Hæstiréttur íslands

Mál nr. 652/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. desember 2006.

Nr. 652/2006.

Ákæruvaldið                                       

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C-liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur í máli hans væri að líða eða allt til miðvikudagsins 10. janúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var varnaraðila 11. desember 2006 með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi til 19. desember 2006. Hafði hann þá játað fyrir dómi að hafa aðfararnótt 11. desember brotist inn í tvær bifreiðar og stolið hleðslutæki fyrir farsíma úr annarri þeirra. Varnaraðili hafði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli sama ákvæðis frá 2. október til 1. nóvember 2006, er Hæstiréttur í máli nr. 566/2006 felldi úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness 27. október 2006, þar sem gæsluvarðhaldsvist varnaraðila hafði verið framlengd til 24. nóvember 2006. Nú liggur fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi enn haldið áfram afbrotum sem varðað geta fangelsisrefsingu eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi 1. nóvember. Með vísan til þess þykir skilyrðum c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fullnægt og verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. janúar 2007 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2006.

Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 líður, eða allt til miðvikudagsins 10. janúar 2007 kl. 16:00.

Dómfelldi krefst þess að kröfunni verði hafnað.

Með dómi í sakamáli nr. S-1412/2006 á hendur dómfellda, uppkveðnum í dag, var honum gert að sæta fangelsi í 20 mánuði fyrir þjófnað, gripdeild, nytjastuld, umboðssvik, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Við uppkvaðningu dómsins tók dómfelldi sér frest til að taka afstöðu til áfrýjunar.

Dómfelldi hefur á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og vegna gruns um þau brot sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir og gruns um að hann hafi framið tvö brot til viðbótar nú í desember, sætt gæsluvarðhaldi frá 11. desember sl. til dagsins í dag. Upphaflega var dómfellda með úrskurði 2. október sl. gert að sæta gæsluvarðhaldi til 9. október sl. kl. 15:00 en með úrskurði þann dag var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi til 27. október sl. kl. 16:00 og loks var dómfellda með úrskurði 27. október sl. gert að sæta gæsluvarðhaldi til 24. nóvember sl. kl. 15:00. Síðastgreindur úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 566/2006.

Samkvæmt ákvæðum 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laganna stendur.

Eins og áður er rakið var dómfelldi fyrr í dag dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir áðurtilgreind brot og hefur nú tekið sér lögmæltan áfrýjunarfrest. Með vísan til alls framanritaðs þykja enn eiga við þau sjónarmið að veruleg hætta sé á að dómfelldi haldi áfram auðgunarbrotum, sbr. ákvæði c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, og verður því krafa lögreglustjórans í Hafnarfirði tekin til greina eins og hún er fram sett.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Dómfelldi, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur líður eða allt til miðvikudagsins 10. janúar 2007 kl. 16:00.