Hæstiréttur íslands
Mál nr. 242/2012
Lykilorð
- Fullnusta refsingar
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
|
|
Þriðjudaginn 17. apríl 2012. |
|
Nr. 242/2012: |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Úrskurður héraðsdóms um
að X skyldi gert að afplána 300 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem honum
hafði verið veitt reynslulausn á, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl 2012, þar sem varnaraðila var gert að afplána 300 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að afplána eftirstöðvar fyrrnefndrar fangelsisrefsingar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fram er kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi, eftir að hann hlaut reynslulausn þá sem í hinum kærða úrskurði greinir, framið brot sem varðað geta sex ára fangelsi og þar með rofið skilyrði reynslulausnarinnar. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður
Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl 2012.
Með beiðni
lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri í dag, er þess krafist að
Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, [...], verði á grundvelli 2.
mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga gert að sæta afplánun á 300
daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 29. janúar 2009, sem
honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar um reynslulausn þann 19.
janúar 2011.
Kærði mótmælir kröfunni.
Í
greinargerð lögreglustjórans kemur fram að um kl. 18:30 í gærkvöldi, 10. apríl
2012, hafi lögregla fengið tilkynningu um tvo aðila í annarlegu ástandi á
veitingastaðnum [...] í Reykjavík. Annar þeirra hafi verið kærði, X, en þegar
lögregla hafi komið á vettvang hafi kærði staðið fyrir utan veitingastaðinn með
íþróttatösku sem hann kvaðst eiga. Í töskunni hafi verið ýmsar tegundir lyfja,
poki með skartgripum, fatnaður og tvö stór blekhylki í prentara. Kærði hafi
verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Lögregla hafi kærða grunaðan um nokkur
þjófnaðarbrot, vopnalagabrot, fíkniefnalagabrot og nytjastuld sem framin hafi
verið er kærði hafi verið á reynslulausn. Þá hafi kærði játað aðild sína að
sumum þessara brota. Um sé að ræða:
Mál lögreglu nr. 007-2011-35890. Í málinu
sé kærði sterklega grunaður um innbrot í bifreiðina [...], sem hafi staðið
kyrrstæð við [...] í Reykjavík, 11. júní 2011 og að hafa m.a. stolið þaðan
svartri kvenmannskápu og svörtum iPod. Við
skýrslutöku kvaðst kærði ekki muna eftir þessu atviki en kærði var handtekinn í
tengslum við mál nr. 007-2011-35877 og í fórum hans hafi fundist kaupsamningur
um bifreiðina [...], þar sem fram komi nafn eiganda bifreiðarinnar, svört
kvenmannskápa og svartur iPod sem einnig hafi verið
merktur eiganda bifreiðarinnar.
Mál lögreglu nr. 007-2011-35877. Í málinu
játi kærði vörslur á 5,42 g af amfetamíni og kylfu sem hafi fundist á honum við
leit við [...] í Hafnarfirði 12. júní 2011.
Mál lögreglu nr. 007-2011-38299. Í málinu
játi kærði að hafa brotist inn á heimili [...] í Hafnarfirði, 21. júní 2011 og
að hafa m.a. stolið þaðan tölvu og blóðþrýstingsmæli.
Mál lögreglu nr. 007-2011-65991. Í málinu
játi kærði vörslur á 0,81 g af amfetamíni og vörslur á hnífi að [...] í
Hafnarfirði 6. nóvember 2011.
Mál lögreglu nr. 007-2011-73002. Í málinu sé kærði sterklega
grunaður um hegningarlagabrot í félagi við nafngreindan aðila með því að hafa á
tímabilinu 4. 9. desember 2011 millifært alls 151.000 krónur af reikningi í
eigu annars manns en kærði hafi fengið heimild hjá eiganda reikningsins um að millifæra
31.000 krónur sem eigandi reikningsins hafi skuldaði kærða. Kærði neiti sök í
málinu en málið sé til rannsóknar.
Mál lögreglu nr. 007-2012-19044. Í málinu sé kærði sterklega
grunaður um að hafa, í félagi við nafngreindan aðila, í heimildarleysi tekið
bifreiðina [...] að [...] í Hafnarfirði 5. apríl 2012. Kærði neiti sök og
kveðst í skýrslutöku hjá lögreglu hafa fengið bifreiðina að láni hjá skráðum
eiganda hennar. Málið sé til rannsóknar.
Mál lögreglu nr. 007-2012-18934. Í málinu sé kærði sterklega
grunaður um að hafa brotist inn í íbúðarhús að [...] í Garðabæ 5. apríl 2012 og
stolið þaðan m.a. þremur Apple fartölvum og Rolex úri
úr gulli. Kærði hafi játað sök við skýrslutökur hjá lögreglu en málið sé enn
til rannsóknar.
Mál lögreglu nr. 007-2012-19407. Í málinu sé kærði sterklega
grunaður um að hafa í félagi við nafngreindan aðila brotist inn í íbúð að [...]
í Hafnarfirði 9. apríl 2012 og m.a. stolið tveimur fartölvum og
sjónvarpsflakkara. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði játað aðild sína með
þeim hætti að hann hafi ekið aðilanum sem hafi verið með honum að [...] og sagt
honum númer íbúðarinnar. Aðilinn sem hafi verið með honum hafi síðan komið út
með ,,raftækjadrasl”. Að öðru leyti hafi kærði ekki tjáð sig um atvik máls.
Málið sé til rannsóknar.
Að
mati lögreglu hafi kærði nú rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar
sinnar enda liggi fyrir sterkur grunur
um að kærði hafi gerst sekur um brot sem geti varðað allt að 6 ára
fangelsi, sbr. 244. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2.,
sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Kærða hafi verið
veitt reynslulausn 19. janúar 2011 skilorðsbundið í 2 ár á 300 daga
eftirstöðvum 2 ára og 6 mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar,
uppkveðnum 29. janúar 2009, að frádreginni 6 daga gæsluvarðhaldsvist.
Kærði,
X, sé undir sterkum grun um brot gegn 244. og 259. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940 og 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til 2. mgr. 65.
gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, er þess farið á leit að krafan
verði tekin til greina eins og hún er sett fram.
Kærði hefur mótmælt
framkominni kröfu lögreglustjóra um að honum verði gert að afplána framangreindar
eftirstöðvar fangelsisrefsingar og hefur krafist þess að henni verði hafnað.
Lögmaður kærða krefst málsvarnarlauna sér til handa.
Í bréfi
Fangelsismálastofnunar ríkisins til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,
dagsettu í dag, kemur fram að kærða hafi hinn 19. janúar 2011 verið veitt
reynslulausn skilorðsbundið í tvö ár á 300 daga eftirstöðvum 2 ára og 6 mánaða
fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 29. janúar 2009.
Samkvæmt 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er reynslulausn
bundin því almenna skilyrði að viðkomandi gerist ekki sekur um nýtt brot á
skilorðstímanum. Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu
refsinga getur dómstóll úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn,
skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega
almenn skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi
framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1.
mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Að öllu framanrituðu
virtu, svo og gögnum málsins að öðru leyti, verður að fallast á það með
lögreglustjóra að fyrir liggi sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um
brot sem varðað geta sex ára fangelsi, og hafi þannig rofið gróflega skilyrði
reynslulausnar. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um
fullnustu refsinga og er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram
sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Málsvarnarlaun skipuðum verjanda til
handa úrskurðast ekki.
Jón Höskuldsson héraðsdómari
kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kærði, X, afpláni 300 daga
eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar nr. 93/2009 frá 29. janúar
2009, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar
19. janúar 2011.
Málsvarnarlaun
úrskurðast ekki.