Hæstiréttur íslands

Mál nr. 769/2012


Lykilorð

  • Efndabætur
  • Vangildisbætur
  • Umboð
  • Aðfinnslur


                                     

Miðvikudaginn 8. maí 2013.

Nr. 769/2012.

Plasteyri ehf.

(Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.)

gegn

Auðhumlu svf.

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

Efndabætur. Vangildisbætur. Umboð. Aðfinnslur.

P ehf. og N ehf. gerðu með sér viljayfirlýsingu þess efnis að síðarnefnda félagið keypti af hinu fyrrgreinda plastumbúðir sem það áætlaði að framleiða. Samkvæmt efni viljayfirlýsingarinnar gilti hún í 7 ár og byrjaði að telja við fyrstu afhendingu umbúða. Engin viðskipti fóru fram á milli aðila á grundvelli viljayfirlýsingarinnar og höfðaði P ehf. því mál gegn A svf., sem keypt hafði N ehf., og krafði um efndabætur. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að yfirlýsingin yrði ekki skilin á annan veg en þann að vilji aðila hafi staðið til að eiga viðskipti sín á milli að ótilgreindum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt því og að virtum samskiptum aðila í kjölfar yfirlýsingarinnar hefði P ehf. ekki tekist sönnun þess að með henni hefði komist á samningur milli aðila um þau viðskipti sem þar voru áformuð. Þá hefði heldur ekki verið sýnt fram á að A svf. hefði á saknæman og ólögmætan hátt bakað sér bótaskyldu gagnvart P ehf. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu A svf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2012. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 66.186.581 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2006 til 24. október 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 47.230.315 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu greinir. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að þar sem Oddgeir Sigurjónsson, þáverandi framleiðslustjóra Norðurmjólkur ehf., hafi skort umboð til að rita undir yfirlýsingu þá, sem um er deilt í málinu, beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í vætti Oddgeirs kom fram um tilurð yfirlýsingarinnar að þáverandi framkvæmdastjóri félagsins, Helgi Jóhannesson, hafi samið hana, en vitnið undirritað hana að beiðni framkvæmdastjórans. Umræddur Helgi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi fengið skjalið sent í tölvupósti frá Hrafni Stefánssyni, fyrirsvarsmanni áfrýjanda, en félagið hafði þá ekki verið formlega stofnað. Minnti vitnið að það hafi „örugglega breytt skjalinu eitthvað“ og sniðið „væntanlega einhverja vankanta sem að ég sá á því eða taldi að væri öðruvísi ... gagnvart okkur“. Taldi vitnið trúlegra að það hafi falið Oddgeiri að skrifa undir skjalið, frekar en hinn síðarnefndi hafi gert það vegna þess að vitnið hafi ekki verið við. Samkvæmt þessu er nægjanlega í ljós leitt að Oddgeir Sigurjónsson hafi ritað undir yfirlýsinguna að tilhlutan Helga Jóhannessonar, sem fór á þeim tíma með prókúruumboð fyrir Norðurmjólk ehf. og hafði þar af leiðandi heimild til að skuldbinda félagið. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að sýkna beri hann vegna þess að Oddgeir hafi skort umboð til að undirrita yfirlýsinguna fyrir hönd Norðurmjólkur ehf.

Yfirlýsing sú, sem um ræðir, er tekin í heild sinni upp í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem yfirskrift skjalsins ber með sér er um viljayfirlýsingu að ræða. Sönnunarbyrði um það að með henni hafi komist á bindandi samningur milli aðila hvílir á áfrýjanda. Í yfirlýsingunni er ekki fjallað með ákveðnum hætti um gerð umbúða, magn þeirra og verð, heldur er þar með almennum hætti vísað til þess að Norðurmjólk ehf. muni „þegar nýjar framleiðsluvörur/bragðtegundir koma í framleiðslu kaupa þær plast umbúðir sem Norðurmjólk þarf á að halda vegna framleiðslu sinnar af framleiðanda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ennfremur mun Norðurmjólk eftir því sem traust eykst milli aðila færa stærri hluta innkaupa sinna til framleiðanda á öðrum tegundum.“ Samkvæmt þessu var gert ráð fyrir að viðskipti aðila yrðu lítil til að byrja með, en myndu aukast síðar eftir því sem traust ykist milli aðila. Þá er í yfirlýsingunni  ákvæði um gildistíma hennar, en þar segir að hún eigi að gilda í sjö ár og byrji „að telja við fyrstu afhendingu umbúða.“ Á þetta ákvæði reyndi ekki þar sem engin viðskipti fóru fram. Enn fremur er í yfirlýsingunni einhliða ákvæði um að Norðurmjólk ehf. gæti sagt henni upp ef framleiðandi uppfyllti ekki skilyrði um gæði og hreinlæti umbúðanna og afhendingaröryggi. Verður yfirlýsingin ekki skilin á annan veg en þann að vilji aðila hafi staðið til að eiga viðskipti sín á milli að ótilgreindum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt þessu og að virtum samskiptum aðila í kjölfar yfirlýsingarinnar, sem benda til að þeir hafi ekki talið að um skuldbindandi samning væri að ræða, hefur áfrýjanda ekki tekist sönnun þess að með yfirlýsingunni hafi komist á samningur milli aðila um þau viðskipti sem þar voru áformuð. Þá hefur áfrýjandi heldur ekki sýnt fram á að stefndi hafi á saknæman og ólögmætan hátt bakað sér bótaskyldu gagnvart áfrýjanda vegna þess að fyrrgreind áform gengu ekki eftir. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest, þar með talið ákvæði hans um málskostnað.

Með hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Það athugast að aðalmeðferð í máli þessu fór fram 13. maí 2011 og var það þá dómtekið. Málið var tekið fyrir að nýju á dómþingi 14. maí 2012 og fært til bókar að dómsuppsaga hafi dregist þannig að flytja bæri það á nýjan leik, sem síðan hafi verið gert og málið dómtekið. Enn var málið tekið fyrir 28. september 2012 og sömu atriði færð til bókar og áður getur og dómur kveðinn upp 4. október sama ár. Er þessi málsmeðferð aðfinnsluverð.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. október 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 28. september sl. að undangengnum endurteknum málflutningi, var höfðað 25. mars 2010.  Stefnandi er Plasteyri ehf., Þórsstíg 4, Akureyri.  Stefnda er Auðhumla svf., Austurvegi 65, Árborg.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði dæmt til að greiða sér 66.186.581 krónu ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 1. nóvember 2006 til 24. október 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá þ.d. til greiðsludags og málskostnað.

Til vara er þess krafist að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 47.230.315 krónur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 1. nóvember 2006 til 24. október 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá þ.d. til greiðsludags og málskostnað.

Stefnda krefst aðallega sýknu, en til vara þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. 

I.

Stefnandi kveður hafa verið til sín stofnað árið 2005 í framhaldi af undirritun viljayfirlýsingar 4. nóvember 2005 af Hrafni Stefánssyni, þá fyrir hönd óstofnaðs einka­hlutafélags, en Hrafn varð síðan framkvæmdastjóri stefnanda, og Oddgeiri Sigurjónssyni fyrir hönd Norðurmjólkur ehf. hins vegar.  Hefur stefnda tekið við réttindum og skyldum þess félags.  Viljayfirlýsingin ber yfirskriftina: Viljayfirlýsing Norðurmjólkur ehf. kt. [...] og hljóðar þannig:

Hrafn Stefánsson hyggst stofna og starfrækja framleiðslufyrirtæki á Akureyri sem áætlar að framleiða plastdósir, hér eftir framleiðandi.  Áætlað er að framleiða Ø95 mm. 200gr og 500gr dósir eins og Norðurmjólk notar í miklum mæli við framleiðslu sína.

Norðurmjólk mun, þegar nýjar framleiðsluvörur/bragðtegundir koma í fram­leiðslu, kaupa þær plastumbúðir sem Norðurmjólk þarf á að halda vegna fram­leiðslu sinnar af framleiðanda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Ennfremur mun Norður­mjólk eftir því sem traust eykst milli aðila færa stærri hluta innkaupa sinna til fram­leiðanda á öðrum tegundum.

Umbúðirnar skulu ekki vera af lakari gæðum og hreinlæti skal að minnsta kosti vera jafn gott eins og frá núverandi birgjum.  Norðurmjólk fer með eftirlit á hreinlæti umbúðanna en að öðru leyti uppfyllir framleiðandi skilyrði heilbrigðisyfirvalda.  Verð plastumbúðanna skal vera markaðsverð eins og það gerist en ekki skal miða við augljós undirboð.

Framleiðandi útvegar miðana en Norðurmjólk sér um grafísku hliðina og aðra tölvuvinnu vegna útlits og hönnunar, mynd- og prentgæði skulu vera þau sömu áfram.

Lögun ílátanna verður sú sama áfram ef það er vilji Norðurmjólkur.  Ákvörðun um lögun liggur fyrir áður en mótasmíðin fer fram.

Framleiðandi skuldbindur sig til að eiga alltaf eins mánaðar öryggislager af þeim umbúðum sem um ræðir, nánari skipting á öryggislager í samráði við Norður­mjólk.

Framleiðandi áætlar einnig að kaupa mót og bjóða framleiðslu á þríhyrndu ílátunum fyrir gráðaosta en Norðurmjólk útvegar hráefnið áfram.

Viljayfirlýsingin gildir í 7 ár og byrjar að telja við fyrstu afhendingu umbúða.

Norðurmjólk getur sagt viljayfirlýsingu þessari upp ef framleiðandi uppfyllir ekki skilyrði um gæði og hreinlæti umbúðanna ásamt afhendingaröryggi.“

Í málinu liggur frammi reikningur frá Engel Danmark A/s, stílaður á stefnanda, fyrir plastsprautuvél, að fjárhæð 480.000 evrur. Reikningurinn er dagsettur 5. maí 2006.

Norðurmjólk ehf. mun hafa sameinast Mjólkursamsölunni í stefnda með sam­runasamningi 28. júní 2006 og samruninn verið miðaður við 1. janúar 2007.

Þann 22. nóvember 2006 sendi Bjarni Hafþór Helgason Guðbrandi Sigurðssyni, þáverandi forstjóra Mjólkursamsölunnar, tölvupóst. Erindið var að koma á framfæri upplýsingum um plastsprautuvélina og skora á Guðbrand að koma norður og skoða verksmiðjuna og límmiðavél hjá öðru fyrirtæki. Kvaðst Bjarni Hafþór hafa sagt framkvæmdastjórum stefnanda og hins fyrirtækisins að hann hefði rætt við Guðbrand og að það væri raunhæft að ná honum í viðskipti. Guðbrandur svaraði og kvaðst hafa sent þróunarmönnum sínum upplýsingarnar og vísaði á nánar greinda menn til að taka við kynningu á nýjum umbúðum.

Í málinu liggur frammi tölvupóstur, dagsettur 25. janúar 2007 frá Helga Aðal­steinssyni til nokkurra viðtakenda, þar sem er rætt um stöðu mála hjá stefnanda og tillögu sendanda um myndarlega hlutafjáraukningu Tækifæris hf. í stefnanda. Er því þarna lýst að daginn áður hafi ,,MS menn“ heimsótt stefnanda til að skoða aðstæður og leggja mat á það hvort þeir vildu að stefnandi framleiddi umbúðir fyrir þá. Er því lýst að þeir hafi fullyrt að þeir myndu vilja koma allri sinni framleiðslu fyrir ,,Norðurmjólk“ yfir til stefnanda á sem skemmstum tíma. Vissulega þyrfti ýmislegt að gerast áður en af því gæti orðið. Ætluðu þeir að senda hugmyndir að nýjum umbúðum, sem síðan þyrfti að senda þangað sem miðarnir yrðu framleiddir og þeir síðan sendir til baka áður en framleiðsla gæti hafist.

Þann 8. ágúst 2007 sendi Magnús Gauti Gautason Guðbrandi tölvupóst fyrir hönd stefnanda og vísaði til fundar daginn áður. Stakk hann þar upp á því sem málamiðlun að stefnandi framleiddi fyrir ,,MS á Akureyri“ allar umbúðir fyrir kotasælu og sýrðan rjóma, allar umbúðir fyrir skyr á meðan forsteyptar umbúðir væru notaðar og að einnig yrði skoðað hvort ekki mætti framleiða hjá stefnanda einhverjar umbúðir sem væru nú fluttar inn, t.d. fyrir smjörva. Með þessu myndi ,,MS“ efna viljayfirlýsingu Norðurmjólkur ehf. frá 4. nóvember 2005. Kemur fram í tölvupóstinum að af hálfu stefnanda sé litið á yfirlýsinguna sem ígildi samnings, en tekið fram að því hafi verið mótmælt af hálfu „MS“.

Guðbrandur sendi Magnúsi Gauta tölvupóst að morgni 10. ágúst 2007, til undirbúnings símafundi síðar um daginn. Bað hann um að tvö atriði yrðu skoðuð fyrir fundinn, annars vegar hvort fyrirhugað væri að Reykjalundur keypti stefnanda og hins vegar að af hálfu Mjólkursamsölunnar væri viljayfirlýsingin ekki skuldbindandi samningur. Lagði hann til að gengið yrði frá nýrri viljayfirlýsingu og sendi uppkast að henni með tölvupóstinum.

Í málinu liggja frammi minnispunktar Magnúsar Gauta eftir símafundinn 10. ágúst 2007. Er þar m.a. haft eftir Guðbrandi að MS væri tilbúið að láta stefnanda framleiða umbúðir fyrir kotasælu og sýrðan rjóma og síðan skoða hvað annað væri unnt að gera. Honum hafi þá verið bent á að þau viðskipti yrðu einungis brot af viðskiptum með skyrumbúðir og hvort ekki væri mögulegt að stefnandi framleiddi þær uns hætt yrði að nota forsteyptar umbúðir. Hafi Guðbrandur sagt að það kæmi ekki til greina vegna þess að MS væri með magnbundinn samning við Reykjalund um þær umbúðir. Hafi fundinum lokið með því að Magnús hafi sagt að stefnandi myndi skoða þetta og verða í sambandi.

Lögmaður ritaði Mjólkursamsölunni bréf f.h. stefnanda 24. september 2007 og krafðist þess að stefnda efndi viljayfirlýsinguna.  Var því svarað með bréfi þar sem kröfunum var hafnað.  Eftir frekari bréfaskipti óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta meint tjón sitt vegna vanefnda. Hljóðaði matsspurning um það hvert væri tjón matsbeiðanda vegna vanefnda á samningi aðila frá 4. nóvember 2005, miðað við að hann hefði gilt samkvæmt efni sínu í sjö ár frá 1. nóvember 2006 að telja.  Dómkvaddur matsmaður, Friðbjörn Björnsson, lög­giltur endurskoðandi, lauk mats­gerð 17. september 2009.  Er aðalkrafa stefnanda byggð á niðurstöðu mats­mannsins. 

II.

Stefnandi segir að í október 2007 hafi endanlega verið orðið ljóst að stefnda ætlaði ekki að efna samninginn og ljóst af háttsemi fyrirsvarsmanna þess að það myndi ekki standa við hann.  Þá hafi stefnandi verið búinn að draga úr starfsemi sinni til að takmarka tjón sitt og verið búinn að koma henni í það horf að ekkert yrði af framleiðslu fyrir stefnda.  M.a. hafi hann verið búinn að segja upp þremur starfsmönnum sínum og búinn að losa sig við framleiðsluvélina með því að leggja hana sem nýtt hlutafé í nánar greint félag.  Hafi það verið neyðaraðgerð til að takmarka tjón vegna kaupa á vélinni í öndverðu.  Hafi hið nýja félag verið stofnað með Reykjalundi plastiðnaði ehf. og hafi stefnandi átt 33% hlut á móti því félagi.  Ekki hafi reynst unnt að selja vélina með öðrum hætti.  Af einhverjum orsökum, sem stefnandi hafi ekki haft vald á hafi vélin ekki verið notuð undir merkjum hins nýja félags, heldur í starfsemi Reykjalundar ehf.  Hafi stefnda nú gert samning við Reykjalund ehf. um sams konar framleiðslu. Milli þeirra aðila muni hafa gilt magn­bundinn afsláttar­samn­ingur. 

Stefnandi kveðst byggja á framangreindri viljayfirlýsingu Norðurmjólkur ehf., en stefnda hafi tekið yfir réttindi og skyldur þess félags og sé því aðili málsins.  Sé yfirlýsingin hvatning stefnda til stefnanda um að leggja út í fjárfestingu og upp­byggingu.  Hún hafi verið veruleg forsenda fyrir stofnun fyrirtækisins og ákvörðunar­ástæða um hana, enda fyrirhuguð viðskipti í raun þau einu sem vélin hafi átt að sinna og hafi verið nauðsynlegt að leggja út í kostnað við kaup og uppsetningu á henni til að stefn­andi gæti staðið við sinn þátt samkomulags aðila.  Sé byggt á því að vilja­yfirlýsingin sé í raun svo nákvæmlega útlistuð að um sé að ræða gagnkvæman skuld­bindandi samning, sem vegna skýrleika síns, aðdraganda og aðstæðna allra og með hliðsjón af traustkenningu samningaréttar um réttmætar væntingar skapi réttmætan og óyggjandi grundvöll undir kröfugerð stefnanda.

Stefnandi kveðst byggja aðalkröfuna á reglum um skaðabætur fyrir vanhöld stefnda á að efna samningsskyldur sínar, það er efndabætur.  Markmið þeirra sé að bæta stefnanda það fjárhagslega tjón, sem hann hafi beðið vegna þess að stefnda hafi ekki viljað efna sinn hluta samkomulags aðila með viljayfirlýsingunni, en í nóvember 2006 hafi stefnandi verið reiðubúinn að inna sinn hlut gagnkvæms samkomulagsins af hendi og virkja það þannig.  Um þetta hafi stefnda verið kunnugt eða í það minnsta í janúar 2007 og hafi stefnda þá frá þeim tíma haft skyldur til endanlegrar samnings­gerðar við stefnanda á grundvelli loforðs, sem hafi verið gefið í vilja­yfir­lýsingunni.  Stefnandi kveðst byggja á því að með skjalinu, sem hafi verið undirritað af hálfu beggja aðila 4. nóvember 2005 og sé nefnt viljayfirlýsing hafi komist á bindandi samn­ingur á milli aðilanna.  Yfirlýsingin feli í sér skuldbindingu af hálfu stefnda um að kaupa þær vörur sem hún mæli fyrir um af stefnanda á markaðsverði og gildi sú skuld­binding til 7 ára frá því að stefnandi gæti hafið framleiðslu.  Yfirlýsingin hafi að geyma ákvörðun á öllum þeim atriðum sem samningur þurfi að hafa að geyma, m.a. sé þar samið um framleiðslu, verð og gildistíma og viðskipti aðila séu þar útfærð með nokkuð nákvæmum hætti.  Sé efni samningsins ekki svo almennt að það verði túlkað sem yfirlýsing er ekkert skuldbindingargildi hafi.  Verði í þessu sambandi að líta til allra atvika, tilefnis samkomulagsins, háttsemi aðila áður en til þess var stofnað, svo sem afhendingu gagna, þess að Norðurmjólk ehf. samdi yfirlýsinguna og réði efni hennar og svo síðast háttsemi fulltrúa stefnda eftir að þeir komu að málum eftir yfirtöku á réttindum og skyldum Norðurmjólkur ehf. , þar sem látið hafi verið í veðri vaka að menn myndu hafa samkomulagið í heiðri.  Þar sem Norðurmjólk ehf., nú stefnda, hafi samið samkomulagið, sem  hafi verið látið heita viljayfirlýsing, verði að skýra allan vafa um gildi þess stefnda í óhag.  Mikill aðstöðumunur sé á aðilum í þessu sambandi, bæði að því er varði þekkingu í faginu og um framleiðslutölur, sem og viðskipti og markaðs­þekkingu framkvæmdastjóra Norðurmjólkur ehf.  Ekki sé hægt að fallast á að skuld­binding stefnda sé engin eða falli niður við það eitt að hann hafi sjálfur kosið að nefna skjalið viljayfirlýsingu.  Við túlkun þess verði að líta til efnis þess og atvika allra í málinu.  Viljayfirlýsingin sé loforð um viðskipti eða a.m.k. ákveðin og afdráttarlaus áformsyfirlýsing um fyrirhuguð viðskipti Norðurmjólkur ehf. við stefnanda, ef stefnanda tækist að koma upp verksmiðju til að framleiða þar til­greindar umbúðir.  Það sjáist best á því að Norðurmjólk ehf. áskilji sér í textanum rétt til að segja upp viljayfirlýsingunni ef framleiðandi uppfylli ekki skilyrði um gæði og hreinlæti umbúðanna ásamt afhendingaröryggi.  Í því felist skuldbinding til að gefa stefnanda tækifæri til að fram­leiða umbúðir fyrir stefnda. 

Stefnandi byggir á því að niðurstaða eigi að ráðast af því hverju hafi verið lofað í raun í yfirlýsingunni sjálfri.  Fráleitt sé að halda því fram að viljayfirlýsingin feli ekki í sér neitt skuldbindingargildi gagnvart stefnanda.  Stefnda hafi borið að ganga til samninga a.m.k. í ársbyrjun 2007 eða í síðasta lagi um mitt það ár og gefa stefnanda tækifæri til að framleiða vörur fyrir stefnda og koma á viðskiptum milli aðila.  Þá kveðst stefnandi byggja á því að horfa verði til þeirrar háttsemi sem aðilar hafi sýnt af sér í samskiptum.  Þeir hafi hegðað sér eins og um bindandi samning væri að ræða og háttsemi stefnda og starfsmanna þess hafi verið til þess fallin að skapa hjá stefnanda væntingar og traust til þess að stefndi myndi efna yfirlýsinguna.  Afhending á við­skipta­upplýsingum um framleiðslumagn sé eitt skýrasta gagnið um að Norðurmjólk ehf. hafi talið að samkomulag hefði tekist með aðilum, að ekki sé talað um væntingar sem afhending slíkra gagna hafi vakið hjá stefnanda.  Fyrirsvarsmenn stefnda hafi ávallt talað um það við fyrirsvarsmenn stefnanda að það væri alveg að bresta á að þeir hæfu kaup á framleiðslu í samræmi við samkomulag aðila.  Eigi það jafnt við um tímabilið fyrir og eftir sameiningu Norðurmjólkur ehf. í stefnda, t.d. við heimsókn fulltrúa stefndu til stefnanda í janúar 2007.  Yfirlýsingar þeirra og ummæli við það tækifæri hafi orðið ákvörðunarástæða hluthafa stefnanda til hlutafjár­aukningar.  Vanhöld á að kaupa framleiðslu af stefnanda fari í bága við meginreglu samninga­réttar um að samningar skuli standa og efna skuli loforð.  Með þessu hafi skapast bótaréttur fyrir stefnanda á grundvelli reglna um efndabætur. 

Stefnandi kveður stefnda vera langstærsta framleiðanda mjólkurvara á Íslandi og hafi það yfirburðastöðu á markaði.  Sé hlutdeild þess þar slík að það njóti óum­deilanlega markaðsráðandi stöðu á Íslandi hvað varði framleiðslu og sölu á mjólk­ur­afurðum.  Þær plastumbúðir sem samkomulagið hafi fjallað um séu í mjög litlum mæli notaðar af öðrum en stefnda.  Stefnda sé langstærsti kaupandi slíkra umbúða á Íslandi eftir sameiningu afurðastöðva árin 2006 og 2007.  Rekstraráætlanir stefnanda hafi allar tekið mið af því að tíma vélarinnar yrði varið til þess að uppfylla skyldu samkvæmt samkomulaginu við stefnda.  Því hafi stefnandi átt erfitt um vik með að leita fyrir sér með samninga við aðra aðila um framleiðslu fyrir þá.  Vilji manna og tilgangur hafi staðið til þess að Norðurmjólk ehf. myndi að öllu leyti færa viðskipti sín vegna skyrumbúða til stefnanda.  Stefnda hafi  vanefnt samkomulag sitt við stefnanda og með því vanefnt samninginn við stefnanda með verulegum hætti og bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda á grundvelli reglna um efndabætur.  Málið horfi svo við stefnanda að við sameiningu Norðurmjólkur ehf. og stefnda hafi allt viðhorf stefnda til samningsins breyst.  Stefnda hafi algerlega snúið baki við stefnanda og samið við einn stærsta framleiðanda umbúða fyrir mjólkurafurðir á landinu, að því er virðist á sama tíma og viðhaldið hafi verið væntingum stefnanda um efndir samnings gagnvart sér.  Með því hafi stefnda jafnframt útilokað stefnanda frá samningum við stefnda, sem njóti markaðsráðandi stöðu á framleiðslu og sölu á mjólkurafurðum á Íslandi, sbr. 4. kafla samkeppnislaga nr. 44, 2005 og um leið kippt varanlega grundvellinum undan forsendum samkomulagsins frá 4. nóvember 2005. 

Þá segir stefnandi að yfirlýsingunni sé markaður gildistími í 7 ár og stefnandi hafi mátt ætla að stefnda myndi kaupa af honum vörur í þann tíma.  Gerð sé krafa um að stefnda bæti stefnanda tjón hans svo að stefnandi verði eins settur og ef samningurinn hefði verið efndur.  Því miðist krafan við tapaða framlegð í 7 ár.  Við útreikning kröfunnar sé miðað við það magn, sem stefnandi hafi mátt ætla að hann myndi framleiða fyrir stefnda.  Sé þar miðað við þær upplýsingar sem forsvarsmenn Norðurmjólkur ehf. hafi afhent stefnanda um framleiðslutölur sínar og hann hafi mátt vænta að yrði það magn sem hann myndi framleiða fyrir stefnda miðað við tilgang aðila með samkomulagi um að stefnandi setti upp verksmiðju, sem annað gæti allri umbúðaþörf stefnda fyrir skyr.  Krafan hljóði því um 66.186.581 krónu.  Þessi útreikningur og framsetning kröfunnar styðjist við mat dómkvadds matsmanns og þessi þáttur kröfugerðarinnar grundvallist á reglum um efndabætur, þ.e. skaðabætur vegna þess tjóns sem stefnda hafi valdið með vanefndum á gagnkvæmum loforðum og skuldbindingum. 

Stefnandi kveðst telja kröfunni stillt í hóf.  Hann kveðst taka fram að hann hafi haft alla burði til að efna samkomulagið af sinni hálfu og sé það best staðfest af stefnda, sem láti nú framleiða fyrir sig og kaupa umbúðir undir skyr, framleiddar í Engel vélinni, sem stefnandi hafi keypt.  Selji stefnda nú skyr í dósum, sem á botninum séu merktar stefnanda. 

Stefnandi kveðst gera varakröfu um vangildisbætur, sem taki mið af kostnaði við kaup á sérhæfðri framleiðsluvél, sem hafi gagngert verið keypt vegna samkomu­lagsins, auk launa- og húsaleigukostnaðar frá 1. nóvember 2006, fram til þess tíma er ljóst hafi verið orðið að ekkert yrði af samstarfi aðila.  Hafi stefnandi reynt að takmarka tjón sitt að þessu leyti frá lokum október 2007. 

Stefnandi kveðst miða varakröfu sína við að hann verði sem næst settur því að samkomulagið hefði aldrei komist á og Norðurmjólk ehf. hefði aldrei gefið út viljayfirlýsinguna.  Sé gerð krafa um að stefnda bæti stefnanda það tjón sem hann hafi orðið fyrir með því að þurfa að kaupa Engel vélina og selja hana aftur með tapi.  Einnig sé krafist bóta fyrir tjón vegna launakostnaðar vegna starfsmanna sem hann hafi haft í vinnu til að geta efnt samninginn við stefnda og vegna húsaleigu.  Stefnandi hafi reynt að koma vélinni í verð aftur með það að markmiði að takmarka tjón sitt og einnig hafi hann sagt starfsmönnum upp þegar honum hafi orðið ljóst að stefnda myndi vanefna samninginn.  Ekki hafi verið unnt að segja starfsmönnum upp fyrr, því stefnandi hafi þurft að vera við því búinn að efna sinn hluta samnings og hefja framleiðslu fyrirvaralítið.

Þá kveðst stefnandi byggja á því að hann hafi keypt vélina eftir upphaf samvinnu aðila í þeim tilgangi að framleiða vörur fyrir Norðurmjólk ehf. og hafi samningur við félagið verið helsta forsenda og ákvörðunarástæða fyrir því að stefnandi hafi verið settur á stofn.  Þessi framleiðsla hafi skipt öllu máli í rekstrar­áætlunum stefnanda.  Þetta komi fram í upphafi yfirlýsingarinnar þar sem fram komi að Hrafn Stefánsson hyggist setja á stofn og starfrækja framleiðslufyrirtæki, sem áætli að framleiða plastdósir fyrir Norðurmjólk ehf.  Stofnsetning stefnanda og kaup hans á Engel vélinni og undirbúningur að framleiðslu hafi verið hans þáttur í að efna samningsskyldur sínar samkvæmt samkomulagi aðila og hafi forsvarsmönnum Norðurmjólkur ehf., síðar stefnda, mátt vera ljóst að með þessu hafi stefnandi fyrir orð og athafnir stefnda verið að taka á sig stórar fjárhagslegar skuldbindingar um fjárfestingu og rekstur.  Það hafi ekki verið fyrr en síðar þegar stefnandi hafi verið kominn á stofn og verið tilbúinn fyrir sitt leyti, að fyrirsvarsmenn stefnda hafi ákveðið að kaupa ekki vörurnar af honum og vanefnt skuldbindingar sínar við hann þannig með verulegum hætti og auk þess samið við samkeppnisaðila um sömu framleiðslu.  Með þessu hafi stefnda valdið stefnanda tjóni og bakað sér bótaskyldu á grundvelli almennrar sakarreglu skaðabótaréttarins, ekki síður en reglum um bætur innan samninga.  Byggi varakrafan á grundvelli bótaréttar innan samninga.  Ekki hafi verið unnt fyrir stefnanda að takmarka tjón sitt vegna þess að í fyrsta lagi hafi ekki verið til að dreifa öðrum kaupendum, en í annan stað hefði ekki verið hægt að gera fram­leiðslu­samninga við aðra aðila, sem kynnu að hafa teppt vélina fyrir verkefni í þágu stefnda, en í viljayfirlýsingunni leggi stefndi m.a. mikið upp úr afhendingaröryggi. 

Til þrautavara kveðst stefnandi byggja á bótarétti á grundvelli almennu sakarreglunnar, verði ekki fallist á framangreindar málsástæður hans fyrir aðal- eða varakröfu.  Sé á því byggt að háttsemi stefnda hafi í því tilviki verið saknæm og ólögmæt, þar sem stefnanda hafi verið talin trú um samningsvilja og verið att út í fjárfestingar og stofnun fyrirtækis á röngum forsendum, sem stefnda beri ábyrgð á að hafa skapað.  Hafi þetta valdið stefnanda beinu fjártjóni með sama hætti og reifað sé um varakröfu og sé vísað til þess.  

Stefnandi kveðst hafa reynt að takmarka tjón sitt eins og honum hafi verið unnt.  Hann hafi losað sig við Engel vélina með því að leggja hana sem hlutafé í nýtt félag.  Hann hafi sagt upp starfsmönnum, sem hafi átt að starfa við framleiðsluna, eins fljótt og honum hafi verið unnt.  Hið nýja félag, Reykjalundur plastiðnaður ehf., hafi engan samning eða verkefni haft fyrir vélina.  Vélin hafi framleitt fyrir Reykjalund, sem hafi átt 2/3 hins nýja félags, upp í samning þess við stefnanda, nákvæmlega sömu vöru og stefnandi hafði átt að framleiða fyrir stefnda.  Stefnandi hafi aldrei fengið greiddan arð eða greiðslu frá félaginu og raunar sé óvíst að félagið hafi nokkurn tímann fengið greitt fyrir framleiðslu.  Félagið sé ekki í starfsemi og viðskiptabanki þess hafi leyst til sín vélina samkvæmt heimildum stefnanda.  Hlutafé Reykjalundar plastiðnaðar ehf. sé einskis virði og hafi stefnandi í engu fengið bætur á móti tjóni sínu sem þetta mál sé risið út af. 

III.

Stefnda tekur fram um málavexti að Norðurmjólk ehf., áður Mjólkursamlag KEA, hafi rekið mjólkurbú og ostagerð á Akureyri og Húsavík.  Með sam­runa­samningi 28. júní 2007 hafi stefnda og Norðurmjólk ehf. sameinast þannig að stefnda hafi tekið yfir Norðurmjólk ehf.  Samningurinn hafi verið miðaður við 1. janúar 2007.  Norðurmjólk ehf. hafi nú verið fellt af fyrirtækjaskrá.  Þann 22. nóvember 2006 hafi Bjarni Hafþór Helgason, sem sé kallaður fulltrúi stefnanda í stefnu, sent Guðbrandi Sigurðssyni, þáverandi forstjóra stefnda, upplýsingar með tölvupósti um vélakost stefnanda og hafi Bjarni Hafþór hvatt Guðbrand til að koma norður og skoða verksmiðju stefnanda.  Þá segi í tölvupóstinum að sendandinn hafi sagt fram­kvæmda­stjóra þessara félaga að hann hafi rætt við Guðbrand, og það sé raunhæft að ná honum í viðskipti svo fremi sem gæði og verð séu að fullu samkeppnishæf.  Guðbrandur hafi svarað og ráðlagt Bjarna Hafþóri að setja sig í samband við þróunarmenn stefnda eins og hann hafi orðað það.  Sigurður Rúnar Friðjónsson hafi tekið við sem mjólkur­samlags­stjóri á Akureyri 1. janúar 2007.  Seint í þeim mánuði hafi Hrafn Stefánsson komið á fund Sigurðar Rúnars og sýnt honum viljayfirlýsinguna.  Sigurður Rúnar hafi ekkert við hana kannast, en tjáð Hrafni að fyrirtækið væri ekki tilbúið að skuldbinda sig með þessum hætti gagnvart birgjum.  Hann hafi hins vegar lofað að skoða málið en viljað fá fram með skýrum hætti hvaða ávinning fyrirtækið hefði af því að ganga til samninga við stefnanda ef málið héldi áfram.  Í lok janúar 2007 hafi Sigurður Rúnar, Einar Matthíasson og Auðunn Hermannsson, allir starfsmenn stefnda, skoðað verksmiðju stefnanda án nokkurra skuldbindinga um viðskipti.  Að mati þeirra hafi verið ljóst að verksmiðjan hafi um þetta leyti ekki verið tilbúin til framleiðslu á umbúðum.  Þannig hafi þeir talið að Hrafn Stefánsson ætti eftir að senda mót út til lag­færingar og hafi Sigurður Rúnar talið að mótin hafi ekki komið fyrr en í maí/júní 2007.  Nokkur samskipti hafi átt sér stað á milli aðila í framhaldi af heimsókninni og hafi Sigurður Rúnar m.a. gengið stíft eftir því við Hrafn að fá upplýsingar um hugsanlegt verð.  Frekari samskipti hafi átt sér stað í ágúst 2007 milli aðila.  Af þeim tölvusamskiptum sé ljóst að stefnda hafi alls ekki talið að samningur hefði verið kominn á og stefnanda hafi verið það vel ljóst.  Viðræður aðila um hugsanleg viðskipti hafi síðan runnið út í sandinn. 

Stefnda kveður sýknukröfu sína í fyrsta lagi byggða á aðildarskorti.  Fyrir hönd Norður­mjólkur ehf. hafi Oddgeir Sigurjónsson, þá mjólkurfræðingur og framleiðslu­stjóri hjá Norðurmjólk ehf., ritað undir yfirlýsinguna.  Helgi Jóhannesson, fram­kvæmda­stjóri Norðurmjólkur ehf., hafi þá verið prókúruhafi fyrir félagið, auk þess sem Björn Ingimarsson fjármálastjóri hafi einnig haft prókúru.  Oddgeir hafi ekki verið prókúruhafi, enda haldi stefnandi því ekki fram.  Hann hafi því ekki haft heimild til að skuldbinda félagið.  Því síður hafi hann verið með fullgilt umboð til þess frá stjórn og/eða framkvæmdastjóra félagsins til að skuldbinda það.  Norðurmjólk ehf. og þar með stefnda séu ekki skuldbundin af viljayfirlýsingunni og því beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts. 

Verði ekki á þessa málsástæðu fallist byggir stefnda sýknukröfu sína á því að ekki hafi komist á bindandi samningur. Viljayfirlýsingin geti ekki talist fela í sér skuld­bindandi loforð um tiltekin viðskipti.  Sérstaklega sé því mótmælt sem ósönnuðu að markmiðið hafi verið að stefnandi myndi fjárfesta og koma á fót starfsemi til að framleiða umbúðir fyrir stefnda.  Þá sé því einnig mótmælt að Norðurmjólk ehf. hafi af­hent stefnanda skjal á dskj. nr. 4, sem eru upplýsingar um framleiðslutölur, enda beri það ekki þess merki að stafa frá Norðurmjólk ehf.  Í viljayfirlýsingunni séu viðskiptin hvergi tilgreind með ítarlegum hætti, þ.e.a.s. gerð, magn og verð, heldur vísað með almenn­um hætti til vilja fulltrúa Norðurmjólkur ehf. til viðskipta þegar nýjar fram­leiðsluvörur/bragðtegundir komi í framleiðslu, eftir því sem traust aukist milli aðila og miða skuli við markaðsverð eins og það gerist.  Þá feli yfirlýsingin í sér skil­mála sem Norðurmjólk ehf. telji að þurfi að vera uppfylltir til að síðar sé hægt að gera bind­andi samning um tiltekin viðskipti.  Jafnframt virðist sem viljayfirlýsingin eigi ekki að taka gildi fyrr en við fyrstu afhendingu umbúða og það tímamark sé enn ekki komið.  Þá sé því mótmælt sem haldið sé fram í stefnu að túlka eigi allan vafa varðandi orðalag yfirlýsingarinnar stefnanda í hag vegna aðstöðumunar aðila.  Hrafni Stefánssyni, sem hafi undirritað yfirlýsinguna fyrir hönd stefnanda, sé lýst í stefnu og í nánar greindu dómskjali sem manni með mikla reynslu, góðum fagmanni og svo framvegis.  Ef Helgi Jóhannesson hafi samið yfirlýsinguna verði ekki séð að hann sem fram­kvæmdastjóri mjólkurbús standi Hrafni svo miklu framar að aðstöðumunur sé á þeim þegar komi að orðalagi yfirlýsingarinnar og að við túlkun á henni eigi þess vegna að skýra allan vafa stefnanda í hag.  Sé með vísan til ofanritaðs ljóst að stefnandi geti á engan hátt byggt rétt á þessari vilja­yfirlýsingu. Þá kveðst stefnda benda á það að samskipti aðila eftir gerð yfir­lýsingar­innar bendi til þess að þeir hafi ekki talið að kominn væri á bindandi samn­ingur.  Þannig hafi Bjarni Hafþór Helgason, fulltrúi stefnanda, sagt í tölvupósti við Guðbrand Sigurðsson að hann hafi rætt við hann um að það væri raunhæft að ná honum í viðskipti, svo fremi sem gæði og verð væru að fullu samkeppnishæf.  Þetta orðalag sýni að ekki hafi verið talið af hálfu stefnanda að hann væri með samning við stefnda.  Þá sé að finna í  málinu minnisblað stefnanda um heimsókn starfsmanna stefnda til stefnanda.  Þar segi að MS menn hafi heimsótt stefnanda til að skoða aðstæður og leggja mat á hvort þeir vildu að félagið framleiddi einhverjar umbúðir fyrir þá.  Þetta orðalag bendi til þess að stefnandi hafi litið svo á að enginn samningur hafi verið fyrir hendi milli félaganna um framleiðslu.  Öll samskipti aðila og hegðun þeirra eftir gerð yfirlýsingarinnar bendi til þess að ekki hafi verið um skuldbindandi samning að ræða. 

Varakröfu um lækkun krafna, ef ekki verði fallist á sýknukröfuna, styður stefnda við það að fjárhæðir í matsgerð séu athugaverðar og sumar þeirra byggðar á misskilningi.  Rekstrartekjur séu þar sundurliðaðar í sölu á 200 ml og 500 ml ílátum og tölur um söluna sagðar byggðar á tilteknu dómskjali, sem sé sérstaklega mótmælt að stafi frá Norðurmjólk ehf. og telji stefnda ekkert á þessu skjali byggjandi.  Þá telji stefnda framlegðartölur, sem stefnandi hafi kynnt, vera allt of háar og sé þeim mómælt sem ósönn­uðum.  Þá segir stefnda að á framlögðum launamiða megi sjá að á sama tíma og stefnandi fullyrði að fyrirtækið hafi verið lamað vegna þess að stefnda hafi ekki staðið við gerða samninga hafi fyrirtækið verið að greiða sumum starfs­mönnum sínum fyrir umtalsverða yfirvinnu.  Enga skýringu sé að finna á þessu í stefnu og sé ljóst að stefnandi hafi verið með mikla starfsemi þrátt fyrir það að stefnda hafi ekki verið að kaupa af honum umbúðir.  Fullyrðing stefnanda um að vilja­yfirlýsingin hafi verið ein helsta forsenda og ákvörðunarástæða fyrir því að fyrirtækið hafi verið sett á stofn geti því ekki átt við rök að styðjast.  Þá fullyrði stefnandi að hann hafi þurft að segja upp starfsmönnum sínum þegar ljóst hafi verið að stefnda ætlaði ekki að ganga til samninga við hann, en matsmaður virðist hins vegar aðeins gera ráð fyrir einum starfsmanni í framleiðsluna.  Ekki sé sannað hversu marga starfsmenn hafi þurft vegna hennar og sé hér um vanreifun af hálfu stefnanda að ræða.  Þá geri matsmaður ráð fyrir að stefnandi hafi nýtt allt húsnæðið, samkvæmt framlögðum húsaleigusamningi, undir framleiðslu fyrir stefnda og reikni með kostnaði við húsaleigu í 7 ár.  Þetta sé ekki rétt, því að stefnandi hafi einnig verið með aðra starfsemi í húsnæðinu, svo sem ráðið verði af yfirvinnugreiðslum til fjölda starfs­manna.  Af gögnum málsins sé ljóst að stefnandi hafi t.d. verið að framleiða frauð­kassa í húsnæðinu.  Það standist því ekki að reikna með að allur húsaleigukostnaður hafi verið vegna hugsanlegs verkefnis fyrir stefnda.  Þá sé hluti af aðalkröfu stefnanda til kominn vegna vélaleigu.  Sé helst á stefnanda að skilja að hann hafi leigt plastsprautuvél af Glitni banka, og geri matsmaður  ráð fyrir leigukostnaði vegna vélarinnar.  Stefnandi hafi hins vegar einnig lagt fram afrit reikninga sem sýni innkaupskostnað vélarinnar.  Þá sé krafa stefnanda um vangildisbætur byggð á því að hann hafi keypt vélina.  Loks segi í stefnu að stefnandi hafi lagt vélina sem hlutafé inn í annað félag.  Hér rekist því hvað á annars horn.  Sé þessi kröfuliður stefnanda vanreifaður. Sé honum mótmælt og þessi kostnaður sé ósannaður.  Þá kveðst stefndi mótmæla upphafsdegi vaxta sérstaklega, enda sé ljóst að stefnandi hafi ekki verið tilbúinn að framleiða fyrir stefnda, t.d. í janúar 2007 og liggi engin gögn frammi í málinu sem sýni hvenær stefnandi hafi raunverulega verið tilbúinn í framleiðslu.  Þá sé því haldið fram af stefnanda að hann hafi þurft að losa sig við vélina, sem ekki sé ljóst hvort hann hafi leigt eða keypt, með því að leggja hana sem hlutafé inn í Reykjalund plastiðnað ehf.  Stefnandi hafi engar upplýsingar lagt fram um það hvað hann hafi fengið fyrir vélina, en þá fjárhæð eigi að sjálfsögðu að draga frá varakröfu stefnanda.  Þá hafi stefnandi engar upplýsingar lagt fram um það hvaða tilraunir hann hafi gert, ef einhverjar, til að selja vélina á frjálsum markaði.  Þá sé aðalkrafa stefnanda byggð á því að stefndi eigi að bæta honum tekjur, sem hann hefði hugsanlega getað haft af samningi við stefnda í 7 ár.  Það hafi þó verið ljóst í síðasta lagi í ágúst 2007 að ekkert yrði af samningum og þá hafi stefnanda borið að takmarka tjón sitt.  Raunar sé það með ólíkindum að stefnanda skuli hafa komið það til hugar að fyrirtæki eins og stefnda myndi semja um umbúðakaup til 7 ára án undangengins útboðs.  Stefnandi geti aldrei átt rétt á bótum frá stefnda sem jafngildi 7 ára tekjum af samningi sem aldrei hafi verið gerður.  Viðmiðunartímanum sé því sér­staklega mótmælt.  Þá kveðst stefnda mótmæla varakröfu stefnanda sem sé byggð á vangildisbótum, en á þeim geti hann ekki átt rétt þar sem aldrei hafi komist á gildur samningur milli aðila. 

Stefnda tekur fram, hvað varðar þá málsástæðu stefnanda að háttsemi stefnda hafi verið ólögmæt og saknæm þar sem stefnanda hafi verið talin trú um samningsvilja og verið att út í fjárfestingar og stofnun fyrirtækis á röngum forsendum sem stefndi beri ábyrgð á, að ef stefnandi hafi farið út í fjárfestingar á grundvelli óljósrar viljayfirlýsingar, þá sé það eitthvað sem stefnandi verði sjálfur að bera ábyrgð á.  Af samskiptum aðila eftir gerð viljayfirlýsingarinnar sé ljóst að stefnandi hafi sjálfur ekki litið svo á að kominn væri á bindandi samningur.  Hafi stefnda ekki hagað sér með ólögmætum eða saknæmum hætti.  Þá sé tilvitnun stefnanda í stefnu í 4. kafla sam­keppnislaga óskiljanleg.  Engin frekari tilraun sé gerð til að útskýra meint brot á samkeppnislögum nánar.  Stefnda sé væntanlega heimilt að kaupa umbúðir hjá þeim sem bjóði honum best.  Það að stefndi hafi markaðsráðandi stöðu á framleiðslu mjólkur­vara skuldbindi hann ekki á nokkurn hátt gagnvart stefnanda og sé aðdróttunum um brot á samkeppnislögum sérstaklega mótmælt. 

IV.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur fyrir dómi vitnin Magnús Gauti Gauta­son, Hrafn Stefánsson, Sigurður Rúnar Friðjónsson, Oddgeir Sigurjónsson, Guðbrandur Sigurðsson, Helgi Jóhannesson og Friðbjörn Björnsson. 

Magnús Gauti kvaðst hafa orðið stjórnarformaður stefnanda í september 2006 og hætt í stjórn árið 2008. Í september hafi stefnandi verið tilbúinn að framleiða umbúðir, en þess hafi verið óskað að beðið yrði uns viðræðum um sameiningu yrði lokið, vegna óvissu um umbúðamerkingar og verkaskiptingu eftir sameiningu. Mikill áhugi hafi samt sem áður verið til staðar hjá Norðurmjólk ehf. á að framleiðslan kæmist á.  Í raun og veru hafi verið beðið eftir hönnun á miðum á umbúðirnar, til að unnt væri að byrja. Fulltrúar Mjólkursamsölunnar hafi síðar komið í heimsókn og lýst ánægju sinni með aðstæður. Magnús Gauti kvað síðan hafa verið gengið mikið á eftir stefnda að hefja innkaup hjá stefnanda, án árangurs. Í júní 2007 hafi hann rætt við Guðbrand Sigurðsson og spurt hvort samsalan vildi ekki standa við yfirlýsingar sínar. Guðbrandur hafi ekki við neinar yfirlýsingar kannast. Hann hafi þá faxað til hans viljayfirlýsinguna. Guðbrandur hafi þá sagt að stefndi myndi að sjálfsögðu standa við skuldbindingar sínar og að hann myndi setja sína menn í málið.

Magnús Gauti kvað stefnanda hafa framleitt frauðkassa og ætlað að framleiða mjólkurvöruumbúðir hins vegar. Hann kvað kröfugerð vegna mjólkurvöruumbúða byggjast á tölum sem hafi verið fengnar frá Norðurmjólk ehf. Hann kvað stefnanda hafa verið sagt af hálfu stefnda að til stæði að breyta almennt umbúðum, síðar hafi verið sagt að til staðar væri samningur við Reykjalund, sem væri magnbundinn.

Rætt hefði verið um að stefnandi framleiddi umbúðir fyrir kotasælu og sýrðan rjóma og annað ekki, sem hefði verið svo lítið að það hefði verið óhagstætt fyrir stefnanda.

Hann kvað stefnanda hafa verið innflytjanda vélarinnar, en Glitnir fjármögnun hefði keypt hana og leigt stefnanda.

Hann kvað væntingar hafa verið um að traustið myndi ná alla leið á nokkrum mánuðum.

Hrafn Kristjánsson kvaðst hafa leitað til Norðurmjólkur ehf., þar sem hann hefði haft í hyggju að koma upp verksmiðju á Akureyri. Starfsemin hefði annars vegar byggst á að framleiða frauðkassa, en meira hefði þurft að koma til. Hann hefði rætt við Oddgeir Sigurjónsson og hefði þá vaknað hugmynd um að framleiða skyrdósir fyrir Norðurmjólk ehf. Til að geta fjármagnað framleiðsluna hefði hann þurft að hafa eitthvað á pappír.

Helga Jóhannessyni hefði ekki fundist textinn hjá sér ekki nógu ítarlegur og umskrifað hann og bætt í. Hann kvaðst hafa fengið magntölur og einnig tölur um verð hjá Oddgeiri, til að sjá hvort væri vit í þessu. Þegar hann hefði verið búinn að reikna fram og aftur hefði hann talið þetta gerlegt. Hann kvað Oddgeir hafa undirritað, af því að hann hefði haft það hlutverk að kaupa inn vörur.

Þeir Helgi hefðu rætt um það hvaða vél ætti að kaupa, enda báðir vélstjórar. Einnig hvaðan mótin kæmu og fleira.

Hrafn kvaðst síðan hafa farið með prufudósir uppeftir og þær hefðu staðist kröfur, en þá hefðu byrjað vandræði varðandi miða á dósirnar. Helgi hafi sagt að samstarf við MS væri á döfinni, sem útheimti nýja miða. og sagt að það yrði að hinkra aðeins. Hann hefði sjálfur séð örlítinn útlitsgalla á dósum og ákveðið að senda mótin út í 2-3 vikur, svo að þau yrðu örugglega til þegar miðar yrðu klárir. Stefnandi hefði samt verið tilbúinn að framleiða þá þegar. Kvaðst hann hafa verið þarna eins og grár köttur til að reyna að fá þessi miðamál á hreint til að geta framleitt. Um áramót hefði Sigurður Rúnar Friðjónsson komið til starfa. Hann hefði komið af fjöllum þegar minnst hefði verið á þennan samning, en verið allur af vilja gerður til að leysa þetta mál. Stefnandi hefði síðan fengið heimsókn frá Mjólkursamsölunni. Tveir menn hefðu komið að sunnan og verið í fylgd Oddgeirs og Sigurðar Rúnars. Farið hefði verið yfir allt saman. Hefði mönnum litist vel á og hefði verið sagt við hann að nú skyldu þeir Sigurður Rúnar fara að koma þessu í gang.

Hrafn gat þess að síðar hefði komið upp að mót hefði brotnað hjá framleiðanda og hefði þá verið haft samband við sig frá Bergplasti að hann minnti. Hann hefði þá sjálfur starfað hjá Umbúðum á Akureyri. Hann hefði verið beðinn að framleiða 20.000 dósir í hvelli. Það hefði tekist og þessi reynsla sýnt að vélin væri a.m.k. jafn góð og hjá öðrum framleiðanda, ef ekki betri. Hefði hann verið 30% hraðvirkari.

Sigurður Rúnar Friðjónsson kvaðst áður hafa starfað fyrir MS í Búðardal, en hafa byrjað sem mjólkurbússtjóri á Akureyri á vegum MS í byrjun janúar 2007. Hann hefði þá fyrst heyrt af viljayfirlýsingunni. Spurður hvað hefði komið af nýjum bragðtegundum, sagði hann að frá 2007 hefðu sex tegundir farið út og ein komið inn í staðinn. Sú hefði sennilega komið inn 2008, þá hefðu komið inn tvö númer og annað hefði verið lagt niður síðar. Hann hefði skoðað verksmiðjuna árið 2007 og hún þá ekki verið alveg tilbúin, eitthvað hefði vantað upp á mótin. Niðurstaðan hefði verið að vélin væri ekki tilbúin. Það myndi taka vikur að senda mótin út. Hann sagði aðspurður að Oddgeir Sigurjónsson hefði hætt störfum í lok apríl 2008. Ástæðan hefði verið trúnaðarbrestur við yfirmenn. Spurður um samskipti sín við við Hrafn Kristjánsson kvaðst hann halda að hann hefði verið frekar jákvæður, en MS hefði ekki gengist undir svona skriflega varanlega samninga við umbúðabirgja og vildi það ekki.

Oddgeir Sigurjónsson kvaðst vera mjólkurfræðingur og hafa unnið hjá Norðurmjólk ehf. sem framleiðslu-, innkaupa- og tæknistjóri. Hann kannaðist við að hafa undirritað viljayfirlýsinguna. Hrafn hefði langað til að stofna plastverksmiðju og framleiða dósir fyrir Norðurmjólk ehf. Hann hefði örugglega fengið hjá sér sölutölur og því um líkt. Kvaðst hann ekki muna eftir að hafa neitað Hrafni um upplýsingar. Hefðu þeir spjallað mikið og fyrirtækið haft hug á að skipta við heimamann ef af yrði. Ávinningur myndi felast í sparnaði, þ.e. af því að þurfa ekki að flytja dósirnar að sunnan. Oddgeir kvaðst hafa undirritað yfirlýsinguna að ósk Helga Jóhannessonar, þar sem hann hefði séð um innkaupamál. Hann kvað hafa staðið til að byrja með að framleiða umbúðir fyrir nýjar tegundir og byrja þannig að skapa viðskiptavild, en ekki hefði staðið til að framleiða umbúðir fyrir stærri tegundir í bili. Það hefði ekkert verið komið á það stig að ræða það. Oddgeir kvaðst ekki hafa samið yfirlýsinguna að neinu leyti. Hann sagði að líklega hefðu komið til tvær nýjar skyrtegundir áður en hann hætti störfum. Alls hefðu verið uppundir 20 tegundir í framleiðslu.

Guðbrandur Sigurðsson kvað sér hafa orðið kunnugt um viljayfirlýsinguna árið 2006, þegar hafi verið ljóst að Norðurmjólk ehf. og Mjólkursamsalan væru að sam­einast, sem hafi leitt til stofnunar stefnda. Taldi hann að Magnús Gauti hefði hringt og sagt sér frá yfirlýsingunni. Hann minntist þess ekki að hún hefði verið kynnt sem bindandi samningur við samrunann. Hann kvaðst hafa rætt þessi mál ítarlega við aðila á sínum tíma og reynt hefði verið að finna einhverjar leiðir. Hann hefði ekki talið þessa yfirlýsingu bindandi, en sagt að þeir væru tilbúnir á á viðskiptalegum forsendum ef gæði og verð væru í lagi.

Helgi Jóhannesson sagði um aðdraganda yfirlýsingarinnar að hann hefði vitað af samskiptum Oddgeirs og Hrafns. Sig minnti að hann hefði fengið skjalið í sína tölvu, breytt því eitthvað, það síðan verið skrifað út og trúlega hefði hann ákveðið að láta Oddgeir, framleiðslu- og innkaupastjóra, undirrita. Spurður hvað hann hefði talið felast í yfirlýsingunni sagði hann að þeir hefðu á þessum tíma verið tilbúnir að fara í þessa ferð, byrja með nýjar tegundir og sjá hvernig gengi. Hefðu þeir séð hag í að birgðir væru nær þeim og viljað að svona gæti farið. Þeir hefðu oft verið að skipta um smærri tegundir, sem hefðu dottið út og komið inn. Þeir hefðu verið tilbúnir að fara yfir í þetta við skipti á tegundum og sjá til. Hann kvaðst þykjast vita að Oddgeir hefði gefið Hrafni upp tölur um fjölda dósa, en ekki vita það hvað varðaði verð, en Hrafn hefði verið búinn að koma oft og ræða við Oddgeir. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa rætt við Hrafn um tegund vélar, en báðir hefðu þeir verið áhugamenn um vélar. Hann kvað þá hafa fengið prufudósir til skoðunar og ekki muna eftir að þeir hefðu þurft að gera neitt sérstakt, en ljóst hefði verið að þeir hefðu þurft að leggja miðana til, enda alltaf gert það þegar hefði verið skipt um dósir.

Helgi kvað sömu grunnvörutegundir alltaf hafa verið í gangi. Aðrar hefðu verið að detta út og nýjar að koma inn. Hefðu það verið 1-2 tegundir á ári sem þeir hefðu verið að prófa nýjar og það hefði verið það ferðalag sem þeir hefðu tilbúnir að leggja í með Hrafni og sjá síðan til hvernig mál þróuðust. Hann tók fram að vel mætti vera að þeir hefðu ekki áttað sig á því að þeir ættu að vera eitt aðalhjólið undir vagninum.

Friðbjörn Björnsson staðfesti matsgerð sem liggur frammi í málinu og skýrði hana nánar. Staðfesti hann að hún væri miðuð við að stefnandi hefði framleitt allar dósir sem stefnda hefði þurft til framleiðslu á Akureyri.    

V.

Eins og að framan er rakið byggir stefnandi á því að framangreind vilja­yfirlýsing sé svo nákvæmlega útlistuð að um sé að ræða gagnkvæman skuldbindandi samning, sem vegna skýrleika síns, aðdraganda og aðstæðna og með hliðsjón af traustkenningum samningaréttar um réttmætar væntingar, skapi réttmætan og óyggjandi grundvöll undir kröfugerð hans.

Efni skjalsins verður að túlka út frá því að yfirskrift þess er ,,Viljayfirlýsing“. Meginefni þess er fyrirheit Norðurmjólkur ehf. um að kaupa plastumbúðir af stefnanda þegar nýjar framleiðsluvörur/bragðtegundir komi í framleiðslu og enn­fremur muni Norðurmjólk ehf. færa stærri hluta innkaupa á öðrum tegundum til stefnanda eftir því sem traust aukist milli aðila. Ekkert er frekar tiltekið um magn og ekki verður fallist á að tölur um framleiðslumagn og verð, sem Oddgeir Sigurjónsson mun hafa látið stefnanda í té, verði skoðaðar sem hluti þessarar yfirlýsingar á einhvern hátt.

Samkvæmt þessu var yfirlýsingin fyrst og fremst fyrirheit um að kaupa umbúðir undir nýjar framleiðsluvörur. Ekkert loforð felst í yfirlýsingunni um að hefja framleiðslu á nýjum vörum, en samkvæmt framburði Helga Jóhannessonar var þar almennt séð um að ræða 1-2 vörutegundir á ári. Af framburði Sigurðar Rúnars Friðjónssonar og Oddgeirs Sigurjónssonar verður ráðið að tvær nýjar tegundir hafi komið til árið 2008 og önnur þeirra verið lögð niður aftur. Verður ekki við annað miðað en að umbúðir undir þessar tegundir hefðu verið keyptar af stefnanda, hefði vilji aðila samkvæmt yfirlýsingunni gengið eftir.

Í yfirlýsingunni er enginn varnagli um það sleginn að stefnda gæti ekki hvenær sem væri hætt að nota þá tegund umbúða, þ.e tilteknar plastdósir, sem yfirlýsingin tekur til. Þá er fyrirheit Norðurmjólkur ehf. um að færa stærri hluta innkaupa til stefnanda háð fyrirvara um að traust aukist milli aðila. Verður að túlka þetta svo að þetta atriði hafi alfarið átt að vera háð ákvörðun stefnda hverju sinni.

Fyrir liggur að yfirlýsingin í endanlegri gerð var samin af Helga Jóhannessyni, þáverandi prókúruhafa Norðurmjólkur ehf. Helgi kveðst hafa falið innkaupastjóra, Oddgeiri Sigurjónssyni að undirrita hana. Verður að meta þetta svo að Oddgeir hafi haft munnlegt umboð prókúruhafa til þess. Þetta atriði þykir hins vegar styðja þá túlkun yfirlýsingarinnar að hún hafi ekki verið bindandi fyrirheit um annað en í mesta falli að byrja innkaup hjá stefnanda er nýjar vörutegundir kæmu til, enda liggur ekki fyrir að það hafi ekki verið á valdi innkaupastjórans hvar hann keypti umbúðir um nýjar vörutegundir, sem eins og málið liggur fyrir verður að telja til smærri innkaupa.

Þegar þetta er virt verður að líta svo á að stefnandi hafi tekið alla áhættu af því að samskipti aðila þróuðust með þeim hætti sem vonir stóðu til, að stefnda kysi í framtíðinni að kaupa verulegt magn umbúða á sjö ára tímabili frá því að það keypti fyrst af honum umbúðir undir nýja vörutegund. Verður að fallast á það með stefnda að vilja­yfirlýsingin, sem dómkröfur stefnanda byggjast á, verði ekki metin sem skuld­bind­andi loforð um að kaupa svo verulegt magn sem stefnandi byggir á. Þá verður heldur ekki fallist á að stefnda hafi með sak­næmum og ólögmætum hætti bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda fyrir þá sök að samskiptin þróuðust ekki á þennan veg.

Eftir stendur það atriði hvort stefnda hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnda með því að kaupa ekki af honum umbúðir undir nýjar vörutegundir eins og vilja­yfirlýsingin hljóðar um að hann myndi gera, ,,að uppfylltum ákveðnum skil­yrðum“. Eins og áður segir liggur ekki fyrir annað um þessar nýju vörutegundir en það að tvær slíkar hafi fallið til árið 2008 og framleiðslu annarrar þeirra hafi verið hætt aftur, samkvæmt framburði Sigurðar Rúnars Friðjónssonar. Verður að ætla að hér hafi ekki verið um umtalsvert magn umbúða að ræða og er erfitt að leggja mat á það hvort og þá hver áhrif þetta atriði hefur á tjón stefnda af því að það gekk ekki eftir að hann næði til sín framleiðslu á öllum plastdósum fyrir stefnda á Akureyri, eins og kröfugerð hans miðast við. Til þess má líta í þessu sambandi að í framburði Magnúsar Gauta Gautasonar kom fram að ekki hefði verið talið hagstætt fyrir stefnanda að byrja framleiðslu umbúða fyrir kotasælu og sýrðan rjóma, vegna þess að þar hefði verið um lítið magn að ræða. Eins og málið liggur fyrir þykir því ekki grundvöllur til að dæma bætur að álitum hvað þetta varðar.

Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Rétt þykir hins vegar að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Auðhumla svf., er sýkn af kröfum stefnanda, Plasteyrar ehf. í þessu máli.

Málskostnaður fellur niður.