðið efninu niður og fært það yfir á minnislykilinn kvaðst ákærði ekki vita hvort það sé hægt að skoða það öðruvísi en með því að hlaða efninu niður. Ákærði kvaðst hafa sett efnið sjálfur á lykilinn. Aðspurður hvort hann hafi vitað að það var barnaklám á lyklinum sagði ákærði að hans skilgreining á barnaklámi væri „allt önnur“. Lögregla telji að berrassaðir krakkar sé barnaklám en það sé þröngur hópur sem haldi því fram að svo sé.
Ákærða var kynnt að munur nr. 375078, USB-minnislykill merktur [...], hafi fundist á skrifborði í herbergi á heimili ákærða og að á honum hafi fundist 167 myndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Ákærði sagði að um þennan minnislykill gildi það sama og um minnislykil merktan [...]. Þá kveðst hann mótmæla því að efnið sem fannst á honum sé barnaklám.
Ákærða var kynnt að munur nr. 375075, Dell-fartölva með diski af gerðinni Hitachi, hafi fundist í herbergi á heimili hans og á honum hafi fundist 123 myndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Ákærði kvaðst ekki hafa haft hugmynd um að efni væri í henni. Hann kvaðst eiga tölvuna. Diskurinn í henni sé ekki „orginal“ en hann hafi lánað tölvuna og þá hafi hann látið þennan disk í hana. Hann kvaðst hafa notað tölvuna mest til að reyna að búa til vídeómyndir sem hann hafi verið að taka af viðburðum. Ákærði kvaðst ekki kannast við þær myndir sem fundust í tölvunni.
Ákærða var kynnt að munur nr. 374696, turntölva af óþekktri gerð með tveim hörðum diskum, annars vegar af gerðinni Western Digital og hins vegar af gerðinni Seagate, hafi fundist í herbergi á heimili hans. Á disknum af tegundinni Western hafi fundist 39 myndir og fjórar hreyfimyndir og á diski af gerðinni Seagate 41 mynd og hafi allt þetta efni verið flokkað sem barnaklám. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa „downlodað“ einhverju vafasömu efni á tölvuna. Hann kvaðst einhvern tímann hafa verið með bókhaldið í tölvunni en tölvan hafi aldrei verið á verkstæðinu. Aðspurður hvort hann hafi keypt tölvuna nýja kvaðst hann hafa keypt kassann og sett tölvuna saman.
Ákærða var kynnt að munur nr. 375085, Western Ditigal harður diskur, hafi fundist í herbergi á heimili hans og á honum hafi fundist tvær hreyfimyndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Ákærði kvaðst ekki kannast við að barnaklámefni hafi verið á honum.
Ákærða var kynnt að munir nr. 375080, tvær myndbandsspólur, hafi fundist í herbergi á heimili hans og að á þeim hafi fundist sitthvor hreyfimyndin og að þetta sé talið barnaklámefni og talið vera íslenskt efni. Ákærði kvaðst mótmæla því að um barnaklám sé að ræða og kvaðst kannast við efnið. Fleiri úr fjölskyldunni hafi einnig verið að taka myndir. Ákærða var kynnt að þarna væru myndir teknar í [...] og kvaðst hann kannast við að hafa tekið myndir þar. Staðurinn hafi lengi verið [...].
Ákærða var kynntur munur nr. 375079, fjórar myndbandsspólur með íslensku efni sem fundust í herbergi á heimili hans. Efnið hafi verið flokkað sem barnaklám. Á þeim hafi fundist samtals 7 hreyfimyndir. Ákærði vísaði til sama svars og hvað varðar mun nr. 375080.
Ákærða var kynntur munur nr. 375087, fimm geisladiskar sem fundust á heimili ákærða. Á þeim hafi fundist samtals 77 myndir og átta hreyfimyndir sem flokkaðar hafi verið sem barnaklám. Aðspurður hvernig þetta efni hafi komist í vörslur hans kvaðst ákærði ekkert kannast við þetta. Þegar ákærða var bent á að efnið á diskunum væri talið vera erlent kvaðst hann ekkert muna eftir þessu. Aðspurður sagði ákærði að ekki væri möguleiki á því að efnið væri frá öðrum heimilismönnum.
Þá var borinn undir ákærða hluti af framburði hans frá 8. apríl 2014 þar sem fram kom að hann hafi orðið þunglyndur [...]. Niðurhalið á efninu hafi byrjað upp úr 2002 og að eftir ábendingar frá Kastljósi hafi hann farið að skoða þetta. Þessu svaraði ákærði svo að hann væri nú á lyfjum vegna þunglyndis og hafi ekki haft löngun til að fara inn á netið og leita af myndum eftir að hann byrjaði á lyfjunum.
Einnig var borinn undir ákærða sá framburður hans hjá lögreglu 15. febrúar 2013 að hann hafi verið að taka einhverjar myndir af „You Tube“ sem hann hafi ætlað að koma á framfæri við lögreglu þar sem honum hafi fundist þær vera ógeðslegar. Ákærði staðfesti þetta og sagði þetta líklega hafa verið á fleiri síðum líka, rússneskum síðum. Aðspurður hvort hann kannist við að hafa tekið þaðan barnaklámsmyndir kvaðst hann ekki hafa vitað að þetta væri barnaklám. Aðspurður af hverju hann hafi ætlað að koma þessu á framfæri við lögreglu kvaðst hann hafi verið búinn að velta því fyrir sér hvernig netinu væri háttað og þá hafi hann aðallega verið að hugsa um krakkana og unglingana, hvernig væri hægt að loka fyrir þetta. Aðspurður hvort hann hafi komið þessu á framfæri við lögreglu kvaðst hann ekki hafa verið búinn að koma því í verk en svo hafi lífsgrundvellinum verið kippt undan honum með þessari aðgerð lögreglu. Þá var borinn undir ákærða sá framburður hans hjá lögreglu að sumir söfnuðu listaverkum, málverkum, frímerkjum og öðru slíku. Honum hafi fundist þetta vera eins með mannslíkamann, bara fallegt saklaust listaverk. Ákærði kvaðst halda þessu fram. Aðspurður hvort hann hafi verið að safna myndunum af því að hann vildi eiga þær kvaðst hann telja að þetta hafi kannski verið út af sálrænum atriðum, þunglyndi eða einhverju slíku. Aðspurður á ný hvort hann hafi verið að safna myndunum kvaðst hann ekki hafa verið að safna þeim. Þær hafi komið upp, kannski í einhverjum bunkum. Honum hafi verið sama um þessar myndir þær hafi ekki höfðað til hans. Borinn var undir ákærða framburður hans þar sem hann var spurður út í myndefni sem fannst á diskum sem haldlagðir voru á verkstæði og sagði hann að um væri að ræða ofbeldisefni sem hann hafi velt fyrir sér að framvísa við lögreglu. Þetta hafi verið erlent efni sem hafi valdið honum ógleði. Ákærði kvaðst átta sig á því að það hafi þurft að koma efninu yfir á diskana og kvaðst hann kunna það. Hann hafi hins vegar ekki vitað hvernig hann ætti að snúa sér í því að koma þessu til lögreglu. Aðspurður sagði hann að diskarnir á heimili hans gætu hafa verið hluti af diskunum frá […]en kvaðst ekki kannast við að hafa verið að flakka með þá á milli. Þá sagði hann að vera kunni að hann hafi „downlodað“ þessu og hafi ætlað að skoða seinna.
Þá var borinn undir ákærða framburður hans hjá lögreglu 13. júní 2013 þar sem fram kemur að hann kannist við lítið af því myndefni sem fannst í borðtölvu af óþekktri gerð sem fannst í herbergi á heimili hans, sbr. munanúmer 374696. Einnig hafi hann þá sagt að hann hafi „downlodað“ þessu og að hann viti að þarna voru einhverjar myndir og talar um ógeðslegar klámmyndir og að það hafi verið asnaskapur af sér að vera að taka þetta niður. Staðfesti ákærði þennan framburð sinn. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna hvenær Kastljósþátturinn sem hann vísaði til áður var sýndur, en sagði að það gætu verið fimm til sex ár síðan. Ákærði sagði að í fleiri tilvikum hefðu komið fram sambærilegar leiðbeiningar í sjónvarpi. Hann kvaðst hafa byrjað með verkstæðið upp úr 2000 en það sé „ekki til lengur“. Þá sé hjónabandi hans lokið með skilnaði. Hann hafi verið að reyna að vinna og sé enn á þunglyndislyfjum. Aðspurður um það sem fram kemur í vottorði B sálfræðings um að ákærði telji sig [...]... kvaðst hann ekki hafa neinar kynferðislega hvatir og sagði að það gæti verið vegna þunglyndislyfjanna.
Vitnið C lögreglufulltrúi lýsti því að upphaf málsins hafi verið í byrjun febrúar 2013 þegar [...]. Þá kom einnig upp grunur um að ákærði væri með myndir í fórum sínum [...]. Tveimur árum fyrr hafði lögreglu einnig borist tilkynning um að grunur léki á því að ákærði væri með barnaklám í vörslum sínum. Húsleit hafi fyrst verið gerð á heimili ákærða og þar lagt hald á tölvur, diska, USB-lykla o.fl. Að því loknu var gerð húsleit á vinnustað ákærða og hald lagt á tölvur, diska o.fl. Vitnið kvaðst minnast þess að þar hafi verið fjórar eða fimm útprentaðar myndir sem sýndu nakin börn. Leitin á heimili ákærða hafi afmarkast við herbergi þar sem tölva og allur tölvubúnaður var en ekki hafi verið tilefni til að leita annars staðar í húsinu. Vitnið sagði ákærða hafa verið rólegan og samvinnufúsan en hann hafi ekki tjáð sig á vettvangi um það sem var í tölvunum. Á vinnustað ákærða hafi þeir skoðað gróflega efni í tölvu sem kveikt var á og kvaðst vitnið hafa séð þar myndir sem teknar höfðu verið í [...] af nöktum börnum. Kvaðst vitnið minna að þrjár tölvur hafi verið á borðum á vinnustað ákærða. Tvær hafi verið í gangi en slökkt á þeirri þriðju. Þar hafi einnig verið geisladiskar, CD-diskar og harðir diskar úr tölvum og hafi þetta allt verið varslað innan um hvað annað. Hvað varðar framhald rannsóknarinnar sagði vitnið að efnið sem fannst hafi allt verið skráð hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Þeir hafi svo notið aðstoðar tölvurannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem innihaldið hafi verið skoðar og skýrslur skráðar um þá skoðun. Um 35.000 myndir hafi fundist sem grunur lék á að væru barnaklám. Þá hafi fundist kringum 200 myndir sem ekki var talið að væru barnaklámefni. Það hafi tekið nokkurn tíma að fara yfir þessar myndir bæði hjá þeim og hjá tölvurannsóknardeildinni. Aðspurður sagði vitnið að ákærði hafi orðið ósáttur vegna rannsóknarinnar. Honum fannst [...] vera samsæri gegn sér og hafi hann verið farin að persónugera þetta gagnvart vitninu. Reynt hafi verið að flýta rannsókn málsins eins og hægt var.
Vitnið D yfirlögregluþjónn sagði að húsleit hafi verið gerð vegna málsins í febrúar 2013. [...]. Við leit á vinnustað ákærða fundust þrjár borðtölvur sem allar voru þá tengdar við rafmagn og tveir skjáir sem tengdir voru við a.m.k. tvær tölvur. Vitnið kvaðst hafa opnað tvær tölvur og þá séð myndefni sem hann taldi að gæti verið ólöglegt. Þá hafi verið lagt hald á mynddiska, tölvur og annan búnað til nánari skoðunar. Einnig hafi verið framkvæmd húsleit á heimili ákærða. Vitnið sagði ákærða hafi verið samvinnufúsan. Á vinnustaðnum sagði ákærði þeim að einhverjar af myndunum hefði hann hlaðið niður af internetinu en aðrar væru komnar frá honum sjálfum, væru mannlífsmyndir. Aðspurður hvort tafir hafi orðið á rannsókn málsins sagði vitnið að um mikið myndefni hafi verið að ræða. Á sama tíma hafi framangreindar kærur einnig verið til rannsóknar. Kvaðst vitnið telja að menn hafi haldið sig vel að verki og engar tafir orðið en lítið hafi verið hægt að vinna í málinu á […] meðan beðið var gagna frá tölvurannsóknardeild.
Vitnið E, sérfræðingur í tölvurannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði að ekki væri almennt hægt að telja tímasetningar skráa í tölvum mjög áreiðanlegar. Nokkrir þættir geti haft áhrif á tímasetningar. Sem dæmi má nefna hvort tímasetning hafi verið rétt við uppsetningu tölvu, hvort henni hafi verið breytt, hvort tölva hafi verið sett á rétt tímabelti þegar skrá var vistuð niður o.s.frv.
Vitnið A lögreglufulltrúi sagði aðspurður um það hvað sé átt við með því að myndir hafi fundist í Temporary Internet File að um sé að ræða möppu sem Internet Explorer vafrinn búi til og geymi á meðan verið er að birta myndir hjá viðkomandi en eyði þeim þegar búið er að slökkva á vafra. Hægt sé að nýta sér dagsetningar í skránum, ef tíminn er réttur í tölvunum, til að sjá hvenær þetta hefur verið opnað. Þessar dagsetningar geti líka sagt til um það hvenær myndirnar voru búnar til annars staðar. Vitnið sagði Temporary Internet File ekki vera varanlegar vörslur. Skráin komi þegar viðkomandi hefur opnað vafra á einhverjum vefsíðum og hlaðið efni niður af vefsíðu til að geta birt á skjánum. Vitnið staðfesti skýrslur sem það vann vegna málsins og sagði að þær tímasetningar sem fram koma í gögnunum séu dregnar úr gögnunum og hafi tölvurnar skráð þær á sínum tíma og gildi um þær áðurnefndur fyrirvari. Ekki hafi verið gengið úr skugga um það hvort þessar tímasetningar væru réttar og hafi tölvum ekki verið startað upp til að kanna þetta.
Vitnið B, sálfræðingur og dómkvaddur matsmaður, staðfesti matsgerð sína fyrir dómi. Hann kvaðst hafa unnið mat á ákærða úr þeim gögnum sem hann hafði, auk þess sem hann ræddi einu sinni við ákærða og lagði fyrir hann sálfræðipróf og tók geðgreiningarviðtal. Vitnið sagði ákærða hafa komið ágætlega fyrir, verið kurteis og samvinnufús og sagt vel frá en hann hafi verið reiður út af þessu máli. Aðspurður um mat sitt á trúverðugleika ákærða kvaðst hann hafa farið yfir gögnin og lagt fyrir ákærða sálfræðipróf og gefið honum kost á að útskýra sitt mál. Á sálfræðiprófinu hafi komið fram væg fegrun sem sé algeng en ákærði hafi ekki reynt að blekkja á persónuleikaprófinu. Útskýringar hans á málinu hafi verið ótrúverðugar og í engu samræmi við það sem kemur fram í gögnum. Taldi vitnið að engin skynsemi hafi verið í þeim, miðað við gögnin sem hann hafði og upplýsingar úr viðtalinu við ákærða. Varðandi [...] og útskýringar á því hvernig efnið kom í tölvurnar kvaðst vitnið ekki átta sig á þessum tengingum hjá ákærða. Þá viti hann ekki hvað ákærði eigi við með [...]. [...].
Vitnið kveðst telja að ákærði hafi barnagirnd. Það byggi hann á áhættumati, á viðtali við ákærða og á myndum í tölvum ákærða af stúlkum undir kynþroskaaldri. Ákærði skýri þetta út frá [...]... [...] en það standist ekki. Vitnið sagði ákærða hafa lengi átt erfitt andlega. [...]. Ákærði hafi alltaf verið félagslyndur og hafi alltaf staðið sig í vinnu en þunglyndi og kvíði hafi verið undirliggjandi. [...] hafi verið áfall fyrir ákærða og virðist sem honum hafi versnað í framhaldi af honum. Ákærði talar um að hafa þá orðið náttúrulaus en það sé oft þunglyndiseinkenni. Ákærði sé ekki með alvarlegan geðrofssjúkdóm eða geðsjúkdóm og ekkert bendi til þess að refsing ákærða geti ekki borið árangur. Þá hafi vitnið ekki orðið vart við eftirsjá hjá ákærða vegna varsla á barnaklámi. Ekkert hjá ákærða bendi til þess að hugur hans standi til karlmanna eða ungra drengja og neiti hann slíkum áhuga. Þá hafi hann lítinn áhuga haft á konum. [...]. Áhugi ákærða snýr að stúlkum, að því er vitnið best viti, en geti aldrei útilokað annað. Þegar barnagirnd er skoðuð sé skoðað hvar aðaláhuginn er en svo getur annað einnig komið inn í.
IV
Ákærði neitar sök. Honum er gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum 34.837 ljósmyndir og 585 hreyfimyndir er sýna börn, eða fullorðna einstaklinga í hlutverki barna, á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Hann kannast við að hafa haft í vörslum sínum þá muni sem ætlaðar barnaklámmyndir fundust á en kveðst ekki muna eftir þeim öllum. Þá hafi ásetningur ákærða ekki staðið til þess að vera með barnaklámefni í vörslum sínum. Þeir diskar sem hann hafi verið með í umráðum sínum séu frá öðrum komnir, gegnum eBay eða til viðgerðar. Um sé að ræða gáleysi og verði honum ekki refsað fyrir það. Hann byggir vörn sína á því að ekki sé um barnaklámefni að ræða í skilningi hegningarlaga, myndanna hafi ekki verið aflað í kynferðislegum tilgangi og hann hafi ekki í öllum tilvikum verið meðvitaður um að efnið væri varslað í tölvubúnaði hans. Af hálfu ákærða er byggt á því að stór hluti efnisins falli undir efni sem kalla mætti „nudist“ og sé þar bæði um að ræða íslenskar og erlendar myndir, bæði ljósmyndir og hreyfimyndir, t.d. teknar á baðströnd og sýni bæði börn og fullorðna að leik eða uppstillt. Þetta telji ákærði ekki vera barnaklámefni. Þá byggir hann vörn sína á því að sömu myndir komi ítrekað fyrir aftur og aftur og að ekki beri að telja myndir oftar en einu sinni komi þær fyrir oftar. Loks byggir ákærði á því að einhvers konar réttarvörslusjónarmið hafi ráði söfnun hans á myndunum og hafi hann ætlað að koma þeim á framfæri við lögreglu en ekki vitað hvernig hann ætti að snúa sér í því og hafi því ekki látið af því verða.
Með lögum nr. 58/2012 var ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um barnaklám breytt í það horf sem nú er í 210. gr. a. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal hver sá sem framleiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef brot er stórfellt. Sama gildir um ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna einstaklinga 18 ára og eldri á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, enda séu þeir í hlutverki barns, eða ef líkt er eftir barni í slíku efni þó að það sé ekki raunverulegt, svo sem í teiknimyndum eða öðrum sýndarmyndum. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, skal hver sá sem skoðar myndir, myndskeið eða aðra sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni sæta sömu refsingu og greinir í 1. mgr. Samkvæmt greinargerð sem fylgdi frumvarpi sem varð að lögum nr. 58/2012 voru breytingarnar gerðar í tilefni af fyrirhugaðri fullgildingu á samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun. Með frumvarpinu var svokölluð barngerving gerð refsiverð, þ.e. þegar efni sýnir einstaklinga 18 ára og eldri á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, enda séu þeir í hlutverki barns, sbr. 1. mgr. 210. gr. a. Ákvæði 2. mgr. sæki fyrirmynd til f-liðar 1. mgr. 20. gr. framangreinds samnings og er byggt á ákvæði danskra hegningarlaga um sama efni. Gangi það lengra en áðurgildandi 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga sem gerði ráð fyrir því að refsiábyrgð stofnaðist ekki nema í þeim tilvikum þar sem barnaklámefnis hefur verið aflað, t.d. með niðurhali eða við svokallaða vistun í tímabundnum skrám í tölvu viðkomandi.
Efnið sem ákærði er ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum fannst, eins og greinir í ákæru, á tveim stöðum, annars vegar í einu herbergi á heimili ákærða og hins vegar á verkstæði hans. Samtals var um að ræða fjórar tölvur sem allar voru tengdar við rafmagn auk fartölvu. Ákærði sagði eina tölvu á verkstæði hafa verið nettengda og þar hafi hann hlaðið niður efni af netinu.
Eins og rakið er hér að ofan byggir ákvæði 1. mgr. 210. gr. a. á því að efni teljist vera barnaklám þegar það sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Nánari skilgreiningu á hugtakinu er ekki af finna í greinargerð með ákvæðinu. Í áðurgildandi ákvæði um barnaklám sem var í 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga var einnig notað þetta sama orðalag „að sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt“. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 126/1996 þegar ákvæði 4. mgr. 210. gr. var lögfest kemur fram skilgreining á því hvað átt sé við með þessum orðum. Þar segir að með þessu sé átt við kynferðislega lýsingu (ásýnd) sem virki stuðandi eða er á annan hátt til þess fallin að vera lítillækkandi eða niðrandi, þar með taldar kynferðislegar lýsingar með notkun barna, dýra, ofbeldis, þvingunar og kvalalosta. Eðlilegar nektarmyndir af börnum falli utan gildissviðs ákvæðisins.
Efnið sem ákærði var með í vörslum sínum er á ýmsa vegu en aðallega er um að ræða efni með stúlkum á öllum aldri. Að hluta er um mjög gróft efni að ræða sem sýnir ýmist fullorðna einstaklinga beita börn kynferðislegu ofbeldi eða börn að hafa kynmök sín á milli. Nokkrar myndanna verður að flokka sem barngervingu eins og það hugtak er skýrt í 1. mgr. 210. gr. a. Þá er um að ræða myndir sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, oft nakin en einnig að einhverju leyti klædd eða með fylgihluti þannig að tilgangur myndatökunnar er augljós og börnunum oft stillt upp á kynferðislegan hátt. Í sumum tilvikum er um að ræða myndasyrpur sem sýna í upphafi stúlkur í fötum sem þær síðan fækka eftir því sem líður á syrpurnar og enda þær í flestum tilvikum naktar og jafnvel í kynferðislegum stellingum eða athöfnum. Virðast myndirnar þjóna þeim tilgangi að byggja upp kynferðislega örvun þess sem á myndirnar horfir. Að mati dómsins uppfylla allar myndir í slíkum myndaseríum skilyrði 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga, einnig þær myndir þar sem stúlkurnar eru klæddar, vegna þeirrar heildar sem myndaseríurnar mynda.
Loks er um að ræða þær myndir sem af hálfu ákærða er vísað til sem „nudist“ myndir. Um er að ræða bæði íslenskar og erlendar ljósmyndir og hreyfimyndir af nöktum börnum að leik. Sem dæmi um slíkar myndir má nefna erlendar myndir sem teknar eru á baðströndum og myndir sem bera með sér að hafa verið teknar hér á landi á góðviðrisdögum og sýna börn að leik utandyra, í vatni eða læk, og í heitum potti. Myndirnar virðast í mörgum tilvikum vera teknar án þess að börnin geri sér grein fyrir því. Þá virðist myndavélinni aðallega vera beint að þeim börnum sem eru nakin og virðist reynt að hafa kynfærasvæði barnanna sem mest í mynd. Telur dómurinn að með myndatökunum séu saklausir leikir barna notaðir til að búa til efni sem telja verður eins og á stendur að sýni börnin á kynferðislegan eða klámfenginn hátt vegna þeirrar athygli sem nekt þeirra og kynfæri fá. Framangreind orð greinargerðar sem fylgdi eldra ákvæði um „eðlilegar nektarmyndir“ af börnum verður á engan hátt talið ná yfir þessar myndir, enda er í flestum tilvikum um erlendar myndir að ræða af börnum sem ákærði hafði engin tengsl við. Einnig er til þess að líta að myndirnar voru af hálfu ákærða varslaðar meðal annarra mynda sem ótvírætt falla undir það að vera gróft barnaklám, í sumum tilvikum áratugum eftir að myndirnar voru teknar, og ætla verður að söfnun þessara mynda fari fram á sömu forsendum og þeirra mynda sem ótvírætt eru flokkaðar sem barnaklám. Ákærði hefur viðurkennt að hafa tekið einhverjar af þessum íslensku myndum. Hann byggir vörn sína á því að í dag séu breytt viðhorf til þess að taka myndir af nöktum börnum. Þetta hafi þótt eðlilegt á þeim tíma sem myndirnar voru teknar þó að svo sé ekki í dag. Ákærði er ákærður fyrir að hafa varslað myndirnar í febrúar 2013. Við mat á refsinæmi verknaðar verður ekki litið til þeirra sjónarmiða sem voru við lýði þegar myndirnar voru teknar heldur litið til þeirra lagaákvæða sem giltu þegar myndirnar fundust hjá ákærða og rakin voru hér að framan.
Með vísan til framangreinds telur dómari að allar þær myndir og myndskeið sem ákærði er ákærður fyrir að hafa í vörslum sínum falli undir hugtakið barnklám í 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga.
Framburður ákærða hefur verið nokkuð misvísandi hvað varðar vitneskju hans um refsinæmi þess að varsla efni sem flokkast sem barnaklám. Annars vegar hefur hann sagt að hann hafi ekki vitað að slíkt varðaði refsingu og hins vegar að hann hafi horft á umfjöllun um efnið í fjölmiðlum og í kjölfar þess íhugað að benda lögreglu á slíkt efni. Þannig hafi einhvers konar réttarvörslusjónarmið ráðið söfnun hans á myndunum. Með hliðsjón af þessu metur dómurinn það ótrúverðugt að ákærði hafi ekki haft vitneskju um að varsla efnisins varðaði við lög. Þá leiðir skortur á vitneskju um refsinæmi ekki einn og sér til refsileysis. Einnig er því hafnað að sú skoðun ákærða að svokallað „nudist“ efni falli ekki undir ákvæðið eigi að leiða til sýknu hvað það efni varðar. Vísar dómurinn til þess hvernig efnið var varslað og þess sem komið hefur fram af hálfu ákærða um áhuga hans á líkama stúlkna. Þá getur einstaklingsbundið mat ákærða á því hvað teljist vera barnaklámefni, í andstöðu við viðteknar skoðanir almennt og almenna túlkun á hugtakinu barnaklám, og án fullnægjandi rökstuðnings, ekki leitt til sýknu eða refsileysis. Þá hafnar dómurinn því sem ótrúverðugu að söfnun myndanna hafi farið fram í þeim tilgangi að koma þeim á framfæri við lögreglu en málsgögn bera með sér að þeim hafi verið safnað í fjölda ára.
Af framlögðum gögnum er ljóst að í mörgum tilvikum er um sömu myndir og myndskeið að ræða sem eru tví- og jafnvel margtaldar í ákæru. Dómurinn lítur svo á að við á mat á umfangi sakarefnis beri að miða við fjölda mynda óháð því hversu oft sömu myndirnar komi fyrir. Þá verður litið til fjölda hreyfimynda óháð tímalengd þeirra.
Ákærði lýsti því fyrir dómi að hann sé rafvirki og hafi um árabil rekið rafverkstæði þar sem hann hafi m.a. tekið til viðgerðar tölvur annarra. Þá lýsti hann því að hann hafi sjálfur sett saman eina af þeim tölvum sem var haldlögð. Einnig kom fram hjá honum að hann notaði netið og hafi m.a. halað niður efni þaðan, og fært efni yfir á diska, minnislykla og flakkara. Þrátt fyrir að ákærði hafi sjálfur sagt að hann hefði litla kunnáttu á þessu sviði má af framburði hans ráða að hann hafi haft þá grunnkunnáttu sem þarf til að leita að efni á netinu og varsla í samræmi við það sem greinir í ákæru.
Fyrir liggur að myndefnið fannst í vörslum ákærða. Hann hefur að mestu viðurkennt vörslur efnisins. Þá liggur fyrir matsgerð og framburður dómkvadds matsmanns, B sálfræðings, þar sem fram kemur að kynferðislegur áhugi ákærða sé aðallega á stúlkum undir kynþroskaaldri. Ákærði hefur viðurkennt að hafa leitað að klámefni á netinu, að hafa hlaðið því niður en hafi ekki verið búinn að kynna sér það allt og sagt að efnið hafi virkað róandi á hann. Jafnframt sagði ákærði í framburði sínum að þeir munir sem myndirnar sem fundust á heimili hans voru á geti ekki stafað frá öðrum en honum og að aðrir hafi ekki haft aðgang að verkstæði hans. Þá var vörslum efnisins í flestum tilvikum þannig háttað að tilverknað ákærða þurfti til að koma því þannig fyrir. Allar myndirnar voru varslaðar á sambærilegan hátt á heimili ákærða og á vinnustað hans. Þær voru annars vegar varslaðar í tölvum sem voru í notkun og hins vegar á hörðum tölvudiskum, USB-lyklum, geisladiskum, CD-diskum eða myndbandsspólum. Aðstæður hjá ákærða og fjöldi mynda sem fundust og flokkaðar hafa verið sem barnaklám bera með sér að hann hafi verið að safna þeim. Einnig voru aðstæður fyrir ákærða til að skoða myndir á þessum tveim stöðum sem þær fundust á. Ákveðið samræmi er í innihaldi efnisins, þ.e. megináherslan á stúlkur en mun minni á drengi. Einungis um 200 af þeim myndum sem fundust hjá ákærða við rannsókn málsins voru ekki talin vera barnaklám sem bendir til þess að ákærði hafi ekki varslað almennar fjölskyldumyndir á sömu stöðum. Ákærði kvaðst telja að til að eyða efni þyrfti að færa það yfir á disk og eyða disknum. Einnig bar hann um að hafa verið búinn að færa efni yfir á diska. Þá fannst lítið sem ekkert klámefni með fullorðnum á þeim diskum sem fundust, þrátt fyrir að ákærði hafi sagt að hann hafi aflað þess. Dómurinn dregur ekki í efa þann framburð ákærða að hann hafi fengið tölvubúnað frá öðrum en metur ótrúverðugan þann framburð ákærða að hann hafi ekki vitað af efni á þeim munum sem voru haldlagðir. Því til stuðnings er vísað bæði til þeirra staða þar sem efnið fannst og þess samræmis sem var í öllu efninu og hefur áður verið lýst, og áhuga ákærða á stúlkum. Þá er á engan hátt hægt að fallast á að efnið sé að einhverju leyti komið í vörslur ákærða af tilviljun með munum frá öðrum þannig að um gáleysi ákærða sé að ræða. Ákærði hefur viðurkennt að hafa hlaðið niður efni sem hann hafi ætlað sér að skoða síðar og virtist almennt láta sér í léttu rúmi liggja hvaða efni það var. Hvað varðar efni sem ákærði telur að hafi komið frá öðrum með mununum þá er til þess að líta að annars vegar var um að ræða diska í tölvum sem ákærði notaði sjálfur og hins vegar muni sem hann geymdi ásamt öðrum munum sem innihéldu barnaklámsefni og efni sem hann kannaðist við. Með vísan til þess er framburður ákærða um að hann hafi af þessum sökum ekki vitað af efni ótrúverðugur. Þá er það mat dómsins að það efni sem búið var að eyða en tókst að endurheimta við rannsókn lögreglu hafi einnig verið í vörslum ákærða þar sem kalla megi það fram aftur. Þá er einnig hvað það varðar vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 273/2003 frá 22. janúar 2004.
Dómurinn skilur ákærða svo að hann byggi vörn sína einnig á því að [...]. Ekki fengust fyrir dómi fullnægjandi útskýringar frá ákærða á þessari vörn hans. Með hliðsjón af því sem fram kemur í framburði ákærða hjá lögreglu og því sem haft er eftir honum í matsgerð dómkvadds matsmanns er helst að skilja það svo að [...]. Dómurinn hefur engar forsendur til að draga í efa að svo sé ástatt fyrir ákærða. Ákærði telur hins vegar að áhugi hans á myndum af stúlkubörnum [...] og að áhuginn beinist að mannslíkamanum sem einhvers konar listaverki. Dómari telur að rökrétt samhengi skorti fyrir þessum skýringum ákærða og er þá sérstaklega vísað til þess að hluti efnisins er gróft efni sem sýnir fullorðna karlmenn beita börn kynferðislegu ofbeldi. Með framangreindum skýringum sínum byggir ákærði engu að síður á því að hann hafi áhuga á því myndefni sem hann er ákærður fyrir að varsla.
Eins og rakið er hér að framan er í 1. og 2. mgr. 210. gr. a. gerður greinarmunur á því hvort efni sé varslað eða skoðað. Ákærði er einungis ákærður fyrir vörslur efnisins og byggir ákæruvaldið á því að það efni sem fannst í Temporary Internet File hafi einnig verið í vörslum hans. Framburður A lögreglufulltrúa um að efni sem þar fannst hafi hlaðist sjálfkrafa niður þegar viðkomandi skoðaði það bendir til þess að tölvan hafi búið til skrá við þá skoðun. Í greinargerð með ákvæði 210. gr. a. segir að gert sé ráð fyrir að 1. mgr. ákvæðisins taki mið að áðurgildandi 4. mgr. 210. gr. utan atriða sem þar eru sérstaklega talin upp. Verður ákvæðið því skýrt svo að tímabundnar vörslur séu taldar falla þar undir eins og var í 4. mgr. 210. gr. Með hliðsjón af því túlkar dómurinn það svo að efni sem finnist í Temporary Internet File falli undir hugtakið vörslur í 1. mgr. 210. gr. a.
Loks er til þess að líta að gögn málsins bera með sér að myndirnar hafi verið stofnaðar og skoðaðar á löngu tímabili þrátt fyrir að ekki sé, eins og fram kom í framburði E sérfræðings og A, hægt að fullyrða með vissu um það hvort tímasetningar séu réttar. Engu að síður telur dómurinn með vísan til þess nægilega leitt í ljós að myndirnar hafi verið í vörslum ákærða um nokkurt skeið, eins og greinir í ákæru, fram til þess dags er húsleitin var gerð.
Samkvæmt framangreindu er það mat dómsins að ákærði hafi haft vörslur þess efnis sem lýst er í ákæru og það efni telst vera barnaklám í skilningi 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga. Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið telur dómurinn að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru og er háttsemin þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
V
Ákærði er fæddur árið […]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann ekki áður verið dæmdur til refsingar og er litið til þess við ákvörðun refsingar ákærða auk þess sem að einhverju leyti er litið til aldurs hans. Þá er einnig litið til þess mikla magns efnis er fannst í vörslum ákærða og að hluta þess verður að telja að sé mjög gróft efni. Telst því brot hans vera stórfellt í skilningi 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga.
Rannsókn málsins hófst í febrúar 2013 og um tveimur árum seinna, 30. janúar 2015, var gefin út ákæra vegna málsins. Við aðalmeðferð málsins var skilmerkilega rakið af hálfu ákæruvalds hvernig meðferð málsins gekk fyrir sig á þessum tíma og gerð grein fyrir því [...]...[...]. Engu að síður verður að gera þá kröfu að meðferð mála sem þessara hjá lögreglu og ákæruvaldi verði lokið á mun skemmri tíma. Ákærða verður á engan hátt kennt um það hversu langan tíma málsmeðferðin tók. Þrátt fyrir að dómurinn hafi hafnað því að taka tillit til þess við mat á umfangi brots ákærða að sömu myndir og myndskeið komi ítrekað fyrir telur dómurinn rétt að hafa þetta í huga við ákvörðun refsingar ákærða. Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsingunni og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Í ákæru er með vísan til 1. og 2. töluliðar 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, gerð krafa um upptöku á nánar tilgreindum munum sem haldlagðir voru við húsleit lögreglu. Með vísan til framangreindra lagaákvæða er fallist á kröfuna eins og nánar er rakið í dómsorði.
VI
Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, samtals 1.209.796 krónur. Til sakarkostnaðar teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., sem eru hæfilega ákveðin 900.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts, einnig útlagður kostnaður verjandans, 48.213 krónur, og annar sakarkostnaður er til féll við rannsókn málsins samkvæmt yfirliti, samtals 261.583 krónur.
Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála. Af hálfu dómara og aðila var ekki talin þörf á því að málið yrði flutt að nýju.
Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Daði Kristjánsson saksóknari.
Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsingunni og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Upptækt er gert til ríkissjóðs 34.837 ljósmyndir og 585 hreyfimyndir sem sýna börn, eða fullorðna einstaklinga í hlutverki barna, á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, Toshiba harður diskur (munaskrárnúmer 375051), Western Digital harður diskur (munaskrárnúmer 375055), Western Digital harður diskur (munaskrárnúmer 375057), Samsung harður diskur (munaskrárnúmer 375066), USB-minnislykill af óþekktri tegund (munaskrárnúmer 375076), USB-minnislykill af óþekktri tegund (munaskrárnúmer 375078), Seagate harður diskur (munaskrárnúmer 375056), Dell-fartölva með Hitachi hörðum diski (munaskrárnúmer 375075), turntölva af óþekktri tegund með einum Western Digital hörðum diski og einum Seagate hörðum diski (munaskrárnúmer 374696), Business Line borðtölva með tveimur Western Digital hörðum diskum (munaskrárnúmer 374699), Dvico TViX C-2000u lite myndbandsflakkari (munaskrárnúmer 375053), Western Digital harðar diskur (munaskrárnúmer 375085), tvær JVC-myndbandsspólur (DV) (munaskrárnúmer 375080), fjórar JVC-myndbandsspólur (DV) (munaskrárnúmer 375079), Western Digital harður diskur (munaskrárnúmer 375059), þrír CD-geisladiskar af óþekktri tegund, tveir DVD-geisladiskar af óþekktri tegund (munaskrárnúmer 375087), turntölva af óþekktri tegund með Western Digital hörðum diski (munaskrárnúmer 374698), Western Digital harður diskur (munaskrárnúmer 375058), sextán DVD-geisladiskar af óþekktri tegund og tíu CD-geisladiskar af óþekktri tegund (munaskrárnúmer 375074).
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 1.209.796 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 900.000 krónur, og útlagðan kostnað verjandans, 48.213 krónur.