Hæstiréttur íslands

Mál nr. 604/2013


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Viðurkenningarkrafa
  • Miskabætur


                                     

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Nr. 604/2013.

Icelandair ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

gegn

Halldóri Þór Halldórssyni

(Halldór H. Backman hrl.)

og gagnsök

Ráðningarsamningur. Riftun. Viðurkenningarkrafa. Miskabætur.

H höfðaði mál gegn I ehf. og krafðist þess meðal annars að viðurkennt yrði að I ehf. væri skaðabótaskylt gagnvart honum vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi aðila. Ástæða uppsagnarinnar var atvik er H var á heimleið með farþegaflugvél I ehf. eftir að hafa lokið verkefni á vegum félagsins. I ehf. taldi hegðun H hafa verið ósamrýmanlega stöðu hans sem flugstjóra hjá I ehf. Ekki var talið sannað að H hefði neytt áfengis í óhófi þannig að það hefði farið í bága við reglur I ehf. Þótt ljóst væri að hegðun H hefði verið með þeim hætti að ekki sæmdi stöðu hans var hegðunin ekki talin hafa verið þess eðlis að réttlætt gæti fyrirvaralausa uppsögn úr starfi. Þá var I ehf. ekki talið hafa áður veitt H áminningu vegna óviðeigandi hegðunar en telja yrði slíkt forsendu þess að I ehf. væri heimilt að rifta ráðningarsamningi við H. Því var fallist á viðurkenningarkröfu H. Loks var I ehf. talið hafa gengið lengra í ávirðingum gagnvart H en efni stóðu til í bréfi. Var I ehf. því dæmt til að greiða H 800.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.  

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2013. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 30. október 2013. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 3.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. júlí 2012 til greiðsludags. Að öðru leyti krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Aðilar máls eru þó sammála um að gagnáfrýjandi hafi drukkið tvö glös af bjór á Kastrupflugvelli áður en hann hélt þaðan hingað til lands með flugi FI217 28. ágúst 2010. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að aðaláfrýjandi sé skaðabótaskyldur gagnvart gagnáfrýjanda vegna ólögmætrar riftunar 30. september sama ár á ráðningarsamningi aðila.

Dagana 2. og 15. september 2010 voru haldnir fundir þar sem viðstaddir voru auk gagnáfrýjanda flugrekstrarstjóri og starfsmannastjóri aðaláfrýjanda og annar af fulltrúum aðaláfrýjanda í sameiginlegu starfsráði hans og Félags íslenskra atvinnuflugmanna, formaður þess félags sem og lögfræðilegur ráðgjafi þess. Þá var lögmaður gagnáfrýjanda viðstaddur síðari fundinn. Samkvæmt minnisblaði um þessa fundi komu þar fram alvarlegar ásakanir í garð gagnáfrýjanda af hálfu aðaláfrýjanda, ekki aðeins í tilefni af framkomu hans í fluginu 28. ágúst 2010 og í kjölfar þess, heldur einnig vegna atvika sem áður áttu að hafa gerst. Í beiðni aðaláfrýjanda um umsögn starfsráðs 16. september sama ár var meðal annars komist svo að orði að gagnáfrýjandi hefði í fluginu 28. ágúst hagað sér ósæmilega um borð og verið drukkinn. Hefði hann gerst „sekur um kynferðislega áreitni gagnvart starfsmanni“ aðaláfrýjanda, ógnað starfsmönnum hans og sýnt samstarfsaðilum dónaskap og virðingarleysi. Síðar sagði í bréfinu: „Hegðun af þessu tagi hefur [gagnáfrýjandi] því miður ítrekað sýnt áður“. Miðað við þau gögn, sem fyrir lágu á þessum tíma og lögð hafa verið fram í málinu, gekk aðaláfrýjandi í áðurgreindum tilvikum lengra í ávirðingum gagnvart gagnáfrýjanda en efni stóðu til. Sérstaklega vógu þær fullyrðingar í bréfinu 16. september 2010, sem teknar eru upp orðrétt hér að framan, að æru og persónu gagnáfrýjanda án þess að þær styddust við nægileg gögn. Samkvæmt þessu og með vísan til b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda miskabætur sem verða ákveðnar 800.000 krónur með vöxtum eins og kveðið er á um í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi, Icelandair ehf., greiði gagnáfrýjanda, Halldóri Þór Halldórssyni, 800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. júlí 2012 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2013.

                Mál þetta, sem var dómtekið 23. maí sl., var höfðað 20. júní 2012.

                Stefnandi er Halldór Þór Halldórsson, Steinavör 6, Seltjarnarnesi.

                Stefndi er Icelandair ehf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

                Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart honum vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi aðila 30. september 2010. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.000.000 króna í miskabætur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi þegar liðinn er mánuður frá stefnubirtingu til greiðsludags. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar.

I

                Stefnandi krefst í máli þessu viðurkenningar á skaðabótaskyldu, auk miskabóta, vegna riftunar á ráðningarsamningi hans hjá stefnda. Stefnandi hafði starfað hjá stefnda í 26 ár, þar af tæplega helming starfstímans sem flugstjóri, er ráðningarsamningi hans var rift.

                Upphaf málsins var það að laugardaginn 28. ágúst 2010 hafði stefnandi lokið fraktverkefni fyrir stefnda í Liege í Belgíu og átti sæti sem farþegi til Íslands með flugi stefnda númer FI503 frá Schiphol flugvelli í Hollandi klukkan 14. Stefnandi var sóttur af verktaka, sem annaðist áhafnaflutninga fyrir stefnda, á hótel í Liege klukkan 09:13 um morguninn og var ekið til Schiphol. Leiðin er 247 kílómetrar og tekur ferðin almennt ríflega 2½ klukkustund. Þennan dag urðu óvæntar tafir vegna lokunar á hraðbraut. Stefnandi hafði því samband við áhafnavakt stefnda og tilkynnti að óvíst væri hvort hann myndi ná fluginu frá Schiphol. Fór svo að bifreiðin kom að flugvellinum klukkan 13:53. Þegar stefnandi kom inn í flugstöðina var honum tjáð að búið væri að loka flugvélinni og hann kæmist því ekki með henni. Stefnandi hafði því aftur samband við áhafnavaktina. Fékk hann boð um að taka flug með SAS til Kaupmannahafnar og þaðan áfram með kvöldflugi stefnda FI217 til Keflavíkur. Í framhaldi var gefinn út farseðill og brottfararspjald og stefnandi fór til Kaupmannahafnar.

                Stefnandi beið í tvær til þrjár klukkustundir á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn. Hann kveðst hafa fengið sér þar tvö glös af bjór, en hann hafi ekki verið með áfengisáhrifum er hann sté um borð í flugvél stefnda, þar sem hann átti samkvæmt brottfararspjaldi gluggasæti 3A á Saga Class farrými. Stefnandi sofnaði skömmu eftir flugtak. Er hann vaknaði var matarþjónustu lokið, en að beiðni stefnanda færði Björg Valdimarsdóttir, fyrsta flugfreyja, honum matarbakka, ásamt glasi af léttvíni og líkjör. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi hagað sér ósæmilega um borð í flugvélinni og eftir lendingu. Hann hafi verið drukkinn, gerst sekur um kynferðislega áreitni og ógnað starfsmönnum.

                Við komuna til Keflavíkur, laust eftir miðnætti, beið stefnandi þess að aðrir farþegar yfirgæfu vélina. Stefnandi lýsir því að hann hafi þá kastað kveðju á flugvirkja sem hann taldi sig kannast við og spurt að nafni. Hann hafi áréttað spurninguna í ákveðnari tón þegar fátt hafi orðið um svör. Í framhaldi af því hafi komið til orðaskipta milli hans og Gunnlaugs Rafns Björnssonar, flugstjóra FI217, um háttalag flugvirkjans. Stefnandi fékk svo far með áhafnabifreið á vegum stefnda heim til sín.

                Fimmtudaginn 2. september var stefnandi kvaddur á fund stefnda þar sem honum var tjáð af Hilmari Baldurssyni flugrekstrarstjóra og Svala Björgvinssyni starfsmannastjóra að stefnda hefðu borist alvarlegar ásakanir um ógnandi hegðun, kynferðislega áreitni og mikla ölvun hans á leið heim frá Kaupmannahöfn helgina áður og var stefnandi beðinn um að svara fyrir sig. Stefnandi svaraði stefnda með bréfi daginn eftir þar sem fram kom að hann kannaðist ekki við slíka háttsemi, en bæðist afsökunar ef einhver úr hópi starfsmanna stefnda hafi skynjað framkomu hans sem ósæmilega.

                Um svipað leyti hófu Hilmar og Svali óopinbera rannsókn á hendur stefnanda og öfluðu tölvuskeyta frá Kristni hjá áhafnavakt stefnda, Valdimar Péturssyni hjá flugumsjónarmiðstöð stefnda, Gunnlaugi Rafni, flugstjóra FI217, Björgu, fyrstu flugfreyju FI217, Michael Benjamin David, flugvirkja hjá stefnda, og frá Philippe, starfsmanni áhafnaþjónustunnar, sem ók stefnanda frá Liege til Schiphol.

                Miðvikudaginn 15. september var stefnandi boðaður aftur á fund stefnda þar sem honum var tjáð af Svala Björgvinssyni starfsmannastjóra að hann ætti ekki lengur samleið með stefnda og yrði vikið úr starfi, enda hefði hann gerst sekur um alvarleg brot, nánar tiltekið ölvun, ógnandi hegðun og endurtekna kynferðislega áreitni í flugi FI217 frá Kaupmannahöfn. Þá var einnig vísað til eldri ávirðinga í þessu sambandi. Í lok fundarins var stefnanda tjáð að í samræmi við 11. gr. og 13. gr. b í starfsaldursreglum í kjarasamningi stefnda og Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) yrði málinu vísað til umsagnar hjá starfsráði FÍA, en stefnandi yrði því næst rekinn, óháð niðurstöðu ráðsins. Fimmtudaginn 16. september óskaði stefndi umsagnar starfsráðs FÍA „varðandi þá ákvörðun“ að víkja stefnanda fyrirvaralaust úr starfi.

                Í kjölfar framangreindra ásakana ákvað stefnandi að fara í áfengismeðferð á Vogi 21. september 2010, til könnunar á því hvort hann væri haldinn áfengissýki. Í vottorði SÁÁ, sem gefið er út eftir tveggja vikna dvöl stefnanda þar, kemur fram að hann uppfylli engin greiningarviðmið fyrir áfengissýki og að við útskrift hafi ekki verið talin ástæða til frekari meðferðar.

                Með læknisvottorði, dagsettu 29. september, var staðfest að stefnandi væri með járnofhleðslu í blóði (hemochromatosis), sem er arfgengur og alvarlegur sjúkdómur, og hafði áður leitt til óvinnufærni stefnanda. Samhliða nefndum sjúkdómi hefði og þróast tímabundin sykursýki. Vottorðið var móttekið samdægurs af stefnda og Flugmálastjórn Íslands. Í kjölfarið tilkynnti Flugmálastjórn, með bréfi dags. 7. október 2010, að við svo búið uppfyllti stefnandi ekki kröfur til útgáfu heilbrigðisvottorðs atvinnuflugmanna.

                Þann 21. september 2010 tók starfsráð FÍA beiðni stefnda til meðferðar á fundi með fulltrúum stefnda. Í framhaldinu var lögmanni FÍA veittur frestur til að skila greinargerð vegna stefnanda. Því næst var skilað greinargerð af hálfu stefnda og loks veitti lögmaður FÍA andmæli við þeirri greinargerð. Þann 30. september 2010 komst meirihluti starfsráðs FÍA að þeirri niðurstöðu að stefnda væri heimilt að víkja stefnanda úr starfi flugstjóra vegna brota gegn jafnréttisstefnu stefnda og gegn ákvæðum í grein 1.4.1 í flugrekstrarhandbók stefnda (FOM). Hegðun og framkoma stefnanda í umrætt sinn, og þá einkum ölvunarástand hans hafi falið í sér mjög alvarlegt brot á starfsskyldum hans. Minnihluti starfsráðsins taldi hins vegar að ávirðingar, sem á stefnanda væru bornar, réttlættu ekki tafarlausa riftun ráðningarsamnings.

                Stefndi tilkynnti stefnanda samdægurs með bréfi að honum væri sagt upp störfum fyrirvaralaust frá 1. október 2010 að telja. Væri ástæðan óviðurkvæmileg hegðun á leið heim úr fraktverkefni á vegum stefnda 28. ágúst 2010, sem væri ósamrýmanleg stöðu hans sem flugstjóri, en með hegðun sinni hefði stefnandi brotið gróflega gegn skyldum sínum gagnvart stefnda og fyrirgert því trausti sem stefndi yrði að geta borið til flugstjóra sinna.

                Með bréfi lögmanns FÍA 1. október 2010 var uppsögninni mótmælt sem tilefnislausri og ólögmætri, og því jafnframt hreyft að óheimilt væri að segja stefnanda upp í veikindaforföllum. Sjónarmið stefnanda voru áréttuð með bréfi 12. nóvember 2010 og réttur áskilinn til að krefja stefnda um miskabætur, auk bóta fyrir ólögmætan brottrekstur. Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 11. febrúar 2011 var óskað eftir tilteknum gögnum og fyrri sjónarmið stefnanda áréttuð. Stefnda var enn sent bréf 17. mars 2011. Þann 25. sama mánaðar barst svar þess efnis að verið væri að taka saman umbeðin gögn. Með bréfi lögmanns stefnanda 1. apríl 2011 var ítrekaður réttur stefnanda til launa í veikindaforföllum og skorað á stefnda að greiða ógreidd laun í sex mánuði, sem þá voru liðnir frá uppsögninni. Þá var gerð krafa um að stefndi greiddi í það minnsta samkvæmt bókun með kjarasamningi um rétt stefnanda til starfslokasamnings. Með svarbréfi lögmanns stefnda 2. maí 2011 var  kröfum stefnanda hafnað, enda hefði ráðningarsamningi verið einhliða rift, auk þess sem réttur til starfslokasamnings ætti einvörðungu við um flugmenn í starfi, sem náð hefðu 60 ára aldri.

                Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu auk stefnanda, Karl Ó. Karlsson hæstaréttarlögmaður, Ástráður B. Hreiðarsson læknir, Þengill Oddsson læknir, yfirlæknir hjá Flugmálastjórn Íslands, Kjartan Norðdahl héraðsdómslögmaður, lögfræðilegur ráðgjafi FÍA, Már Gunnarsson, fyrrverandi starfsmannastjóri stefnda og fulltrúi í starfsráði, Jens Bjarnason, fyrrverandi flugrekstrarstjóri, Rannveig Eir Einarsdóttir, forstöðumaður flugþjónustudeildar, Michael Benjamin David flugvirki, Björg Valdimarsdóttir flugfreyja, Gunnlaugur Rafn Björnsson flugstjóri, Ómar Guðnason flugmaður, Kristinn Arnar Svavarsson starfsmaður á áhafnavakt, Elínborg Anna Siggeirsdóttir fyrrverandi flugfreyja, Valdimar Pétursson starfsmaður í flugumsjón, Þorgeir Haraldsson yfirflugstjóri, Geirþrúður Alfreðsdóttir flugstjóri, Sigurður Helgason stjórnarformaður Icelandair Group og fyrrverandi forstjóri Flugleiða, Hilmar Baldur Baldursson flugrekstrarstjóri stefnda, Svali Björgvinsson framkvæmdastjóri starfsmannasviðs stefnda og Trausti Tómasson fyrrverandi starfsmaður Flugleiða. Verður framburður þeirra rakinn eftir því sem ástæða þykir til.

II

                Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að riftun stefnda á ráðningarsambandi við hann 30. september 2010 sé ólögmæt og saknæm að vinnurétti. Ákvörðunin hafi í senn helgast af ómálefnalegum sjónarmiðum og afbökun mikilvægra staðreynda af hálfu yfirmanna stefnda. Framferði viðkomandi yfirmanna feli í sér ólögmæta meingerð gegn persónu og æru stefnanda og á því beri stefndi fébótaábyrgð samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar utan samninga um vinnuveitandaábyrgð.

                Stefnandi byggi kröfu sína um viðurkenningu skaðabótaskyldu vegna ólögmætrar riftunar á því að fyrirvaralaus brottvikning hans úr starfi flugstjóra hafi ekki verið á nægum rökum reist og brjóti gegn þeirri grundvallarreglu íslensks vinnuréttar að óheimilt sé að rifta ráðningarsamningi við launþega án greiðslu skaðabóta, nema annaðhvort liggi fyrir gróft brot í starfi eða svo óviðurkvæmileg hegðun utan starfs að ekki fái samrýmst stöðu hlutaðeigandi starfsmanns. Stefndi beri óskoraða sönnunarbyrði fyrir því að svo hátti til í þessu máli. Í báðum tilvikum sé það jafnframt nær ófrávíkjanlegt skilyrði vinnuréttarins að á undan fari aðvörun, sem gefin sé í beinu framhaldi af háttsemi, sem vinnuveitandi telji síðar réttlæta brottrekstur, enda hafi viðkomandi starfsmaður ekki bætt ráð sitt. Stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að einhverjar efnislegar forsendur séu fyrir hendi, sem réttlæti frávik frá hinni ríku aðvörunarskyldu í máli þessu. Loks byggi stefnandi á því að riftun ráðningarsamningsins brjóti í bága við kjarasamning stefnda og FÍA, en samkvæmt ákvæði 10-0 „RANNSÓKN OG REFSING“, sé óheimilt að refsa eða víkja flugmanni úr starfi fyrir brot á lögum eða opinberum flugreglum, nema í samráði við stjórn FÍA eða að undangenginni dómsrannsókn, sem leiði sekt í ljós. Brottvikning stefnanda verði þannig aldrei réttlætt á grundvelli 11. gr. starfsaldursreglna kjarasamningsins, enda hvergi minnst á heimild til riftunar í téðri 11. gr.

                Stefnandi hafi ekki fengið viðvörun eða áminningu vegna ætlaðra vanefnda á ráðningarsamningi við stefnda laugardaginn 28. ágúst 2010. Stefndi hafi á hinn bóginn teflt fram annars vegar röngum og ósönnuðum fullyrðingum um áminningu 7. október 1998 vegna kynferðislegrar áreitni, og hins vegar áminningu frá 17. nóvember 1999 „vegna sinnuleysis um að svara ósk“ um upplýsingar vegna tiltekins flugs milli Keflavíkur og Frankfurt 27. ágúst 1998. Stefnandi hafi sent umbeðnar upplýsingar 18. nóvember 1999 og beðist afsökunar á drætti sem orðið hefði á skilum viðbótarskýrslu um nefnt flug. Varðandi fyrra tilvikið mótmæli stefnandi því alfarið að honum hafi verið veitt áminning 7. október 1998, jafnframt því sem hann mótmæli tilefni ætlaðrar áminningar. Hvað sem öðru líði telji stefnandi einsætt að hvorugt tilvikanna standi í rökrænum tímatengslum við ætlaða háttsemi hans 28. ágúst 2010 og geti því fráleitt haft réttaráhrif sem undanfarandi aðvörun og þannig réttlætt bótalausa riftun stefnda á ráðningarsamningi. Þá stoði það stefnda ekki að réttlæta riftunina með vísan til samkomulags stefnanda og Flugleiða hf. 1. desember 1999 um að stefnandi færi í sex mánaða launalaust leyfi.

                Stefnandi byggi á því að stefndi beri óskoraða sönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi eitthvað til saka unnið sem réttlætt geti bótalausa riftun ráðningarsamningsins. Skilyrði þessa séu að stefnandi hafi framið svo alvarlegt brot í starfi flugstjóra, eða sýnt af sér svo óviðurkvæmilega hegðun utan starfs að hvorki samrýmist stöðu hans hjá stefnda né dugi önnur vægari úrræði en fyrirvaralaus brottvikning. Í málinu sé stefnandi borinn þungum sökum um ölvun, ógnandi hegðun og ítrekaða kynferðislega áreitni um borð í flugi FI217 frá Kaupamannahöfn til Keflavíkur. Þá sé hann og sakaður um ógnandi hegðun í áhafnabifreið á leið frá Keflavíkurflugvelli. Stefnanda sé nokkur vandi að bera hönd fyrir höfuð sér varðandi nefndar sakir, enda hafi málatilbúnaður stefnda á fyrri stigum einkennst af órökstuddum fullyrðingum um að stefnandi hafi verið „á vakt“ og hann gerst sekur um „alvarleg brot“ á ýmsum „reglum“, án þess að unnt sé að festa fingur á hver brotin eigi að hafa verið og við hvaða viðurlagareglur þau varði. Í ljósi þessa telji stefnandi réttast að miða við niðurstöðu starfsráðs FÍA um að hann hafi brotið gegn jafnréttisstefnu stefnda og grein 1.4.1 í FOM, að sú háttsemi varði viðurlögum samkvæmt 11. gr. starfsaldursreglna í kjarasamningi stefnda og FÍA, og að á þessum grunni hafi stefndi vikið stefnanda úr starfi með bréfi sínu 30. september 2010.

                Stefnandi byggi á því að hann hafi verið farþegi í flugi FI217 en ekki hluti áhafnar og hvorki gegnt né mátt gegna skyldum flugverja um borð. Stefnandi vísi hér til laga nr. 60/1998 um loftferðir, en samkvæmt 1. mgr. 29. gr. sé áhöfn skipuð þeim flugverjum, sem gegni starfi um borð meðan á fartíma standi og lúti yfirstjórn flugstjóra, sbr. 42. gr., sem í þessu tilviki hafi verið Gunnlaugur Rafn Björnsson. Nánar sé kveðið á um störf flugverja í reglugerð nr. 1043/2008 um flug- og vinnutímamörk og hvíldaríma flugverja, en í kafla OPS 1.1095 í viðauka I við reglugerðina séu hugtökin „vinna“ „vakt“ „flugvakt“ „bakvakt“ og „aukin flugáhöfn“ svo rækilega skilgreind að ekki geti leikið vafi á því að stefnandi hafi verið farþegi um borð í flugi FI217. Þá staðreyni vinnuskrá stefnanda að hann hafi verið skráður farþegi í flugi FI503 frá Schiphol til Keflavíkur, en eftir að hafa misst af þeirri vél hafi hann fengið í hendur almennt brottfararspjald og ferðast samkvæmt því sem farþegi til Keflavíkur. Fullyrðingum stefnda um hið gagnstæða sé vísað á bug, auk þess sem minnt sé á að hafi stefnandi verið „á vakt“ eða „í starfi sem flugstjóri“ um borð í flugi FI217 sé með ólíkindum að fyrsta flugfreyja hafi veitt honum áfengi. Samkvæmt framansögðu telji stefnandi einsætt, að komist dómur að þeirri niðurstöðu að hann hafi eitthvað til saka unnið, þá verði brot hans í það minnsta ekki talin hafa verið framin í starfi, og því fráleitt að geti varðað brottvísun úr starfi án undanfarandi aðvörunar.

                Stefnandi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að hann hafi verið ölvaður umrætt sinn. Að því marki sem hann kunni að hafa verið með áfengisáhrifum skömmu fyrir lendingu FI217 sé á því byggt að þau áhrif hafi virst að mun meiri sökum þess að stefnandi hafi verið örþreyttur eftir 18 klukkustunda vöku og ærið langan og erfiðan ferðadag. Stefndi hafi ekki talið ástæðu til að láta færa stefnanda til blóðsýnatöku eftir lendingu og verði að bera hallann af því, en ef marka ætti fullyrðingar þess efnis að stefnandi hafi verið starfandi flugstjóri um borð, sé með hreinum ólíkindum að lögregla skuli ekki hafa verið kvödd á vettvang. Stefnandi vísi því einnig á bug að hann hafi sýnt ógnandi hegðun um borð í FI217 eða í áhafnabifreið stefnda á leið frá Keflavík, en stefndi hafi engin gögn lagt fram, sem styðji þá niðurstöðu. Stefnandi efist um að bílstjóri áhafnabifreiðarinnar hefði sýnt þá greiðvikni að aka honum heim hefði hann verið ógnandi í hans garð. Hefði þá verið nær að aka á næstu lögreglustöð eða skilja við stefnanda fyrir framan aðalstöðvar stefnda í Reykjavík, eins og almennt tíðkist. Loks mótmæli stefnandi því að hafa áreitt Björgu Valdimarsdóttur, fyrstu flugfreyju, kynferðislega, en þar standi orð hans gegn síðbúnum orðum hennar, sem gangi þvert á áhafnarskýrslu hennar, en samkvæmt henni hafi Björg staðhæft að ekkert markvert hefði gerst í flugi FI217, sem ástæða væri til að tilkynna stefnda. Stefnandi kunni ekki skýringu á breyttri frásögn Bjargar, en bendi á að samkvæmt OPS 1.085 í viðauka I við reglugerð nr. 1263/2008 um flutningaflug flugvéla beri flugverji ábyrgð á réttri framkvæmd starfa sinna. Þá séu ítarleg fyrirmæli í kafla 10.3.3 FOM um hvernig áhöfn beri að bregðast við ósæmilegri hegðun farþega um borð, meðal annars með tafarlausri ritun nákvæmra vitnaskýrslna annarra farþega og áhafnarmeðlima meðan á flugi standi. Ætla verði að Björg hafi verið starfi sínu vaxin, og að formleg áhafnarskýrsla hennar sé sönn og rétt um það að ekkert hafi út af borið í nefndu flugi, enda hafi hún staðfest það með nafnritun undir orðin „NOTHING TO REPORT“ og/eða „NTR“. Stefnandi byggi á því að leggja beri skýrsluna til grundvallar við sönnunarmat í málinu.

                Stefnandi sé borinn alvarlegum og þungum sökum um ölvun í starfi flugstjóra, röskun á öryggi loftfars með ógnandi hegðun og kynferðislega áreitni, en háttsemi af þessu tagi sé lýst refsiverð í 141. gr. loftferðalaga og 168. gr., 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefndi hafi og borið stefnanda á brýn að hafa brotið gegn 22. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem og ótilgreind brot gegn reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Starfsráð FÍA hafi þó ekki tekið undir þau sjónarmið stefnda, en talið hegðun stefnanda brjóta gegn jafnréttisstefnu stefnda og „ákvæðum í gr. 1.4.1“ í flugrekstrarhandbók stefnda (FOM). Að því er jafnréttisstefnuna varði bendi stefnandi á að kynferðisleg áreitni verði því aðeins höfð í frammi að hún sé framin í óþökk þess sem fyrir verði og sé haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Liggi ekkert fyrir um hvort téðum skilyrðum sé fullnægt, en telja verði með ólíkindum að jafn reynd flugfreyja og Björg Valdimarsdóttir hafi ekki í eitt skipti, heldur sex sinnum, látið viðgangast átölulaust að stefnandi drægi hana til sín og reyndi að koma á hana kossi, og það án þess að minnast einu orði á slíkt í áhafnarskýrslu sinni. Stefnandi mótmæli frásögn Bjargar og minni á að hann hafi setið í gluggasæti 3A á Saga Class. Þaðan sé ómögulegt að draga til sín flugfreyju, ekki síst í tilviki stefnanda, sem sé fremur lágvaxinn og með handleggi því til samræmis.

                Stefnandi líti það alvarlegum augum að stefndi hafi, undir forystu Hilmars Baldurssonar flugrekstrarstjóra og Svala Björgvinssonar starfsmannastjóra, lagt rangar upplýsingar fyrir starfsráð FÍA í því skyni að fá samþykki fyrir brottvísun stefnanda úr starfi. Ráðið hafi öðrum þræði byggt niðurstöðu sína á því að stefnandi hefði brotið gegn grein 1.4.1 í FOM. Til grundvallar þeirri niðurstöðu hafi ráðið haft falska útgáfu af grein 1.4.1. Af réttri útgáfu megi sjá að grein 1.4.1 fjalli eingöngu um þann flugstjóra sem beri ábyrgð á viðkomandi loftfari frá upphafi til loka ferðar, sem í þessu tilviki hafi verið Gunnlaugur Rafn Björnsson, Því geti eðli máls samkvæmt enginn annar starfsmaður brotið gegn greininni. Stefndi hafi hins vegar, á ófyrirleitinn hátt, skeytt tveimur óskyldum ákvæðum inn í texta þann sem starfsráð hafi fengið í hendur. Hið fyrra hljóði svo: „When crew members are travelling as passengers, the Commander or a crew member designated by him shall check in the whole crew.“ Stefnandi hafi ferðast frá Schiphol á almennu brottfararspjaldi og því aldrei verið í samfloti með áhöfn FI217.

                Seinna ákvæðið hafi stefndi tekið úr kafla 06-01 í FOM, nánar tiltekið grein 6.1.4.1, skeytt því inn í útgáfuna til starfsráðs og látið líta svo út að greinin væri lokamálsliður í grein 1.4.1. Þannig hafi hinni fölsku útgáfu lokið með ákvæðinu: „Crew members travelling as passengers in civilian clothes should behave in accordance with the above requirements. Crew members shall dress elegantly and show moderation with regards to alcohol consumption.“ Í kafla 6.1.4.1 af FOM sé fjallað um áfengisneyslu áhafnarmeðlima, sem eðli máls samkvæmt megi ekki neyta áfengis fyrir eða við störf um borð. Jafnframt segi berum orðum að þær reglur gildi EKKI um starfsmenn sem ferðist borgaralega klæddir, en æskilegt sé að þeir sýni hófsemi í meðferð áfengis. Stefnandi telji mikilvægt að þessi staðreynd liggi réttilega fyrir í málinu, þótt ljóst sé að stefndi hafði ákveðið að reka hann úr starfi, óháð niðurstöðu starfsráðs FÍA. Sú brottvísun verði hins vegar fráleitt studd við brot á grein 6.1.4.1 í FOM og því síður við brot á grein 1.4.1 í FOM, enda hafi stefnandi ekki verið flugstjóri FI217.

                Stefnandi byggi loks á því að óheimilt hafi verið að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi flugstjóra á grundvelli 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna í kjarasamningi stefnda og FÍA, en þar segi skýrum orðum að vanræki flugmaður skyldur sínar, eða gerist sekur um aðrar misfellur í starfi, eða stórfelldar ávirðingar utan starfs, megi beita aðvörun, tímabundnu starfsbanni, stöðulækkun, eða uppsögn ráðningarsamnings. Hins vegar sé óheimilt að rifta ráðningarsamningi, enda fari um riftun eftir kafla 10-0 í kjarasamningnum. Stefndi hafi brotið kjarasamninginn freklega og þannig knúið fram með ólögmætum hætti missi starfsaldursréttar stefnanda samkvæmt 7. gr. starfsaldursreglnanna, en að réttu hafi stefnandi átt öruggt starf hjá stefnda til 65 ára aldurs, sbr. b-lið 5. gr. starfsaldursreglnanna.

                Miskabótakrafa stefnanda byggist á því að aðgerðir stefnda gagnvart honum, sér í lagi framferði Hilmars Baldurssonar flugrekstrarstjóra og Svala Björgvinssonar starfsmannastjóra, hafi helgast af ómálefnalegum ástæðum, lítt eða órökstuddum áburði um refsiverða hegðun, rangfærslu skjala og afbökun mikilvægra staðreynda málsins, allt í því augnamiði að bola stefnanda burt úr starfi flugstjóra. Hafi tilgangurinn helgað meðalið strax frá upphafi og stefnandi aldrei átt sér viðreisnar von eftir fundi með stefnda 2. og 15. september 2010. Þannig hafi áhafnarskýrslu Bjargar Valdimarsdóttur, fyrstu flugfreyju FI217, verið stungið undir stól, gengið hafi verið að henni að breyta fyrri frásögn og bera á stefnanda rangar sakir. Þá hafi stefnandi ítrekað verið vændur um ósannindi varðandi ferðir sínar frá Liege til Schiphol flugvallar og virðist þar engu hafa breytt þótt skjalfest gögn frá stefnda sjálfum staðreyni réttmæti frásagnar stefnanda. Stefndi hafi og dregið fram í dagsljósið minni háttar ávirðingar frá 1998, blásið þær út gegn betri vitund, og lagt ofuráherslu á að þær hafi réttlætt bótalausa riftun ráðningarsamningsins við stefnanda. Stefnandi telji að fyrir samantekin ráð Hilmars og Svala, sem notið hafi fulltingis Más Gunnarssonar og Jens Bjarnasonar, fulltrúa stefnda í starfsráði FÍA, hafi hann þannig verið rekinn með ólögmætum og saknæmum hætti fyrir litlar eða engar sakir, en hverjar þær hafi verið viti stefnandi vart enn í dag, og því síður viti hann hvaða reglur hann eigi að hafa brotið. Stefnandi eigi að baki nær flekklausan 26 ára starfsferil hjá stefnda, og því sitji hann ekki undir því að vera nú ranglega vændur um ölvun og dólgshátt í starfi flugstjóra, eða endurtekna kynferðislega áreitni um árabil. Nafngreindir yfirmenn stefnda hafi staðið saman að ákvörðun um riftun ráðningarsamningsins og fylgt henni eftir af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Beri stefndi ábyrgð á ólögmætu framferði þeirra á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar utan samninga um vinnuveitandaábyrgð, en með brottrekstrinum hafi stefnanda ekki aðeins verið valdið verulegu fjártjóni, heldur einnig ómældum álitshnekki og ævarandi smán, sem varði bótaábyrgð samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli 177/1998 og að teknu tilliti til röskunar á starfsöryggi stefnanda, aldurs hans og takmarkaðra atvinnutækifæra sem flugmaður vegna hinnar alvarlegu og ólögmætu meingerðar stefnda, telji stefnandi að miskabætur séu hæfilega metnar 3.000.000 króna.

                Stefnandi reisi kröfur sínar á meginreglum samninga-, vinnu- og kröfuréttar, loftferðarlögum nr. 60/1998, viðaukum við reglugerðir nr. 1043/2008 og 1263/2008, kjarasamningi stefnda og FÍA frá 10. febrúar 2010 og loks reglum í flugrekstrar- og áhafnarhandbókum stefnda. Um miskabótakröfuna vísi stefnandi til meginreglu skaðabótaréttarins utan samninga um vinnuveitandaábyrgð og til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Krafa um dráttarvexti á dæmdar miskabætur styðjist við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 1. mgr. 6. gr. laganna. Málskostnaðarkrafa byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir slíkum skatti úr hendi stefnda. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.

III

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að riftun hans á ráðningarsamningi stefnanda hafi verið lögmæt. Stefnandi hafi með hegðun sinni gerst sekur um vítavert brot gegn ráðningarbundnum skyldum sínum gagnvart stefnda og fyrirgert því trausti sem stefndi verði að geta borið til flugstjóra sinna. Hegðun stefnanda, sem hafi sannanlega verið í starfi á vegum stefnda, hafi verið bæði óviðurkvæmileg og ósamrýmanleg stöðu hans.

                Kynferðisleg áreitni sé litin afar alvarlegum augum enda skýrt tekið fram í starfsmannastefnu stefnda að kynferðisleg áreitni verði ekki liðin í nokkurri mynd né annar yfirgangur í samskiptum starfsmanna. Stefndi geri þá kröfu að starfsmenn, og þá sérstaklega yfirmenn, sýni samstarfsfólki og samstarfsaðilum tilhlýðilega kurteisi. Sú krafa sé áréttuð í 10. mgr. greinar 1.4.1 í flugrekstrarhandbók stefnda (FOM).

                Stefnandi hafi óumdeilanlega verið í starfi á ferðalagi sínu sem farþegi á vegum stefnda heim frá Kaupmannahöfn, hvað sem vakttíma hans hafi liðið. Þá hafi honum borið, sem flugstjóra hjá stefnda, að haga sér með tilteknum hætti um borð í flugvélum stefnda, þar á meðal að gæta hófsemi við neyslu áfengis, sbr. greinar 6.1.4.1 og 1.8.11 í FOM. Það skipti því ekki sköpum við úrlausn málsins hvort stefnandi hafi ennþá verið á vakt, sbr. álit starfsráðs.

                Á umræddu flugi hafi stefnandi dregið flugfreyjuna að sér og reynt að koma á hana kossi í óþökk hennar í hvert sinn sem hún hafi fært honum mat eða aðrar veitingar, alls 5-6 sinnum, í ásýnd farþega. Þá hafi hann sýnt flugvirkja, sem hafi verið að sinna störfum sínum, ógnandi tilburði eftir komuna til Keflavíkur. Stefnandi hafi verið áberandi drukkinn og átt erfitt um gang við komuna til Keflavíkur. Flugstjórinn hafi þurft að beita fortölum til að fá hann frá borði. Þegar flugstjórinn hafi gengið frá borði hafi stefnandi hreytt í hann ónotum. Stefnanda hafi því verið ekið til Reykjavíkur í öðrum bíl en áhöfn flugvélarinnar hafi farið með. Af hálfu Kynnisferða, sem sé samstarfsaðili stefnda, hafi verið kvartað yfir því að stefnandi hafi verið mjög dónalegur við bílstjórann.

                Stefndi taki undir það með starfsráði að þegar þessi háttsemi stefnanda sé virt samanlagt verði að telja að hegðun og framkoma hans hafi falið í sér mjög alvarlegt brot á starfsskyldum hans. Þannig hafi stefnandi brotið gegn jafnréttisstefnu stefnda og þeim reglum sem honum hafi borið að fylgja samkvæmt flugrekstrarhandbók stefnda. Hann hafi því ekki mátt neyta áfengis nema í miklu hófi. Eins og bent sé á í áliti starfsráðs sé talið heimilt að víkja manni fyrirvaralaust úr starfi mæti hann ölvaður til vinnu. Brot gegn fyrirmælum um takmörkun á notkun áfengis séu því litin mjög alvarlegum augum. Þar sem stefnandi hafi verið í starfi hafi honum borið að hegða sér óaðfinnanlega. Þess í stað hafi hann sýnt af sér framkomu sem ekki sæmdi manni í hans stöðu. Með því hafi hann vanrækt skyldur sínar sem flugstjóri og gerst sekur um stórfelldar ávirðingar utan starfs í skilningi 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna stefnda. Stefnda hafi því verið heimilt að víkja honum úr starfi án undangenginna aðvarana.

                Stefndi vísi máli sínu til stuðnings einnig til almennra reglna um trúnaðar- og hlýðniskyldu starfsmanna. Þá vísi hann til þess að honum beri samkvæmt jafnréttislögum að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk hans verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað, sbr. 22. gr. laga nr. 10/2008.

                Stefndi telji alvarleika brots stefnanda einnig verða að skoðast í því ljósi að stefnandi hafi áður verið kallaður fyrir forstjóra stefnda vegna kynferðislegrar áreitni af hans hálfu árið 1998. Þáverandi starfsmannastjóri hafi í framhaldi af því átt samtal við stefnanda þar sem farið hafi verið yfir það mál. Nokkur tilvik hafi síðan komið upp þar sem áhafnarmeðlimir hafi borið fram kvartanir um kynferðislega áreitni af hálfu stefnanda en ekki treyst sér til að fara með málið áfram. Stefnandi muni áður hafa sýnt starfsmönnum stefnda ógnandi hegðun og haft í hótunum sem skýri að þeir hafi ekki viljað koma fram undir nafni. Það sé einnig ástæða þess að stefndi hafi talið mikilvægt að gæta nafnleyndar. Jafnframt verði að hafa í huga að flugstjórinn sé yfirmaður, sá sem ráði um borð og sé ábyrgur fyrir áhöfninni til loka ferðar. Flugstjóri þurfi að njóta óskoraðs trausts. Þá bendi stefndi á að hann hafi áður gert stefnanda að sækja námskeið í mannlegum samskiptum. Stefndi telji brot stefnanda vera þess eðlis að ekki verði horft fram hjá fyrri áminningum þótt langur tími sé liðinn.

                Umfjöllun í stefnu um ferða- og áhafnarskýrslu þá sem flugfreyju sé ætlað að fylla út eftir hvert flug sé misvísandi. Umrædd skýrsla snúi fyrst og fremst að almennum þjónustu- eða tæknilegum atriðum, fari í dreifingu og komi fyrir sjónir margra. Því sé brýnt fyrir flugfreyjum að þar eigi ekki að geta atriða sem varði einstakar persónur. Slíkar upplýsingar séu sendar til viðkomandi yfirmanna í tölvupósti eða bréfi. Fyrrgreind skýrsla hafi því ekkert sönnunargildi í máli þessu.

                Þá mótmæli stefndi því að honum hafi borið skylda til að láta færa stefndanda til blóðsýnatöku eftir lendingu, enda hafi hann ekki verið við stjórn loftfarsins. Þá eigi reglur flugrekstrarhandbókar um viðbrögð við ósæmilegri hegðun farþega ekki við í máli þessu. Vegna ummæla í stefnu um að stefnanda hafi verið veitt áfengi í trássi við skýr fyrirmæli í áhafnarhandbók telji stefndi rétt að minna á stöðu stefnanda sem flugstjóra.

                Stefnanda hafi verið tilkynnt um uppsögn 15. september 2010 og þá jafnframt að þeirri ákvörðun yrði ekki breytt. Fyrirvaralaus uppsögn stefnanda hafi verið staðfest skriflega 30. september 2010. Réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda hafi þar með fallið niður. Læknisvottorð það sem stefndi hafi móttekið 29. september 2010 breyti í engu þeirri niðurstöðu. Stefndi bendi á að veikindi starfsmanns hamli ekki uppsögn af hálfu vinnuveitanda. Jafnvel í því tilviki hefði læknisvottorðið engin réttaráhrif, enda hafi það ekki að geyma neins konar staðfestingu á óvinnufærni stefnanda. Framlögð tilkynning til stefnanda um að hann uppfylli ekki kröfur sem gerðar séu til heilbrigðisvottorðs sé dagsett eftir að stefnanda hafi formlega verið tilkynnt um fyrirvaralausa uppsögn. Stefndi ætti af þeim sökum aðeins rétt á veikindalaunagreiðslum til loka þriggja mánaða uppsagnarfrests síns.

                Stefndi telji að þótt litið yrði svo á að skilyrði fyrirvaralausrar uppsagnar væru ekki fyrir hendi hefði stefnda þess í stað verið heimilt að segja stefnanda upp störfum með kjarasamningsbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Stefnandi geti því ekki átt rétt á bótum umfram það sem nemi þriggja mánaða uppsagnarfesti. Stefndi bendi jafnframt á að samkvæmt dómvenju samsvari bætur vegna ólögmætrar uppsagnar starfsmanna á almennum vinnumarkaði, svo sem trúnaðarmanna sem njóti verndar gegn uppsögnum, þriggja mánaða launum. Þá mótmæli stefndi því sem röngu að í starfsaldursreglum flugmanna felist æviráðning. Starfsaldursreglurnar hafi að geyma ákvæði um rétt flugmanna til framgangs í starfi og reglur sem beri að vinna eftir við fækkun starfsmanna vegna samdráttar. Útreikningi á launakröfu stefnanda fram til 2016 sé því mótmælt sem þýðingarlausum. Stefnandi eigi auk þess ekki forræði á lífeyriskröfunni.

                Þá mótmæli stefndi því að það leiði af ákvæðum 10. kafla kjarasamnings FÍA og stefnda að riftun ráðningarsamnings sé óheimil í öðrum tilvikum en þar greini. Ákvæðin eigi einungis við um atvik í flugi er varði brot á opinberum flugreglum eða lögum og verði því ekki beitt í máli þessu. Til marks um það bendi stefndi á að sú málsástæða hafi ekki verið höfð uppi af hálfu FÍA við meðferð málsins fyrir starfsráði. Þess skuli þó getið að samráð hafi verið haft við FÍA varðandi málið.

                Stefndi andmæli miskabótakröfu stefnanda, enda séu skilyrði miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki uppfyllt. Meðferð máls stefnanda hafi í alla staði verið eðlileg og liggi fyrir í gögnum málsins. Stefnda hafi borið skylda til að kanna atvik þess. Málið hafi verið rætt á fundum með stefnanda og hafi fulltrúum FÍA og stefnanda verið gefinn kostur á að tjá sig áður en komið hafi til fyrirvaralausrar uppsagnar hans. Uppsögnin hafi síðan verið tekin til umfjöllunar í starfsráði flugmanna stefnda eins og kjarasamningur geri ráð fyrir. Ástæða fyrirvaralausrar uppsagnar stefnanda hafi verið hegðun hans um borð í flugvélinni frá Kaupmannahöfn og eftir komu til Keflavíkur. Upplýsingar um seina komu hans til Amsterdam, sem hafi byggst á röngum skilaboðum frá fólksflutningafyrirtækinu, hafi ekki haft áhrif á þá ákvörðun. Afstaða stefnda hafi byggst á upplýsingum frá fyrirtækinu sem hafi séð um flutning stefnanda á flugvöllinn í Amsterdam. Réttar upplýsingar hafi fyrst komið fram undir rekstri málsins fyrir starfsráði. Ljóst sé að stefndi hafi á engan hátt komið með meiðandi hætti fram gagnvart stefnanda og því séu ekki lagaskilyrði fyrir greiðslu miskabóta. Þá sé kröfunni andmælt sem allt of hárri.

                Stefndi byggi kröfur sínar aðallega á almennum reglum vinnuréttar um skyldur starfsmanna í ráðningarsambandi og uppsögn, kjarasamningi FÍA og stefnda, flugrekstrarhandbók stefnda, 22. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og reglugerð nr. 1000/2004 um einelti á vinnustöðum. Þá byggi stefndi einnig á meginreglum samninga- og kröfuréttar. Um miskabótakröfuna vísi stefndi til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Stefnandi starfaði sem flugstjóri hjá stefnda. Ráðningarsamningi hans var rift 30. september 2010. Stefnandi krefst í máli þessu viðurkenningar á skaðabótaskyldu, auk miskabóta, vegna riftunar á ráðningarsamningi hans. Í uppsagnarbréfi til stefnanda er greint frá því að ástæður uppsagnarinnar séu atvik sem hafi átt sér stað þann 28. ágúst 2010, er stefnandi hafi verið á vakt og á heimleið úr fraktverkefni á vegum félagsins. Hafi hegðun stefnanda verið bæði óviðurkvæmileg og ósamrýmanleg stöðu hans sem flugstjóra, en með henni hafi stefnandi brotið gróflega gegn skyldum sínum gagnvart stefnda og fyrirgert því trausti sem stefndi yrði að geta borið til flugstjóra sinna.

                Stefnandi var umrætt sinn á leið heim úr fraktverkefni fyrir stefnda í Belgíu. Hann missti af flugi vegna umferðartafa, en fór aðra leið heim, með millilendingu í Kaupmannahöfn. Óumdeilt er að stefnanda verður ekki kennt um að hafa misst af fluginu. Stefnandi ferðaðist umrætt sinn sem farþegi, en ágreiningur er með aðilum um hverjar skyldur hans voru í þeirri ferð. Stefndi hefur gefið stefnanda að sök að hafa í þessari ferð áreitt flugfreyju kynferðislega er hann hafi dregið hana að sér og reynt að koma á hana kossi í óþökk hennar. Hann hafi einnig sýnt flugvirkja ógnandi tilburði. Hann hafi verið áberandi drukkinn og átt erfitt um gang og flugstjórinn hafi þurft að beita hann fortölum til að fá hann frá borði. Þá hafi verið kvartað undan dónaskap hans af hálfu fyrirtækis sem hafi ekið honum heim. Stefndi telur að þegar framangreind atvik séu virt samanlagt verði að telja hegðun og framkomu stefnanda hafa falið í sér mjög alvarlegt brot á starfsskyldum hans.

                Fyrir liggur að í umræddri ferð stefnanda til landsins 28. ágúst 2010 með flugi FI217 var stefnandi skráður farþegi. Hann var hins vegar á vegum stefnda sem starfsmaður hans. Um slíka ferð gilda sérstakar reglur í flugrekstrarhandbók stefnda (FOM). Samkvæmt grein 1.8.11 eru meðal annars gerðar þær kröfur til áhafnarmeðlima sem ferðast sem almennir farþegar í borgaralegum klæðnaði að þeir klæðist af smekkvísi og sýni hófsemi í neyslu áfengis. Það liggur því fyrir, og er óumdeilt, að stefnanda var heimilt að neyta áfengis á ferð sinni. Ekki verður fallist á að stefnandi teljist hafa verið á vakt á þessum tíma, enda bar hann engar skyldur um borð í flugvélinni þetta sinn. Sérstakar reglur um flugstjóra giltu því ekki fyrir hann. Fram kemur í stefnu málsins að stefnandi hafi fengið sér tvö bjórglös á meðan hann beið á flugvellinum í Kaupmannahöfn, en hann hafi ekki verið með áfengisáhrifum er hann steig um borð í flug FI217. Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði ekki neytt áfengis áður en hann steig um borð. Hann hafi fengið sér litla rauðvínsflösku með matnum og einn líkjör eftir matinn. Skömmu fyrir lækkun flugsins hafi hann fengið sér annan líkjör. Hann hafi ekki fundið til áfengisáhrifa fyrr en hugsanlega undir lok flugsins. Björg Valdimarsdóttir flugfreyja lýsti því hins vegar að stefnandi hefði fengið eina rauðvínsflösku og fimm líkjöra. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við áfengisáhrif á stefnanda þegar hann steig um borð í flugvélina. Það liggur því ekki fyrir nákvæmlega hversu mikið áfengi stefnandi drakk þetta kvöld. Stefnandi hefur lagt fram í málinu læknisvottorð Ástráðs Hreiðarssonar læknis, dags. 29. september 2010, þar sem fram kemur að stefnandi sé með járnofhleðslu (hemokromatosu) sem hafi valdið tímabundinni sykursýki með allháum blóðsykri. Læknirinn bar fyrir dóminum að enginn vafi léki á því að stefnandi hafi þann 28. ágúst 2010 verið komin með einkenni járnofhleðslu og sykursýki. Sjúkdómurinn gæti valdið því að viðkomandi fyndi fyrir meiri ölvunaráhrifum en ella. Þá benti hann á að einkenni sjúkdómsins væru meðal annars slappleiki og liðverkir. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið sannað að stefnandi hafi drukkið áfengi í óhófi í framangreindri ferð sinni 28. ágúst 2010.

                Stefndi hefur gefið stefnanda að sök kynferðislega áreitni gagnvart flugfreyju með því að hafa dregið hana að sér og reynt að koma á hana kossi í óþökk hennar. Samkvæmt 4. tölulið 2. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kynferðisleg áreitni hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt. Stefnandi hefur hafnað því að hann hafi gerst sekur um kynferðislega áreitni. Björg Valdimarsdóttir flugfreyja lýsti háttsemi stefnanda svo í tölvupósti til Hilmars Baldurssonar flugrekstrarstjóra, dags. 10. september 2010, að stefnandi hefði, þegar hún hafi komið með matarbakka og vínglas til hans, dregið sig að sér og reynt að koma á sig kossi. Það sama hafi gerst þegar hún hafi fært honum líkjör eftir matinn í alls fimm skipti. Björg lýsti þessari háttsemi fyrir dóminum á þann veg að stefnandi hefði tekið í kjól hennar og myndast við að koma á hana kossi, sem hafi reyndar ekki tekist. Þetta hafi gerst í öll þau skipti sem hún hafi komið með drykk til hans. Hún lýsti því að stefnandi hafi verið orðinn aðeins drukkinn, en ekki verið til vandræða. Viðbrögð hennar hafi verið þau að ýta góðlátlega við honum og segja nei, eða ekki neitt. Hún kvað þetta hafa verið vandamál að því leyti að þetta hafi truflað hana í starfi og hún hafi því látið flugstjóra flugvélarinnar vita. Gunnlaugur Rafn Björnsson flugstjóri staðfesti að Björg hafi komið í flugstjórnarklefann og látið vita af því að stefnandi hefði verið að áreita hana. Hann taldi að henni hefði verið misboðið. Þá staðfesti Ómar Guðnason flugmaður þetta jafnframt og bar að Björg hefði greint frá því að stefnandi hefði sýnt henni óviðeigandi hegðun, hefði reynt að toga hana til sín og koma á hana kossi. Ekki hafa verið leidd önnur vitni að háttsemi stefnanda. Með framburði Bjargar og stuðningi í framburði flugstjóra og flugmanns í umræddri ferð þykir sýnt að stefnandi sýndi af sér óviðeigandi hegðun gagnvart Björgu umrætt sinn sem misbauð henni. Sú staðreynd að þessa atviks hafi ekki verið getið í skýrslum vegna flugsins þykir ekki geta haft áhrif á þessa niðurstöðu. Hins vegar er ekki sannað að það skilyrði fyrir því að háttsemi teljist kynferðisleg áreitni sé uppfyllt, að gerandi haldi háttsemi sinni áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Þá verður að líta til þess að Björg lýsti því að háttsemin hefði ekki verið sérstakt vandamál, en hefði þó truflað hana í starfi. Þá taldi hún ekki ástæðu til þess að fá aðra flugfreyju til að þjónusta stefnanda í hennar stað eða til að hætta að veita stefnanda áfengi.

                Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi hafi sýnt flugvirkja ógnandi tilburði og flugstjóri hafi þurft að beita hann fortölum til að fá hann frá borði. Í framlögðum tölvupósti frá Michael Benjamin David flugvirkja, dags. 12. september 2010, greinir hann frá því að hann hafi heilsað stefnanda, sem hafi verið drukkinn, um borð í flugvélinni. Hann hafi ekki skilið hvað stefnandi hafi verið að segja, ekki nennt að hlusta á hann og ætlað að fara fram í flugvélina til að ræða við flugmennina. Stefnandi hafi þá rifið í hann og heimtað fullt nafn. Þegar spurt hafi verið hvers vegna hafi stefnandi sagst eiga rétt á því. Áhöfnin og hann hafi þurft að hafa svolítið fyrir því að koma stefnanda út úr flugvélinni. Michael lýsti atvikum með sama hætti fyrir dóminum og sagði flugfreyju og báða flugmennina hafa orðið vitni að orðaskiptum þeirra stefnanda. Flugstjóri flugs FI217, Gunnlaugur Rafn Björnsson, lýsti atvikum þannig í skýrslu sem hann ritaði vegna málsins 2. september 2010, að þegar hann hefði komið út úr flugstjórnarklefanum hafi stefnandi verið með ógnandi tilburði við flugvirkjann og beðið hann um að láta sig hafa nafn hans skriflega. Þeir Michael hafi beðið hann um að útskýra hvers vegna hann þyrfti nafnið skriflega, þar sem hann hafi þegar fengið það munnlega, en hann hafi ekki getað það. Þar sem þeir hafi verið fyrir hreinsunarfólki og „catering“, sem hafi verið komið í flugvélina, hafi hann beðið stefnanda um að yfirgefa vélina. Stefnandi hafi hins vegar ekki orðið við því fyrr en hann og flugfreyjan hafi hvesst sig við hann. Er stefnandi hafi gengið frá borði hafi hann hreytt ónotalegum athugasemdum í sig fyrir að hafa ekki orðið við beiðni hans um að fá nafn flugvirkjans skriflega. Gunnlaugur lýsti atburðum með svipuðum hætti fyrir dóminum. Ómar Guðnason flugmaður greindi frá því fyrir dóminum að hann hefði orðið vitni að því að stefnandi hafi verið í orðaskiptum við flugvirkjann og krafist einhverra persónuupplýsinga um hann. Stefnandi hafi haldið í flugvirkjann. Flugstjórinn hafi komið þar að og átt orðaskipti við stefnanda, sem hafi krafið hann um upplýsingar um flugvirkjann. Stefnanda hafi svo verið vísað úr vélinni. Björg Valdimarsdóttir flugfreyja lýsti atvikum þannig að stefnandi hafi neitað að fara frá borði við lendingu þar sem hann ætti óuppgerð mál við flugvirkja. Hann hafi beðið flugvirkjann um nafn og flugvirkinn hafi farið að hlægja. Stefnandi hafi gripið í hann, en í því hafi flugstjórinn komið að. Þegar starfsmenn flugvallarins hafi verið komnir um borð í flugvélina hafi hún og flugstjórinn beðið stefnanda um að fara frá borði, sem hann hafi gert. Stefnandi kvaðst fyrir dóminum hafa kannast við flugvirkjann, en ekki munað nafn hans og því spurt hann að nafni. Hann kvaðst ekki hafa þrifið til hans, en hafa snert öxl hans. Af framangreindum lýsingum vitna þykir sýnt fram á að stefnandi greip í Michael Benjamin David flugvirkja og krafði hann um nafn hans. Þá þurfti að beita hann fortölum til að fá hann frá borði. Hins vegar hefur Michael sjálfur ekki lýst háttseminni á þann hátt að stefnandi hafi ógnað honum og verður framburður vitna ekki talinn styðja að svo hafi verið.

                Stefnanda var að beiðni Gunnlaugs Rafns Björnssonar flugstjóra ekið heim af bílstjóra félagsins Kynnisferða. Samkvæmt Kristni Arnari Svavarssyni starfsmanni áhafnavaktar barst honum kvörtun félagsins daginn eftir um að stefnandi hafi verið dónalegur við bílstjórann. Honum hafi verið tjáð að stefnandi hafi áreitt bílstjórann á leiðinni og sakað félagið um að valda seinkunum á flugi. Bílstjóri sá sem um ræðir kom ekki fyrir dóminn.

                Stefndi telur alla framanlagða háttsemi stefnanda réttlæta fyrirvaralausa uppsögn hans. Eins og fram kom hér að framan þykir ekki sannað að stefnandi hafi neytt áfengis í óhófi þannig að það hafi farið í bága við reglur félagsins. Hins vegar var stefnandi undir áhrifum áfengis. Ljóst er að hann sýndi af sér ókurteisi og hegðaði sér með hætti sem ekki sæmdi stöðu hans. Þótt sýnt hafi verið fram á að hegðun stefnanda hafi verið óviðeigandi þykir hún þó ekki hafa verið þess eðlis að réttlætt geti fyrirvaralausa uppsögn úr starfi. Bar stefnda samkvæmt því að veita stefnanda áminningu ef framganga hans í starfi gaf tilefni til þess áður en honum yrði sagt upp starfi.

                Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi áður fengið áminningar vegna brota í starfi. Hafi verið um að ræða munnlega áminningu sem stefnanda hafi verið veitt árið 1998 og skriflega áminningu árið 1999. Í málinu liggur fyrir minnisblað, dags. 7. október 1998, frá Sigurði Helgasyni þáverandi forstjóra Flugleiða, sent þáverandi starfsmannastjóra, þar sem fram kemur að minnisblaðið sé staðfesting á fundi sem hann hafi átt með stefnanda þann dag. Tilefnið hafi verið kvartanir sem borist hafi vegna kynferðislegrar áreitni stefnanda í garð samstarfsfólks. Hann hafi greint stefnanda frá skilyrðislausri kröfu félagsins um að hann léti algerlega af háttsemi af þessu tagi. Jafnframt hafi honum verið veitt munnleg áminning og kveðið skýrt á um að endurtæki þessi háttsemi sig yrði fyrirtækið knúið til að grípa til viðeigandi ráðstafana. Sigurður staðfesti það fyrir dóminum að hann hefði veitt stefnanda áminningu þessa efnis. Þáverandi starfsmannastjóri, Már Gunnarsson, staðfesti að hann hafi vitað af þessum ávirðingum. Þá liggur fyrir í málinu bréf til stefnanda frá stefnda, dags. 17. nóvember 1999. Kemur þar fram að stefnandi hafi ekki sinnt tilmælum stefnda um að gefa skriflega skýrslu um atvik sem gerðust um borð í flugvél þar sem hann var flugstjóri 27. ágúst 1998. Segir að félagið geti ekki liðið slíka framkomu og sjái sig knúið til að veita stefnanda áminningu. Stefndi treysti því að stefnandi láti sér þetta að kenningu verða og slíkt endurtaki sig ekki. Ljóst er að seinni áminningin er ekki í neinum rökrænum tengslum við það mál sem hér er til umfjöllunar og verður hún því ekki talin hafa þýðingu í málinu. Varðandi fyrri áminninguna er hins vegar til þess að líta að ekki verður séð að hún hafi borið það ótvírætt með sér að ráðningarsamningi yrði rift við endurtekið brot. Þá verður talið að of langt sé um liðið frá því að áminningin var veitt til þess að hún geti haft áhrif í máli þessu. Stefndi hefur leitast við að sýna fram á að stefnandi hafi að öðru leyti sýnt af sér óviðeigandi hegðun og honum hafi meðal annars verið gert að sækja námskeið í mannlegum samskiptum árið 1999. Það er hins vegar óumdeilt að stefnanda hafa ekki verið veittar áminningar vegna neinna slíkra tilvika, en telja verður að slíkt sé forsenda þess að stefnda sé heimilt að rifta ráðningarsamningi við stefnanda.

                Með hliðsjón af framangreindu verður talið að fyrirvaralaus uppsögn stefnanda 30. september 2010 hafi verið ólögmæt. Ber stefndi skaðabótaábyrgð á uppsögninni eftir almennum reglum. Í málinu krefst stefnandi viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda, svo sem honum er heimilt, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður því ekki tekin afstaða til málsástæðna stefnda sem varða umfang bótaréttar stefnanda, en fallist verður á viðurkenningarkröfuna.

                Í ljósi ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi stefnanda og atvika málsins þykir stefnandi eiga rétt til miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Við ákvörðun þeirra verður meðal annars litið til þeirra upplýsinga sem stefndi lagði fyrir starfsráð FÍA og stefnda, og þess að stefnandi virðist ekki hafa fengið raunverulegt tækifæri til þess að andmæla ávirðingum sem bornar voru á hann áður en stefndi tók ákvörðun um uppsögnina. Fól framkoma stefnda í sér ólögmæta meingerð gegn persónu og æru stefnanda. Þykja miskabætur til hans hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Fallist verður á kröfu stefnanda um dráttarvexti, eins og nánar greinir í dómsorði, en stefndi hefur ekki andmælt henni.

                Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

                Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Icelandair ehf., gagnvart stefnanda, Halldóri Þór Halldórssyni, vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi aðila 30. september 2010.

                Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í miskabætur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 20. júlí 2012 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.