Hæstiréttur íslands
Mál nr. 232/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Kröfulýsing
|
|
Föstudaginn 17. apríl 2015. |
|
Nr. 232/2015.
|
VBS eignasafn hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn LBI hf. (Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Kröfulýsing.
Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var viðurkennd krafa L hf. við slit V hf. að fjárhæð 9.463.942.613 krónur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með dómi réttarins í máli nr. 720/2012 hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að með afsali í nóvember 2009 á öllum hlutum V hf. í nánar tilgreindu einkahlutafélagi til L hf., hefði V hf. greitt L hf. skuld að fjárhæð 6.973.077.574 krónur, en það væri sama fjárhæð og tilgreind væri í nánar tilgreindu samkomulagi aðila frá ágúst 2009 sem heildarskuld V hf. við L hf. Yrði því fallist á með V hf. að krafan, sem L hf. gæti komið að við slit V hf. í kjölfar framangreinds hæstaréttardóms, næmi þeirri fjárhæð sem hann fékk greidda með þeirri ráðstöfun sem rift var með dóminum. Gæti L hf. því ekki á grundvelli 143. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. komið að annarri kröfu en sem næmi þeirri skuld. Var niðurstaðan því sú að viðurkennd var krafa L hf. við slit V hf. að fjárhæð 6.973.077.574 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2015, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 9.463.942.613 krónur var viðurkennd við slit sóknaraðila í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað og að krafa hans verði viðurkennd við slitin í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laganna að fjárhæð 6.973.077.574 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði tók sóknaraðili með samningi 25. október 2004 að láni 800.000.000 krónur hjá varnaraðila og 500.000.000 krónur með samningi 14. september 2005. Þá gerðu aðilarnir 18. apríl 2007 samning um lánalínu að fjárhæð 5.500.000.000 krónur, sem sóknaraðili gat dregið á í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum sem hann hafði átt viðskipti með, og nýtti hann sér það. Síðarnefni samningurinn var framlengdur 29. september 2008 og þá mælt fyrir um að skuldina skyldi greiða 10. október sama ár. Að lokum tók sóknaraðili 29. september 2008 peningamarkaðslán að fjárhæð 1.000.000.000 krónur hjá varnaraðila, sem greiða átti 29. október sama ár ásamt vöxtum að fjárhæð 17.500.000 krónur.
Sóknaraðili lýsti yfir skuldajöfnuði 13. október 2008, miðað við stöðu 8. sama mánaðar, vegna skuldabréfs sem hann átti á hendur varnaraðila. Sóknaraðili endurgreiddi ekki peningamarkaðslánið frá 29. september 2008 á gjalddaga þess 29. október sama ár. Þá stóð hann ekki skil á greiðslu vaxta 16. mars 2009 af láninu frá 14. september 2005 og var það gjaldfellt sama dag. Af sömu ástæðu var lánið frá 25. október 2004 gjaldfellt 14. apríl 2009. Af gögnum málsins verður ráðið að aðilar hafi gengið frá skuldajöfnuði 8. apríl 2009 og var fjárhæð skuldar varnaraðila færð sem innborgun á skuld sóknaraðila samkvæmt framangreindum samningi um lánalínu 18. apríl 2007.
Aðilarnir gerðu 11. ágúst 2009 með sér samkomulag um uppgjör allra skulda sóknaraðila við varnaraðila. Þar kom fram að uppgjörið væri miðað við skuldastöðu 30. júní 2009 og að heildarskuld sóknaraðila hafi þá numið samtals 6.973.077.574 krónum. Með samkomulaginu skuldbatt varnaraðili sig til að kaupa og sóknaraðili að selja allt hlutafé í nafngreindu einkahlutafélagi og skyldi kaupverð hlutafjárins greiðast með niðurfellingu útistandandi skulda sóknaraðila við varnaraðila, samtals að fjárhæð 6.973.077.574 krónur. Eftir nánar tilteknar ráðstafanir var öllum hlutum í Vingþóri ehf., að fjárhæð 4.345.273.656 krónur, afsalað 13. nóvember 2009 til varnaraðila og taldist sóknaraðili við svo búið hafa gert upp framangreindar skuldir.
Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009, skipaði Fjármálaeftirlitið 3. mars 2010 sóknaraðila bráðabirgðastjórn, en í framhaldi af því var hann tekinn til slita 9. apríl sama ár og honum skipuð slitastjórn samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009.
Í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, sem þingfest var 11. maí 2011, krafðist hinn fyrrnefndi þess að staðfest yrði riftun á greiðslu skuldar hans við varnaraðila að fjárhæð 4.345.273.656 krónur, sem fram fór eins og áður greinir 13. nóvember 2009 með afsali allra hluta sóknaraðila í Vingþóri ehf. til varnaraðila. Þá krafðist sóknaraðili þess að viðurkennd yrði krafa sín að sömu fjárhæð við slit varnaraðila, sem nyti forgangs samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 og bæri nánar tilgreinda vexti. Með úrskurði héraðsdóms 7. nóvember 2012 var fallist á kröfu sóknaraðila um riftun á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 með því að hann taldist hafa greitt varnaraðila skuld að fjárhæð 4.345.273.656 krónur með óvenjulegum greiðslueyri. Þá var fallist á kröfu varnaraðila um að honum væri heimilt að skila sóknaraðila öllu hlutafé í Vingþóri ehf. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar, þar sem dómur gekk 18. desember 2012 í máli nr. 720/2012 og fallist var á framangreinda niðurstöðu héraðsdóms. Í dóminum kom meðal annars fram að með afsalinu 13. nóvember 2009 hafi sóknaraðili greitt varnaraðila skuld að fjárhæð 6.973.077.574 krónur og að aðilar hafi metið verðmæti þeirra eigna, sem gengu til greiðslu skuldarinnar, samtals 4.345.273.656 krónur, en það hafi verið samtala verðmætis eignanna, sem afsalað var, auk stofnfjár einkahlutafélagsins.
Óumdeilt er að varnaraðili stóð skil á greiðslu samkvæmt dóminum. Í framhaldi af því lýsti varnaraðili 7. janúar 2013 kröfu af þessu tilefni við slit sóknaraðila að höfuðstól 9.793.497.493 krónur vegna framangreindra lána. Í afstöðubréfi sóknaraðila 5. apríl 2013 var kröfunni hafnað, en hún samþykkt að fjárhæð 4.345.273.656 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og beindi sóknaraðili honum til héraðsdóms 25. október 2013, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 31. janúar 2014.
II
Fallist er á með héraðsdómi að málið sé ekki vanreifað af hálfu varnaraðila þannig að leiði til réttindamissis hans.
Samkvæmt síðari málslið 143. gr. laga nr. 21/1991 er þeim, sem hefur verið gert að sæta riftun á ráðstöfun þrotamanns og greiða þrotabúi fé eða standa skil á verðmæti, heimilt að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur búinu og skal hann þá njóta jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem eiga jafnréttháar kröfur. Á þessum grunni var varnaraðila heimilt að koma að við slit sóknaraðila þeirri kröfu, sem greidd var með ráðstöfuninni og rift var með áðurnefndum dómi Hæstaréttar 18. desember 2012, án tillits til kröfulýsingarfrests, sbr. 6. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991.
Með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að með afsalinu 13. nóvember 2009 á öllum hlutum sóknaraðila í Vingþóri ehf. til varnaraðila hafi sóknaraðili greitt varnaraðila skuld að fjárhæð 6.973.077.574 krónur, en það er sú sama fjárhæð og tilgreind var í samkomulagi aðila 11. ágúst 2009 sem heildarskuld sóknaraðila við varnaraðila. Verður því fallist á með sóknaraðila að krafan, sem varnaraðili getur komi að við slit sóknaraðila í kjölfar framangreinds hæstaréttardóms, nemi þeirri fjárhæð sem hann fékk greidda með þeirri ráðstöfun sem rift var með dóminum. Getur varnaraðili því ekki á grundvelli 143. gr. laga nr. 21/1991 komið að annarri kröfu en sem nemur skuldinni eins og hún var þegar hún var greidd með hinni riftanlegu ráðstöfun. Verður því niðurstaða málsins sú að viðurkennd sé krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 6.973.077.574 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Við slit sóknaraðila, VBS eignasafns hf., er viðurkennd krafa varnaraðila, LBI hf., að fjárhæð 6.973.077.574 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2015.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 25. október 2013 og var málið þingfest 31. janúar 2014. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar fimmtudaginn 8. janúar sl. Sóknaraðili er LBI hf., Álfheimum 74, Reykjavík, en varnaraðili er VBS eignasafn hf., Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði við slitameðferð varnaraðila, krafa hans að jafnvirði 9.463.942.613 krónur, miðað við gengi gjaldmiðla á úrskurðardegi, sem sundurliðist í eftirfarandi gjaldmiðla og að tilgreindri fjárhæð: 6.537.168,82 evrur; 6.747.713,12 kanadíska dollara, 4.901.236,87 sterlingspund, 8.524.699,86 svissneska franka; 24.158.673,55 danskar krónur; 7.577.935,93 norskar krónur, 16.347.444,59 sænskar krónur; 6.786.183,86 bandaríkjadali og 3.609.796.384 íslenskar krónur. Þess er krafist að ofangreind krafa verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði afstaða slitastjórnar varnaraðila gagnvart kröfu sóknaraðila, nr. 287 í kröfuskrá við slitameðferðar varnaraðila, um að samþykkja kröfuna sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 4.345.273.656 krónur. Til vara krefst hann þess að krafan verði samþykkt sem almenn krafa að fjárhæð 6.973.077.574.
Varnaraðili hafði uppi í greinargerð þrautavarakröfu um lækkun krafna sóknaraðila með vísan til þess að sóknaraðila hefði láðst að geta innborgana að nánar tilgreindri fjárhæð. Sóknaraðili féllst á athugasemdir varnaraðila að þessu leyti og lækkaði kröfur sínar.
Lögskiptum aðila er lýst með ítarlegum hætti í dómi Hæstaréttar í máli nr. 720/2012 sem kveðinn var upp 18. desember 2012.
I
Mál þetta er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, en sóknaraðili málsins er einnig fjármálafyrirtæki í slitameðferð.
Fyrir liggur að 25. október 2004 tók varnaraðili að láni hjá sóknaraðila 800.000.000 íslenskar krónur, lánssamningur nr. 170773 og 14. september 2005 tók hann að láni 500.000 krónur, lánssamningur nr. 14178. Þá var undirritaður samningur 18. apríl 2007 um 5.500.000.000 króna lánalínu, auðkennd nr. 7726, sem varnaraðili mun hafa getað dregið á hjá sóknaraðila. Var hægt að draga á lánalínuna í íslenskum krónum og öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem sóknaraðili hafi átt viðskipti með. Umræddur samningur mun ítrekað hafa verið framlengdur og breytt að því er varðar hámarksfjárhæð. Varnaraðili nýtti sér samninginn og dró á lánalínuna í ýmsum gjaldmiðlum. Þann 29. september 2008 var samningurinn framlengdur í síðasta sinn og var þar mælt fyrir um að greiða ætti skuldina 10. október sama ár. Sama dag veitti sóknaraðili varnaraðila peningamarkaðslán að fjárhæð 1.000.000.000 krónur og átti að greiða það lán með vöxtum að fjárhæð 17.500.000 krónur 29. október 2008. Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila 7. október 2008, vék stjórn hans frá og skipaði skilanefnd. Varnaraðili lýsti yfir skuldajöfnuði 9. október 2008 vegna skuldabréfs sem hann átti á hendur sóknaraðila. Þess yfirlýsingu ítrekaði hann 13. sama mánaðar. Varnaraðili greiddi ekki peningamarkaðslán á gjalddaga 29. október 2008 og kveður sóknaraðili að dráttarvextir séu reiknaðir frá þeim degi í kröfugerð sóknaraðila. Varnaraðili stóð ekki skil á vaxtagreiðslu 16. mars 2009 vegna láns nr. 14178 upphaflega að fjárhæð 500.000.000 krónur og var það gjaldfellt þann dag og kveður sóknaraðili að dráttarvextir séu reiknaðir frá þeim degi. Varnaraðili hafi ekki staðið skil á vaxtagreiðslu vegna láns nr. 170773 og var það gjaldfellt 14. apríl 2009. Með bréfi 24. febrúar 2009 samþykkti skilanefnd sóknaraðila skuldajöfnun sem miðaði við 9. október 2009 og voru fjárhæðir færðar sem innborganir á skuldina þann dag. Gengið var frá uppgjöri vegna skuldajöfnunar 21. júlí 2009. Í málinu liggur fyrir stöðuyfirlit yfir lán 7726 á gjalddaga 10. október 2008, daginn eftir uppgjör vegna skuldajöfnunar, en þann var skuldbindingin á gjalddaga. Kveður sóknaraðili að höfuðstólar og samningsvextir í kröfulýsingu hans séu miðaðir við þann dag.
Í ágúst 2009 gerðu varnaraðili og sóknaraðili með sér samkomulag um uppgjör skulda. Lagði varnaraðili tilteknar eignir inn í Vingþór ehf. og afsalaði síðan félaginu til sóknaraðila og taldist með því hafa gert upp framangreindar skuldir.
Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009 skipaði Fjármálaeftirlitið 3.mars 2010 bráðbirgðastjórn yfir varnaraðila og var félagið tekið til slitameðferðar 9. apríl 2010 og skipuð slitastjórn skv. heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt lögum nr. 161/2002 gilda að meginstefnu reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferðina. Frestdagur við skiptin er 3. mars 2010. Kröfulýsingarfresti lauk 12. nóvember 2010.
Með bréfi 24. ágúst 2010 rifti slitastjórn varnaraðila framangreindri greiðslu á skuld með vísan til XX. kafla laga nr. 21/1991. Í kjölfarið lýsti varnaraðili kröfu þess efnis við slitameðferð sóknaraðila. Var endanlega fallist á kröfuna með dómi Hæstaréttar 18. desember 2012 og umræddri greiðslu á skuld rift og sóknaraðila gert að afhenda varnaraðila einkahlutafélagið Vingþór.
Sóknaraðili lýsti kröfu sinni 7. janúar 2013 með vísan til 143. gr., sbr. 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili hafnaði kröfunni og fundir voru haldnir til lausnar ágreiningi aðila en án árangurs. Málinu var í kjölfarið vísað til dómsins til úrlausnar.
Í málinu liggur fyrir sundurliðun þeirra fjárkrafna sem sóknaraðili hefur uppi í átta erlendum myntum og einnig í íslenskum krónum. Nemur fjárkrafa hans samtölu umræddra fjárhæða og að teknu tilliti til lækkunar vegna innborgana sem varnaraðili benti á að vantaði í útreikninginn, er hin lýsta fjárhæð 9.463.942.613 krónur. Fjárhæðin er studd ítarlegum gögnum.
II
Í greinargerð sinni vísar sóknaraðili til þess að fyrir liggi að varnaraðili hafi lánað sóknaraðila þá fjármuni sem krafa hans lúti að. Kveðst hann byggja á því að krafan sé fyrirliggjandi, sönnuð og óumdeild að efni til í málinu. Sé og á því byggt að varnaraðili sé bundinn af þeirri afstöðu sem fram komi í afstöðubréfi slitastjórnar, dags. 5. apríl 2013, en þar komi fram að krafa sóknaraðila sé samþykkt að því leyti sem hún sé ekki fallin niður fyrir vanlýsingu skv. 118. gr. laga nr. 21/1991. Afstaða slitastjórnar varnaraðila sé sú að sóknaraðila sé aðeins heimilt að koma að „þeirri greiðslu sem rift var í dómi Hæstaréttar í málinu 720/2012“ en kröfunni hafi ekki verið hafnað af öðrum ástæðum.
Af hálfu sóknaraðila sé byggt á því að ágreiningur aðila geti samkvæmt þessu aðeins snúið að því hvort þessi afstaða slitastjórnar sé á rökum reist, en ekki að öðrum atvikum er varði kröfuna enda hafi hún verið samþykkt að öðru leyti samkvæmt framangreindu.
Sóknaraðili byggi á því að hann hafi rétt á því að koma að upprunalegri kröfu sinni við slit varnaraðila. Í því sambandi vísi sóknaraðili einkum til 143. gr. laga nr. 21/1991 en þar sé mælt fyrir um að kröfuhafa sem þurfi að sæta riftun og greiða þrotabúi skuli vera heimilt að koma upprunalegri fjárkröfu sinni á hendur þrotabúinu að og njóta jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem hafi jafnréttháar kröfur.
Sóknaraðili byggi á því að túlka beri ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan, sem jafnframt sé í samræmi við orðalag í greinargerð, á þann hátt að riftunarþoli eigi að geta komið að upphaflegri kröfu sinni miðað við stöðu hennar við upphaf skipta þannig að hann verði jafnsettur öðrum kröfuhöfum. Í því felist að kröfugerð sóknaraðila geti ekki verið takmörkuð við þá fjárhæð eða hagsmuni sem riftun hafi lotið að, enda teljist það ekki vera upprunaleg krafa í skilningi ákvæðisins.
Eftir ofangreindu beri að taka kröfu sóknaraðila til greina á þann hátt sem í kröfugerð greini og dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað í samræmi við kröfur sóknaraðila.
Sóknaraðili krefst þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu hans til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Sóknaraðili kveðst vísa, máli sínu til stuðnings, til almennra reglna kröfu-, samninga- og skaðabótaréttar. Þá kveðst hann vísa til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 143. gr. og 6. tl. 118. gr. laganna, sem og til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þar sem það eigi við, einkum 102. og 103. gr. þeirra laga. Um vexti sé vísað til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um málskostnaðarkröfu til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III
Varnaraðili kveðst byggja aðalkröfu sína á því í fyrsta lagi að framsetning krafna sóknaraðila í kröfulýsingu hans, dags. 7. janúar 2013, fullnægi ekki áskilnaði 117. gr. laga nr. 21/1991. Sé sérstaklega vísað til framsetningar kröfunnar að því er varði lánssamning nr. 7726.
Í tilvitnaðri grein laga nr. 21/1991 sé því lýst hvernig kröfulýsing skuli úr garði gerð og komi þar m.a. fram að hún skuli vera skrifleg og að í henni skuli kröfur tilgreinar svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð o.s.frv. Öll frávik frá þeim meginreglum um form sem komi fram í 117. gr. laga nr. 21/1991 verði að skýra með þröngum hætti.
Varnaraðili telji ljóst samkvæmt lagaákvæði þessu að kröfur kröfuhafa þurfi að koma fram eins skýrt og unnt sé. Líkja megi kröfulýsingu við kröfugerð í stefnu í einkamáli enda megi ráða af 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að kröfugerð þurfi nánast að vera með sama hætti og í stefnu í einkamáli, sbr. d-liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé ljóst að þessi lýsing gangi lengra þar sem gerður sé áskilnaður í kröfulýsingu um að tilgreina þurfi fjárhæð peningakröfu í krónum með sundurliðuðum útreikningi. Slíkur áskilnaður gangi því lengra en gert sé varðandi stefnu í einkamáli.
Í þessu samhengi þurfi einnig að líta til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 en þar komi fram að ef annað leiði ekki af ákvæðum laganna þá gildi almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála fyrir dómi samkvæmt umræddum kafla laganna.
Af framangreindu leiði því að kröfulýsing sóknaraðila þurfi a.m.k. að standast sömu kröfur um skýrleika sem eigi við um stefnu í einkamáli og getið sé um í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ásamt því að standast þau auknu kröfur sem ákvæði 117. gr. laga nr. 21/1991 leggi á herðar kröfulýsanda.
Fyrir liggi að í kröfulýsingu sóknaraðila undir kröfuliðnum lánasamningur nr. 7726 séu fjárhæðir ekki sundurliðaðar í krónum líkt og 117. gr. laga nr. 21/1991 geri áskilnað um. Auk heldur sem ekki sé tilgreindur upphafsdagur dráttarvaxta vegna kröfunnar. Aðrir kröfuliðir séu tilgreindir í íslenskum krónum og staðan sé því sú að krafan sé fram sett ýmist í íslenskum krónum eða öðrum myntum. Óskýr framsetning kröfugerðarinnar geri það því að verkum að hún torveldi varnaraðila mjög að skilja hvaða heildargreiðslu sé krafist við slitameðferðina. Fjárhæð kröfu sóknaraðila eins og hún sé fram sett sé því með öllu órökstudd.
Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili ekki fært fram fullnægjandi skýringar á kröfugerð sinni með tilgreiningu heildarfjárhæðar í mótmælabréfi dags. 17. apríl 2013 og greinargerð sinni til héraðsdóms. Jafnvel þó fullnægjandi grein hefði verið gerð eftir að sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni, þá telji varnaraðili engu að síður að ekki sé heimilt að víkja frá þeim kröfum sem gerðar séu til kröfulýsinga skv. 117. gr., sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Með vísan til alls sem að framan greini byggi varnaraðili kröfur sínar á því að kröfulýsing sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 117. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem skilyrðum laga um skýran og ljósan málatilbúnað sé ekki fullnægt, sbr. d, e og f-liðir, 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og krafan sé því verulega vanreifuð. Leiði þetta til þess að hafna beri kröfunni eins og henni hafi verið lýst. Með vísan til framangreindra röksemda telur varnaraðili að staðfesta beri þá afstöðu sem slitastjórn hans tók til kröfu sóknaraðila.
Jafnvel þó að ekki yrði fallist á framangreint telji varnaraðili að með hliðsjón af ákvæði 143. gr. laga nr. 21/1991 yrði engu að síður að staðfesta afstöðu slitastjórnar varnaraðila til kröfu sóknaraðila.
Krafa sóknaraðili sé grundvölluð á þeirri greiðslu varnaraðila til sóknaraðila sem rift hafi verið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 720/2012 og verði kröfufjárhæðin að samræmast þeirri fjárhæð sem sóknaraðila hafi verið gert að skila til varnaraðila. Túlkun sóknaraðila á ákvæði 143. gr. laga nr. 21/1991 sé því sérstaklega mótmælt.
Varnaraðili byggi á því að samkvæmt 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 143. gr. laganna, sé sóknaraðila aðeins heimilt að koma að fjárhæð sem nemi þeirri greiðslu sem rift hafi verið í dómi Hæstaréttar í framangreindu máli. Af því leiði að aðrar kröfur sem sóknaraðili kunni að hafa átt á hendur varnaraðila, en þær sem framangreindur dómur nái til, séu óviðkomandi þeirri kröfu sem heimilt sé að lýsa samkvæmt 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Séu aðrar kröfur því fallnar niður sökum vanlýsingar, sbr. fyrsta málslið sama lagaákvæðis.
Í 6. tl. 118. gr., sbr. 143. gr. laga nr. 21/1991 felist undantekningarregla frá upphafsorðum sömu lagagreinar sem kveði á um að kröfu skuli lýsa áður en fresti til að lýsa kröfum ljúki skv. 2. mgr. 85. gr. sömu laga. Túlka verði þessa undantekningarreglu þröngt í samræmi við almenn lögskýringarsjónarmið. Verði því að takmarka endurkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila við þá fjárhæð sem rift hafi verið með framangreindum Hæstaréttardómi. Megi enda ráða af ákvæðinu að tilgangur þess sé að heimila riftunarþola að koma að þeirri kröfu sinni sem rift hafi verið með dómi.
Með vísan til framangreinds telji varnaraðili að ekki sé heimilt að samþykkja aðra og hærri kröfu á grundvelli Hæstaréttardóms í máli nr. 420/2012 en sem nemi 4.345.273.656 krónum en það sé sú fjárhæð sem rift hafi verið skv. dómnum.
Varakrafa varnaraðila um að samþykkja beri kröfu sóknaraðila að fjárhæð 6.973.077.574 krónur byggi á eftirfarandi rökum. Fallist dómurinn ekki á túlkun varnaraðila á 143. gr. laga nr. 21/1991 og telji að sóknaraðila sé heimilt að lýsa hærri kröfum en leiði af fyrrnefndum dómi Hæstaréttar, þá telji varnaraðili að krafa sóknaraðila geti aldrei numið hærri fjárhæð en þeirri sem greind hafi verið í samkomulagi aðila um skuldauppgjör 11. ágúst 2009. Í samkomulaginu hafi falist bindandi yfirlýsing af hálfu sóknaraðila um fjárhæð kröfu hans á hendur varnaraðila sem sóknaraðili sé bundinn við án tillits til þess hvort að varnaraðili hafi innt af hendi greiðsluna eða ekki. Þegar greiðslunni hafi verið rift standi samkomulagið eftir að öðru leyti enda hafi sóknaraðili aldrei lýst því yfir af sinni hálfu að hann væri óbundinn af því s.s. 5. gr. samkomulagsins hafi heimilað honum. Í 2. gr. samkomulagsins sé kveðið á um greiðslufyrirkomulag. Í grein 6.1 segi: „Komi til að einstaka liðir uppgjörs skv. 2. gr. gangi ekki eftir skuli GLI og VBS reyna eftir fremsta megni að komast að samkomulagi um það hvernig VBS skuli standa skil á eftirstöðvum skuldarinnar í anda samkomulags þessa.“ Í ljósi þessa hafi riftun á greiðslu skv. 2. gr. samkomulagsins ekki áhrif á fjárhæð skuldarinnar sem slíkrar. Þessi skilningur fái einnig stoð í gr. 5.1.1. Þar sem sóknaraðili hefi ekki rift samkomulaginu í kjölfar dóms Hæstaréttar sé honum óheimilt að krefjast annarrar og hærri fjárhæðar en samkomulagið kveði á um.
Varnaraðili kveðst mótmæla því sérstaklega að ágreiningur málsins geti aðeins snúið að afstöðu varnaraðila eins og hún hafi komið fram í afstöðubréfi slitastjórnar hans en ekki að öðrum atvikum er varði kröfuna. Grundvöllur málsins verði ekki lagður til fullnaðar fyrr en með greinargerðum aðila.
Varnaraðili vísar til þess að hann reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og því þurfi við ákvörðun málskostnaðar honum til handa að taka tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þá sérstaklega 117. gr., 118. gr., 143. gr. og 2. mgr. 178. gr. Þá kveðst hann vísa til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og meginreglna réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Auk þess sé vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málskostnaðarkrafa eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og að því er kröfu um virðisaukaskatt varði sé vísað til laga nr. 50/1988.
IV
Ekki er unnt að fallast á með varnaraðila að á kröfulýsingu sóknaraðila, að teknu tilliti til málatilbúnaðar hans sem endanlega kom fram í greinargerð hans til dómsins, séu neinir þeir ágallar að málið gæti talist vanreifað þannig að leitt gæti til réttindamissis af hans hálfu. Verður enda ekki séð að hin ætlaða vanreifun hafi komið niður á vörnum varnaraðila. Er því hafnað málsástæðum varnaraðila sem lúta að ætluðum ágöllum á kröfulýsingu eða málatilbúnaði sóknaraðila að öðru leyti og ítarlega eru raktar hér að framan. Þá hefur varnaraðili ekki mótmælt fjárkröfum sóknaraðila með rökstuddum hætti, utan athugasemd um að ekki væri getið innborgana, en við þeim athugasemdum var brugðist af hálfu sóknaraðila og krafa hans lækkuð.
Kröfu sóknaraðila er skýrlega lýst og hún tilgreind í þeim gjaldmiðlum sem um ræðir, sem síðan eru umreiknaðir til íslenskra króna miðað við ákvæði 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Þá eru vextir tilgreindir og heildarfjáræð kröfunnar í íslenskum krónum. Gjalddagar eru tilgreindir og upphafstími dráttarvaxta og þeir reiknaðir til upphafsdags slitameðferðar varnaraðila. Hefur varnaraðili á engan hátt borið rökstuddar brigður á útreikning sóknaraðila. Í málinu liggja einnig fyrir gögn sem lýsa með fullnægjandi hætti kröfum sóknaraðila. Þá liggur og fyrir dómur Hæstaréttar í máli nr. 720/2012 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um riftun á greiðslu skuldar sem fram fór með umræddum lögskiptum og var riftunin byggð á reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Er kröfum sóknaraðila einnig ítarlega lýst þar.
Það er meginregla í kröfurétti að almennt skuli telja það verulega forsendu samningsaðila í gagnkvæmu samningssambandi að efndaskylda hans sé háð því að gagnaðili inni sína greiðslu af hendi. Telja verður í fullu samræmi við framangreinda meginreglu að aðili sem dæmdur hefur verið til að skila til baka greiðslu, sem hann fékk greidda, með vísan til reglna XX. kafla laga nr. 21/1991 geti haft uppi þá fjárkröfu sem hann áður átti á hendur gagnaðilanum. Er enda mælt með beinum hætti fyrir um slíkt í 2. ml. 143. gr. laga nr. 21/1991, en þar segir að kröfuhafa skuli heimilt að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur þrotabúinu og njóta jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem hafi jafnréttháar kröfur. Veldur það ekki verulegum vafa að mati dómsins að ákvæðið vísar hér til þeirrar fjárkröfu sem aðili átti upphaflega á hendur skuldara óháð því hver sú greiðsla var sem skuldarinn sjálfur innti af hendi. Þá verður og að telja að í þessu felist að kröfuhafa sé líkt og öðrum kröfuhöfum heimilt að reikna sér vexti á kröfuna fram að upphafsdegi slitameðferðar. Er því ekki fallist á með varnaraðila að krafa sóknaraðila geti takmarkast við það varðmæti sem hann var dæmdur til að skila varnaraðila með fyrrnefndum Hæstaréttardómi. Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi staðið í þeirri skuld við sóknaraðila sem krafist er efnda á í máli þessu og krafan hafi réttilega verið reiknuð með vöxtum fram að upphafsdegi slitameðferðar varnaraðila. Ekki eru heldur forsendur, með vísan til alls sem að framan greinir, til að fallast á varakröfu varnaraðila sem gerir ráð fyrir að leggja beri til grundvallar þá fjárhæð sem aðilar skráðu sem skuld varnaraðila í þeim samningum aðila sem riftunin laut að, en að mati dómsins verður að virða þau lögskipti heildstætt. Ber um þetta atriði bæði að líta til þess að telja verður að sóknaraðili eigi rétt á að reikna vexti á kröfuna frá umræddum tíma og fram að upphafi slitameðferðar og eins verður að telja að sá forsendubrestur sem að framan er minnst á nái til samkomulags aðila í heild.
Þegar á grundvelli þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin verður krafa sóknaraðila tekin til greina að fullu.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði. Hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðmundur Óli Björgvinsson hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Jón Ingi Þorvaldsson hdl. vegna Hróbjarts Jónatanssonar hrl.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Við slitameðferð varnaraðila, VBS eignasafns hf., er viðurkennd krafa sóknaraðila, LBI hf., að fjárhæð 9.463.942.613 krónur. Krafan hefur stöðu í skuldaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað.