Hæstiréttur íslands

Mál nr. 98/2009


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Trúnaðarskylda
  • Skaðabótamál
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. nóvember 2009.

Nr. 98/2009.

Hrefna María Gunnarsdóttir

Ásta Valdimarsdóttir

Guðrún Margrét Hannesdóttir

Margrét O. Magnúsdóttir og

Valdimar Kristinn Hannesson

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Hirti Gíslasyni og

Hafsteini Má Ársælssyni

(Anton B. Markússon hrl.)

 

Vinnusamningur. Trúnaðarskylda. Skaðabótamál. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

 

Þann 17. mars 2006 skrifuðu fyrirsvarsmenn félaganna J ehf. og V hf. undir viljayfirlýsingu um sölu V hf. til hins fyrrnefnda félags. Var kaupverð þar tilgreint 300.000.000 krónur. Af þeirri upphæð var viðskiptavild félagsins metin á 70.000.000 krónur auk þess sem gert var ráð fyrir 10.000.000 króna aukagreiðslu til fyrirsvarsmanns V hf., MÞM, en hann skyldi vera kaupanda til aðstoðar í það minnsta sex mánuði eftir kaupin. Þá var það jafnframt tekið fram í samningnum að seljandi skyldi tryggja að bæði erlendir birgjar myndu fallast á eigendaskiptin og lýsa sig reiðubúna til að starfa með nýjum eigendum, svo og lykilstarfsmenn félagsins. Áður en skrifað var undir kaupsamning milli félaganna keyptu tveir lykilstarfsmenn V hf. hluta í félaginu R ehf., sem var einn helsti samkeppnisaðili V hf., og gerðu síðan viðskiptasamninga við tvo stærstu birgja V hf., B og W. Kaupsamningur milli J ehf. og V hf. var gerður 21. apríl 2006 en þar var viðskiptavild V hf. nú metin á 10.000.000 krónur auk þess sem greiðsla til MÞM að sömu fjárhæð vegna starfsloka hans var felld niður. Var heildarkaupverð félagsins því lækkað niður í 230.000.000 krónur vegna þess að umræddir starfsmenn höfðu látið af störfum fyrir félagið auk þess sem félagið hafði misst einkaumboðssamninga við áðurgreinda birgja. Í málinu stefndu fyrrverandi hluthafar V hf. starfsmönnunum tveimur og kröfðust skaðabóta að þeirri fjárhæð sem mismunur viljayfirlýsingarinnar og kaupsamningsins hljóðaði á um. Talið var að með háttseminni hefðu starfsmennirnir hagnýtt sér atvinnuleyndarmál sem þeir hefðu aflað sér í starfi sínu í því skyni að ná til sín viðskiptahagsmunum frá félaginu og efla með því stöðu samkeppnisaðilans R ehf. Hefði háttsemin verið saknæm og ólögmæt og falið í sér brot á starfsskyldum þeirra. Hagnýting atvinnuleyndarmála í þessu skyni fól í sér brot á 2. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 57/2005, sbr. nú 2. og 3. mgr. 16. gr. c sömu laga, og gæti orðið grundvöllur skaðabótaábyrgðar þeirra á því tjóni sem sannanlega varð af háttseminni. Í málinu lá fyrir að MÞM hefði veikst alvarlega skömmu eftir gerð viljayfirlýsingarinnar. Var því fallist á það með starfsmönnunum að ósannað væri að MÞM hefði verið fær um að sinna þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt yfirlýsingunni, og voru þeir því sýknaðir af 10.000.000 króna greiðslu vegna þessa. Hvað varðaði kröfu hluthafanna um skaðabætur að fjárhæð 60.000.000 krónur vegna lækkunar á verðmæti viðskiptavildar var talið að hluthafarnir hefðu ekki reifað með afmörkuðum hætti hvert tjón þeirra hefði verið vegna breytinga á viðskiptasambandi við birginn B og uppsagnar W á einkaumboðssamningi við félagið. Hvorki lá fyrir matsgerð né önnur gögn sem gætu verið grundvöllur mats á tjóni þeirra vegna þessa. Var málatilbúnaður þeirra því ekki í samræmi við áskilnað e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að þessu leyti og var kröfunni vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 2. mars 2009. Þau krefjast þess að stefndu verði óskipt gert að greiða þeim 60.000.000 krónur. Að auki krefst áfrýjandinn, Hrefna María Gunnarsdóttir, að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða henni 10.000.000 krónur. Í báðum tilvikum er krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. apríl 2006 til 28. desember 2007, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að kröfur áfrýjenda verði lækkaðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndu voru báðir í hópi starfsmanna Volta hf. á árinu 2005 sem leituðu eftir kaupum á félaginu. Í október það ár tilkynnti þáverandi fyrirsvarsmaður þess, Magnús Þór Magnússon, starfsmönnunum að þeim yrði ekki selt félagið. Eigendur félagsins héldu áfram sölutilraunum og samkvæmt skýrslum stefndu fyrir dómi var þeim báðum ljóst í upphafi árs 2006 að þessar tilraunir stæðu yfir. Eigendur Volta hf. undirrituðu föstudaginn 17. mars 2006 viljayfirlýsingu með Jóhanni Ólafssyni & Co ehf. um að síðarnefnda félagið keypti alla hluti í því fyrrnefnda fyrir 300.000.000 krónur. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að kaupverðið ákvarðist af því að tilgreind fasteign félagsins, að teknu tilliti til áhvílandi veðskulda, sé metin á 141.000.000 krónur, aðrar eignir og skuldir á 79.000.000 krónur, viðskiptavild á 70.000.000 krónur og loks skyldi koma til sérstök greiðsla, 10.000.000 krónur, vegna starfsloka Magnúsar Þórs Magnússonar. Jafnframt kemur fram að gera skuli áreiðanleikakönnun vegna mats á liðnum ,,aðrar eignir og skuldir“ og að greiðsla fyrir þann lið gæti breyst til samræmis við niðurstöður könnunarinnar. Fjárhæðir annarra liða skyldu ekki breytast. Greiðslan vegna starfsloka Magnúsar Þórs tengdist ákvæði í yfirlýsingunni um að hann ætti að vera kaupanda ,,innan handar og til aðstoðar að minnsta kosti 6 mánuði eftir undirritun samnings um kaup hlutafjárins og til að tryggja sem best viðskiptasambönd Volta hf. gagnvart nýjum eigendum.“ Þá var mælt fyrir um að seljendur skyldu leitast við að stuðla að því að lykilstarfsmenn félagsins héldu áfram störfum hjá því þrátt fyrir eigendaskiptin og að tryggt yrði að erlendir birgjar féllust á þau fyrir sitt leyti og lýstu sig reiðubúna til að starfa með nýjum eigendum að framgangi félagsins í framtíðinni. Loks var um það samið að kaupsamning skyldi gera um hlutina og að framsal þeirra færi fram 4. apríl 2006. Ekki er um það deilt í málinu að stefndu hafi báðir talist lykilstarfsmenn Volta hf. í skilningi viljayfirlýsingarinnar.

Helgina 18. og 19. mars 2006 hafði Magnús Þór samband við báða stefndu og upplýsti þá um söluna, sem var einnig kynnt á starfsmannafundi mánudaginn 20. mars. Næsta dag áttu stefndu fund með fyrirsvarsmanni Lumex ehf., sem var einn helsti viðskiptavinur Volta hf. og stofnuðu með honum og fyrirsvarsmanni Rafports ehf., eins helsta samkeppnisaðila Volta hf., einkahlutafélagið El.is, sem stefndu báru fyrir dómi að þeir hefðu ásamt nefndum aðilum átt saman að fjórum jöfnum hlutum. Tilgangur með stofnun félagsins var að láta það kaupa Rafport ehf. Stefndi Hjörtur átti, ásamt fyrirsvarsmönnum Lumex ehf. og Rafports ehf., fund í Köln í Þýskalandi 28. mars með fyrirsvarsmönnum Berker GmbH, en Volti hf. hafði haft einkaumboðssamning við þetta félag frá 1987 og er ekki umdeilt að það var mikilvægasti birgi Volta hf. Aðdraganda þessa fundar er lýst svo í dómsskýrslu Christian Schmitz-Eckert, sölustjóra Berker GmbH, að nokkrum dögum áður hafi þremenningarnir boðað komu sína til fundarins. Þeir hafi á fundinum upplýst um sölu á Volta hf. og sagt að lykilstarfsmenn hefðu annað hvort þegar hætt störfum eða væru við það að hætta. Tilgangur þessa fundar var, að sögn stefnda Hjartar fyrir dómi, að tryggja viðskiptahagsmuni Rafports ehf. gagnvart Berker GmbH. Stefndi Hjörtur átti næsta dag fund með öðrum mikilvægum birgja Volta hf., WindowMaster í Danmörku, en við hann hafði Volti hf. einnig einkaumboðssamning. Þessi stefndi lýsti því í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði á fundinum gert grein fyrir stöðunni á Íslandi og hvað hann sjálfur hygðist gera. Berker GmbH sagði upp einkaumboðssamningi við Volta hf. 28. mars 2006 en daginn áður hafði framkvæmdastjóri Jóhanns Ólafssonar & Co ehf. gert þessum birgja grein fyrir kaupum á Volta hf. og veitt upplýsingar um kaupandann.

Kaupsamningur var gerður 21. apríl 2006. Þar kemur fram að kaupverðið sé 230.000.000 krónur og er lækkun þess, frá því sem um var samið í viljayfirlýsingunni, skýrð með því að einkaumboðssamningi félagsins við Berker GmbH hafi verið sagt upp frá og með 28. mars 2006. Einnig væri óvíst ,,hvort umboð fyrir WindowMaster verði áfram hjá Volta hf. Þá er kaupanda kunnugt um að tveir starfsmenn ... hafa látið af störfum. Af þessum sökum er samkomulag um að verð lækki í kr. 230.000.000 með því að viðskiptavild er nú metin á kr. 10.000.000.-. Að öðru leyti eru forsendur kaupanna óbreyttar.“ Í kaupsamningnum er gerður fyrirvari um endurskoðun á verðmæti viðskiptavildar ef Volti hf. eða kaupandi fengi á ný einkaumboð á Íslandi fyrir Berker GmbH á næstu 18 mánuðum.

WindowMaster sagði upp einkaumboðssamningi við Volta hf. 25 apríl 2006. Óumdeilt er að félagið hefur ekki haldið áfram viðskiptum við þennan birgja eftir söluna. Ekki er heldur um það deilt að félagið hefur átt viðskipti við Berker GmbH og flutt inn vörur beint frá því félagi, án þess þó að það hafi verið á grundvelli einkaumboðssamnings.

II

Áfrýjendur reisa málatilbúnað sinn á því að þeir hafi orðið fyrir fjártjóni sem nemi hinum umkröfðu fjárhæðum vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefndu sem starfsmanna Volta hf. Áfrýjendur telja að stefndu hafi í starfi hjá félaginu unnið gegn hagsmunum þess. Hafi þeir brotið gegn trúnaðarskyldum sínum við vinnuveitanda með því að taka þátt í því ásamt fulltrúum Rafports ehf. og Lumex ehf. að ná til sín mikilvægum viðskiptasamböndum hans. Áfrýjendur telja að stefndu hafi einnig brotið gegn 13. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, sbr. nú 16. gr. c í lögunum, með því að veita upplýsingar um og hagnýta sér atvinnuleyndarmál sem þeir hafi fengið vitneskju um á réttmætan hátt í starfi sínu. Stefndu hafi haft aðgang að öllum tæknilegum upplýsingum um vörur frá Berker GmbH og WindowMaster og um hagnýtingu á vörunum. Þá hafi þeir vegna starfa sinna haft aðgang að samningum við birgja, tengiliði þeirra við Volta hf. og fleira. Hafi stefndu brotið gróflega gegn skyldum sem á þeim hvíldu samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Áfrýjendur telja að stefndu hafi með háttsemi sinni bakað þeim tjón sem nemur umkröfðum fjárhæðum. Lækkun kaupverðs skýrist eingöngu af því að framangreind einkaumboð hafi tapast vegna háttsemi stefndu. Allar aðrar forsendur og fyrirvarar í viljayfirlýsingunni hafi staðist.

Stefndu telja að með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum E-5253/2006 og E-5254/2006 hafi Volti hf. fengið bætt það tjón, sem leitt hafi af ótímabærum starfslokum þeirra hjá félaginu. Telja þeir að mál þetta sé rekið á sama grundvelli og að um sé að ræða sömu kröfu og áður var dæmt um í héraðsdómsmálunum. Eigi þetta að varða frávísun ex officio. Stefndu byggja einnig á því, að þeim hafi verið heimilt að láta af störfum hjá Volta hf. Hvorugur þeirra hafi gengist undir samkeppnisákvæði sem takmarkaði heimild þeirra til að gerast eigendur að eða hefja störf hjá fyrirtæki sem stundaði sömu eða svipaða starfsemi og Volti hf. Þeir mótmæla því að hafa brotið gegn 13. gr. laga nr. 57/2005. Þeir telja ósannað að þeir hafi náð til sín viðskiptasamböndum Volta hf. og notað til þess upplýsingar sem talist gætu atvinnuleyndarmál í skilningi ákvæðisins. Rafport ehf. hafi þegar verið í miklum viðskiptum við Berker GmbH og fjarstæða að stefndu hafi þurft að hagnýta sér rekstrar- eða viðskiptaleyndarmál til þess að koma á samskiptum við þennan birgja. Þá telja stefndu að áfrýjendur hafi ekki sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni, sem rekja megi til háttsemi þeirra. Verði samkomulag áfrýjenda við kaupanda Volta hf. um lækkun kaupverðs ekki lagt til grundvallar við mat á því hvort þeir hafi orðið fyrir tjóni. Benda stefndu í því sambandi á, að samkomulag um lækkun kaupverðs hafi verið gert áður en WindowMaster sagði upp einkaumboðssamningi sínum, auk þess sem ljóst hafi verið að einungis stóð til að fella niður einkaumboð Volta hf. á Íslandi fyrir Berker GmbH en ekki binda endi á viðskipti félaganna. Hafi sú eina breyting orðið á því viðskiptasambandi að Volti hf. fékk ekki lengur 10% umboðslaun af allri sölu Berker GmbH hér á landi. Telja stefndu að áfrýjendur hafi engan reka gert að því að sanna verðmæti einkaumboðssamninganna. Þeir benda einnig á að í viljayfirlýsingunni hafi verið sá fyrirvari að lykilstarfsmenn héldu áfram að vinna hjá félaginu. Þá sé krafa vegna starfslokagreiðslu Magnúsar Þórs stefndu óviðkomandi enda geti þeir ekki borið ábyrgð á því að hann sinnti ekki þeim skuldbindingum, sem greiðslan átti að koma fyrir. Telja stefndu að háttsemi þeirra hafi ekki verið þeim saknæm. Loks halda þeir því fram að ekki hafi verið sýnt fram á að orsakatengsl séu milli meints tjóns áfrýjenda og framangreindrar háttsemi stefndu. Telja þeir aðrar skýringar vera á uppsögnum einkaumboðssamninganna og séu þær á ábyrgð áfrýjenda.

III

Áfrýjendur, aðrir en Hrefna María, voru seljendur Volta hf., en Hrefna María situr í óskiptu búi sínu og látins eiginmanns síns, Magnúsar Þórs Magnússonar, sem átti um 67% hluta í félaginu. Eins og fram er komið reisa áfrýjendur kröfur sínar á meintum brotum stefndu á starfsskyldum sínum við Volta hf. Sætir aðild áfrýjenda að kröfunni ekki andmælum stefndu.

Fallist er á með áfrýjendum að sú háttsemi stefndu, sem starfsmanna Volta hf., að bindast samtökum við fyrirsvarsmenn samkeppnisaðila og eins helsta viðskiptavinar félagsins og hagnýta sér atvinnuleyndarmál sem þeir höfðu aflað sér í starfi sínu í því skyni að ná til sín viðskiptum frá félaginu og efla með því stöðu samkeppnisaðilans Rafports ehf. hafi verið saknæmt brot á starfsskyldum þeirra. Stefndu voru sem fyrr segir í hópi lykilstarfsmanna Volta hf. Stefndi Hjörtur var sölu- og markaðsstjóri félagsins. Hann kvaðst í skýrslu sinni hafa haft aðgang að upplýsingum um daglegan rekstur þess, einkum að því leyti sem sneri að innkaupum á vörum og sölu þeirra, svo og upplýsingum um viðskiptamenn. Þá hefði hann meðal annars haft aðgang að öllum verð- og söluupplýsingum. Stefndi Hafsteinn Már annaðist meðal annars uppsetningu og stýringu á hússtjórnarkerfum, sem Volti hf. seldi. Hann hafði rafrænan aðgang að upplýsingum um verkefni á því sviði, sem voru í gangi og um stöðu þeirra. Telja verður sannað að báðir stefndu hafi skömmu fyrir starfslok sín hjá Volta hf. hagnýtt sér sérstakar upplýsingar sem þeir höfðu aðgang að vegna starfa sinna umfram aðra starfsmenn. Hagnýting atvinnuleyndarmála í þessu skyni fól í sér brot á 2. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 57/2005, sbr. nú 2. og 3. mgr. 16. gr. c í lögunum. Var háttsemi stefndu samkvæmt framansögðu því saknæm og ólögmæt og leiðir til skaðabótaábyrgðar þeirra á því tjóni sem sannanlega varð af henni.

Skaðabótakrafa áfrýjenda er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða kröfu áfrýjandans Hrefnu Maríu Gunnarsdóttur vegna þess hluta söluverðs Volta hf., 10.000.000 krónur, sem kaupandi átti að greiða og tengdist aðstoð Magnúsar Þórs í sex mánuði hið skemmsta til að tryggja sem best viðskiptasambönd Volta hf. Upplýst er að Magnús Þór gekk ekki heill til skógar síðustu misserin fyrir söluna á félaginu. Einnig liggur fyrir að hann veiktist alvarlega skömmu eftir gerð viljayfirlýsingarinnar, lagðist inn á sjúkrahús og þurfti í framhaldi af því langtíma endurhæfingu. Fallist er á með stefndu að ósannað sé að Magnús Þór hefði, hvað sem öðru líður, verið fær um að sinna þeim skyldum sem hér um ræðir. Er ósannað að tjón þessa áfrýjanda verið rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi, sem stefndu beri ábyrgð á. Verða þeir því sýknaðir af þessari kröfu hennar.

Hins vegar gera áfrýjendur kröfu um skaðabætur, 60.000.000 krónur, vegna lækkunar á verðmæti viðskiptavildar. Af gögnum málsins og skýrslu fyrirsvarsmanns kaupanda fyrir dómi má ráða að það hafi verið ein af forsendum viljayfirlýsingarinnar að seljendur stuðluðu að því að lykilstarfsmenn héldu áfram störfum þrátt fyrir eigendaskiptin. Í kaupsamningnum 21. apríl 2006 er þess getið í skýringu á lækkun kaupverðs frá viljayfirlýsingunni að tveir starfsmenn Volta hf. hefðu látið af störfum. Stefndu voru frjálsir að því að segja upp ráðningarsamningum sínum. Þeir hafa þegar verið dæmdir til greiðslu bóta vegna þess að þeir komu sér í þá stöðu að geta ekki sinnt starfsskyldum sínum. Þá er upplýst að viðskipti tókust á ný milli Volta hf. og Berker GmbH eftir að samið var um lækkun kaupverðsins. Hefur sú eina breyting orðið á því viðskiptasambandi að Volti hf. nýtur ekki lengur 10% umboðslauna og annars hagræðis af því að vera einkaumboðsaðili hér á landi. Loks kemur fram í gögnum málsins að Volti hf. hefur viðskiptasambönd við fjölda annarra erlendra birgja, sem ekki er haldið fram að breyting hafi orðið á við söluna. Áfrýjendur hafa ekki reifað með afmörkuðum hætti svo fullnægjandi sé hvert hafi verið tjón þeirra vegna breytingar á viðskiptasambandinu við Berker GmbH og vegna uppsagnar WindowMaster á einkaumboðssamningi við Volta hf. Hvorki liggur fyrir matsgerð né nýtur annarra gagna sem verið geta grundvöllur mats á tjóni áfrýjenda vegna þessa. Er málatilbúnaður áfrýjenda að þessu leyti ekki í samræmi við áskilnað e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður þessari kröfu áfrýjenda vísað frá héraðsdómi.

Rétt þykir að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndu Hjörtur Gíslason og Hafsteinn Már Ársælsson skulu vera sýknir af kröfu áfrýjandans Hrefnu Maríu Gunnarsdóttur um greiðslu fjárhæðar að höfuðstól  10.000.000 krónur.

Kröfu áfrýjenda Hrefnu Maríu Gunnarsdóttur, Ástu Valdimarsdóttur, Guðrúnar Margrétar Hannesdóttur, Margrétar O. Magnúsdóttur og Valdimars Kristins Hannessonar að höfuðstólsfjárhæð 60.000.000 krónur er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. desember sl., er höfðað 3. mars 2008.

Stefnendur eru Hrefna María Gunnarsdóttir, Barðaströnd 20, Seltjarnarnesi, Ásta Valdimarsdóttir, Eiðismýri 30, Seltjarnarnesi, Guðrún Margrét Hannesdóttir, Suðurmýri 42b, Seltjarnarnesi, Margrét O. Magnúsdóttir, Sefgörðum 6, Seltjarnarnesi  og Valdimar Kr. Hannesson, Þýskalandi.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnenda eru þessar:

1. Að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnendum samtals 60.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. apríl 2006 til 28. desember 2007, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

2. Að til viðbótar verði stefndu in solidum dæmdir til að greiða stefnanda Hrefnu Maríu Gunnarsdóttur 10.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2002 um vexti og verðtryggingu frá 21. apríl 2006 til 28. desember 2007, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

3. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, að teknu tilliti til skyldu stefnenda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns, samkvæmt gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf.                Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnenda en til vara verulegrar lækkunar á kröfum stefnenda.

Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnenda samkvæmt mati dómsins.

Málavextir

Stefnandi Hrefna María situr í óskiptu búi hennar og Magnúsar Þórs Magnússonar, samkvæmt framlögðu leyfi Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 30. janúar 2007. Hefur hún, samkvæmt 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962, eignarráð á fjármunum búsins, þar á meðal bótakröfum Magnúsar Þórs á hendur stefndu, sem krafist er í máli þessu.

Mál þetta verður rakið til atvika, er urðu við sölu á öllum hlutum í einkahlutafélaginu Volta ehf. til Jóhanns Ólafssonar & Co ehf. í marsmánuði 2006. Fyrirtækið Volti ehf. var stofnað á árinu 1945 af föður Magnúsar Þórs, Magnúsi Hannessyni, rafvirkjameistara. Fyrirtækið var alla tíð rekið sem fjölskyldufyrirtæki og var leiðandi á Íslandi í sölu, þjónustu og viðgerðum á rafbúnaði.

 Á seinni árum var innflutningur og sala á rafbúnaði vaxandi þáttur í starfseminni. Telja stefnendur tvo mikilvægustu birgja félagsins hafa verið Berker í Þýskalandi og WindowMaster í Danmörku. Hafi viðskiptasamband við þessi fyrirtæki verið langt, farsælt og traust.

Stefnendur voru allir hluthafar í Volta ehf. Var eignarhlutur þeirra þannig:

Ásta Valdimarsdóttir átti 7,3436% hlutafjár, Guðrún Margrét Hannesdóttir átti 3,7722%, Magnús Þór Magnússon átti 60,6698%, Margrét O. Magnúsdóttir átti 21,4684% og Valdimar Kr. Hannesson átti 6,7460%. Samkvæmt framansögðu hefur Hrefna María umráð krafna Magnúsar Þórs, en hann var meirihlutaeigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Allir stefnendur tengjast fjölskylduböndum.

Stefndu voru lykilstarfsmenn hjá Volta ehf. Hjörtur er rafvirki að mennt og hafði um árabil verið sölustjóri fyrirtækisins. Stefnendur halda því fram að vegna erfiðra veikinda Magnúsar Þórs hafi starfssvið Hjartar verið víðtækt og hafi hann notið mikils trausts. Er Magnús Þór var fjarverandi hafi Hjörtur komið fram sem staðgengill framkvæmdastjóra. Honum hafi verið flestallir hnútar kunnir í rekstri fyrirtækisins og hafi hann haft aðgang að svo til öllum upplýsingum um reksturinn. Eigi það m.a. við um viðskiptasambönd erlendis. Gerður var skriflegur ráðningarsamningur við Hjört sem er dags. 10. maí 2002. Hafsteinn Már er einnig rafvirki að mennt og hafði ríflega sjö og hálfs árs starfsaldur hjá Volta ehf. Hann var tæknimaður og meðal mikilvægustu starfsmanna fyrirtækisins að mati stefnenda. Hafi hann séð um þjónustu á reyklosunar- og loftræstikerfum frá WindowMaster. Þessi kerfi hafi verið mjög vinsæl og eftirspurn mikil eftir þeim uppgangstímum sem voru á sviði nýbyggingarframkvæmda hér á landi. Sem sérfræðingur í þessum kerfum hafi hann haft upplýsingar um birgja erlendis, þar á meðal um tengiliði við Volta ehf., auk þess að hafa meðal annars allar upplýsingar um uppsetningu búnaðarins, rekstur, verkefni og viðskiptamenn. Einnig hafi hann verið sérfræðingur í Berker Instabus-kerfi og hafi, á vegum Volta ehf., fengið víðtæka þjálfun erlendis í því. Kjarasamningur Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hafi gilt um kjör stefndu að því leyti sem ekki var samið sérstaklega um annað.

Með kaupsamningi, dags. 21. apríl 2007 keypti Jóhann Ólafsson & ehf. fyrirtækið Volta ehf. Stefnendur lýsa aðdraganda sölunnar með þeim hætti að áður en fyrirtækið var selt hafi stefndu, í félagi við fleiri starfsmenn, leitað eftir því við Magnús Þór að fá að kaupa fyrirtækið. Hjörtur hafi verið í fararbroddi í viðræðum, sem fóru fram um þetta. Í nokkur skipti hafi hann komið að máli við Magnús Þór til að ræða möguleg kaup. Um mitt ár 2005 hafi Magnús Þór tekið endanlega ákvörðun um að selja starfsmönnum ekki fyrirtækið. Eftir áramótin 2005/2006 hafi viðræður hafist um sölu fyrirtækisins til fjárfesta. Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, og Eyvindur G. Gunnarsson, héraðsdómslögmaður, hafi haft milligöngu í viðræðunum. Hafi viðræðunum lyktað með því að fyrirsvarsmaður Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. og Magnús Þór Magnússon  skrifuðu undir viljayfirlýsingu um sölu fyrirtækisins föstudaginn 17. mars 2006. Helstu atriði hennar voru eftirfarandi:

Jóhann Ólafsson & Co. ehf. myndi kaupa allt hlutafé í Volta ehf., sem hafi verið að nafnverði 9.219.000 krónur. Í þessu skyni hafi aðilar stefnt að því að kaupsamningur um kaup á öllu hlutafé, framsöl einstakra hluthafa og afhending færi fram 4. apríl 2006. Skyldi kaupverðið vera 300.000.000 króna er sundurliðaðist þannig:

Fasteignin Vatnagarðar 10        

141.000.000 kr.

Aðrar eignir og skuldir

79.000.000 kr.

Viðskiptavild

70.000.000 kr.

Aukagreiðsla vegna starfsloka MÞM         

10.000.000 kr.

Samtals

300.000.000 kr.

 

Kaupverðið byggðist á fyrirliggjandi ársreikningi fyrir Volta ehf. fyrir árið 2005 og matsblaði, sem hafi verið fylgiskjal 1 með yfirlýsingunni. Aðilar hafi verið sammála um að fram færi áreiðanleikakönnun, sem skyldi lokið 3. apríl 2006. Kaupverð yrði staðgreitt 4. apríl 2006. Í 4. gr. var kveðið á um að Magnús Þór skyldi vera kaupanda innan handar og til aðstoðar í að minnsta kosti sex mánuði eftir undirritun samningsins til þess tryggja sem best viðskiptasambönd Volta ehf. gagnvart nýjum eigendum. Hann skyldi ekki njóta launa á þessu tímabili en tekið hefði verið tillit til þess í kaupverði. Í 5. gr., sem bar fyrirsögnina „Önnur atriði“, hafi verið ákvæði um forsendur og fyrirvara, sem kaupin miðuðust við, m.a. um að tryggt yrði að erlendir birgjar féllust á eigendaskiptin, fyrir sitt leyti, og lýstu sig reiðubúna til að starfa með nýjum eigendum að framgangi Volta ehf. til framtíðar.

Mánudaginn 20. mars hafi verið haldinn starfsmannafundur, þar sem salan á félaginu var kunngerð öllum starfsmönnum. Helgin í millitíðinni, þ.e. 18. og 19. mars, hafði verið notuð til að hafa samband við lykilstarfsmenn, þar á meðal stefndu, og tilkynna þeim um viðskiptin, bæði af seljendum og kaupanda. Kaupandinn hafi lagt áherslu á að eigendaskiptin myndu ekki hafa áhrif á störf þeirra. Á starfsmannafundinum hafi forstjóri kaupanda, Sigurður H. Ingimarsson, aftur lýst yfir vilja til þess að lykilstarfsmenn héldu áfram störfum sínum. Í framhaldi af starfsmannafundinum hafi, að tillögu Hjartar, verið gefin út fréttatilkynning, sem hann hafi sett á heimasíðu félagsins. Bæði Hjörtur og Hafsteinn hafi sýnt vilja sinn til þess að halda áfram störfum sínum með handabandi við Magnús Þór.

Á mánudagsmorgni 27. mars, hafi Katrín Lillý, dóttir Magnúsar Þórs og starfsmaður fyrirtækisins Volta ehf. verið að leita að Hirti. Hafi Hafsteinn Már upplýst hana um að Hjörtur hefði farið utan í viðskiptaferð fyrir Volta ehf. Hafi það þótt undarlegt, þar sem ekki tíðkaðist að starfsmenn færu í utanlandsferðir á vegum félagsins án samþykkis framkvæmdastjóra og Hjörtur hafi ekki verið í fríi þennan dag. Katrínu hafi ekki verið kunnugt um þessa viðskiptaferð, en vaninn var að hún leitaði uppi og pantaði flugför fyrir viðskiptaferðir fyrirtækisins. Hins vegar hafði verið pantað flug utan fyrir Hjört í síðari hluta aprílmánaðar og það greitt af fyrirtækinu. Hjörtur hafi flýtt þessari ferð. Í ljós hafi komið að ferð Hjartar var farin í þeim tilgangi að hitta forsvarsmenn tveggja mikilvægustu birgja Volta ehf., Berker og WindowMaster. Hjörtur hafi hitt forsvarsmenn fyrrnefnda fyrirtækisins 27. mars en síðarnefnda fyrirtækisins daginn eftir, 28. mars, og hafi falast eftir umboðum fyrir þá hér á landi. Fréttir af þessu hafi borist eftir á úr nokkrum áttum og grunur hafi vaknað um að Hafsteinn Már væri í félagi með Hirti í ráðabrugginu. Meðal annars hafi Bjarni Ástbjartsson, starfsmaður Volta ehf, gert fyrirsvarsmönnum Volta ehf. viðvart um að Hjörtur hefði hringt í hann frá Þýskalandi og tjáð honum að hann hefði náð til sín Berker-umboðinu. Meðal þess sem fram kom í símtalinu hafi verið að Jón Þór Guðjónsson, framkvæmdastjóri Rafports ehf. hefði verið með Hirti, og að Hjörtur hafi boðið Bjarna að koma til starfa með sér. Einnig hafi komið í ljós að hjá WindowMaster hafi Hjörtur mætt með ýmis gögn og skilið eftir.

Þessar fréttir hafi fengið mikið á Magnús Þór, sem hafi glímt við erfið veikindi, eins og áður segi. Hann hafi fengið son sinn, Þorstein Inga Magnússon, til að fara á vinnustaðinn og gæta hagsmuna fyrirtækisins og eigenda þess. Þetta hafi verið 27. mars. Þorsteinn Ingi hafi þekkt vel til í fyrirtækinu og hafði sem framkvæmdastjóri starfsmannasviðs hjá Alcan hf. góða reynslu af starfsmannastjórnun. Þorsteinn Ingi óskaði eftir fundi með Hafsteini Má, til að ræða við hann hvað væri að gerast og reyna að fá hann til að halda áfram störfum. Hafsteinn Már hafi þá tilkynnt að hann og Hjörtur væru hættir störfum og að þeir hefðu skrifað undir annan samning sem kæmi í veg fyrir að þeir myndu vinna áfram hjá Volta ehf. Þeir Þorsteinn Ingi og Hafsteinn Már hafi fundað um þetta í húsakynnum Volta ehf. Hafsteinn Már hafi þvertekið fyrir að Sigurður H. Ingimarsson, forsvarsmaður Jóhanns Ólafssonar & Co ehf. fengi að vera viðstaddur fund þeirra, en til þess hafi hann haft mikinn vilja, þar sem hann vildi halda Hafsteini Má. Á fundinum hafi Þorsteinn Ingi árangurslaust reynt að fá Hafstein Má til að endurskoða hug sinn. Hafsteinn Már hafi einnig, að eigin frumkvæði, upplýst að hann ætlaði að halda fartölvu fyrirtækisins sem tryggingu gegn borgun á launum um næstu mánaðamót. Hafi hann einnig óskað eftir að fá að taka með sér persónuleg gögn, svo sem viðurkenningar fyrir setu á námskeiðum, sem hann hafi fengið. Tölvunni hafi ekki verið skilað fyrr en undir lok marsmánaðar og hafi þá komið í ljós, við skoðun sérfræðinga sem leitað var til, að átt hafi verið við tölvuna og gögnum eytt af henni. Hafsteinn hafi einnig, á símafundi, viðurkennt að hafa tekið gögn úr tölvunni, svo sem hugbúnað til að geta notað forrit fyrir sína vinnu. Sigurður H. Ingimarsson setti sig í samband við Berker með tölvupósti vegna þessa , en það hafi verið orðið of seint.

Volti ehf. hafi aldrei sagt stefnda Hirti upp störfum, hvorki formlega né óformlega. Hann hafi hætt með því að láta sig hverfa frá vinnu og koma ekki aftur. Hann hafi haldið því fram að hann hafi fengið sms-smáskilaboð frá Hafsteini Má kvöldið 27. mars þess efnis að þeir hefðu báðir verið reknir úr störfum hjá Volta ehf. Ekki geti stefnendur fullyrt um skeytasendingar Hafsteins Más og Hjartar sín á milli, en svo mikið sé víst að ekki hafi komið til þess að Volti ehf. hafi sagt stefndu upp störfum og eigi það jafnt við um þá báða. Megi vera ljóst hve fráleitt það hefði verið ef Hafsteini Má hefði verið falin milliganga um að tilkynna Hirti brottrekstur þess síðarnefnda.

Fram hafi komið, og vísist meðal annars til dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E­5253/2006 og 5254/2006, sem kveðnir voru upp 23. mars 2007, og skýrslna, sem teknar voru fyrir dóminum af stefndu og nokkrum vitnum, að stefndu hafi ákveðið að hætta störfum hjá Volta ehf., í framhaldi af tilkynningu um sölu fyrirtækisins, til að hefja eigin atvinnurekstur. Þeir hafi tekið þátt í kaupum á fyrirtækinu Rafporti ehf., sem hafi sinnt innflutningi og heildsölu á ýmsum rafvörum, líkt og Volti ehf. Þeir hafi komið á fót einkahlutafélaginu el-is ehf. í þessu skyni og séu samþykktir þess félags dagsettar sunnudaginn 26. mars 2006. Hafi þeir verið starfsmenn Volta ehf. á þessum tíma.

Þriðjudaginn 28. mars hafi lögmaður stefnenda ritað stefndu ábyrgðarbréf þar sem gerð hafi verið grein fyrir að hegðun þeirra hefði verið ósamrýmanleg þagnar- og trúnaðarskyldum, sem þeir báru gagnvart Volta ehf., með því að hafa keypt eignarhlut í samkeppnisfyrirtæki og hafa samband við birgja Volta ehf. í þeim tilgangi að falast eftir viðskiptasamböndum, sem Volti ehf. hafði.

Hinn 28. mars tilkynnti Berker Volta ehf. skriflega um uppsögn á umboðssamningi fyrirtækjanna. Uppsögnin hafi verið án fyrirvara og hafi ekki átt sér neinn annan aðdraganda en hér hafi verið lýst. Af hálfu Volta ehf. hafi verið brugðist við með því að gera allt sem unnt var til að fá Berker til að endurskoða ákvörðunina um uppsögn og viðhalda viðskiptasambandinu en allt kom fyrir ekki. Lagt sé fram í málinu bréf lögmanns Volta ehf. til Berker, dags. 31. mars 2006, sem sýni áhersluna sem lögð hafi verið á að halda viðskiptasambandinu. Einnig séu lögð fram bréfaskipti fyrirtækjanna frá 20. apríl 2006. WindowMaster hafi einnig sagt upp viðskiptasamningi sínum við Volta, sbr. bréf dags. 25. apríl 2006, en áður en bréfið var sent hafi verið orðið ljóst að stefndu hafði tekist að ná til sín því umboði. Í uppsagnarbréfinu sé vísað til þess að stefndu hefðu verið þeir starfsmenn, sem hefðu séð um samskipti við WindowMaster, þekktu vörurnar og höfðu séð um tilheyrandi þjónustu.

Hér að framan hafi verið að því vikið að þegar ekki varð af kaupum stefndu og samstarfsmanna þeirra hjá Volta ehf. á fyrirtækinu hafi stefndu hafið undirbúning að stofnun einkahlutafélags, el-is ehf., sem stofnað var 26. mars 2006, í þeim tilgangi að kaupa áðurnefnt Rafport ehf. Þetta hafi komið heim og saman við það, sem rann upp fyrir fyrirsvarsmönnum Volta ehf., en þeir hafi ekki vitað um fyrr en eftir að stefndu hættu störfum. Ekki hafi heldur liðið langur tími þar til fréttir birtust í dagblöðum, nánar tiltekið 7. og 8. apríl, um kaup el-is ehf. á öllu hlutafé í Rafporti ehf. og hinn 9. apríl hafi birst auglýsing Rafports um laus störf hjá félaginu. Í fréttunum hafi Berker verið nefnt fremst í röð helstu birgja félagsins og öll kynning á Rafporti ehf. hafi borið með sér þá ætlun að svíkjast að Volta ehf. á markaðssviði félagsins. Stefnendur leggi fram í málinu nokkur skjöl sem sýni stjórnunartengsl milli el-is ehf., Rafports ehf. og verslunarinnar Lúmex. Lúmex hafi verið í viðskiptatengslum við Volta ehf. og fengið þóknun af öllum viðskiptum, sem verslunin beindi til Volta. Lúmex sé rekin af Helga Eiríkssyni, sem sé yfirleitt kenndur við verslunina, og fjölskyldu hans. Hann hafi lýst fyrirtækinu þannig í viðtali við Viðskiptablaðið 14. júlí 2004 að það hefði sérstöðu á markaði. Ólíkt öðrum ljósaverslunum selji hún ekki bara ljósin, hún ráðleggi, láti setja upp vöru, sjái um eftirlit og útvegi allan mannskap, sem þurfi í verkefni sem tengist lýsingu. Samkvæmt vottorði frá hlutafélagaskrá var Helgi Eiríksson hvorki framkvæmdastjóri né í stjórn en komið hafi fram opinberlega, m.a. í fyrrnefndu viðtali, að hann reki verslunina. Framkvæmdastjóri var sonur Helga, Ingi Már Helgason, og hafi hann setið í stjórn ásamt öðrum syni Helga, Eiríki Gunnari Helgasyni, og fyrrverandi eiginkonu Helga, Katrínu Kristínu Gunnarsdóttur. Stjórn el-is ehf. skipuðu samkvæmt fundi 26. mars 2006 áðurnefndur Ingi Már, ásamt stefnda Hafsteini Má og áðurnefndum Jóni Þór Guðjónssyni. Með prókúruumboð fóru Ingi Már og stefndi Hafsteinn Már. Stjórn Rafports hafi verið skipuð sömu mönnum og stjórn el-is ehf., en framkvæmdastjóri var Jón Þór Guðjónsson, sonur Guðjóns M. Jónssonar, sem hafi áður verið framkvæmdastjóri og eini stjórnarmaðurinn í félaginu. Gögnin, sem stefnendur leggi fram um þetta, ásamt því að fram hafi komið að Jón Þór Guðjónsson var í för með stefnda Hirti í áðurnefndri viðskiptaferð, sýni að skrefin, sem stefndu tóku í marslok og hér hafi verið gerð grein fyrir, hafi verið stigin í samstarfi við andstæðinga eigenda Volta ehf. í viðskiptum, í þeim tilgangi að ná til sín viðskiptasamböndunum, sem hér hafi verið gerð grein fyrir, og valda þannig Volta ehf. og/eða hluthöfum fjártjóni.

Afleiðing af þessari hegðun stefndu hafi verið sú að forsenda fyrir kaupverði hlutafjárins í Volta ehf., samkvæmt viljayfirlýsingunni frá 17. mars 2006, brast. Í endanlegum kaupsamningi við Jóhann Ólafsson & Co. ehf., dags. 21. apríl 2007 hafi kaupverðið lækkað í 230.000.000 króna. Þar hafi verið um að ræða niðurfærslu á viðskiptavild um 60.000.000 króna og niðurfellingu á 10.000.000 króna greiðslu til Magnúsar Þórs vegna starfsloka hans. Forsendur fyrir síðarnefndu fjárhæðinni hafi verið þær að Magnús Þór aðstoðaði nýja eigendur við að viðhalda viðskiptasamböndum fyrirtækisins við eigendaskiptin. Til þess hafi hann ekki fengið tækifæri vegna hegðunar stefndu, sem hafi náð til sín umræddum viðskiptasamböndum með ólögmætum hætti. Skuli þess getið að Magnús Þór hafi orðið óvinnufær í kjölfar þess áfalls, sem hann varð fyrir vegna aðgerða stefndu. Hann hafi legið á gjörgæsludeild í viku og hafi þurft langtíma endurhæfingu þar á eftir.

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2007, hafi stefnendur skorað á stefndu að greiða þeim skaðabætur. Yrðu þeir ekki við áskoruninni myndu stefnendur höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til greiðslu skaðabóta. Stefndu urðu ekki við áskoruninni, sbr. bréf lögmanns þeirra, dags. 23. janúar 2008. Stefnendur höfða því mál þetta í framhaldi af þessum bréfaskiptum.

Um aðdraganda að sölu Volta ehf. segir í greinargerð stefndu að eins og komi fram í stefnu höfðu nokkrir starfsmenn Volta ehf., að stefnda Hirti meðtöldum, unnið að gerð kauptilboðs í allt hlutafé félagsins á árinu 2005, en samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmanni eigenda hafi staðið til að starfsmenn nytu sanngjarnra kjara við kaupin. Magnús Þór Magnússon, fyrrum aðalhluthafi í Volta ehf., hafi síðan slitið samningaviðræðum við starfsmenn í ágúst 2005 og hafi vísað til þess að hann teldi starfsmennina ekki verðuga kaupendur félagsins. Hafi þetta valdið nokkurri óánægju meðal hlutaðeigandi starfsmanna, sem hafi þó fallist á að halda áfram störfum sínum fyrir félagið í kjölfar þess að Magnús Þór hafi fallist á að taka þátt í kostnaði þeirra við gerð kauptilboðsins, en ekki síður vegna veikinda Magnúsar Þórs sem hafi þá tæplega getað sinnt stjórnendastarfi hjá félaginu.

Í upphafi ársins 2006 hafi stefndi Hjörtur komið að máli við Magnús Þór og vakið máls á þeim möguleika að færri starfsmenn gerðu kauptilboð í félagið en áður. Magnús Þór hafi tekið alla hlutaðeigandi á eintal, hafi hafnað hugmyndinni og talið starfsmenn á að vera ekki í slagtogi með stefnda Hirti. Undir lok janúar s.á. hafi heilsu Magnúsar Þórs hrakað umtalsvert og hafi farið svo að stefndi Hjörtur hafi farið ásamt öðrum starfsmanni Volta ehf. á fund stefnanda Hrefnu og vakið athygli á alvarleika málsins, enda hafi þótt sýnt að hagsmunir félagsins væru í húfi.

Föstudaginn 17. mars 2006 hafi spurst út meðal starfsmanna Volta ehf. að til stæði að selja allt hlutafé félagsins, en boðað hafði verið til starfsmannafundar að morgni mánudagsins 20. mars s.á. Fyrir fundinn hafi Magnús Þór haft samband við nokkra starfsmenn símleiðis, þ.m.t. stefnda Hjört, og hafi upplýst að til stæði að Jóhann Ólafsson & Co. ehf. keypti allt hlutafé Volta ehf. Þá hafi forsvarsmaður kaupanda stefnda boðað Hjört á fund lykilstjórnenda fyrirtækisins sem hann hafi ekki getað mætt á þar sem hann var úti á landi, en frekari tilraun hafi ekki verið gerð af hálfu kaupandans til að ræða við stefndu.

Í kjölfar starfsmannafundarins, sem haldinn var mánudaginn 20. mars 2006, þar sem fyrirhuguðum kaupum Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. á hlutafé Volta ehf. hafi verið lýst fyrir starfsmönnum, hafi stefndi, Hjörtur, lagt til að þegar yrði útbúin fréttatilkynning um breytingarnar og hafi jafnframt boðist til að eiga fund með framkvæmdastjóra kaupandans, sem hann hafi hafnað.

Alrangt sé að stefndu hafi handsalað samkomulag við Magnús Þór um að þeir héldu áfram störfum fyrir félagið. Hið rétta sé að hvorki Magnús Þór eða stefnendur gerðu neitt til að tryggja að stefndu héldu áfram störfum fyrir félagið fyrr en ljóst var orðið að þeir myndu láta af störfum.

Fréttin um kaup Jóhanns Ólafssonar & Co ehf. um kaup á hlutafé Volta ehf. hafi þegar spurst út, en þriðjudaginn 21. mars 2006 hafi stefndu fengið boð um að mæta til fundar hjá Lúmex, sem þá hafi verið stærsti einstaki viðskiptavinur Volta ehf. Á þeim fundi hafi eigendur Lúmex tilkynnt að þeir hygðust hætta viðskiptum við Volta ehf. þar sem þeir töldu sig ekki geta átt viðskipti við Snorra Hreggviðsson, sem þá hafði nýlega tekið við sem sölustjóri rafvara hjá Jóhanni Ólafssyni & Co. ehf.

Í kjölfar þessa hafi stefndu afráðið að kanna grundvöll þess að kaupa allt hlutafé Rafports ehf. ásamt fleiri aðilum, enda hafi þeir talið grundvöll starfa sinna hjá Volta ehf. vera í verulegri óvissu, ekki síst þar sem hvorki seljendur né væntanlegir kaupendur félagsins höfðu gert nokkurn reka að því að upplýsa stefndu um framtíðaráform þess. Vegna þessa hafi stefndu, ásamt öðrum, sett á stofn eignarhaldsfélagið el-is ehf. Séu samþykktir félagsins dagsettar 26. mars 2006, en félaginu hafi verið ætlað að gera kauptilboð í hluti Rafports ehf.

Hinn 26. mars 2006 hafi stefndi, Hjörtur, farið utan til Þýskalands með framkvæmdastjóra Rafports ehf. til fundar við birgja félagsins, Berker GmbH & Co. KG í Þýskalandi, en alrangt sé að stefndi hafi farið í viðskiptaferð á vegum Volta ehf. svo sem haldið sé fram í stefnu. Hafi Berker óskað eftir fundi í kjölfar þess að upplýst hafði verið um fyrirhuguð eigendaskipti að Rafporti ehf. og hafi tilgangur fundarins verið að tryggja áframhaldandi samstarf Berker og Rafports ehf., en Rafport ehf. hafði um árabil flutt inn og selt vörur frá Berker.

Á leið sinni til Íslands hafi stefndi, Hjörtur, komið við hjá birgjanum WindowMaster A/S í Danmörku í því skyni að tryggja að ekki yrðu tafir á þeim verkefnum sem hann hafði haft umsjón með í starfi sínu hjá Volta ehf. og lýsti því jafnframt yfir að hann hygðist láta af störfum hjá Volta ehf.

Fullyrðingum stefnenda þess efnis, að stefndi Hjörtur hafi falast eftir umboðum fyrir Berker og WindowMaster hér á landi á fundum sínum hjá forsvarsmönnum fyrirtækjanna sé alfarið mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Þá sé fullyrðingum stefnenda þess efnis að stefndi Hafsteinn hafi, mánudaginn 27. mars 2006, upplýst Katrínu Lillý um að stefndi Hjörtur væri í viðskiptaferð á vegum Volta ehf. jafnframt alfarið mótmælt og að sama skapi fullyrðingu um að stefndi Hjörtur hafi flýtt fyrirhugaðri viðskiptaferð á vegum Volta ehf. sem pöntuð hafði verið og greidd af félaginu. Staðreyndin sé sú að ferð stefnda Hjartar hafi verið farin með framkvæmdastjórn Rafports ehf. að beiðni Berker og hafi Rafport ehf. greitt allan kostnað við ferðina.

Alrangt sé að stefndi Hafsteinn hafi tilkynnt Þorsteini Inga Magnússyni að hann og stefndi Hjörtur væru hættir störfum hjá Volta ehf. á fundi þeirra Þorsteins Inga hinn 27. mars 2006. Hið rétta sé að Þorsteinn Ingi hafi lýst því yfir að stefndi Hafsteinn væri rekinn frá félaginu og hafi krafist þess að stefndi léti þegar af hendi lykla, síma og fartölvu sem voru í eigu félagsins. Hafi stefndi þegar afhent lykla og síma en hafi haldið  eftir fartölvunni til að fjarlægja af henni ýmis persónuleg gögn. Hafi stefndi staðið Volta ehf. skil á tölvunni rúmum sólarhring síðar eftir að hafa eytt af henni persónulegum gögnum, en rangt sé að stefndi hafi fjarlægt af tölvunni forrit eða annað í eigu Volta ehf. Þvert á það sem fram komi í stefnu hafi uppsögn Berker á umboðssamningi við Volta ehf., dags. 28. mars 2006 átt nokkurn aðdraganda, en birginum  hafi skömmu áður verið tilkynnt um breytingu á eignarhaldi félagsins. Magnús Þór og stefnendur hafi reyndar látið undir höfuð leggjast að tilkynna Berker um fyrirhugaða sölu félagsins, þrátt fyrir að kveðið væri á um þá skyldu í umboðssamningnum, en fyrir liggi að framkvæmdastjóri kaupanda hafi sent birginum tölvupóst 27. mars 2006 þar sem gerð sé grein fyrir viðskiptunum. Af uppsagnarbréfinu megi einmitt ráða að einkaumboðssamningi Volta ehf. við Berker sé sagt upp vegna þeirrar óvissu, sem þá hafi ríkt um framtíð samstarfs félaganna. Í uppsagnarbréfinu sé ekkert tekið fram um að til standi að fela Rafporti ehf. einkaumboð fyrir vörur Berker hérlendis, enda hafi slíkur samningur ekki komist á fyrr en í kjölfar fundar forstjóra og markaðsstjóra Berker við Volta ehf. og Rafport ehf. um miðjan aprí1 árið 2006. Fullyrðing stefnenda þess efnis að stefndu hafi náð til sín viðskiptasamböndum Volta ehf. við birgjana Berker og WindowMaster, þegar kaupsamningurinn um hlutafé Volta ehf. var undirritaður hinn 21. aprí1 2006, sé því röng og raunar algjörlega óskiljanleg, ekki síst í ljósi þeirra staðreynda að umboði WindowMaster hafi ekki verið sagt upp fyrr en hinn 25. aprí1 s.á. og að frá upphafi hafi verið ljóst að Berker var reiðubúið að ganga til samninga við Volta ehf. um áframhaldandi sölu á vörunum.

Í stefnu sé nokkuð gert úr fréttatilkynningum um Rafport ehf., sem birtust í fjölmiðlum dagana 7. og 8. aprí1 2006, og bent sérstaklega á að Berker sé tiltekið meðal birgja Rafports ehf. Sé ætlun stefnenda að vísa til þessara tilkynninga til stuðnings fullyrðingum sínum um að Rafport ehf. hafi, er þarna var komið sögu, gert samninga við Berker um einkaumboð hérlendis, telja stefndu rétt að vekja athygli á að Rafport ehf. hafði um árabil flutt inn vörur beint frá Berker til sölu hérlendis, en af sölu þeirra vara hafi Berker greitt umboðslaun til Volta ehf. samkvæmt einkaumboðssamningi félaganna. Hafi Rafport ehf. raunar selt meira af vörum frá Berker en Volti ehf. um nokkra hríð. Virðist þarna gæta nokkurs misskilnings af hálfu stefnenda.

Svo sem fram komi í bréfi lögmanns stefndu, dags. 23. janúar 2008, telja stefndu að krafa stefnenda sé þeim með öllu óviðkomandi, auk þess sem stefnendur hafi hvorki sýnt fram á tilvist tjónsins, né heldur að það megi rekja til atvika sem stefndu geti borið ábyrgð á. Hafi stefndu því hafnað öllum kröfum stefnenda.

Málsástæður stefnenda og lagarök

Stefnendur höfða mál þetta í félagi og byggja kröfur sínar á sakarreglu skaðabótaréttarins. Byggja stefnendur á því að stefndu hafi saman og hvor um sig bakað stefnendum tjón, með saknæmri og ólögmætri háttsemi, sem að framan hafi verið lýst.  Stefnendur bendi sérstaklega á eftirfarandi í því sambandi:

1.             Stefndu hafi fyrirvaralaust hætt störfum hjá Volta ehf. Stefndi Hjörtur með því að fara í utanlandsferð 24. mars 2006, til þess að vinna gegn hagsmunum fyrirtækisins og koma ekki aftur til starfa. Stefndi Hafsteinn með því að lýsa því yfir á fundi með Þorsteini Inga Magnússyni, að hann væri hættur störfum og með því að hafa áður unnið gegn hagsmunum Volta ehf. með stofnun El-is ehf. í félagi við Hjört og aðra keppinauta Volta ehf. Stefndu hafi báðir verið bundnir af þriggja mánaða uppsagnarfesti samkvæmt lögum nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests o.fl., ákvæði gildandi kjarasamnings Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og skriflegum ráðningarsamningi Hjartar. Fyrirvaralaust brotthlaup þeirra hafi því verið ólögmætt og beri stefndu ábyrgð á öllu sannanlegu tjóni, sem af því hlaust.

Brotthlaup stefndu hafi borið að á versta og viðkvæmasta tíma fyrir stefnendur af mörgum ástæðum. Framkvæmdastjóri Volta ehf. hafi glímt við erfið veikindi, stefndu hafði verið kunngert um eigendaskipti að Volta ehf., sem voru háð því að viðskiptavild raskaðist ekki meðan gengið væri frá kaupunum. Brotthlaupið eitt og sér hafi verið til þess fallið að eyðileggja þessa viðskiptavild, sérstaklega með tilliti til þess hvernig stefndu stóðu að málum.

2.             Hegðun stefndu um það leyti sem stefnendur og Jóhann Ólafsson & Co. ehf. hafi undirritað viljayfirlýsingu um kaup þess síðarnefnda á öllum hlutum í Volta ehf. hafi verið ótilhlýðileg. Hafi stefndu brotið gegn trúnaðarskyldum sínum við Volta ehf, sem leiddu af starfssambandinu, samkvæmt ólögfestum meginreglum vinnuréttarins. Stefndu hafi brotið gróflega gegn þessum skyldum með því að taka, í sameiningu, og í félagi með fulltrúum fyrirtækjanna Rafports ehf. og Lúmex ehf., þátt í ráðagerð, undirbúningi og stofnun einkahlutafélags í þeim tilgangi að ganga til liðs við Rafport ehf. án þess að láta fyrirsvarsmenn Volta ehf. vita af því, og ná til sín viðskiptasamböndum sem Volti ehf. hafi haft. Hafi verið bíræfið af stefnda, Hirti, með vitund og vilja Hafsteins, að fara utan 24. mars 2007, meðan þeir voru samningsbundnir Volta ehf., til að hitta tengiliði Volta ehf. hjá fyrirtækjunum WindowMaster og Berker í þeim tilgangi að falast eftir umboðum þessara fyrirtækja á kostnað Volta ehf. Er þarna var komið sögu hefðu stefndu i fyrsta lagi borið að segja upp störfum sínum hjá Volta ehf. með lögmætum hætti, hygðust þeir hætta að vinna hjá fyrirtækinu. Í öðru lagi hafi þeir ekki mátt vinna gegn hagsmunum Volta ehf. á nokkurn hátt út samningsbundinn uppsagnarfrest. Bann við því hafi meðal annars tekið til þess að taka ekki þátt í neins konar samkeppni við fyrirtækið eða vinna á nokkurn hátt fyrir samkeppnisaðila. Í þriðja lagi hafi stefndi, Hjörtur, við þessar aðstæður, alls ekki mátt fara í fyrrnefnda utanlandsferð til að hitta birgja Volta ehf. án þess að gera fyrirsvarsmönnum félagsins grein fyrir fyrirætlunum sínum. Hjörtur hafi haldið því fram að hann hafi farið utan til að hitta birgjana og ræða málefni Volta ehf. við þá. Hann hafi alls ekki verið hæfur til þess er þarna var komið sögu og hafi borið að gera fyrirsvarsmönnum Volta ehf. grein fyrir andstæðum hagsmunum sínum. Til viðbótar ólögfestum trúnaðarskyldum vísi stefnendur til ítarlegs ákvæðis i ráðningarsamningi Hjartar um trúnað. Stefndi Hjörtur hafi einnig brotið gegn því ákvæði með framangreindri háttsemi.

3.             Með hátterni sínu hafi stefndu brotið gegn ákvæði 13. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Í 2.-4. mgr. ákvæðisins segi að sá, sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, megi ekki, án heimildar, veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta gildi í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið. Þeim, sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti, hafi verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar sé óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar. Nú hafi upplýsinga um eða umráð yfir atvinnuleyndarmáli verið aflað á þann hátt að brotið hafi verið gegn framangreindu og sé þá þeim, sem brotlegur sé, eða þeim sem fengið hafi upplýsingar frá honum, óheimilt að færa sér það í nyt.

Í greinargerð með frumvarpi til samkeppnislaga nr. 8/1993 komi fram að 29. gr. laganna, sem nú sé í 13. gr. laga nr. 57/2005, verndi bæði rekstrar- og viðskiptaleyndannál. Rekstrarleyndarmál varði fremur tæknileg atriði, til dæmis tæknilegar rástafanir sem nýttar séu við framleiðslu á vöru. Viðskiptaleyndarmál geti verið fólgin í t.d. sérstöku sölu- eða innkaupaskipulagi, skrám yfir viðskiptavini, sérþekkingu á viðskiptavinum og ýmsum tölfræðilegum upplýsingum.

Í tilviki stefndu, hafi þeir, vegna starfa sinna hjá Volta ehf., haft aðgang að öllum tækilegum upplýsingum um vörur frá Berker og WindowMaster, eiginleika varanna, hvar, hvenær og hverjum þær hentuðu, um uppsetningu þeirra og verkefni í vinnslu. Allar þessar upplýsingar teljist vera rekstrarleyndarmál í skilningi ákvæðisins. Einnig hafi þeir haft allar upplýsingar um viðskiptaleyndarmál, sem tengdust téðum vörum, þar á meðal um samninga við birgja, tengiliði þeirra við Volta ehf., upplýsingar um innkaupsverð vara, söluverð, sölu, helstu viðskiptamenn og framlegð, svo dæmi séu nefnd. Bent sé á að stefndu hafi, starfa sinna vegna, haft fartölvur frá Volta ehf. með mikilvægum upplýsingum, sem þeir hafi ekki skilað. Stefndu hafi brotið mjög gróflega gegn skyldum sínum, sem felist í ákvæðinu, er þeir hafi náð til sín viðskiptasamböndum Volta ehf. á sama tíma og þeir voru bundnir trúnaðarskyldu. Við blasi að til þess hafi þeir notfært sér atvinnuleyndarmál Volta ehf. í skilningi lagaákvæðisins.

Með hegðun sinni hafi stefndu verið valdir að því að stefnendur urðu af 70.000.000 króna af kaupverði fyrir hluti í Volta ehf., sem hafði verið ákveðið í skriflegri og skuldbindandi yfirlýsingu um kaup Jóhanns ólafssonar & Co, þ.e. kaupverðið hafi lækkað úr 300.000.000 króna í 230.000.000 króna. Um þetta vísist til viljayfirlýsingarinnar, dags. 17. mars 2006, og endanlegs kaupsamnings, dags. 20. apríl s.á. Samkomulag hafi verið um umrædda lækkun og að bótakrafa á hendur stefndu tilheyrði stefnendum, þ.e. hún hafi ekki fylgt með í kaupunum. Lækkunin á kaupverðinu hafi eingöngu skýrst af því að framangreind umboð töpuðust vegna brota stefndu á starfsskyldum sínum. Allar aðrar forsendur og fyrirvarar hafi staðist og orsakatengsl milli ólögmætrar hegðunar og tjóns því sönnuð. Tjón stefnenda vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi stefndu, sem hér hafi verið lýst, nemi þannig 70.000.000 króna. Annars vegar sé um að ræða 60.000.000 króna vegna niðurfærslu á viðskiptavild, sem hefði skipst milli stefnenda eftir hlutafjáreign hvers þeirra. Stefnendur geri kröfu um þessa fjárhæð í 1. tölulið dómkrafna í félagi. Hins vegar sé um að ræða 10.000.000 króna sem hefðu runnið til stefnanda, Hrefnu Maríu. Krafa hennar vegna þessa sé í 2. tölulið dómkrafna.

Stefnendur krefjast skaðabótavaxta með vísan til ákvæða 8. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá tjónsdegi til 28. desember 2007, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnendur sendu stefndu kröfubréf. Frá og með þeim degi sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Nánar vísi stefnendur til ákvæða III. og IV. kafla laganna nr. 38/2001.

Krafa stefnenda um málskostnað sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um að við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefnenda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns þeirra sé skaðleysiskrafa, þar sem stefnendur eignist ekki frádráttarrétt vegna skattsins.

Málsástæður stefndu og lagarök

Aðalkrafa um sýknu.

Stefnendur byggi á því að stefndu hafi valdið stefnendum tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Til stuðnings kröfum sínum hafi þeir vakið athygli á því að stefndu hafi látið af störfum hjá Volta ehf. án fyrirvara. Telji stefndu sérstaka ástæðu til að benda á að í dómum héraðsdóms Reykjavíkur í málunum nr. E-5253/2007 og E-5254/2007 sé ekki lagt til grundvallar að stefndu hafi horfið fyrirvaralaust úr starfi, heldur að stefndu hafi með undirbúningi að sjálfstæðum atvinnurekstri komið sér í þá stöðu að þeim hafi verið ófært að gegna starfsskyldum sínum áfram hjá Volta ehf. án þess að brjóta gegn trúnaðarskyldu sinni við félagið. Hafi héraðsdómur talið að unnt væri að beita ákvæði 1. mgr. 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928 með lögjöfnun um þau tilvik er svo stæði á og hafi því verið fallist á kröfu Volta ehf. um skaðabætur úr hendi stefndu. Með því hafi Volta ehf. verið bætt það tjón sem gæti hafa leitt af fráhvarfi stefndu úr starfi hjá félaginu og telji stefndu útilokað að stefnendur geti höfðað mál til heimtu bóta úr hendi þeirra á grundvelli sömu forsendna.

Telja stefndu að með málshöfðun þessari fari stefnendur fram með sömu kröfu og Volti ehf. í framangreindum héraðsdómsmálum, en í stefnu komi fram að samkomulag hafi tekist með stefnendum, sem seljendum hlutafjár í Volta ehf. og nýjum eigendum félagsins, að hinum fyrrnefndu væri heimilað að krefja stefndu um skaðabætur vegna starfsloka þeirra hjá félaginu. Í krafti framsalsins sé því sama sakarefnið á milli sömu aðila borið undir héraðsdóm að nýju og telji stefndu að það geti varðað frávísun málsins ex officio.

Stefndu hafi látið af störfum hjá Volta ehf. í kjölfar fundar stefnda Hafsteins og Þorsteins Inga hinn 27. mars 2006, en á fundinum hafi stefnda Hafsteini skilist að Þorsteinn Ingi hefði sagt þeim stefnda Hirti upp störfum hjá félaginu án fyrirvara. Það sé því rangt að stefndu hafi gerst sekir um ólögmætt brotthlaup úr starfi en óumdeilt hljóti að vera að stefndu komu sér í framangreinda aðstöðu með undirbúningi að eigin atvinnurekstri, sem leiddi til þess að lögð var á þá skaðabótaábyrgð með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur.

Stefndu njóti, eins og aðrir, stjórnarskrárvarins atvinnufrelsis og geti því starfað við það sem þeir kjósa. Að gættum réttindum og skyldu samkvæmt gildandi kjara- og ráðningarsamningum hafi stefndu því haft fulla heimild til að láta af störfum hjá Volta ehf. Verði sá réttur ekki skertur vegna sérstakra aðstæðna hjá atvinnurekanda, s.s. veikinda stjórnenda eða yfirvofandi eigendaskipta, eins og reynt sé að halda fram í stefnu. Þá hafði hvorugur stefndi gengist undir samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi, sem takmarkaði heimildir þeirra til að gerast eigandi eða að hefja störf hjá fyrirtæki, sem stundaði sömu eða svipaða starfsemi og Volti ehf.

Stefndu mótmæli harðlega að þeir hafi brotið gegn ákvæðum 13. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Stefnendur hafi á engan hátt fært sönnur á þær fullyrðingar sínar að stefndu hafi náð til sín viðskiptasamböndum Volta ehf. og notað til þess upplýsingar sem talist geta atvinnuleyndarmál í skilningi ákvæðisins. Eins og áður hafi verið bent á hafi Rafport ehf. þegar verið í viðskiptum við Berker, sem hafi haft  frumkvæði að fundi framkvæmdastjórnar Rafports ehf. ytra og því fjarstæða að stefndu hafi þurft að hagnýta sér svokölluð rekstrar- eða viðskiptaleyndarmál til að koma á samskiptum við birginn. Bendi stefndu sérstaklega á að tekið sé fram í frumvarpi til eldri samkeppnislega, nr. 8/1993, að gera verði þær kröfur að til þess að atvinnuleyndarmál njóti verndar samkvæmt ákvæðinu verði krafa um leynd að hafa verið látin í ljós af hálfu fyrirtækisins eða að það liggi í hlutarins eðli. Ljóst sé að stefndu hafi búið yfir ýmsum upplýsingum varðandi hlutaðeigandi birgi, en Volti ehf. hafi ekki haft nokkuð frumkvæði að því að láta stefndu gangast undir samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum eða tiltaka með öðrum hætti að tilteknar upplýsingar teldust atvinnuleyndarmál. Ekki verði hjá því litið að þekking á vörum birgisins Berker hafi þar að auki þegar verið til staðar innan Rafports ehf. en fyrirtækið hafi um árabil flutt inn og selt vörur frá Berker. Vandséð sé hvernig þær upplýsingar, sem þegar hafi legið fyrir innan þess fyrirtækis geti talist atvinnuleyndarmál félags stefnenda. Þá sé fráleitt að líta svo á að sérstök verkþekking stefndu sem þeir hafa öðlast í námi og starfi geti talist atvinnuleyndarmál í skilningi greinarinnar þannig að stefndu hafi ekki mátt hagnýta sér þekkingu sína í starfi fyrir nýjan atvinnurekanda.

Stefndu bendi á að frumskilyrði þess að hafa megi uppi skaðabótakröfu á hendur þeim sé að sýnt hafi verið fram á að tjón hafi orðið. Telja stefndu að stefnendum máls þessa hafi á engan hátt tekist að sýna fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til háttsemi þeirra. Fráleitt sé að leggja til grundvallar samning stefnenda við kaupendur hlutafjárins í Volta ehf., enda geti það ekki verið á ábyrgð stefndu þó stefnendur semji af sér. Af gögnum málsins verði ráðið að þær forsendur sem sagðar eru liggja til grundvallar verðlækkuninni séu rangar, enda hafði umboði WindowMaster ekki verið sagt upp við undirritun kaupsamningsins, auk þess sem ljóst hafi verið að aðeins stóð til að gera breytingar á umboðssamningi Berker við félagið og því rangt að félagið hafi tapað þeim samningi. Þá sé jafnframt ljóst að viljayfirlýsingin um hlutafjárkaupin hafi verið háð ýmsum fyrirvörum, sem alfarið hafi verið á ábyrgð stefnenda að uppfylla, s.s. um að stuðla að því að lykilstarfsmenn héldu áfram störfum hjá félaginu og að tryggja að erlendir birgjar féllust á eigendaskiptin. Telja stefndu augljóst að stefnendur hafi sjálfir látið undir höfuð leggjast að fullnægja þessum skuldbindingum sínum, sem hafi öðru fremur leitt til þess að kaupendur kröfðust lækkunar á kaupverðinu. Þá telja stefndu fráleitt að litið verði svo á að breyting Berker á samningi við Volta ehf. úr einkaumboðssamningi, sem fól í sér að Volti ehf. fékk 10% af öllum söluhagnaði af Berker vörum hérlendis, í umboðssamning, sem fól í sér rétt Volta ehf. til að flytja inn og selja Berker vörur hérlendis án sérstakra umboðslauna, geti talist 60.000.000 króna virði. Bendi stefndu á að aðrar breytingar hafi ekki orðið á umboðssamningum Volta ehf. þegar kaupsamningur um hlutafé félagsins var undirritaður hinn 21. apríl 2006, en umboðssamningi WindowMaster hafi ekki verið sagt upp með bréfi forsvarsmanna WindowMaster A/S hinn 25. aprí1 2006. Hafi stefnendur engan reka gert að því að sanna verðmæti umboðssamninganna og sé því ekki fullnægt grundvallarskilyrði skaðabótaábyrgðar um sönnun tjóns.

Krafa um 10.000.000 kr. skaðabætur vegna starfslokagreiðslu Magnúsar Þórs sé stefndu augljóslega með öllu óviðkomandi, enda geti stefndu ekki borið ábyrgð á að Magnús Þór hafi ekki sinnt eigin skuldbindingum við kaupendur félagsins. Að líkindum hafi veikindi Magnúsar Þórs komið í veg fyrir að hann gæti sinnt þessum skuldbindingum sínum, en á þeim geti stefndu enga ábyrgð borið þrátt fyrir ósmekklegar aðdróttanir í þá veru í stefnu.

Enda þótt héraðsdómur kunni að komast að þeirri niðurstöðu að stefndu hafi gerst sekir um saknæma háttsemi með því að leggja drög að eigin atvinnurekstri á meðan þeir voru enn starfsmenn Volta ehf. hafi stefnendur engan reka gert að því að sýna fram á að ásetningur stefndu hafi staðið til að valda félaginu og/eða stefnendum tjóni. Verði sönnunarbyrði um að fullnægt sé skilyrði skaðabótareglunnar um saknæma háttsemi stefndu vitanlega lögð á stefnendur. Bendi stefndu sérstaklega á að stefndi Hjörtur hafi farið til fundar við Berker í Þýskalandi á vegum Rafports ehf. til þess að ræða áframhald á áralöngu viðskiptasambandi félaganna, en ekki til að koma í veg fyrir áframhaldandi viðskipti Volta ehf. eða til að valda félaginu eða eigendum þess tjóni á nokkurn hátt. Fráleitt sé að líta svo á að stefndi hafi á fundum með framkvæmdastjórn Rafports ehf. hjá Berker komið fram fyrir hönd Volta ehf. eins og haldið sé fram í stefnu.

Þá hafi stefnendur ekki sýnt fram á að orsakatengsl séu á milli meints tjóns stefnenda og háttsemi stefndu. Geti stefnendur á engan hátt sýnt fram á að uppsögn Berker á umboðssamningnum við Volta ehf. megi rekja til nokkurs er stefndu beri ábyrgð á. Telji stefndu að ástæðu uppsagnarinnar megi miklu frekar rekja til dræmrar sölu Volta ehf. á vörum fyrirtækisins, vanefnda stefnenda á þeirri skyldu að upplýsa um fyrirhuguð eigendaskipti að félaginu og röngum viðbrögðum Volta ehf. við markaðsaðstæðum hérlendis eins og lýst sé í uppsagnarbréfi Berker.

Með vísan til alls þess sem rakið hafi verið telji stefndu að sýkna beri þá af öllum kröfum stefnenda.

Með vísan til sömu sjónarmiða og rakin hafi verið krefjast stefndu verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda, komist héraðsdómur að þeirri ólíklegu niðurstöðu að stefndu verði gerðir bótaábyrgir vegna fjártjóns stefnenda.

Sýknu- og lækkunarkröfur sínar byggi stefndu á almennum meginreglum skaðabótaréttarins og atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Krafa stefndu um málskostnað grundvallast á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Með dómum í málunum E-5253/2006 og E-5254/2006 milli stefndu og Volta ehf. var skorið úr ágreiningi aðila um fyrirvaralaust brotthvarf stefndu úr vinnu hjá Volta ehf. og um skaðabótaskyldu stefndu gagnvart Volta ehf. vegna þess, en þar var talið að stefndu hefðu ekki getað lengur sinnt starfsskyldum sínum án þess að brjóta gróflega trúnað við vinnuveitanda eins og málum var komið, en fram kom í málunum að stefndu höfðu, meðan þeir voru í starfi hjá Volta ehf., hafið undirbúning að stofnun sjálfstæðs atvinnureksturs og hafi með því verið ómögulegt að gegna áfram störfum fyrir Volta ehf. Voru þeir báðir dæmdir til þess að greiða Volta ehf. skaðabætur. Verður því að líta svo á að með fyrrgreindum dómum hafi verið skorið úr um skaðabótaskyldu stefnda vegna fyrirvaralauss brotthvarfs úr starfi og brots á trúnaðarskyldum.

Kröfur sínar í þessu máli byggja stefnendur á sakarreglu skaðabótaréttarins. Með hliðsjón af kröfugerð í málinu verður að telja að stefnendur byggi kröfur sínar á því að stefndu hafi, með saknæmum og ólögmætum hætti, bakað stefnendum tjón sem felst í því að stefnendur hafi orðið af 70.000.000 krónum af kaupverði fyrir hluti sína í Volta ehf.

Í stefnu er fullyrt að Volti hafi verið einkahlutafélag. Verður til þess vísað sem slíks enda þótt í gögnum málsins sé félagið ýmist tilgreint sem hf. eða ehf., en vottorð um skráningu félagsins liggja ekki fyrir í málinu.

Fyrir liggur að hinn 17. mars 2006 var undirrituð viljayfirlýsing milli Magnúsar Þórs Magnússonar og Sigurðar Ingimarssonar, forstjóra Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf., um að sá síðarnefndi keypti allt hlutafé í Volta ehf. og að því skyldi stefnt að kaupsamningur yrði gerður 4. apríl 2006. Voru aðilar sammála um að kaupverðið skyldi vera 300.000.000 króna. Var viðskiptavild félagsins metin 70.000.000 króna og aukagreiðsla vegna starfsloka Magnúsar Þórs Magnússonar metin á 10.000.000 króna. Skyldi fara fram áreiðanleikakönnun til að sannreyna réttmæti eigna- og skuldaliða og skyldi henni lokið fyrir 3. apríl 2006.

Í 5. gr. viljayfirlýsingarinnar, um önnur atriði, segir m.a. að seljandi skuli leitast við að stuðla að því að lykilstarfsmenn Volta hf. ehf. haldi áfram störfum fyrir félagið þrátt fyrir eigendaskiptin. Að tryggt verði að erlendir birgjar fallist á eigendaskiptin, fyrir sitt leyti, og lýsi sig reiðubúna til að starfa með nýjum eigendum að framgangi Volta ehf. Eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar skuli væntanlegur kaupandi kynntur fyrir starfsfólki Volta ehf. Skuli stefnt að því að það gerist ekki síðar en 20. mars 2006.

Áður en kaupsamningur var gerður milli Volta ehf. og Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. lést Magnús Þór Magnússon, forsvarsmaður Volta ehf. Kaupsamningur milli erfingja Magnúsar Þórs Magnússonar og Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. var undirritaður 21. apríl 2006. Var kaupverðið talsvert lægra en gert hafði verið ráð fyrir í fyrrgreindri viljayfirlýsingu eða 230.000.000 krónur. Nemur mismunur þessi stefnufjárhæð í málinu, eða 70.000.000 króna, og felst í því að við kaupsamning var viðskiptavild félagsins metin á 10.000.000 króna og fallið var frá aukagreiðslu að fjárhæð 10.000.000 króna vegna starfsloka Magnúsar Þórs.

Sigurður Ingimarsson, forsvarsmaður Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf., bar fyrir dómi, varðandi kaupin á Volta ehf., að í hans huga hafi það verið grundvallaratriði að halda lykilstarfsmönnum í félaginu. Þá hafi verið gerður fyrirvari um að erlendir birgjar myndu samþykkja eigendaskiptin. Fullyrti hann einnig að ástæða þess að kaupverðið lækkaði svo verulega frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í viljayfirlýsingunni væri sú að umboðum Berker og WindowMaster hafði verið sagt upp af hálfu þessara félaga. Sigurður bar einnig að á fundi 20. mars 2006, þar sem eigendaskiptin hafi verið tilkynnt, hafi því verið lýst yfir að allir starfsmenn Volta ehf. myndu halda  sinni vinnu áfram.

Fram hefur komið að stefndu voru lykilstarfsmenn hjá Volta ehf. Hafa þeir lýst því fyrir dómi að þegar þeim varð kunnugt að til stóð að selja fyrirtækið hafi ljóst verið af þeirra hálfu að þeir höfðu ekki áhuga á því að starfa með nýjum eigendum en hafi ætlað sér að standa vaktina meðan Magnús Þór Magnússon ræki fyrirtækið. Gegn andmælum stefndu hefur stefnendum ekki tekist að sýna fram á það í málinu að fyrirsvarsmenn Volta ehf. hafi gert sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja áframhaldandi störf þeirra hjá nýjum eiganda í samræmi við fyrrgreinda viljayfirlýsingu. Þá er einnig ósannað að þeir hafi gefið stefnendum loforð um að halda áfram störfum hjá nýjum eiganda.

Fram er komið að stefndu höfðu, áður en til starfsloka þeirra kom hjá Volta ehf., hafið undirbúning að stofnun félags sem hafði að markmiði að kaupa hlut í Rafporti ehf. sem starfaði á sama vettvangi og Volti ehf. og seldi m.a. vörur frá Berker samkvæmt umboðssamningi við Berker.

Er upplýst að stefndi Hjörtur fór hinn 27. mars 2006 á fund fyrirsvarsmanns Berker í Þýskalandi ásamt Jóni Þór Guðjónssyni frá Rafporti og Helga Eiríkssyni frá Lumex. Hefur Hjörtur borið fyrir dómi að hann hafi mætt á þennan fund sem væntanlegur aðili að Rafporti ehf, sem átti í viðskiptum við Berker, en ekki sem fulltrúi Volta ehf. Er það í samræmi við framburð Katrínar Lillý Magnúsdóttur starfsmanns Volta ehf. sem bar fyrir dómi að hún hefði ekki vitað um þessa ferð hans.

Christian  Schmitz Eckert, fyrirsvarsmaður fyrirtækisins Berker í Þýskalandi, bar í skýrslu, sem hann gaf símleiðis fyrir dómi, að vorið 2006 hefði fyrirtækið fengið heimsókn þriggja aðila þeirra Jóns Þórs Guðjónsson frá Rafporti, Helga Eiríkssonar frá Lumex og Hjartar Gíslasonar, sem hann tengdi við fyrirtækið Volta ehf. Þeir hafi tilkynnt þeim að í burðarliðnum væri að selja Volta ehf. Þeir hjá Berker hafi ekkert vitað af því. Þeim hafi verið sagt á þessum fundi að leiðandi starfsmenn Volta ehf. væru að fara frá fyrirtækinu eða væru farnir. Í ljósi þessara aðstæðna, þ.e. að mikilvægustu menn fyrirtækisins, sem þeir hafi haft samband við, væru að fara burt úr fyrirtækinu og sala þess væri í burðarliðnum, hafi þeir ákveðið að segja upp samningnum við Volta ehf. til þess að halda öllum leiðum opnum hvað varðaði viðskipti við Ísland. Hann kvað enga ákvörðun hafa verið tekna á þessum fundi varðandi umboðsmenn.  Fyrirsvarsmenn fyrirtækisins hafi síðar farið til Íslands til þess að ræða við aðila. Ákvörðun um hverjum yrði veitt umboðið hafi verið tekin síðari hluta árs 2006. Christian Schmitz Eckert bar að þar sem fyrirsvarsmenn Volta ehf. höfðu ekki haft samband við Berker og létu þá ekki vita um stöðuna hafi þeir ekki talið ástæðu til þess að hafa samband við Volta ehf. og sendu því bréf til Volta ehf. um uppsögn samningsins 28. mars 2006.

Fyrir liggur að fréttatilkynning var send út af hálfu Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. um kaupin á Volta ehf. 20. mars 2006. Ekki hefur verið sýnt fram á að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar af forsvarsmönnum Volta ehf., hvorki fyrir né eftir þann tíma, til þess að hafa samband við forsvarsmenn Berker í Þýskalandi, tilkynna um væntanleg eigendaskipti að fyrirtækinu og leita eftir samþykki þeirra á því að umboðið sem Volti ehf. hafði haft á sölu vara frá Berker gengi til Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. eins og bar að gera samkvæmt umboðssamningi við Berker og samkvæmt yfirlýsingunni frá 17. mars 2006.

Þá liggja heldur ekki fyrir gögn í málinu um að samband hafi verið haft við fyrirsvarsmenn WindowMaster sem sögðu upp samningi sínum við Volta ehf. 25. apríl 2006, eða eftir að kaupsamningur var gerður.

Ekki hefur verið sýnt fram á það af hálfu stefnenda að í ráðningarsamningum stefndu hafi verið ákvæði er meinuðu þeim að taka þátt í atvinnurekstri á sama sviði og Volti ehf. hafði með höndum, eftir að þeir hurfu úr starfi hjá Volta ehf. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að stefndu hafi gerst sekir um að upplýsa um einhver atvinnuleyndarmál sem þeir hafi komist á snoðir um í störfum sínum hjá Volta ehf. og bakað stefnendum tjón með þeim hætti.

Eins og fram er komið brutu stefndu trúnað er þeir hættu fyrirvaralaust hjá Volta ehf., sbr. fyrrgreind dómsmál sem vísað er til hér að framan. Hins vegar er ekki fallist á að stefndu hafi gerst sekir um saknæmt eða ólöglegt athæfi með því að fara á framangreindan fund Berker í Þýskalandi, einkum þegar litið er til þess að ekki hefur verið sýnt fram á að nein ákvæði í ráðningarsamningi þeirra hafi í raun meinað þeim það.

Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu verður að telja að meint tjón stefnenda verði ekki rakið til atvika sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á heldur verði meint tjón þeirra rakið til þess að forsvarsmenn Volta ehf. aðhöfðust ekkert til þess að standa við yfirlýsingar sínar samkvæmt viljayfirlýsingunni frá 17. mars 2006 um að tryggja að erlendir birgjar féllust á eigendaskiptin og stuðla að því að lykilstarfsmenn héldu áfram störfum þrátt fyrir eigendaskiptin.

Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.

Eins og atvikum háttar þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Hjörtur Gíslason og Hafsteinn Már Ársælsson, skulu vera sýknir af kröfum stefnenda, Hrefnu Maríu Gunnarsdóttur, Ástu Valdimarsdóttur, Guðrúnar Margrétar Hannesdóttur, Margrétar O. Magnúsdóttur og Valdimars Kr. Hannessonar.

Málskostnaður fellur niður.