Hæstiréttur íslands
Mál nr. 343/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Fyrning
|
|
Föstudaginn 10. september 2004. |
|
Nr. 343/2004. |
Jóhann Bogi Guðmundsson(Ólafur Thóroddsen hdl.) gegn þrotabúi Ísness ehf. (Reimar Pétursson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Fyrning.
Aðilar deildu um hvort krafa J í þrotabú Í væri fallin niður vegna fyrningar. Fallist var á með þrotabúinu að í gögnum málsins væri ekki að finna viðurkenningu á kröfu J er rofið hefði fyrningu hennar. Hefði sá tveggja ára fyrningarfrestur, sem kveðið er á um 2. tölulið 215. gr. siglingalaga nr. 34/1985, verið liðinn þegar kröfunni var lýst í þrotabúið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júlí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. ágúst sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2004, þar sem fallist var á með varnaraðila að kröfur sóknaraðila, sem lýst var í þrotabúið 27. október 2000, væru fyrndar að miskabótakröfu frátalinni. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að allar kröfur hans verði taldar ófyrndar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Fallist er á með varnaraðila að í gögnum málsins sé ekki að finna viðurkenningu á kröfu sóknaraðila er rofið hafi fyrningu hennar, líkt og sóknaraðili heldur fram. Samkvæmt hinni sérstöku reglu í 2. tölulið 215. gr. siglingalaga nr. 34/1985 tók fyrningarfrestur kröfunnar að líða 10. mars 1994. Er kröfunni var lýst í þrotabúið var því liðinn sá tveggja ára fyrningarfrestur, sem kveðið er á um í ákvæðinu að vera skuli á slíkum kröfum. Samkvæmt framanrituðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jóhann Bogi Guðmundsson, greiði varnaraðila, þrotabúi Ísness ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2004.
Málið var þingfest 28. apríl 2004 og tekið til úrskurðar 22. júní síðastliðinn. Sóknaraðili er Jóhann Bogi Guðmundsson, Sólvallagötu 74, Reykjavík. Varnaraðili er þrotabú Ísness ehf., Lágmúla 7, Reykjavík.
Í málinu er deilt um ákvörðun skiptastjóra varnaraðila, þrotabús Ísness ehf., sem tekin var á skiptafundi 25. febrúar 2004, en þá synjaði skiptastjóri um viðurkenningu á almennri kröfu sóknaraðila að fjárhæð 13.713.735 krónur, sem hann lýsti á hendur þrotabúinu 27. október 2000, vegna tjónsatburðar 10. mars 1994 þegar vélbátur í eigu Ísness ehf. sigldi á fiskibát í eigu sóknaraðila. Afstaða skiptastjóra byggðist á því að ósannað væri að sóknaraðili ætti þann bótarétt á hendur þrotabúinu, sem lýst væri af hans hálfu. Ekki tókst að jafna ágreining um kröfuna og var málefninu því beint til héraðsdóms í samræmi við 120. og 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun skiptastjóra verði hrundið og að varnaraðila beri að samþykkja kröfu hans í þrotabúið, að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. október 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess aðallega að synjað verði um allar kröfur sóknaraðila, en til vara að þær sæti stórfelldri lækkun. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Í þinghaldi 16. júní 2004 lýsti varnaraðili því yfir að viðurkennt væri af hans hálfu að bótaábyrgð hefði stofnast í öndverðu, en ágreiningur hafi staðið um umfang og fjárhæð tjóns, sem borið hafi að bæta sóknaraðila. Krafa hans væri hins vegar fallin niður vegna fyrningar. Í framhaldi af nefndri yfirlýsingu ákvað héraðsdómari, að ósk beggja aðila og með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. gjaldþrotaskiptalaga, að skipta sakarefni þannig, að fyrst verði leyst úr ágreiningi um fyrningu kröfunnar, en önnur atriði málsins látin hvíla á meðan. Var málið flutt með hliðsjón af þessu 22. júní.
Dómkröfur sóknaraðila á þessu stigi máls eru þær, að viðurkennt verði að krafa hans á hendur varnaraðila sé ófyrnd. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að synjað verði um dómkröfur sóknaraðila, öllum kröfum hans í málinu verði hafnað á grundvelli fyrningar og honum gert að greiða málskostnað.
I.
Rót þessa ágreiningsmáls má rekja til þess atburðar í Sandgerðishöfn 10. mars 1994 er vélbáturinn Skúmur KE-122 í eigu Ísness ehf. sigldi á krókabát sóknaraðila, Evu ÍS-111, sem við það skemmdist nokkuð. Skúmur var ábyrgðartryggður hjá Vélbátaábyrgðarfélagi Reykjaness, en það félag var sameinað Vélbátaábyrgðarfélaginu Gróttu um áramót 1995/1996, sem tók yfir öll réttindi og skyldur félagsins.
Sjópróf var haldið vegna atburðarins 4. maí 1994. Hinn 30. sama mánaðar lét sóknaraðili fara fram úttekt á bát sínum og var viðgerðarkostnaður metinn 461.200 krónur, miðað við að framstefni bátsins yrði styrkt með járnskúffu. Sóknaraðili var ósáttur við matið og taldi slíka viðgerð vera fásinnu, þar sem hún myndi raska sjófærni bátsins. Í bréfi lögmanns vélbátaábyrgðarfélagsins 14. júlí 1994 var lýst þeirri skoðun félagsins að líklegur viðgerðarkostnaður væri metinn 627.200 krónur og að þá fjárhæð hefði félagið boðið sóknaraðila, auk 520.000 króna í bætur vegna afnotamissis af bátnum, að frádregnum 150.000 krónum, sem búið væri að greiða inn á tjónið. Var lagt til við sóknaraðila að hafa samband við Samábyrgð Íslands á fiskiskipum ef hann vildi ganga frá málinu með greindum hætti, en ef hann kysi frekar, þá mætti hann láta gera við bátinn, undir eftirliti félagsins, svo að fylgjast mætti með því að viðgerðin tæki aðeins til tjóns sem varð af árekstrinum. Sóknaraðili vildi ekki una þessu tilboði og lét dómkveðja matsmenn til að meta umfang tjóns á bátnum, hvernig hægt væri að lagfæra skemmdirnar, kostnað við slíka viðgerð og loks hvort matsmenn teldu það svara kostnaði að gera við bátinn, miðað við skemmdir á honum og ástand bátsins í heild. Matsgerð lá fyrir 29. október 1994, en samkvæmt niðurstöðum hennar var það álit matsmanna að gera mætti við bátinn með því að klæða stefnið með járnskúffu og að viðgerðarkostnaður væri 706.560 krónur. Sóknaraðili vildi ekki una við þá niðurstöðu og fór fram á yfirmat. Í yfirmatsgerð 28. mars 1995 voru skemmdir á bátnum metnar á krónur 780.850, en tekið fram að ekki væri um endanlegan viðgerðarkostnað að ræða. Var í því sambandi vísað til þess að báturinn hefði 6. febrúar 1995 verið tekin út af aðalskipaskrá vegna skemmda og að ekki lægi fyrir endanleg skýrsla Siglingamálastofnunar um hvað þyrfti að gera fyrir bátinn svo að hann fengi haffæriskírteini á ný. Voru í matsgerðinni tilteknar nokkrar skemmdir, sem ekki yrðu raktar til tjónsatburðarins, svo sem leki með kjöl bátsins og sprungur í byrðingsplanka á dekki yfir lúkar.
Á tímabilinu 13. júní til 23. desember 1994 greiddi vélbátaábyrgðarfélagið sóknaraðila samtals 500.000 krónur upp í tjón hans. Með tjónsuppgjöri 29. október 1999 greiddi félagið sóknaraðila 615.541 krónu til viðbótar, sem fullnaðaruppgjör í samræmi við yfirmatsgerðina og að meðtöldum mats- og lögmannskostnaði sóknaraðila. Í bréfi lögmanns félagsins til sóknaraðila sama dag var frekari kröfum hans á hendur félaginu hafnað, en þá lá fyrir matsgerð frá 10. október 1999 um aflaverðmæti bátsins og áætlað aflatjón og kröfugerð sóknaraðila, dagsett 26. sama mánaðar, vegna tjóns á bátnum, aflamissis og fleira, sem nam samtals 9.989.719 krónum. Fyrir þann tíma hafði lögmaður sóknaraðila, í bréfi 25. júlí 1997, krafið félagið um bætur á sama grunni, að fjárhæð 15.085.293 krónur, sem var vísað á bug 24. október sama ár.
II.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 9. júní 1999 var bú Ísness ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Fresti til að lýsa kröfum í þrotabúið lauk 30. ágúst sama ár. Innan frestsins bárust skiptastjóra almennar kröfur að fjárhæð samtals 155.909.906 krónur, sem hann ákvað að taka ekki afstöðu til, þar sem búið væri eignalaust og sýnt þætti að ekkert myndi því greiðast upp í kröfurnar. Á skiptafundi 16. september 1999 mun engu að síður hafa verið ákveðið að fresta því að ljúka skiptum á búinu vegna óska kröfuhafa um að frekari könnun yrði gerð á ráðstöfunum félagsins fyrir upphaf skipta.
Sem fyrr segir lýsti sóknaraðili almennri kröfu í þrotabúið að fjárhæð 13.713.735 krónur í bréfi til skiptastjóra 27. október 2000. Þar kemur fram að sóknaraðili hafi 31. mars sama ár höfðað dómsmál vegna sömu kröfu á hendur vélbátaábyrgðarfélaginu og krafist greiðslu bóta að fjárhæð krónur 7.159.178 auk vaxta, á grundvelli vátryggingarsamnings Ísness ehf. og félagsins. Í bréfi til sóknaraðila 15. nóvember 2000 neitaði skiptastjóri að taka afstöðu til kröfulýsingarinnar, þar sem bæði væri sýnt að ekkert myndi greiðast upp í kröfuna og hún hefði borist eftir lok kröfulýsingarfrests.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2001 var vélbátaábyrgðarfélagið sýknað af fyrrnefndri kröfu sóknaraðila. Var niðurstaðan byggð á 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga og til þess vísað að samkvæmt téðu lagaákvæði þyrfti bæði að liggja fyrir skaðabótaskylda Ísness ehf. og upphæð bóta að vera ákveðin, svo að sóknaraðili gæti öðlast beinan rétt á hendur félaginu til greiðslu bóta. Þar sem ágreiningur væri um fjárhæð bóta var það álit dómsins að ekkert réttarsamband væri á milli sóknaraðila og félagsins og því var félagið sýknað á grundvelli aðildarskorts. Dómi þessum var ekki áfrýjað.
Með bréfi til skiptastjóra 31. janúar 2001 krafðist sóknaraðili þess að skiptastjóri endurskoðaði fyrri ákvörðun sína í ljósi niðurstöðu dómsmálsins. Skiptastjóri áréttaði fyrri afstöðu sína á skiptafundi 23. mars 2001 og hafnaði því að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila. Þeirri ákvörðun var skotið til héraðsdóms og síðar Hæstaréttar, sem kvað upp úr um það í dómi sínum 12. febrúar 2002, í máli 47/2002, að skiptastjóra bæri að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila. Vísaði Hæstiréttur til þess að sóknaraðili ætti lögvarða hagsmuni af því að lagt yrði mat á kröfu hans í þrotabúið, sem hann „gæti átt rétt á að fá greidda úr ábyrgðartryggingu ef fullnægt yrði þeim skilyrðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 að staðreynt væri að [varnaraðili] bæri skaðabótaskyldu gagnvart honum og fjárhæð bóta úr hendi hans væri ákveðin.“, en vegna gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila ætti sóknaraðili ekki aðra leið til að sækja kröfu sína en að lýsa henni í búið. Samkvæmt því var ákvörðun skiptastjóra felld niður og jafnframt mælt svo fyrir að sóknaraðila yrði veittur frestur til að afla samþykkis tilskilins meirihluta kröfuhafa fyrir því að krafa hans kæmist að við skiptin þrátt fyrir að henni hefði fyrst verið lýst eftir lok kröfulýsingarfrests. Sóknaraðili fékk í framhaldi umrætt samþykki kröfuhafa og ítrekaði að svo búnu kröfu sína gagnvart skiptastjóra. Skiptastjóri tók síðan þá ákvörðun á skiptafundi 25. febrúar 2004, sem nú sætir kæru til héraðsdóms, að hafna kröfu sóknaraðila, þar sem ósannað væri að hann ætti þann bótarétt á hendur varnaraðila, sem lýst væri í kröfulýsingu hans 27. október 2000.
III.
Sóknaraðili byggir málsástæður sínar í þessum afmarkaða þætti málsins á því að sök varnaraðila á árekstrinum í Sandgerðishöfn 10. mars 1994 sé óumdeild, en vélabátaábyrgðarfélagið, sem komið hafi fram fyrir hönd varnaraðila í málinu, hafi viðurkennt bótaskyldu í bréfi lögmanns síns 14. júlí 1994, þar á meðal skyldu til að bæta sóknaraðila tjón vegna aflamissis, auk hlutatjóns. Trúnaðarmenn félagsins hafi síðan tálmað því að unnt væri að gera við bát sóknaraðila, þ.e. að Siglingamálastofnun gæti skorið úr um viðgerðarhæfi bátsins, en hann hafi síðan verið úrskurðaður ónýtur 6. febrúar 1995. Sóknaraðili hafi þannig, auk beins fjártjóns vegna skemmda á bátnum, orðið fyrir afla- og rekstrartjóni frá 10. mars 1994 til 6. febrúar 1995 og tjóni vegna miska og útlagðs kostnaðar, sem varnaraðili beri ábyrgð á. Upphaf fyrningarfrests á bótakröfu sóknaraðila beri því að miða við 6. febrúar 1995, sbr. 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en samkvæmt téðu lagaákvæði fyrnist krafa hans á 10 árum frá þeim degi að telja. Breyti hér engu að áliti sóknaraðila þótt vélbátaábyrgðarfélagið hafi einhliða gert upp hlutatjónið, enda upphefji það ekki bindandi yfirlýsingu félagsins um bótaábyrgð frá 14. júlí 1994, auk þess sem sóknaraðili hafi aldrei fallist á umrætt tjónsuppgjör.
Verði ekki fallist á fyrrgreint tímamark sem upphaf 10 ára fyrningarfrests kröfunnar byggir sóknaraðili á því til vara að upphaf frestsins beri að miða við yfirlýsingu félagsins 14. júlí 1994, en það leiði til sömu niðurstöðu, þ.e. að krafan sé ófyrnd, að minnsta kosti krafan um aflatjón, sem sé almenn skaðabótakrafa. Enginn fyrirvari hafi heldur verið gerður um fyrningu í bréfi lögmanns félagsins 29. október 1999 og því ekki haldið fram að krafan væri fyrnd, enda með ólíkindum að félagið hefði greitt 615.541 krónu upp í tjónið 1. nóvember sama ár, ef krafan væri fyrnd. Sóknaraðili mótmælir því gagnstæðum skilningi varnaraðila nú og bendir á að telji dómurinn að skaðabótagrundvöllur kröfunnar standi á ákvæðum 158. gr. siglingalaga nr. 34/1985, þá eigi 215. gr. laganna ekki við í málinu, þar sem krafan hafi verið viðurkennd 14. júlí 1994 og þar með orðið að almennri skaðabótakröfu í skilningi 2. tl. 4. gr. fyrningarlaga. Frá þeim degi hafi og hafist nýr fyrningarfrestur kröfunnar, sbr. 6. gr. laganna.
IV.
Varnaraðili mótmælir framangreindum málsástæðum sóknaraðila og skilningi hans á ákvæðum fyrningarlaga. Bent er á að í bréfi vélbátaábyrgðarfélagsins 14. júlí 1994 hafi eingöngu falist tilboð til sóknaraðila um uppgjörsmáta á rekstrartjóni og tjóni vegna skemmda á bát hans, en bótagrundvöllurinn hafi verið árekstur tveggja skipa. Tilboðið hafi verið sett fram án þess að ítarleg skoðun færi fram á ásigkomulagi bátsins og útgerðarhögum sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki svarað tilboðinu og því hafi það fallið niður fyrir samþykkisskort eða höfnun samkvæmt reglum 3. og 5. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en fráleitt megi telja að með gerð tilboðsins hafi falist sú viðurkenning á bótaábyrgð og tjóni, sem sóknaraðili byggi á. Varnaraðili byggir því sýknukröfu sína í þessum þætti málsins á því að allar kröfur sóknaraðila vegna tjónsatburðarins 10. mars 1994 séu fyrndar, en samkvæmt sérreglu 2. tl. 215. gr. siglingalaga fyrnast kröfur vegna áreksturs skipa á 2 árum, sé þeim ekki fylgt eftir með lögsókn innan tveggja ára frá því sá atburður varð sem olli tjóni. Sá tími hafi verið löngu liðinn þegar sóknaraðili gerði fyrst rek að kröfu sinni með málssókn á hendur vélbátaábyrgðarfélaginu 31. mars 2000 og hafi krafan því einnig verið fyrnd þegar henni var lýst í þrotabú varnaraðila 27. október sama ár.
Varnaraðili mótmælir þeim skilningi sóknaraðila að um einhvers konar viðvarandi samþykki á kröfunni hafi verið að ræða af hálfu félagsins með þeim bréfaskriftum, sem gengið hafi á milli sóknaraðila og félagsins og vísar í því sambandi til skýrra ákvæða 215. gr. siglingalaga um það með hvaða hætti fyrning verði rofin vegna skaðabótakröfu samkvæmt 2. tl. nefndrar lagagreinar og 218. gr. laganna. Verði ekki fallist á þessi sjónarmið byggir varnaraðili á því að krafan sé engu að síður fyrnd, þrátt fyrir ákvæði 6. gr. fyrningarlaga um slit fyrningarfrests, enda þurfi að gera mjög strangar kröfur til viðurkenningar á kröfu, svo að nýr fyrningarfrestur hennar hefjist samkvæmt téðri lagagrein. Annars vegar verði skuldari að kannast við að skuldin sé til og hins vegar að lofa að greiða hana. Hvorugt skilyrðanna hafi verið uppfyllt í máli þessu og því beri einnig af þeirri ástæðu að líta svo á að krafa sóknaraðila sé fallin niður fyrir sakir fyrningar. Þessari málsástæðu til stuðnings bendir varnaraðili á orðalag í bréfi vélabátaábyrgðarfélagsins til sóknaraðila 24. október 1997, en þar segi að félagið hafni algerlega þeim kröfum og kröfugrundvelli, sem sóknaraðili byggði á í bréfi sínu til félagsins 25. júlí sama ár. Sú afstaða félagsins hafi síðan verið áréttuð í bréfi til sóknaraðila 29. október 1999. Breyti hér engu að áliti varnaraðila þótt félagið hafi þann dag lokið uppgjöri á hlutatjóni gagnvart sóknaraðila, því krafan hafi þá verið fyrnd og rjúfi greiðsla á fyrndri kröfu ekki fyrningu.
V.
Krafa sóknaraðila, sem hér um ræðir, nemur að höfuðstól 7.159.178 krónum, en með áföllnum vöxtum og kostnaði nam hún 13.713.735 krónum á kröfulýsingardegi 27. október 2000. Í kröfulýsingunni og fylgiskjölum með henni er höfuðstólskrafan sundurliðuð með svofelldum hætti. Í fyrsta lagi er krafist 2.590.000 króna vegna tjóns á Evu ÍS-111, þ.e. sem nemur vátryggingarverðmæti bátsins í ársbyrjun 1992, krónur 3.000.000, að frádregnum 410.000 krónum, sem sóknaraðili hafi fengið greiddar fyrir sölu á tækjum úr bátnum eftir að hann hafi verið „dæmdur ónýtur þann 6. febrúar 1995.“ Þá er í annan stað krafist 4.631.561 krónu í bætur vegna aflamissis á tímabilinu frá tjónsdegi 10. mars 1994 til 6. febrúar 1995, í samræmi við matsgerð 10. október 1999, að frádregnum áætluðum rekstrarkostnaði, krónum 1.500.000, eða samtals krónur 3.131.561. Í þriðja lagi er krafist 2.000.000 króna í miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og loks 553.158 króna vegna útlagðs kostnaðar sóknaraðila.
Í málinu er óumdeilt að skip í eigu Ísness ehf. rakst á fiskibát sóknaraðila í Sandgerðishöfn 10. mars 1994 og að vátryggingarfélag Ísness ehf. viðurkenndi í kjölfarið ábyrgð á árekstrinum fyrir hönd Ísness ehf., á grundvelli ábyrgðartryggingar og bauð fram í bréfi til sóknaraðila 14. júlí 1994 tilteknar bætur vegna skemmda á bátnum og vegna afnotamissis. Tjón á bátnum og viðgerðarkostnaður var metinn tvívegis af hlutlausum aðilum, dómkvöddum af sóknaraðila; í október 1994 og mars 1995, en sóknaraðili vildi við hvorugt matið una. Þegar kom fram í febrúar 1995 var báturinn talinn „illviðgerðar hæfur“ að áliti Siglingamálastofnunar ríkisins og var hann tekinn út af aðalskipaskrá 6. þess mánaðar „vegna skemmda“. Af gögnum málsins verður ekki séð að sóknaraðili hafi gert rek að öðrum kröfum á hendur vátryggingarfélaginu en vegna skemmda á bátnum fyrr en með bréfi lögmanns síns til félagsins 25. júlí 1997, þrátt fyrir að honum væri þá fyrir löngu orðið ljóst að hann hefði beðið ætlað tjón vegna aflamissis á tímabilinu frá 10. mars 1994 til 6. febrúar 1995. Braut sóknaraðili þannig gegn skyldum sínum gagnvart vátryggingarfélaginu samkvæmt 21. og 22. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Þykja viðbrögð félagsins við síðbúinni kröfugerð sóknaraðila ekki óeðlileg í ljósi þessarar vanrækslu. Þótt eigi skipti það máli, eins og hér háttar atvikum, hvort félagið hafi í bréfi sínu 14. júlí 1994 gefið bindandi yfirlýsingu um ábyrgð á öllu tjóni sóknaraðila vegna fyrrnefnds árekstrar, þá þykir rétt að dómurinn taki afstöðu til þeirrar málsástæðu sóknaraðila, enda byggir hann málatilbúnað sinn að verulegu leyti á staðhæfingu þess efnis. Er í þessu sambandi tekið undir sjónarmið varnaraðila, en dómurinn telur að ekki megi leggja annan og meiri skilning í orðalag bréfsins, en að þar sé viðurkennd ábyrgð á tjóni að tiltekinni fjárhæð vegna skemmda á bátnum og að auki boðnar fram ákveðnar bætur vegna afnotamissis, án frekari skuldbindingar ef ekki væri gengið að tilboðinu.
Grundvöllur bótakröfu sóknaraðila er tvíþættur; annars vegar tjónsatburðurinn 10. mars 1994, vegna skemmda á bát hans, aflamissis og útlagðs kostnaðar og hins vegar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að því er varðar kröfu hans um miskabætur. Ekki verður fjölyrt hér um grundvöll miskabótakröfunnar og rökstuðning sóknaraðila fyrir henni, en ætluð krafa lýtur reglum 2. töluliðar 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og fyrnist samkvæmt því á 10 árum, sbr. 1. málsliður 1. mgr. 5. gr. laganna. Krafan um miskabætur var því ófyrnd þegar henni var lýst í þrotabú varnaraðila 27. október 2000 samkvæmt 13. gr., sbr. 1. gr. sömu laga og hófst þá ný fyrningarfrestur þeirrar kröfu.
Um tjón af árekstri skráningarskyldra skipa er fjallað í 158. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Þar segir í 1. mgr.: „Ef tjón verður á skipi, öðrum fjármunum eða á mönnum af því að skip rákust á og sökin liggur öll annars vegar þá bætir hinn seki skaða þann allan er af hlaust.“ Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna á sínum tíma, segir að ákvæði 1. mgr. 158. gr. sé sama efnis og 1. mgr. 195. gr. eldri siglingalaga nr. 66/196, nema hvað í stað orðsins „góss“ sé talað um „fjármuni“. Ekki sé þó ætlast til að það hafi neina efnisbreytingu í för með sér.
Í samræmi við hefðbundna túlkun á orðinu „fjármunir“ í skilningi skaðabótaréttarins ber að skýra hugtakið svo í 1. mgr. 158. gr. siglingalaga, að þar sé átt við hvers konar fjárhagstjón, bæði beint og óbeint, sem leiðir af árekstri tveggja skipa, þar á meðal tjón vegna aflamissis þess eiganda skips, sem enga sök ber á árekstrinum. Fer því um aðrar kröfur sóknaraðila en miskabótakröfuna eftir reglum téðs ákvæðis siglingalaga og skoðast þær sem sjókrafa í skilningi siglingalaga.
Um fyrning krafna á grundvelli 1. mgr. 158. gr. siglingalaga fer eftir sérreglu 2. töluliðar 215. gr. siglingalaga, sem gengur ótvírætt framar almennum ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í nefndri lagagrein segir, að skaðabótakrafa út af árekstri skipa fyrnist á tveimur árum frá því að atburður sá gerðist, sem tjóni olli, ef kröfunni er ekki fylgt eftir með lögsókn innan þeirra tímamarka. Er samkvæmt þessu ljóst að tveggja ára fyrningarfrestur sjókröfu sóknaraðila hófst 10. mars 1994.
Í 217. gr. siglingalaga segir, að ógildir séu samningar þeir, sem mæla fyrir um að kröfur samkvæmt 2. tölulið 215. gr. laganna skuli ekki fyrnast eða að þeim skuli fylgja lengri fyrningarfrestur en þar er boðinn. Þegar af þeirri ástæðu stoðar það ekki sóknaraðila í þessu máli að bera fyrir sig að Ísnes ehf. eða vátryggingarfélag þess hafi viðurkennt skuld við hann, hvort heldur 14. júlí 1994 eða síðar, og að þannig hafi byrjað nýr fyrningarfrestur sjókröfunnar og því síður að ætluð viðurkenning kröfunnar hafi orðið þess valdandi að hún yrði að skaðabótakröfu í skilningi 2. töluliðar 4. gr. fyrningarlaga.
Ísnes ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 9. júní 1999. Var sjókröfu sóknaraðila 27. október 2000 því réttilega beint að varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 116. gr. og 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Það breytir hins vegar engu um þá staðreynd að krafan var þá fyrnd og að hún fyrntist samkvæmt framansögðu eigi síðar en 10. mars 1996, enda var kröfunni ekki fylgt eftir með lögsókn innan lögmælts fyrningarfrests. Skiptir hér engu máli að lögum þótt vátryggingarfélag Ísness ehf. og síðar varnaraðila hafi gert upp tjón við sóknaraðila að liðnum þeim fresti, enda rýfur greiðsla á fyrndri kröfu ekki fyrningu.
Ber samkvæmt framansögðu að fallast á það með varnaraðila, að sjókrafa sóknaraðila á hendur honum, sem lýst var í þrotabú varnaraðila 27. október 2000, sé fyrnd. Miskabótakrafan telst hins vegar ófyrnd.
Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins er ljóst að sóknaraðili hefur tapað málinu í öllu verulegu í skilningi málskostnaðarákvæðis 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og atvikum er háttað þykja ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar ekki koma til álita við ákvörðun málskostnaðar. Ber því til samræmis að ákvarða varnaraðila málskostnað úr hendi sóknaraðila vegna þessa afmarkaða þáttar málsins og þykir hann hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfur sóknaraðila, Jóhanns Boga Guðmundssonar, á hendur varnaraðila, þrotabúi Ísness ehf., sem lýst var í þrotabúið 27. október 2000, eru fyrndar að öðru leyti en því að miskabótakrafa telst ófyrnd.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 200.000 krónur í málskostnað.