Hæstiréttur íslands
Mál nr. 441/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 30. nóvember 2001. |
|
Nr. 441/2001. |
Ríkislögreglustjóri |
|
|
(Jón H. Snorrason saksóknari) |
|
|
gegn |
|
|
X |
|
|
(Björn Þorri Viktorsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en tími varðhaldsins lengdur
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. desember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 27. nóvember 2001 og krefst þess að gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila verði markaður tími allt til föstudagsins 7. desember sama árs kl. 16.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Í ljósi umfangs málsins þykir mega verða við kröfu sóknaraðila um lengd gæsluvarðhaldsins, sem verður því markaður tími eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. desember 2001 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2001.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. desember nk. kl. 16:00.
[ ]
Af hálfu lögreglu, er með vísan til framangreinds, rannsóknarhagsmuna og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 talið nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta umbeðnu gæsluvarðhaldi en veruleg hætta sé á að hann torveldi rannsókn málsins, svo sem með því að skjóta undan gögnum, koma undan peningum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, ef hann fái að fara frjáls ferða sinna.
Rökstuddur grunur er um að kærði hafi gerst sekur um brot sem varðað geta fangelsisrefsingu. Þegar litið er til þess sem fram er komið í máli þessu, sérstaklega gagna sem borist hafa lögreglu í dag og í gær og eftir er að rannsaka frekar og bera saman við önnur rannsóknargögn, svo og þess að yfirheyra þarf þá menn sem grunur leikur á að séu í vitorði með kærða, má fallast á með lögreglu að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni eða samseka. Þá er til þess að líta að um viðamikla rannsókn á umfangsmiklum viðskiptum er að ræða þar sem grunur leikur á að kærði hafi [ ] og þannig reynt að fela slóð sína. Samkvæmt því ber að fallast á að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að krafa ríkislögreglustjóra verði tekin til greina enda telst skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Verður krafa ríkislögreglustjóra því tekin til greina þó þannig að gæsluvarðhaldinu verður markaður skemmri tími en krafist er eða til þriðjudagsins 4. desember nk. kl. 16.00.
Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 4. desember 2001 kl. 16:00.