Hæstiréttur íslands
Mál nr. 481/2005
Lykilorð
- Kynferðisbrot
|
|
Fimmtudaginn 11. maí 2006. |
|
Nr. 481/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn Sergio Gabriel Rodriguez Figueras (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kynferðisbrot.
S var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa þröngvað A með ofbeldi til samræðis eða annarra kynferðismaka á þann hátt sem nánar var lýst í ákæru. Fjölskipaður héraðsdómur mat framburð A af atvikinu trúverðugan en taldi framburð S haldinn ólíkindablæ og sakfelldi hann fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa þröngvað A til annarra kynferðismaka en samræðis. Ekki þótti efni til að vefengja þetta mat og var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu og heimfærslu brots S til refsiákvæðis. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði auk þess sem ákvæði héraðsdóms um miskabætur til A að fjárhæð 700.000 krónur var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. nóvember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 800.000 krónur í skaðabætur með vöxtum eins og í ákæru greinir.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
Fjölskipaður héraðsdómur hefur metið framburð A trúverðugan en telur framburð ákærða haldinn ólíkindablæ. Eru ekki efni til að vefengja það mat. Verður því með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis.
Með vísan til eðlis brots ákærða sem og annarra atriða sem rakin eru í hinum áfrýjaða dómi er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði hefur ekki haft uppi varakröfu um lækkun bóta til handa brotaþola eða fært fram rök að slíkri niðurstöðu. Verður ákvæði héraðsdóms um ákvörðun miskabóta því staðfest. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður og staðfest.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Sergio Gabriel Rodriguez Figueras, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um miskabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 516.762 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. október sl., er höfðað með ákæruskjali útgefnu af ríkissaksóknara 10. júní 2005 á hendur Sergio Gabriel Rodriguez Figueras, [kt. og heimilisfang], fyrir nauðgun með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004, í X í Reykjavík, þröngvað A, [kt.], með ofbeldi til samræðis eða annarra kynferðismaka, með því að setja lim eða fingur í leggöng hennar.
Þetta er talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta, en síðan dráttarvaxta, samkvæmt lögum nr. 38/2001.
Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði.
Föstudaginn 23. júlí 2004 kl. 04:20 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um að kynferðisbrot hafi verið framið að X í Reykjavík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu tilkynnti B um brotið. Lögregla kom að X kl. 04:24. Hitti hún þar fyrir B, sem lýsti strax yfir að vinkonu sinni hafi verið nauðgað. Var B léttklædd með handklæði vafið um sig. Hafi hún upplýst að hún hafi farið með stúlkunni í sturtu eftir atburðinn. Er lögregla kom í íbúðina voru föt á gólfi og opið inn á baðherbergi. Er fært í skýrslu að greinilegt hafi verið að einhver hafi nýlega farið í sturtu. Inni í sturtuklefa hafi verið blaut föt. Frammi á gangi íbúðarinnar hafi lögregla rætt við A. Hafi hún verið í miklu uppnámi og óttaslegin en lögregla hafi reynt að róa hana niður. Frásögn A hafi verið nokkuð samhengislaus en hún hafi átt erfitt með að tjá sig um atburðinn. Skýrði hún lögreglu frá því að hún hafi verið að skemmta sér með vinkonum sínum á veitingastaðnum Kabital í Hafnarstræti 17 í Reykjavík. Þar hafi hún fyrst hitt ákærða, er hafi unnið á staðnum. Hafi A, vinkonur hennar og nokkrir drengir farið þaðan að X og haldið þar áfram að skemmta sér. Ákærði hafi orðið fólkinu samferða að X. Hafi hann verið að ,,reyna við” A öðru hvoru og ekki látið hana í friði. Hafi hún farið með honum inn í herbergi í íbúðinni að X og rætt við hann þar. Síðar hafi hún beðið vini sína um að vísa ákærða út úr íbúðinni þar sem hún hafi ekki viljað hafa hann þar lengur. Þegar ákærði hafi verið kominn út úr íbúðinni hafi hún farið fram á stigapall til að kveðja hann. Hafi hún setið á stigahandriði og rætt við ákærða, en þá hafi hann sagt við hana ,,að það væri illa gert af stelpu að fara svona með strák eins og sig”. Einnig hafi ákærði sagt ,,að hann hefði getað farið heim með hvaða stelpu sem hann vildi.” A hafi þá beðið ákærða um að fara. Hafi hún fært sig upp að vegg á stigapallinum en ákærði þá þrýst sér upp að henni við vegginn og orðið æstur. Því næst hafi hann haldið annarri hendi hennar upp að veggnum en tekið hina höndina á henni og sett ofan í buxur sínar. Hafi hann neytt hana til að koma við kynfæri sín. Síðan hafi hann tekið um buxnastreng hennar, rifið buxurnar og káfað á henni. Hafi A átt mjög erfitt með að segja frá atburðum á vettvangi og ekki getað tjáð sig frekar að svo stöddu. Eftir að hafa gengið úr skugga um að ekki yrði hreyft við vettvangi hafi verið óskað eftir aðstoð tækni- og rannsóknardeildar lögreglu. A hafi því næst farið í fylgd lögreglu á Neyðarmóttöku á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Stuttu eftir för A þangað hafi kærasta hennar borið að garði. Hafi hann einnig farið á neyðarmóttökuna. Er skráð í frumskýrslu frásögn vitnanna B, C og D af atburðum. Einnig var frásögn E færð í frumskýrslu lögreglu.
Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um dvalarstað ákærða fór lögregla að Ásvallagötu 9 í Reykjavík. Ákærða var þar gerð grein fyrir því að hann væri grunaður um kynferðisbrot gagnvart A. Var fatnaður er ákærði bar að hann hafi verið í um nóttina haldlagður í þágu rannsóknar málsins. Í frumskýrslu er fært að ákærða hafi brugðið er honum hafi verið kynnt kæruefnið og hafi hann haft á orði að ,,þetta hafi verið heimskulegt af sér.”
Ósk Ingvarsdóttir sérfræðingur í kvensjúkdómum hefur 23. júlí 2004 kl. 06.00 ritað skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Í reit um frásögn sjúklings er fært að kynmök hafi átt sér stað um leggöng. Einnig hafi verið káfað á kynfærum og snerting átt sér stað með getnaðarlim. Jafnframt er fært í skýrsluna að A hafi barið í bað, skolað sig og skipt um föt eftir árásina. Um ástand við skoðun kemur fram að skoðunin hafi farið fram ríflega klukkustund eftir komu á neyðarmóttökuna og hafi A þá verið búin að jafna sig verulega og róast. Sjálf hafi hún sagst hafa verið í miklu sjokki þegar hún hafi komið á neyðarmóttökuna og verið hágrátandi, bæði hrædd og ofsareið. Hafi hún í fyrstu ekki getað greint frá atburðum skipulega en verið mjög greinargóð og trúverðug. Hafi hún verið útgrátin og setið í hnipri með mikla vöðvaspennu. Hún hafi verið allsgáð. Ekki hafi sjáanlegir áverkar verið á líkama, en eymsli hafi verið á öðrum handlegg þar sem A hafi sagt að árásarmaðurinn hafi tekið á sér. Tekin hafi verið sýni með DNA leit í huga með skafi undan nöglum og frá innri skapabörmum og leggöngum.
Mánudaginn 26. júlí 2004 tók lögregla ljósmyndir af fötum sem A var í aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004. Samkvæmt skýrslu tæknideildar, sem hefur að geyma ljósmyndir af fatnaði, var umræddur fatnaður tekinn á vettvangi í baðherbergi að X og var hann allur blautur nema buxur. Fram kemur að engar skemmdir hafi verið sjáanlegar á bol, sem hafi verið Orange stuttermabolur. Peysa hafi verið marglita, en á honum hafi mátt sjá gat. Buxur hafi verið svartar. Skemmdir hafi verið sjáanlegar þar sem rennilásinn sé. Svo virðist sem þær hafi rifnað við átök. Engar sjáanlegar skemmdir hafi verið á nærbuxum.
Ákærði ritaði 23. júlí 2004 undir samþykki fyrir því að tekin væru sýnu af honum vegna réttarlæknisfræðilegrar skoðunar. Skoðunin hófst kl. 07:15 þann dag. Fram kemur í skýrslu læknis er rituð var af því tilefni að ákærði hafi verið rólegur og samvinnuþýður. Hafi hann verið dálítið spenntur og beygt af við og við. Ekki hafi hann verið ölvaður en þó hafi lagt af honum sterka áfengislykt frá fyrri degi. Engin áverkamerki hafi verið á hálsi eða bol. Þá hafi engin áverkamerki verið á handleggjum eða höndum nema einn gamall kringlóttur 5-krónustór marblettur á miðjum vinstri upphandlegg. Engin sjáanleg áverkamerki hafi verið fyrir neðan mitti eða á fótum. Tekin hafi verið blóðsýni til DNA rannsóknar, kynhár kembd og tekin samanburðarsýni, strok tekið af getnaðarlim, skafið undan neglum, auk þess sem blóðsýni hafi verið tekið til lyfja eða áfengismælingar. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu voru send til DNA rannsóknar hjá Rettsmedisinsk Institutt í Osló rannsóknargögn vegna málsins. Um hafi verið að ræða sýni er tekin hafi verið af ákærða og samanburðarsýni af A. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hafi engin lífsýni komið í ljós sem tengja hafi mátt ákærða og A.
Ákærði gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu kl. 13.29 föstudaginn 23. júlí 2004. Kvaðst hann hafa verið á veitingastaðnum Kabital aðfaranótt föstudagsins 23. júlí. Hafi staðnum verið lokað um kl. 01.00 um nóttina. Þá hafi ákærði verið að aðstoða við að afgreiða á bar staðarins. A og aðrar stúlkur hafi þá verið á staðnum. Hafi ákærði rætt við stúlkurnar og innt þær eftir því hvar samkvæmi væri að finna. Hafi þær þá boðið ákærða í samkvæmi. Hafi hann orðið þeim samferða. Er komið hafi verið á staðinn hafi ákærði og A farið inn í herbergi til þess að tala saman. Mikill hávaði hafi verið í íbúðinni og hafi þau viljað ræða saman á kyrrlátari stað. Vinkona A hafi komið inn í herbergið til þeirra, dvalið þar smá stund og síðan yfirgefið herbergið. Eftir að vinkonan hafi farið hafi ákærði og A byrjað að kyssast. Síðar hafi hún sagt að hún vildi fara fram og taka þátt í samkvæminu. Ákærði hafi hins vegar viljað vera eftir í herberginu og hafi hann sofnað sökum þess að hann hafi verið þreyttur eftir vinnu. Í framhaldinu hafi hann sofnað. Eftir smá stund hafi stúlka sú er áður hafi komið inn í herbergið vakið ákærða. Hafi hún sagt honum að hann yrði að fara út úr íbúðinni. Hafi hún jafnframt sagt við A að hún gæti farið með ákærða. Hafi ákærði farið út úr íbúðinni og A fylgt honum fram á stigapall, en hún hafi ekki ætlað að fara með ákærða. Hafi þau byrjað að kyssast frammi á gangi eftir að hurð að íbúðinni hafi verið lokað. Hafi hún spurt ákærða að því hvort hann vildi að hún kæmi með ákærða og svæfi hjá honum. Hafi ákærði svarað því til að ef hún vildi koma með honum þá væri það í lagi. Hafi þau verið að kyssast og eftir smá stund hafi hún farið með hönd sína inn á ber kynfæri ákærða. Hafi ákærði gert slíkt hið sama við A. Þegar ákærði hafi sett hönd inn á kynfæri stúlkunnar hafi hann gengið áfram og hafi þau tvö endað upp við vegg á stigapallinum. Við það hafi ákærði skynjað að hún yrði hrædd en hún hafi sleppt ákærða. Kvaðst ákærði hafa talið að hún vildi ekki halda áfram. Hafi hann þá sleppt henni og gengið rakleitt út úr húsinu. Hafi ákærði ekkert sagt við hana á leið sinni út. Eftir það hafi ákærði gengið að heimili sínu að Ásvallagötu 9 þangað sem lögreglumenn hafi komið síðar um nóttina og handtekið ákærða. Ákærði kvaðst hafa drukkið nokkra bjóra um nóttina og lítilræði af öðru áfengi. Ekki hafi hann þó verið ölvaður og kvaðst hann muna allt sem gerst hafi um nóttina. Ekki kvaðst ákærði muna eftir að buxur A hafi rifnað við aðfarir þeirra. Ákærði kvaðst hvorki hafa tekið niður buxur A, né hafa farið með getnaðarlim sinn í kynfæri hennar. Er ákærði var inntur eftir því hvað hann hafi átt við með orðunum ,,stupid mistake” er hann hafi viðhaft við handtöku, kvaðst ákærði hafa átt við að það hafi verið mistök af sinni hálfu að hafa farið með A í samkvæmið. Þá var borið undir ákærða að hann hafi sagt við rannsóknarlögreglumenn á vettvangi ,,no sex, no penetration” og hann inntur eftir því hvað hann hafi átt við með þeim orðum. Kvaðst hann hafa verið að svara ásökunum um að hafa nauðgað A og sagt að hann hafi ekki haft kynmök við hana.
Ákærði var á ný boðaður til yfirheyrslu hjá lögreglu 2. febrúar 2005. Kvaðst ákærði þá ekki vilja breyta sínum fyrri framburði. Kvað hann sig og A hafa byrjað að kyssast á stigapallinum eftir að þau hafi verið búin að ræða þar saman. Þegar hún hafi snert kynfæri ákærða innanklæða hafi ákærði farið að snerta hana. Hafi hann snert læri hennar og rass utanklæða. Hann hafi staðið í tröppu á stigapallinum fyrir neðan A. Við aðfarirnar hafi þau farið saman að veggnum þannig að A hafi snúið baki í vegginn. Hún hafi aftur snert kynfæri ákærða innanklæða og hafi ákærði þá snert kynfæri hennar innanklæða og sett fingur inn í leggöng hennar. Hafi A þá sagt að ákærði ætti ekki að snerta hana og hafi ákærði þá tekið hönd hennar í burtu og sjálfur hætt að snerta hana. A hafi þá sagt að hún vildi ekki gera neitt og hafi ákærði þá gengið út en A farið inn í íbúðina. Þau hafi ekkert rifist á stigapallinum og A enga mótspyrnu veitt. Ákærði kvaðst alfarið synja fyrir að hafa farið með getnaðarlim sinn í leggöng A.
Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið að vinna á veitingastaðnum Kabital aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004. Kvað hann A hafa komið á barinn til að kaupa bjór er hún hafi viljað taka með sér heim. Hafi ákærði sagt henni að hann gæti ekki selt henni bjór þar sem það hafi verið orðið það áliðið að ekki hafi mátt selja áfengi lengur. Hafi hann leitað til yfirmanns staðarins um hvort hann mætti selja A bjór og fengið jákvætt svar við því. Hún hafi ætlað að greiða fyrir bjórinn með debetkorti í eigu annars aðila. Hafi ákærði gert henni það ljóst. Bjórinn hafi A síðan fengið, en um hafi verið að ræða einn kassa af bjór. Ákærði hafi þá spurt A hvort hún vissi um samkvæmi. Hafi hún þá bent honum á að það væri samkvæmi heima hjá henni sem hún og vinir hennar væru að fara í. Hafi hún spurt ákærða að því hvort hann vildi koma með. Hafi ákærði tekið vel í það. Eftir að ákærði, A og vinir hennar hafi farið út af staðnum hafi þau gengið að heimili hennar. Þau hafi rætt saman á leiðinni. Í samkvæminu hafi mjög hávær hljómlist verið leikin í stofunni. Hafi ákærði og A þá farið inn í herbergi í íbúðinni til að tala saman. Þar hafi þau verið dágóða stund og ein vinkona A komið inn til þeirra. Hafi ákærði spurt hana hver hún væri og hafi stúlkan sagt að hún væri meðleigjandi með A. Eftir að stúlkan hafi yfirgefið herbergið hafi ákærði og A verið þar áfram. Eitthvað hafi þau kysst hvort annað. A hafi setið á rúminu og lagst er þau hafi verið að kyssast. A hafi síðar viljað fara fram í samkvæmið en ákærði þá viljað vera eftir í herberginu þar sem hann hafi verið þreyttur. Honum hafi runnið í brjóst og vaknað við að stúlka úr samkvæminu hafi sagt honum að fara þar sem hún hafi viljað fara að sofa. Er ákærði hafi verið á leið út úr íbúðinni hafi A komið á eftir honum. Er þau hafi farið fram á stigapallinn hafi hurðin verið skilin eftir opin í hálfa gátt. Frammi á stigapallinum fyrir framan íbúðina hafi ákærði og A rætt saman og farið að kyssast. Þau hafi verið við stigann og farið upp að veggnum. Hafi A verið með bakið upp að veggnum, verið með hægri hönd á baki ákærða, sett þá vinstri niður í buxur ákærða og snert kynfæri hans. Hafi ákærði gert slíkt hið sama við A og hún látið sér það vel líka. Jafnframt hafi þau haldið áfram að kyssast. Ákærði hafi sett vinstri hönd sína á vegginn og fingur hægri handar í leggöng hennar. Annað hafi ákærði ekki gert. Eftir smá stund hafi A sagt ,,hættu”. Ákærði hafi spurt hana hvað væri að og hún þá sagt að hún vildi ekki meira. Ákærði hafi sagt allt í lagi og hafi ekkert rifrildi átt sér stað. Hafi hann snúið sér frá henni og gengið út úr húsinu. Kvaðst ákærði telja að A hafi ekki orðið hrædd en atferli hennar hafi meira verið eins og hún hafi skipt um skoðun. Ákærði kvað A hafa verið í svörtum buxum með blómamyndum. Ekki kvaðst ákærði hafa rennt niður buxum hennar. Þá hafi þær ekki rifnað við athafnir þeirra. Eftir að hafa yfirgefið íbúðina hafi ákærði farið rakleitt heim til sín. Ákærði kvaðst muna eftir orðaskiptum er hann hafi átt við þá lögreglumenn er hafi handtekið hann. Kvaðst hann hafa séð eftir því að hafa farið í samkvæmið og átt við það er hann hafi sagt ,,stupid mistake”. Þá kvaðst ákærði hafa viðhaft orðin ,,no sex, no penetration” við lögreglu. Þau orð hafi verið viðhöfð í kjölfar þess að lögregla hafi tilkynnt honum að A hafi kært hann fyrir nauðgun.
A gaf skýrslu hjá lögreglu miðvikudaginn 28. júlí 2004. Kvaðst hún, ásamt vinkonum sínum þeim B, D og C, hafa farið að skemmta sér á veitingastaðnum Kabital. Þær hafi komið á staðinn um kl. 22.00 til 23.00 um kvöldið. Fljótlega eftir að þær hafi verið komnar þangað hafi þær farið að spjalla við þrjá drengi og ákærða. Síðar um nóttina hafi þau öll farið gangandi upp á X. Í samkvæmi þar hafi þau farið inn í stofu þar sem hópurinn hafi sest niður, rætt saman, hlustað á tónlist og drukkið bjór. Kvaðst A muna að B hafi orðið örg út í ákærða þar sem hann hafi farið inn í svefnherbergi hennar þar sem hann hafi lagt sig. Kvaðst A hafa verið í smá tíma inn í herberginu að ræða við ákærða. Hafi þær reynt að fá hann út úr herberginu en hann neitað og sagt að hann ætlaði að sofa þar. Stúlkurnar hafi síðan farið inn í herbergið og sagt ákærða að hann yrði að fara og hafi hann fyrir rest samþykkt það. Hafi hann farið fram á gang og A staðið við útidyrahurð íbúðarinnar. Hafi hún verið að ræða við ákærða er B hafi komið, verið frekar örg og sagt A að loka hurðinni til að kettlingar sem voru í íbúðinni færu ekki fram á gang. Hafi A þá farið fram á gang og lokað hurðinni. Hafi hún sest á handrið og hafi ákærði staðið fyrir framan hana. Þau hafi rætt eitthvað saman en henni fundist ákærði koma of nálægt sér. Hafi hún því fært sig og staðið á stigapallinum við stigann. Hafi hún ætlað að fara aftur inn í íbúðina þegar ákærði hafi tekið í hendi hennar og haldið henni, ýtt henni upp að vegg og látið báðar hendur hennar yfir höfuð hennar. Hafi hann notað báðar hendur sínar við það, síðan tekið um báða úlnliði með annarri hendinni og þannig haldið höndum hennar uppi. Hann hafi notað vinstri hönd til þessa en með þeirri hægri rennt niður rennilás á sínum buxum. Í framhaldinu hafi hann notað höndina til að renna niður rennilás á buxum A, sem hafi rifnað við það. Síðan hafi hann farið með höndina inn undir og ýtt frá nærbuxum A. Ákærði hafi því næst sett lim sinn í leggöng hennar. Hafi hún reynt að ýta ákærða frá sér en ekki getað það. Hafi hún loks náð að losa aðra höndina, sett hana á lim ákærða og náð að klípa í hann. Við það hafi ákærði hætt og farið í burtu. Hafi hún verið farin að gráta er hún hafi klipið í lim ákærða en hún hafi margsagt honum að hún ,,vildi þetta ekki”. Ákærði hafi ekki hlustað á A. Hafi henni fundist eins og hún hafi öskrað hátt þegar hún hafi sagt nei við ákærða en enginn hafi heyrt það. Eftir að ákærði hafi farið hafi A farið aftur inn í íbúðina. Inni í horni við innganginn hafi hún látið sig falla niður. C hafi þá komið og spurt A hvað hafi komið fyrir. Hafi A þá farið að hágráta og sagt henni frá því sem komið hafi fyrir. B og D hafi þá komið að A og hafi B farið með hana inn á baðherbergi íbúðarinnar. Fyrsta hugsun A hafi verið að komast í sturtu en hún hafi heyrt öskrað frammi á gangi að hún ætti ekki að fara í sturtu. Hún hafi samt farið í sturtu því henni hafi fundist hún eitthvað svo ógeðsleg. Eftir að hún hafi komið úr sturtunni hafi hún farið inn í stofu og verið þar er lögregla hafi komið á staðinn. Nánar spurð um samskipti sín og ákærða í svefnherbergi íbúðarinnar kvaðst A hafa staðið upp við vegg í herberginu á meðan ákærði hafi verið uppi í rúmi. Hurð að herberginu hafi verið opin. Hafi hún aldrei lagst í rúmið. Þá kvaðst A aldrei hafa kysst ákærða þetta kvöld. A kvaðst telja að ákærða hafi ekki orðið sáðfall við aðfarir sínar. Eftir atburðinn hafi henni liðið illa og hafi hún átt erfitt með að vera ein. Væri hún hrædd. Þá hafi hún verið í miklu uppnámi er lögregla hafi komið að X og myndi hún því lítið eftir þeim tíma. Hún hafi drukkið bjór þetta kvöld, trúlega einn eða tvo áður en hún hafi farið á veitingastaðinn Kabital og eina tvo bjóra á þeim stað. Eftir að komið hafi verið á X aftur hafi hún trúlega drukkið einn eða tvo bjóra.
Fyrir dómi kvaðst A hafa farið á veitingastaðinn Kabital ásamt vinkonum sínum umrætt kvöld. Þar hafi D byrjað að ræða við ákærða. Ákveðið hafi verið að halda samkvæmi á X eftir að Kabital hafi verið yfirgefinn. Ákærði hafi slegist í för með hópnum. A hvað ekkert hafa verið á milli sín og ákærða, hvorki á veitingastaðnum né á X. Á X hafi hópurinn sest niður, drukkið áfengi og hlustað á tónlist. Ákærði hafi farið inn í herbergi B og hafi hann ætlað að fara að sofa. Kvaðst A hafa rætt við hann þar og um stund setið á rúmi í herberginu og hálf legið upp við rúmgaflinn. Ekki hafi hún lagst í rúmið við hlið ákærða, hvað þá hafa kysst hann. Þau hafi hins vegar rætt um hluti eins og bíla og vinnu ákærða. A kvað ákærða hafa gefið í skyn að hann vildi sofa hjá A og hafi hún því sagt B að hún yrði að koma ákærða fram. B hafi síðan sagt ákærða að fara. Hafi A staðið í hurð íbúðarinnar er ákærði hafi verið farinn fram á gang. Hún hafi hins vegar þurft að loka hurðinni til að kettlingar sem voru í íbúðinni færu ekki fram á gang. A hafi rætt við ákærða frammi á gangi og hafi hún verið upp við handrið á stigapalli. Hafi henni fundist ákærði óþægilega nærri sér og hafi hún því fært sig upp að vegg. Ákærði hafi þá tekið um hendur A og hafi hann haldið höndum hennar upp við vegg fyrir ofan höfuð með því að halda með annarri hönd um úlnliði hennar. Hafi A illa getað sparkað í ákærða en loks náð að rífa aðra hönd lausa. Ákærði hafi áður náð að renna niður buxnaklauf sinni og A. Auk þess hafi hann náð að ýta nærbuxum hennar frá. Kvaðst A ekki telja að getnaðarlimur hans hafi verið inni í leggöngum hennar en hann hafi a.m.k. verið fyrir innan föt hennar. Hún hafi náð að klípa um liminn. Hún hafi hins vegar fundið að eitthvað hafi farið inn í leggöng hennar. Kvaðst hún ítrekað aðspurð í raun ekki vita hvort það hafi verið limur hans eða fingur er hafi farið inn í leggöngin. Hún hafi ekki séð það en fundið fyrir einhverju. Eftir að hún hafi komið inn í íbúðina hafi hún farið í sturtu. Það hafi hún gert þrátt fyrir að henni hafi verið bent á að gera það ekki. Áður en hún hafi farið á neyðarmóttöku hafi hún hringt í kærasta sinn og greint honum frá því er fyrir hafi komið. Hann hafi komið upp á neyðarmóttökuna. A kvaðst ekki hafa tekið eftir að rennilás á buxum hennar hafi rifnað fyrr en eftir að hún hafi verið kominn aftur inn í íbúðina. Hann hafi ekki verið rifinn áður en til átaka hafi komið á milli hennar og ákærða. Eftir þessa atburði hafi henni liðið illa og hún verið í miklu uppnámi. Það hafi m.a. verið ástæðan fyrir því að hún hafi kært atburðinn 5 dögum eftir að hann hafi átt sér stað. Hafi hún tekið þunglyndislyf fyrir þessa atburði vegna fjölskylduvandamála en hún hafi tekið eina töflu af lyfi annan hvern dag. Eftir þá hafi hún þurft að bæta við skammtinn og tekið eina töflu daglega vegna kvíðakasta og streitu. Heimilislæknir A hafi bætt við skammtinn. Ekki hafi hún þorað að vera ein eftir þessa atburði og hafi hún fengið vinkonur sínar eða frænku til að koma heim til sín og gista. Einnig hafi hún gist hjá ömmu sinni eftir þessa atburði af sömu ástæðu. Aðspurð kvaðst A vera um 161 cm á hæð og um 46 kg að þyngd.
C kvaðst hafa verið á X ásamt vinkonum sínum þeim A, D og B, auk þess sem E vinur D hafi verið á staðnum. Þau hafi drukkið bjór á X og síðan ákveðið að fara á veitingastaðinn Kabital, en þangað hafi þau komið um kl. 23.00. Þar hafi verið þéttsetið og hafi ákærði setið einn við borð. Hafi þau leitað eftir því við hann hvort þau mættu ekki sitja við sama borð. Það hafi hann samþykkt. D hafi farið að ræða við ákærða. Hafi hún og E síðar um nóttina farið aftur að X og hafi þau komið þangað á undan hópnum. B og A hafi hitt einhverja drengi og hafi þær boðið þeim í samkvæmi á X. Drengirnir hafi viljað hafa með sér bjór og hafi C spurt hvað kassi af bjór kostaði. Ákærði hafi þá setið við barinn. Hafi hann nefnt eitthvað verð. Ákærði hafi síðan farið að ræða við drengina og hafi sennilega einhver boðið honum með í samkvæmið. Kvaðst C hafa tekið eftir því að ákærði hafi gefið A einhvern sterkan drykk eða ,,skot” á veitingastaðnum. Á leiðinni á X hafi ákærði reynt að taka utan um A. Hafi það virkað ,,mjög saklaust” og hafi A ekki virst vilja það og kallað til C og beðið hana um að ganga með þeim. Hafi C virst sem A vildi ræða við ákærða, ekki meira. Er hópurinn hafi verið kominn á X hafi verið sest niður í stofunni. A og ákærði hafi farið inn í herbergi B og hafi C farið þangað inn. Er hún hafi farið inn í herbergið hafi A setið á rúminu en ákærði legið í því. Hafi C sagt þeim að koma fram en A sagt að þau væru að ræða saman. Hafi C farið oftar en einu sinni inn í herbergið og kvaðst hún muna að A hafi setið á rúminu en einu sinni hafi hún setið á rúminu upp við vegginn. Alltaf hafi verið bil á milli hennar og ákærða. Hafi verið eins og þau væru ,,á trúnó.” Er C gaf skýrslu hjá lögreglu bar hún að A hafi komið inn í stofu og spurt hvort stúlkurnar vildi ekki segja ákærða að fara því hann hafi sagt við hana að það væri skylda hans að sofa hjá henni. Hafi A virst finnast það ógeðslegt og hafi B þá farið inn í herbergið og sagt ákærða að fara. Er C gaf skýrslu fyrir dómi bar hún reyndar að henni hafi ekki fundist sem A hafi viljað losna við ákærða. C kvaðst farið inn í herbergið en þá hafi ákærði legið í rúminu og virst sofa. Hafi C þá farið inn í stofu til drengjanna til að segja þeim að fara líka því hún hafi ætlað að fara að sofa. Síðan hún spurt B hvar A væri en hún þá sagt henni að hún væri frammi á gangi að tala við ákærða. Hafi C verið inni í stofu þegar hún hafi heyrt D koma fram, en hún hafi verið farin að sofa. Hafi hún spurt A hvort ekki væri allt í lagi eða hvort eitthvað hafi komið fyrir. Hafi C þá séð A og hafi hún verið mjög rauðeygð og í miklu uppnámi. Er hún hafi litið framan í hana hafi ekki farið milli mála að eitthvað hafi komið fyrir hana. Hafi hún haldið um klofið á sér og er hún hafi sleppt hendinni hafi C séð að buxurnar hennar hafi verið rifnar. Hafi A sagt að hún yrði að fara í sturtu og ásamt B farið inn á bað. Hafi C heyrt B spyrja A hvað hafi komið fyrir og hafi A svarað ,,hann nauðgaði mér.” Hafi drengirnir í íbúðinni reynt að kalla til A til að benda henni á að fara ekki í sturtu. C og vinkonur hennar hafi þá beðið drengina um að yfirgefa íbúðina. Er A hafi komið fram hafi hún verið hágrátandi og í algjöru losti. B hafi hringt í lögreglu. Kvaðst C hafa rætt við A eftir þessa atburði. Hafi hún varið einhverjum tíma hjá vinkonum sínum þar sem hún hafi átt erfitt með að vera ein eftir atburðina.
D kvað A hafa komið á heimili sitt að X um kl. 21.00 að kvöldi fimmtudagsins 22. júlí. Hafi þær, ásamt vinkonum þeirra þeim B og C, fengið sér bjór saman. Eftir það hafi hópurinn farið á veitingastaðinn Kabital. D, B, A, C og E hafi á veitingastaðnum sest til borðs með ákærða. Kvaðst hún hafa rætt við hann og hafi ákærði m.a. rætt um að hann hafi skilið við kærustu sína um ári áður. Hafi D síðan hætt að ræða við ákærða sem hafi yfirgefið borðið fljótlega. Kvaðst D ekkert hafa fylgst með honum eftir það. Hún hafi farið á undan vinkonum sínum heim og hafi hún verið komin þangað fyrir klukkan 01.00 um nóttina. Rúmum klukkutíma síðar hafi stelpurnar komið og með þeim þrír drengir og ákærði. Hafi B vakið D og hún farið fram í stofu til að ræða við samkvæmisgesti. Kvaðst D hafa séð ákærða og A ræða saman inni í herbergi. Hafi þau legið saman uppi í rúmi og legið ofan á sænginni. Ekki hafi hún séð þau kyssast. Hafi D ekkert hugleitt þau frekar og farið fram í stofu. A hafi síðan komið fram í stofu og beðið vinkonur sínar um að biðja ákærða að fara því hún þyrði það ekki. Hafi D staðið á fætur og ætlað að biðja ákærða um að fara en þá hafi B staðið á fætur og sagst ætla að gera það því hann væri í hennar herbergi. Á þeim tíma hafi D verið frammi í stofu ásamt tveim öðrum stúlkum og drengjunum. Hafi D ekki fylgst sérstaklega með því er B hafi beðið ákærða um að yfirgefa íbúðina, heldur hafi hún farið inn í sitt eigið herbergi til að fara að sofa. Hafi hún farið fram um 15 til 20 mínútum síðar þar sem hún hafi ætlað að sækja aukakodda. Þá hafi A staðið ein úti í horni rétt innan við útidyrahurðina og verið mjög skrítin. Hafi D gengið að henni og spurt hana hvað væri að en þá hafi hún séð að A var skjálfandi og eldrauð um augun. Hafi hún haldið um klofið á sér og ekkert sagt. Hafi D kallað á A en við það hafi þau er setið hafi í stofunni komið fram. Það eina er A hafi sagt hafi verið að hún yrði að fara í sturtu. A hafi hlaupið inn á bað og B farið á eftir henni. Þær hafi lokað hurðinni á eftir sér en drengirnir kallað á A og sagt henni að fara ekki í sturtu. Kvaðst D í raun ekki hafa vitað hvað hafi gerst en hafa séð er A hafi haldið um klofið á sér að buxurnar hennar hafi verið rifnar. Drengirnir hafi eftir það yfirgefið íbúðina en D og C sest inn í stofu. A og B hafi síðan komið fram af baðinu. Hafi D spurt hvort A hafi verið nauðgað og hafi B svarað því játandi. Því næst hafi B hringt á lögreglu. Er A hafi komið fram af baðinu hafi hún öll verið skjálfandi, mjög sérkennileg og rauðeygð. A hafi síðan hringt í kærasta sinn. D kvað A ekki hafa búið á X á þessum tíma, en hún hafi þá búið með dreng. Kvað hún A hafa komið í heimsókn á X á laugardeginum eftir atburðinn og hafi D orðið að ganga á móti henni þar sem A hafi ekki þorað að ganga ein að X eftir atburðinn.
B kvað nokkrar stúlkur hafa hist heima hjá B á X, en um hafi verið að ræða hana, A, C og D. Einnig hafi vinur D verið í hópnum. Þar hafi þau rætt saman og drukkið bjór. Síðar hafi þau öll farið á veitingastaðinn Kabital. Er þangað kom hafi hópurinn sest niður við borð í horni staðarins. Ekki kvaðst B hafa veitt ákærða athygli þó svo hún hafi áður séð hann á staðnum þar sem hann hafi unnið þar. Á staðnum hafi hópurinn verið allt þar til honum hafi verið lokað og haldið á brott sennilega um kl. 01.30 um nóttina. Áður en haldið hafi verið af stað hafi A komið til B og sagt henni að einhverjir drengir ætluðu að kaupa bjór handa stúlkunum og hvort þeir mættu ekki slást í för með þeim. Einn drengjanna hafi verið ákærði. B kvaðst hafa samþykkt það. Í kjölfarið hafi hópurinn haldið gangandi að X. Er komið hafi verið þangað kvaðst B ásamt öðrum hafa sest niður inni í stofu. D hafi farið heim á undan öðrum og verið farin að sofa. Hún hafi þó komið fram. D og einhver drengur hafi farið að elda pastarétt en A og ákærði farið inn í svefnherbergi B. Eftir að þau hafi verið komin þangað inn hafi B farið inn í herbergið en herbergisdyrnar hafi verið lokaðar er hún hafi komið að. A hafi setið á rúminu en ákærði legið í því. Kvaðst B hafa spurt A að því hvort hún vildi ekki koma fram en A ekki viljað það heldur viljað halda áfram að ræða við ákærða. Eftir að B hafi farið fram hafi A hallað aftur hurðinni án þess þó að loka henni. Kvaðst B hafa séð að C hafi farið inn í herbergið til A og ákærða og opnað hurðina, auk þess sem B kvaðst hafa farið í tví- eða þrígang inn í herbergið. Kvaðst B hafa viljað að ákærði færi heim til sín en hún hafi ekki viljað hafa hann í rúminu sínu. Er B gaf skýrslu hjá lögreglu kvað hún að í þeim tilvikum er hún hafi komið í herbergið hafi A setið á rúminu en ákærði legið. Hún hafi einungis séð þau ræða saman. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvað B þau hafa legið saman í rúminu en ekki hafa látið vel hvort að öðru. Eitthvað hafi verið í gangi á milli þeirra. Er B hafi sagt ákærða að fara hafi hann staðið upp og farið út úr íbúðinni. A hafi farið á eftir honum fram á stigapallinn. Kvaðst B ekki hafa skipt sér frekar af því heldur hafa farið inn í stofu og sagt drengjunum að þeir skyldu einnig yfirgefa íbúðina þar sem hún vildi fara að sofa. Þau hafi engu að síður setið saman í stuttan tíma í stofunni. A hafi þá komið inn í íbúðina og hafi hún verið eitthvað skrýtin. Hafi hún hrists einhvernvegin og verið á henni skelfingarsvipur. Hún hafi sest niður og haldið um klofið á sér og sagt ,,hann nauðgaði mér” og síðan farið að gráta. Kvaðst B hafa spurt hana hvað hafi gerst og A þá sagt að ákærði hafi rifið niður um hana buxurnar, ýtt henni upp að veggnum og stungið getnaðarlimi sínum inn í hana. Hann hafi ekki látið af athæfi sínu fyrr en A hafi náð að klípa um liminn á honum, en við það hafi hann hætt og farið. Er A hafi greint B frá þessum atburðum hafi hún verið grátandi og í miklu uppnámi. Hún hafi öll skolfið og kvaðst B hafa lagt til að þær færu í sturtu. A hafi afklætt sig inni í sturtunni. Ekki kvaðst B hafa tekið eftir þeim fötum er A hafi verið í eða ástandi þeirra. A hafi grátið allan þann tíma er hún hafi verið í sturtunni Kvaðst B hafa reynt að róa hana niður. Einhver hafi hringt á lögregluna er í kjölfarið hafi komið á vettvang. B hafi farið með A á neyðarmóttökuna. B kvaðst hafa hitt ákærða næsta dag og þá á veitingastaðnum Kabital. Hann hafi horft á sig og hrist hausinn. Hafi hún þá farið til hans og hann sagt henni að hann væri búinn að vera hjá lögreglunni allan daginn. Ákærði hafi sagt að hann yrði að ræða við B áður en hún yfirgæfi staðinn. Hún hafi ákveðið að gera það ekki. B kvað sér hafa fundist ,,asnalegt” að A og ákærði væru saman inni í herberginu, þar sem A hafi ekkert þekkt hann.
E kvaðst ekki hafa orðið var við samskipti á milli ákærða og A á veitingastaðnum Kabital. Hann hafi farið af veitingastaðnum ásamt D á undan öðrum samkvæmisgestum og sofnað áður en þeir hafi komið á X. Ekki hafi hann vaknað við þá atburði er mál þetta væri risið af fyrr en lögregla hafi knúið dyra seint um nóttina. A hafi þá verið farin upp á neyðarmóttöku. E kvaðst hafa hitt A á X á laugardagskvöldinu eftir atburði. A hafi ekkert rætt málið að fyrra bragði en er B hafi hringt í A það kvöld og greint frá því að hún hafi séð ákærða við vinnu á Kabital á laugardagskvöldinu hafi A farið að gráta.
F, G og H kváðust hafa hitt A og vinkonur hennar á veitingastaðnum Kabital að kvöldi fimmtudagsins 22. júlí 2004. Þeim hafi verið boðið í samkvæmi á X. Þar hafi þeir verið inni í stofu á meðan á samkvæminu stóð en tekið eftir að ákærði og A hafi rætt talsvert saman inni í herbergi. Ákærði og A hafi síðan farið fram á stigapall fyrir framan íbúðina. Er A hafi komið aftur inn í íbúðina hafi hún sjáanlega verið í miklu uppnámi og sagt að sér hafi verið nauðgað. Hafi hún verið hágrátandi og brotnað niður. A hafi farið beint í sturtu og kvaðst H hafa kallað til hennar að fara ekki í sturtu. Drengirnir hafi í kjölfar þessa verið beðnir um að fara, en stúlkurnar í samkvæminu hafi verið í talsverðu uppnámi. F kvaðst hafa verið talsvert undir áhrifum áfengis þessa nótt.
Lögreglumennirnir Guðmundur Ingi Rúnarsson, Ólafur Hjörtur Ólafsson og Ingólfur Bruun staðfestu þau rannsóknargögn er frá þeim stöfuðu. Kvaðst Guðmundur Ingi hafa fyrstur lögreglumanna farið á vettvang að X. Hafi hann rætt við A í stofu íbúðarinnar. Hún hafi verið í miklu uppnámi og átt mjög erfitt með að ræða við lögreglu þar sem hún hafi grátið mikið. Eftir einhverja stund hafi hún þó náð að lýsa því fyrir lögreglu hvað hafi gerst. Þá lýsingu hafi Guðmundur fært í frumskýrslu lögreglu með eins nákvæmum hætti og kostur hafi verið á. Lögregla hafi tekið þann fatnað er hafi tilheyrt A en hann hafi verið í baðherbergi. Fatnaðurinn hafi verið færður í tæknideild lögreglu. Ingólfur Bruun kvaðst hafa farið á neyðarmóttöku og haft þar tal af A. Öll þau atriði er hafi komið fram í málinu kvaðst Ingólfur hafa fært í frumskýrslu lögreglu. Kvaðst hann hafa ritað þau atriði í minnisbók og fært orðrétt inn í lögregluskýrslu það sem ákærði hafi sagt á vettvangi.
Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sitt frá 6. október 2005 varðandi A. Kvað hún A hafa átt við tiltekna tilfinningalega erfiðleika að stríða fyrir þennan atburð sem hafi tengst áfengiserfiðleikum á heimili hennar. Hafi farið að gæta þunglyndis hjá henni í kjölfar þess. Þeir erfiðleikar skýri þó með engu móti þau viðbrögð er hún hafi sýnt í kjölfar atburðanna aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004. Hafi A í fyrstu illa munað atvik og hafi verið mjög áberandi hvernig hún hafi bælt minningar um atburðinn og ,,blokkerað” þær úti. Þau einkenni séu dæmigerð fyrir áföll er einstaklingar verði fyrir en þá detti minni út. Hafi henni fundist A vera samkvæm sjálfri sér og hún ekki vera í mótsögn við sjálfa sig eða tvísaga. Viðbrögð hennar samrýmist því að hún hafi orðið fyrir áfalli eða erfiðri lífsreynslu greint sinn. Þau einkenni er A hafi tekið upp í kjölfar atburða séu ekki einkenni þunglyndis.
Niðurstaða:
Frásögn ákærða og A ber saman um að þau hafi dvalið saman inni í herbergi B Sveinbjörnsdóttur að X í Reykjavík aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004. Ákærði ber að þau hafi kysst hvort annað í herberginu, en fyrir það hefur A synjað. B og C hafa borið að þær hafi margsinnis farið inn í herbergið til ákærða og A og aldrei orðið varar við að þau væru að kyssast eða láta vel hvort að öðru. D kvaðst einnig hafa séð til þeirra í herberginu en bar að hún hafi ekki séð þau vera innileg hvort við annað. Þá er framburður ákærða og A á sama veg um að ákærði hafi yfirgefið íbúðina eftir að hafa verið vísað þaðan. Hafi A fylgt honum fram á stigapallinn. Eftir það eru ákærði og A ekki sammála um atvik. Ákærði hefur fullyrt að þau hafi kysst frammi á stigapallinum og í framhaldi af því hafi A farið með aðra hönd niður á kynfæri ákærða innanklæða. Ákærði hafi goldið líku líkt, farið með aðra hönd sína inn á kynfæri A og stungið fingri inn í leggöng hennar. Við þær athafnir hafi þau borið upp að vegg á stigapallinum. Ákærði hafi skynjað að hún vildi ekki taka frekari þátt í slíkum athöfnum og hafi hann þá án orðlenginga vikið sér frá henni og haldið rakleitt út úr íbúðinni. Kvaðst ákærði hvorki hafa rennt niður rennilás á buxum A né orðið var við að rennilás á buxum hennar hafi rifnað við atlot þeirra. A hefur á hinn bóginn borið að ákærði hafi skyndilega þrýst henni upp að vegg á stigapallinum, fært hendur hennar yfir höfuð og haldið þeim þar með því að halda með vinstri hönd um báða úlnliði hennar, notað hægri hönd til að renna niður rennilás á eigin buxum og því næst rennt niður rennilás á buxum hennar, fært nærbuxur hennar til hliðar og sett getnaðarlim sinn inn fyrir föt hennar. Hefur hún hér fyrir dómi ekki treyst sér til að fullyrða hvort ákærði hafi stungið getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar eða hvort hann hafi stungið fingri þar inn, en hún hafi ekki séð það. Í það minnsta hafi eitthvað stungist inn í leggöng hennar. Eftir að hún hafi náð að klípa í getnaðarlim ákærða hafi hann hætt og farið út úr húsinu.
Rannsókn tæknideildar lögreglu hefur m.a. beinst að þeim fatnaði er A var í umrædda nótt. Sú rannsókn hefur leitt í ljós, svo ekki verður um villst, að buxur hennar hafa rifnað niður úr rennilásnum. Bera myndir með sér að rennilásinn hefur rifnað í sundur að neðanverðu, auk þess sem talsverð rifa hefur komið á buxur hennar fyrir neðan rennilásinn. Þykir einsýnt að beita hefur þurft talsverðu afli til að buxurnar gætu rifnað með þessum hætti. Fjölmörg vitni voru í íbúðinni að X. Bera þau öll að A hafi verið illa á sig komin er hún hafi komið inn í íbúðina. Hafa vitni lýst því þannig að hún hafi verið hágrátandi, í algjöru losti, miklu uppnámi, rauðeygð, skjálfandi, með skelfingarsvip og sjáanlega í miklu uppnámi. Þykir dóminum framburður A trúverðugur og einsýnt að hún hefur lent í erfiðri lífsreynslu að X. Þá þykir dóminum framburður ákærða haldinn ósennileikablæ. Fær framburður hans um að hann og A hafi verið að kyssast og láta vel hvort að öðru í herbergi íbúðarinnar ekki stoð í framburði neins þeirra fjölmörgu vitna er voru í samkvæminu. Í því ljósi og með vísan til þess að vitni hafa borið að A hafi ekki borið fullkomið traust til ákærða og óskað eftir því að honum yrði vísað út úr íbúðinni verður að telja þann framburð hans að A hafi að fyrra bragði sett hönd sína inn á ber kynfæri ákærða ósennilegan. Þá verður að telja það háttalag hans að yfirgefa stigapallinn án þess að hafa um það nein frekari orð sérkennilegt ef litið er til þess að hann ber að A og honum hafi verið ágætlega til vina og að þau hafi látið innilega hvort að öðru fáeinum sekúndum áður. Með hliðsjón af öllu þessu er það niðurstaða dómsins að framburður A verði lagður til grundvallar á þann hátt að ákærði hafi með ofbeldi þröngvað henni til annarra kynferðismaka en samræðis, með því að stinga fingur inn í leggöng hennar. Verður ákærði því sakfelldur fyrir fullframið brot gegn 194. gr. laga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992.
Í september 2003 gekkst ákærði undir sátt hjá lögreglustjóranum í Reykjavík vegna brota á ákvæðum umferðarlaga um akstur undir áhrifum áfengis. Þá gekkst hann á ný undir sátt hjá lögreglustjóra 28. júlí 2004 vegna hraðaksturs. Að síðustu ber sakavottorð hans með sér að hann hafi gengist undir sátt hjá lögreglustjóra 29. október 2004 vegna hraðaksturs og aksturs án ökuréttinda. Brot ákærða í þessu máli er framið áður en ákærði gekkst undir sáttirnar á árinu 2004. Í því ljósi ber að ákvarða honum refsingu með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðislega misnotkun á líkama ungrar stúlku. Við mat á refsingu er til þess að líta að hún hlaut af atlögunni andlegt áfall, sem reynst hefur henni erfitt viðureignar og þungbært. Í ljósi eðlis brots ákærða og afleiðinga þess er refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Ása Ólafsdóttir héraðsdómslögmaður hefur krafist skaðabóta fyrir hönd A að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Í kröfunni er vísað til þess að brot ákærða hafi valdið A umtalsverðum miska. Hafi hún verið grandlaus um að hún væri í hættu stödd. Við komu á neyðarmóttöku hafi A verið í mjög miklu uppnámi og sýnt líkamleg kreppuviðbrögð. Hún hafi verið útgrátin og með mikla vöðvaspennu. Henni hafi liðið mjög illa í kjölfar atburðarins og leitað sér sérfræðiaðstoðar til að reyna að vinna úr afleiðingum brotsins. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Samkvæmt vottorði Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings fór A í sex viðtöl til hennar. Athugun Heiðdísar hafi leitt í ljós tiltekin einkenni áfallaröskunar, en A endurupplifi atburðinn. Þá sýni hún endurtekin hliðrunarviðbrögð við áreitum er tengist áfallinu sem hún hafi orðið fyrir, en hún hafi reynt að forðast hugsanir, tilfinningar eða umræðu sem tengist atvikinu. Þá búi hún við viðvarandi einkenni aukinnar örvunar, t.d. vegna óvænts hljóðs eða snöggra hreyfinga. Deyfing á tilfinningum með neyslu, tilhneiging til að forðast hugsanir eða tilfinningar og umræður um atvikið eigi drýgstan þátt í að A hafi flosnað upp úr viðtölum. Hafi hún átt við tilfinningalega erfiðleika að stríða í einhver ár, en þau einkenni sem fram komi séu einkenni sem hafi komið fram eftir atburðinn, einkenni sem samræmist því að hún hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli. Með vísan til þess er hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að atlaga ákærða gagnvart A hafi valdið henni miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra um sakarkostnað ásamt tildæmdum málsvarnar- og réttargæslulaunum að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari.
Símon Sigvaldason, Allan V. Magnússon og Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Sergio Gabriel Rodriguez Figueras, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði greiði A, [kt.], 700.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júlí 2004 til 2. mars 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 359.145 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 201.690 krónur og þóknun til réttargæslumanns brotaþola Ásu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns, 99.600 krónur.