Hæstiréttur íslands

Mál nr. 4/2015


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Málsástæða


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 10. september 2015.

Nr. 4/2015.

Jón Kristjánsson

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

þrotabúi IceCapital ehf.

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

Ómerking. Heimvísun. Málsástæða.

Þrotabú I ehf. krafðist riftunar á kaupsamningi I ehf. og J, fyrrum stjórnarformanns I ehf., um kaup félagsins á stofnfjárbréfum í B og endurgreiðslu fjárhæðar sem svaraði til kaupverðsins. Var krafa þrotabúsins tekin til greina í héraði. Þar sem héraðsdómur hafði ekki tekið rökstudda afstöðu til þeirrar málsástæðu J að krafa um skaðabætur úr hendi hans væri fyrnd, ómerkti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm og vísaði málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með hinum áfrýjaða dómi var rift ráðstöfun sem fólst í kaupsamningi milli áfrýjanda og Sunds ehf., síðar IceCapital ehf., 4. nóvember 2008 um kaup á stofnbréfum í Byr sparisjóði fyrir 25.000.000 hlutum og áfrýjanda gert að endurgreiða stefnda 90.315.122 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Af dómnum er ljóst að sú krafa var dæmd á bótagrundvelli eftir almennum reglum.

Í greinargerð áfrýjanda í héraði var teflt fram þeirri málsástæðu að krafa um skaðabætur úr hendi hans væri fyrnd. Var þetta reist á því að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda væri 4 ár, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, og fresturinn reiknist frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Stefndi hefði fyrst átt rétt til efnda við gerð kaupsamningsins 4. nóvember 2008 og því hefði krafan verið fyrnd þegar málið var höfðað 27. desember 2012. Héraðsdómur tók ekki rökstudda afstöðu til þessarar málsástæðu áfrýjanda eins og honum bar samkvæmt f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af þeim sökum verður að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.     

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2014.

Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 28. desember 2012, var tekið til dóms 4. september sl. Stefnandi er Þrotabú IceCapital ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, en stefndi er Jón Kristjánsson, Þernunesi 6, Garðabæ.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að rift verði með dómi gjafagerningi eða kaupsamningi, dagsettum 4. nóvember 2008 milli IceCapital ehf. og stefnda um stofnfjárbréf í Byr sparisjóði, samtals að fjárhæð 90.315.122 krónur. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 90.315.122 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. nóvember 2008 til greiðsludags. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Með úrskurði 29. janúar 2014 var frávísunarkröfu stefnda hrundið.

I

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2012 var bú stefnanda IceCapital ehf. tekið til gjaldþrotaskipta en skiptabeiðandi var Arion banki hf. Skiptastjóri var skipaður sama dag í þrotabúinu. Frestdagur í búinu var 26. janúar 2012. Innköllun birtist í Lögbirtingablaði þann 23. mars 2012 og aftur 30. s.m. Skiptafundur um lýstar kröfur var haldinn þann 31. maí s.á. Í júní 2012 barst skiptastjóra bókhald félagsins á rafrænu formi. Deloitte ehf. var falið að rannsaka bókhald félagsins og var samantekt vegna rannsóknarinnar skilað til skiptastjóra í desember 2012. Stefnandi hét áður Sund ehf. Samkvæmt hlutafélagaskrá var tilgangur félagsins umboðs- og heildverslun, eignarhald og viðskipti með verðbréf, rekstur og eignarhald fasteigna, svo og lánastarfsemi. Stefnandi átti hlut í íslensku viðskiptabönkunum. Stefnandi segir að við fall þeirra hafi félagið að mestu orðið eignalaust en setið eftir með háar skuldir. 

Stefnandi segir að við rannsókn á bókhaldi félagsins hafi komið í ljós að þann 4. nóvember 2008 hafi stefndi selt til IceCapital ehf. verðlítil eða verðlaus stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Um hafi verið að ræða 25.000.000 hluti og við ákvörðun kaupverðs hafi þeir verið margfaldaðir með endurmatsstuðlinum 2,25787806. Umsamið kaupverð hafi verið á genginu 1,6 pr. hlut eða samtals 90.315.122 krónur. Kaupverðið hafi verið greitt samdægurs með reiðufé. Stefnandi telur einsýnt að kaupverð stofnfjárbréfanna hafi verið óeðlilegt og of hátt í ljósi verðgildis bréfanna á þessum tíma og því sé um að ræða gjafagerning og ótilhlýðilega ráðstöfun sem sé þar af leiðandi riftanleg samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti.

Með bréfi skipaðs skiptastjóra til stefnda, dagsettu 11. desember 2012, hafi þrotabúið lýst yfir riftun á framangreindri ráðstöfun með vísan til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og krafist jafnframt endurgreiðslu úr hendi stefnda. Þar sem stefndi hafi ekki tekið afstöðu til framangreindra krafna sé þrotabúinu nauðugur sá kostur að höfða dómsmál þetta til riftunar á ráðstöfuninni og til endurgreiðslu þeirra fjármuna sem gengu til stefnda.

Stefnandi kveður riftunarkröfuna vegna sölu á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði í fyrsta lagi reista á 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Stefnandi telur kaupsamning 4. nóvember 2008 hafa verið málamyndagerning. Kaupsamningurinn hafi í reynd verið gjafagerningur, enda verulega til hagsbóta fyrir stefnda. Í öllu falli hafi umsamið kaupverð verið verulega óhagstætt hinu gjaldþrota félagi en vænlegt fyrir stefnda. Ástæðan sé einkum sú að enginn virkur markaður hafi verið með stofnfjárbréf Byr sparisjóðs á þessum tíma og byggir stefnandi á því að bréfin hafi verið orðin verðlaus þegar kaupsamningurinn var gerður. Stefnandi bendir sérstaklega á að í byrjun október 2008 hafi þrír stærstu viðskiptabankar Íslands orðið gjaldþrota í einni og sömu vikunni. Hlutabréf í viðskiptabönkunum hafi orðið verðlaus í kjölfarið og enginn virkur markaður verið með stofnfjárbréf í Byr. Fjármálaeftirlitið hafi tekið ákvörðun 22. apríl 2010 um að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 131. gr. megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Í 2. mgr. 131. gr. sé síðan kveðið á um að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag. Stefndi hafi verið einn af hluthöfum í stefnanda og stjórnarformaður félagsins. Stefnandi og stefndi séu því nákomnir í skilningi 3. gr. laganna og þar af leiðandi eigi ákvæði 2. mgr. 131. gr. laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði 1. mgr. 194. gr. laganna, við um gjafagerninginn.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefnandi hafi verið ógjaldfært félag í skilningi laga nr. 21/1991 frá septembermánuði 2008 og þar af leiðandi ógjaldfært þegar hin riftanlega ráðstöfun átti sér stað. Á þessum tíma hafi stefnandi verið nær eignalaust félag en skuldir félagsins numið mörgum milljörðum króna. Þessu til stuðnings megi t.d. benda á að samkvæmt ársreikningum stefnanda 2008 og 2009 hafi eigið fé stefnanda verið neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og um rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi félagsins 2008 segi m.a. að tap ársins 2008 nemi rúmlega 32,2 milljörðum króna og eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok um 17.579.000 krónur. Þessi atriði valdi því að vafi leiki á um rekstrarhæfi félagsins. Þessu til frekari stuðnings vísist til þess sem fram komi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 þar sem segi að á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hafi skuldir stefnanda og tengdra félaga hækkað um 44,7 milljarða króna. Í evrum talið hækkuðu skuldbindingar félaganna um 236,5 milljónir eða 117%. Á sama tímabili hafi nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda numið 43,3 milljörðum króna. Fyrirsvarsmönnum stefnanda hafi augljóslega verið ljóst að félagið var ógjaldfært þegar hin riftanlega ráðstöfun átti sér stað. Í raun hafi stjórnarformaður stefnanda, stefndi, viðurkennt þetta í skýrslutöku hjá skiptastjóra þegar hann lýsti því hvernig eignahlið stefnanda hafi þurrkast út við hrun viðskiptabankanna haustið 2008 og aðeins skuldir staðið eftir.

Stefnandi byggir riftunarkröfu sína einnig á ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi byggir á að umrædd ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg og leitt til þess að eignir hins gjaldþrota félags voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum auk þess sem stefnandi hafi verið ógjaldfær á þeim tíma sem gerningurinn átti sér stað og stefndi vissi eða mátti vita af ógjaldfærni stefnanda. Greiðslurnar hafi þannig verið til þess fallnar að mismuna kröfuhöfum og gengið því gegn jafnræði kröfuhafa sem reynt sé að gæta í lögum nr. 21/1991.

Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verði henni rift á grundvelli ákvæðis 131. gr. laganna. Verði á hinn bóginn fallist á riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 er endurgreiðslukrafa stefnanda reist á 3. mgr. 142. gr. laganna.

Stefnandi byggir fjárkröfu sína einnig á ákvæðum 51. gr. og 70. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Við gjaldþrotaskiptin hafi stefnandi eignast skaðabótakröfu hins gjaldþrota félags á hendur stefnda, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991. Stefnandi bendir á að stefndi hafi vitað, eða mátt vita, að greiðsla eða lánveiting stefnanda til stefnda hafi verið brot á ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, sbr. 2. tl. 1. mgr. 52. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að ráðstöfunin hafi verið bæði hluthöfum stefnanda eða öðrum, það er hluthöfum stefnda, til ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Með sömu rökum vísar stefnandi til 70. gr. laganna.

Enn fremur byggir stefnandi á meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og á almennum reglum kröfuréttar.

Dráttarvaxtakrafa er reist á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa um riftun er einkum reist á 131. og 141. gr. laganna. Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. og 3. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga, almennum reglum skaðabótaréttarins sem og ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og reglum kröfuréttar. Um vexti og dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafa um málskostnað reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing er vísað V. kafla sömu laga. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt 1. mgr. 148. gr., sbr. bráðabirgðaákvæði 194. gr. gjaldþrotalaga, er mál þetta höfðað innan málshöfðunarfrests.

II

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að kaupsamningurinn um stofnbréf í Byr sparisjóði 4. nóvember 2008 hafi hvorki falið í sér málamynda- né gjafagerning. Þvert á móti hafi stefndi með samningum verið að selja stefnanda stofnfjárhluti í Byr sparisjóði. Verðmæti þeirra 25.000 stofnfjárhluta, sem stefndi hafi selt stefnanda, hafi byggst á endurmatsstuðli í nóvember 2008. Stefnanda hafi auk þess verið nauðsynlegt að eignast fleiri stofnfjárhluti í Byr sparisjóði til þess að geta bætt tryggingastöðu sína gagnvart sparisjóðnum sjálfum og öðrum lánardrottnum sínum. Við skoðun á tryggingastöðu stefnanda gagnvart Byr sparisjóði hafði komið í ljós að tryggingar sparisjóðsins fyrir lánum til stefnanda voru minni en gert hafði verið ráð fyrir. Um þennan skort á tryggingum hafi verið rætt við forsvarsmenn stefnanda áður en kaupin 4. nóvember 2008 áttu sér stað og eins eftir þau. Þannig hafi komið fram á fundi forsvarsmanna stefnanda með forsvarsmönnum Byrs sparisjóðs föstudaginn 7. nóvember 2008 að skortur á tryggingum gagnvart Byr sparisjóði væri um 10.000.000 stofnfjárhluta. Í tölvupósti sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs til stefnda 9. nóvember 2008 hafi vöntunin hins vegar verið talin 36.735.928 hlutir. Í tölvupóstinum segi: ,,Samkvæmt mínum bókum eigið þið 97 milljón hluti óveðsetta. Eftir standa þá 60 milljón hlutir fyrir VBS.“ Eins og framangreint beri með sér sé sparisjóðsstjóri Byr sparisjóðs ekki í neinum vafa um að stofnfjárhlutir í Byr sparisjóði hefðu þekkt verðgildi og gætu staðið sem veð að baki lánum til stefnanda. Hefði stefnandi ekki verið fær um að útvega nauðsynlegar tryggingar hefðu fjármálafyrirtækin, sem kröfðust frekari trygginga, getað gjaldfellt kröfur sínar á hendur stefnanda. Kaupsamningurinn 4. nóvember 2008 hafi ekki falið í sér gjöf í merkingu 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 þar sem tilgangurinn með honum hafi ekki verið að gefa og því síður hafi hann rýrt eignir stefnanda og leitt til eignaaukningar hjá stefnda.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því að 141. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við um lögskipti stefnda og stefnanda 4. nóvember 2008. Stefnandi hafi ekki sannað að riftunarskilyrði þessarar huglægu riftunarreglu séu til staðar.

                Þvert á móti liggi fyrir að með samningnum 4. nóvember 2008 hafi stefnandi fengið í sinn hlut stofnfjárhluti í Byr sparisjóði sem höfðu það verðgildi sem um var samið. Þetta hafi ekki aðeins verið mat stefnda og stefnanda, heldur einnig lánastofnana þeirra sem áttu þegar veð í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði og vildu auka tryggingar sínar vegna lána til stefnanda með því að fá fleiri stofnfjárhluti sem tryggingu. Þessir aðilar hafi verið kröfuhafar stefnanda og hafi þekkt til eigna- og skuldastöðu hans. Kröfuhafar þessir hefðu varla samþykkt viðskipti með stofnfjárhlutina og veðsetningu þeirra til tryggingar lánum til stefnanda hefðu þeir talið kaupin ótilhlýðileg til hagsbóta fyrir stefnda á kostnað annarra þ. á. m. þeirra sjálfra, og ennfremur ef þeir hefðu talið að kaupin myndu leiða til þess að eignir stefnanda yrðu ekki til reiðu þeim og öðrum kröfuhöfum til fullnustu eða leitt til skuldaaukningar þeim og öðrum kröfuhöfum til tjóns. Stefnandi hafi ekki verið í vanskilum við neinn lánardrottinn þegar samningurinn var gerður og hafi ekki orði ógjaldfær vegna samningsins.

                Rannsóknarskýrsla Alþingis er ekki sönnunargagn í máli þessu fremur en öðrum einkamálum eins og byggt virðist á af hálfu stefnanda. Efnahagur stefnanda hafi orðið fyrir höggi þegar íslenskt efnahagslíf hrundi í kjölfar setningar neyðarlaganna 7. október 2008. Það breyti hins vegar engu fyrir mál þetta. Áhættan af kaupum stofnfjárhlutanna hafi flust til stefnanda 4. nóvember 2008 og þeir hafi nýst stefnanda að fullu sem veðtrygging á þeim tíma sem til kaupanna var stofnað.

                Verði þrátt fyrir framangreint talið að rifta megi viðskiptum stefnda og stefnanda eignist stefnandi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda. Um þær kröfur gildi annars vegar 1. mgr. eða 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Samkvæmt 1. mgr. 141. gr. verði stefndi aðeins dæmdur til að greiða stefnanda fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotabúsins hefur orðið stefnda að notum. Stefndi hafi enga greiðslu fengið frá stefnanda sem nýttist honum með einhverjum sérstökum hætti þannig að hann auðgaðist á kostnað stefnanda, enda hafi verið látin af hendi verðmæti sem stefnandi og viðskiptabanki hans töldu hafa það verðmæti sem samið var um. Stefnandi hafi ekki sannað, t.d. með matsgerð að það mat stefnanda og sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs hafi verið rangt.

Samkvæmt 3. mgr. 142. gr. eigi sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun að greiða bætur eftir almennum reglum. Í þessu máli sé leitast við að rifta gagnkvæmum samningi gerðum 4. nóvember 2008 og krefjast bóta. Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé 4 ár, sbr. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Reiknist hann frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Stefnandi hafi fyrst átt rétt til efnda 4. nóvember 2008. Stefndi hafi efnt samninginn gagnvart stefnanda þá og afhent honum verðmæti sem fjármálafyrirtæki litu á sem fullgilda tryggingu fyrir lánum til stefnanda. Áhættan af rýrnun verðmætanna hafi frá sama tíma flust til stefnanda og lánveitenda hans. Allar bótakröfur samkvæmt samningi þessum hafi verið fyrndar 4. nóvember 2012. Sé litið svo á að skaðabótakrafan sé ekki fyrnd liggi ekkert fyrir um það hvert tjón stefnanda sé samkvæmt almennum reglum. Á stefnanda hvíli sönnun þess.

                Fari svo ólíklega að riftunarkröfur stefnanda nái fram að ganga beri að færa bætur úr hendi stefnda niður með heimild í 145. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem það geti aldrei talist sanngjarnt að stefnandi, sem bar alla áhættu af verðrýrnun stofnfjárhluta í sparisjóðnum Byr eftir 4. nóvember 2008, eigi liðlega 90.000.000 króna endurgreiðslukröfu á hendur stefnda 48 mánuðum eftir að viðskiptin áttu sér stað vegna þess eins að stefnandi varð gjaldþrota 14. mars 2012. Verður í því sambandi að horfa til þess m.a. að viðskiptin 4. nóvember 2008 hefðu aldrei átt sér stað nema vegna þess að Byr sparisjóður krafðist þess að fá auknar tryggingar í stofnfjárhlutum til tryggingar lánum sínum til stefnanda.

                Verði fjárkrafa stefnanda að einhverju leyti tekin til greina verði stefndi ekki dæmdur til greiðslu dráttarvaxta þar sem dómkrafa stefnanda um dráttarvexti sé hvorki í samræmi við ákvæði d liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 né ákvæði III. kafla og 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hvað þá dómafordæmi Hæstaréttar Íslands um framsetningu dráttarvaxtakrafna í málum. Stefndi mótmælir því að stefnandi fái bætt úr þessum hnökrum í málatilbúnaði sínum. Beri dómara því að vísa dráttarvaxtakröfunni frá dómi ex offico, enda verði hún ekki tekinn upp óbreytt sem ályktunarorð dómsniðurstöðu í málinu. Engu breytir þó að reynt sé að bæta úr þessum vanköntum á kröfugerðinni í stefnu.

                Stefnda sé með öllu óskiljanleg sú málsástæða stefnanda að fjárkrafa hans í málinu styðjist einnig við ákvæði 51., 70. og 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og almennu skaðabótaregluna. Brjóti stjórn, hluthafar, framkvæmdastjórar endurskoðendur eða aðrir sem véla um málefni hlutafélaga af sér í starfi fyrir viðkomandi félag fari um bótaábyrgð samkvæmt ákvæðum XV. kafla laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.

                Undir dómkröfum í stefnu sé gerð krafa um riftun á kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 2008 og greiðslu á 90.315.122 kónum sem hafi verið kaupverð stofnfjárhluta í Byr sparisjóði samkvæmt kaupsamningnum. Engar málsástæður séu hafðar uppi í máli þessu af hálfu stefnanda um að hann sé óbundinn af samningi sínum við stefnda samkvæmt reglum samninga- eða kröfuréttar og eigi bótakröfu innan samninga.

                Umfjöllun stefnanda í stefnu virðist gera ráð fyrir því að stefnandi eigi einhvers konar skaðabótakröfu á hendur stefnda þar sem hann, sem einn forsvarsmanna stefnanda, hafi við kaup stefnanda á stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði 4. nóvember 2008 verið að hygla stefnda á kostnað annarra hlutahafa eða félagsins. Tilvísun stefnanda til 51. 70. og 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 sé hreinlega út úr kú og hafi engin tengsl við sakarefni máls þessa. Engin grein sé gerð fyrir því í stefnunni hvernig almenna skaðabótareglan eigi að geta leitt til bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda í máli þessu. Þá beri þess einnig að geta að í 71. gr. laga um einkahlutafélög sé að finna sérstakt málshöfðunarákvæði sem ekkert hafi með sakarefni máls þessa að gera. Um skaðabótaábyrgð samkvæmt lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 fari þegar atvik máls fari eftir ákvæðum XV. kafla laganna. Bótakröfur samkvæmt ákvæðum XV. kafla fyrnist almennt á 2 árum frá lokum þess reikningsárs sem atvik eða atburður átti sér stað á. Kaup stefnanda á stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði hafi farið fram 4. nóvember 2008. Bótakröfu verði því að stefna fyrir dóm fyrir árs lok 2010. Engu breyti hér þótt ráðagerð hafi verið uppi um það við setningu laga nr. 68/2010 að lengja fyrningarfrest bótakrafna samkvæmt lögum um einkahlutafélög í 4 ár. Slík lagasetning geti ekki verið afturvirk frekar en önnur íþyngjandi löggjöf. Jafnvel þótt fallist væri á að fyrningarfrestur væri fjögur ár hafi krafan engu að síður verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað 27. desember 2012 þar sem samningurinn, sem krafan sé sögð byggjast á, hafi verið gerður 4. nóvember 2008.

                Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda í heild sinni sem vanreifuðum og óljósum sem gefi dómaranum færi á því að vísa málinu frá ex officio.   

Varðandi kröfuna er vísað til 131., 141. og 1. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, III. kafla og 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu Páll Þór Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda. Þá gaf einnig skýrslu Sif Einarsdóttir, löggiltur endurskoðandi, en hún stjórnaði vinnu við gerð skýrslu um bókhald stefnanda sem gerð var að tilhlutan skiptastjóra stefnanda.

III

                IceCapital ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 14. mars 2012 og var frestdagur í búinu 26. janúar 2012. Þrotabúið höfðaði mál þetta til riftunar á ráðstöfun sem það telur að hafi falist í kaupum stefnanda 4. nóvember 2008 á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði af stefnda, samtals að fjárhæð 90.315.122 krónur. Telur stefnandi að stofnfjárbréfin hafi á þessum tíma verið verðlaus og salan því til tjóns fyrir stefnanda en til hagsbóta fyrir stefnda sem hafi setið báðum megin borðsins, verið nákominn í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991.

                Stefnandi reisir kröfu sína í fyrsta lagi á 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sbr. bráðabirgðaákvæði 1. mgr. 194. gr. laganna, og byggir á að um gjafagerning til nákomins hafi verið að ræða og ennfremur að stefnandi hafi á þessum tíma verið ógjaldfær.

Varðandi gjaldfærni stefnanda 4. nóvember 2008, er kaupsamningur var gerður, verður að líta til þess að samkvæmt ársreikningi stefnanda var eigið fé stefnanda neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi stefnanda 2008 segir að tap ársins 2008 nemi 32.262 milljónum króna og eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok 2008 um 17.579 milljónir króna. Segir endurskoðandi félagsins í ársskýrslunni að framangreint valdi því að vafi leiki á um rekstrarhæfi félagsins. Í ársreikningi 2009 segir m.a. í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra að 7.028 milljóna króna tap hafi orðið á rekstri félagsins árið 2009 samkvæmt rekstrarreikningi og að eigið fé félagsins hafi í árslok verið neikvætt um 24.607 milljónir króna. Ársreikningur fyrir 2009 var ekki endurskoðaður af endurskoðanda. Fram kom í skýrslu Páls Þórs Magnússonar fyrir dómi að stefnandi hefði verið stór hluthafi í íslensku viðskiptabönkunum þremur svo og í Byr sparisjóði. Við hrun bankanna í byrjun október 2008 hafi þessar eignir þurrkast út. Í skýrslu stefnda hjá skiptastjóra sagði stefndi, þáverandi stjórnarformaður stefnanda, að við hrun bankanna hafi eignahlið stefnanda horfið og eftir staðið stökkbreytt lán.        Þegar framangreint er virt þykir ekki fara á milli mála að stefnandi hafi verið ógjaldfær 4. nóvember 2008 þegar ráðstöfunin var gerð.

 Deilt er um þá staðhæfingu stefnanda að stofnfjárbréfin í Byr sparisjóði hafi verið verðlaus þegar kaupsamningur var gerður 4. nóvember 2008. Í því sambandi vísar stefnandi máli sínu til stuðnings einkum til umfjöllunar Hæstaréttar um stofnfjárbréf í Byr sparisjóði í dómum réttarins í máli nr. 442/2011 frá 7. júní 2012 og í máli nr. 135/2013 frá 31. október 2013. Fram kemur í kaupsamningi um stofnfjárbréfin að seldir voru 25.000.000 hlutir sem voru margfaldaðir með endurmatsstuðlinum 2,25787806. Endurmetið stofnfé var því 56.446.951 króna. Hlutirnir voru seldir á genginu 1,6 krónur per hlut eða samtals 90.315.122 krónur. Stofnfjárbréfin voru ekki skráð á markaði en fram kemur í framangreindum dómum Hæstaréttar að bréfin voru í október 2008 skráð hjá stofnfjármarkaði MP banka hf. á genginu 1,585 krónur per hlut. Síðasti dagur viðskipta með stofnfjárbréfin í Byr sparisjóði fyrir milligöngu MP fjárfestingarbanka ehf. var 22. ágúst 2008. Gengi í þeim viðskiptum þann dag var á bilinu 1,4 til 1,5 fyrir utan síðustu viðskipti sem voru óveruleg en þar var gengið 1,6. Haustið 2008 ríkti mikil óvissa á fjármálamarkaði og veruleg lausafjárþurrð. Í byrjun október féllu þrír stærstu viðskiptabankar landsins um líkt leyti. Eftir það var enginn markaður með bréf í Byr sparisjóði. Liggur því fyrir að kaupverð stofnfjárbréfanna tók ekki mið af raunverulegu verðgildi bréfanna í nóvember 2008 er þau voru seld til stefnanda en fram er komið í málinu að gengi bréfanna var ákveðið af sparisjóðsstjóra. Með sölu bréfanna til stefnanda, sem greiddi með reiðufé til stefnda, var áhættunni á tjóni vegna stofnfjárbréfanna velt yfir á stefnanda, enda kom á daginn að þau reyndust verðlaus og það fé sem greitt var fyrir er stefnanda glatað.

Að teknu tilliti til þess að náin tengsl voru milli aðila, stefndi var stjórnarformaður stefnanda og sat í stjórn Byrs sparisjóðs, þykir stefndi bera sönnunarbyrðina fyrir því að umræddur samningur hafi ekki verið örlætisgerningur, heldur hafi markmiðið með honum verið annað en að valda rýrnun á eignum stefnanda. Þegar málsatvik eru virt í heild og þar á meðal horft til þeirrar óvissu sem ríkti á fjármálamarkaði haustið 2008 og þeirra atvika sem síðar gerðust í málefnum Byrs sparisjóðs verður ekki talið að stefnda hafi tekist sú sönnun. Verður því talið að gjafatilgangur hafi búið að baki kaupsamningnum 4. nóvember 2008 og er því samkvæmt framansögðu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt framansögðu verður tekin til greina krafa stefnanda um riftun á greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 90.315.122 krónur sem fram fór 4. nóvember 2008 en ekki er deilt um tímafresti í málinu.

Með skírskotun til 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verður stefnda jafnframt gert að endurgreiða stefnanda 90.315.122 krónur.

                Stefnandi byggir fjárkröfu sína einnig á 51., 70. og 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þessi kröfugerð stefnanda er ekki í tengslum við málatilbúnað stefnanda að öðru leyti og tengist ekki málsástæðum stefnanda og kröfugerð sem byggist á XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun á ráðstöfunum þrotamanns og endurheimt verðmæta við gjaldþrot. Fjárkrafa stefnanda verður því ekki reist á fyrrgreindum ákvæðum laga um einkahlutafélög.

                Í kröfugerð sinni í stefnu krefst stefnandi dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu án þess að tiltaka hundraðshluta vaxta eða vísa til 1. mgr. 6. gr. laganna. Undir rekstri málsins var bókað af hálfu stefnanda að dráttarvaxtakrafan væri byggð á 1. mgr. 6. laga nr. 38/2001 og mótmælti stefndi að þessi breyting á kröfugerð kæmist að í málinu þar sem hún væri of seint fram komin. Talið verður í samræmi við fordæmi Hæstaréttar, t.d. í dómi nr. 522/2008, að tilvísun til III. kafla nefndra laga í stefnunni hafi verið fullnægjandi og stefnanda leiðréttingin heimil. Dráttarvextir verða dæmdir frá 11. janúar 2013 en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar, sbr. 3.  mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

                Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til fimm annarra riftunarmála stefnanda sem flutt voru sama dag.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

                Rift er kaupsamningi milli IceCapital ehf. og stefnda, Jóns Kristjánssonar, sem gerður var 4. nóvember 2008 um kaup stefnanda á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, 25.000.000 hluta að verðmæti 90.315.122 krónur.

                Stefndi greiði stefnanda 90.315.122 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. janúar 2013 til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað.