Hæstiréttur íslands
Mál nr. 60/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Miðvikudaginn 19. febrúar 2003. |
|
Nr. 60/2003. |
X(Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.) gegn Y (Helgi Teitur Helgason hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Hæstiréttur staðfesti ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að X skyldi vistaður nauðugur á sjúkrahúsi samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. febrúar 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 9. sama mánaðar um að hann skyldi vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og þóknun talsmanns hans greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknun hvors þeirra er ákveðin í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Rúnars Ólafssonar héraðsdómslögmanns, og talsmanns varnaraðila, Helga Teits Helgasonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 100.000 krónur handa hvorum, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. febrúar 2003.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í gær, er tilkomið vegna kröfu X, kt. [...], [...], Akureyri, sem krefst þess að ákvörðun Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. febrúar 2003 um vistun hans á sjúkrahúsi í allt að 21 sólarhring, verði úr gildi felld.
Krafan er byggð á 1. mgr. 30. gr. lögræðislaga og ástæðan sú að hann telur skilyrði 3. mgr. 19. gr. sömu laga séu ekki fyrir hendi og beri því að fella samþykkið úr gildi.
Hann krefst greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.
Skipaður talsmaður sóknaraðilja, Y, kt. [...], [...], Akureyri, gerir þá kröfu að kröfu varnaraðilja verði hafnað og vísar hann sérstaklega til skýrslu forstöðulæknis geðdeildar FSA sem beri skýrlega með sér nauðsyn þess að varnaraðilji fá viðeigandi læknismeðferð. Hann krefst greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.
Álit dómsins:
Samkvæmt skýrslu forstöðulæknis geðdeildar FSA dagsettri 13. þ.m. kemur fram að varnaraðilji hafi ótvíræð einkenni um alvarlegan geðsjúkdóm og við komu á geðdeild hafi sjúkdómsinnsæi hans ekkert verið. Hafi hann fengið viðeigandi lyfjameðferð til þess að slá á geðrofseinkenni, hann sé enn með dómgreindarbrest og skerta sjúkdómsinnsýni. Geti hann ekki borið ábyrgð á hegðun sinni í núverandi veikindum. Hann sé í litlu jafnavægi, geðslagið breytist snögglega og geti þá orðið ógnandi í tali og háttum. Hafi af þessum sökum þurft lögreglumenn til að sitja yfir honum flesta daga sem hann hafi verið á geðdeildinni í þetta sinn. Sé hann haldinn sjúklegri tortryggni sem ekki hafi breyst þrátt fyrir lyfjameðferð sem ætti að slá á þau einkenni.
Samkvæmt læknabréfi frá geðdeild Landsspítalans 3. þ.m. hafi hann verið útskrifaður þaðan með greininguna „manic depressive psyhcosis, manic type“. Í niðurstöðu skýrslu sinnar segir forstöðulæknirinn að varnaraðilji sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og í núverandi veikindum geti hann verið hættulegur sjálfum sér og öðrum og telur að enn um sinn þurfi að vista hann gegn vilja sínum á geðdeild til þess að unnt sé að veita honum þá læknismeðferð og ummönnum sem hann þurfi.
Með vísan til þess sem að framan er rakið telur dómurinn sannað að högum varnaraðilja sé svo komið, með vísan til 2. og 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71, 1997 að ekki séu efni til að fella niður samþykki Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. þ.m. um dvöl hans á sjúkrahúsi.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðilja Helga Teits Helgasonar hdl. og skipaðs verjanda Ólafs Rúnars Ólafssonar hdl. ákveðast kr. 40.000 til hvors.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðilja, X, um að felld verði úr gildi samþykkt Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. febrúar 2003 um vistun hans á sjúkrahúsi í allt að 21 sólarhring, er hafnað.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.