Hæstiréttur íslands

Mál nr. 190/1999


Lykilorð

  • Greiðslumark
  • Nauðungarsala


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 1999.

Nr. 190/1999.

Guðný Helgadóttir og

Hafsteinn Hrafn Daníelsson

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Greiðslumark. Nauðungarsala.

G og H urðu hæstbjóðendur við nauðungaruppboð jarðarinnar Mela í Leirár- og Melasveit 21. febrúar 1996. Kröfðust þau skaðabóta úr hendi Í og viðurkenningar á því að 213 ærgildi fylgdu jörðinni, þar sem þau hefðu verið grandlaus um að ekkert greiðslumark sauðfjár fylgdi jörðinni. Hinn 1. nóvember 1995 hafði verið samþykkt umsókn fyrri eiganda jarðarinnar um að ríkissjóður keypti greiðslumark hennar, alls 213 ærgildi, í samræmi við samning ríkissjóðs og Bændasamtaka Íslands 1. október 1995. Kvöð um bann við framleiðslu sauðfjárafurða hafði ekki verið þinglýst á jörðina í samræmi við 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 23/1996 um kaup og úthlutun á greiðslumarki sauðfjár vegna framleiðsluaðlögunar og var talið ósannað, að fram hefði komið við uppboðið, að jörðin væri seld án greiðslumarks. Hins vegar lá ekkert fyrir um að G og H hefðu kannað hvernig greiðslumarki jarðarinnar var háttað áður en uppboðið fór fram. Boð þeirra hafi verið samþykkt 22. mars 1996 og afsal til þeirra gefið út 22. maí sama ár, en þá höfðu þau fengið í hendur allar upplýsingar um kaup ríkissjóðs á greiðslumarkinu. Engu að síður hefðu G og H ekki gripið til viðeigandi ráðstafana, sem þeim voru færar samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, en tekið við afsalinu án athugasemda. Við þessar aðstæður þótti skortur á þinglýsingu kvaðarinnar ekki hafa þýðingu. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna Í af  kröfum G og H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 12. maí 1999. Þeir krefjast þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.048.134 krónur með dráttarvöxtum af 269.595 krónum frá 1. nóvember 1996 til 1. janúar 1997, af 302.578 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 319.070 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1998 en af 1.048.134 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þeir krefjast þess einnig, að viðurkennt verði, að lögbýlinu Melum í Leirár- og Melasveit fylgi greiðslumark búfjár sem jafngildi 213 ærgildum. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast áfrýjendur þess, verði ekki á aðalkröfur fallist, að málskostnaður fyrir báðum dómstigum verði felldur niður.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst stefndi þess, að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Í samningi stefnda og Bændasamtaka Íslands 1. október 1995 var meðal annars gert ráð fyrir kaupum ríkissjóðs á allt að 30.000 ærgilda greiðslumarki sauðfjár og greiðslu förgunarbóta fyrir bústofn vegna sölu greiðslumarks. Voru ákvæði samningsins lögfest með lögum nr. 124/1995, sem breyttu meðal annars  40. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 23/1996 um kaup og úthlutun á greiðslumarki sauðfjár vegna framleiðsluaðlögunar skyldi framkvæmdanefnd búvörusamninga taka við umsóknum og annast samninga um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki sauðfjár og skyldu samningshafar undirgangast kvöð um að framleiða ekki sauðfjárafurðir á samningstímanum. Kvöðinni skyldi þinglýst á lögbýli það, sem greiðslumark var keypt af, og átti framkvæmdanefndin að annast þinglýsingu samninga.

 Eins og fram kemur í héraðsdómi var hinn 1. nóvember 1995 gengið frá umsókn Eggerts Guðmundssonar, þinglesins eiganda Mela í Leirár- og Melasveit, og Gísla sonar hans, um að selja ríkissjóði greiðslumark jarðarinnar og um förgunarbætur fyrir bústofn vegna sölu greiðslumarks. Kom fram í umsókninni, að hún væri gerð á grundvelli framangreinds samnings stefnda og Bændasamtaka Íslands. Búnaðarsamband Borgarfjarðar staðfesti móttöku umsóknarinnar með áritun 23. nóvember 1995. Í samræmi við samninginn var fénu fargað í desember 1995 og förgunarbætur greiddar 16. janúar 1996. Samkvæmt því var kominn á gildur samningur milli stefnda og Eggerts um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki Mela, þótt skriflegur frágangur samningsins lægi ekki fyrir fyrr en með undirskrift Eggerts á samninginn 13. febrúar 1996 og staðfestingu af hálfu ríkisins 11. apríl sama ár.

II.

Eins og að framan greinir fylgdi ekkert greiðslumark jörðinni Melum, er nauðungarsala fór fram á henni 25. janúar og 21. febrúar 1996. Áfrýjendur, sem voru hæstbjóðendur við söluna 21. febrúar, halda því fram, að þeir hafi verið grandlausir um að framleiðsluheimildir væru ekki fyrir hendi á jörðinni, enda hafi ekkert verið upplýst um greiðslumark jarðarinnar, hvorki fyrir né á uppboðsþingi 21. febrúar 1996.

Samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu skal sýslumaður, áður en boða er leitað í eignina, veita upplýsingar um kvaðir og höft, sem er þinglýst eða upplýst um með öðrum hætti. Framangreindri kvöð um bann við framleiðslu sauðfjárafurða hafði ekki verið þinglýst í samræmi við 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 23/1996, og við uppboðið 21. febrúar var ekkert bókað um það, að jörðin væri seld án greiðslumarks.

Sýslumaðurinn í Borgarnesi lýsti því yfir í bréfi til landbúnaðarráðuneytisins 16. febrúar 1998, að þær upplýsingar hefðu legið fyrir á öllum stigum málsins, að jörðin væri „kvótalaus“. Gísli Kjartansson héraðsdómslögmaður, sem átti næsthæsta boð í jörðina, lýsti því og yfir í bréfi til ráðuneytisins sama dag, að honum hefði verið kunnugt um, að greiðslumark jarðarinnar hefði verið selt frá henni fyrir uppboðsdag og sýslumaður hefði tekið það fram við uppboðið, að enginn framleiðsluréttur fylgdi jörðinni. Áfrýjendur voru ekki við uppboðið 25. janúar, en áfrýjandinn Guðný og faðir áfrýjandans Hafsteins voru stödd á framhaldsuppboðinu 21. febrúar. Þau fullyrtu fyrir dómi, að sýslumaður hefði ekki getið um það, að jörðin væri seld án greiðslumarks. Örn Gunnarsson héraðsdómslögmaður, sem einnig var viðstaddur framhaldsuppboðið 21. febrúar, bar fyrir dómi, að hann minntist þess ekki, að annað hefði verið tekið fram en að almennir skilmálar giltu.

 Samkvæmt framansögðu verður að telja ósannað, að fram hafi komið við uppboðið 21. febrúar, að jörðin væri seld án greiðslumarks.

III.

Þáverandi lögmaður áfrýjenda skrifaði landbúnaðarráðuneytinu bréf 3. maí 1996 til þess að fá upplýsingar um greiðslumark jarðarinnar. Í svarbréfi ráðuneytisins 8. sama mánaðar kom fram, að ríkissjóður hefði keypt greiðslumark jarðarinnar og greitt förgunarbætur fyrir bústofn. Með bréfinu fylgdi afrit af umsókn Eggerts Guðmundssonar og Gísla sonar hans, afrit af bréfi framkvæmdanefndar búvörusamninga 21. janúar 1996, sem fylgdi samningnum um kaup á greiðslumarki og fækkun fjár, svo og afrit samningsins.

Eins og að framan getur urðu áfrýjendur hæstbjóðendur á uppboðinu 21. febrúar 1996. Ekkert liggur fyrir um, að þeir hafi kannað hvernig greiðslumarki jarðarinnar var háttað áður en uppboðið fór fram. Boð þeirra var samþykkt 22. mars sama ár, er þeir greiddu fjórðung uppboðsandvirðis, sbr. 3. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991. Afsal til þeirra var gefið út 22. maí 1996. Þá höfðu áfrýjendur fyrir nokkru fengið í hendur allar upplýsingar um kaup stefnda á greiðslumarkinu. Engu að síður gripu þeir ekki til viðeigandi ráðstafana, sem þeim voru færar samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/1991, en tóku við afsalinu án athugasemda. Við þessar aðstæður þykir skortur á þinglýsingu kvaðarinnar samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 23/1996 ekki hafa þýðingu. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um annað en málskostnað, en rétt þykir að hann falli niður, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

D ó m s o r ð :

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar sl. er höfðað með stefnu birtri 8. júní 1998.

Stefnendur eru Guðný Helgadóttir kt. 260268-4229 og Hafsteinn Hrafn Daníelsson, kt. 130569-4559, Melum, Leirár- og Melahreppi.

Stefndu eru landbúnaðarráðherra v/framkvæmdanefndar búvörusamninga, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Arnarhváli Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdir til að greiða þeim 1.048.134 krónur ásamt dráttarvöxtum af 269.595 krónum frá 1. nóvember 1996 til 1. janúar 1997 en af 302.578 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 1997 en af 319.070 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1998 en af 1.048.134 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá gera stefnendur þá kröfu að viðurkennt verði að á lögbýlinu Melum í Leirár- og Melasveit fylgi greiðslumark búfjár sem jafngildir 213 ærgildum.

Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda og þeim tildæmdur málskostnaður in solidum að mati dómsins.  Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

 

MÁLSATVIK

   Á nauðungaruppboði 21. febrúar 1996 bauð stefnandi Guðný Helgadóttir 11.200.000 krónur í eignina Mela í Leirár- og Melasveit.  Stefnandi Guðný  var hæstbjóðandi á uppboði þessu og var boð hennar samþykkt sama dag.  Stefnandi Guðný greiddi ¼ hluta uppboðsandvirðis 22. mars 1996 og fékk jörðina afhenta.  Sýslumaðurinn í Borgarnesi gaf út afsal til stefnenda Guðnýjar og Hafsteins Hrafns Daníelssonar, manns hennar 22. maí 1996 og voru stefnendur þar lýst réttir og löglegir eigendur eignarinnar.

   Fyrri eigandi jarðarinnar Mela var Eggert Guðmundsson og með umsókn dagsettri 1. nóvember 1995 sóttu hann og sonur hans Gísli Eggertsson um að selja ríkissjóði greiðslumark sauðfjár á jörðinni á grundvelli tilboðs ríkisins samkvæmt samningi ríkisins og bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 1. október 1995. Í samningi þessum var gert ráð fyrir kaupum ríkisins á greiðslumarki sauðfjár og bústofni, sem greiddar voru förgunarbætur fyrir.  Með lögum nr. 124/1995 um breytingu á lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum voru ákvæði samnings þessa lögfest.

   Í umsókn Eggerts og Gísla var sótt um að ríkið keypti greiðslumark jarðarinnar Mela sem var 213 ærgildi og allt að hámarki 336 vetrarfóðraðra kinda.  Umsóknareyðublað þetta var áritað af starfsmanni búnaðarsambands Borgarfjarðar 23. nóvember 1995.  Umsóknin var afgreidd og var fénu fargað í árslok 1995 Förgunarbætur voru greiddar 16. janúar 1996.  Beingreiðslur vegna greiðslumarks skyldu síðan greiðast á þremur árum og var fyrsta greiðsla innt af hendi í mars 1996.  Með bréfi dagsettu 21. janúar 1996 var Eggerti Guðmundssyni sendur samningur til undirritunar og undirritaði Eggert hann 13. febrúar og í landbúnaðarráðuneytinu var hann undirritaður 11. apríl 1996.

                  

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnendur kveða mál þetta höfðað til greiðslu skaðabóta og til viðurkenningar á greiðslumarki fyrir 213 ærgildum á lögbýli Melum í Leirár- og Melasveit.    Viðurkenningarkrafan sé studd við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en stefnendum sé nauðsynlegt að fá viðurkenndan rétt sinn varðandi greiðslumark.  Þau hafi keypt lögbýlið Mela með öllum gögnum og gæðum við nauðungarsölu á jörðinni 25. janúar 1996 og 21. febrúar s.á.    Þau hafi kynnt sér og verið upplýst um greiðslumark til sauðfjár og verið kunnug búskaparháttum ábúanda varðandi sauðfjárhald og hrossaeign.  Á uppboðsþingi hafi í engu verið getið breytinga eða skerðingar á búskaparháttum að Melum enda hafi hvorki stefnanda né uppboðshaldara verið um slíkt kunnugt við nauðungarsölu eignarinnar.  Upplýsingar um þetta hefðu komið fram löngu síðar.  Stefnendur telja að það samkomulag sem stefndu gerðu við Eggert Guðmundsson sé marklaust og í engu gildandi gagnvart grandlausum uppboðskaupendum sem eignast hafi jörðina Mela 21. febrúar 1996.  Stefndi Framkvæmdanefnd búvörusamninga hafi augljóslega eigi hirt um að kynna sér málavexti eða jafnvel verið blekkt til samninga.  Sé ljóst að líkum að Eggert hafi leynt stefnendur, kröfuhafa og sýslumann því að hann hefði í hyggju að ráðstafa greiðslumarki sauðfjár á jörðinni.  Sé þá e.t.v. ljóst af hverju hann sem uppboðsþoli hafi ekki viljað vera viðstaddur á uppboðsþingi 21. febrúar 1996 eins og fram komi í endurriti af þinghaldinu.  Sé ljóst að um vanheimild hafi verið að ræða hjá Eggerti Guðmundssyni varðandi ráðstöfun á greiðslumarki jarðarinnar og verði stefndu að bera hallan af því. 

Bótakrafa stefnenda eigi stoð í meginreglum skaðabótaréttarins en stefnendur telji að stefndi Framkvæmdanefnd búvörusamninga hafi valdið þeim tjóni með því að hindra eðlilega búskaparþróun hjá stefnendum og hafna því að á jörðinni sé 213 ærgilda greiðslumark og þar með svipt stefnendur réttmætum greiðslum sem þeim beri samkvæmt lögum og reglugerðum á sömu forsendum og til jafns við aðra búendir í landinu.  Rétt sé að fram komi að þegar stefnendur leituðu til landbúnaðarráðuneytisins hefði hluti þeirra greiðslna sem greiða átti samkvæmt samningi þegar verið greiddar til Eggerts Guðmundssonar og hefðu greiðslur verið stöðvaðar.  Ráðuneytinu hefði þannig verið greint frá umræddum mistökum og sé það alfarið á ábyrgð þess hvort frekari greiðslur hafi átt sér stað síðar.  Stefnendur vísa til bókunar frá uppboðsþingi 21. febrúar 1996 og uppboðsafsals frá 22. maí s.á. og jafnframt til laga um búvörusamninga nr. 99/1993.  Þá vísa þeir til reglugerða nr. 5 frá 11. janúar 1996 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum og beingreiðslu til 2000 einkum 5. gr. og 7. gr. reglugerðarinnar. Kröfugerð um greiðslur er rökstudd svo:

Á árinu 1996 og 1997 hafi þau rekið sauðfjárbúskap sem hér segir:

   Tímabilið mars 1996 til nóvember 1996 = 65 ær.

   Tímabilið nóvember 1996 til febrúar 1997 = 32 ær.

   Tímabilið febrúar 1997 til september 1997 = 135 ær.

   Uppgjör á greiðslumarki ætti að fara fram á þessum grundvelli.  Með vísan til 2. mgr. 5. gr. sé ljóst að beingreiðsla verði óskert 213 ærgildi ef ásetningur er 127,8 ær. Full beingreiðsla fyrir árið 1996 ætti að vera 795.342 krónur en skerðast hlutfallslega ella.

1. Á árinu 1996 hafi stefnendur haft 65 ær sem séu 108,3 ærgildi eða 404.392 krónur í átta mánuði og sé beingreiðsla því fyrir þann tíma 269.595 krónur.

2. Í nóvember og desember 1996 hafi stefnendur haft 32 ær, eða 53,3 ærgildi eða samtals 197.902 krónur x 2 : 12 sem geri 32.983 krónur í beingreiðslu.

3. Á árinu 1997 hafi stefnendur haft 32 ær í einn mánuð eða 53,3 ærgildi, sem geri 16.492 krónur í beingreiðslu.

4. Á árinu 1997 hafi stefnendur haft 135 ær frá 1. febrúar til útgáfudags stefnu og nemi beingreiðslur til ársloka 1997 samtals 729.063 krónum.

Samtals sé því skuld vegna ógreiddra beingreiðslna á árinu 1996 og miðað við allt árið 1997 1.048.134 krónur.

 

Þá sé ljóst að stefnendur hafi orðið fyrir verulegum áföllum vegna afstöðu stefnda Framkvæmdanefndar um búvörusamninga.  Telja verði óhæfilegt að stefnendur séu látnir gjalda þess að fráfarandi bóndi hafi ráðstafað réttindum frá jörðinni án heimildar eða gert um það samning við nefndina.  Leggja verði til grundvallar það sjónarmið að allar skerðingar á búskaparháttum eða kvaðir þar að lútandi verði að vera kynntar sérstaklega þá er nauðungaruppboð fer fram á jörð, ekki síst með tilliti til þess að nauðungaruppboð eigi sér alllangan aðdraganda og séu kynnt með sérstökum og almennum auglýsingum í dagblöðum og í Lögbirtingarblaði.  Þinglýsa beri kvöð á jarðir ef um förgunarkaup eða uppkaup á greiðslumarki sé að ræða en það hafi ekki verið gert í þessu tilviki.  Vísa stefnendur um þetta til reglugerðar nr. 23. frá 16. janúar 1996 um kaup og úthlutun á greiðslumarki sauðfjár vegna framleiðsluaðlögunar, einkum 2. mgr. 1. gr.

Landbúnaðarráherra sé stefnt vegna framkvæmdanefndar um búvörusamninga en nefndi sé ekki sjálfstæður lögaðili en ráðherra skipi hana og beri á henni ábyrgð.

Þá sé fjármálaráðherra stefnt f.h. ríkissjóðs sem vörslumanni ríkisfjárhirslu. 

 

Af hálfu stefndu er því haldið fram að, í samningi ríkisins við Bændasamtökin um framleiðslu sauðfjárafurða frá l. október 1995 hafi falist m.a., að sú framleiðslustýring hafi verið aflögð er hafi falist í gildandi lögum með því að greiðslumark hafi verið hvort tveggja viðmiðun fyrir beingreiðslur og kvóti á þá framleiðslu sem unnt hafi verið að leggja inn í afurðastöð og fá fullt grundvallarverð fyrir.  Framleiðslukvóti hafi verið aflagður og greiðslumarkið eingöngu skilgreint rétt til bein­greiðslna.  Hver afurðarstöð hafi verið ábyrg fyrir uppgjöri til framleiðenda vegna sölu innanlands en útflutningur á sameiginlegri ábyrgð framleiðenda.  Til að draga úr framleiðslu og færa stuðningsgreiðslur til bænda er byggðu afkomu sína á sauðfjár­rækt hafi m.a. verið gert ráð fyrir kaupum ríkisins á allt að 30.000 ærgilda greiðslumarki sauðfjár og greiðslu förgunarbóta fyrir bústofn vegna sölu greiðslumarks.

Ákvæði samningsins hafi síðar verið lögfest með lögum nr. 124 frá 6. desember 1995 er breytt hafi lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og hafi í 16. gr. verið kveðið á um heimild ríkisins á árunum 1995 og 1996 til uppkaupa á allt að 30.000 ærgilda greiðslumarki og greiðslu förgunarbóta.

Hinn 1. nóvember 1995 hafi verið gengið skriflega frá umsókn þeirra Eggerts Guðmundssonar og Gísla Eggertssonar um að selja ríkissjóði 213 ærgilda greiðslumark sauðfjár sem þá var skráð á jörðinni Melum og um förgunarbætur fyrir bústofn vegna sölu greiðslumarks.  Í umsókninni komi fram að hún sé gerð á grundvelli tilboðs ríkissjóðs um uppkaup á greiðslumarki og fækkun fjár samkvæmt búvörusamningnum frá 1. október 1995 og um greiðslur fyrir greiðslumark og fargaðan bústofn fari eftir þeim samningi.  Ennfremur að umsókn verði því aðeins tekin til greina að óskað sé eftir sölu á öllu greiðslumarki umsækjenda til sauðfjárframleiðslu að meðtöldu greiðslumarki til heimtöku og að förgunarbætur miðist að hámarki við fjölda áa, veturgamalla og eldri, sbr. ær og gimbrar á forðagæsluskýrslu haustið 1994, þó aldrei fleiri ær en framvísað verði til förgunar.  Í lok umsóknarinnar séu tekin upp ákvæði úr samningi um framleiðslu sauðfjárafurða um fjárhæð greiðslna, greiðsluskilmála og kvaðir og tekið fram að umsóknin sé sett fram með fyrirvara um fárveitingar til verkefnisins.  Búnaðarsamband Borgarfjarðar hafi áritað umsóknina hinn 23. nóvember 1995 og staðfest þar með móttöku hennar, greiðslumark og ásett sauðfé skv. forðagæsluskýrslu 1994.

Í kjölfar setningar laga 124/1995 hinn 6. desember, hafi umsóknir er borist hefðu í nóvember verið teknar til meðferðar.  Umsókn eiganda og ábúanda Mela hafi uppfyllt skilyrði til að vera tekin til greina og hafi verið meðal umsókna er samþykktar voru og fé hafi verið fargað á þeim grundvelli í desember.  Hafi þar með komist á bindandi samningur um kaup ríkisins á greiðslumarki Mela og greiðslu förgunarbóta á þeim grundvelli.  Í kjölfar förgunar fjár hafi verið hafist handa um framkvæmd á greiðslum ríkisins skv. samningunum, með því að landbúnaðarráðuneytið tók saman lista yfir samþykkta samninga og fól Framleiðsluráði að inna af hendi samkvæmt honum beingreiðslur vegna sölu greiðslumarks og förgunarbætur til þeirra sem höfðu fargað fé á þeim grundvelli.  Förgunarbætur vegna Mela hafi verið greiddar að fullu hinn 16. janúar 1996 í samræmi við tilboðið og þá staðfestingu sláturhúss að fargað hefði verið 234 ám og gemlingum. Þriggja ára beingreiðslur skv. samningnum hafi fylgt gjalddögum beingreiðslna og hafist samkvæmt því í mars 1996 sbr. 3. mgr. 7. gr. rgl. nr. 5/1996.  Með bréfum hinn 21. janúar 1996, hafi seljendum greiðslumarks síðan verið sendir útfylltir samningar til undirritunar.  Sé undirritun Eggerts Guðmundssonar á samninginn dagsett 13. febrúar 1996 en formleg staðfesting ríkisins á honum hafi átt sér stað í landbúnaðarráðuneytinu hinn 11. apríl 1996.

Samkvæmt framangreindu hafi bindandi samningur um sölu greiðslumarks Mela til ríkisins komist á, og hvor aðili um sig innt af hendi greiðslur á grundvelli hans, þó skriflegur frágangur hans af hálfu aðila lægi ekki fyrir, er nauðungarsala á Melum til að byrja uppboð á eigninni fór fram hinn 25. janúar 1996. Fram hafi komið eitt boð frá Stofnlánadeild landbúnaðarins 100.000 krónur og ákveðið hafi verið að uppboði yrði haldið áfram hinn 21. febrúar 1996.  Í bréfi sýslumannsins í Borgarnesi dagsettu 16. febrúar 1998 og símbréfi Gísla Kjartanssonar, hdl. dagsettu sama dag komi fram að við nauðungarsöluna, jafnt við byrjun uppboðs hinn 25. janúar sem við framhald uppboðs hinn 21. febrúar, hafi skýrlega komið fram þær upplýsingar við nauðungarsöluna að greiðslumark fylgdi ekki jörðinni.  Tekur Gísli fram í bréfi sínu að honum hafi verið fullkunnugt um það að greiðslumark jarðarinnar hafði verið selt fyrir uppboðsdag en hann hafi boðið á móti stefnendum f.h. Sparisjóðs Mýrasýslu við framhald uppboðs 21. febrúar og átti næst hæsta boð 1.1.000.000 sem hafi verið 200.000 krónum lægra en stefnendur buðu.

Kaup stefnenda á jörðinni hafi ekki komist á við það eitt að verða hæstbjóðendur á nauðungaruppboðinu hinn 21.   febrúar 1996, heldur þá fyrst er það boð var samþykkt lögum samkvæmt við greiðslu þeirra á fjórðungi uppboðskaupsverðs hinn 22. mars 1996 sbr. 3. mgr. 39. gr. nsl. nr. 90/1991, en allar götur til þess tíma á gerðarþoli þess kost að lögum fá uppboð fellt niður með samningum við gerðarbeiðendur, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna.

Í 39. gr. laga nr. 99/1993 hefðu verið ákvæði er heimiluðu aðilaskipti að greiðslumarki sauðfjár milli lögbýla og í 14. gr. laga 124/1995 um breyting á þeim lögum hafi verið kveðið á um óbreytta heimild í því efni fram til 1. júlí 1996.  Haldi Framleiðsluráð landbúnaðarins skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beingreiðslu.  Um þinglýsingu á greiðslumarki eða aðilaskiptum að því sé ekki að ræða og reglur um aðilaskipti að greiðslumarki og sölu til ríkissjóðs sbr. 38. og 40. gr. laga 99/1993 sbr. lög nr. 124/1995, hafi heldur ekki gert því skóna að samþykki veðhafa þyrfti til þeirrar ráðstöfunar.  Sú ráðagerð að þinglýsa samningum ríkisins um uppkaup á greiðslumarki sbr. 1. gr. rgl. nr. 23/1996 hafi því ekki komið til vegna þeirrar ráðstöfunar á greiðslumarki lögbýla er þeir fólu í sér, heldur vegna þeirrar kvaðar sem þeir fólu í sér á hagnýtingu viðkomandi lögbýla til sauðfjárhalds á gildistíma búvörusamningsins.

Er eigandi Mela hafi gengið að tilboði ríkisins um kaup á greiðslumarki lögbýlisins og bindandi samningur komist á um sölu greiðslumarksins til ríkisins við förgun fjár í lok árs 1995 og í síðasta lagi 16. janúar 1996, hafi engum annmörkum verið fyrir að fara að lögum á heimild jarðeiganda til að ráðstafa greiðslumarki frá jörðinni.  Samkvæmt því hefði greiðslumarki jarðarinnar verið löglega ráðstafað frá jörðinni af þar til bærum eiganda áður en til nauðungarsölu kom.  Fái sá málatilbúnaður stefnenda og kröfur á því byggðar, að sala á greiðslumarki Mela sé marklaus og ógild gagnvart þeim vegna eignarréttar þeirra og vanheimildar seljanda engan veginn staðist.  Ekki fái heldur staðist staðhæfingar um að þau hafi getað verið grandlaus um það, að lögbýlið hafi verið boðið upp án greiðslumarks, er þau buðu í eignina við framhald uppboðs 21. febrúar og fengu boð sitt samþykkt með greiðslu 22. mars 1996.

Verði ekki á sýknukröfu fallist sé varakrafa stefndu sú að kröfur stefnenda verði stórkostlega lækkaðar.  Krafa þeirra um að þeim verði tildæmdar samtals 1.048.134 í bætur vegna ætlaðra vangoldinna beingreiðslna á árinu 1996 og 1997 fái ekki staðist.  Samkvæmt 39. gr. laga nr. 99/1993, sbr. 15. gr. laga nr. 124/1995 um breytingu á þeim lögum ákvarðist beingreiðslur af ásetningi haustið áður samkvæmt forðagæsluskýrslu, sbr. og 2. gr. laga 124/1995 og 5. gr. rgl. nr. 5/1996 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum og beingreiðslur 1996 - 2000.  Breytingar síðar og innan árs sem engra gagna njóti við um, hafa ekki áhrif í því efni.  Fyrir liggi að stefnendur hafi engar ásettar kindur haft haustið 1995 og uppfylli þegar af þeim ástæðum ekki skilyrði til að njóta beingreiðslna á árinu 1996.  Þá sé ljóst af skýrslu forðagæslumanna frá 10. desember 1996, að eingöngu 28 ær hefðu verið settar á haustið 1996.  Takmarkist beingreiðslur á árinu 1997 í samræmi við það.  Kröfum stefnenda um dráttarvexti og upphafstíma dráttarvaxta er loks mótmælt.

 

NIÐURSTAÐA

Eggert Guðmundsson var þinglýstur eigandi jarðarinnar Mela í Leirár- og Melasveit, er hann sótti um sölu á greiðslumarki og förgunarbætur 1. nóvember 1995 en Búnaðarsamband Borgarfjarðar veitti umsókninni viðtöku 21. nóvember 1995.  Áritun starfsmanns þess, vitnisins Guðmundar Sigurðssonar, var til staðfestu móttöku hennar og þess að lýsing á ásetningi á jörðinni Melum væri rétt.  Förgunarbætur voru greiddar 16. janúar 1996 og með bréfi Framkvæmdanefndar búvörusamninga, dagsettu 21. janúar 1996 var Eggerti sendur samningur um sölu hans til ríkissjóðs á greiðslumarki í sauðfjárrækt til undirritunar.  Verður við það miðað hér að í síðasta lagi þann dag hafi bindandi samningur verið kominn á með eiganda Mela og framkvæmdanefndarinnar um ráðstöfun greiðslumarks jarðarinnar.   Ekki kemur fram í málinu að athugasemdir hafi komið frá veðhöfum við ráðstöfun þá sem gerð var á greiðslumarki jarðarinnar og þykir raunar ekki skipta máli hér eins og kröfugerð og aðild málsins er háttað.

Samkvæmt þessu hafði greiðslumarki jarðarinnar Mela verið ráðstafað af eiganda hennar áður en stefnandi, Guðný Helgadóttir, bauð í hana á uppboðsþingi 21. febrúar 1996 og verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnenda að ráðstöfun þessi hafi verið Eggerti óheimil gagnvart þeim. 

Frammi liggur í málinu bréf sýslumannsins í Borgarnesi til stefnda, landbúnaðarráðherra, dagsett 16. febrúar 1998 þar sem segir að þær upplýsingar hafi legið fyrir á öllum stigum málsins að jörðin væri kvótalaus.  Þá staðfesti vitnið Gísli Kjartansson, héraðsdómslögmaður, bréf sitt frá 16. febrúar 1998, þar sem segir að sýslumaður hefði tekið fram við uppboðið að enginn framleiðsluréttur fylgdi jörðinni.  Með vísan til þessara gagna þykir sannað að stefnendum hafi mátt vera kunnugt að greiðslumarki jarðarinnar Mela hefði verið ráðstafað af fyrri eiganda áður en þeir eignuðust jörðina.  Með því að svo var þykir það ekki hafa þýðingu hér hvort umræddri kvöð hafði verið þinglýst á jörðina skv. 1. gr. reglugerðar nr. 23/1996.

Samkvæmt þessu verða stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnenda og eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnendur til að greiða stefnendum óskipt 100.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

   Stefndu, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra skulu sýknir af öllum kröfum stefnenda, Guðnýjar Helgadóttur og Hafsteins Hrafns Daníelssonar.

   Stefnendur greiði stefndu óskipt 100.000 krónur í málskostnað.