Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2007


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Uppsagnarfrestur
  • Skaðabætur
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


         

Fimmtudaginn 31. janúar 2008.

Nr. 224/2007.

J.H.S. ehf.

(Garðar Garðarsson hrl.)

gegn

Lýsi hf.

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

 

Verksamningur. Uppsagnarfrestur. Skaðabætur. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

 

J ehf. hafði frá 1996 annast í verktöku vinnslu á fiskhausum og hryggjum í fasteignum L hf. og með vélum og tækjum síðargreinda félagsins en aðilar voru  sammála um að komist hefði á munnlegur samningur um þetta samstarf. L hf. sagði þessum samningi upp með eins mánaðar fyrirvara. J ehf. taldi að uppsagnarfrestur samningsins hefði verið sex mánuðir og krafðist skaðabóta vegna fjártjóns sem hlotist hefði af því að samningnum hefði verið slitið með of skömmum fyrirvara. Á það var fallist með félaginu að hinn munnlegi samningur hefði verið í samræmi við skrifleg drög að samningi milli aðila frá 1996, að frátöldum breytingum á greiðslufyrirkomulagi sem gerðar höfðu verið 1999, en í drögunum hafði verið gert ráð fyrir sex mánaða uppsagnarfresti. Hefði L hf. ekki fært sönnur á að hinum munnlega samningi hefði verið breytt árið 1999 í samræmi við efni annarra samningsdraga þar sem uppsagnarfresturinn var styttur í tvo mánuði. Þá var ekki talið að L hf. hefði verið heimilt að stytta einhliða umsaminn uppsagnarfrest með þeim rökum að hann teldi að J ehf. hefði í hyggju að hefja samkeppni við sig. Því yrði að leggja til grundvallar að J ehf. hefði átt rétt til sex mánaða uppsagnarfrests. Hins vegar var ekki fallist á að félagið hefði lagt fram nægileg gögn um fjártjón sitt svo hægt væri að fella efnisdóm á kröfu þess og var málinu því vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2007. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 19.700.608 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. september 2005 til 7. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram hófu áfrýjandi og Hnotskurn ehf., sem síðar var sameinað stefnda, samstarf í ársbyrjun 1996 um þurrkun á fiskhausum og hryggjum í fasteignum stefnda í Þorlákshöfn og með vélum og tækjum hans. Stefndi sagði upp samningi um þetta við áfrýjanda 3. ágúst 2005 með eins mánaðar fyrirvara.

Deila málsins lýtur einkum að því hvort stefndi hafi bakað áfrýjanda bótaskylt tjón með því að segja upp fyrrnefndum samningi með of skömmum fyrirvara en áfrýjandi heldur því fram að hann hafi átt rétt til sex mánaða uppsagnarfrests.

Við upphaf samstarfsins sendu fyrirsvarsmenn Hnotskurnar ehf. áfrýjanda drög að verksamningi á milli þeirra um fyrrnefnda fiskþurrkun. Í framburði fyrirsvarsmanna beggja aðila fyrir héraðsdómi kemur fram að drögin hafi verið send áfrýjanda en þau „dagað uppi“. Aðilar eru sammála um að komist hafi á munnlegur verksamningur á milli þeirra árið 1996. Þá greinir hins vegar á um hvort hinn munnlegi samningur hafi verið sama efnis og fyrrnefnd samningsdrög. Ágreiningur þeirra um málsatvik lýtur einkum að því hvort ákvæði 8. gr. samningsdraganna hafi orðið hluti af hinum munnlega verksamningi en þar segir að samningnum megi segja upp með sex mánaða fyrirvara.

Áfrýjandi staðhæfir að hinn munnlegi verksamningur hafi verið sama efnis og samningsdrögin. Þessu mótmælir stefndi. Óumdeilt er hins vegar að hinn munnlegi samningur hafi tekið breytingum 1999, en þá var ákveðið að áfrýjandi skyldi fá í sinn hlut 32,5% af verðmæti vöru hvers gáms við verksmiðjuvegg en samhliða þessu tók hann til viðbótar að sér að sjá um á sinn kostnað söfnun og flutning á hráefni til vinnslunnar frá Reykjavík, Reykjanesi og Suðurlandi.

Stefndi hefur ekki sýnt fram á að ákvæði samningsdraganna hafi verið í ósamræmi við framkvæmd á hinu munnlega samkomulagi þegar frá eru taldar fyrrnefndar breytingar sem óumdeilt er að gerðar voru 1999. Þegar til þess er litið að verk­samningurinn fól í sér viðvarandi og gagnkvæmt kröfuréttarsamband var brýnt að samið yrði um hvernig því yrði lokið og var ákvæði samningsdraganna um uppsögn því eðlilegur efnisþáttur verksamningsins. Þegar framangreint er virt verður talið að umrædd samnings­drög feli í sér lýsingu á inntaki þess munnlega samnings sem gerður var á milli aðila 1996 að frátöldum fyrrnefndum breytingum 1999.

 Stefndi byggir á því að frá árinu 1999 hafi verksamningur aðila tekið mið af öðrum samningsdrögum sem einnig eru óundirrituð en samkvæmt 13. gr. þeirra sé uppsagnarfrestur verksamningsins tveir mánuðir. Viðurkennir stefndi að fyrirsvars­menn hans hafi einnig samið þessi samningsdrög. Af hálfu áfrýjanda er því borið við að þessi drög hafi aldrei verið send honum og vísar hann því á bug að efni hins munnlega verksamnings hafi verið breytt í samræmi við þau.

Þegar litið er annars vegar til þess að stefndi hefur ekki fært sönnur á að samningsdrögin hafi verið send áfrýjanda og hins vegar til þess að hann fylgdi heldur ekki sjálfur efni þeirra við uppsögn verksamningsins hvað tveggja mánaða uppsagnarfrest varðar, verður ekki talið að hann hafi fært sönnur á að hinum munnlega samningi hafi verið breytt í samræmi við efni þeirra.

Loks er því haldið fram af hálfu stefnda að áfrýjanda hafi ekki borið lengri uppsagnarfrestur en einn mánuður þar sem hann hafi brotið trúnaðarskyldu sína gagnvart stefnda sem leidd verði af verksamningnum. Þannig hafi áfrýjandi verið að koma á fót fiskþurrkun í Mosfellsbæ í samkeppni við stefnda. Áfrýjandi mótmælir því að hann hafi brotið trúnaðarskyldur sínar. Í því sambandi bendir hann á að umsókn um leyfi til að stunda fiskþurrkun í Mosfellsbæ hafi verið lögð fram með vitund stefnda. Af hálfu stefnda er þessari staðhæfingu mótmælt.

Samkvæmt málflutningi stefnda fyrir Hæstarétti var enginn samningur gerður á milli aðila sem bannaði áfrýjanda að vinna að fiskþurrkun fyrir aðra en stefnda. Það lægi hins vegar í hlutarins eðli að verktakinn mætti ekki stunda samkeppni við verkkaupa.

Samkvæmt 1. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 hafa lögin það meðal annars að markmiði að efla virka samkeppni og vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. þeirra eru allir samningar milli fyrirtækja sem hafa að markmiði að koma í veg fyrir samkeppni bannaðir. Þegar til þessa er litið verður ekki talið að stefndi hafi fært fram haldbær rök fyrir því að honum hafi verið heimilt að lögum að stytta einhliða hinn sex mánaða uppsagnarfrest með þeim rökum að hann teldi hættu á að áfrýjandi hefði í hyggju að hefja samkeppni við sig. Stefndi hefur ekki haft uppi þá málsástæðu að honum hafi verið heimilt að rifta verksamningnum vegna brostinna forsendna og kemur hún því ekki til úrlausnar.

Samkvæmt framansögðu verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að áfrýjandi hafi átt rétt til sex mánaða uppsagnarfrests þegar stefndi sagði upp fyrrnefndum verksamningi milli þeirra 3. ágúst 2005.

II.

Áfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir fjártjóni þar sem honum hafi á ólögmætan og saknæman hátt verið gefinn fimm mánuðum of skammur uppsagnarfrestur á verksamningi aðila um þurrkun á þorskhausum og hryggjum. Í gögnum málsins hefur hann reifað bótakröfu sína í fjórum liðum. Stefndi mótmælir öllum liðum í kröfu áfrýjandans sem vanreifuðum og ósönnuðum.

Áfrýjandi gerir kröfu um bætur fyrir tjón vegna tapaðrar framlegðar. Krafan er ekki studd öðrum gögnum en útreikningum áfrýjanda sjálfs svo og yfirlýsingu endurskoðanda hans um að útreikningurinn sé miðaður við fyrstu átta mánuði ársins 2005 og að stjórnendur hafi flokkað tekjur og kostnað eftir starfsþáttum í þeim tilgangi að sérgreina þann hluta rekstursins er tilheyri fiskþurrkun í Þorlákshöfn. Af hálfu stefnda er þessum einhliða útreikningi mótmælt, auk þess sem á það er bent að afkoman hafi almennt verið verri seinni hluta árs og því sé viðmiðunargrundvöllurinn rangur.

Gegn mótmælum stefnda verða einhliða útreikningar áfrýjanda á fjártjóni hans ekki lagðir til grundvallar. Áfrýjanda var í lófa lagið að leggja fram viðhlítandi gögn um tjón sitt, eftir atvikum með matsgerð dómkvadds matsmanns, til þess að unnt yrði að ákveða raunverulegt tjón hans.

Þá gerir áfrýjandi kröfu um bætur fyrir tjón vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti, rekstrarleigu bifreiða og leigu á íbúðarhúsnæði. Hann hefur hvorki lagt fram launaseðla vegna greiddra launa né leigusamninga og kvittanir vegna húsaleigugreiðslna. Loks hefur áfrýjandi heldur ekki lagt fram gögn úr bókhaldi sínu um nýtingu einstakra bifreiða sem hefðu geta orðið viðhlítandi grunnur mats á fjártjóni hans.

Að framangreindu virtu liggja ekki fyrir nægileg gögn um fjártjón áfrýjanda til að unnt sé að fella efnisdóm á kröfu hans. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Eins og atvikum er háttað er rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2007.

Mál þetta, sem var dómtekið 30. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af J.H.S. ehf.,Völuteigi 4, Mosfellsbæ, á hendur Lýsi hf., Fiskislóð 5-9, Reykjavík, með stefnu birtri  25. apríl  2006.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 19.700.608 kr. ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 3. september 2005 til 7. desember 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá 7. desember 2005 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar.

Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu skv. mati dómsins.  Til vara er þess krafist að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

Málavextir.

Í ársbyrjun 1996 hófu stefnandi og Hnotskurn ehf. samstarf um þurrkun á fiskhausum og hryggjum. Stefnandi er þjónustufyrirtæki sem var stofnað sérstaklega til að taka að sér rekstur þurrkverksmiðju Hnotskurnar ehf. í Þorlákshöfn. Við upphaf samstarfsins voru gerð drög að verksamningi en þau voru aldrei undirrituð. Samningsdrögin voru samin af Hnotskurn ehf.  Í 8. gr. kom fram að uppsagnarfrestur hans væri sex mánuðir.

Hnotskurn ehf. var sameinað stefnda samkvæmt samrunaáætlun, dags. 30. júní 2004, sem samþykkt var á hluthafafundi 13. september 2004. Stefndi tók þá við réttindum og skyldum Hnotskurnar ehf. í samningssambandi fyrirtækisins við stefnanda.

Með ábyrgðarbréfi, dags. 3. ágúst 2005, sagði stefndi samningnum við stefnanda upp með eins mánaðar fyrirvara og batt þannig enda á samstarf og samningssamband sem hafði staðið yfir í níu og hálft ár. Í bréfinu kemur fram að ástæða uppsagnarinnar sé einkum sú að stefndi hyggist endurskipuleggja þennan þátt í starfsemi sinni, enda hafi afkoman verið óviðunandi. Einnig telur stefndi að hagsmunaárekstrar verði ef fyrirætlanir stefnanda um stofnun sambærilegs rekstrar í eigin nafni yrðu að veruleika.

 Í framhaldi af uppsögn samningsins fóru fram viðræður milli aðila um uppgjör á viðskiptum þeirra sem báru ekki árangur og var mál þetta því höfðað.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt óundirrituðum samningi frá 1. janúar 1996, sé kveðið á um sex  mánaða uppsagnarfest. Stefndi kaus aftur á móti að  ljúka honum með einungis eins mánaða fyrirvara. Stefnandi varð fyrir tjóni vegna þessarar ólögmætu uppsagnar á verksamningi sem verið hafði í gildi í níu og hálft ár. Stefnandi krefst því efndabóta til að verða eins settur og ef samningurinn hefði verið efndur réttilega. Þannig er bæði krafist bóta fyrir missi framlegðar og tjón sem stefnandi varð fyrir vegna uppsagnarinnar. Samtala þeirra bóta leiðir til sömu fjárhagslegu niðurstöðu og réttar efndir samningsins hefðu gert. Tjónstímabilið er 5 mánuðir, frá 3. september 2005 til 3. febrúar 2006, þ.e. frá uppsögn stefnda til loka uppsagnarfrests að frádregnum þeim eina mánuði af sex sem stefndi stóð við. Verður nú gerð nánari grein fyrir hverri málsástæðu og kröfu stefnanda fyrir sig.

Um uppsagnarákvæði samningsins: Meginregla íslensks réttar er að samningsgerð sé frjáls, bæði um efni og form. Munnlegir og skriflegir samningar eru jafngildir og ekki þarf að undirrita samninga til að þeir komist á og séu bindandi.

Þrátt fyrir að undirritun hafi ekki átt sér stað er ljóst að samningssamband komst á í samræmi við ákvæði samningsins. Aðilar höguðu samstarfi sínu í samræmi við samninginn eins og sjá má með því að bera saman ákvæði samningsins og háttsemi samningsaðila. Samningurinn er níu greinar og óumdeilt er að samband aðilanna var með þeim hætti sem kveðið er á um í 1.-7. gr. og 9. gr. mælir fyrir um varnarþing. Stendur þá eingöngu eftir 8. gr., um uppsagnarfrest, og verður að teljast verulega óeðlilegt ef það er eina ákvæði samningsdraganna sem aðilar eru ekki bundnir af, en stefndi hefur haldið slíku fram.

Aðilar gengust undir samninginn með hátterni sínu, þrátt fyrir að hann hafi aldrei verið undirritaður, en slíkt form skuldbindingar er þekkt úr dómafordæmum og fær enn betri stoð í löngu samningssambandi aðila þessa máls.

Það er viðurkennd skýringarregla við samningsgerð að samningur telst kominn á í heild sinni þegar aðilar hafa komið sér saman um veigamestu atriði hans. Í margnefndum samningi var ætlunin að koma á varanlegu samningssambandi þar sem aðallega reyndi á verka-, tekju- og kostnaðarskiptingu í daglegum rekstri. Eins og áður segir var samstarf aðilanna að öllu leyti í samræmi við þau ákvæði samningsins sem kveða á um skyldur aðilanna, tilhögun verkefna og greiðslur.

Eftir níu og hálfs árs samstarf, sem hófst þegar samningsdrögin voru samin og fór að öllu leyti eftir þeim drögum, máttu báðir aðilar gera ráð fyrir því að eftir þeim yrði farið nema annað yrði sérstaklega tekið fram. Þessu til frekari rökstuðnings bendir stefnandi á að samningsdrögin komu frá stefnda og samkvæmt traustskenningunni, sem byggt er á í íslenskum rétti, var stefnandi í góðri trú um að vilji stefnda væri að haga samningssambandinu með þeim hætti sem þar kom fram, sbr. til hliðsjónar Hæstaréttardóm frá 26. febrúar 2004 í málinu nr. 305/2003.

Í samningarétti er miðað við það að samningsdrög, tilboð o.s.frv. séu notuð til að túlka óljós ákvæði og skiptir þá engu hvort endanlegur samningur er munnlegur eða skriflegur. Stefndi ber því sönnunarbyrðina fyrir því að samningurinn hafi falið í sér aðrar skuldbindingar en þar koma fram.

Um eðlilegan uppsagnarfrest án samnings: Verði ekki fallist á að samningurinn hafi falið í sér sex mánaða uppsagnarfrest ræðst uppsagnarfresturinn af því sem eðlilegt getur talist með hliðsjón af atvikum öllum.

Þegar ekki hefur verið samið um annað er almennt talið að verkkaupi geti sagt einhliða upp verksamningi. Slík uppsögn er þó ekki geðþóttaákvörðun verkkaupa heldur gilda óskráðar viðmiðunarreglur um heimild til uppsagnar og lengd uppsagnarfrests.

Þegar verkkaupi segir upp samningi án þess að verktaki hafi gefið ástæðu til þess ber verkkaupa að greiða verktaka bætur fyrir það tjón sem hann hlýtur af uppsögninni og/eða gefa verktaka nægjanlegt svigrúm með uppsagnarfresti til að forða eða takmarka tjón sitt.

Sé miðað við lengd samningstímans og þær skuldbindingar sem stefnandi hafði lagt út í vegna starfseminnar og með hliðsjón af fyrrnefndum samningsdrögum verður niðurstaðan sú sama, þ.e. að hæfilegur uppsagnarfrestur miðað við allar aðstæður sé sex mánuðir.

Eftir einhliða uppsögn stefnda reyndu aðilar að komast að samkomulagi vegna þess tjóns sem ljóst var að stefnandi myndi verða fyrir vegna skuldbindinga sem hann hafði lagt út í við ráðningu starfsmanna, fjármögnun flutningstækja og rekstur þeirra. Samningar tókust ekki en með því að ganga til viðræðna hefur stefndi viðurkennt að hann ber skuldbindingar gagnvart stefnanda.

Sundurliðun dómkröfu:

1.         Um tjón vegna tapaðrar framlegðar: Þar sem stefndi sagði upp samningi aðila með eins mánaðar uppsagnarfresti í stað sex varð stefnandi fyrir tjóni vegna framlegðar sem hann hefði hlotið á þeim fimm mánuðum sem upp á vantar.

Útreikningur á tapaðri framlegð á tjónstímabilinu er byggður á átta mánaða uppgjöri stefnanda vegna þurrkverksmiðjunnar í Þorlákshöfn. Framlegð stefnanda af rekstri fiskþurrkunar­verksmiðjunnar í Þorlákshöfn, miðað við fimm mánuði fyrri hluta ársins 2005, var 8.243.773 kr. og krefst stefnandi skaðabóta sem nemur þeirri fjárhæð.

2.         Um tjón vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti:  Við uppsögn samningsins unnu 23 starfsmenn hjá stefnanda, með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Forsvarsmenn stefnanda gerðu sitt ýtrasta til þess að takmarka tjón félagsins með því að aðstoða starfsmenn við að finna vinnu annars staðar.

Skaðabótakrafa vegna þessa liðar er vegna launagreiðslna sem stefnandi varð að inna af hendi meðan verið var að koma starfsmönnum í vinnu annars staðar en einnig kusu sumir starfsmenn að hverfa ekki til annarra starfa og voru þeim greidd laun út þriggja mánaða uppsagnarfrest. Skaðabótakrafan vegna þessa liðar er samtals 8.367.346 kr.

3.         Um tjón vegna rekstrarleigu bifreiða: Við uppsögn samningsins rak stefnandi átta bifreiðar, sem aflað var gagngert vegna samningssambandsins. Bifreiðarnar eru með skráningarnúmerin DP 678, MG 658, OO 392, DT 704, OH 771, VT 227, SV 907 og aftanívagninn NK 714.

Krafa um skaðabætur er vegna rekstrarleigu bifreiðanna sem stefnandi varð að greiða á áðurnefndu fimm mánaða tjónstímabili og sundur­liðast svo:

Bifreiðin DP 678                                                                                     kr.        269.747

Bifreiðin MG 658                                                                                    kr.        368.630

Bifreiðin OO 392                                                                                    kr.        174.548

Bifreiðin DT 704                                                                                     kr.        415.033

Bifreiðin OH 771                                                                                    kr.        419.031

Samtals                                                                                                    kr.     1.646.989

4.         Um tjón vegna leigu á íbúðarhúsnæði: Til að standa við samninginn varð stefnandi að ráða til sín erlenda starfsmenn og þeim varð að sjá fyrir íbúðarhúsnæði.  Það var ekki hægt að gera í Þorlákshöfn nema með því að stefnandi tæki sjálfur á leigu húsnæði til að framleigja starfs­mönnum (herbergi fyrir herbergi) og var stefnandi með nokkrar íbúðir á leigu um tíma. Við uppsögn samningsins var stefnandi með á leigu þrjár íbúðir; þ.e. á efri og neðri hæð Oddabrautar 23 og neðri hæð Egilsbrautar 16.

Krafa um skaðabætur vegna leigu á íbúðarhúsnæði sundurliðast svo:

Greidd húsaleiga á mánuði vegna efri hæðar Oddabrautar 23                                   kr. 130.000

Greidd húsaleiga á mánuði vegna neðri hæðar Oddabrautar 23                       kr. 120.000

Greidd húsaleiga á mánuði vegna neðri hæðar Egilsbrautar 16                        kr. 120.000

Samtals leigugjöld á mánuði                                                                                           kr.  370.000

Margfaldað með 5 mánaða tjónstímabili                                                            kr. 1.850.000

 

Leigutekjur á 5 mánaða tjónstímabilinu                                                             kr.    407.500

 

Brúttó tjón vegna leigu                                                                                        kr.   1.850.000

Frá dragast leigutekjur                                                                                         kr.      407.500

Samtals tjón vegna leigu á íbúðarhúsnæði                                                       kr.   1.442.500

Heildarskaðabótakrafa stefnanda vegna hinnar ólögmætu uppsagnar á samningnum er samandregin þannig:

Skaðabætur vegna tapaðrar framlegðar                                             kr.    8.243.773

Tjón vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti                                     kr.    8.367.346

Tjón vegna rekstrarleigu bifreiða                                                         kr.    1.646.989

            Tjón vegna leigu á íbúðarhúsnæði                                        kr.    1.442.500

Skaðabætur samtals krónur                                                 kr.   19.700.608

Um vaxtakröfu: Gerð er krafa um almenna vexti, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá tjónsdegi, 3. september 2005, til 7. desember 2005 en krafist er dráttarvaxta, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá 7. desember 2005 til greiðsludags því þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu skaðabóta, sbr. kröfubréf dags. 7. nóvember 2005.

Um lagarök byggir stefnandi einkum á meginreglum samninga- og kröfuréttar um samningsgerð og skuldbindingargildi samninga. Þá byggir stefnandi á meginreglum kröfuréttar og verktakaréttar um efndaskyldu, réttar efndir samkvæmt efni samnings, vanefndir og bótaábyrgð vegna vanefnda. Krafa stefnanda um vexti byggist á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Dráttarvaxtakrafan styðst við 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga. Aðild stefnda, Lýsis hf., vegna samnings Hnotskurnar ehf. er byggð 102. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Fyrirsvar er byggt á 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um varnarþing vísast til 1. ml. 1. mgr. 33. gr. sömu laga auk 9. gr. samnings þess sem mál þetta er sprottið af. Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda.

1.         Sýknukröfu sína byggir stefndi á eftirfarandi málsástæðum:

            Stefndi hafnar því að stefnandi eigi sex mánaða uppsagnarfest. Stefndi tekur fram að samningssamband aðila um rekstur stefnanda á verksmiðju stefnda í Þorlákshöfn byggðist á munnlegu samkomulagi milli aðila, þar sem stefndi fól stefnanda reksturinn gegn því að greiða tiltekið verð fyrir unna vöru.

Stefndi telur ljóst að samningssambandið byggðist ekki á hinum óundirrituðu samningsdrögum sem stefnandi hefur lagt fram. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að greidd sé ákveðin krónutala fyrir hvert kíló af þurrkuðum afurðum, en mismunandi verð eftir tegundum. Samningssamband aðila fram að uppsögn byggðist hins vegar á því að stefndi greiddi stefnanda sem svaraði 32,5% af verðmæti afurða. Sýnir þetta fram á að ekkert sannleiksgildi er í þeirri fullyrðingu í stefnu, að 8. gr. í hinum óundirrituðu samningsdrögum frá 1996 hafi verið eina ákvæði draganna sem aðilar fóru ekki eftir í viðskiptum sínum. Fyrrgreindar verðforsendur, sem munnlegi samningurinn byggðist á, eru aðrar en þær sem stefnandi byggir á í stefnu sinni að hafi gilt milli aðila, en stefnandi hefur engar haldbærar skýringar lagt fram um af hverju samningsdrögin frá 1996 eru óundirrituð. Ástæðan er sem áður sagði sú, að þetta voru einungis drög, sem ekki urðu að samningi, en samningur sá er til stofnaðist milli aðila var munnlegur. Þrátt fyrir að samið hafi verið um ýmsa þætti í viðskiptasambandi aðila, þá var ekki samið um sérstakan uppsagnarfrest á hinum munnlega samningi. Allar fullyrðingar stefnanda um hið gagnstæða, sem og staðhæfingar um að samningssamband aðila fyrir uppsögn samningsins sumarið 2005 hafi byggst á hinum óundirrituðu drögum frá 1996, eru ósannaðar. Sönnunarbyrðin um þetta hvílir á stefnanda sjálfum, ekki stefnda.

Stefndi bendir sérstaklega á að málatilbúnaður stefnanda sé ekki byggður á því að samningssamband aðila hafi grundvallast á óundirrituðum drögum að samningi frá árinu 1999, heldur séu stefnukröfur eingöngu byggðar á því að óundirrituð drög frá 1996 hafi eitthvert gildi milli aðila.

Stefndi byggir á því að þar sem aðilar höfðu ekki samið um að tiltekinn fyrirvari yrði að vera á uppsögn hins munnlega samnings þeirra í milli, hvíldi engin skylda á stefnda að segja samningnum upp með fyrirvara. Sá eins mánaðar frestur sem stefndi hafði á uppsögn samningsins var því veittur umfram skyldu. Með tilliti til ástæðna uppsagnar stefnda á samningnum og ítrekaðra og verulegra vanefnda stefnanda gagnvart samningi aðila, er einnig ljóst að stefnandi gat ekki átt heimtingu á greiðslum á uppsagnarfresti, en í öllu falli var eins mánaðar uppsagnarfrestur meira en ríflegur.  Hefur stefnandi í engu sýnt fram á að eins mánaðar uppsagnarfrestur hafi verið of stuttur fyrirvari, en stefnandi ber sjálfur sönnunarbyrði fyrir slíkum fullyrðingum.

Stefndi tekur fram að ein af grundvallarreglum í samningssambandi er trúnaðarskylda samningsaðila. Í trúnaðarskyldunni felst að aðilar láti ekki eigin hagsmuni ráða för við athafnir sínar eða athafnaleysi í samningssambandinu, heldur ber þeim að taka tillit til hagsmuna gagnaðilans í samningssambandinu, en í þessu felst einnig að samningsaðili ráðist ekki í athafnir sem fela í sér samkeppni við gagnaðilann á meðan á samningssambandinu stendur. Stefndi telur að stefnandi hafi gerst brotlegur við þessa skyldu sem á honum hvíldi og þá um leið gegn samningi aðila, þegar af þeirri ástæðu að skv. upplýsingum stefnda mun stefnandi hafa á meðan á samningssambandi aðila stóð hafið undirbúning og vinnu við að koma á fót fiskþurrkunarstarfsemi, í beinni samkeppni við verksmiðju stefnda í Þorlákshöfn. Mun stefnandi m.a. fyrr á árinu 2005 hafa keypt fasteign í Mosfellssveit í því skyni og láta hanna þurrkklefa í húsnæðið, en umræddum áformum mun stefnandi ekki hafa leynt gagnvart forsvarsmönnum stefnda.  

Þá telur stefndi að stefnandi hafi einnig brotið verulega gegn framangreindri trúnaðarskyldu og gegn samningi aðila, með öðrum athöfnum sínum. Stefnandi vanefndi að sækja um starfsleyfi, sem varð til þess að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafði hótað lokun á verksmiðjunni. Stefndi gekk sjálfur í að afla endurnýjaðs starfsleyfis. Þá barst slík ólykt frá verksmiðjunni að bæjarstjórn hafði lagst gegn veitingu starfsleyfis til lengri tíma en þriggja mánaða, sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands samþykkti. Þrátt fyrir þetta varð stefnandi ekki við óskum stefnda um að reyna allt til þess að minnka lyktarmengunina, en ástæða þessarar miklu mengunar munu hafa verið sérstakar vinnsluaðferðir stefnanda á fiski. Ennfremur taldi stefndi einsýnt, sökum mjög slakrar afkomu af rekstri verksmiðjunnar, að áframhaldandi rekstur stefnanda á henni yrði stefnda til fjárhagslegs tjóns vegna lítillar framlegðar. Þá mun stefnandi hafa vanrækt að setja upp kælitæki í verksmiðjunni, þrátt fyrir að hafa aflað tækjanna í júnímánuði 2005 að fyrirskipun stefnda um endurnýjun tækjanna. Mun þetta hafa valdið stórskemmdum á hráefni í eigu stefnda, enda var það geymt í 20 gráðu heitu rými, í stað kældrar geymslu.

Stefndi mótmælir því að þátttaka hans í viðræðum við stefnanda til lausnar á málinu geti með nokkru móti falið í sér viðurkenningu af hans hálfu á kröfum eða málatilbúnaði stefnanda. Hið sama á við um samningsboð sem send voru stefnanda af hálfu stefnda. Viðræðurnar og samningsboðin voru bundin skilyrði um samþykki stefnanda, sem hafnaði þeim og féllu þau því niður, án nokkurs frekara skuldbindingargildis fyrir stefnda. Stefndi hafnar því þeim sjónarmiðum í stefnu að viðræður um lausn málsins hafi falið í sér viðurkenningu á kröfum stefnanda. Um almenna þýðingu slíkra viðræðna og framlagningar dómskjala í því sambandi, sjá til hliðsjónar 2. mgr. 21. gr. Codex Ethicus LMFÍ.

2.         Ef samþykkt verði að stefnandi eigi rétt á frekari uppsagnarfresti er krafa gerð um sýknu á grundvelli skuldajöfnunar við gagnkröfur sem stefndi heldur uppi gegn stefnukröfum. Nemur gagnkrafa stefnda 28.762.682 kr.

Stefndi telur að stefnandi beri fulla skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda, sem á rætur að rekja til viðskilnaðar stefnanda við verksmiðjuhúsnæði stefnda, hráefnisskila og verulegra vanefnda stefnanda á samningi aðila. Fjárhagslegt tjón stefnda felst nánar tiltekið í því að verksmiðjan var í óstarfhæfu ástandi eftir viðskilnað stefnanda í septemberbyrjun 2005. Neyddist stefndi til þess að hafa verksmiðjuna lokaða í þrjár vikur vegna manneklu, og framleiðslutap varð fyrstu sex vikurnar eftir yfirtöku stefnda á verksmiðjunni. Við opnun hráefnageymslunnar kom í ljós, að 30 tonn af hráefni sem stefnanda bar að standa stefnda skil á og var í eigu stefnda, reyndist ónýtt þar sem stefnandi hafði vanrækt að setja upp kælitæki í geymslurýminu. Gífurleg lyktarmengun var í húsnæðinu, gólf skítug og 2 cm þykkt lag af þurru blóðvatni á gólfum í þurrkklefum. Stefndi kallaði þegar til sérfræðinga frá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og samkvæmt úttekt þeirra var hreinlætismálum í verksmiðjunni verulega ábótavant. Bar stefndi kostnað af því að keyra hið ónýta hráefni frá verksmiðjunni, til förgunar, og vegna hreinsunar og endurnýjunar á verksmiðjuhúsnæðinu. Stefnandi mun hafa komið í veg fyrir að stefndi gæti yfirtekið ráðningarsamninga við fyrrverandi starfsmenn stefnanda í verksmiðjunni, sem bakaði stefnda verulegt tjón. Varð það til þess að stefndi þurfti að ráða til sín nýtt starfsfólk, sem kostaði flutning þess frá Póllandi til Íslands, þjálfun þess, sem tók 3-6 mánuði, öflun húsnæðis fyrir starfsfólk, o.fl. Þá fólst tjón stefnda einnig í því að birgjar verksmiðjunnar beindu viðskiptum sínum annað eftir uppsögn samningsins, en samkvæmt því sem forsvarsmenn stefnanda munu hafa upplýst stefnda um eftir uppsögn var að þeir hefðu beint birgjum annað. Telur stefndi að stefnandi beri óskipta ábyrgð á því tjóni. Þá olli miklum vandkvæðum og tilheyrandi fjárhagslegu tjóni, að stefnandi mun hafa fjarlægt öll gögn sem tilheyrðu verksmiðjunni og rekstri hennar af skrifstofu verksmiðjunnar, þ.m.t. gæðahandbók og verksmiðjubókhald, samfara uppsögninni. Öllum gögnum mun sömuleiðis hafa verið eytt úr tölvum stefnda í verksmiðjunni. Hefur mikil vinna og kostnaður farið í það hjá stefnda að byggja þau gögn upp aftur. Þá vísast einnig til stuðnings gagnkröfu til fyrrgreindra atriða um samkeppnisrekstur stefnanda, lyktarmengun, hættu á starfsleyfismissi, o.fl. Tekið skal fram að rétt viðbrögð stefnda við framangreindum aðstæðum hafa orðið til þess að á árinu 2006 tókst að koma starfsemi verksmiðjunnar í viðunandi horf.

Fjárhæð gagnkröfu, 28.762.682 kr., er samtala hagnaðarmissis og taps stefnda af starfseminni í þurrkunarverksmiðjunni á sama tímabili milli ára. Samkvæmt staðfestingu endurskoðanda Deloitte hf., sést að hagnaður stefnda af starfseminni síðustu fjóra mánuði ársins 2004 (sept.-nóv.) nam 10.286.896 kr., en tapið á sama tímabili á árinu 2005, þ.e. frá því að stefndi tekur við verksmiðjunni af stefnanda og til loka þess árs, nam 18.475.786 kr. Umskiptin nema því 28.762.682 kr., sem stefndi byggir á að sé fjárhagslegt tjón sitt vegna afleiðinga af framangreindri háttsemi stefnanda sem bakaði stefnda tjón, þ.e.a.s. að stefndi varð af rúmlega 10,2 millj. kr. hagnaði sem hann mátti vænta að reksturinn gæti skilað á síðustu fjórum mánuðum ársins 2005, auk þess sem hann þurfti að bera rúmlega 18 millj. kr. tap á sama tímabili. Vakin er athygli á því hversu stór umbreytingin á afkomu rekstursins er milli tímabila, en tapið á árinu 2005 er einstakt í rekstrarsögu verksmiðjunnar. Af samanburði framangreindra tímabila má m.a. sjá að tekjur verksmiðjunnar drógust saman um meira en þriðjung eða rúmlega 30 millj. kr.

Stefndi krefst þess jafnframt, að dómurinn taki tillit til krafna stefnda um að stefnandi greiði dráttarvexti af þeim fjárhæðum sem stefndi krefst greiðslu á, aðallega frá 6. janúar 2006, þ.e. að liðnum mánuði frá því stefndi áréttaði kröfur á hendur stefnanda í bréfi, en til vara frá síðara upphafsmarki dráttarvaxta skv. mati dómsins, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

3.         Varakrafa um lækkun stefnukrafna.

Í varakröfu krefst stefndi lækkunar stefnukrafna. Er varakrafan í fyrsta lagi byggð á því að ef talið verði að stefnandi eigi rétt á lengri uppsagnarfresti en þeim sem stefndi veitti, þá lúti öll rök að því að sá frestur verði ekki tildæmdur lengri en sem svarar alls tveimur mánuðum. Til stuðnings því vísar stefndi til óundirritaðra samningsdraga frá 1999 um rekstur verksmiðjunnar í Þorlákshöfn.  Fyrir liggur að þau verð og kjör sem þar eru tíunduð að gildi í viðskiptum aðila, eru þau sömu og voru í gildi frá 1999 fram til uppsagnar stefnda á samningnum í júlí 2005. Stefnandi staðfestir raunar í málavaxtalýsingu stefnu að þessi breyting hafi átt sér stað árið 1999 og að fyrrnefnd samningskjör hafi gilt í viðskiptunum. Stefnandi bæri því sönnunarbyrði fyrir því að samningsdrög þessi hafi ekki gilt milli aðila. Í 13. gr. samningsdraganna er síðan kveðið á um tveggja mánaða uppsagnarfrest. Þá telur stefnandi sömuleiðis að tveggja mánaða uppsagnarfrestur sé sanngjarn og mjög ríflegur, sé litið til atvika og framangreindra brota stefnanda á samningi aðila. Í samræmi við lækkunarkröfu þessa, ætti stefnandi einungis kröfu á eins mánaðar uppsagnarfresti til viðbótar. 

Telji dómurinn að stefnandi eigi rétt á lengri uppsagnarfresti byggir stefndi á því að ekki sé unnt að ákvarða hann lengri en sem nemur fjórum mánuðum. Var við þann samningsfrest miðað í samningsboðum stefnda, þrátt fyrir að ekki sé á þeim byggt að öðru leyti. Verður talið að sá uppsagnarfrestur sé út frá þeim forsendum sanngjarn og ríflegur, sé litið til atvika og framangreindra brota stefnanda á samningi aðila.  Í samræmi við lækkunarkröfu þessa, ætti stefnandi einungis rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti til viðbótar.

4.         Stefndi mótmælir fjárhæð stefnukrafna og sundurliðun stefnanda á þeim.

Í fyrsta lagi er því hafnað að lagt verði til grundvallar það meinta framlegðartap, sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir. Er sú tala byggð á samantekt endurskoðanda stefnanda upp úr bókhaldi félagsins, sem er óendurskoðað. Með vísan til þess, sem og að endurskoðandinn er ekki hlutlaus og óháður matsaðili, ber að hafna þessum kröfulið sem ósönnuðum. Þá hefur reyndin verið sú í afkomu af rekstri í verksmiðjunni, að afkoman á seinni hluta ársins hefur verið lakari en á fyrri hluta ársins. Þar sem það tímabil sem krafa stefnanda tekur til er á síðari hluta ársins 2005, væri eðlilegra og sanngjarnara, að höfð sé hliðsjón af afkomu starfseminnar fyrir stefnanda á síðari hluta ársins 2004. Staðfestar tölur í þá veru hafa ekki verið lagðar fram af hálfu stefnanda, ber hann því hallann af því og er af þeim sökum fráleitt að unnt sé að taka kröfuliðinn til greina.

Í öðru lagi hafnar stefndi því alfarið, að honum beri að bæta stefnanda meint tjón vegna launagreiðslna til starfsfólks á uppsagnarfresti. Hinn munnlegi samningur aðila gekk eingöngu út á að stefndi keypti tiltekna vöru af stefnanda á nánar ákveðnu verði, en stefndi skyldi hafa verksmiðjuna í Þorlákshöfn til afnota fyrir vinnu á vörunni. Starfsmenn stefnanda og greiðslur til þeirra voru stefnda óviðkomandi og á kröfuliður þessi því enga stoð. Upplýsingar stefnda herma einnig að stefnandi hafi komið öllum umræddum starfsmönnum í störf hjá öðrum atvinnurekanda. Stefnandi hefur samkvæmt því ekki orðið fyrir því tjóni sem hann gerir kröfu um að verði bætt. Þá ber einnig að hafna kröfulið þessum þar sem stefndi bauðst til að yfirtaka ráðningarsamninga við þá 26 Pólverja sem unnið höfðu við hausaþurrkunina fyrir stefnanda. Stefndi hefur upplýsingar um að stefnandi hafi bannað starfsmönnunum að ræða við forráðamenn stefnda um að ráða sig yfir til stefnda. Liggur í augum uppi að yfirtaka stefnda á ráðningarsamningunum hefði komið í veg fyrir meint tjón stefnanda hvað þennan þátt varðar. Þá bendir stefndi einnig á það, að útreikningur sem virðist lagður til grundvallar kröfulið þessum í stefnu, var unninn af stefnanda sjálfum án þess að lögð hafi verið fram nokkur gögn til stuðnings þeim útreikningi, þ.m.t. launaseðlar, staðfestingar á launagreiðslum, o.fl. Ber því að hafna kröfu þessari.

Í þriðja lagi varðandi kröfu um meint tjón vegna rekstrarleigu bifreiða og húsaleigugreiðslna, vísar stefndi til rökstuðnings að framan, um að slíkur kostnaður var stefnda óviðkomandi og ekki í tengslum við samningssamband aðila. Hafnar stefndi því þessum kröfum. Hvað varðar bifreiðirnar er einnig ósannað að þær hafi verið nýttar til starfsemi stefnanda í verksmiðjunni, m.a. eru þrjár af bifreiðunum jeppabifreiðir af gerðinni Landcruiser og Nissan Double-Cab, sem vandséð verður hvaða tengsl eigi að hafa við rekstur fiskþurrkunarverksmiðju og samning aðila. Að sama skapi hafnar stefndi alfarið meintu tjóni vegna húsaleigugreiðslna. Umrætt húsnæði er í eigu stefnanda, en ekki umræddra aðila sem framlagðir húsaleigusamningar segja til um. Þetta staðfestir stefnandi í eigin sundurliðun á eignum sínum, dags. 9. ágúst 2005. Samkvæmt því eru fasteignirnar Egilsbraut 16 (neðri hæð) og Oddabraut 23 (neðri og efri hæð), auk innbúa, allt eignir stefnanda. Er því enginn fótur fyrir kröfunni. Þá athugast einnig, með samanburði á fyrirliggjandi húsaleigusamningum og vottorði úr hlutafélagaskrá, að leigusalar eru í öllum tilvikum fyrirsvarsmenn stefnanda, stjórnarformaðurinn Stefán Jónsson, stjórnarmaðurinn Helgi Már Stefánsson og varastjórnarmaðurinn Guðný Helgadóttir Blöndal, en öll eru þau eigendur að stefnanda. Eru því leigusalarnir að gera samning við félag sem þeir eiga sjálfir og eru í fyrirsvari fyrir. Að þessu öllu virtu, verður ekki litið öðruvísi á en samningarnir séu allir málamyndagerningar eða a.m.k. ígildi slíkra gerninga, og ber því að hafna kröfum vegna þeirra. Þá hefur stefnandi í engu lagt fram staðfestingar á því að greiðslur hafi farið fram í samræmi við framangreinda samninga.

Í fjórða lagi telur stefnandi að hafa beri sérstaklega í huga varðandi kröfuliði í stefnu, að stefnandi réðst sjálfur út í samkeppnisrekstur við stefnda, þ.e. í fiskþurrkun, eftir að samningssambandi aðila lauk. Má því draga verulega í efa að stefnandi hafi í raun hlotið nokkurt fjártjón af lokum samningssambands aðila.

Í fimmta lagi mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda. Stefndi hafnar því að skilyrði séu til þess að taka kröfu um almenna vexti til greina. Þess er krafist að upphafsmark dráttarvaxta verði ákveðið aðallega við uppkvaðningu dóms í málinu, en til vara við þingfestingu málsins, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Í sjötta lagi gerir stefndi kröfu um að stefnukröfur verði lækkaðar með tilliti til gagnkrafna stefnda á hendur stefnanda. Telji dómurinn að ekki liggi fyrir sönnun að fyrrnefnt tap sé að öllu leyti vegna vanefnda stefnda, krefst stefndi þess til vara að fjárhæðin til lækkunar verði ákvörðuð að álitum. Gerð er jafnframt krafa um að dómurinn taki tillit til krafna stefnda um að stefnandi greiði dráttarvexti af þeim fjárhæðum sem stefndi krefst greiðslu á, aðallega frá 6. janúar 2006, þ.e. að liðnum mánuði frá því að stefndi áréttaði kröfur á hendur stefnanda í bréfi, en til vara frá síðara upphafsmarki dráttarvaxta skv. mati dómsins, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Varðandi varakröfu byggir stefndi einnig á framangreindum röksemdum um aðalkröfu, eftir því sem við á. Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnanda, svo sem þeim er lýst í stefnu. Fyrirvari er gerður um nýjar málsástæður á síðari stigum málsins.

Auk framangreindra lagaraka vísar stefndi til almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar, þ.m.t. skaðabótaréttar. Er einnig m.a. byggt á almennu skaðabótareglunni. Dráttarvaxtakröfu sína byggir stefndi á 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., vaxtalaga nr. 38/2001, með síðari breytingum. Málskostnaðarkrafa er byggð á 130., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningslaust er að í ársbyrjun 1996 var gerður samningur milli stefnanda, sem verktaka, og Hnotskurnar ehf., sem verkkaupa, um þurrkun á hausum og hryggjum. Verkkaupi var síðan sameinaður stefnda, sem yfirtók réttindi einkahluta-félagsins og skyldur í samningssambandi aðilanna. Ákveðin verkaskipting var með aðilum, þannig að stefndi lagði til húsnæðið og frekari fjárfestingar í fasteignum og framleiðslutækjum auk þess sem stefndi greiddi fyrir aðkeypt hráefni. Stefnandi sá um starfsmannamálin, daglegan rekstur fyrirtækisins og fleira. Samningurinn var ekki skriflegur. Ágreiningur er með aðilum um einstök atriði samningsins og í dómsmáli þessu skiptir uppsagnarákvæðið einungis máli.

Fyrir liggja í málinu óundirrituð drög að tveimur samningum.  Önnur eru frá 1. janúar 1996, er starfsemin hófst, og er þar mælt fyrir um sex mánaða uppsagnarfrest.  Hin drögin eru ódagsett, en talin frá árinu 1999, en þar er kveðið á um tveggja mánaða uppsagnarfrest. Upplýst er í málinu að  hvor tveggja drögin eru samin af framkvæmdastjóra stefnda.  Fyrir dómi sagði hún að þau hefðu verið send stefnanda og hafi síðan dagað þar uppi án þess að vera undirrituð. Í málinu byggir stefnandi á fyrri samningsdrögunum og þeim sex mánaða uppsagnarfresti sem þar er tilgreindur, en kveðst aldrei hafa fengið hin síðari í hendur.  Stefndi telur hins vegar að verktaka stefnanda byggist á munnlegu samkomulagi, þar sem undirritaður verksamningur liggi ekki fyrir. Alkunna er að í viðskiptum manna er það báðum samningsaðilum til hagsbóta, að hafa skriflegan samning um viðskipti sín og slíkum skriflegum samningi verður ekki komið á nema fyrir tilstuðlan beggja samningsaðila. Viðurkennt er í málinu, að stefndi sendi drög að þeim samningi sem stefnandi byggir á til hans, en fékk engin viðbrögð. Vildi stefnandi á annað borð byggja á samningsdrögunum, þá bar honum að upplýsa stefnda um það með undirritun sinni eða á annan hátt. Hafi stefnandi litið á samningsdrögin sem tilboð, svo sem hann heldur fram, bar honum einnig að staðfesta tilboðið á sannanlegan hátt. Það gerði hann aftur á móti ekki og af því verður hann að bera hallann. Því er hafnað kröfu stefnanda um bætur vegna tjóns í sex mánuði svo sem hann krefur í málinu.

Með bréfi stjórnarformanns stefnda frá 3. ágúst 2005 sagði hann upp nefndum samningi við stefnanda með eins mánaðar fyrirvara frá dagsetningu bréfsins og voru lok samningsins því 3. september 2005.  Ástæður uppsagnarinnar voru nefndar þær, að stefndi ætlaði að endurskipuleggja þennan þátt starfsemi sinnar þar sem afkoman hafði verið óviðunandi. Auk þess segir í uppsagnarbréfinu:  „Enn fremur telur Lýsi mikla hættu á hagsmunaárekstrum verði fyrirætlanir JHS að veruleika um að hefja sambærilegan rekstur í eigin nafni.“  Í skýrslu Tryggva Péturssonar fyrir dómi kom fram að hann hafi byrjað að fylgjast með rekstrinum í Þorlákshöfn í maí 2005, að beiðni framkvæmdastjóra stefnda. Hann upplýsti að stefnandi hefði keypt verksmiðjuhús í Mosfellsbæ og það hafi valdið áhyggjum hjá stjórn stefnda. Hann hafi síðan frétt að stefnandi hafi sótt um vinnsluleyfi fyrir verksmiðjuna og þá hafi honum fundist mælirinn vera fullur og hann ráðlagt framkvæmdastjóra stefnda, að slíta samstarfinu. Í málinu liggur fyrir umsókn fyrirsvarsmanns stefnanda til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis dags. 27. júní 2005. Sótt er um starfsleyfi vegna nýrrar starfsemi sem sé fólgin í herslu fiskafurða. Með umsókninni mun hafa fylgt almenn lýsing á starfseminni ásamt greinargerð um ráðstafanir til að hindra lykt. Umsókn stefnanda var tekin fyrir á fundum Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis 9. ágúst 2005 og 23. ágúst 2005 og var síðan hafnað 13. september 2005.  Umsókn þessi ber með sé að hún er að atbeina stefnanda og ekkert liggur fyrir um vitneskju stefnda um hana eða ráðagerðir í þá átt að flytja ætti hluta starfseminnar frá Þorlákshöfn til Mosfellsbæjar.  Eins og mál þetta liggur fyrir var stefnandi, að mati dómsins, að leggja drög að því að koma á laggirnar svipaðri starfsemi og hann rak í Þorlákshöfn ásamt stefnda og þá í beinni samkeppni við stefnda.  Þetta gerði stefnandi án samráðs eða vitneskju stefnda, þrátt fyrir að málsaðilar hefðu verið í samstarfi í rúmlega níu ár. Að mati dómsins hefði verið heiðarlegra af hálfu stefnanda að upplýsa stefnda um fyrirætlanir sínar í Mosfellsbæ og umsóknina. Dómurinn lítur svo á að með þessu háttalagi sínu hafi stefnandi brotið trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnda sem réttlætt hafi uppsögn stefnda á þeim tíma sem hún fór fram og með þeim fyrirvara sem stefndi gaf.  Því telur dómurinn að stefnandi eigi ekki rétt til bóta þeirra sem hann krefur í málinu.

Þá fellst dómurinn ekki á þá málsástæðu stefnanda að í samningaviðræðum milli aðila til lausnar málsins hafi falist viðurkenning á bótaskyldu stefnda.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 kr.

Af hálfu stefnanda flutti málið Garðar Garðarsson hrl.

            Af hálfu stefnda flutti málið Jón Sigurðsson hdl.

            Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi,  Lýsi hf., skal vera sýkn af kröfu stefnanda, J.H.S. ehf. Stefnandi greiði stefnda 800.000 kr. í málskostnað.