Hæstiréttur íslands

Mál nr. 539/2016

A (Hlöðver Kjartansson hrl.)
gegn
B, dánarbúi C (Reimar Pétursson hrl.), D, E, dánarbúi F og dánarbúi G (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um dómkvaðningu matsmanns til að meta markaðsverð sumarhúss og lóðar sem F seldi B, en á því var m.a. byggt af hálfu A að F hefði skort hæfi til að ráðstafa eignunum. Talið var að F hefði við umrædda ráðstöfun verið í sjálfvald sett hvaða endurgjald kæmi fyrir hið selda og að A hefði ekki sýnt fram á að mat á markaðsverðinu hefði þýðingu ef taka þyrfti afstöðu til kröfu um ógildingu samningsins. Þótti matsgerðin þannig tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, og því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að synja beiðninni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júlí 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir B og dánarbú C krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins lést F 4. febrúar 2014. Skiptum á dánarbúi hans var ekki lokið þegar eftirlifandi eiginkona hans, G, féll frá 10. júní sama ár. Þar sem hún hafði ekki fengið leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginmann sinn ber að lögum að skipta dánarbúi hans og dánarbúi hennar hvoru í sínu lagi. Þó er ekkert því til fyrirstöðu að skipti á búunum fari fram samhliða þar sem ráðið verður af málsgögnum að sameiginleg börn hinna látnu, sóknaraðili, varnaraðilarnir B, D og E sem og C, hafi verið einu erfingjar G við fráfall hennar og hafi auk hennar verið einu erfingjar F við andlát hans.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði eignuðust F, G og börn þeirra fimm landspildu, um átta hektara að stærð, úr jörðinni [...] með afsali [...] sem þinglýst var skömmu síðar. Umræddu landi hefur ekki verið skipt. Með kaupsamningi og afsali 31. maí 2013 seldi F varnaraðilanum B sumarhús sem reist hafði verið á landinu að [...] ásamt 6000 fermetra „eignarlóð“. Umsamið kaupverð var 7.500.000 krónur og skyldi það annars vegar greitt við undirritun kaupsamnings, 3.500.000 krónur, og hins vegar með útgáfu skuldabréfs til fjögurra ára að fjárhæð 4.000.000 krónur með 5% vöxtum. Samþykkti G söluna sem maki seljanda. Þessum kaupsamningi hefur ekki verið þinglýst og greinir erfingja hjónanna á um gildi hans. Áður en hann var gerður var aflað álits frá löggiltum fasteignasala á verði hins selda. Í álitinu, sem gert var 9. apríl 2013, sagði að „fasteignamat eignar og lóðar“ væri 7.300.000 krónur og var söluverðið áætlað það sama.

Með ódagsettri matsbeiðni, sem lögð var fyrir héraðsdóm 13. apríl 2016, fór sóknaraðili fram á að dómkvaddur yrði maður til að skoða og meta sumarhúsið og lóðina sem seld voru samkvæmt áðurgreindum kaupsamningi. Í matsbeiðninni var meðal annars tekið fram að sóknaraðili sem matsbeiðandi mótmæli þeim gerningi og gildi hans. Hafi þau F og G „skort löggerningshæfi til gerðar þess löggernings.“ Þá hafi söluverð samkvæmt samningnum verið „langt undir sannvirði og fjarri því að vera sanngjarnt og eðlilegt.“ Sömuleiðis hafi greiðsluskilmálar verið „óeðlilegir“. Við þessar aðstæður væri sóknaraðila nauðsynlegt að tryggja sér sönnun þess hvert hafi verið markaðsverð eignarinnar þegar hún var seld. Var þess óskað að matsmaður léti í ljós eftirfarandi álit: „Hvert var markaðsverð umræddrar eignar 31. maí 2013 miðað við þau greiðslukjör sem eignin var þá seld gegn?“ Var þess óskað að systkinum sóknaraðila, varnaraðilunum B, D og E sem og C, auk skiptastjóra í „db.“ foreldra þeirra, yrði tilkynnt hvenær og hvar umbeðin skoðun færi fram til að þeim gæfist kostur á að gæta hagsmuna sinna. Af hálfu sóknaraðila hafa verið færð fram frekari rök fyrir kröfu hennar um dómkvaðningu matsmanns og því meðal annars haldið fram að ráðstöfun hins selda hafi verið ógild fyrir misneytingu vegna andlegrar vanheilsu þeirra F og G, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. og 33. og 36. gr. þeirra laga. Yrði leitt í ljós að söluverðið hafi verið óeðlilega lágt gæti það verið „öðrum málsástæðum sóknaraðila til stuðnings, þ.e. varðandi skort á hæfi foreldra málsaðila á þessum tíma.“

Í þessum þætti málsins verður einvörðungu leyst úr því hvort taka skuli til greina kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Þegar F heitinn ráðstafaði sumarhúsi sínu ásamt nánar greindri lóð með kaupsamningnum 31. maí 2013 til sonar síns, varnaraðilans B, með samþykki G, eiginkonu sinnar, sbr. 1. mgr. 58. gr. og 1. mgr. 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, var honum í sjálfsvald sett hvaða endurgjald kæmi fyrir hið selda. Hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að mat á því, hvert hefði verið markaðsverð þess þegar umræddur samningur var gerður, hefði þýðingu ef taka þyrfti afstöðu til kröfu um ógildingu samningsins, svo sem vegna þess að F hefði skort hæfi til að ráðstafa hinu selda á sínum tíma. Verður því talið, eins og mál þetta er vaxið, að sú sönnun, sem sóknaraðili vill færa með hinni umbeðnu matsgerð, sé bersýnilega tilgangslaus til að ráða til lykta ágreiningi erfingja um gildi samningsins frá 31. maí 2013. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991, verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilunum B og dánarbúi C kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilunum B og dánarbúi C hvorum um sig 175.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júlí 2016

I

Með bréfi skiptastjóra dánarbús F og G, sem létust 4. febrúar 2014 og 10. júní sama ár, dagsettu 17. nóvember 2015, var ágreiningi milli erfingja hinna látnu vísað til héraðsdóms til úrlausnar.

                Málsatvik, eins og þau eru rakin í greinargerð skiptastjóra, eru þau að meðal eigna búsins er hlutdeild í óskiptu landi úr jörðinni [...], [...]. Með afsali [...] keypti F, G og börn þeirra fimm 80.000 fermetra úr landinu og eignaðist hvert þeirra 1/7 hluta úr landinu og eiga það í óskiptri sameign með dánarbúinu í dag. F reisti 50,4 fm. sumarhús á landinu sem hann síðan seldi með kaupsamningi þann 31. maí 2013 til B sonar síns ásamt „eignarlóð samkv. FME er 6000m2“. [...]. E byggði sér sumarhús á landinu árið 1984, [...]. D byggði einnig sumarhús á árinu 1987, [...]. Þann 1. apríl 2012 seldi D E sumarhús sitt ásamt 1 hektara lands og er hektarinn hluti úr 8 hektara landsspildu jarðarinnar [...]. A byggði sumarhús á landinu árið 1985, [...]. Fór G með eignarhald á 23,9 fm. sumarhúsi í landinu sem kallað er [...], ([...]) Ágreiningslaust er að hún afsalaði því til C sonar síns á árinu 2002 en deilt er um það hvort húsinu hafi fylgt 0,5 hektara lóð. G hafði reist sér 42,6 fm. sumarhús á landinu árið 1999 sem sé auðkennt sem [...].

                Á skiptafundi 11. nóvember 2015 var leitað eftir afstöðu erfingja eignarhluta hvers um sig til landsins og hvort ágreiningslaust væri að sumir erfingjar hefðu eignast aukinn eignarrétt í landinu. A hafi lýst þeirri skoðun sinni að hún teldi að öll systkinin færu með jafnan eignarhluta í landinu og hlutur dánarbúsins ætti að skiptast jafnt með þeim. Umboðsmaður E kvað hana vefengja að B hafi eignast 6.000 fm. til viðbótar af landinu fyrir afsal frá föður og teldi að C geti ekki lagt fram fullnægjandi eignarheimild fyrir þeim 5.000 fm. sem hann segi stafa frá móður sinni. B og C hafi andmælt framangreindu og byggja á því að þeir hafi eignast aukinn hlut fyrir afsöl frá foreldrum, B 6.000 fm. og C 5.000 fm.

                Þá segir í greinargerðinni að skiptastjóri hafi tekið fram á skiptafundinum að landspildunni yrði ekki skipt með erfingjum á meðan ágreiningur væri með þeim um eignarétt hvers um sig. Eftir að árangurslaust hafi verið leitað sátta með aðilum hafi skiptastjóri ákveðið að vísa ágreiningnum til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Þar segir: „Með vísan til framanritaðs er þess óskað að héraðsdómur leysi úr ágreiningi erfingja um eignarrétt þeirra til 8000 fm. landspildu úr jörðinni [...], og úrskurði hvað hver teljist vera eignarhluti dánarbúsins og hvers erfingja um sig í hinu óskipta landi jarðarinnar“.

Undir rekstri málsins lést einn erfinginn, C og á nú dánarbúið aðild að málinu. Var málflutningi í þessum þætti málsins frestað vegna þess.

II.

Í fyrirtöku þann 13. apríl sl., lagði lögmaður varnaraðila, A, fram matsbeiðni og krafðist þess að dómkvaddur verði óvilhallur maður til þess að skoða og meta hvert hafi verið markaðsverð sumarhúss við [...]. Stærð sumarhússins sé 50,4 fm. og eignarlóðin samkvæmt FMR sé 6000 fermetrar. Við fyrirtöku og munnlegan flutning um kröfu varnaraðila þann 7. júlí sl. breytti matsbeiðandi matsspurningunni þannig að metið verði hvert hafi verið markaðsverð umræddrar eignar 31. maí 2013 miðað við þau greiðslukjör sem eignin var þá seld gegn þannig að metið verði hvert hafi verið markaðsverð umræddrar eignar 31. maí 2013 miðað við þau greiðslukjör sem eignin var þá seld gegn, sundurliðað milli sumarhússins og lóðarinnar. Umrætt sumarhús og land seldi F B með kaupsamningi og afsali þann 31. maí 2013. Var söluandvirðið 7.500.000 krónur.

Sóknaraðilar í málinu eru B og db. C en varnaraðilar D, A, E og db. F og G.

Sóknaraðili C skilaði greinargerð í málinu og krafðist aðallega að staðfestur verði eignarréttur hans, samtals 16.428,57 fm. í óskiptu landi sóknaraðila og varnaraðila. Til vara gerir hann þá kröfu að staðfestur verði eignarréttur hans að samtals 11.428,57 fm. í óskiptu landi sóknaraðila og varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðilum.

Sóknaraðili B krafðist þess aðallega í greinargerð sinni að staðfestur verði eignarréttur hans, samtals 17.428,57 fm. í óskiptu landi sóknar- og varnaraðila og til vara að staðfestur verið eignarréttur hans að 11.428,57 fm. í óskiptu landi sóknar- og varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi vararaðilum.

Varnaraðili E krafðist þess í greinargerð að staðfestur verði eignarréttur hennar að samtals 21.428,57 fm. í óskiptu landi aðila en til vara að staðfestur verði eignarréttur hennar að 11.428,57 fm. í sama landi. Þá mótmælir varnaraðili kröfum sóknaraðila C um staðfestingu á eignarrétti að samtals 16.428,57 fm. í óskiptu landinu. Einnig mótmælir hún kröfum sóknaraðila B um staðfestingu á eignarrétti að samtals 17.428,57 fm. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi sóknaraðilum.

Varnaraðili A krafðist í greinargerð sinni að staðfest yrði að allir aðilar málsins ættu 1/7 hluta í óskiptri sameign þeirra í landsspildunni. Þá krafðist hún málskostnaðar.

Varnaraðili D hefur ekki látið málið til sín taka.

Skiptastjóri dánarbúsins, Helgi Birgisson hrl., lét málið til sín taka á fyrri stigum. Í greinargerð hans kemur fram að ágreiningsefni aðila lúti að 8 hektara óskiptu landi úr [...] og þá hver sé annars vegar eignarhlutur dánarbúsins í landinu og hins vegar eignarhlutur hvers erfingja um sig og þar með hversu stór hluti landsins eigi að koma til skipta. Að öðru leyti blandaði skiptastjóri sér ekki í málið.

Ágreiningslaust er að með afsali þann 23. maí 1968 eignuðust allir aðilar máls þessa 80.000 fermetra landsúr landi jarðarinnar [...], hverjum einn sjöundi hlutur í óskiptri sameign landsins. Var hver hlutur 11.428,5 fermetrar. Áttu F og G hvort um sig 11.428,5 fermetra í óskiptri sameigninni aðila. Samkvæmt gögnum málsins seldi G C sumarbústað í [...] árið 2002 og 31. maí 2013 seldi F til B sumarhús við [...], sumarhús að stærð 50,4 fm. og eignarlóð 6.000 fm.

III.

Eins og rakið er að framan, krefst einn varnaraðili þess að dómkvaddur verði matsmaður til að meta hvert hafi verið markaðsverð sumarhússins við [...], miðað við þau greiðslukjör sem eignin var þá seld gegn, sundurliðað milli sumarhússins og lóðar.

                Matsbeiðandi heldur því fram að söluverði eignarinnar, þ.e. sumarhússins 50,4 fm. og eignarlóð 6.000 fm. hafi verið langt undir sannvirði og fjarri því að vera sanngjarnt og eðlilegt. Sömuleiðis séu greiðsluskilmálar óeðlilegir og greiðslufrestur hafi verið veittur án verðtryggingar á meirihluta kaupverðsins án nokkurra trygginga fyrir greiðslu eftirstöðva kaupverðs umfram kaupsamningsgreiðslu. Segir í matsbeiðninni að við þessar aðstæður sé matsbeiðanda nauðsynlegt að tryggja sér sönnun þess hvert hafi verið markaðsverð greindrar eignar 31. maí 2013 miðað við þau greiðslukjör sem eignin hafi verið seld gegn. Hyggst hann með matsgerð sýna fram á að eignin hafi verið seld á óásættanlegu verði. Vísar matsbeiðandi til XIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.

                Matsþolar mótmæltu framkominni matsbeiðni og töldu hana í fyrsta lagi tilgangslausa og ekki þjóna neinum tilgangi við úrlausn þessa máls og í öðru lagi að ef ætti að rifta ofangreindum gjörningi þá þyrfti til þess sérstakt dómsmál. Úr því yrði ekki leyst undir rekstri þessa máls.

                Mál sem þessi sæta reglum laga nr. 20/1991. Í 2. mgr. 131. gr. laganna segir að að því leyti sem annað leiði ekki af ákvæðum þessara laga gildi almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt XVII. kafla laga nr. 20/1991. Tilgangur þeirrar málsmeðferðarreglna sem mál samkvæmt XVII. kafla laganna kveða á um er að mál sem þessi fái skjótari meðferð en einkamál eftir almennum reglum einkamálalaga. Í því skyni eru frestir til að leggja fram greinargerðir og frekari gögn skammir. Ljóst er að dómkvaðning matsmanns vegna ágreinings sem nú er uppi getur dregið málið á langinn og brýtur gegn tilgangi laganna að það fái skjóta málsmeðferð. Það eitt og sér kemur hins vegar ekki í veg fyrir að krafa matsbeiðanda yrði tekin til greina.

Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Sé ekki svo ástatt sem greinir í ákvæðinu er ekki girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerðum, skýrslum eða greinargerðum sérfræðinga sé aflað nýrrar matsgerðar sem taki til annarra atriða en þær sem liggja fyrir í málinu.

                Eins og mál þetta kemur til dómsins, sker dómarinn eingöngu úr þeim ágreiningi sem skiptastjóri vísar til dómsins. Telur dómurinn það svo að ef matsbeiðandi í þessu máli hyggst nota matsgerð til að rifta kaupsamningi og afsali milli F og B og eða nota það til annars fjárhagsuppgjörs, beri honum að gera það í sérstöku riftunarmáli. Svo hefur ekki verið gert. Hefur matsgerð sú er matsbeiðandi hyggst afla, í ofangreindu skyni, enga þýðingu við úrlausn þessa máls, sem vísað var til dómsins af skiptastjóra þann 17. nóvember 2015. Verður kröfu hans því hafnað.

                Matsbeiðandi, A greiði hvorum sóknaraðila fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað.

Úrskurðinn kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð.

Krafa matsbeiðanda, A, um að dómkvaddur verði matsmaður til að meta markaðsverð fasteignarinnar að [...], er hafnað.

                Matsbeiðandi, A greiði hvorum sóknaraðila fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað.