Hæstiréttur íslands

Mál nr. 328/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður


Mánudaginn 20. júní 2011.

Nr. 328/2011.

Ríkharður Jónsson

(Bergþóra Ingólfsdóttir hrl.)

gegn

Glym smiðju ehf.

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.

R kærði úrskurð héraðsdóms þar sem mál hans gegn GS ehf. og GF ehf. var fellt niður og honum gert að greiða GS ehf. 150.000 krónur í málskostnað. Í málinu hafði R stefnt GS ehf. og GF ehf. til greiðslu vangoldinna launa vegna starfa hans í þágu GF ehf. Bú GF ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og lýsti R kröfu sinni í búið. Degi fyrir aðalmeðferð málsins tilkynnti lögmaður R lögmanni GS ehf. að krafa R í búið hefði verið viðurkennd og að málið yrði fellt niður. Deildu aðilar því aðeins um málskostnað fyrir héraðsdómi. Í Hæstarétti var fallist á með héraðsdómi að ekki væru tilefni til að verða við kröfu GS ehf. að lögmaður R yrði dæmdur sameiginlega með R til að greiða málskostnað. Þá var talið hæfilegt, þegar atvik málsins væru virt og sú vinna sem GS ehf. hafði lagt í málið, að R greiddi GS ehf. 250.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson  og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2011, þar sem mál sóknaraðila gegn varnaraðila og fleirum var fellt niður og þeim fyrrnefnda gert að greiða varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdóms hvað varðar málskostnað verði hrundið og málskostnaður í héraði felldur niður. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 23. maí 2011 og krefst þess að sóknaraðili og lögmaður hans verði „sameiginlega dæmdir til að greiða [varnaraðila] kr. 294.548 í málskostnað í héraði auk álags á málskostnað og kærumálskostnað auk álags að mati Hæstaréttar.“

Sóknaraðili stefndi í héraði varnaraðila og Glym fasteignum ehf. og krafðist þess að félögin yrðu dæmd til að greiða sér óskipt 405.145 krónur auk vaxta, en um var að ræða vangoldið orlof, desemberuppbót og orlofsuppbót vegna starfa sóknaraðila í þágu Glyms fasteigna ehf.  Ágreiningslaust er að sóknaraðili starfaði hjá Glym fasteignum ehf. frá maí 2009 til 31. mars 2010. Varnaraðili greiddi sóknaraðila laun vegna vinnu fyrri hluta apríl 2010 en þá hætti hann störfum. Ágreiningur málsaðila fyrir héraðsdómi snerist einkum um, hvort sóknaraðili gæti beint kröfum sínum um vangoldin laun hjá Glym fasteignum ehf. að varnaraðila á þeim grundvelli að síðarnefnda félagið hefði yfirtekið ráðningarsamning hans og undirgengist skyldu til að greiða hin vangoldnu laun. Málið var þingfest 22. september 2010 og varnaraðili skilaði greinargerð af sinni hálfu 20. október sama ár, þar sem félagið rökstuddi þá afstöðu sína að sýkna bæri það af kröfu sóknaraðila.

Bú Glyms fasteigna ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 23. desember 2010 og lýsti sóknaraðili kröfu sinni, sem hann hafði uppi fyrir héraðsdómi í máli þessu, í búið 3. mars 2011. Eftir að varnaraðili lagði fram héraðsgreinargerð sína var þrívegis þingað í málinu, síðast 28. janúar 2011, en þá var ákveðið að aðalmeðferð skyldi fara fram 14. apríl sama ár. Degi áður en aðalmeðferð skyldi fara fram sendi lögmaður sóknaraðila lögmanni varnaraðila tölvupóst, sem sagður er sendur klukkan 16.31, þar sem tilkynnt var að skiptastjóri í þrotabúi Glyms fasteigna ehf. hefði skömmu áður greint frá því að krafa sóknaraðila í þrotabúið hefði verið viðurkennd. Var lagt til að í stað þess að flytja málið morguninn eftir yrði það fellt niður án kostnaðar. Yrði ekki á það fallist þyrfti aðeins að flytja málið um málskostnað. Það var gert, en í upphafi þinghaldsins lagði lögmaður varnaraðila fram málskostnaðarreikning og áréttaði kröfu um álag á málskostnað. Krafðist hann þess að sóknaraðili yrði dæmdur til að greiða 294.548 krónur í málskostnað, þar af var þóknun lögmanns 270.000 krónur. Varnaraðili gerði einnig þá kröfu að lögmaður sóknaraðila, Bergþóra Ingólfsdóttir hæstaréttarlögmaður, yrði dæmd sameiginlega með sóknaraðila til greiðslu málskostnaðarins. Héraðsdómur taldi hvorki tilefni til að dæma álag á málskostnað né til að dæma lögmanninn sameiginlega til að greiða málskostnað með sóknaraðila.

Í kæru til Hæstaréttar heldur lögmaður varnaraðila því til streitu að áðurnefndur lögmaður verði dæmdur sameignlega með sóknaraðila til að greiða málskostnað. Fallist er á með héraðsdómi að ekki sé tilefni til að verða við þeirri kröfu. Á það einnig við um kærumálskostnað.

Þá er fallist á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um að dæma beri sóknaraðila til greiðslu málskostnaðar fyrir héraðsdómi. Eins og fyrr greinir er krafa varnaraðila reist á því að dæma beri honum málskostnað í samræmi við málskostnaðarreikning, er lagður var fram í þinghaldi 14. apríl 2011. Í málskostnaðarreikningnum kemur fram að þóknun lögmanns sé miðuð við vinnuframlag hans í málinu, sem sagt er vera 15  tímar samkvæmt tímaskrá. Tímagjald er sagt vera 18.000 krónur. Auk þess er krafist greiðslu fyrir akstur svo og kostnað vegna greiðslu til lögmanna, sem mættu tvívegis í þinghald fyrir varnaraðila.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Er aðila rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi, sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Þegar atvik málsins eru virt og sú vinna sem varnaraðili hafði lagt í málið, þykir hæfilegt að sóknaraðili greiði honum 250.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Sóknaraðili, Ríkharður Jónsson, greiði varnaraðila, Glym smiðju ehf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2011.

Mál þetta var þingfest 22. september 2010. Í þinghaldi 14. apríl 2011 felldi stefnandi málið niður og var það tekið til úrskurðar um ágreining aðila um málskostnað.

Stefnandi er Ríkharður Jónsson, Holtsgötu 36, Njarðvík, en stefndu eru þb. Glyms fasteigna ehf., Skútahrauni 2, Hafnarfirði og Glymur smiðja ehf., Skútahrauni 3b, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða skuld að fjárhæð 405.145 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. maí 2010 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

Af hálfu Glyms fasteigna ehf. var ekki tekið til varna í málinu en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta undir rekstri málsins. Af hálfu Glyms smiðju ehf. er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu auk álags á málskostnað.

I.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hann hafi starfað við járnsmíðar í 25 ár. Hann hafi verið ráðinn til Glyms fasteigna ehf. í maí 2009. Vinnustaður stefnanda hafi verið á verkstæði stefnda að Skútahrauni í Hafnarfirði þar sem hann hafi unnið við að smíða handrið. Síðasti starfsdagur hans hafi verið 15. apríl 2010 en laun fyrir þann mánuð hafi verið greidd af stefnda Glym smiðju ehf. Við starfslok hafi ekki verið gert upp við stefnanda áunnið uppsafnað orlof né aðrar greiðslur sem gera beri upp við þau tímamörk.

Tilraunir stefnanda til þess að fá leiðréttingu sinna mála hafi ekki borið árangur og hafi hann því leitað til stéttarfélags síns um aðstoð við að ná fram rétti sínum. Félag iðn- og tæknigreina hafi sent stefnda greiðsluáskorun, dags. 26. maí 2010. Engin viðbrögð hafi orðið við því og hafi krafan því verið send lögmönnum til innheimtu 21. júní 2010. Þá hafi komið á daginn að enginn hafi lengur verið skráður í stjórn Glyms fasteigna ehf. en hins vegar hafði verið stofnað nýtt félag undir nafninu Glymur smiðja ehf. sem tekið hafi yfir rekstur þann sem áður hafði verið í hendi Glyms fasteigna ehf. Stefnda Glym smiðju ehf. hafi verið sent innheimtubréf en engin viðbrögð orðið við því.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á hendur stefnda Glym smiðju ehf. á því að það félag hafi yfirtekið eignir og rekstur Glyms fasteigna ehf. á vordögum 2010. Um leið hafi stefndi Glymur smiðja ehf. yfirtekið réttindi og skyldur Glyms fasteigna ehf. gagnvart stefnanda, sbr. 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki, enda hafði Glymur fasteignir ehf. ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta þegar þetta var. Þessar skyldur sínar hafi stefndi Glymur smiðja ehf. viðurkennt í verki með því að inna af hendi síðustu launagreiðslu stefnanda þann 1. maí 2010.

Þá byggir stefnandi á því að yfirtaka þessi hafi í raun verið til málamynda og því beri hin stefndu félög í raun in solidum ábyrgð á kröfu stefnanda. Samkvæmt útskrift úr hlutafélagaskrá hafi engir stjórnarmenn verið skráðir í forsvari fyrir einkahlutafélagið Glym fasteignir. Á dómskjölum sé að finna afrit af tilkynningum félagsins til hlutafélagaskrár á tímabilinu frá 18. janúar til 28. maí 2010. Annars vegar sé um að ræða afsögn stjórnarmannsins og framkvæmdastjóra félagsins, Lilju Margrétar Hreiðarsdóttur, dags. 8. mars 2010 og loks tilkynningu Kötlu Þorsteinsdóttur, dags. 28. maí 2010, um afsögn sína sem varamanns í stjórn félagsins. Fyrir liggi í málinu að eignir hafi farið á milli hinna stefndu félaga á svipuðum tíma og stefndi Glymur smiðja ehf. var stofnað. Renni það stoðum undir þá málsástæðu stefnanda að stefndi Glymur smiðja ehf. hafi í raun yfirtekið rekstur Glym fasteigna ehf.

II.

Stefndi Glymur smiðja ehf. kveður málavexti þá að stefnandi hafi verið starfsmaður Glyms fasteigna ehf. frá 6. maí 2009 til 31. mars 2010. Það félag hafi þá verið undirverktaki hjá Ístaki hf. og haft með höndum smíðaverkefni við byggingu Háskólans í Reykjavík samkvæmt verksamningi. Stefndi Glymur fasteignir ehf. hafi ekki getað efnt verksamninginn og því hafi verið gerður nýr verksamningur við stefnda Glym smiðju ehf. en það félag hafi verið stofnað í janúar 2010 en skráð í febrúarmánuði sama ár. Starfslok stefnanda hjá Glym fasteignum ehf. hafi verið 31. mars 2010 og hafi verið fullt samkomulag um að vinnuveitandi stefnanda frá 1. apríl 2010 væri stefndi Glymur smiðja ehf.

Stefnandi hafi þegið boð stefnda Glyms smiðju ehf. að taka til starfa hjá því félagi. Hafi hann hafið störf 1. apríl 2010 en látið af störfum 15. sama mánaðar að eigin ósk. Hafi laun hans á því tímabili verið greidd með skilum af stefnda Glym smiðju ehf. Allar kröfur stefnanda í málinu varði því starfstíma hans hjá stefnda Glym fasteignum ehf.

Stefndi Glymur smiðja ehf. mótmælir sem röngum og óréttmætum öllum þeim málsástæðum sem stefnandi byggir á kröfur sínar gegn því félagi. Stefndi Glymur smiðja ehf. hafi hvorki yfirtekið eignir né rekstur stefnda Glyms fasteigna ehf. Engin réttindi eða skyldur hafi færst yfir milli þessara tveggja félaga. Lög nr. 81/2010 hafi fyrst tekið gildi 1. júlí 2010, eftir að ráðningarsamband stefnanda og beggja stefndu hafi verið lokið.

Því sé mótmælt að stefndi Glymur smiðja ehf. hafi viðurkennt skyldur stefnda Glyms fasteigna ehf. sem sínar skyldur með launagreiðslu fyrrnefnds félags þann 1. maí 2010. Þá sé því ennfremur mótmælt að stefndi Glymur smiðja ehf. hafi verið stofnaður um rekstur stefnda Glyms fasteigna ehf. Sýknukrafa stefnda Glyms smiðju ehf. sé því reist á því að hann sé ekki réttur aðili að máli þessu og því beri að sýkna hann sökum aðildarskorts.

Málskostnaðarkrafa stefnda Glyms smiðju ehf., auk álags á málskostnað, sé byggð á því að sá sem tapi máli að öllu verulegu skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað og einnig því að stefnandi hafi höfðað mál þetta að tilefnislausu og þarflausu og haft uppi kröfur og staðhæfingar sem hann vissi eða mátti vita að væru rangar eða haldlausar. Til stuðnings málskostnaðarkröfu stefnda Glyms smiðju ehf. sé einnig vísað til þess að stefnandi hafi vanrækt að uppfylla þá lagaskyldu 6. og 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 að senda stefnda þar greinda viðvörun og gefa stefnda kost á skýringum af sinni hálfu fyrir útgáfu stefnu, sbr. og reglugerð um hámark innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009, sbr. breytingu á þeirri reglugerð með reglugerð nr. 133/2010 og einnig vanrækt að senda stefnda innheimtubréf fyrir löginnheimtu. Málskostnaðarkrafan byggist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr., 1. mgr. 130. gr., a- og c-liði 1. mgr. og 2. mgr. 131. gr.

III.

Af hálfu stefnda Glyms fasteigna ehf. hefur ekki verið tekið til varnar. Eftir að mál þetta var höfðað var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta. Með bréfi skiptastjóra þrotabúsins 13. apríl 2011 var því lýst yfir að krafa stefnanda væri samþykkt sem forgangskrafa, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í framhaldi af því ákvað stefnandi að fella málið niður gegn báðum stefndu þar sem fyrir lá að krafan fáist greidd úr Ábyrgðarsjóði launa.

Stefndi Glymur smiðja ehf. krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda og í þinghaldi 14. apríl, þegar málið var flutt um málskostnaðarkröfuna, gerði lögmaður stefnda Glyms smiðju ehf. þá viðbótarkröfu að lögmaður stefnanda yrði jafnframt dæmdur sameiginlega með stefnanda til að greiða málskostnað samkvæmt 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, þ. á m. álag samkvæmt 2. mgr.

Krafa stefnanda á hendur stefnda Glym smiðju ehf. byggist á því að stefndi hafi yfirtekið rekstur Glyms fasteigna ehf. og með því hafi stefndi Glymur smiðja ehf. yfirtekið réttindi og skyldur stefnda Glyms fasteigna gagnvart stefnanda, sbr. 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki. Með dómi Hæstaréttar 24. febrúar 2005 í máli nr. 375/2004 var komist að þeirri niðurstöðu að framangreint ákvæði tæki ekki til ógreiddra launa fyrir aðilaskipti á fyrirtæki. Með lögum nr. 81/2010, sem gildi tóku 1. júlí 2010, var fyrrgreindu ákvæði breytt á þann veg að ákvæðið ætti einnig við þá aðstöðu sem hér er til umfjöllunar.

Atvik þau, er mál þetta er sprottið af, áttu sér hins vegar stað áður en lögunum var breytt. Samkvæmt þessum dómi Hæstaréttar var því ekki lagagrundvöllur til þess að höfða mál þetta á hendur stefnda Glym smiðju ehf. vegna vangreiddra launa Glyms fasteigna ehf. Stefndi Glymur smiðja ehf. á því rétt á málskostnaði úr hendi stefnanda. Ekki þykja efni til að dæma lögmann stefnanda sameiginlega með stefnanda til greiðslu málskostnaðar. Þá þykja heldur ekki efni til að beita ákvæðum 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um álag á málskostnað. Málskostnaður til handa stefnda þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Niðurstaða málsins verður því sú að það er fellt niður samkvæmt c-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 105. gr. Stefnandi greiði stefnda Glym smiðju 150.000 krónur í málskostnað.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Málið er fellt niður.

Stefnandi, Ríkharður Jónsson, greiði stefnda, Glym smiðju ehf., 150.000 krónur í málskostnað.