Hæstiréttur íslands

Mál nr. 576/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Flýtimeðferð


                                     

Miðvikudaginn 16. september 2015.

Nr. 576/2015.

Isavia ohf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Kaffitári ehf.

(Geir Gestsson hrl.)

Kærumál. Flýtimeðferð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu I um að mál, sem félagið hugðist höfða á hendur K og varðaði úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sætti flýtimeðferð. Fyrir Hæstarétti krafðist I þess aðallega að hinn kærði úrskurður yrði ómerktur þar sem héraðsdómari hafi verið vanhæfur til úrlausnar málsins vegna vanhæfis dómstjóra dómstólsins. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu I. Tekið var fram í því sambandi að dómstjóri hefði ekki boðvald yfir dómurum þegar kæmi að úrlausn mála sem þeim væru falin. Dómarar væru sjálfstæðir í störfum sínum, færu einungis eftir lögum og lytu þar aldrei boðvaldi annarra. Var því ekki talið að vanhæfi dómstjóra leiddi sjálfkrafa af sér vanhæfi annarra dómara við dómstólinn. Hæstiréttur hafnaði einnig varakröfu I um að leggja fyrir héraðsdóm að gefa út réttarstefnu til flýtimeðferðar í málinu. Hæstiréttur taldi að fyrsta skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 væri fullnægt þar sem í fyrirhuguðu dómsmáli yrði krafist ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Var málið því talið varða ákvörðun stjórnvalds í skilningi ákvæðisins. Hæstiréttur taldi aftur á móti að málið fullnægði ekki öðru skilyrði ákvæðisins um að brýn þörf væri á skjótri úrlausn málsins. Tekið var fram í því sambandi að ef til aðfarar kæmi á grundvelli úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál gæti I samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar komið að öllum sömu málsástæðum um form- og efnisannmarka úrskurðarins eins og hann gæti í almennu einkamáli. Var því ekki talið að réttarspjöll myndu hljótast af því fyrir I að bíða úrlausnar dómstóla um þau ágreiningsefni sem uppi væru í málinu hvort heldur væri í almennu einkamáli eða aðfararmáli ef til þess kæmi. Þegar af þeirri ástæðu var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 31. ágúst 2015 og Hæstarétti 2. september sama ár en kærumálsgögn bárust réttinum 10. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. ágúst 2015 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð máls sem hann hyggst höfða gegn varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur en til vara að lagt verði fyrir héraðsdóm að gefa út réttarstefnu til flýtimeðferðar í málinu.

Varnaraðili hefur sent Hæstarétti athugasemdir sínar en gerir ekki kröfur í málinu. Verður  í samræmi við 3. mgr. 158. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991, litið svo á að hann krefjist staðfestingar á úrskurði héraðsdóms.

I

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði efndi sóknaraðili 19. mars 2014 til samkeppni um leigu á verslunar- og veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Varnaraðili var þátttakandi í samkeppninni en hlaut ekki brautargengi. Í kjölfarið óskaði hann eftir upplýsingum og gögnum frá sóknaraðila um bæði eigin tillögu og annarra í samkeppninni. Sóknaraðili veitti varnaraðila upplýsingar um tillögu hins síðarnefnda, þar á meðal hvernig einkunnagjöf var háttað. Varnaraðili óskaði síðan eftir frekari rökstuðningi um einkunnagjöf og upplýsingum um aðra bjóðendur og tillögur þeirra. Sóknaraðili hafnaði beiðninni 22. september 2014 og kærði varnaraðili þá synjun 20. október sama ár til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Með úrskurði hennar 15. maí 2015 var fallist á beiðni varnaraðila um að sóknaraðila bæri að afhenda honum nánar tilgreind gögn vegna samkeppninnar. Með bréfi 26. maí 2015 krafðist sóknaraðili endurupptöku úrskurðar nefndarinnar en til vara að réttaráhrifum hans yrði frestað. Nefndin hafnaði kröfunum með úrskurði 31. júlí sama ár. Sóknaraðili fór þess á leit við Héraðsdóm Reykjaness 18. ágúst 2015 að mál það sem hann hefur í hyggju að höfða á hendur varnaraðila sætti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991. Í stefnu þeirri sem sóknaraðili leitar eftir að fá útgefna til flýtimeðferðar í fyrirhuguðu dómsmáli hyggst hann meðal annars krefjast þess að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt þau gögn sem um er deilt í málinu og óskað eftir að gætt verði trúnaðar um þau, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991. Var af hálfu Hæstaréttar talið rétt að verða við þeirri beiðni á þessu stigi málsins.

II

Ómerkingarkrafa sóknaraðila er á því reist að sá héraðsdómari sem úrskurðaði í málinu hafi verið vanhæfur til þess að fara með það í skilningi g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Vísar sóknaraðili til þess að dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness hafi lýst sig vanhæfan til þess að fara með málið þar sem hann var varaformaður úrskurðarnefndar um upplýsingamál þegar nefndin kvað upp fyrrnefndan úrskurð. Þar sem aðrir starfandi dómarar séu undirmenn dómstjórans séu þeir einnig vanhæfir til þess að fara með málið.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla er við hvern héraðsdóm starfandi dómstjóri skipaður af ráðherra. Til viðbótar dómstörfum hefur dómstjóri með höndum stjórn héraðsdómstóls og ber ábyrgð á starfsemi hans, sbr. 5. mgr. 16. gr. laganna. Þótt dómstjóri fari með ákveðið stjórnunarvald gagnvart öðrum dómurum við dómstól, svo sem með því að skipta verkum milli þeirra og gæta aga, hefur hann ekki boðvald yfir dómurum þegar kemur að úrlausn mála sem þeim eru falin. Dómarar eru sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998. Í því ákvæði er jafnframt tekið fram að dómarar fari eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra, sbr. og 61. gr. stjórnarskrárinnar. Vanhæfi dómstjóra leiðir því ekki sjálfkrafa af sér vanhæfi annarra dómara við dómstól, sbr. dóma Hæstaréttar 16. júní 1976 í málum nr. 114, 115 og 116/1976, sem birtir eru í dómasafni það ár á blaðsíðum 527, 533 og 539, sbr. einnig sambærileg sjónarmið í dómi Hæstaréttar 1. október 1998 í máli nr. 394/1998, sem birtur er í dómasafni það ár á blaðsíðu 2908. Ómerkingakröfu sóknaraðila er því hafnað.

III

Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 koma fram þau skilyrði sem fullnægja þarf svo mál geti sætt flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Málið þarf í fyrsta lagi að varða ákvörðun eða athöfn stjórnvalds eða verkfall, verkbann eða aðrar aðgerðir, sem tengjast vinnudeilu, og málið færi ella eftir almennum reglum laga nr. 91/1991. Þá þarf í öðru lagi að vera brýn þörf á skjótri úrlausn málsins, enda hafi hún í þriðja lagi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni þess sem hyggst höfða málið. Í fyrirhuguðu dómsmáli á hendur varnaraðila hefur sóknaraðili í hyggju eins og áður getur að krefjast ógildingar á þeim úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem um ræðir í málinu. Af því leiðir að ekki getur skipt máli þegar metið er hvort fyrstnefnda skilyrðinu er fullnægt að sóknaraðili er opinbert hlutafélag. Fyrirhugað dómsmál sóknaraðila varðar samkvæmt þessu ákvörðun stjórnvalds í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 og er fyrsta skilyrði lagaákvæðisins því fullnægt.

Röksemd sóknaraðila fyrir brýnni þörf á skjótri úrlausn málsins virðist sú að ella gefist honum ekki kostur á að bera undir dómstóla álitaefni um þá annmarka sem hann telur vera á fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Málatilbúnaður sóknaraðila í þeim efnum er ekki fyllilega skýr en af honum verður helst ráðið að sóknaraðili telji að aðfararbeiðni varnaraðila myndi raska grundvelli þess einkamáls sem sóknaraðili hefur í hyggju að höfða á hendur varnaraðila. Í því sambandi er þess fyrst að geta að samkvæmt 3. mgr. 23. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 eru úrskurðir samkvæmt þeim lögum um aðgang að gögnum eða afrit af þeim aðfararhæfir og því gild aðfararheimild, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í því felst að verði sóknaraðili ekki við kröfu varnaraðila um afhendingu gagna getur sá síðarnefndi beint aðfararbeiðni til héraðsdóms samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1989. Í annan stað er til þess að líta að þótt meðferð mála samkvæmt lögum nr. 90/1989 sé um sumt einfaldari í sniðum en almennra einkamála samkvæmt lögum nr. 91/1991 getur sóknaraðili samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar í aðfararmáli komið að öllum sömu málsástæðum um form- og efnisannmarka stjórnvaldsúrskurðar eins og hann getur í almennu einkamáli, sbr. dóma Hæstaréttar 11. mars 2015 í máli nr. 150/2015 og 24. ágúst 2015 í máli nr. 472/2015. Verður samkvæmt þessu ekki séð að réttarspjöll hljótist af því fyrir sóknaraðila að bíða úrlausnar dómstóla um þau ágreiningsefni sem uppi eru í málinu samkvæmt framansögðu hvort heldur er í almennu einkamáli eða aðfararmáli ef til þess kemur. Af framangreindu leiðir að ekki er í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 brýn þörf á skjótri úrlausn máls þess sem hann hefur í hyggju að höfða á hendur varnaraðila. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að hafna beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. ágúst 2015.

Með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 18. ágúst 2015, var þess farið á leit við dóminn,  f.h. Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, að mál, sem félagið hyggst höfða á hendur Kaffitári ehf., Stapahrauni 7, Reykjanesbæ, sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með bréfinu fylgdi óútgefin réttarstefna og gögn málsins. Með tölvubréfi dómara til lögmanna Isavia ohf. 19 ágúst sl. var tilkynnt að það væri mat dómara að skilyrði 123. gr. laga nr. 91/1991 væru ekki uppfyllt til þess að verða við beiðninni. Með tölvubréfi 20. ágúst sama mánaðar var þess krafist að kveðinn yrði upp úrskurður, sbr. 3. mgr. 123. gr. laganna.

I

Málsatvik eru þau að þann 19. mars 2014 efndi Isavia ohf., sem leigusali, til samkeppni um leigu á verslunar- og veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem óskað var eftir tilboðum í húsaleiguna. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 76/2008 er Isavia ohf.  ætlað m.a. að annast uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu. Var ferlið kynnt undir nafninu „Commercial Opportunities at Keflavik airport“. Umrædd samkeppni skiptist í tvö stig, annars vegar „Request for Qualification“ þar sem kannað skyldi hvort þátttakendur uppfylltu þær kröfur um vörur, vörumerki, þekkingu, reynslu og fleira sem Isavia ohf. gerði til þátttöku í samkeppninni. Þeim sem uppfylltu þessar kröfur var svo boðið að taka þátt á seinna stigi samkeppninnar sem nefndist „Request for Proposal“ og skila inn annars vegar tæknilegri tillögu og hins vegar fjárhagslegri tillögu. Fjárhagslegi hluti tillögunnar kom einungis til skoðunar ef tæknilegi hlutinn var metinn fullnægjandi. Isavia ohf. kveðst hafa lofað þátttakendum samkeppninnar trúnaði varðandi tillögur þeirra.

             Kaffitár ehf. skilaði inn tvíþættum tillögum og komst í gegnum fyrra stig samkeppninnar en með bréfi 21. ágúst 2014 tilkynnti Isavia ohf. Kaffitári ehf. að tillaga félagsins væri ekki fyrsti valkostur í samkeppninni. Þann 29. ágúst 2014 óskaði Kaffitár ehf. eftir upplýsingum og gögnum, bæði um eigin tillögu og tillögur annarra. Þann 5. september 2014 sendi Isavia ohf. Kaffitári ehf. útfyllt einkunnablöð vegna tilboðs félagsins og upplýsingar um hvar tillaga Kaffitárs ehf. féll í röð þátttakenda sem tóku þátt í sömu flokkum samkeppninnar og félagið tók þátt í. Þann 16. september 2014 krafðist Kaffitár ehf. frekari gagna, þ.e. gagna sem útskýrðu eða rökstyddu nánar einkunnagjöf tillögu félagsins, gagna um hverjir væru þátttakendur í samkeppninni, tillögur þeirra og gagna um hvaða einkunnir aðrar tillögur hefðu fengið. Isavia ohf. hafnaði þeirri beiðni með bréfi 22. september 2014 og taldi  að engin skylda hvíldi á félaginu að afhenda gögn sem höfðu að geyma viðkvæmar viðskipta- og fjárhagsupplýsingar um samkeppnisaðila Kaffitárs ehf. Þann 20. október 2014 kærði Kaffitár ehf. þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem felldi úrskurð þann 15. maí 2015 þar sem fallist var á að Isavia ohf. bæri að afhenda gögnin. Isavia ohf.  óskaði eftir endurupptöku ákvörðunar nefndarinnar og til vara frestun réttaráhrifa úrskurðarins, sbr. 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þann 31. júlí s.l. kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð þar sem þessum kröfum Isavia ohf. var hafnað.  

                Í væntanlegu máli á hendur Kaffitári ehf. hyggst Isavia ohf. gera eftirfarandi kröfur:

1)       Að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015 í máli ÚNU 14100011 frá 15. maí 2015 verði felldur úr gildi.

2)       Að viðurkennt verði með dómi að stefnanda sé ekki skylt að afhenda stefnda, Kaffitári ehf., lista yfir þátttakendur í samkeppninni ,,Commercial Opportunities at Keflavík Airport“ sem og lista yfir einkunnir þeirra, tillögur og fylgigögn Lagardere Services, Joe Ísland ehf., IGS ehf. og SSP the Food Travel Experts í sömu samkeppni, sbr. úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015 í máli ÚNU 14100011.

3)        Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

II

Isavia ohf. telur að skilyrði 123. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu heimildar til flýtimeðferðar séu uppfyllt í málinu. Ótvírætt sé að málið varði ákvörðun stjórnvalds í skilningi ákvæðisins, enda um að ræða ákvörðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þá sé afar brýn þörf á skjótri úrlausn málsins, auk þess sem hún hafi almenna þýðingu og fordæmisgildi. Þar sem úrskurðarnefnd hafi nú hafnað kröfu Isavia ohf. um frestun réttaráhrifa úrskurðar nr. 579/2015, en sá úrskurður sé aðfararhæfur, sé brýnt að ekki sé girt fyrir að Isavia ohf. fái notið stjórnarskrárvarinna réttinda sinna til að bera málið undir dómstóla hið fyrsta. Verði ekki fallist á heimild til flýtimeðferðar málsins og málið rekið eftir almennum reglum séu líkur á að hagsmunir Isavia ohf.  fari forgörðum. Ljóst sé eins og málum er háttað að eina færa leið Isavia ohf. til að ná fram rétti sínum sé sú að veitt verði heimild til flýtimeðferðar. Loks varði málið stórfellda hagsmuni Isavia ohf. sem og þeirra aðila er gögnin varða.

III         

Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur aðili, sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga,  óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Við mat á því hvenær brýn þörf er á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni verður að líta til atvika hverju sinni. Framangreind úrræði laganna fela í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga og ber því að skýra ákvæði 1. mgr. 123. gr. laganna þröngri lögskýringu.

Deila aðila snýst um hvort stefnanda verði gert skylt að afhenda stefnda nánar tilgreind gögn sem lögð voru fram í samkeppni sem stefnandi efndi til meðal nokkurra fyrirtækja, þ.á.m stefnda, um leigu á verslunar- og veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tilboð stefnda hlaut ekki brautargengi í samkeppninni og í kjölfarið krafði stefndi stefnanda upplýsinga og gagna um eigið tilboð og tilboð annarra. Hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fallist á sjónarmið stefnda og í máli þessu, sem nú er krafist flýtimeðferðar á,  leitast stefnandi eftir að hnekkja þeim úrskurði.

                Af framangreindum málavöxtum verður ekki ráðið að brýn þörf sé á skjótri úrlausn í málinu, enda hefur úrlausn um afhendingu gagna í þessu tilviki ekki almenna þýðingu eða varðar stórfellda hagsmuni stefnanda. Ekki skiptir máli í þessu sambandi þótt stefndi eigi nú þess kost, að gengnum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál, að krefjast aðfarar hjá stefnanda þar sem stefnandi getur teflt fram í því máli sömu málsástæðum og hér eru lagðar til grundvallar.

                Með vísan til ofanritaðs og að virtum gögnum málsins er það mat dómsins að ekki sé fullnægt skilyrðum fyrir því að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhuguðu dómsmáli Isavia ohf. gegn Kaffitári ehf.