Hæstiréttur íslands

Mál nr. 462/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Lóðarleigusamningur


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. desember 2003.

Nr. 462/2003.

Lánasjóður landbúnaðarins

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Magnúsi Jóhannssyni

(enginn)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Lóðarleigusamningur.

L krafðist nauðungarsölu á tiltekinni fasteign á grundvelli tveggja skuldabréfa. Talið var að veð L væri eingöngu í lóðarleiguréttindum samkvæmt lóðarleigusamningi og mannvirkjum á eigninni. Með vísan til þess að ekki lá fyrir þinglýstur samningur um veðrétt L í fasteigninni, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, var kröfu hans hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 2. desember 2003. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. nóvember 2003 þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Selfossi 26. mars 2003, sem barst sóknaraðila 3. apríl sama árs, að hafna kröfu sóknaraðila um nauðungarsölu á fasteigninni „lóð úr landi Réttarholts, samt. 2.848 ferm., Gnúpverjahreppi, Árnessýslu“. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnd ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og að beiðni hans nái fram að ganga.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. nóvember 2003.

                Mál þetta var þingfest 15. október sl., og tekið til úrskurðar 28. október sl.

Með bréfi, dags. 25. apríl 2003, mótteknu 28. apríl sl., fór Gísli Guðni Hall hdl., þess á leit, f.h. Lánasjóðs landbúnaðarins, Austurvegi 10, Selfossi, að ákvörðun Sýslumannsins á Selfossi, dags. 3. apríl sl., um að hafna kröfu Lánasjóðs landbúnaðarins um nauðungarsölu á fasteigninni „Lóð úr landi Réttarholts, samt. 2.848 ferm., Gnúpverjahreppi, Árnessýslu” verði hrundið og að nauðungarsala samkvæmt nauðungarsölubeiðninni nái fram að ganga. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að haldi varnaraðili ekki uppi vörnum geri sóknaraðili ekki kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi hans.

Sóknaraðili vísar um lagarök til 3. mgr. 74. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, en til ákvæða XIII. kafla, sbr. 22. gr. laganna, um heimild til að leita úrlausnar héraðsdómara um málefnið. Þá vísar sóknaraðili til 5. mgr. 73. gr. laga um nauðungarsölu.

Málavextir eru þeir að sóknaraðili sendi Sýslumanninum á Selfossi beiðni um nauðungarsölu, dags. 28. febrúar 2002, sem móttekin var hjá sýslumanni 4. mars 2002. Samkvæmt beiðninni var nauðungarsöluandlagið „Fasteignin lóð úr landi Réttarholts, samt. 2.848 ferm. Gnúpverjahreppi, Árnessýslu”. Gerðarbeiðandi var sóknaraðili máls þessa, en gerðarþoli var varnaraðili. Í uppboðsbeiðninni kemur fram að gerðarbeiðandi hafi leyst til sín eignina við nauðungarsölu sem fram fór 18. maí 2001 og hafi við úthlutun fengið greitt upp í kröfu sína að hluta. Ennfremur segir í beiðninni að einungis hafi við nauðungarsöluna verið seld leigulóðarréttindi og eigi gerðarbeiðandi því enn veðrétt í eignarlóðinni, sem gerðarþoli sé þinglýstur eigandi að.

                Sýslumaðurinn á Selfossi endursendi sóknaraðila beiðnina 20. mars 2002 með vísan til 2. mgr. 13. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu með þeirri skýringu að gerðarþoli sé ranglega tilgreindur. Beiðnin var árituð af lögmanni sóknaraðila þann 6. júní 2002 svo: „Beiðni send aftur sýslumanni, endursendingin byggð á misskilningi.” Þann 10. júní 2002 var beiðnin móttekin að nýju hjá Sýslumanninum á Selfossi.

                Með bréfi Sýslumannsins á Selfossi, dags. 26. mars 2003, var nauðungarsölubeiðnin endursend að nýju með rökstuðningi sýslumanns. Sóknaraðili tilkynnti sýslumanni um að leitað yrði úrlausnar Héraðsdóms Suðurlands um ákvörðunina með bréfi dags. 9. apríl 2003.

                Krafa sóknaraðila barst Héraðsdómi Suðurlands með bréfi dags. 25. apríl sl., mótteknu 28. apríl sl., en Héraðsdómur endursendi sóknaraðila erindið. Með bréfi, dags. 28. ágúst sl. sem móttekið var sama dag, endursendi sóknaraðili Héraðsdómi Suðurlands kröfuna. Með bréfi dómsins, dags. 8. september sl., var óskað eftir frekari gögnum frá sóknaraðila sem bárust dómnum með bréfi hans dags. 12. september sl.. Boðað var til þingfestingar málsins með bréfi dómsins, dags. 25. september 2003.

Varnaraðili sótti þing við fyrirtöku málsins 15. október sl. og lagði fram óundirritaða minnispunkta Kristins Hallgrímssonar hrl., dags. 29. febrúar 2000. Málinu var frestað til 28. október sl., en þá sótti varnaraðili ekki þing og var málið tekið til úrskurðar að kröfu sóknaraðila.

Sýslumaðurinn á Selfossi hefur  komið að athugasemdum, sbr. 6. mgr. 73. gr. laga  nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

 

Atvik máls og ágreiningsefni

Í greinargerð lýsir sóknaraðili málavöxtum á þá leið að með tveimur skuldabréfum, dags. 21. október 1987 og 13. september 1988, hafi eignarjörðin Réttarholt í Gnúpverjahreppi verið sett að veði til tryggingar skuldum við sóknaraðila sem þá hafi heitið Stofnlánadeild landbúnaðarins. Sóknaraðili segir fyrir liggja tvo samninga milli varnaraðila og Vikursteins ehf., kt. 521098-2019, en þeim hafi verið þinglýst samtímis. Annars vegar sé um að ræða kaupsamning, dags. 15. október 1998, og hins vegar lóðarleigusamning, dags. 20. október 1998. Sóknaraðili segir að með kaupsamningnum hafi varnaraðili selt Vikursteini ehf. tvö minkahús ásamt 170 m²  geymslu á milli þeirra, samtals 1564 m². Samkvæmt kaupsamningnum séu húsin án lóðarréttinda en fram komi að sérstakur lóðarleigusamningur verði gerður milli aðila. Jafnframt komi fram í kaupsamningnum að kaupandi og seljandi séu sammála því að yfirtekin lán hvíli áfram á allri jörðinni Réttarholti. Sóknaraðili greinir frá því að með lóðarleigusamningnum hafi varnaraðili leigt Vikursteini 2848 m² spildu úr eignarjörðinni Réttarholti, undir húsin sem áðurnefndur kaupsamningur tók til. Sóknaraðili segir að spildunni virðist hafa verið skipt út úr jörðinni með lóðarleigusamningnum en honum hafi fylgt mæliblað og við þinglýsingu lóðarleigusamningsins hafi hin tilgreinda spilda fyrst verið aðgreind í þinglýsingabók þannig að hún hafi fengið sérstakt blað í bókinni sem fasteign.

Fram kemur að sóknaraðili hafi 19. apríl 2000 leyst jörðina Réttarholt úr veðböndum, þannig að eftirleiðis yrði veðskuld samkvæmt fyrrnefndum skuldabréfum einvörðungu tryggð með veði í áðurnefndri spildu. Veðbandslausninni hafi verið þinglýst en í henni segi m.a.:

„Hinn 22. október 1998 var þinglýst lóðarleigusamningi, dags. 20. október s.á., er tók til 2.848 m2 spildu úr landi nýbýlisins Réttarholts, er afmarkar sérstaklega lóð undir og í kringum tvo minkaskála, skráð í veðmálabækur sem “Lóð úr landi Réttarholts”.

Við undirritun þessarar yfirlýsingar er Vikursteinn ehf., kt. 521098-2019, þinglýstur handhafi lóðarréttinda og eigandi minkahúsanna skv. framangreindu, en Magnús Jóhannsson, kt. 190641-7169, þinglýstur eigandi Réttarholts. Hins vegar liggur fyrir samþykkt kauptilboð Gnúpverjahrepps í nýbýlið Réttarholt, að frátaldri framangreindri leiguspildu, bundið því skilyrði að Lánasjóður landbúnaðarins aflétti veðskuldum sínum af nýbýlinu Réttarholti, enda bendi skilgreining veðandlags veðskuldabréfsins með sér (sic) að ekki hafi staðið til að veðsetja annað en minkahúsin sem byggð voru á árunum 1987 og 1988.

Að ósk skuldara, og með samþykki kröfuhafa, Lánasjóðs landbúnaðarins, er nú leyst úr veðböndum nýbýlið Réttarholt, þannig að eftirleiðis verður veðskuldin einvörðungu tryggð með veði í “Lóð úr landi Réttarholts”, samtals 2.848 m² skv. Lóðarleigusamningi dags. 20. október 1998, ásamt öllum mannvirkjum sem á spildunni standa, þ.m.t. tvö framangreind minkahús.”

 

Fram kemur hjá sóknaraðila að spildan hafi verið seld nauðungarsölu 18. maí 2001. Sóknaraðili hafi einn verið gerðarbeiðandi og leyst til sín spilduna á uppboðinu og jafnframt fengið hluta af kaupverðinu úthlutað upp í veðkröfur samkvæmt veðskuldabréfunum tveimur frá 21. október 1987 og 13. september 1988. Í uppboðsafsali, útgefnu af Sýslumanninum á Selfossi 7. ágúst 2001, segir: 

„Þann 18. maí 2001 var seld á nauðungarsölu, Lóð úr landi Réttarholts, Gnúpverjahreppi, þinglýst eign Vikursteins ehf., kt. 521098-2019. Samþykkt var boð Ólafs Björnssonar hrl., f.h. Lánasjóðs landbúnaðarins á kr. 2.000.000.00, og hefur uppboðskaupandi nú efnt skyldur samkvæmt boði sínu og uppboðsskilmálum að fullu. Öll veðbönd og óbein eignaréttindi yfir afsöluðu eigninni falla niður samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991, og skulu afmáð við þinglýsingu afsals þessa. Lánasjóður landbúnaðarins, kt. 491079-0299, er því hér með réttur og löglegur eigandi framangreindrar eignar”.

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að þegar hann hafi síðan ætlað að selja spilduna hafi komið í ljós áðurnefndur lóðarleigusamningur frá 20. október 1998. Sýslumanninum á Selfossi hafi þá verið send fyrirspurn 19. september 2001, þar sem spurt var hvort ekki skyldi afmá lóðarleigusamninginn úr þinglýsingabók og þess óskað að svo yrði gert. Í svari Sýslumannsins á Selfossi með bréfi dags. 27. september 2001 segir:

„Lóðarleigusamningurinn heldur gildi sínu þrátt fyrir uppboðssölu, en fyrri rétthafi var máður út. Núverandi eigandi leiðir rétt sinn af þessum lóðarleigusamningi þar sem hann er upprunalegt heimildarbréf fyrir fasteigninni”.

Þá kemur fram í greinargerð sóknaraðila að þó svo að ekki færi á milli mála að ætlun allra sem að málinu komu, þ.m.t. Sýslumannsins á Selfossi, hafi verið að selja spilduna ásamt öllu því sem henni fylgdi og fylgja bar, þ.m.t. eignarréttindum yfir henni, þá væri ekki ótvírætt að svo hefði verið gert í raun. Segir sóknaraðili það hafa byggst á því að Vikursteinn ehf., hefði verið gerðarþoli í nauðungarsölumálinu. Varnaraðili hefði því ekki haft ástæðu til að gæta hagsmuna sinna við nauðungarsöluna og því hæpið að fullyrða að réttindi, sem hann var skráður fyrir, hafi verið seld á uppboðinu. Því væri óvarlegt að útiloka að hann kynni að halda því fram að hann ætti eignarrétt yfir spildunni samkvæmt fyrrnefndum lóðarleigusamningi frá 20. október 1998. Í því sambandi bendir sóknaraðili á að Sýslumaðurinn á Selfossi afmáði ekki lóðarleigusamninginn úr þinglýsingabók og áður tilvitnað svar fulltrúa hans var óskýrt. Að fenginni þessari niðurstöðu telur sóknaraðili augljóst að hann ætti, eftir sem áður, á grundvelli fyrrnefndra veðskuldabréfa, veðrétt yfir spildunni, þ.e. eignarréttindum sem hefðu ekki verið seld, og að varnaraðili væri veðþoli.

Sóknaraðili kveðst þá hafa sent varnaraðila greiðsluáskorun sem ekki var sinnt. Því hafi sóknaraðili sent Sýslumanninum á Selfossi nauðungarsölubeiðni, dags. 28. febrúar 2002, þar sem þess var krafist að eignarréttindin að spildunni yrðu seld nauðungarsölu. Sóknaraðili kveður Sýslumanninn á Selfossi hafa hafnað því að nauðungarsala færi fram á grundvelli beiðninnar með bréfi dags. 26. mars 2003 með þeim rökstuðningi að með fyrrnefndri veðbandslausn hefði jörðin Réttarholt verið leyst úr veðböndum og því sé ekki til staðar heimild til uppboðs á andlaginu. Í rökstuðningi sýslumanns komi fram að  samkvæmt orðalagi veðbandslausnarinnar hefði sóknaraðili átt að gera sér ljóst að um var að ræða leigulóð og að ef veðskuldabréfin „áttu áfram að hvíla á jörðinni að hluta þ.e. ekki einungis á leigulóðinni, hefði það átt að koma fram í veðbandslausninni.”

Sóknaraðili kveðst ekki hafa sætt sig við umrædda ákvörðun sýslumanns, sem hann telur byggða á misskilningi, og því leitað úrlausnar dómsins.

 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili vísar til þess að nauðungarsölubeiðnin sé lögmæt bæði að  formi og efni til og ekki haldin neinum þeim  ágöllum sem leitt geti til þess að nauðungarsala nái ekki fram að ganga. Ekki fari milli mála að sóknaraðili eigi veðrétt yfir spildu þeirri sem krafist er nauðungarsölu á. Um það vísar sóknaraðili til orðalags veðskuldabréfanna sem nauðungarsölubeiðnin byggir á, en veðskuldabréfin hafi verið gefin út þegar spildan var enn hluti af jörðinni Réttarholti. Sóknaraðili segir hið veðsetta hafa verið eignarjörð, þ.e. um hafi verið að ræða eignarrétt að fasteign að engu undanskildu. Sóknaraðili telur að þó spildan hafi síðar verið aðskilin frá nýbýlinu Réttarholti og gerður leigusamningur, þá hafi sú ráðstöfun ekki haggað veðrétti sóknaraðila. Veðrétturinn hafi tekið til eignarréttarins eftir sem áður. Þar sem eftirstöðvar skulda samkvæmt veðskuldabréfunum séu ógreiddar sé sóknaraðila rétt að fullnusta veðréttinn með beiðni um nauðungarsölu.

Sóknaraðili mótmælir því harðlega sem fram kemur  í bréfi sýslumanns frá 26. mars 2003, að með veðbandslausninni frá 19. apríl 2000 hafi sóknaraðili leyst eignarrétt varnaraðila að spildunni undan veðböndum. Sóknaraðili segir þurfa mikið hugarflug til að túlka orðalag veðbandslausnarinnar á þann hátt að eignarréttur yfir spildunni hafi einnig verið leystur úr veðböndum og þannig aðskilinn frá öðrum réttindum yfir spildunni. Auk þess sé orðalagið skýrt. Í fyrsta lagi sé tiltekið sérstaklega í veðbandslausninni að fyrir hafi legið kauptilboð í nýbýlið Réttarholt, bundið skilyrðum um að sóknaraðili leysti það undan veðböndum samkvæmt veðskuldabréfunum. Veðbandslausnin hafi verið gefin út í því skyni að gera sölu á grundvelli kauptilboðsins mögulega. Ekkert gefi tilefni til að líta svo á að með veðbandslausninni hafi veðrétti yfir spildunni verið haggað, síst af öllu að hann hafi verið rýrður.

Í öðru lagi sé tiltekið í veðbandslausninni að skilgreining veðandlags bréfanna beri með sér að upphaflega hafi ekki staðið til að veðsetja annað en minkahús, sem byggð voru á árunum 1987 og 1988. Sóknaraðili telur þetta orðalag bera með sér að það hafi aldrei verið ætlun aðila að einungis hús ásamt takmörkuðum afnotarétti yrðu veðsett. Þetta skýrist af því að er veðskuldabréfin voru gefin út voru eignarrétturinn og afnotaréttur fasteignarinnar óaðskilin réttindi, hið veðsetta hafi verið eignarjörð. Aðskilnaður réttinda hafi komið til miklu síðar án aðkomu sóknaraðila. Ekkert í veðbandslausninni eða aðdraganda að útgáfu hennar gefi tilefni til að líta svo á að tilgangurinn með henni eða ætlan hafi verið að sóknaraðili félli frá veðrétti í spildunni sem eignarjörð.

Í þriðja lagi áréttar sóknaraðili að bæði varnaraðila og Vikursteini ehf. hafi verið ljóst, er samningar þeirra í milli voru undirritaðir í októbermánuði 1998, að veðréttindi sóknaraðila stæðu óhögguð.

Í fjórða lagi hafi veðbandslausnin verið samin af lögmanni, sem ekki hafi unnið fyrir sóknaraðila, því sé ekki ástæða til að túlka orðalagið sóknaraðila í óhag.

Í fimmta lagi hafi veðbandslausn sóknaraðila verið ívilnandi gerningur gangvart veðþolum. Ef vafi sé um orðalag hennar beri því að túlka það sóknaraðila í hag samkvæmt viðurkenndum túlkunarreglum.

Loks bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi ekki látið sig varða málefni þessi með neinum hætti og hann hafi ekki haldið því fram að hann eigi nein réttindi yfir téðri landspildu. Varnaraðili hafi ekki gert kröfu um leigugjöld á grundvelli hins þinglýsta lóðarleigusamnings. Þannig hafi hann í verki viðurkennt að hann eigi engin réttindi yfir téðri spildu, þrátt fyrir að sóknaraðili líti svo á að þau séu formlega skráð á hann eins og að framan er lýst.

 

Athugasemdir sýslumannsins á Selfossi

Sýslumaðurinn á Selfossi kom á framfæri athugasemdum embættisins við kröfu sóknaraðila með vísan til 6. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, með bréfi til dómsins dags. 24. október 2003.  

Í bréfi sýslumanns er vísað til þess sem fram kemur í áritun á nauðungarsölubeiðni sóknaraðila, þar sem segir að beiðni sé endursend, sbr. 2. mgr. 13. gr. nauðungarsölulaga, þar sem gerðarþoli sé ranglega tilgreindur. Þá vísar sýslumaður ennfremur til þeirra sjónarmiða sem rakin voru  í bréfum sýslumanns dags. 26. mars 2003 og 27. september 2001.

Áréttuð er sú skoðun embættisins að með veðbandslausn, dags. 19. apríl 2000, hafi jörðin Réttarholt verið leyst undan veðböndum og veðið eftirleiðis einungis látið ná til lóðarleiguréttindanna og mannvirkja þeim tilheyrandi. Um rökstuðning fyrir þessu er vísað til orðalags veðbandslausnarinnar, þar sem rakin er tilurð nefnds lóðarleigusamnings, gerð grein fyrir því að Vikursteinn ehf. sé þinglýstur handhafi lóðarréttinda og eigandi minkahúsa og loks sagt að „eftirleiðis verði veðskuldin eingöngu tryggð með veði í ”Lóð úr landi Réttarholts”, samtals 2.848 m2 samkv. lóðarleigusamningi dags. 20. október 1998, ásamt öllum mannvirkjum sem á spildunni standa, þ.m.t. framangreind minkahús.” Undir veðbandslausnina sé ritað af hálfu Vikursteins og Lánasjóðs landbúnaðarins.

Þá er mótmælt þeirri fullyrðingu sóknaraðila sem fram kemur í greinargerð að ekki hafi farið á milli mála að ætlun allra sem að nauðungarsölu á spildunni komu „þ.m.t. sýslumannsins á Selfossi, hafi verið að selja spilduna ásamt öllu því sem henni fylgdi og fylgja bar, þ.m.t. eignaréttindum yfir henni.” Þessi fullyrðing um huglæga afstöðu embættisins sé röng og órökstudd, enda hafi aldrei staðið til við nauðungarsölu á eigninni að selja annað en það sem veðsett var, þ.e. lóðarleiguréttindin ásamt mannvirkjum og hafi það komið skýrt fram í bréfum embættisins.

Þá bendir sýslumaður á það í athugasemdum sínum að sóknaraðili hafi lagt fram afrit af beiðni sinni um nauðungarsölu á umræddri lóð, dags. 22. janúar 2001, en sóknaraðili hafi leyst eignina til sín á nauðungarsölu í tilefni af þeirri beiðni. Í þeirri beiðni sé einungis Vikursteinn ehf. tilgreindur sem gerðarþoli. Ef sóknaraðili hefði litið svo á að hann væri einnig að óska eftir uppboði á eignarréttindum þeim sem lóðarleigusamningurinn byggði á, þá hefði einnig átt að tilgreina eiganda landsins sem gerðaþola og tilgreina á grundvelli hvaða heimilda hann beiddist uppboðs á eignarlandinu. Sóknaraðila hefði þá strax í upphafi árs 2001 verið gerð grein fyrir þeirri afstöðu sýslumannsembættisins að skuldabréf hans væru einungis tryggð með veði í lóðarleiguréttindum og mannvirkjum.

 

Niðurstaða

Sóknaraðili krefst nauðungarsölu á fasteigninni „Lóð úr landi Réttarholts, samt. 2.848 ferm., Gnúpverjahreppi, Árnessýslu”, á grundvelli tveggja skuldabréfa, dags. 21. október 1987 og 13. september 1988, og vísar í uppboðsbeiðni til 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Eins og rakið hefur verið hér að framan var jörðin Réttarholt í Gnúpverjahreppi upphaflega sett að veði til tryggingar skuldum þáverandi eigenda jarðarinnar við sóknaraðila samkvæmt nefndum skuldabréfum. Þá liggur einnig fyrir að umræddar lánveitingar sóknaraðila voru til byggingar minkahúsa. Eftir að varnaraðili eignaðist jörðina Réttarholt afsalaði hann minkahúsunum til fyrirtækisins Vikursteins ehf., og kom fram í kaupsamningi að yfirtekin lán, þ.m.t. áðurnefnd veðskuldabréf sóknaraðila frá 21. október 1987 og 13. september 1998, skyldu áfram hvíla á allri jörðinni. Síðar, eða  20. október sama ár, leigði varnaraðili nefndu fyrirtæki 2,848 m² spildu umhverfis áðurnefnd minkahús og geymslu. Þá er óumdeilt að með veðbandslausn, dags. 19. apríl 2000, var jörðin Réttarholt leyst úr veðböndum vegna nefndra veðskuldabréfa.

Þann 18. maí 2001 var fasteignin Lóð úr landi Réttarholts, Gnúpverjahreppi, seld á nauðungarsölu og leysti sóknaraðili eignina til sín á uppboðinu. Í  uppboðsafsalinu kemur fram að öll veðbönd og óbein eignarréttindi yfir hinni afsöluðu eign skuli falla niður samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 og skuli afmáð við þinglýsingu afsalsins. Afsalinu var þinglýst 10. ágúst 2001 og veðskuldir afmáðar af eigninni, þ.m.t. skuldabréfin frá 21. okóber 1987 og 13. september 1998, sem eru grundvöllur nauðungarsölubeiðni sóknaraðila í máli þessu. Af málflutningi sóknaraðila má þó helst ráða að hann telji að þau mistök hafi átt sér stað við nauðungarsöluna að ekki hafi verið seld öll réttindi varnaraðila yfir spildunni. Atriði er varða umrædda nauðungarsölu eru hins vegar ekki til meðferðar í máli þessu. 

Með undirritun sóknaraðila undir áðurgreinda veðbandslausn, dags. 19. apríl 2000, verður ekki annað ráðið en sóknaraðili hafi í reynd samþykkt að veð hans samkvæmt skuldabréfunum frá 21. október 1987 og 13. september 1998, væri eingöngu í lóðarleiguréttindum samkvæmt lóðarleigusamningnum frá 20. október 1998 og mannvirkjum á umræddri spildu, eins og venja er til þegar um er að ræða veðsetningu mannvirkja á leigulóðum. Samkvæmt framansögðu og með vísan til þess að ekki liggur fyrir þinglýstur samningur um veðrétt sóknaraðila í umræddri eign, eru ekki skilyrði fyrir sóknaraðila  til að krefjast nauðungarsölu á eigninni með vísan til 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Sýslumanni var því rétt að hafna kröfu sóknaraðila um nauðungarsölu á framangreindri fasteign. 

Sóknaraðili gerir ekki kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila.

Ragnheiður Thorlacius, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

                Hin kærða ákvörðun Sýslumannsins á Selfossi er staðfest.

                Málskostnaður úrskurðast ekki.