Hæstiréttur íslands
Mál nr. 372/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
- Forgangskrafa
- Laun
- Kröfugerð
- Vextir
|
|
Fimmtudaginn 25. ágúst 2011. |
|
Nr. 372/2011.
|
Ásgeir Jónsson (Helgi Sigurðsson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. (Ólafur Garðarsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Forgangskrafa. Laun. Kröfugerð. Vextir.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Á við slit K hf. Málsaðilar gerðu með sér samning 1. janúar 2006 um að Á, starfsmaður K hf., skyldi öðlast rétt til bónusgreiðslna, sem miðast áttu við gengi hlutabréfa í K hf. 1. október 2008, og skyldi krafa Á falla í gjalddaga í tvennu lagi, 1. október 2008 og 1. janúar 2009. Deila aðila laut einungis að greiðslu síðari hluta kröfunnar sem var á gjalddaga 1. janúar 2009. Á var sagt upp störfum hjá K hf. 29. október 2008, eftir að Fjármálaeftirlitið hafði skipað K hf. skilanefnd. Hæstiréttur taldi að þá hefði krafa Á verið orðin til, þó hún félli ekki í gjalddaga fyrr en við síðara tímamark. Þá hafi atvik málsins ekki verið með þeim hætti að hægt væri að fella kröfu Á niður, samkvæmt samningi málsaðila. Loks taldi Hæstiréttur með vísan til samnings málsaðila að krafa Á teldist endurgjald fyrir vinnu hans. Var krafa Á því tekin til greina sem forgangskrafa við slit K hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júní 2011 sem barst réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2011 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila sem hann lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 1.305.000 krónur auk dráttarvaxta frá 1. janúar 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila. Til vara krefst hann þess að framangreind krafa verði viðurkennd sem almenn krafa. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili hafði varakröfu sína ekki uppi við meðferð málsins í héraði. Talið verður að hann geti allt að einu haft hana uppi við málskot þetta þar sem líta verður svo á að krafan sé fólgin í aðalkröfunni en gangi skemmra en hún.
Þar sem krafa sóknaraðila er viðurkenningarkrafa telst unnt að leggja dóm á dráttarvaxtaþátt hennar, þó að ekki sé fullnægt kröfu 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu um tilgreiningu kröfunnar. Verður litið svo á að krafa um dráttarvexti sé studd við 1. mgr. 6. gr. nefndra laga.
Svo sem lýst er í hinum kærða úrskurði gerðu málsaðilar með sér samning 1. janúar 2006 um að sóknaraðili, sem var starfsmaður varnaraðila, skyldi öðlast rétt til bónusgreiðslna sem miðast áttu með tilteknum hætti við gengi hlutabréfa í varnaraðila 1. október 2008. Skyldi krafa sóknaraðila af þessu tilefni gjaldfalla í tvennu lagi, 1. október 2008 og 1. janúar 2009, helmingur í hvort sinn. Aðilar deila ekki um að fjárhæð kröfu sóknaraðila hafi 1. október 2008 numið 2.610.000 krónum og að sóknaraðili hafi fengið fyrri hlutann, 1.305.000 krónur, greiddan þann dag. Deilan lýtur að kröfu sóknaraðila um greiðslu á síðari helmingnum sem gjaldfalla átti 1. janúar 2009. Er málsástæðum aðila lýst í hinum kærða úrskurði.
Í 4. gr. umrædds samnings segir hvernig fara skuli með greiðslur til sóknaraðila samkvæmt samningnum ef til starfsloka hans kemur. Þar er í 1. mgr. kveðið á um starfslok fyrir 1. október 2008. Í 2. mgr. greinarinnar er að finna ákvæði um hvernig með skuli fara „láti starfsmaður af störfum að eigin ákvörðun fyrir 1. jan. 2009, er sagt upp vegna brota í starfi innan sömu tímamarka eða uppfylli starfsmaður ekki önnur skilyrði þessa samnings ...“. Túlka verður þetta samningsákvæði svo að það taki til tímabilsins 1. október 2008 til 1. janúar 2009. Ekki eru efni til að líta svo á að ákvæði 1. mgr. 4. gr. samningsins, þar sem fjallað er um atvik fyrir 1. október 2008, eigi að gilda áfram eftir þann dag, enda stofnaðist krafa sóknaraðila síðast nefndan dag, þó að samið hafi verið um að sérstök atvik eftir þann dag og fram að síðari gjalddaga kröfunnar hefðu samkvæmt 2. mgr. getað haft áhrif á tilvist hennar.
Sóknaraðila var sagt upp störfum hjá varnaraðila 29. október 2008 eftir að Fjármálaeftirlitið hafði skipað varnaraðila skilanefnd. Þá var krafa sú sem um er fjallað í þessu máli orðin til, þó að hún ætti ekki að gjaldfalla fyrr en 1. janúar 2009. Ekki urðu nein atvik sem samkvæmt 2. mgr. 4. gr. samnings málsaðila gátu fellt kröfuna niður. Krafan er samkvæmt samningnum tengd starfi sóknaraðila hjá varnaraðila með þeim hætti að hún telst endurgjald fyrir vinnu hans, enda er sérstaklega kveðið á um það í samningnum að greiðsla samkvæmt honum skuli lúta „sömu meðferð og aðrar launagreiðslur“. Af þessu leiðir að krafa sóknaraðila um forgangsrétt kröfunnar verður með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991 tekin til greina við slit varnaraðila sem og krafa um forgangsrétt fyrir dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2009 til 22. apríl sama ár, en þann dag tóku gildi lög nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. tölulið bráðabirgðaákvæðis II. laga nr. 44/2009. Krafa um dráttarvexti eftir 22. apríl 2009 telst eftirstæð krafa, sbr. 1. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennt er að krafa sóknaraðila, Ásgeirs Jónssonar, að fjárhæð 1.305.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu tímabilið 1. janúar 2009 til 22. apríl sama ár njóti forgangs samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila, Kaupþings banka hf. Viðurkennd er krafa sóknaraðila um áframhaldandi dráttarvexti eftir þennan dag til greiðsludags með stöðu í kröfuröð samkvæmt 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. maí sl., var þingfest 21. október 2010.
Sóknaraðili er Ásgeir Jónsson, Sigtúni 41, Reykjavík.
Varnaraðili er Kaupþing banki hf., Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 1.305.000 krónur auk dráttarvaxta frá 1. janúar 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti á málskostnað, að mati dómsins.
Málsatvik
Árið 2006 var sóknaraðili ráðinn til starfa sem forstöðumaður greiningardeildar varnaraðila, með ráðningarsamningi frá 10. október 2006. Sama ár gerðu aðilar með sér ,,samning um bónusgreiðslur tengdar gengi í Kaupþingi banka hf.“. Í 2. gr. samnings þessa segir um efni þess að samningurinn varði ,,bónusgreiðslur sem tengjast gengi hluta í KB banka, allt samkvæmt nánari ákvæðum þessa samnings“.
Í 3. gr. samningsins segir: Bónusgreiðslur greiðast sem upphæð sem miðast við gengi hluta í Kaupþingi banka. Upphafsgengi miðast við 600 á hlut og í lok tímabils skal það gengi dregið frá gengi KB banka 1. október 2008 til að finna upphæð bónusgreiðslu. Ásgeir fær bónusgreiðslur sem miðast við kaup á 30.000 hlutum í KB banka á genginu 600 að upphæð 16.500.000. Sú hækkun sem verður á genginu til 1. október 2008 skal greiðast út sem bónusgreiðslur í lok samningstímans. Greiðslunni verður tvískipt og skiptist til helminga, fyrri greiðsla 1. október 2008 og síðari greiðslan 1. janúar 2009
Í 4. gr. samningsins segir: Ef starfsmaður segir sjálfur upp störfum hjá KB banka eða dótturfyrirtæki KB banka fyrir þann tíma sem bónusgreiðslur eru greiddar (1. okt.2008) falla greiðslur niður. Ef KB banki eða dótturfyrirtæki KB segir starfsmanni upp störfum eða ef starfsmaður lætur af störfum vegna andláts, veikinda eða varanlegs líkamlegs tjóns verða bónusgreiðslur gerðar upp frá síðasta starfsdegi og miða við gengi þess dags. Bónusgreiðslur starfsmanns sem segir sjálfur upp störfum eða er sagt upp vegna brota í starfi falla hins vegar niður að fullu. Komi til starfsloka í kjölfar skipulagsbreytinga KB banka eða tilfærslna í starfi er litið svo að starfsmaður segi sjálfur upp störfum og hefur bankinn þá fullan ákvörðunarrétt á hvort bónus verður greiddur.
Láti starfsmaður af störfum af (svo ) eigin ákvörðun fyrir 1. jan. 2009, er sagt upp vegna brota í starfi innan sömu tímamarka eða uppfylli starfsmaður ekki önnur skilyrði þessa samnings hefur KB banki rétt á að fella allar bónusgreiðslur niður sem tengjast samningi þessum. KB banki hefur val á hvort og að hve miklu leiti (svo) bónusgreiðslur verða greiddar í slíkum tilvikum.
Varnaraðili greiddi sóknaraðila 1.305.000 krónur 1. október 2008, miðað við gengi varnaraðila, sem þá var 687, en greiðsla sem fram átti að fara 1. janúar 2009, samkvæmt ofangreindum samningi er enn ógreidd.
Hinn 9. október 2008 skipaði Fjármálaeftirlitið varnaraðila skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008. Á þeim tíma gegndi sóknaraðili störfum hjá varnaraðila en var sagt upp störfum með uppsagnarbréfi 29. október 2008 og var þegar leystur undan vinnuskyldu sinni gagnvart varnaraðila. Hinn 24. nóvember 2008 fékk varnaraðili heimild til greiðslustöðvunar og hinn 25. maí 2009 var varnaraðila skipuð slitastjórn í samræmi við 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. bráðabirgðaákvæðis II sömu laga.
Varnaraðili birti í fyrsta sinn innköllun til kröfuhafa í Lögbirtingablaðinu 30. júní 2009. Kröfulýsingarfrestur rann út 30. desember sama ár. Með kröfulýsingu frá 17. desember 2009 lýsti sóknaraðili forgangskröfu fyrir slitastjórn varnaraðila að fjárhæð 1.708.115 krónur og krafðist bónusgreiðslna á grundvelli samnings um bónusgreiðslur tengdar gengi í Kaupþingi banka hf. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni 10. janúar 2010 og mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu slitastjórnar. Ekki tókst að jafna ágreining á fundi sem slitastjórn boðaði til og leitaði því varnaraðili úrlausnar héraðsdóms um kröfuna, með bréfi frá 18. ágúst 2010.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður að samningur um bónusgreiðslur hafi verið hluti af umsömdum launakjörum sóknaraðila, gerður eftir launaviðtal hans við starfsmannastjóra varnaraðila, sem hluti af hækkun fastra mánaðarlauna. Greiðsla samkvæmt því hafi ekki verið tengd við persónulegan árangur sóknaraðila í starfi. Markmið samkomulagsins hafi af hálfu varnaraðila verið að tengja hluta fastra starfsgreiðslna sóknaraðila við hlutabréfaverð Kaupþings og fresta greiðslum um tvö ár. Í samkomulaginu sé sérstaklega tekið fram að þessar bónusgreiðslur séu óháðar öðrum samningum sem gerðir hafi verið við starfsmanninn, s.s. ráðningarsamningi eða öðrum bónussamningum. Eina skilyrðið sem sóknaraðili hafi þurft að uppfylla til þess að njóta þeirra greiðslna sem samningurinn kveði á um, hafi verið að sóknaraðili þurfti að vera enn í starfi hjá Kaupþingi banka hf. 1. október 2008. Samningurinn tilgreini nákvæmlega hvernig greiðslurnar skuli reiknast og á hvaða tímapunkti sóknaraðili hafi áunnið sér þau launakjör sem samningurinn geri ráð fyrir, sem sé 1. október 2008.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að laun og annað endurgjald fyrir vinnu njóti, samkvæmt lögum, forgangs umfram almennar kröfur. Krafa sóknaraðila sé hluti af launakjörum hans og skilgreind í tengslum við það að sóknaraðili taki við yfirmannsstarfi hjá varnaraðila 1. janúar 2006. Greiðslan sé háð því eina skilyrði að starfsmaðurinn sé enn við störf hjá varnaraðila 1. október 2008. Eini óvissuþáttur samningsins sé með hvaða hætti hlutabréfaverð muni þróast á tímabilinu frá 1. janúar 2006 til 1. október 2008.
Byggt er á því að hinn 1. október 2008 hafi sóknaraðili uppfyllt skilyrði samningsins og þá hafi legið fyrir hækkun á hlutabréfaverði. Krafan hafi því verið fallin í gjalddaga á þeim tíma, enda þótt eindagi á hluta hennar væri 1. janúar 2009. Sóknaraðili vísar til þess að hinn 1. október 2008 hafi hann fullnægt þeirri vinnuskyldu sem umsamið hafi verið að hann fengi greidd laun fyrir, m.a. með sérstakri greiðslu sem tæki mið af þróun hlutabréfaverðs í bankanum á ákveðnum tíma.
Sóknaraðili vísar til þess að umræddur samningur sé ekki bónussamningur í venjulegum skilningi, heldur ákvörðun um laun á tímabilinu frá 1. janúar 2006 til 1. október 2008. Samningurinn tengist ekki afkomu bankans líkt og bónussamningar innan bankans hafi gert á þessum tíma og hann hafi engin áhrif á launakjör sóknaraðila að öðru leyti.
Tilvísun slitastjórnar til þess að ,,ef komi til starfsloka í kjölfar skipulagsbreytinga eða tilfærslu í starfi, sé litið svo á að starfsmaður segi sjálfur upp störfum og hefur bankinn þá fullan ákvörðunarrétt á hvort bónus verði greiddur“ eigi ekki við eftir að krafan sé fallin í gjalddaga.
Ákvæði 2. mgr. 4. gr. samningsins sé orðað þrengra en 1. mgr. 4. gr. samningsins og taki ekki samkvæmt orðalagi sínu til skipulagsbreytinga sem eigi sér stað á tímabilinu frá 1. október 2008 til 1. janúar 2009, heldur afmarkist við að sóknaraðili segi sjálfur upp störfum á því tímabili. Íþyngjandi og óljós ákvæði sem séu einhliða samin af vinnuveitanda verði að skýra þröngt. Auk þess gangi slík túlkun í berhögg við fyrirmæli 1. mgr. 4. gr. samningsins sem fjalli sérstaklega um það á hvaða tíma litið sé á skipulagsbreytingar KB banka sem uppsögn starfsmannsins sjálfs.
Sóknaraðili vísar jafnframt til þess að ekki sé hægt að jafna orðinu skipulagsbreytingar, eða tilfærsla í starfi í samningi aðila, við það þegar varnaraðili sé tekinn til slita á grundvelli 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, enda sé það augljóslega ekki tilgangur ákvæðisins og ljóst að hvorki sóknaraðili né varnaraðili hafi haft þann skilning í huga þegar ákvæðið var samið.
Sóknaraðili vísar jafnframt til þess að laun, sem þegar hefur verið unnið fyrir, séu eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og verði launþegar ekki sviptir slíkri eign, vegna atvika sem þeir hafi engin áhrif á.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili hafnar því að á honum hvíli greiðsluskylda á grundvelli samnings aðila um bónusgreiðslur, tengdar gengi Kaupþings banka hf. Varnaraðili telur ljóst af ákvæðum samningsins að ákvörðun um bónusgreiðslur til sóknaraðila séu alfarið hjá varnaraðila ef starfslok verði í kjölfar skipulagsbreytinga. Þessu til stuðnings vísi varnaraðili til 4. gr. samningsins, en þar segi að komi til starfsloka sóknaraðila í kjölfar skipulagsbreytinga skuli litið svo á að hann segi sjálfur upp störfum og hafi varnaraðili þá fullan ákvörðunarrétt um hvort bónus verði greiddur. Varnaraðili bendir á að óumdeilt sé að sóknaraðili hafi hætt störfum í þágu varnaraðila við fall bankans haustið 2008 í kjölfar þeirra skipulagsbreytinga sem átt hafi sér stað hjá varnaraðila með skipun skilanefndar yfir varnaraðila. Varnaraðili ítrekar að ákvörðunarvald um bónusgreiðslu hafi því alfarið verið hjá sér og beri því að hafna kröfunni.
Verði ekki fallist á framangreint með varnaraðila er lögð áhersla á þá staðreynd að ekki hafi verið fyrir hendi skilyrði fyrir bónusgreiðslu á gjalddaga kröfunnar 1. janúar 2009 og því hefði aldrei komið til greiðslu hennar. Bent er á að gríðarlegt tap hafi verið á rekstri varnaraðila við fall hans haustið 2008, hann hafi verið tekinn yfir af skilanefnd vegna knýjandi fjárhagserfiðleika í byrjun október 2008. Hagnaður sé grundvallarskilyrði fyrir bónusgreiðslu og hafi hann orðið að nema 15% arðsemi eign fjár til að bónus fengist greiddur út. Ef framangreint skilyrði um hagnað hafi ekki verið fyrir hendi hafi bónusar ekki verið greiddir til starfsmanna, enda hafi bónusgreiðslan í eðli sínu verið útdeiling á hagnaði til starfsmanna. Að mati varnaraðila hefðu skilyrði fyrir bónusgreiðslum ávallt þurft að vera fyrir hendi, svo að sóknaraðili ætti réttmæta kröfu á hendur varnaraðila, þrátt fyrir að skilyrði samningsins um gengi hlutabréfa á árinu 2008 hafi verið fyrir hendi á gjalddaga kröfunnar. Varnaraðili bendir enn fremur á að ekki hefði verið heimilt að greiða sóknaraðila á gjalddaga þar sem slíkt hefði brotið í bága við meginreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa.
Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að greiðslur samkvæmt samningnum hafi ekki verið háðar afkomu varnaraðila. Varnaraðili vísar til 6. gr. í samningi milli aðila um bónusgreiðslur, en þar segi að fjárhagslegar breytingar eða endurskipulagning varnaraðila geti haft áhrif á verðmæti bónusgreiðslna. Þá segi enn fremur í ákvæðinu að samningurinn breyti í engu heimildum varnaraðila til að gera eðlilegar breytingar sem hafi fjárhagslegar afleiðingar, t.d. endurskipulagning eða sala á eignum. Að mati varnaraðila sé ljóst að samningurinn hafi verið skilyrtur hvað varði fjárhagslega afkomu hans.
Þá mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila að tilvísun varnaraðila til 4. gr. í samningi aðila geti ekki komið til álita eftir að krafan sé fallin í gjalddaga. Samningurinn sé skýr hvað varði ákvörðunarvald varnaraðila um bónusgreiðslur ef til starfsloka komi í kjölfar skipulagsbreytinga. Gjalddagi kröfunnar breyti engu í því sambandi, enda sé þess konar fyrirvara ekki að finna í ákvæðinu. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að vísun varnaraðila til ákvæðis 4. gr. samningsins eigi ekki við þegar öll skilyrði ákvæðisins séu fyrir hendi. Þá mótmælir varnaraðili því að krafan hafi þegar verið gjaldfallin við hrun varnaraðila í október 2008. Bent er á 3. gr. samningsins, en þar segi að greiðsla samkvæmt samningnum sé tvískipt, þannig að fyrri greiðslan sé á gjalddaga 1. október 2008 og síðari greiðslan á gjalddaga 1. janúar 2009. Varnaraðili telji því ljóst að gjalddagi kröfunnar í máli þessu sé 1. janúar 2009. Sé skilyrði fyrir forgangsrétti kröfu á grundvelli 1. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991 því ekki fyrir hendi, enda verði krafa að hafa fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag sem í tilviki varnaraðila var 15. nóvember 2008. Krafan njóti því ekki forgangsréttar í skilningi ákvæðisins. Varnaraðili ítrekar þó að krafan hefði ekki verið greidd, hvorki á gjalddaga né eindaga hennar, þar sem ekki hafi verið fyrir hendi grundvallarskilyrði til að greiða bónusa eftir hrun varnaraðila.
Með vísan til framangreinds kveður varnaraðili að sóknaraðili eigi ekki réttmæta kröfu á hendur sér og beri því að hafna henni.
Verði ekki fallist á ofangreint, kveður varnaraðili ljóst að sóknaraðili eigi ekki forgangskröfu á hendur sér. Við mat á því hvort krafa sóknaraðila teljist forgangskrafa verði að líta til þess að túlka beri ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 þröngt, þar sem það ákvæði feli í sér undantekningu frá meginreglu laganna um jafnræði kröfuhafa.
Hafnað er fullyrðingu sóknaraðila þess efnis að krafan sé laun og bent er á að meginskilyrði þess að krafa njóti forgangs á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 er að raunverulegt vinnuframlag hafi verið innt af hendi. Samningurinn, sem sóknaraðili byggi kröfu sína á, kveði eingöngu á um rétt sóknaraðila til bónusgreiðslna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sem þó séu hvorki vinnuframlag né persónuleg frammistaða í starfi, heldur gengi hlutabréfa varnaraðila á gjalddaga kröfunnar. Ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 verði að skýra eftir orðanna hljóðan og verði krafa sóknaraðila að vera í eðli sínu launakrafa, til þess að falla undir 112. gr. laga nr. 21/1991. Svo sé ekki og beri því að hafna forgangsrétti kröfunnar.
Þá er mótmælt fullyrðingu sóknaraðila þess efnis að samningurinn sé ákvörðun um laun. Bent er á að hvorki sé kveðið á um slíkt í samningnum sjálfum né í ráðningarsamningi aðila. Þar að auki beri samningurinn engin einkenni ráðningarsamnings og kveði ekki á um launakjör, hlunnindi, orlofsgreiðslur eða annað sem verði að koma fram í ráðningarsamningi, samkvæmt gildandi kjarasamningum. Í samningnum sé ekki ákvarðað um laun, heldur sé samningur þessi, eins og yfirskrift hans bendi til, samningur um bónusgreiðslur. Ef samningur þessi hefði í raun verið ákvörðun um laun, hefði þurft að gera sérstakan viðauka við ráðningarsamning aðila, en það hafi ekki verið gert. Í samningnum komi jafnframt fram að greiðslur samkvæmt samningnum séu óháðar ráðningarsamningi sóknaraðila. Ákvæðið verði að mati varnaraðila ekki skilið öðruvísi en svo að greiðslur á grundvelli samningsins myndi á engan hátt hluta af launum sóknaraðila. Sé því ekki með nokkru móti hægt að fallast á þá fullyrðingu sóknaraðila að samningurinn sé ákvörðun um laun.
Verði litið svo á, þrátt fyrir framangreint, sé ljóst að krafan uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem krafan hafi ekki fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag, þar sem gjalddagi kröfunnar hafi samkvæmt samningnum verið 1. janúar 2009. Krafa sóknaraðila njóti samkvæmt framangreindu ekki forgangs á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Beri því að hafna forgangsrétti kröfunnar.
Varðandi túlkun samnings aðila bendir varnaraðili á að samningurinn sé gagnkvæmur samningur, en ekki einhliða samningur. Samningurinn sé ekki íþyngjandi fyrir sóknaraðila, heldur þvert á móti rausnarlegur. Er því mótmælt að samningurinn eða ákvæði hans séu ósanngjörn eða íþyngjandi. Þá bendir varnaraðili jafnframt á að samningurinn sé undirritaður án fyrirvara og án þess að sóknaraðili hafi gert athugasemdir við inntak hans eða einstök ákvæði hans á gildistíma samningsins. Sóknaraðili hafi verið yfirmaður greiningardeildar varnaraðila og hafi hann því búið yfir þekkingu og starfsreynslu og verið í lófa lagið að gera athugasemdir við undirskrift samningsins, ef hann hefði haft einhverjar athugasemdir við hann.
Þá bendir varnaraðili á að þær breytingar sem urðu þegar skilanefnd tók yfir starfsemi bankans séu skipulagsbreytingar. Frumskylda skilanefndar hafi verið að stokka upp starfsemi varnaraðila, en þær breytingar hafi m.a. leitt til starfsloka sóknaraðila. Varnaraðili geti því ekki fallist á þá túlkun sóknaraðila að þær skipulagsbreytingar sem orðið hafi á starfsemi varnaraðila við fall bankans hafi í eðli sínu verið annars konar skipulagsbreytingar en þær sem samningurinn kveði á um. Í samningnum sé engin skilgreining á hugtakinu skipulagsbreyting. Að mati varnaraðila sé ekki hægt að skilja ákvæðið með öðrum hætti en þeim, að hvers konar skipulagsbreyting hjá varnaraðila á gildistíma samningsins sem leitt hafi til starfsloka sóknaraðila, hefði það í för með sér að ákvörðunarvald um greiðslu bónus færðist til varnaraðila.
Með vísan til alls framangreinds telji varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann eigi réttmæta forgangskröfu á hendur varnaraðila. Verði ekki fallist á það telji varnaraðili að krafan geti aldrei staðið framar í réttindaröð en sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Niðurstaða
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að krafa hans að fjárhæð 1.305.000 krónur auk dráttarvaxta frá 1. janúar 2009 til greiðsludags,verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila byggir á samningi aðila frá 1. janúar 2006, sem ber yfirskriftina ,,Samningur um bónusgreiðslur tengdar gengi í Kaupþingi banka hf.“.
Eins og greinir í 2. mgr. 3. gr. samningsins, skyldi sóknaraðili fá bónusgreiðslur sem miða skyldi við kaup á 30.000 hlutum í KB banka á genginu 600 að upphæð 16.500.000 krónur. Sú hækkun sem yrði á genginu til 1. október 2008, skyldi greiðast út sem bónusgreiðslur í lok samningstímans. Í 3. mgr. 3. gr. samningsins segir að greiðslan skuli vera tvískipt og skuli fyrri greiðsla innt af hendi 1. október 2008 og sú síðari 1. janúar 2009. Sóknaraðili fékk greidda bónusgreiðslu í samræmi við samning þennan 1. október 2008, en eins og greinir í málsatvikakafla skipaði Fjármálaeftirlitið varnaraðila skilanefnd 9. október 2008, í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008. Sóknaraðila var sagt upp störfum með uppsagnarbréfi 29. október 2008 og var þegar leystur undan vinnuskyldu sinni gagnvart varnaraðila.
Í 4. gr. samningsins eru ákvæði um bónusgreiðslur við starfslok. Í 1. mgr. 4. gr. hans er kveðið á um áhrif uppsagnar starfsmanns fyrir þann tíma sem bónusgreiðslur skyldu greiddar (1. október 2008), en í því tilviki skyldu bónusgreiðslur falla niður. Jafnframt segir í 1. mgr. 4. gr. samningsins að ef komi til starfsloka í kjölfar skipulagsbreytinga KB banka eða tilfærslna í starfi sé litið svo á að starfsmaður segi sjálfur upp störfum og hafi þá bankinn fullan ákvörðunarrétt um hvort bónus skuli greiddur.
Í 2. mgr. 4. gr. samningsins er kveðið á um starfslok sem verða fyrir 1. janúar 2009. Með sama hætti og í 1. mgr. 4. gr. samningsins er kveðið á um áhrif þess á bónusgreiðslur að starfsmaður segi sjálfur upp störfum, fyrir 1. janúar 2009, að starfsmanni sé sagt upp vegna brota í starfi, eða hann uppfylli ekki önnur skilyrði samningsins. Í þessum tilvikum hafi KB banki rétt á að fella niður allar bónusgreiðslur sem tengjast samningi þessum.
Jafnvel þótt ekki sé berum orðum tiltekið í 2. mgr. 4. gr. samningsins hvernig fari um bónusgreiðslur starfsmanns, komi til starfsloka hans í kjölfar skipulagsbreytinga hjá KB banka eða tilfærslna í starfi, líkt og gert er í 1. mgr. 4. gr. hans, er ljóst að megintilgangur með 4. gr. samningsins er að kveða á um hvernig fari um bónusgreiðslur ef tiltekin atvik verða, annars vegar hjá starfsmanni og hins vegar hjá KB banka. Ákvæði þetta verður ekki túlkað svo þröngt að úrslitum ráði að ekki sé tiltekið í 2. mgr. þess hvernig fari um bónusgreiðslur, komi til starfsloka í kjölfar skipulagsbreytinga KB banka eða tilfærslna í starfi, heldur verður að túlka ákvæði 1. og 2. mgr. 4. gr. samningsins saman og heildstætt. Hvorugt ákvæðanna verður slitið úr samhengi við hitt. Þau varða sömu atvik og standa engin rök til þess að túlka ákvæði 2. mgr. 4. gr. samningsins á þann veg, að það taki ekki til þess hvernig með skuli fara, ef skipulagsbreytingar verða á starfsemi varnaraðila eftir 1. október 2008 og fyrir 1. janúar 2009.
Í 4. gr. samnings aðila er kveðið á um að bankinn hafi fullan ákvörðunarrétt um hvort bónus verði greiddar, komi til starfsloka í kjölfar skipulagsbreytinga KB banka, eða tilfærslna í starfi, án þess að nánar sé gerð grein fyrir því hvað felist í hugtakinu skipulagbreytingar.
Eins og að framan greinir skipaði Fjármálaeftirlitið varnaraðila skilanefnd 9. október 2008. Þá var starfsemi varnaraðila stokkuð upp og í kjölfarið hætti sóknaraðili störfum hjá varnaraðila. Þær skipulagsbreytingar sem urðu við skipun skilanefndar yfir varnaraðila leiddu til grundvallarbreytinga á starfsemi varnaraðila og verður vart komið við meiri skipulagsbreytingum á starfsemi varnaraðila, en urðu þá. Ákvæði 4. gr. samnings aðila tekur því fullum fetum til þeirra skipulagsbreytinga sem urðu hjá varnaraðila og var það varnaraðila í sjálfsvald sett, samkvæmt ákvæði 4. gr. samnings aðila, hvort hann greiddi sóknaraðila bónus þann sem greiða skyldi 1. janúar 2009. Varnaraðili hefur hafnað því og á sóknaraðili, með vísan til framangreinds rökstuðnings, þegar af þeim ástæðum ekki réttmæta kröfu á hendur varnaraðila.
Kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila verður því hafnað.
Í ljósi þessara úrslita málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað að fjárhæð 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Helgi Sigurðsson hrl. og af hálfu varnaraðila Þröstur Ríkharðsson hdl.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, Ásgeirs Jónssonar, á hendur varnaraðila Kaupþingi banka hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.