Hæstiréttur íslands

Mál nr. 459/2001


Lykilorð

  • Dánarbússkipti
  • Umboð
  • Lífsgjöf
  • Veð


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. júní 2002.

Nr. 459/2001.

Bergey Hafþórsdóttir

Finnbogi Hafþórsson

Óskar Hafþórsson og

Magnús Jóhann Óskarsson

vegna dánarbús Margrétar Kristjánsdóttur og Óskars Sumarliðasonar

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Kristjáni Óskarssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Dánarbússkipti. Umboð. Lífsgjöf. Veð.

Íbúð hjónanna M og Ó var seld í nóvember 1998, en þau létust bæði á árinu 1999. Ó hafði falið syni sínum V, bróður stefnda K, að annast söluna og lá fyrir umboð frá honum þess efnis. Á söludegi veitti V fasteignasölunni umboð fyrir hönd föður síns til að framselja fasteignaveðbréf og taka á móti húsbréfum vegna sölunnar og nota til að greiða upp áhvílandi lán á 1., 2. og 3. veðrétti, en þar var um að ræða lífeyrissjóðslán hans sjálfs, stefnda K og H, eiginkonu V. Fór uppgreiðslan fram í desember 1998. Í skattframtali M 1999, en hún sat í óskiptu búi eftir Ó um tæplega 8 mánaða skeið, voru m.a. tilgreindar kröfur á synina V og K. Var ekki ágreiningur um að þessi tilgreining á skuld K væri til komin vegna greiðslu láns hans, sem að vísu nam töluvert hærri fjárhæð. Hélt K því fram að uppgreiðslan hefði verið gjöf þeirra hjóna í því skyni að jafna aðstöðumun með bræðrunum V og K annars vegar og öðrum erfingjum hins vegar. Talið var að í umboði V til sölu fasteignarinnar hafi einungis falist almenn heimild til fyrirsvars við sölu hennar, undirritunar skjala og móttöku verðmæta. Ekki var sýnt fram á að í umboðinu hafi falist heimild til handa V til að láta fasteignasöluna greiða veðlánin upp af söluandvirðinu, né að í slíkri framkvæmd, þótt heimil hafi verið, hafi falist fyrirheit Ó um gjöf til þeirra H, V og K. Þá þótti takmarkaðra gagna njóta um það, að hjónin hefðu áður veitt öðrum erfingjum sínum fjárhagslega aðstoð, en K hélt því fram að það hefði átt að leiða til þess að Ó hafi viljað greiða upp áhvílandi veðskuldir þeirra H, V og K. Þá þóttu skattframtöl dánarbúsins 1999 og 2000 ekki styðja að um gjöf hafi verið að ræða. Var því ekki talið að K hafi tekist að sanna að uppgreiðsla veðláns hans í desember 1998 hafi falið í sér gjöf til hans úr hendi þeirra M og Ó. Bar honum því að endurgreiða umkrafða fjárhæð til dánarbúsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. desember 2001. Þeir krefjast þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 2.306.131 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. desember 1998 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim tíma til  greiðsludags. Áfrýjendur krefjast jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að málskostnaður verði felldur niður milli aðila.

Stefndi krefst þess, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Mál þetta var höfðað á grundvelli heimildar í 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

I.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram var íbúð hjónanna Margrétar Kristjánsdóttur og Óskars Sumarliðasonar að Ofanleiti 3 í Reykjavík seld 24. nóvember 1998, en þau létust bæði á árinu 1999, Óskar 20. janúar en Margrét 12. september. Óskar fól syni sínum Veigari, bróður stefnda, að annast söluna og liggur fyrir umboð frá honum þess efnis. Þar var Veigari veitt heimild til þess að skrifa undir öll nauðsynleg skjöl vegna sölunnar og jafnframt að framselja fasteignaveðbréf, taka á móti húsbréfum og selja á verðbréfamarkaði, ef þurfa þætti. Veigar veitti fasteignasölunni á söludeginum umboð fyrir hönd föður síns til að framselja fasteignaveðbréf og taka á móti húsbréfum vegna sölunnar og nota til að greiða upp áhvílandi lán á 1., 2. og 3. veðrétti, en þar var um að ræða lífeyrissjóðslán hans sjálfs, eiginkonu hans Hallfríðar Kristjánsdóttur, stefndu í hæstaréttarmáli nr. 458/2001, og stefnda, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Uppgreiðsla þessara lána fór fram 4. desember 1998.

Í skattframtali Margrétar Kristjánsdóttur 1999, en hún sat í óskiptu búi eftir bónda sinn um tæplega átta mánaða skeið, voru meðal annars tilgreindar kröfur á synina Veigar og Kristján, hvor um sig að fjárhæð 1.500.000 krónur. Ekki er ágreiningur um, að þessi tilgreining á skuld stefnda sé til komin vegna áðurnefndrar greiðslu á lífeyrissjóðslánum hans, sem að vísu nam töluvert hærri fjárhæð. Stefndi heldur því fram, að uppgreiðsla lánsins af söluandvirði fasteignarinnar, sem fór fram í lifanda lífi beggja hjóna, hafi verið með fullu samþykki þeirra og vilja í því skyni að jafna aðstöðumun með Veigari og sér annars vegar og öðrum erfingjum hins vegar. Þessu til sönnunar sé yfirlýsing Rebekku Kristjánsdóttur, móðursystur sinnar, frá 22. október 2000, sem hún staðfesti fyrir dómi, en þar lýsir hún því yfir, að sér hafi vegna samtala við Óskar verið fullkunnugt um þessa fyrirætlun hans. Stefndi segir, að tilgreining fjárhæðarinnar á skattframtali hafi einungis verið af skattalegum ástæðum. Veigar undirritaði skattframtalið fyrir hönd móður sinnar að viðlögðum drengskap. Í skattframtali dánarbúsins árið 2000 er þessara krafna að engu getið.

II.

Í áðurnefndu umboði Óskars Sumarliðasonar til sonar síns Veigars fólst einungis almenn heimild til fyrirsvars við sölu fasteignarinnar, undirritunar skjala og móttöku verðmæta. Þar sagði ekkert um greiðslu áhvílandi veðskulda, en samkvæmt kaupsamningnum skyldi þeim aflétt fyrir 1. janúar 1999. Engar upplýsingar liggja fyrir um það, hvort stefnda, Veigari og eiginkonu hans hefði verið fært að flytja veðskuldirnar á eigin fasteignir. Hefur hvorki verið sýnt fram á, að í umboðinu hafi falist heimild til handa Veigari til að láta fasteignasöluna greiða veðlánin upp af söluandvirðinu, né að í slíkri framkvæmd, þótt heimil hafi verið, hafi falist fyrirheit Óskars um gjöf til stefnda, Veigars og Hallfríðar.

Í málinu nýtur takmarkaðra gagna um það, að Óskar og Margrét hafi áður veitt ekkju sonar síns Hafþórs og syni sínum Magnúsi Jóhanni fjárhagslega aðstoð, sem átt hafi að leiða til þess, að Óskar hafi nú viljað greiða upp áhvílandi veðskuldir stefnda, Veigars og Hallfríðar, en þau höfðu fram til þessa sjálf greitt af lánum sínum. Auk frásagna lántakendanna sjálfra er aðeins áðurnefnd yfirlýsing Rebekku Kristjánsdóttur þessu til stuðnings, en hún verður ekki ein sér talin nægileg til sönnunar án stuðnings við önnur gögn.

Í skattframtali dánarbús Margrétar og Óskars vegna ársins 1998 eru tilgreindar kröfur þess á Veigar og stefnda, sem eru ekki jafnháar uppgreiðsluverðmæti veðskuldanna. Þessi tilgreining er sögð hafa verið af skattalegum ástæðum, sem þó hafa ekki verið skýrðar með viðhlítandi hætti. Sá endurskoðandi, sem Veigar og stefndi segja, að hafi veitt leiðsögn um þessa framsetningu á skattframtalinu, hefur ekki komið fyrir dóm. Sjálfir hafa hvorki þeir né Hallfríður viljað leggja fram skattframtöl sín, þrátt fyrir áskoranir, til þess að sýna fram á, að uppgreiðsla veðlánanna hafi falið í sér gjöf þeim til handa, sem þá hefði verið skattskyld samkvæmt 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Við svo búið verður að líta svo á, að skattframtöl dánarbúsins 1999 og 2000 styðji ekki, að um gjöf hafi verið að ræða.

Þegar allt er virt, sem fram er komið í málinu, verður ekki talið, að stefnda hafi tekist að sanna, að uppgreiðsla veðláns hans hjá Lífeyrissjóði Félags íslenskra atvinnuflugmanna 4. desember 1998 hafi falið í sér gjöf til hans úr hendi foreldra sinna. Honum ber því að endurgreiða umkrafða fjárhæð, sem rennur til dánarbúsins, er nú sætir opinberum skiptum. Dráttarvextir skulu greiddir, eins og í dómsorði greinir.

Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.   

Dómsorð:

Stefndi, Kristján Óskarsson, greiði Bergey Hafþórsdóttur, Finnboga Hafþórssyni, Óskari Hafþórssyni og Magnúsi Jóhanni Óskarssyni vegna dánarbús Margrétar Kristjánsdóttur og Óskars Sumarliðasonar 2.306.131 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. desember 1998 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. september sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 20. nóvember 2000 af Óskari Hafþórssyni, kt. 050966-5779, Dúfnahólum 6, Reykjavík, Bergey Hafþórsdóttur, kt. 260569-4499, Fífuseli 14, Reykjavík, Finnboga Hafþórssyni, kt. 170771-4519, Engjaseli 5, Reykjavík, og Magnúsi Jóhanni Óskarssyni, kt. 280941-2129, Funafold 2, Reykjavík, til hagsbóta fyrir dánarbú Óskars Sumarliðasonar, kt. 110720-2469, og Margrétar Kristjánsdóttur, kt. 010221-3829, á hendur Kristjáni Óskarssyni, kt. 200957-5399, Jökulhæð 4, Garðabæ, til heimtu skuldar við dánarbúið.

Af stefnenda hálfu er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 2.306.130,70 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 4. desember 1998 til greiðsludags. Krafist er máls­kostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins, þ.m.t. kostnaður stefnenda af 24,5% virðisaukaskatti, og að dráttarvextir leggist við málskostnaðinn á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 15 dögum eftir dómsuppsögudag.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins. Í greinargerð stefnda var þess einnig krafist að málinu yrði vísað frá dómi en leyst var úr þeim ágreiningi með úrskurði dómsins 4. maí sl. þannig að frávísunar­kröfunni var hrundið.

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Málsaðilar eru erfingjar hjónanna Óskars Sumarliðasonar, sem lést 20. janúar 1999, og Margrétar Kristjánsdóttur, sem sat í óskiptu búi þar til hún lést 12. september sama ár. Stefnendur Óskar, Bergey og Finnbogi eru börn Hafþórs Óskarssonar, látins sonar hinna látnu, en stefnandi Magnús Jóhann og stefndi eru synir hinna látnu hjóna.

Málsatvik eru þau að Óskar Sumarliðason fól syni sínum Veigari að annast sölu á 3ja herbergja íbúð að Ofanleiti 3 í Reykjavík. Í málinu hefur verið lagt fram umboð en í því segir að Óskar veiti Veigari fulla heimild til að skrifa undir öll nauðsynleg skjöl vegna sölu á íbúðinni, skrifa undir kauptilboð, kaupsamning, afsal, veðskuldabréf, fasteignaveðbréf og öll önnur nauðsynleg skjöl vegna sölunnar, framselja fasteigna­veðbréf, móttaka húsbréf og selja á verðbréfamarkaði svo og til þess að móttaka allar aðrar greiðslur vegna sölunnar.

Íbúðin var seld samkvæmt kaupsamningi hinn 24. nóvember 1998 og skyldi kaup­verðið, samtals 8.000.000 krónur, greiðast þannig: 800.000 krónur við undirritun kaupsamnings, 800.000 krónur 1. maí 1999, 800.000 krónur 1. nóvember 1999 og með fasteignaveðbréfi 5.600.000 krónur.

Með umboði dagsettu sama dag og kaupsamningurinn veitti Veigar fasteigna­sölunni, sem sá um sölu íbúðarinnar, umboð fyrir hönd Óskars Sumarliðasonar til að framselja fasteignaveðbréf og móttaka húsbréf vegna sölu íbúðarinnar og nota til að greiða upp lánin sem hvíldu á 1.-3. veðrétti á íbúðinni. Óumdeilt er að veðin á íbúð­inni voru vegna skuldar Veigars við Lífeyrissjóð verslunarmanna, upphaflega að fjár­hæð 92.300 krónur, en þann 4. desember 1998, þegar það var greitt upp, samtals 305.731 króna, vegna skuldar stefnda við Eftirlaunasjóð Félags íslenskra atvinnu­flugmanna, upphaflega að fjárhæð 2.500.000 krónur, en það var greitt upp sama dag með 2.306.130,70 krónum og vegna skuldar Hallfríðar Kristjánsdóttur við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, upphaflega að fjárhæð 1.400.000 krónur, en var greitt upp sama dag með 1.312.915 krónum.

Stefnendur telja að óheimilt hafi verið að nota húsbréfin til að greiða framan­greindar veðskuldir. Þeir fjármunir, sem þannig hefði verið ráðstafað, ættu því í raun að tilheyra dánarbúinu. Gera stefnendur þá kröfu í málinu að stefndi greiði dánarbúinu fjárhæðina sem fór til greiðslu skuldarinnar. Því er mótmælt af hálfu stefnda að umrædd ráðstöfun hafi verið án heimildar Óskars heitins heldur hafi hún þvert á móti verið gerð samkvæmt fyrir­mælum hans. Því er einnig mótmælt að skuld hafi stofnast á hendur stefnda vegna þessa.

Málsástæður og lagarök stefnenda

Af stefnenda hálfu er málsatvikum lýst þannig að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi hinn 6. desember 1999 veitt erfingjum hjónanna Óskars og Margrétar leyfi til einkaskipta. Eignir búsins hafi verið taldar sparisjóðsbók í Árbæjarútibúi Landsbanka Íslands, 3.693,55 krónur, sparisjóðsbók í sama banka, 58.764,10 krónur, og einka­reikningur í sama banka, 1.538.444 krónur. Skuldir hafi verið 303.463 krónur vegna útfararkostnaðar.

Erfingjarnir hafi veitt Veigari Óskarssyni umboð til að koma fram af þeirra hálfu og í nafni dánarbúsins í samskiptum við aðra, þar á meðal við ráðstöfun eigna, viðtöku andvirðis þeirra og opinberrar skýrslugerðar og til að taka við tilkynningum í þeirra þágu vegna andlátsins. Einkaskiptum skyldi lokið eigi síðar en 12. september 2000. Þar sem stefnendum hafi þótt margt óljóst um eignir dánarbúsins, og útskýringar stefnda lítt til þess fallnar að eyða efasemdum þeirra um að rétt væri staðið að skiptum, hafi verið óskað eftir opinberum skiptum á dánarbúinu með beiðni dagsettri 19. desember 1999. Við fyrirtöku málsins 17. janúar 2000 hafi verið veittur frestur til að leita sátta milli erfingja um grundvöll einkaskipta. Skriflegum fyrirspurnum hafi verið beint til lög­manns stefnda með bréfi dagsettu 4. febrúar sama ár þar sem óskað hafi verið skýringa á atriðum, sem stefnendur hefðu gert athugasemdir við, einkum ráðstöfun á kaupverði íbúðarinnar að Ofanleiti 3 til greiðslu á persónulegum lánum stefnda, Veigars Óskarssonar og Hallfríðar Kristjánsdóttur án þess að séð væri að skuldir þeirra við dánarbúið, sem þannig hefðu stofnast, hefðu verið endurgreiddar. Einnig hafi verið gerðar athugasemdir við úttektir Veigars af Visa greiðslukorti á nafni Óskars. Skýr­ingar hafi ekki komið fram. Með úrskurði Héraðs­dóms Reykjavíkur 13. mars 2000 hafi dánar­búið verið tekið til opinberra skipta og skiptastjóri skipaður. Á skipta­fundi 14. nóvember 2000 hafi verið bókað að skipta­stjóri myndi ekki halda uppi hagsmunum fyrir hönd dánarbúsins vegna greiðslu ofan­greindra veðskulda en stefnendur hafi óskað eftir að halda þessum hagsmunum uppi fyrir hönd dánarbúsins, því að skaðlausu og búinu til hagsbóta.

Stefnendur byggja á því að við sölu á íbúðinni hafi Veigar falið fasteignasölunni að greiða að fullu persónulega skuld stefnda við Eftirlaunasjóð FIA sem hvílt hafi á íbúðinni. Gögn sem skiptastjóri hafi aflað staðfesti að stefndi hafi verið lántaki að umræddu láni frá sjóðnum. Hin látnu, Óskar og Margrét, hafi hvorki verið lántakar né ábyrgðar­menn að láninu. Íbúðin að Ofanleiti 3 hafi aðeins verið til tryggingar á greiðslu lánsins. Stefndi hafi ekki staðið dánarbúi Óskars og Margrétar skil á þessum fjármunum þrátt fyrir tilmæli um slíkt.

Umboð Óskars til Veigars hafi aðeins falið í sér heimild til að annast sölu á íbúðinni og til að ljúka nauðsynlegri skjalagerð í tengslum við söluna. Hvergi sé í umboðinu kveðið á um að áhvílandi veðskuldir, sem hafi verið búinu óviðkomandi, skyldu greiddar af eignum búsins. Með áframhaldandi umboði sínu til fasteigna­sölunnar, þar sem kveðið hafi verið á um greiðslu tiltekinna veðskulda, hafi Veigar farið út fyrir umboð sitt frá Óskari. Á grundvelli umboðsins hafi hann veitt fasteigna­sölunni víðtækara umboð en hann sjálfur hafi haft. Stefndi hafi hagnast á þessari háttsemi á kostnað búsins.

Verði talið að brýna nauðsyn hafi borið til að greiða upp áhvílandi veðskuldir af eignum búsins til að liðka fyrir sölu íbúðarinnar þá hafi ekki falist í þeirri ráðstöfun uppgjöf á kröfu dánarbúsins á hendur stefnda. Hvorki sé fyrir hendi erfðaskrá frá hinum látnu né gerningur inter vivos sem færi stefnda óafturkræft í hendur þau verðmæti sem stefnukrafan lúti að. Í skattframtali 1999, sem skilað hafi verið eftir andlát Óskars, sé þess sérstaklega getið að stefndi skuldi búinu 1.500.000 krónur. Skattaframtalið hafi Veigar undirritað fyrir hönd Margrétar án þess að hún hafi komið þar nokkuð nærri. Ekki verði beinlínis lesið úr skattaframtalinu um hvaða skuld sé að ræða. Hins vegar megi af gögnum málsins ráða að greidd hafi verið upp skuld stefnda við Eftirlaunasjóð FÍA að fjárhæð 2.264.252,20 krónur. Auk þess hafi verið greiddar tvær gjaldfallnar afborganir. Samtals hafi verið greitt vegna lánsins 2.306.130.70 krónur. Skuld stefnda við búið sé því mun hærri en segi í skattframtalinu. Tilgreining í skattframtali um lægri skuld verði ekki skoðuð sem uppgjöf hinna látnu á hluta krafna búsins á hendur stefnda, enda hafi Margrét hvergi komið næmi skattframtalinu og Óskar þá látinn. Veigar hafi ekki haft umboð til að fella niður eða lækka skuld stefnda við búið með þeim hætti sem virtist gert á skattframtalinu. Í skattframtali 2000 sé ofangreind skuld ekki lengur talin meðal eigna dánarbúsins. Sú háttsemi stefnda að aðhafast ekkert og greiða búinu ekki til baka það sem því sannarlega beri hafi valdið því tjóni.

Málshöfðunina byggja stefnendur á 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Varðandi kröfur í málinu er m.a. vísað til ákvæða sömu laga og almennra reglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar, m.a. um umboð, endurgreiðslu fjárskuldbindinga og bótaskyldu á tjóni af völdum saknæmrar háttsemi. Stefnufjárhæðin nemi uppgreiðslu­verðmæti skuldar stefnda við Eftirlaunasjóð FÍA eins og hún hafi verið 4. desember 1998 og dráttarvaxta sé krafist frá þeim degi til greiðsludags.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig að Óskar Sumarliðason hafi látist hinn 20. janúar 1999 og eiginkona hans, Margrét Kristjánsdóttir, hinn 12. september sama ár, en hún hafi setið í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Erfingjar hinna látnu séu stefnendur Óskar Hafþórsson, Bergey Hafþórsdóttir og Finnbogi Hafþórsson, sem taki arf eftir föður sinn, Hafþór Óskarsson, son hinna látnu, en hann hafði fallið frá löngu fyrir andlát foreldra sinna, stefnandi Magnús Jóhann Óskarsson, Veigar Óskarsson og stefndi.

Með beiðni um leyfi til einkaskipta, dagsettri 6. desember 1999, hafi erfingjar farið þess á leit við sýslumanninn í Reykjavík að þeim yrði veitt leyfi til einkaskipta. Jafnframt hafi Veigari verið veitt umboð til þess að koma fram af hálfu erfingja í nafni dánarbúsins. Fallist hafi verið á beiðnina 9. desember 1999 en skiptum skyldi ljúka með afhendingu einkaskiptagerðar og erfðafjár­skýrslu eigi síðar en 12. september 2000. Veigar hafi gert erfingjum grein fyrir stöðu dánarbúsins áður en fallist hafi verið á beiðni þeirra um einkaskipti og hafi hann gengið frá hlutauppgjöri til þeirra hinn 13. desember 1999.

Stefnendur hafi farið fram á opinber skipti á dánarbúinu með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettri 19. desember 1999, og með úrskurði dómsins, dagsettum 13. mars 2000, hafi Steinunn Guðbjartsdóttir hdl. verið skipuð til að gegna starfi skiptastjóra. Í bréfi skiptastjóra til dómsins, dagsettu 30. maí 2000, þar sem ágreiningi málsaðila sé vísað til dómsins, segi m.a. að á skiptafundi, sem haldinn hafi verið sama dag, hafi komið upp ágreiningur milli erfingja dánarbúsins. Fyrir liggi að við sölu fasteignar hinna látnu að Ofanleiti 3 hafi verið greidd upp lán, samtals að fjárhæð 3.931.074 krónur, sem hafi verið áhvílandi á fasteigninni. Lánin hafi verið tekin af sonum hinna látnu, stefnda og Veigari, og hafi þeir fengið andvirði þeirra. Þar sem söluandvirði eignarinnar hafi verið notað til að greiða upp lánin beri þeim að endurgreiða dánarbúinu fjárhæðina. Um skuld hafi verið að ræða sem m.a. hafi verið getið á skattframtali hinna látnu vegna ársins 1998. Þessari kröfu hafi verið mótmælt af hálfu lögmanns þeirra. Hann hafi sagt að lánin hafi verið greidd upp af söluandvirði fasteignarinnar og að sú uppgreiðsla hafi farið fram í lifanda lífi beggja hjóna og með fullu samþykki þeirra og vilja. Lögmaðurinn hafi hafnað því að þeir skulduðu dánar­búinu fjármuni vegna þessa. Ekki hafi tekist að jafna ágreininginn og sé málefninu beint til Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 122. gr. laga nr. 20/1991. Málið hafi verið fellt niður að beiðni stefnenda en þeim hafi verið gert að greiða málskostnað. Hinn 14. nóvember 2000 hafi verið haldinn skiptafundur vegna skipta á dánarbúinu þar sem fjallað hafi verið um framhald skipta og fyrirkomulag málshöfðunar vegna þeirra greiðslna sem inntar hafi verið af hendi fyrir stefnda og Veigar við sölu íbúðarinnar í desember 1998.

Sýknukrafa stefnda er studd þeim málsástæðum og lagarökum að stefnendur séu ekki réttir aðilar að máli þessu og því beri að sýkna stefnda, m.a. með vísan til 2. tl. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Svo sem ítrekað hafi komið fram hafi uppgreiðsla umræddra lána átt sér stað í lifanda lífi beggja hjóna með fullu samþykki þeirra og vilja. Ekki sé um það deilt að á þessum tíma hafi þau Óskar og Margrét verið fjár síns ráðandi og hafi þau haft það á valdi sínu að ráðstafa fjármunum sínum. Sönnunarbyrðin um að þeim hafi ekki verið heimilt að ráðstafa andvirði íbúðar sinnar að eigin vild, eins og þau hafi gert, hvíli á stefnendum. Uppgreiðsla lánanna hafi ekki átt sér stað úr dánarbúinu, svo sem ítrekað sé haldið fram af hálfu stefnenda, heldur löngu fyrir fráfall þeirra Óskars og Margrétar. Því sé vandséð á hverjum lagagrunni stefnukröfur geti verið byggðar. Þótt stefnendur haldi því fram að áhvílandi veðskuldir hafi verið greiddar af eignum búsins hafi bæði Óskar og Margrét verið lifandi á þessum tíma.

Þau Óskar og Margrét hafi veitt umrædd veðleyfi vegna lánanna, sem greidd hafi verið upp við sölu íbúðarinnar, án þess að skuld hafi stofnast við það á hendur stefnda. Skýringar á þessum ráðstöfunum Óskars heitins væru þær að við fráfall Hafþórs, sonar Óskars og Margrétar, hafi þau veitt ekkju hans fjárhagslegan stuðning við kaup á húsnæði fyrir sig og þrjú ung börn hennar og Hafþórs, þ.e. þau Óskar, Bergey og Finnboga, stefnendur þessa máls, án þess að sú fjárhagsaðstoð hafi verið endurgreidd. Enn fremur hafi þau Óskar og Margrét eftirlátið stefnanda Magnúsi Jóhanni án greiðslu smurstöð, sem þau hafi átt og Óskar hafi rekið. Til þess að leitast við að jafna þá fjárhagslegu aðstoð, sem þau Óskar og Margrét hefðu þannig veitt, hafi þau veitt yngri sonunum, þeim stefnda og Veigari, veðleyfi fyrir hinum umþrættu lánum. Jafnframt hafi það orðið að samkomulagi að stefndi og Veigar greiddu afborganir af lánum þessum þar til íbúðin yrði seld en þá skyldu lánin greiðast upp af söluandvirði eignarinnar. Þetta hafi m.a. Rebekka, systir Margrétar, og aðrir staðfest.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður stefnda er á því byggt að bóta­kröfur stefnanda uppfylli ekki þær lágmarkskröfur sem gera verði til slíkra krafna samkvæmt megin reglum skaðabótaréttarins, svo sem um meinta sök og meinta ólög­mæta háttsemi stefnda.

Niðurstöður

Óskar heitinn Sumarliðason veitti syni sínum Veigari heimild til að skrifa undir öll skjöl vegna sölu íbúðar hans að Ofanleiti 3 samkvæmt skriflegu umboði sem lagt hefur verið fram í málinu. Í framburði stefnda, Veigars og Rebekku Kristjáns­dóttur fyrir dóminum kom meðal annars fram að Óskar heitinn hafi mælt svo fyrir að þegar íbúðin seldist skyldi nota hluta andvirðis­ins til að greiða upp skuldina vegna lánsins, sem stefndi hafði fengið hjá Eftirlaunasjóði FÍA, og aðrar skuldir vegna lána sem íbúðin var veðsett fyrir og greint hefur verið frá hér að framan. Stefndi heldur því fram að þetta hafi síðan verið gert eftir fyrirmælum Óskars og hafi fasteignasalan annast það í samræmi við umboð dagsett 24. nóvember 1998 þar sem þessu er nánar lýst. Í gögnum málsins eru hvorki vísbendingar um að þetta hafi komið til af öðrum ástæðum en þeim að Óskar hafi gefið fyrirmæli um það né að hann hafi eftir þetta og þar til hann lést 20. janúar 1999 hreyft athugasemdum vegna þessara ráðstafana. Staðhæfingar stefnenda um að Veigar hafi án heimildar Óskars látið greiða umræddar veðskuldir eins og gert var eru hvorki studdar gögnum né rökum og verður að telja þær ósannaðar. Verður með vísan til þessa að líta svo á að farið hafi verið að fyrirmælum Óskars þegar umræddar skuldir voru greiddar eins og hér að framan hefur verið lýst.

Í gögnum málsins kemur hvergi fram að Óskar hafi með umræddum ráð­stöfunum gert ráð fyrir að um lán væri að ræða er stefnda bæri að endurgreiða honum. Skuld stefnda, sem talin er á skattframtali Óskars árið 1999, er samkvæmt því sem fram hefur komið vegna greiðslu veðskuldarinnar við Eftirlaunasjóð FÍA. Skatt­framtalið var gert eftir lát Óskars og án samráðs við hann en að sögn stefnda samkvæmt fyrirmælum endurskoðanda. Í bréfi lögmanns stefnda til skiptastjóra dánarbúsins frá 17. apríl 2000 kemur fram að ekki hafi neinar raunverulegar skuldir staðið að baki tilgreindum skuldum stefnda og Veigars Óskarssonar við foreldra sína á skattframtalinu en þær hafi verið færðar þannig af skattalegum ástæðum. Engin önnur gögn hafa verið lögð fram um að stefndi hafi fengið um­rædda fjárhæð að láni hjá Óskari eða að með framangreindri ráðstöfun eða öðrum hætti hafi stofnast skuld stefnda við hann eða dánarbú þeirra hjóna. Þessar færslur á skattframtalinu þykja með vísan til alls framangreinds því ekki vera ótvíræð sönnun þess að um raunverulega skuld hafi verið að ræða. Staðhæfingar stefnenda um að þarna hafi verðið um lán að ræða verður með vísan til alls þessa að telja ósannaðar.

Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að umrædd krafa hafi stofnast á hendur stefnda af þeim ástæðum sem stefnendur byggja málsóknina á. Ber því að sýkna stefnda af kröfum þeirra í málinu.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Kristján Óskarsson, skal sýkn vera af kröfum stefnenda, Óskars Hafþórssonar, Bergeyjar Hafþórsdóttur, Finnboga Hafþórssonar og Magnúsar Jóhanns Óskarssonar vegna dánarbús Óskars Sumarliðasonar og Margrétar Kristjánsdóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.