Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-216
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lífeyrir
- Stjórnarskrá
- Eignarréttur
- Afturvirkni laga
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 27. júní 2019 leitar Tryggingastofnun ríkisins eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í málinu nr. 466/2018: Sigríður Sæland Jónsdóttir gegn Tryggingastofnun ríkisins, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sigríður Sæland Jónsdóttir leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu að fjárhæð 41.776 krónur með dráttarvöxtum. Krafa gagnaðila er tilkomin vegna skerðingar á ellilífeyrissgreiðslum í janúar og febrúar 2017 á greiðslum til hennar úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóði. Deila aðilar um hvort leyfisbeiðanda hafi verið það heimilt með vísan til breytinga sem gerðar voru á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Fyrir lagabreytingarnar naut gagnaðili ellilífeyrissgreiðslna á grundvelli 17. gr. laga nr. 100/2007 auk tekjutryggingar á grundvelli 22. gr. sömu laga. Á þeim tíma var tekjutryggingarhluti lífeyrisgreiðslna gagnaðila skertur vegna greiðslna sem hún naut úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóði, sbr. meðal annars 4. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007. Ellilífeyrishluti greiðslna áfrýjanda var ekki skertur með sama hætti en lögin gerðu ráð fyrir að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum teldust ekki til tekna við útreikning ellilífeyris, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007. Með lögum nr. 116/2016 um breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum (einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.), voru ýmsar breytingar gerðar á lögum nr. 100/2007 en þær tóku gildi 1. janúar 2017. Meðal annars voru bótaflokkar ellilífeyrisþega sameinaðir og jafnframt voru reglur um tekjutengingar samræmdar þannig að allar tekjur kæmu í sama hlutfalli til frádráttar hvaðan sem þær stöfuðu. Ellilífeyrisþegar nutu frá og með gildistöku laga nr. 116/2016 greiðslna á ellilífeyri samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 en þær greiðslur sættu skerðingu vegna annarra tekna lífeyrisþega samkvæmt 1. mgr. 23. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. sömu laga. Í 3. mgr. 16. gr. laganna var áfram gert ráð fyrir að þegar um ellilífeyri væri að ræða ættu greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum ekki að teljast til tekna lífeyrisþega. Það fórst fyrir hjá löggjafanum að fella ákvæði 3. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 úr lögunum eða taka fram að það ákvæði ætti ekki við um greiðslur á ellilífeyri samkvæmt 17. gr. laganna. Þetta varð þess valdandi að eftir lagabreytinguna tók 3. mgr. 16. gr. laganna bæði til nýs ellilífeyris samkvæmt 17. gr. þeirra og grunnlífeyris örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. sömu laga. Með lögum nr. 9/2017 um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum (leiðrétting), var ákvæðum 3. og 4. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 breytt á þann veg að greiðslur til ellilífeyrisþega úr skyldubundnum lífeyrissjóðum skyldu teljast til tekna þeirra. Af því leiddi að lögin gerðu ráð fyrir að ellilífeyrisgreiðslur yrðu skertar vegna slíkra greiðslna eins og verið hafði við útreikning á rétti ellilífeyrisþega til tekjutryggingar fyrir gildistöku laga nr. 116/2016. Í lögum nr. 9/2017 var kveðið á um að þau giltu afturvirkt um þá sem öðlast hefðu rétt til ellilífeyris 1. janúar 2017 og síðar.
Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila með þeim rökum að þar sem um augljósa villu í lögum hafi verið að ræða og með vísan til valdheimilda löggjafans til að hlutast til um skipulag almannatrygginga, sem í eðli sínu væri félagslegt tryggingarkerfi, yrði að telja að löggjafinn hafi haft heimild til að leiðrétta mistök við slíka lagasetningu með afturvirkum hætti þar sem gætt væri jafnræðis og meðalhófs enda væri það gert jafnskjótt og mögulegt væri frá því að mistök uppgötvuðust og án þess að það hafi valdið röskun á friðhelgi eignarréttar og að ekki yrði teljandi óhagræði af því fyrir bótaþega. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og vísaði til þess að leyfisbeiðandi hafi enga heimild haft í lögum til að skerða ellilífeyri til gagnaðila í janúar og febrúar 2017 vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóði hennar og lægi því fyrir að gagnaðili hafi því samkvæmt lögum eignast kröfu á hendur leyfisbeiðanda sem nam fjárhæð skerðingarinnar. Þá var hvorki fallist á að samanburðarskýring við önnur ákvæði laganna eða ákvæði fjárlaga gæti leitt til annarrar niðurstöðu né að umfjöllun í lögskýringargögnum laga nr. 116/2016 gæti haft í för með sér lögskýringu sem gengi gegn skýrum og afdráttarlausum texta laganna hvað þetta varðaði. Var því ekki fallist á að gagnaðili hefði ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að ellilífeyrir hennar yrði ekki skertur á umræddan hátt. Af sömu ástæða var ekki fallist á að það hefði þýðingu fyrir úrslit málsins þótt ráða mætti af lögskýringargögnum laga nr. 116/2016 að ekki hafi staðið til að fella niður umrædda skerðingu lífeyrisgreiðslna.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni sína þar sem dómurinn geti haft fordæmisgildi varðandi alla ellilífeyrisþega sem fái greiðslur frá skyldubundnum lífeyrissjóðum en að heildarfjárhæð endurgreiðslna á þessu tímabili gæti numið 4,5 milljörðum króna auk vaxta. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða málsins hafi mikið fordæmisgildi um hvort myndast geti kröfuréttindi, varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, vegna augljósra mistaka við lagasetningu þvert gegn vilja löggjafans. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og að hann leiði til mismunar ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega.
Að virtum gögnum málsins og í ljósi dóms Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 549/2002 er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi samkvæmt 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.