Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-3

Sigurður Andrésson (Einar Þór Sverrisson lögmaður)
gegn
LOB ehf. (Reimar Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Einkahlutafélag
  • Kyrrsetning
  • Skaðabætur
  • Stjórnarmenn
  • Matsgerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. janúar 2023 leitar Sigurður Andrésson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. desember 2022 í máli nr. 304/2021: Sigurður Andrésson gegn LOB ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um skaðabætur úr hendi leyfisbeiðanda sem á rætur að rekja til þess að gagnaðili fékk ekki fullnustaðan dóm héraðsdóms þar sem fallist hafði verið á kröfu hans á hendur félaginu SA verki ehf., sem var í eigu leyfisbeiðanda.

4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu gagnaðila og leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða honum 61.986.195 krónur en með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða gagnaðila 45.000.000 króna. Málið á rætur að rekja til verksamnings gagnaðila og félagsins SA verks ehf., sem var í eigu leyfisbeiðanda. Sýslumaður féllst á kyrrsetningu hjá SA verki ehf. til tryggingar kröfu gagnaðila að fjárhæð 94.346.645 krónur og voru kyrrsett réttindi SA verks ehf. yfir fasteigninni Hverfisgötu 103 og hlutabréf í H96 ehf. Með héraðsdómi í máli til staðfestingar á gerðinni var fallist á kröfu gagnaðila að fjárhæð 56.986.195 krónur að viðbættum dráttarvöxtum en að frádreginni tilgreindri innborgun. Hafði H96 ehf. þá tekið við skyldum SA verks ehf. eftir samruna félaganna. Gagnaðili fékk ekki greiddar nema 3.082.073 krónur af hinni dæmdu fjárhæð og höfðaði mál á hendur leyfisbeiðanda til heimtu skaðabóta. Byggði gagnaðili á því að leyfisbeiðandi hefði með saknæmum og ólögmætum hætti gert ráðstafanir til að tæma SA verk ehf. og H96 ehf. og spilla gildi kyrrsetningargerðarinnar. Í dómi Landsréttar var bent á að uppsetning félaga leyfisbeiðanda hefði leitt til þess að allir stjórnunarþræðir SA verks ehf., H96 ehf. og SA bygginga ehf. hefðu legið hjá leyfisbeiðanda sjálfum og skipti það máli við mat á sölu fasteignar H96 ehf., svokallaðs Landsbankareits, til SA bygginga ehf. Landsréttur féllst á bótakröfu gagnaðila með vísan til þess að fasteignin hefði verið seld til SA bygginga ehf. á undirverði og með því hefði leyfisbeiðandi vikið með saknæmum hætti frá þeim kröfum sem gera hefði mátt til hans og rýrt gildi kyrrsetningarinnar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og vísar til þess að málið varði mikilvægt réttarsvið um skaðabótaábyrgð forsvarsmanna félaga með takmarkaða ábyrgð og hafi fordæmisgildi. Nauðsynlegt sé að fá dóm Hæstaréttar um ætlaða skaðabótaskyldu forsvarsmanna vegna viðskipta tengdra aðila. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda hafi hann sem einstaklingur og fyrrum fyrirsvarsmaður einkahlutafélags verið dæmdur til að greiða 45.000.000 króna skaðabætur. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að Landsréttur hafi misskilið mat löggilts fasteignasala sem óskað hafði verið eftir fyrir sölu fasteignar H96 ehf. auk þess sem Landsréttur hafi ranglega lagt til grundvallar niðurstöðunni að mats þar til bærra aðila hafi ekki verið aflað fyrir söluna.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dóma þar sem reynt hefur á hliðstæð sakarefni né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.