Hæstiréttur íslands

Mál nr. 348/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárslit
  • Lífeyrisréttindi


                                     

Miðvikudaginn 28. maí 2014.

Nr. 348/2014.

K

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

M

(Þyrí Steingrímsdóttir hrl.)

Kærumál. Hjón. Fjárslit. Lífeyrisréttindi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um hvernig farið yrði með lífeyrisréttindi aðila við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar. Með hinum kærða úrskurði var hafnað þeirri kröfu K að réttindin kæmu til skipta við fjárslitin. Hæstiréttur hafnaði kröfu K er laut að lífeyrisréttindum M í samtryggingardeild tilgreinds lífeyrissjóðs og lífeyrisréttindum K hjá fimm tilgreindum lífeyrissjóðum. Rétturinn taldi á hinn bóginn að séreignarlífeyrissparnaður M skyldi koma til skipta milli hans og K við fjárslitin, með skírskotun til þess að slík réttindi yrðu, að virtum ákvæðum laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, hvorki felld undir 2. tölulið né 3. tölulið 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að lífeyrisréttindi aðila komi til skipta við fjárslit milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hennar verði tekin til greina. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 13. maí 2014. Hann krefst þess að úrskurðurinn verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðila verði gert að greiða sér í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði munu aðilar málsins hafa gengið í hjúskap á árinu 2003, en fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng 3. október 2013. Sóknaraðili krafðist þess 5. júní 2013 að opinber skipti færu fram til fjárslita milli þeirra og var sú krafa tekin til greina með úrskurði héraðsdóms 24. sama mánaðar. Við skiptin reis ágreiningur um hvernig farið yrði með lífeyrisréttindi aðilanna, sem sóknaraðili krafðist að kæmu til skipta milli þeirra, en því andmælti varnaraðili. Skiptastjóri beindi ágreiningnum 14. október 2013 til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 13. nóvember sama ár. Ágreiningur aðilanna snerist nánar tiltekið um hvort til skipta ættu að koma í fyrsta lagi séreignarlífeyrissparnaður, sem varnaraðili hafði aflað sér hjá Lífeyrissjóði A og nam 7.391.610 krónum í árslok 2012, í öðru lagi lífeyrisréttindi varnaraðila í samtryggingardeild sama sjóðs, sem virðast hafa verið metin til 1.997.310 stiga á sama tímamarki, í þriðja lagi réttindi varnaraðila samkvæmt líftryggingu frá B, sem munu hafa haft endurkaupsvirði að fjárhæð 9.668,45 evrur 5. febrúar 2013, og í fjórða lagi lífeyrisréttindi sóknaraðila hjá fimm nánar tilgreindum lífeyrissjóðum, sem samkvæmt yfirliti 16. apríl 2013 námu samtals 10,094 stigum. Byggði sóknaraðili aðallega á því að séreignarlífeyrissparnaður varnaraðila, sem lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða tækju til, væri ekki þess eðlis að ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 næði til hans og yrði því að líta á hann sem hjúskapareign, sem kæmi til skipta milli aðilanna samkvæmt 103. gr. síðarnefndu laganna. Til vara bar sóknaraðili því við að hvorki væru skilyrði til að séreignarlífeyrissparnaður þessi né önnur fyrrnefnd réttindi aðilanna yrðu látin falla utan skipta á grundvelli 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga. Við aðalmeðferð málsins í héraði var fært í þingbók að sóknaraðili félli frá kröfu um að réttindi varnaraðila á grundvelli áðurgreindrar líftryggingar kæmu til skipta. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila að öðru leyti hafnað.

Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 er mælt fyrir um að rétthafa að lífeyrisréttindum í séreign sé óheimilt að framselja eða veðsetja slík réttindi eða ráðstafa þeim á annan hátt nema með samkomulagi samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna, þar sem ráðgert er að sjóðfélagi geti gert samning við maka sinn um skiptingu lífeyrisréttinda sinna. Þá er í fyrrnefnda lagaákvæðinu lagt bann við því að fjárnám verði gert í lífeyrisréttindum í séreign og verður jafnframt að líta svo á að með ákvæðinu sé girt fyrir að slík réttindi geti staðið lánardrottnum til fullnustu við skipti á dánarbúi eða þrotabúi rétthafa. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. sömu laga er heimilt að greiða rétthafa, sem er orðinn 60 ára gamall, út lífeyrissparnað ásamt vöxtum. Eftir 4. mgr. sömu lagagreinar fellur innstæða vegna lífeyrisréttinda í séreign til erfingja eftir lögerfðareglum við andlát rétthafa, en láti hann þó ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbús hans og getur hún þá þrátt fyrir 2. mgr. 8. gr. laganna komið til fullnustu kröfum lánardrottna. Þá er þess að geta að samkvæmt ákvæði VIII til bráðabirgða við lög nr. 129/1997 er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt á árinu 2014 að leita útborgunar af honum á fjárhæð allt að 9.000.000 krónur, þótt ekki sé fullnægt almennum skilyrðum 11. og 12. gr. laganna fyrir slíkri útborgun.

Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga getur annar maki krafist þess að ekki komi til skipta við fjárslit milli hjóna réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum, svo og krafa til lífeyris eða líftryggingarfjár, sem ekki hefur endurkaupsvirði samkvæmt kröfu annars makans eða þeirra beggja. Í 3. tölulið sama lagaákvæðis er mælt svo fyrir að það sama gildi um önnur verðmæti eða réttindi, sem ekki er hægt að afhenda eða eru persónulegs eðlis. Þegar fyrrgreind ákvæði laga nr. 129/1997 eru virt með tilliti til þessara reglna hjúskaparlaga verður að gæta að því að séreignarlífeyrissparnaður getur ekki talist til réttinda í opinberum lífeyrissjóði eða einkalífeyrissjóði í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga, enda geta viðskiptabankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og líftryggingafélög tekið auk lífeyrissjóða við séreignarlífeyrissparnaði, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997. Án tillits til þess hvort slíkur sparnaður geti talist til kröfu til lífeyris, sem rætt er um í 2. tölulið 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga, leiðir fyrrnefnt ákvæði VIII til bráðabirgða við lög nr. 129/1997 til þess að leggja verður aðstæður hér að jöfnu við það að réttindin, að andvirði allt að 9.000.000 krónur, hafi á árinu 2014 endurkaupsvirði að kröfu annars makans. Vegna sama bráðabirgðaákvæðis og 2. mgr. 8. gr., sbr. 3. mgr. 14. gr., laga nr. 129/1997 er ekki unnt að líta svo á að réttindi yfir séreignarlífeyrissparnaði séu þess eðlis að ekki sé hægt að afhenda þau. Að þessu öllu gættu verða slík réttindi hvorki felld undir 2. tölulið né 3. tölulið 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga. Verður því að taka til greina kröfu sóknaraðila um að réttindi varnaraðila til séreignarlífeyrissparnaðar komi til skipta milli þeirra við fjárslitin.

Í málinu liggur ekkert fyrir um andvirði réttinda, sem aðilarnir eiga samkvæmt áðursögðu hvort um sig á hendur lífeyrissjóðum á grundvelli almennra reglna um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Eru því ekki skilyrði til annars en að láta þau réttindi falla utan skipta, svo sem varnaraðili krefst, á grundvelli 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skulu koma til skipta réttindi varnaraðila yfir séreignarlífeyrissparnaði hjá Lífeyrissjóði A.

Hinn kærði úrskurður skal að öðru leyti vera óraskaður.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2014.

                Með bréfi skiptastjóra sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 15. október 2013 var ágreiningi aðila um fjárslit vegna hjúskaparslita skotið til Héraðsdóms Reykjaness, sbr. 112. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Málið var þingfest 13. nóvember 2013 og tekið til úrskurðar 3. apríl 2014. Sóknaraðili er K en varnaraðili er M.

                Sóknaraðili gerir þá kröfu að öll lífeyrisréttindi aðila verði talin hjúskapareign við fjárslit milli aðila og að varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að framangreindri kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað.

I

                Aðilar gengu í hjúskap [...]. júlí 2003, slitu samvistum í júní 2012 og fengu skilnað að borði og sæng 3. október 2013. Þau eiga þrjár dætur á aldrinum 7-10 ára. Mestallan hjúskapartímann var sóknaraðili heimavinnandi en varnaraðili vann úti. Aðilar voru búsettir í [...] í tæp 5 ár þar sem varnaraðili gegndi framkvæmdastjórastöðu íslensks fyrirtækis. Þann 11. febrúar 2013 óskaði sóknaraðili eftir skilnaði að borði og sæng hjá sýslumanninum í Hafnarfirði.

                Bú aðila var tekið til opinberra skipta 24. júní 2013 og er viðmiðunardagur skipta  11. febrúar 2013. Eignir búsins eru innbú, tvær fasteignir, önnur á [...] en hin í [...], svo og ein bifreið. Undir skiptum hefur orðið samkomulag um að fasteignirnar og bifreið af gerðinni [...] komi í hlut varnaraðila og hefur útlagning til hans farið fram. Innbú aðila var lagt út til sóknaraðila á virði 0 krónur. Varnaraðili yfirtók skuldir búsins og samkvæmt yfirliti skiptastjóra yfir eignir og skuldir búsins, er skuldir hafa verið dregnar frá matsvirði eigna, stendur varnaraðili í skuld að fjárhæð 4.717.596 krónur en hrein eign sóknaraðila er 492.721 króna.

                Ágreiningur aðila lýtur að lífeyrisréttindum varnaraðila en sóknaraðili telur að öll lífeyrisréttindi varnaraðila, bæði skyldubundinn lífeyrir og séreignarlífeyrir, skuli talinn hjúskapareign aðila. Í gögnum málsins kemur fram að í lok árs 2012 nam séreignarsparnaður varnaraðila 7.391.610 krónum og réttindi hans í Lífeyrissjóði A í árslok 2012 voru 1.997.310 krónur. Þá byggir sóknaraðili ennfremur á að varnaraðili eigi lífeyrisréttindi í [...] lífeyrissjóði en ekki hefur verið upplýst um virði þeirra réttinda. Einungis liggur fyrir í málinu að varnaraðili greiddi í slíkan sjóð lögbundið iðgjald í tæp tvö ár.

II

                Krafa sóknaraðila um að öll lífeyrisréttindi aðila komi til skipta byggist á helmingaskiptareglu hjúskaparréttar. Sóknaraðili telur að undantekningarheimild 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga eigi ekki við um séreignarlífeyrisréttindi, enda hafi þau nú endurkaupsvirði og hafi haft á viðmiðunardegi skipta, sbr. VIII. bráðabirgðaákvæði í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Samkvæmt því ákvæði geti rétthafi krafist greiðslu séreignarsparnaðar allt að 6.250.000 krónum til 1. janúar 2014. Komist dómurinn engu að síður að þeirri niðurstöðu að séreignarlífeyrisréttindi falli undir 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga, þrátt fyrir ofangreind rök, telur sóknaraðili að víkja beri frá því ákvæði á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga þar sem önnur niðurstaða væri ósanngjörn í ljósi allra aðstæðna aðila.

                Krafa um að skyldulífeyrisréttindi komi til skipta byggist á 2. málsl. 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga því að sóknaraðili telur ósanngjarnt að þeim verðmætum sé haldið utan skipta. Varnaraðili hafi aflað þeirra réttinda á meðan á hjúskap aðila stóð með störfum sínum utan heimilis. Framlag sóknaraðila hafi hins vegar verið í heimilishaldi og uppeldi þriggja barna aðila. Í ljósi þess að sóknaraðili hafi gert varnaraðila kleift að afla lífeyrisréttinda utan heimilis með framlagi sínu til heimilishalds og barnauppeldis hafi sóknaraðili sýnt fram á ósanngirni þess að láta lífeyrisréttindi ekki koma til skipta.

                Varnaraðili bendir á að aðilar séu í raun og veru eignalausir og skuldir séu langt umfram eignir. Sammæli sé um það með aðilum að varnaraðili leysi til sín allar eignir búsins og að hann taki jafnframt ábyrgð á öllum skuldum þess en að sóknaraðili eigi rétt á greiðslu á helmingi hreinnar hjúskapareignar sinnar. Útlagning hafi þegar farið fram.

                Varnaraðili telur að samkvæmt 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 komi aðeins til álita að víkja frá meginreglunni þegar aðstæður séu sérstakar og einstakar en við það mat verði að líta heildstætt á allar aðstæður aðila. Kröfur varnaraðila byggist á því að slíkar aðstæður séu ekki fyrir hendi í máli þessu né heldur hafi sóknaraðili sýnt fram á að ósanngjarnt sé að halda lífeyrissjóðsréttindum hans utan skipta. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að hjónaband aðila hafi aðeins staðið í tæp 10 ár og áður en þau gengu í hjónaband hafi þau aflað sér menntunar, varnaraðili háskólamenntunar en sóknaraðili iðnmenntunar. Nú þegar hjónabandi þeirra sé lokið og öll börnin komin á skólaaldur sé ekkert því til fyrirstöðu að sóknaraðili fari út á vinnumarkaðinn og afli sér tekna og lífeyrisréttinda. Hún eigi framundan a.m.k. 25 ára starfsævi. Lífeyrissjóðsréttindi varnaraðila séu ekki svo miklum mun meiri að rétt sé að víkja frá fyrrgreindri meginreglu. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi haft tiltölulega háar tekjur á hjónabandstíma hafi ekki orðið nein eignamyndun í hjúskapnum. Eins og fjárskiptum aðila sé háttað muni varnaraðili bera hallann af því og jafnframt bera ábyrgð á öllum skuldbindingum aðila vegna þess að hann sé skráður skuldari og ábyrgðarmaður allra skuldbindinganna en sóknaraðili ekki. Sóknaraðili muni engar skuldir bera við lok fjárskipta aðila.

                Þá byggir varnaraðili ennfremur á því að engum fjárhæðum sé teflt fram í kröfugerð sóknaraðila, heldur sé þess krafist að öll lífeyrisréttindi aðila verði talin hjúskapareign við fjárslitin. Varnaraðili telur að þessi krafa sé ekki tæk til úrskurðar og beri því að hafna henni. Varnaraðili geti ekki samþykkt ótiltekna og óskilgreinda viðurkenningarkröfu, enda hljóti tilgreining fjárhæðar að vera grundvallarsjónarmið við sanngirnismatið samkvæmt 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.

                Varnaraðili byggir á því að taka verði tillit til þeirrar eignaskiptingar sem þegar liggi fyrir við hin opinberu skipti hjá skiptastjóra og að útlagning hafi farið fram. Taka verði tillit til uppgjörsins í heild og það geti aldrei skapast réttur hjá sóknaraðila til fjárkröfu á hendur varnaraðila því að slíkar fjárkröfur geti ekki verið umfram það sem eignir hvors um sig ná til að standa undir kröfum og eigin skuldbindingum.

                Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeirri málsástæðu sóknaraðila að 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eigi ekki við um séreignarlífeyrissparnað varnaraðila, enda hafi þau nú endurkaupsvirði samkvæmt VIII. bráðabirgðaákvæði í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Þrátt fyrir að löggjafinn hafi heimilað sérstaka tímabundna útgreiðslu séreignarsparnaðar þá sé ekki hægt að leggja þá heimild að jöfnu við endurkaupsvirði í skilningi hjúskaparlaga. Rétt sé að taka fram að varnaraðili hafi ekki nýtt sér útgreiðsluheimildina.

                Varnaraðili hafnar kröfum sóknaraðila um hlutdeild í lífeyrissjóðsinneign varnaraðila í [...] á þeim forsendum að alls óvíst sé um að nokkur slík inneign sé til staðar. Varnaraðili hafi greitt í lífeyriskerfi í [...] í tvö ár en eftir því sem varnaraðili viti best sé lífeyrisréttindakerfið í [...] gerólíkt því sem þekkist hér á landi.

III

                Eins og áður sagði deila aðilar um hvort lífeyrisréttindi varnaraðila eigi að koma til skipta sem hjúskapareign. Hjúskapur aðila stóð í um 10 ár og var sóknaraðili heimavinnandi mestallan tímann. Varnaraðili vann úti og hafði góðar tekjur og er óumdeilt að tekjur varnaraðila voru umtalsvert hærri en tekjur sóknaraðila á hjúskapartímanum og hefur varnaraðili því aflað sér meiri lífeyrisréttinda en sóknaraðili, bæði með séreignarsparnaði og með framlagi í skyldubundinn lífeyrissjóð.

                Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 er það meginregla að réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóði, svo og krafa til lífeyris eða líftryggingarfjár sem hefur ekki endurkaupsvirði, komi ekki til skipta við fjárslit milli hjóna. Undantekning er gerð frá þessari meginreglu í 2. mgr. 102. gr. og er þar gert að skilyrði að ósanngjarnt væri gagnvart hinum makanum ef meginreglu 1. mgr. 102. gr. yrði fylgt.

                Samkvæmt þessu verður aðeins vikið frá meginreglunni þegar sérstaklega stendur á og við það mat verður að líta heildstætt á aðstæður allar.

                Hér að framan er rakin eigna- og skuldastaða búsins. Útlagning hefur farið fram á fasteignum búsins og bifreið til varnaraðila og sóknaraðili hefur fengið innbúið útlagt til sín. Eftir þessi skipti skuldar varnaraðili 4.717.596 krónur en hrein eign sóknaraðila er 492.721 króna.

                Í málinu nýtur ekki við útreiknings eða mats á verðgildi lífeyrisréttinda varnaraðila en eins og að framan er rakið var séreignarsparnaður hans í árslok 2012 að fjárhæð 7.351.610 krónur og lífeyrisréttindi hans í samtryggingardeild í árslok 2012 að fjárhæð 1.997.310 krónur. Ekki hefur þá verið tekið tillit til skattskyldu á greiðslu úr lífeyrissjóði, eingreiðsluhagræðis og að framangreindar fjárhæðir hafa ekki verið núvirðisreiknaðar. Engu að síður má ljóst vera að lítill munur er á skiptingu verðmæta úr búinu, enda þótt virði lífeyrisréttinda hefðu verið reiknuð út. Hefur því ekki, þegar af þessari ástæðu, verið sýnt fram á að ósanngjarnt sé að halda lífeyrisréttindum utan við skiptin. Ekki skiptir máli við þetta mat þótt varnaraðili hafi í tæp tvö ár greitt í [...] lífeyrissjóð lögbundið iðgjald en sóknaraðili hefur hvorki sýnt fram á virði þeirra réttinda né hvaða reglur gilda um þau réttindi.

                Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu sóknaraðila í málinu.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila. Sóknaraðili hefur gjafsókn í málinu. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 985.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, K, um að lífeyrisréttindi aðila komi til skipta sem hjúskapareign.

                Málskostnaður fellur niður milli aðila. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 985.000 krónur.