Hæstiréttur íslands

Mál nr. 472/2002


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Hæfi dómara
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. september 2003.

Nr. 472/2002.

Akureyrarbær

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

gegn

Guðrúnu Sigurðardóttur

(Sif Konráðsdóttir hrl.)

og gagnsök

 

Ómerking. Heimvísun. Hæfi dómara. Gjafsókn.

Hæstiréttur ómerkti dóm héraðsdóms og málsmeðferð í héraði frá og með aðalmeðferð, þar sem dóttir héraðsdómara og sonur vitnis, sem leitt var fyrir héraðsdóm, eru í hjúskap. Þóttu slík tengsl vera til þess fallin, að dómurinn hefði ekki yfirbragð fyllsta hlutleysis, sbr. g. lið 5 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. október 2002. Hann krefst þess aðallega, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara er krafist sýknu. Í báðum tilvikum krefst aðaláfrýjandi  málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málinu var gagnáfrýjað 15. janúar 2003. Gagnáfrýjandi, sem hefur gjafsókn á báðum dómstigum, krefst þess aðallega, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 6.197.846 krónur með nánar greindum dráttarvöxtum. Krafist er staðfestingar á málskostnaðarákvæði héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til þrautavara krefst gagnáfrýjandi þess, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 4.777.409 krónur eða skaðabætur að álitum, hvorttveggja með nánar greindum dráttarvöxtum, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína um ómerkingu og heimvísun á því, að héraðsdómari hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins annars vegar vegna tengsla við eitt vitna og hins vegar vegna setu sinnar í bæjarstjórn Akureyrar og bæjarráði á þeim tíma, sem ráðningarsamningar hafi verið gerðir við gagnáfrýjanda og þann starfsmann aðaláfrýjanda, sem hún ber launakjör sín saman við.

Gagnáfrýjandi andmælir ómerkingarkröfunni og bendir á, að aðaláfrýjandi hafi ekki í héraði borið brigður á hæfi héraðsdómara, þótt honum hafi verið það í lófa lagið.

Að ákvörðun Hæstaréttar var málið eingöngu flutt um aðalkröfu aðaláfrýjanda, þegar það kom til munnlegs flutnings 10. þessa mánaðar. Gagnáfrýjandi krefst þess, að kröfunni verði hafnað.

Fram er komið, að dóttir héraðsdómara og sonur vitnis, sem gagnáfrýjandi leiddi í héraði, eru í hjúskap. Þykja slík tengsl vera til þess fallin, að dómurinn hafi ekki yfirbragð fyllsta hlutleysis. Þegar af þessari ástæðu var héraðsdómari ekki bær til að ljúka dómi á málið, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því að ómerkja héraðsdóm og málsmeðferð í héraði frá og með aðalmeðferð og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur og málsmeðferð í héraði frá og með aðalmeðferð skulu vera ómerk og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, Guðrúnar Sigurðardóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 175.000 krónur.

                                               

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. júlí 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 29. maí s.l., hefur Guðrún Sigurðardóttir, Múlasíðu 46, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Akureyrarbæ, Geislagötu 9, Akureyri.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega, að stefndi greiði henni kr. 6.197.846,- auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni kr. 4.777.409,- ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til greiðsludags.  Til þrautavara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að álitum ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 28. júlí 1996, eða öðrum degi að mati dómsins, og skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hennar hendi.

I.

Í máli þessu er deilt um hvort stefndi hafi mismunað stefnanda á grundvelli kynferðis við ákvörðun launakjara hennar.

Málsatvik eru þau, að stefnandi hóf störf hjá stefnda árið 1984 sem félagsráðgjafi á Félagsmálastofnun bæjarins.  Næsti yfirmaður var félagsmálastjóri.  Voru verkefni stefnanda á sviði barnaverndar, fjárhagsaðstoðar og ýmis konar ráðgjafar.  Allt frá þeim tíma og þar til á árinu 2001 tók stefnandi laun skv. kjarasamningi starfsmannafélags Akureyrarbæjar (STAK) og stefnda.

Árið 1988 tók stefnandi við stöðu deildarstjóra á Félagsmálastofnun (deildarstjóri ráðgjafardeildar).  Félagsmálastjóri var næsti yfirmaður stefnanda og á sama sviði störfuðu nokkrir aðrir deildarstjórar hliðsettir stefnanda, m.a. deildarstjóri leikskóladeildar, deildarstjóri öldrunardeildar og íþrótta- og tómstundafulltrúi.  Verkefni deildarstjóra var að gera fjárhagsáætlanir, verkstýra deildinni, ráða starfsfólk, skipta með því verkum og hafa eftirlit með því, auk verkefna tengdum þróun málaflokkanna sem undir deildarstjórann heyrðu.  Deildarstjóri bar ábyrgð á starfsemi deildarinnar, þ.m.t. barnavernd, fjárhagsaðstoð, ráðgjöf við skjólstæðinga deildarinnar, vinnumiðlun, leiguíbúðum stefnda, varnarstarfi á sviði félagslegra vandamála og samstarfi við tengdar stofnanir.  Deildarstjóri átti að hafa frumkvæði að nýjungum á starfssviði sínu og gera um það stefnumarkandi tillögur til yfirstjórnar stefnda.  Hlutverk hans var að stjórna starfsemi stefnda í félagslegum ráðgjafarmálum í samræmi við lög, reglugerðir, samþykktir, sett markmið bæjarstjórnar og fjárhags- og greiðsluáætlanir á hverjum tíma.  Deildarstjóri kom að stjórnun félags- og fræðslusviðs stefnda.

Hluti launakjara stefnanda í deildarstjórastarfi voru 44 fastir yfirvinnutímar á mánuði.  Var þeim ætlað að ná til allrar tilfallandi yfirvinnu.  Þá hafði hún fastan aksturssamning um 200 km á mánuði.  Frá 1. apríl 1993 var stefnanda sagt upp 11 af hinum föstu yfirvinnutímum með þriggja mánaða fyrirvara.  Stefnandi var á leið í fæðingarorlof er þetta var og fékk Valgerður Magnúsdóttir, er leysti hana af í fæðingarorlofinu frá júní 1993 til maí 1994, greidda 44 yfirvinnutíma á mánuði.

Langflestir starfsmenn stefnda fengu greidd laun samkvæmt kjarasamningi stefnda og STAK og við röðun í launaflokka var tekið mið af starfsmati.  Í stafsmatsnefnd áttu sæti fulltrúar STAK og stefnda auk oddamanns, Böðvars Guðmundssonar, sem jafnframt var sérfræðingur nefndarinnar.  Kjör starfsmanna sem aðild áttu að öðrum kjarasamningum voru utan starfsmats.  Einstaka starfsmenn aðrir, einkum æðstu embættismenn stefnda, stóðu einnig utan starfsmats þótt einhverjir þeirra ættu aðild að STAK og munu launakjör þeirra hafa ráðist af einstaklingsbundnum samningum sem tóku mið af kjarasamningi verkfræðinga og stefnda.

Þann 10. júlí 1995 kom fram beiðni jafnréttisnefndar stefnda til kjaranefndar hans þess efnis, að „gerð verði örlítil tilraun til að nýta starfsmat til samanburðar launa og starfa karla og kvenna í deildarstjórastöðum hjá Akureyrarbæ, út fyrir þann hóp sem samkvæmt samningum gangast undir starfsmat.“  Var óskað eftir samanburði á störfum þriggja para, 1 a) deildarstjóra leikskóladeildar og b) deildarstjóra öldrunardeildar, 2 a) jafnréttis- og fræðslufulltrúa og b) atvinnumálafulltrúa og 3 a) deildarstjóra ráðgjafardeildar og b) deildartæknifræðings á tæknideild.  Voru konur í störfum merktum a) en karlar í störfum merktum b).  Í bréfi formanns Jafnréttisnefndar til kjaranefndar STAK kom fram, að forsenda þess að einmitt þessi pör voru valin hafi verið sú að ekki voru fleiri deildarstjórastöður skipaðar konum hjá stefnda.  Reynt hafi verið að velja á móti störf, sem í fljótu bragði hafi virst sambærileg, verið skipuð körlum og verið á öðrum sviðum.

Bæjarráð stefnda samþykkti umrædda beiðni þann 3. ágúst 1995 og að ákvörðun ráðsins gerðu einungis oddamaður starfsmatsnefndar og fulltrúar stefnda í nefndinni umbeðinn samanburð en ekki fulltrúar STAK, þar sem tilgreindir starfsmenn tóku ekki allir laun samkvæmt kjarasamningi STAK við stefnda.

Í skilgreiningu starfsmatskerfis þess, sem notað var við hina „örlitlu tilraun“, segir m.a., að um sé að ræða kerfisbundna aðferð við að bera saman afmarkaða og skilgreinda þætti viðfangsefna og lúti tilgangur matsins að því að finna innbyrðis afstætt gildi starfa, sem hafa megi til hliðsjónar við grunnröðun þeirra í launaflokka.  Þá kemur fram, að matsþættir séu hæfni (um 45 %), aðgæsla (um 28 %), álag (um 16 %) og vinnuskilyrði (um 11 %).  Hver þáttur sé svo metinn til stiga á nánar tilgreindum forsendum, er horfi m.a. til þekkingar og reynslu, krafna um frumkvæði og árverkni í starfi, vitneskju um trúnaðarmál, hættu á því að valda öðrum meiðslum í starfi og þeirra þátta í starfsumhverfinu, sem áhrif hafi á vinnuskilyrði.

Samkvæmt framlögðu uppkasti að starfslýsingu fyrir starf deildartæknifræðings tæknideildar, dags. 4. febrúar 1991, var deildartæknifræðingur yfirmaður gatna- og framkvæmdadeildar, undirdeildar tæknideildar.  Hann bar ábyrgð á rekstri deildarinnar, samræmdi störf starfsmanna hennar og fylgdist með að þau væru vel af hendi leyst.  Bar deildartæknifræðingi að tryggja sem hagkvæmasta og besta þjónustu deildar sinnar og að leita hagkvæmustu leiða við nýframkvæmdir og viðhald gatna og holræsa.  Þá bar deildartæknifræðingi að stuðla að því að næg þekking væri til staðar hjá starfsfólki deildarinnar.  Kom deildartæknifræðingur að stjórnun tæknideildar og sat hann fundi með deildarstjórum deildarinnar undir forystu yfirverkfræðings hennar.

Stjórnunarsvið deildartæknifræðings var samkvæmt lýsingunni að stjórna starfsemi gatna- og framkvæmdadeildar í samræmi við sett markmið bæjarstjórnar og fjárhags-, framkvæmda- og greiðsluáætlanir.  Bar deildartæknifræðingur ábyrgð gagnvart yfirverkfræðingi tæknideildar á öllum stjórnunaraðgerðum.

Helstu verkefni deildartæknifræðings samkvæmt umræddri lýsingu voru að bera ábyrgð á að fjárhagsáætlun gatna- og framkvæmdadeildar væri framfylgt.  Skipti hann verkefnum meðal starfsmanna deildarinnar og annaðist skráningu og færslur á vinnutíma þeirra.  Þá hafði hann umsjón með nýframkvæmdum og viðhaldi gatna og holræsa.  Einnig hafði hann umsjón með hreinlætismálum, þ.e. snjómokstri og sandburði, hreinsun gatna og opinna svæða, sorphreinsun, sorphaugum og holræsahreinsun.

Niðurstaða starfsmatshópsins lá fyrir síðla í júnímánuði 1996, sbr. bréf Dans Brynjarssonar til Kjarasamninganefndar stefnda, dags. 28. júní 1996.  Í bréfinu kom fram, að störfin hefðu verið metin miðað við fyrirliggjandi starfslýsingar og gildandi starfsmatskerfi og hefði þá engu skipt hvort karl eða kona gegndi viðkomandi starfi.  Engin afstaða hefði því verið tekin til þess „hvort störfin séu sambærileg á grundvelli „pörunar“ jafnréttisnefndar eða hvort störfin tilheyri dæmigerðum karla- eða kvennastéttum.“.  Var niðurstaða hópsins eftirfarandi,:  Starf deildarstjóra leikskóladeildar 168 stig, starf deildarstjóra öldrunardeildar 172 stig, starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa 167 stig, starf atvinnumálafulltrúa 170 stig, starf deildarstjóra ráðgjafardeildar 169 stig og  starf deildartæknifræðings tæknideildar 169 stig.  Þrjú umræddra starfa, störf deildarstjóra öldrunardeildar og ráðgjafardeildar og jafnréttis- og fræðslufulltrúa, höfðu áður verið metin í starfsmati með hefðbundnum hætti og var sú niðurstaða látin standa í úrlausn starfsmatshópsins.

Í febrúar 1998 lá fyrir skýrsla Félagsvísindastofnunar um könnun á launamun kvenna og karla hjá stefnda.  Niðurstaða hennar var að verulegur munur væri á kjörunum eftir kyni.

Með bréfi dags. 30. mars 1998 sagði stefnandi sig úr STAK, en í bréfinu kvað hún ástæðu úrsagnarinnar vera langvarandi óánægja með launakjör.  Þann 29. janúar 1999 dró stefnandi úrsögn sína til baka með þeim skýringum, að bæjaryfirvöld viðurkenndu ekki möguleika félagsráðgjafa á því að skipta um stéttarfélagsaðild á miðju samningstímabili.

Með bréfi til bæjarráðs stefnda, dags. 8. apríl 1998, óskaði stefnandi eftir því, að kjör hennar yrðu leiðrétt með hliðsjón af kjörum deildartæknifræðings í tæknideild, væri munur á þeim.  Þessu erindi stefnanda hafnaði stefndi, sbr. bókun þar um í bæjarráði þann 16. júlí 1998.

Með bréfi dags. 7. janúar 2002 krafði stefnandi stefnda um það sem hún kvað vera launamun á starfi sínu og starfi deildartæknifræðingsins, auk dráttarvaxta.  Þeirri kröfu hafnaði stefndi með bréfi dags. 24. janúar 2002.

Niðurstaða fyrrnefnds starfsmatshóps hefur áður verið notuð í málum sem rekin hafa verið gegn stefnda á grundvelli ákvæða jafnréttislaga.  Þann 23. febrúar 1998 lá fyrir niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli er fyrrum jafnréttis- og fræðslufulltrúi stefnda, Ragnhildur Vigfúsdóttir, bar undir nefndina í kjölfar niðurstaðna starfsmatshópsins.  Komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu, að sá mismunur sem verið hefði á launum og öðrum kjörum atvinnumálafulltrúa og jafnréttisfulltrúa, hefði brotið gegn jafnréttislögum.  Ragnhildur höfðaði því næst mál (E-59/1999) á hendur stefnda og þann 4. nóvember 1999 dæmdi héraðsdómur, að munur á launum og öðrum starfskjörum jafnréttisfulltrúa og atvinnumálafulltrúa á tilteknu tímabili hefði brotið gegn jafnréttislögum.  Sú niðurstaða var staðfest af Hæstarétti Íslands þann 31. maí 2000, í máli nr. 11/2000.

 

II.

Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir fjártjóni vegna brota stefnda gegn ákvæðum 4.gr., sbr. 6. gr., jafnréttislaga nr. 28, 1991, sbr. nú 14. gr., sbr. 22. og 23. gr. laga nr. 96, 2000, við launaákvarðanir.

Heldur stefnandi því fram, að stefndi hafi undirstrikað skyldur sínar og fyrirætlanir á umræddu sviði sérstaklega með samþykkt jafnréttisáætlunar fyrir tímabilið 1993-1997.  Í grein 2.2.2. hafi því verið lýst yfir, að við ákvörðun launa og annarra fríðinda hjá stefnda skyldi þess gætt að kynjum væri ekki mismunað.  Í því sambandi skyldi sérstaklega horft til þess að meta jafnt mismunandi starfssvið, reynslu og menntun karla og kvenna.  Í núgildandi jafnréttisáætlun, samþykktri í bæjarstjórn 15. desember 1998 segi auk þess í grein 2.2.2., að unnið skuli markvisst að því að leiðrétta þann launamismun kynjanna, sem rannsóknir hafi leitt í ljós.

Í skýrslu Félagsvísindastofnunar frá 1998 um samanburðarkönnun, sem stefndi hafi beðið stofnunina að gera á launamun karla og kvenna hjá stefnda, kveður stefnandi koma fram, að karlstjórnendur hjá stefnda hafi að meðaltali haft 15 sinnum hærri greiðslur en kvenstjórnendur vegna fastra aksturssamninga.  Í niðurstöðum skýrslunnar komi einnig fram, að konur hafi verið með rúm 70 % af launum karla, að karlar séu líklegri til að vera í stjórnunarstöðum, að nokkuð sé um hefðbundin karla- og kvennastörf og að konur í sambærilegum störfum á sambærilegum starfssviðum hafi að meðaltali um 24 % lægri laun en karlar.  Þá komi í ljós, að áhrif starfs og starfssviðs séu ekki þau sömu á laun karla og kvenna.  Karlar í stjórnunarstörfum séu með mun hærri laun en karlar í sérfræðistörfum, en sá launamunur sé ekki til staðar hjá konum.  Niðurstaða könnunarinnar sé, að aukin ábyrgð í starfi virðist ekki skila sér í hærri launum til kvenna eins og hún geri hjá körlum.  Fram komi í skýrslunni, að niðurstöðurnar gefi til kynna að launamunur eftir kyni sé mestur í hæst launuðu störfunum.  Kveður stefnandi skýrsluna sýna vel ástandið hjá stefnda á þeim tíma sem hún taki til og sé hún því málatilbúnaði stefnanda til stuðnings.

Þá bendir stefnandi á að í inngangi núgildandi jafnréttisáætlunar stefnda segi, að leiðarljós áætlunarinnar sé að sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í líf bæjarbúa og alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum bæjarins.  Þar segi einnig, að formlegt og lagalegt jafnrétti kynjanna nægi ekki ef það skili sér ekki í raunverulegu jafnrétti í lífi og starfi.  Í inngangi áætlunarinnar lýsi bæjarstjórn stefnda og yfir vilja til að jafna stöðu karla og kvenna og að í því skyni þurfi sérstaklega að styrkja og bæta hlut kvenna.

Heldur stefnandi því fram, að stefndi hafi ekki staðið við framangreindar skuldbindingar.  Málsókn stefnanda byggi á því, að stefndi hafi brotið gegn jafnréttislögum við ákvarðanir um laun hennar.  Hafi stefndi valdið henni tjóni með saknæmri og ólögmætri athöfn eða athafnaleysi með því að greiða henni ekki sömu eða sambærileg laun og körlum sem unnið hafi sambærileg og jafnverðmæt störf hjá stefnda.  Fullyrðir stefnandi að í tveimur dómsmálum, að undangengnum tveimur álitum þáverandi kærunefndar jafnréttismála, hafi verið staðreynt, að stefndi hafi brotið jafnréttislög í hliðstæðum tilvikum og stefnanda.

Kveðst stefnandi margoft og ítrekað hafa krafist leiðréttinga á launum sínum.  Hún hafi margoft rætt launakjör sín við yfirmenn sína og gert þeim grein fyrir óánægju sinni eftir atvikum.  Allt frá árinu 1991 hafi legið fyrir, að fleiri konur í stjórnunarstöðum hjá stefnda væru óánægðar og teldu laun sín lægri en karla í sambærilegum stjórnunarstöðum.  Þannig hafi konur í deildarstjórastöðum hjá stefnda haft samband við þáverandi jafnréttisfulltrúa vegna óánægju með kjör sín í samanburði við karla sem gegndu deildarstjórastöðum hjá stefnda.

Stefnandi kveður lækkun þá er gerð hafi verið á föstum yfirvinnugreiðslum til hennar árið 1993 hafa verið óeðlilega og ekki í takt við yfirvinnuþörfina.

Stefnandi kveðst byggja á því, að samanburður hafi farið fram árið 1996 á starfi hennar og deildartæknifræðings í tæknideild.  Í þessum samanburði hafi stefndi tekið fullan þátt og átt kost á að koma sínum sjónarmiðum að í hvívetna.  Tilgangur starfsmats sé að ákveða „verðmæti“ starfa út frá hlutlægum mælikvarða.  Niðurstaðan hafi orðið ótvíræð hvað varðaði viðmiðunarstarf starfs stefnanda.  Störfin séu því sambærileg og jafnverðmæt í skilningi 4. gr. sbr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28, 1991, sbr. nú 14. gr., sbr. 22. og 23. gr. laga nr. 96, 2000 svo sem þau ákvæði verði skýrð með hliðsjón af tilgangi jafnréttislaga, dómafordæmum, stjórnarskrá og skuldbindingum skv. EES-samningnum.  Margdæmt sé að mismunandi kjarasamningar geti ekki einir sér réttlætt launamun í málum sem þessum, en deildartæknifræðingurinn hafi fengið greitt samkvæmt kjarasamningi verk- og tæknifræðinga.

Stefnandi kveður stefnda hafa samið við aðrar þær konur er gegnt hafi þeim störfum sem borin voru saman samhliða samanburði á starfi hennar og deildartæknifræðingsins.  Stefnandi sé sú eina af þessum konum sem enn starfi hjá stefnda og sé starfsaldur hennar mun lengri en þeirra hafi verið.

Stefnandi kveðst í aðalkröfu krefjast skaðabóta vegna mismunar launa og annarra kjara í starfi stefnanda og í starfi deildartæknifræðings (viðmiðunarstarfsins) á tímabilinu 1. mars 1992 til 31. ágúst 2000, afvaxtað miðað við þingfestingardag.  Inn í þann útreikning sé tekinn mismunur fastra launa á tímabilinu, auk mismunar yfirvinnu reiknaður sem tímafjöldi stefnanda í fastri yfirvinnu margfaldaður með mismun yfirvinnutaxta deildartæknifræðings í tæknideild og stefnanda og loks mismunur fastra akstursgreiðslna.

Stefnandi kveðst á árinu 1992 hafa notið fastra greiðslna fyrir akstur, 200 km á mánuði, en deildartæknifræðingur hafi haft fastar greiðslur fyrir 600 km sem hækkað hafi í 700 km í janúar 1995.  Fastar akstursgreiðslur til stefnanda hafi frá árinu 1997  verið fyrir 500 km á mánuði.  Kveðst stefnandi telja það almennt viðurkennt, að hjá stefnda sé það og hafi verið, að samningar um fastar akstursgreiðslur til yfirmanna stefnda væru í raun að verulegu leyti launabætur sem ekki hafi endilega haft neitt að gera með raunverulegan akstur.  Stefnandi kveðst telja að stefndi verði að sýna fram á að fastar akstursgreiðslur til deildartæknifræðings hafi allar verið samkvæmt raunverulegum akstri.  Því telji stefnandi, að sá mismunur sem verið hafi á ákvörðun um fastar akstursgreiðslur hafi verið launamismunun í skilningi  jafnréttislaga, þegar stefnandi hafi í upphafi þess tímabils sem miðað sé við í málinu einungis haft um þriðjung þeirra greiðslna sem deildartæknifræðingur hafi haft, síðan aðeins 28 % á árununum 1995 til 1997 en frá árinu 1997 hins vegar 70 % af greiðslum deildartæknifræðings.  Á meðan stefndi sýni ekki fram á að raunverulegur akstur deildartæknifræðings í viðmiðunarstarfi hafi numið meira en nam mismuni á akstursgreiðslum til hans og stefnanda sé ljóst að ólögmæt launamismunun  hafi falist í mismunandi greiðslum fyrir akstur.

Fram kemur hjá stefnanda að hún hafi haft fastar yfirvinnugreiðslur á því tímabili sem um ræðir, fyrst 44 stundir á mánuði, síðan 33 stundir.  Deildartæknifræðingur hafi hins vegar samkvæmt launaseðlum fengið mismunandi yfirvinnugreiðslur í hverjum mánuði, en fyrir fleiri tíma en stefnandi.  Kveðst stefnandi ganga út frá því, að báðir hafi unnið þá yfirvinnu sem greitt hafi verið fyrir og mismunurinn reiknaður með framangreindum hætti til að nálgast raunverulegan launamismun þar sem að mati stefnanda sé ekki unnt að bera saman heildargreiðslur fyrir yfirvinnu aðila þar sem þær hafi mismunandi grundvöll.

Frá árinu 1992 a.m.k. hafi föst laun deildartæknifræðings verið um 25-30% hærri en föst laun stefnanda.  Árið 1999 hafi föst laun deildartæknifræðings „aðeins“ (sic) verið um 15% hærri en föst laun stefnanda.  Þegar hins vegar hafi verið tekinn upp svokallaður embættismannasamningur við stefnanda á árinu 2000 hafi föst laun hennar orðið hærri en föst laun deildartæknifræðingsins.  Frá sama tíma hafi hins vegar fallið niður samningur stefnanda um fastar akstursgreiðslur.  Föst laun stefnanda frá þeim tíma séu kr. 250.000,-.  Á sama tíma séu föst mánaðarlaun deildartæknifræðings um kr. 225.000,-.  Þegar þau séu lögð við fastar mánaðarlegar akstursgreiðslur, um kr. 35.000,-, séu laun deildartæknifræðingsins hærri en laun stefnanda sem nemi um kr. 10.000,- á mánuði.  Bendi launamunur nú til þess að starf deildartæknifræðings telst eitthvað verðminna en starf stefnanda.

Varakröfu sína kveður stefnandi byggja á útreikningi á mismuni fastra launa og yfirvinnugreiðslna reiknaðra eins og að framan greini og þrautavarakrafa sé rökstudd með því að telji dómurinn örðugt að sýna fram á tjón stefnanda megi ákvarða bætur að álitum samkvæmt dómvenju.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til þess, að reglan um jafnrétti karla og kvenna sé vernduð af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. 2. mgr 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995.

Vísar stefnandi jafnframt til 1. gr. jafnlaunatilskipunar Evrópusambandsins, nr. 75/117/EBE sbr. 69. gr. og XVIII. viðauka EES-samningsins, sbr. 3. gr. laga nr. 2, 1993 um evrópska efnahagssvæðið.

Þá vísar stefnandi til þess tilgangs þágildandi og núgildandi jafnréttislaga, sbr. 1. gr. laganna, að koma á jafnrétti og jafnri stöðu karla og kvenna á öllum sviðum og að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

III.

Stefndi kveður stefnanda hafi verið ráðna til starfa hjá stefnda 1984 og hafi hún gegnt núverandi starfi allt frá 1988.  Þar sem skaðabótakröfur fyrnist á 10 árum byggi stefndi á því, að krafa stefnanda hafi fyrnst í síðasta lagi 1998.  Ráðningarsamningur aðila hljóti að ráða úrslitum um fyrningu meintrar bótakröfu, en framlagður ráðningarsamningur sé dagsettur 3. október 1984.  Vanreifun stefnanda á stofnunartíma meintrar bótakröfu valdi stefnda vandkvæðum við framsetningu sýknukröfu byggðri á fyrningu.  Þó sé það hald stefnda að miðað við forsendur stefnanda sjálfs þá sé krafa hennar fyrnd.  Þá megi ráða af stefnu, að stefnandi hafi þurft að þola meint launamisrétti allt frá 1991.  Fráleitt sé að stefnandi geti sjálf kosið upphafsdag meintrar skaðabótakröfu og haft þannig ákvörðunarvald um það hvort krafan sé fyrnd eður ei.  Dagsetning meints réttarbrots stefnda hljóti ætíð að vera sú sama og geti ekki ráðist af óútskýrðum og órökstuddum hentugleika stefnanda.

Þá kveður stefndi ótækt að stefnandi geti komið fram með skaðabótakröfu vegna meints launamisréttis 18 árum eftir að hún var ráðin til starfa hjá stefnda.  Stefnda sé ekki kunnugt um að stefnandi hafi gert athugasemdir vegna launakjara sinna og mótmæli hann því fullyrðingum hennar í þá veru.  Þá hafi stefnandi tekið fyrirvaralaust við launagreiðslum allan þann tíma sem hún hafi starfað hjá honum og ekki gert áskilnað um bætur fyrr en 1998.  Þessi háttsemi stefnanda hafi leitt til þess að meint skaðabótakrafa hafi fallið niður vegna tómlætis og fyrirvaralausrar viðtöku launa í a.m.k. 14 ár.

Verði ekki fallist á að meint krafa stefnanda sé fallin niður vegna fyrningar eða tómlætis kveðst stefndi byggja á því að hann hafi ekki brotið ákvæði jafnréttislaga.

Stefndi kveður störf stefnanda og deildartæknifræðings ekki sambærileg, enda sé ekki á því byggt af hálfu stefnanda.  Stefnandi hafi engin rök fært fyrir því að störfin séu sambærileg.  Í stefnu sé ekki gerð nein tilraun til samanburðar á störfunum, starfi deildartæknifræðings sé ekki lýst, en það eitt og sér hljóti að leiða til sýknu þar sem dómkröfurnar njóti ekki lögverndar nema störf séu sambærileg.

Stefndi kveður umrædd störf á engan hátt sambærileg, líkt og ráða megi af starfslýsingum, þvert á móti séu þau algerlega ósambærileg.  Bendir stefndi á að niðurstaða starfsmats segi ekkert til um það hvort störfin séu sambærileg.

Þá byggir stefndi jafnframt á því, að ákvörðun launakjara stefnanda og deildartæknifræðings hafi byggt á hlutlægum sjónarmiðum, óháð kynferði.  Launakjör stefnanda hafi verið ákvörðuð á grundvelli kjarasamnings STAK og launanefndar sveitarfélaga.  Launakjör deildartæknifræðings hafi í einu og öllu farið eftir ákvæðum kjarasamnings verk- og tæknifræðinga og launanefndar sveitarfélaga.  Stefnandi og sá starfsmaður stefnda, sem gengt hafi starfi deildartæknifræðings, hafi verið settir í launaflokk í samræmi við ákvæði kjarasamninga.  Stefndi hafi ekki heimildir til að skikka launþega til aðildar að ákveðnum stéttarfélögum og þar með kjarasamningum og  fái hann ekki séð hvernig ráðningarkjör, algerlega ákvörðuð á grundvelli kjarasamninga, geti falið í sér brot á jafnréttislögum.  Stefnandi verði a.m.k. að sanna slíkt þar sem aðferð stefnda við launaákvarðanir bendi ekki til að kynferði hafi legið til grundvallar launamun.  Það sé rangt hjá stefnanda að margdæmt sé að mismunandi kjarasamningar geti einir sér ekki réttlætt mismunandi laun á milli kynja.  Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á, byggt á, né gert grein fyrir því, að launaákvarðanir hans hafi byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum.  Þá komi hvergi fram í stefnu hvað sé saknæmt við launaákvarðanir stefnda.

Stefndi heldur því fram, að hann hafi sagt upp hluta af fastri yfirvinnu stefnanda þar sem vinnuframlag hennar hafi verið miklu mun minna en 44 yfirvinnuklukkustundir á mánuði.

Heldur stefndi því einnig fram í málinu, að launakjör stefnanda og deildartæknifræðings séu ekki samanburðarhæf vegna ólíks starfsaldurs.  Sá starfsmaður sem gegnt hafi starfi deildartæknifræðings á umræddu tímabili hafi haft mun hærri starfsaldur en stefnandi, en slíkt leiði til hærri launagreiðslna.  Til þessa hafi stefnandi hvorki tekið tillit í dómkröfum sínum né séð ástæðu til að fjalla sérstaklega um það.  Mismunandi starfsaldur umræddra starfsmanna hafi því réttlætt þann mun sem verið hafi á föstum launum aðila.  Slík mismunun sé málefnaleg og óháð kynferði.

Þá byggir stefndi á því, að laun verk- og tæknifræðinga hafi um langt skeið verið eitthvað hærri en annarra starfsmanna, óháð kyni, sem skýrist m.a. af markaðslegum ástæðum og því að umrædd menntun sé almennt dýrari á vinnumarkaðinum en önnur sambærileg.  Þannig hafi laun umrædds deildartæknifræðings verið hærri en laun deildarstjóra öldrunardeildar, skóladeildar og íþrótta- og tómstundadeildar, þrátt fyrir að karlmenn gegni þessum störfum og þau hafi verið jafnverðmæt eða verðmætari skv. starfsmati.  Ljóst sé því að mismunur á launum stefnanda og umrædds deildartæknifræðings hafi ráðist af málaefnalegum ástæðum ótengdum kynferði.

Stefndi kveður fráleitt að almennar yfirlýsingar geti verið skuldbindandi fyrir hann og skapað stefnanda einhvern rétt.  Þar að auki telji stefndi sig hafa tekið ákvarðanir í málinu í fullu samræmi við þær áætlanir og stefnuyfirlýsingar sem stefnandi vísi til.  Þá skapi tilvitnaðar yfirlýsingar ekki sjálfstæðan rétt til handa stefnanda.

Telur stefndi að stefnanda hafi samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins borið skylda til að takmarka tjón sitt á þann hátt sem henni hafi verið mögulegt.  Þannig hafi stefnandi getað sagt starfi sínu lausu þegar henni varð kunnugt meint launamisrétti og með þeim hætti hafi hún getað komið í veg fyrir frekara tjón.  Þar sem stefnandi hafi látið þetta undir höfuð leggjast verði hún að bera meint tjón sitt sjálf en í stefnu lýsi hún því yfir að hún hafi gert athugasemdir við launakjör sín strax árið 1991.

Stefndi mótmælir því að stefnandi geti núvirt kröfu sína enda sé það ekki rökstutt í stefnu.  Þá telur stefndi að stefnandi verði að miða fjártjón sitt við tjónsdag, eftir atvikum með vöxtum til greiðsludags, enda sé ekki um líkamstjón að ræða.  Stefnandi geti ekki verðbætt kröfuna þar sem lög heimili ekki slíkt.

Sönnunarbyrði í málinu kveður stefndi hvíla á stefnanda.  Horfa verði til þess tíma sem liðinn sé frá ráðningu stefnanda.  Augljóst sé að sönnunarfærsla sé vandkvæðum bundin þegar allt að 18 ár eru liðin frá þeim atvikum sem deilt er um.  Fyrst árið 1998 hafi stefndi haft ástæðu til að ætla að stefnandi færi í mál vegna launakjara sinna.  Stefnandi hafi haft í hendi sér að fara í mál við stefnda þegar hún taldi á sér brotið, a.m.k. hefði verið eðlilegt að hún léti stefnda vita þannig að hann gæti tryggt sér sönnun fyrir fullyrðingum sínum.  Því sé fráleitt að sönnunarbyrðin verði felld á stefnda.  Telur stefndi að fullyrðingar stefnanda séu með öllu ósannaðar

Fallist dómurinn ekki á sýknukröfu stefnda telur stefndi að lækka beri kröfur stefnanda.  Í því sambandi vísar stefndi m.a. til þess sem áður hefur verið rakið varðandi skyldu stefnanda til tjónstakmörkunar, hærri starfsaldurs deildartæknifræðingsins og skorts á lagaheimild til núvirðisreiknings kröfunnar.

Stefndi mótmælir því að akstursgreiðslur til deildartæknifræðings hafi falið í sér launabætur óháðar raunverulegum akstri.  Akstursþörf deildartæknifræðings sé augljóslega mun meiri en stefnanda, en í hans starfi felist m.a. eftirlit með ýmsum verklegum framkvæmdum á vegum stefnda.  Þá fari vinna deildartæknifræðings að töluverðu leyti fram utandyra á sumrin, sem kalli á akstur milli staða.  Öðru máli gegni um starf stefnanda, enda á því byggt að hennar hálfu að aksturspeningar hafi falið í sér launauppbót.

Þá krefst stefndi sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda, sem sé algerlega órökstudd, en í stefnu sé ekki vikið einu orði að kröfunni.

Verði stefndi sýknaður í málinu kveður hann eðlilegt að stefnandi verði dæmd til greiðslu málskostnaðar, enda sé málatilbúnaður hennar á köflum óskiljanlegur og algerlega órökstuddur.  Auk þess séu hafðar uppi í málinu kröfur sem stefnandi hafi mátt vita að væru fyrndar.  Stefndi kveður málshöfðun stefnanda algerlega tilefnislausa og með öllu óskiljanlega, ekki síst þegar litið sé til málatilbúnaðar hennar, en af því hljóti að leiða að stefnanda beri að greiða málskostnað í málinu.  Verði stefndi dæmdur til greiðslu bóta sé rétt að fella málskostnað niður, þar sem eðlilegt og réttmætt sé að taka til varna vegna atvika sem eigi að hafa gerst fyrir hátt í 20 árum.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til laga um fyrningu nr. 14, 1905, sem og meginreglna kröfuréttarins um fyrirvaralausa viðtöku greiðslu og tómlætis kröfuhafa.  Þá byggir stefndi á ákvæðum jafnréttislaga, nr. 65, 1985 og 28,1991, sérstaklega ákvæðum um skilyrði bótaábyrgðar og hvenær mismunandi launakjör séu lögmæt.  Jafnframt byggir stefndi á meginreglum skaðabótaréttarins um skyldu tjónþola til tjónstakmörkunar, sem og þeim sjónarmiðum sem culpa-reglan grundvallist á um saknæmi verknaðar sem skilyrði bótaábyrgðar.  Um sönnunarbyrði í málinu vísar stefndi til 44. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

IV.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28, 1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er í gildi voru stærstan hluta þess tímabils sem um er deilt í málinu, var tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum.  Sérstaklega skyldi bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.  Í 4. gr. laganna var síðan kveðið á um, að konum og körlum skyldu greidd jöfn laun og kynin skyldu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.  Þá sagði í 6. gr. laganna, að atvinnurekendum væri óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gilti það m.a. um: Laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu.

Í 1. gr. laga nr. 96, 2000, er birt voru 22. maí 2000 og leystu lög nr. 28, 1991 af hólmi segir m.a., að tilgangur laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.    Í 14. gr. nefndra laga segir síðan, að konum og körlum er starfi hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.  Jafnframt segir í nefndri grein, að með jöfnum launum sé átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð séu til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun.  Þá segir í 1. mgr. 23. gr. laganna, að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis þess.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja, að svo miklu leyti sem við á.  Samkvæmt 69. gr. samningsins skulu aðildarríkin tryggja, að konur og karlar hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu, en með launum er átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup ásamt öllum öðrum greiðslum sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnuveitanda sínum vegna starfa síns, sbr. og XVIII. viðauka samningsins um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna.  Í 1. gr. tilskipunar ráðsins nr. 75/117/EBE segir, að meginreglan um sömu laun karla og kvenna feli í sér, að afnumin sé öll mismunun vegna kynferðis, að því er varðar sömu störf eða störf sem álitin eru jafnverðmæt, er varðar alla þætti launa og launakjara.

Stefndi undirstrikaði sínar skyldur og fyrirætlanir hvað varðaði baráttu gegn ætluðu kynjamisrétti með samþykkt jafnréttisáætlunar.  Í áætluninni fyrir tímabilið 1993 til 1997, grein 2.2.2. var því lýst yfir, að við ákvörðun launa og annarra fríðinda skyldi þess gætt að kynjum væri ekki mismunað.  Í því sambandi skyldi sérstaklega horft til þess að meta jafnt mismunandi starfssvið, reynslu og menntun karla og kvenna.

V.

Óumdeilt er í málinu, að stefnandi hafi fengið fullar efndir á ráðningarsamningi sínum við stefnda á því tímabili sem mál þetta tekur til.  Af málatilbúnaði stefnanda og ákvæðum 22. gr. laga nr. 28, 1991 og 28. gr. laga nr. 96, 2000 er ljóst, að krafa stefnanda í málinu er skaðabótakrafa, gerð með stoð í settum lögum.  Eins og áður er rakið leggja nefnd lög bann við því að launþegum sé mismunað í launum á grundvelli kynferðis, sbr. 6. gr. laga nr. 28, 1991 og 23. gr. laga nr. 96, 2000.  Samningar um kjör sem brjóta gegn nefndum ákvæðum eru því ólögmætir allt þar þeim er breytt og úr er bætt.  Á meðan hið ólögmæta ástand varir fellur tjón launþegans hins vegar til í þeim mæli sem nemur launamismuninum.  Að þessu athuguðu verður ekki fallist á það með stefnda, að bótakrafa stefnanda í máli þessu hafi tekið að fyrnast frá og með ráðningardegi hennar.  Þar sem stefnandi gerir í málatilbúnaði sínum ekki kröfur vegna tímabilsins fyrir 1. mars 1992 og mál þetta var þingfest þann 28. febrúar 2002 er það niðurstaða dómsins í samræmi við ofangreint, að skaðabótakrafa hennar sé ekki fyrnd, en fyrningarfrestur skaðabótakrafna er 10 ár, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14, 1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Stefndi hefur ekki sýnt fram á að ríkari tómlætisáhrif eigi að gilda um kröfu stefnanda en felast í áðurnefndum lögum nr. 14, 1905.  Verður því að hafna fullyrðingu stefnda um að stefnandi hafi glatað bótarétti fyrir tómlæti sem ósannaðri.

Fyrir liggur í málinu, að deildarstjóri ráðgjafardeildar naut lakari kjara en deildartæknifræðingur á tæknideild á starfstíma stefnanda.

Starfslýsingar fyrir störf deildarstjóra ráðgjafardeildar og deildartæknifræðings hjá tæknideild bera m.a. með sér, að þáttur í framkvæmd beggja starfa hafi verið að skipta verkum milli starfsmanna þeirra deilda er undir starfið heyrðu og hafa eftirlit með starfsmönnunum þeirra.  Báðum störfum fylgdi ábyrgð á deildum og aðild að stjórnun viðkomandi sviða.  Samkvæmt starfslýsingunum hafði deildarstjóri ráðgjafardeildar mannaráðningar á sinni könnu, en deildartæknifræðingur tæknideildar hins vegar ekki.  Þá verður ekki betur séð en starf deildarstjóra ráðgjafardeildar hafi a.m.k. staðið einu þrepi hærra í skipuriti stefnda en starf deildartæknifræðingsins, sbr. þau tvö skipurit stefnda sem lögð hafa verið fram í málinu.

Stefnandi byggir í máli þessu á niðurstöðu starfsmats er framkvæmt var af oddamanni starfsmatsnefndar og fulltrúum stefnda í nefndinni.  Stefndi hefur í málinu ekki dregið niðurstöðu matshópsins í efa.  Hann byggir hins vegar á því, að hin metnu störf, starf deildarstjóra ráðgjafardeildar og deildartæknifræðings á tæknideild hafi ekki verið sambærileg.

Í máli nr. 11/2000 lagði Hæstiréttur Íslands ofangreint starfsmat m.a. til grundvallar við mat á því hvort stefndi hefði brotið gegn jafnréttislögum.  Hefur ekkert nýtt komið fram í máli þessu sem dregur úr gildi niðurstöðu starfsmatsins.

Af framangreindu athuguðu og að teknu tilliti til niðurstöðu títtnefnds starfsmats, þar sem störf deildarstjóra ráðgjafardeildar og deildartæknifræðings tæknideildar voru metin til sama stigafjölda, 169 stiga, þykir stefnanda hafa tekist að sanna að starf stefnanda hafi að minnsta kosti verið sambærilegt og jafnverðmætt starfi deildarstjóra tæknideildar í skilningi laga nr. 28, 1991 og 96, 2000.

Stefndi hefur mótmælt því, að krafa stefnanda geti tekið til þess munar sem var á akstursgreiðslum stefnanda annars vegar og deildartæknifræðingsins hins vegar á umræddu tímabili.  Ekki liggur fyrir í málinu, að könnun hafi farið fram á því hjá stefnda hver hafi verið akstursþörf starfa deildarstjóra ráðgjafadeildar og deildartæknifræðings á tæknideild.  Stefndi hefur ekki lagt fram nein gögn sem skýra þann mun, sem var á akstursgreiðslum vegna umræddra starfa.  Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir stefnda á launum kvenna og karla sem hjá honum störfuðu, en skýrslan er dagsett í febrúar 1998, kom hins vegar í ljós verulegur munur á milli akstursgreiðslna til karla og kvenna.  Í könnuninni kom fram, að karlstjórnendur hjá stefnda hefðu að meðaltali haft 15 sinnum hærri greiðslur en kvenstjórnendur vegna fastra aksturssamninga.  Að framansögðu athuguðu þykir það standa stefnda nær, að sýna fram á að sá munur sem var á akstursgreiðslum stefnanda og deildartæknifræðingsins hafi byggst á málefnalegum og lögmætum ástæðum, en það hefur honum ekki tekist.  Verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

Stefndi hefur haldið því fram, að muninn á launakjörum stefnanda og deildartæknifræðingsins megi m.a. skýra með vísan til markaðslegra aðstæðna, en laun verk- og tæknifræðinga hafi um langt skeið verið eitthvað hærri en annarra starfsmanna.  Stefndi hefur ekki stutt þessa málsástæðu sína haldbærum gögnum og verður þegar af þeirri ástæðu ekki á henni byggt í málinu.

Það er staðreynd að samningsfrelsi á vinnumarkaði sætir þeim takmörkunum, sem leiðir af ákvæðum laga, þ.m.t. jafnréttislaga.  Stefndi getur því ekki réttlætt umræddan launamismun með því einu að vísa til þess að stefnandi og deildartæknifræðingur tæknideildar hafi fengið greitt eftir mismunandi kjarasamningum.

Stefndi hefur borið því við að launakjör stefnanda hafi verið í samræmi við kjör hliðsettra deildarstjóra hjá stefnda.  Í málinu liggur hvorki fyrir heildstætt mat á verðmæti nefndra deildarstjórastarfa né fullnægjandi upplýsingar um launakjör þeirra er störfunum gegndu á umræddu tímabili.  Stefndi hefur því ekki fært nægar sönnur fyrir þessari málsástæðu sinni.

Eins og áður hefur verið rakið hefur stefnanda tekist að færa sönnur á að starf deildarstjóra ráðgjafardeildar hafi a.m.k. verið sambærilegt og jafnverðmætt starfi deildartæknifræðings á tæknideild í skilningi laga nr. 28, 1991 og 96, 2000.  Þykja almennar sönnunarreglur því leiða til þess, sbr. einnig eftir atvikum 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96, 2000, að fella verði sönnunarbyrði á stefnda, um að við ákvörðun launakjara hafi stefnanda ekki verið mismunað á grundvelli kynferðis.  Það hefur stefnda ekki tekist sbr. það sem að framan hefur verið rakið og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.  Þykir af þeim sökum mega slá því föstu, að stefndi hafi á umræddu tímabili, þ.e. frá 1. mars 1992 til 1. ágúst 2000, við ákvörðun launakjara stefnanda, þ.m.t. ákvörðun akstursgreiðslna, mismunað henni á grundvelli kynferðis og þannig brotið gegn 1. mgr. 4. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28, 1991 og 1. mgr. 14. gr., sbr. 1. mgr. 22. og 1. mgr. 23. gr., laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með vísan til framangreinds brots stefnda á lögum nr. 28, 1991 og 96, 2000 gagnvart stefnanda, þykir verða að dæma stefnanda skaðabætur úr hendi stefnda, þar sem hann hafi með brotinu valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, sbr. 22. gr. laga nr. 28, 1991, 28. gr. laga nr. 96, 2000 og almennar reglur skaðabótaréttar.  Þykir við ákvörðun bóta mega hafa hliðsjón af launum og öðrum starfskjörum deildartæknifræðings á tæknideild eftir því sem við á.

Með vísan til framburðar Valgerðar Magnúsdóttur í málinu, en hún leysti stefnanda af í barnsburðarleyfi hennar, er stóð yfir frá júní 1993 til maí 1994, þykir verða að miða við það í málinu, að stefnandi hafi að jafnaði unnið allar þær yfirvinnustundir sem stefndi greiddi henni á hinu umdeilda tímabili.

Ekkert hefur komið fram um það í málinu, að stefnanda hafi staðið til boða á umræddu tímabili önnur og betur launuð staða en hún gegndi hjá stefnda.  Augljóst er að stefnandi hefði ekki takmarkað tjón sitt með því að leggja niður störf, líkt og stefndi ýjar að í málatilbúnaði sínum.  Er því röksemdum stefnda, er byggja á meginreglum skaðabótaréttar um skyldu tjónþola til takmörkunar tjóns, alfarið hafnað sem ósönnuðum.

Stefndi hefur ekki vísað til sérstakra gagna til stuðnings kröfu sinni um lækkun bóta stefnanda vegna lægri starfsaldurs hennar en þess er gegndi starfi deildartæknifræðings tæknideildar.  Þykir þessi krafa stefnda því ekki nægjanlega rökstudd og verður því ekki á henni byggt við ákvörðun bóta.

Í kröfugerð sinni hefur stefnandi bætt við framangreindan mismun á launum og öðrum starfskjörum sínum og deildartæknifræðingsins 4,5% vöxtum.  Af framlögðum gögnum verður ekki séð hvernig sú vaxtaprósenta er fundin.  Stefnandi vísar ekki til vaxtalaga eða annarra laga til stuðnings þessari kröfu sinni.  Þá víkur hún í engu að ákvæðum laga nr. 14,1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda í þessu sambandi.  Að öllu þessu athuguðu er það niðurstaða dómsins að ekki verði fallist á umræddan vaxtareikning stefnanda.

Samkvæmt framlögðum útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, nam munur á föstum launum stefnanda og deildartæknifræðingsins á umræddu tímabili kr. 2.783.146,-.  Í útreikningi Jóns Erlings kemur einnig fram, að yfirvinnutímafjöldi stefnanda á tímabilinu margfaldaður með mismun á yfirvinnutaxta hennar og deildartæknifræðingsins gefi niðurstöðuna kr. 913.684,-.  Þá kemur að lokum fram í útreikningnum, að mismunur akstursgreiðslna til nefndra aðila hafi á umræddu tímabili verið kr. 1.100.652,-.  Með vísan til forsendna dómsins hér að framan verður að telja samtölu þessara fjárhæða, kr. 4.797.482,-, hæfilega ákvarðaðar bætur til handa stefnanda vegna brota stefnda á ákvæðum jafnréttislaga.

Fallast má á það með stefnda að dráttarvaxtakrafa stefnanda sé lítt reifuð.  Engu að síður þykir þó eins og hér stendur á mega fallast á kröfu stefnanda um dráttarvexti frá þingfestingardegi málsins.

Með vísan til alls þess er rakið hefur verið dæmist stefndi til að greiða stefnanda kr. 4.797.482,- með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til greiðsludags.

Stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 21. maí 2002.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Sifjar Konráðsdóttur hrl., kr. 650.000,- og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Eftir úrslitum málsins þykir rétt, að stefndi greiði kr. 890.000,- í málskostnað til ríkissjóðs.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Akureyrarbær, greiði stefnanda, Guðrúnu Sigurðardóttur, kr. 4.797.482,- með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til greiðsludags.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Sifjar Konráðsdóttur hrl., kr. 650.000,-.

Stefndi greiði kr. 890.000,- í málskostnað til ríkissjóðs.