Hæstiréttur íslands

Mál nr. 236/2013


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Skuldamál


                                     

Fimmtudaginn 17. október 2013.

Nr. 236/2013.

Svava Sandra Björnsdóttir

(Guðbjarni Eggertsson hrl.)

gegn

Bílabúð Benna ehf.

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

Lausafjárkaup. Skuldamál.

S krafði B ehf. um endurgreiðslu kaupverðs bifreiðar sem hún kvaðst hafa keypt af B ehf. en síðar skilað. Upplýst var í málinu að aðkoma S að umræddum bifreiðakaupum hefði verið sú að nafn hennar var skráð sem kaupandi bifreiðarinnar en bróðir hennar innt af hendi fjármuni vegna kaupanna. Fyrir Hæstarétti féll S frá þeim málsástæðum að B ehf. hefði rift kaupunum eða að þau hefðu gengið til baka samkvæmt samkomulagi aðila og að B ehf. bæri af þeim sökum að standa skil á endurgreiðslu kaupverðsins. Stóð þá aðeins eftir sú málsástæða S að B ehf. bæri að endurgreiða henni með vísan til reglu um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Talið var að ekkert í gögnum málsins benti til þess að sú regla ætti við í málinu. Þá var málsástæða S ehf. um að B ehf. hefði haldið eftir fé á ólögmætan hátt of seint fram komin. Var B ehf. því sýknað af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. apríl 2013. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 218.716 evrur, til vara 217.803 evrur, en að því frágengnu 205.000 evrur, allt með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. mars 2008 til greiðsludags, en til vara frá sama degi með vöxtum samkvæmt 3. gr., sbr. 4. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í hinum áfrýjaða dómi er lýst bifreiðakaupum þeim sem mál þetta snýst um. Í héraði var málatilbúnaður áfrýjanda á því reistur að stefndi sem seljandi bifreiðarinnar hafi rift kaupum eða þau gengið til baka samkvæmt samkomulagi aðila og beri stefnda að standa sér skil á endurgreiðslu kaupverðsins. Í hinum áfrýjaða dómi var réttilega leyst úr ágreiningi aðila eins og málið var lagt fyrir héraðsdóm. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá ofangreindum málsástæðum og koma þær því ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti. Þá hefur áfrýjandi jafnframt vísað til reglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár til stuðnings kröfu sinni. Þær reglur eiga almennt við um þá aðstöðu þegar greitt er í rangri trú um að það sé skylt og greiðandinn leitar síðan eftir endurgreiðslu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að slíkt geti átt við í málinu og hefur áfrýjandi því ekki fært fram haldbær rök til stuðnings þessari málsástæðu. Auk þessa virðist áfrýjandi í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti vísa til sjónarmiða um að stefndi hafi haldið eftir fé á ólögmætan hátt. Málsástæða áfrýjanda sem að þessu lýtur er of seint fram komin og verður þegar af þeim sökum ekki tekin til greina, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjandi dæmd til að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Svava Sandra Björnsdóttir, greiði stefnda, Bílabúð Benna ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. desember 2012, var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 28. febrúar 2012, af Svövu Söndru Björnsdóttur, Storhaugen 1, Arendal í Noregi, á hendur stefnda, Bílabúð Benna ehf., Vagnhöfða 23, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skuld að fjárhæð 218.717 EUR, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. mars 2008 til greiðsludags en til vara með vöxtum samkvæmt 3. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 frá 4. mars 2008 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Loks krefst stefnandi málskostnaðar, auk lögmælts virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, samkvæmt málskostnaðaryfirliti.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að um allar fjárhæðir í málinu verði dæmt í íslenskum krónum og að stefnda verði heimilað að skuldajafna við kröfu stefnanda fjárhæð allt að 25.547.276 krónum eða annarri fjárhæð lægri að svo miklu leyti, sem til þurfi, til að jafna út kröfu sem stefnandi kann hugsanlega að fá sér tildæmda úr hendi stefnda.

Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

I.

Stefnandi kveður málavexti þá að hún hafi keypt bifreiðina Porsche Carrera GT, með skráningarnúmer ST-133, af stefnda á árinu 2005. Stefnandi hafi greitt kaupverðið með þremur greiðslum, hinn 24. nóvember 2005 að fjárhæð 70.000 EUR, hinn 4. apríl 2006 að fjárhæð 3.555 EUR og hinn 5. apríl 2006 að fjárhæð 310.157 EUR eða samtals 383.712 EUR.

Stefndi lýsir aðdraganda kaupanna hins vegar með þeim hætti að Helgi Már Björnsson, bróðir stefnanda, hafi óskað eftir því við stefnda að festa kaup á bifreið af gerðinni Porsche Carrera GT og hefði stefndi þá séð um að útvega honum slíka bifreið frá Þýskalandi. Til staðfestingar á kaupunum hafi Helgi Már greitt stefnda 70.000 EUR hinn 24. nóvember 2005 og 310.157 EUR hinn 5. apríl 2006.

Óumdeilt er að kaupverð bifreiðarinnar var að fullu greitt. Bifreiðin kom til landsins í byrjun maí 2006 og hinn 9. maí 2006 var hún skráð á stefnda sem innflytjanda hennar og söluaðila. Ljóst er að sú hugmynd kom upp að bifreiðin yrði skráð á nafn stefnanda, sem búsett er í Noregi, í þeim tilgangi að fá undanþágu frá greiðslu opinberra gjalda af bifreiðinni. Hinn 19. maí 2006 afhenti stefndi bifreiðina og bera gögn málsins með sér að bifreiðin var skráð á nafn stefnanda máls þessa frá þeim degi.  Reikningur fyrir viðskiptunum var gefinn út 10. sama mánaðar.

Í kjölfar afhendingar bifreiðarinnar kom upp ágreiningur við tollayfirvöld um aðflutningsgjöld henni.  Með bréfi, dagsettu 28. september 2006, var stefnanda gert að flytja bifreiðina úr landi eða láta tollafgreiða hana. Í kjölfarið tók stefndi bifreiðina yfir og var það að sögn stefnda gert að ósk Helga Más, bróður stefnanda. Stefnandi kveður hins vegar kaupunum hafa verið rift á þessum tíma og bifreiðinni skilað til stefnda sem hafi þá þegar átt að endurgreiða kaupverðið en ekki gert það. Stefndi mótmælti því að um hafi verið að ræða riftun á kaupunum. Stefndi lagði fram aðflutningsskýrslu til tollstjórans í Reykjavík hinn 9. nóvember 2006 og er því lýst í greinargerð stefnda að samkomulag hafi náðst við tollayfirvöld um að stefndi leysti bifreiðina út af tollsvæði og geymdi hana í upphituðu húsnæði og hafi hún því verið afhent Helga Má til varðveislu.

Umrædd bifreið var seld til Lúxemborgar næsta vor og var henni því skilað aftur inn á tollsvæði 4. maí 2007. Er óumdeilt að greiðsla frá kaupandanum að fjárhæð 75.000 rann beint til Helga Más, bróður stefnanda, en greiðsla að fjárhæð 305.000 EUR var greidd til stefnda haustið 2007. Reikningur vegna sölunnar er dagsettur 1. júní 2007. Þá liggur frammi kreditreikningur, dagsettur 1. nóvember 2007, sem stefndi kveður hafa verið útbúinn vegna óska nýja kaupandans að bifreiðinni um útgáfu reiknings frá stefnda. Kreditreikningsgerðin hafi því eingöngu verið bókhaldsleg færsla sem hafi verið nauðsynleg til að leiðrétta söluverð bifreiðarinnar í bókhaldi stefnda.

Óumdeilt er að stefndi greiddi 100.000 EUR inn á reikning Helga Más hinn 4. mars 2008. Endanleg kröfugerð stefnanda er miðuð við að til viðbótar hafi verið greiddar inn á skuld stefnda 64.995 EUR.

II.          

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi rift kaupum á bifreiðinni og/eða kaupin gengið til baka og beri stefnda því að endurgreiða stefnanda kaupverð bifreiðarinnar og þann mismun sem sannanlega hafi verið greiddur umfram raunverulegt kaupverð.

Á haustmánuðum 2010, þegar bróðir stefnanda hafi loks fengið afhentan reikning vegna viðskiptanna, hafi komið í ljós að kaupverð bifreiðarinnar hafi verið 380.913 EUR en ekki 383.712 EUR, eins og greitt hefði verið. Mismunur að fjárhæð 2.799 EUR sé óútskýrður og sé því gerð krafa um greiðslu á þeim mismun. Stefnandi byggir á því að kostnaðar að fjárhæð 75.913 EUR, sem tilgreindur sé á kreditreikningi frá 1. nóvember 2007, sé óútskýrður og sé þeim kostnaði mótmælt sem og skuldajöfnuði við kröfur ótengds aðila, auk greiðslu dráttarvaxta af kröfu Tollstjóra og lögfræðikostnaðar, enda hafi stefnandi hvorki óskað eftir þeirri vinnu, sem þar sé tilgreind, né hafi verið um hana samið sérstaklega, hvað þá um greiðslu sölulauna, enda hafi stefndi verið seljandi bifreiðarinnar til þriðja aðila en ekki stefnandi. Stefndi sé sérfræðingur í umræddum viðskiptum og hefði honum verið hægðarleikur að afla sér sannana og samþykkis stefnanda fyrir þeim kostnaðarliðum, sem tilgreindir séu, en ekkert slíkt hafi verið gert og beri stefndi hallann af því.

Sökum þess hversu erfiðlega hafi gengið að afla gagna um viðskipti aðila og framkvæmd þeirra, hafi stefnandi staðið í þeirri trú að hún hefði selt bifreiðina til þriðja aðila að fjárhæð 370.000 EUR, líkt og fram komi í bréfi lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda, dagsettu 16. desember 2011. Hafi stefnandi staðið í þeirri trú að um milligöngu stefnda hefði verið að ræða og það án kostnaðar fyrir hana en ekki hafi átt að koma til greiðsla sölulauna, enda hefði ekki verið um það samið vegna mistaka stefnda við söluna. Annað hefði hins vegar komið á daginn, líkt og skrifleg gögn málsins beri með sér. Ekki hafi verið unnt að átta sig á málsatvikum fyrr en 18. janúar 2012 þegar stefnandi fékk afhent gögn um málið.

Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglum kröfuréttarins um endurgreiðslur við riftun samninga, enda eigi greiðslur sem inntar hafa verið af hendi að ganga til baka en óumdeilt sé að stefndi hafi fengið bifreiðina til baka athugasemdalaust. Þá byggist krafa stefnanda á reglum um endurgreiðslur á ofgreiddu fé. Til frádráttar komi greiðsla að fjárhæð 100.000 EUR sem stefndi hafi greitt stefnanda vegna viðskiptanna hinn 4. mars 2008. Þá miðast endanleg kröfugerð stefnanda við að til viðbótar hafi verið greiddar inn á skuldina 64.995 EUR. Skuld stefnda við stefnanda nemi því samkvæmt endanlegri kröfugerð stefnanda 218.717 EUR auk vaxta, enda hafi stefnda borið að endurgreiða kaupanda strax við riftun kaupanna og í síðasta lagi við útgáfu kreditreiknings vegna viðskiptanna.

Stefnandi vísar jafnframt til þess að stefndi sé umboðsaðili Porsche bifreiða á Íslandi og sé þannig sérfræðingur í bílaviðskiptum og inn- og útflutningi bifreiða. Stefnandi sé hins vegar neytandi í skilningi laga um neytendavernd og hafi takmarkaða þekkingu og reynslu í bílaviðskiptum. Stefnandi hafi treyst stefnda í einu og öllu í viðskiptum þeirra.

Stefnandi kveður umrædda skuld ekki hafa fengist greidda, þrátt fyrir innheimtutilraunir, og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttarins um efndir og greiðslu fjárskuldbindinga, m.a. reglna um endurgreiðslu og skil við riftun, ásamt greiðslu vaxta, en reglur þessar fái m.a. lagastoð í lögum nr. 50/2000, einkum IX. kafla og 71. gr. og í lögum nr. 48/2003, einkum X. kafla. Þá vísar hann til almennra reglna um skuldbindingargildi samninga og reglur samningalaga nr. 7/1936. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og varakröfu um vexti styður stefnandi við II. kafla laganna. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt er reist á lögum nr. 50/1988. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991. Þá er byggt á lögum nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, einkum 6., 7., og 11. gr. laganna, og lögum nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, einkum 14. gr.

III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að kröfur stefnanda séu fyrndar, að um sé að ræða aðildarskort og að stefnandi eigi engar kröfur á hendur stefnda.

Stefndi vísar til þess að samkvæmt málatilbúnaði stefnanda hafi viðskiptum aðila verið slitið með riftun í september 2006 og byggist stefnukröfurnar á því að stefnda hafi borið að endurgreiða andvirði bifreiðarinnar á því tímamarki en ekki gert. Samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, fyrnist kröfur vegna sölu eða afhendingar á lausafé á fjórum árum frá því að viðskipti áttu sér stað. Óumdeilt sé að um þetta atriði gildi ofangreind lög, sbr. ákvæði 28. gr. laga 150/2007. Stefnandi hafi ekki sýnt neina tilburði til að halda kröfu sinni til streitu né hreyft andmælum gegn þeim viðskiptum, sem rakin eru í stefnu, fyrr en með bréfi lögmanns hinn 21. nóvember 2011. Hafi stefnandi því einhvern tíma átt kröfu á hendur stefnda, sem sé af hálfu stefnda harðlega mótmælt, sé ljóst, að sú krafa hafi fyrir löngu verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað hinn 1. mars 2012. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á framangreint, byggir stefndi á því að hann eigi ekki aðild að máli þessu. Af gögnum málsins sé ljóst að stefnandi átti aldrei nein samskipti við stefnda, hvorki á þeim tíma sem til hinna umdeildu viðskipta var stofnað né síðar, heldur hafi öll samskipti farið fram í gegnum bróður stefnanda, Helga Má Björnsson. Með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda verði því að líta svo á að Helgi Már hafi þá komið fram gagnvart stefnda sem umboðsmaður stefnanda. Af hálfu stefnanda sé ekki á því byggt, að umboðsmaður hennar hafi farið út fyrir umboð sitt eða gert eitthvað það, sem honum hafi verið óheimilt samkvæmt umboðinu. Þá hafi heldur aldrei verið beint til stefnda yfirlýsingu eða tilkynningu frá stefnanda um umboðsskort Helga Más Björnssonar. Fyrir liggi að öll samskipti vegna umræddra viðskipta fóru fram við Helga Má, umboðsmann stefnanda, og að viðskiptunum var lokið með fullri vitneskju og vilja hans. Telji stefnandi að hann eigi vangreidda kröfu vegna margnefndra viðskipta, varði það mál samskipti umboðsmanns og umbjóðanda en komi stefnda ekki við. Hafi enda öllum samskiptum stefnda við umboðsmanninn verið fyrir löngu lokið og að fullu uppgerð. Þá vísar stefndi til þess að þótt ekki verði fallist á að krafa stefnanda sé fyrnd, sé réttur stefnanda til að bera kröfuna fyrir sig fyrir löngu fallinn niður vegna tómlætis.

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að viðskipti aðila séu að fullu og öllu uppgerð og að stefnandi eigi engar kröfur á hendur sér. Eins og ráða megi af gögnum málsins hafi öll samskipti vegna hinna umþrættu kaupa verið milli stefnda og bróður stefnanda, Helga Más Björnssonar. Stefnandi hafi hvergi komið nærri viðskiptunum og megi telja fullvíst að aðild stefnanda hafi frá upphafi verið til málamynda en hún hafi ekkert lagt til kaupanna.

Stefnandi kveður Helga Má, bróður stefnanda, hafa verið upplýstan um allan gang mála, auk þess sem hann hafi verið hafður með í ráðum við sölu á bifreiðinni til útlanda, í kjölfar þess að tollstjóri stöðvaði notkun hennar í júlímánuði 2006. Honum hafi verið fullkunnugt um að aðflutningsgjöld myndu falla á bifreiðina og að stefndi myndi undir engum kringumstæðum standa straum af greiðslu þeirra. Því til áréttingar hafi verið gengið frá sérstöku samkomulagi, sem undirritað sé af Helga Má fyrir sína hönd og stefnanda, auk þess sem Helgi Már hafi undirritað skuldabréf til tryggingar greiðslu á vörugjöldum kæmi til greiðslu þeirra. Allur tilkostnaður og málarekstur gagnvart tollayfirvöldum og umboðsmanni Alþingis hafi verið með vitneskju og vilja Helga Más og í þeim tilgangi gerður að freista þess að fá ákvörðun tollstjóra hnekkt og aðflutningsgjöld af bifreiðinni felld niður sem hefðu að öðrum kosti lent á stefnanda. Stefndi hafi haldið eftir af þeirri greiðslu, sem barst honum fyrir sölu á bifreiðinni í október 2007, nægilega miklu fé til að mæta þeim kostnaði ef til kæmi en á meðan á deilu við tollayfirvöld hafi staðið, hafi allar inneignir sem féllu til stefnda hjá skattyfirvöldum verið teknar upp í kröfu tollstjórans. Hafi því verið hafnað að fella niður aðflutningsgjöldin og hafi þau ásamt áföllnum dráttarvöxtum í kjölfarið verið gerð upp af því fé sem stefndi hefði haldið eftir af margnefndri greiðslu í fullu samráði við Helga Má.

Helgi Már hefði, áður en til þessara viðskipta kom, verið í þó nokkrum viðskiptum við stefnda og hafi verið í skuld við hann. Þegar hann hafi leitað eftir því seint á árinu 2010 að fá upplýsingar um ráðstöfun greiðslna vegna sölu á bifreiðinni ST-133 til útlanda, hafi honum verið afhent bréf þar sem gerð hefði verið grein fyrir framvindu og þróun málsins ásamt tillögu að uppgjör þar sem stefndi hefði boðist til að taka á sig helminginn af hinum áföllnu dráttarvöxtum. Hvorki hafi komið athugasemdir frá stefnanda né Helga Má við framlagða tillögu, né hefði Helgi Már gert kröfu um að mismunur sá, sem þar er getið, yrði greiddur honum, enda önnur og eldri viðskipti milli hans og stefnda óuppgerð. Stefndi hafi þannig að fullu og öllu staðið við allar sínar skyldur gagnvart stefnanda og/eða bróður hennar og mótmæli því harðlega þessum tilhæfulausa málatilbúnaði á hendur sér. Beri því að sýkna stefnda.

Verði ekki fallist á framangreind rök stefnda og honum gert að greiða stefnanda hina umkröfðu fjárhæð, krefst stefndi þess að honum verði heimilt að skuldajafna kröfu að upphæð 25.547.246 krónur á móti kröfu stefnanda, að svo miklu leyti sem til þurfi.

Kröfu sína um skuldajöfnun byggir stefndi á því, að stefnandi hafi frá upphafi verið ábyrgur fyrir greiðslu bæði virðisaukaskatts og vörugjalda af bifreiðinni, enda hafi hann verið innflytjandi bifreiðarinnar, eins og skýrt komi fram í bréfi tollstjóra frá 28. september 2006. Stefnandi hafi með grófum hætti brotið gegn skilyrðum tollalaga fyrir tímabundnum tollfrjálsum innflutningi bifreiða sem leitt hafi til þess að komin var fram krafa tollstjóra um að stefnandi greiddi þá þegar margnefnd aðflutningsgjöld eða flytti bifreiðina annars strax úr landi. Þessum upplýsingum hafi stefnandi eða umboðsmaður hennar alfarið haldið leyndum fyrir stefnda þegar hann samþykkti að aðstoða stefnanda og/eða bróður hennar við að selja bifreiðina úr landi. Hefði stefndi vitað hið rétta í málinu, hefði hann brugðist með allt öðrum hætti við ósk stefnanda og m.a. aldrei lagt inn aðflutningsskjöl eins og gert hafi verið í nóvember 2006. Alltaf hafi legið fyrir að stefndi myndi ekki greiða margnefnd gjöld, sbr. m.a. samkomulag aðila frá 14. nóvember 2006, og hafi stefnandi verið að öllu leyti meðvitaður um þá afstöðu stefnda. Fari svo að stefnda verði engu að síður gert að greiða stefnanda stefnukröfuna, bæði auðgist stefnandi með óréttmætum hætti á broti gegn tollalögum og um leið sé stefnda valdið tjóni sem nemi margnefndum gjöldum og eigi hann tvímælalaust rétt á að fá það bætt. Gagnkrafan feli í sér vörugjöld að fjárhæð 14.276.404 krónur og virðisaukaskatt að fjárhæð 11.270.727 krónur, eða samtals 25.547.276 krónur. Sé fjárhæð þessi færð yfir í evrur með sömu forsendum og að framan er rakið og miðað við þann dag sem gjöldin eru stofnuð á genginu 87,22 IKR/EUR nemi fjárhæðin samtals 292.901 EUR.

Til viðbótar vísar stefndi m.a. til ákvæða 47. gr. laga 50/2000, um lausafjárkaup, svo og meginreglna kröfuréttarins um ábyrgð á fjárskuldbindingum og uppgjör krafna. Þá vísar stefndi um málskostnað til 130. gr., sbr. 129 gr., laga nr. 91/1991, sbr. til hliðsjónar ákvæði 1. mgr. 131. gr. sömu laga.

IV.

Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn til skýrslugjafar stefnandi málsins og Benedikt Eyjólfsson, eigandi og framkvæmdastjóri stefnda, og vitnin Helgi Már Björnsson, bróðir stefnanda, Kristinn Valtýsson, fyrrverandi starfsmaður stefnda, og Haraldur Haraldsson, aðalbókari hjá stefnda. Verða skýrslur þeirra raktar eins og þurfa þykir.

Í stefnu segir að stefnandi byggi kröfur sínar á því að stefndi hafi annað hvort rift kaupum á bifreiðinni ST-133 og/eða að kaupin hafi gengið til baka og því beri stefnda að endurgreiða stefnanda kaupverð bifreiðarinnar. Vísar stefnandi kröfum sínum til stuðnings til meginreglna kröfuréttar um endurgreiðslur við riftun samninga, enda eigi greiðslur, sem inntar hafi verið af hendi, að ganga til baka þegar rift er. Þá byggir stefnandi einnig á reglum um endurgreiðslu á ofgreiddu fé.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á þremur málsástæðum, þ.e. fyrningu, aðildarskorti og því að umrædd krafa hafi verið greidd að fullu. Verður fyrst leyst úr því hvort sýkna beri vegna aðildarskorts svo sem stefndi heldur fram í greinargerð sinni.

Fyrir liggur að samkvæmt framlagðri útprentun úr ökutækjaskrá Umferðarstofu var nafn stefnanda skráð sem aðaleigandi umræddrar bifreiðar frá 19. maí 2006. Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og kvað hún Helga Má Björnsson, bróður sinn, hafa verið kaupanda að bifreiðinni ST-133. Hefði Helgi Már fjármagnað bifreiðakaupin og verið eigandi bifreiðarinnar en sjálf hefði hún enga fjármuni látið af hendi rakna vegna kaupanna. Hins vegar kvaðst hún hafa samþykkt að vera skráð sem kaupandi bifreiðarinnar án þess að hún myndi hvers vegna það hefði verið gert, en taldi þó, sérstaklega aðspurð, að verið gæti að tilgangurinn hefði verið sá að gera Helga Má kleift að fá akstursleyfi fyrir bifreiðina hér á landi.  

Vitnið, Helgi Már Björnsson, kvaðst hafa haft augastað á umræddri bifreið og því hefði hann leitað til Benedikts Eyjólfssonar, framkvæmdastjóra og eiganda stefnda, og látið hann vita af áhuga sínum. Honum hefði hins vegar þótt verð bifreiðarinnar of hátt og hefði Benedikt þá bent vitninu á að hægt væri að komast hjá því að greiða aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af bifreiðinni í eitt ár ef kaupandinn væri með erlendan ríkisborgararétt. Hefði því verið ákveðið að fara þessa leið við kaupin og í kjölfarið hefði stefnandi verið fengin til að vera skráð sem kaupandi að bifreiðinni. Kvaðst vitnið sjálfur hafa ætlað að nota bifreiðina hér á landi í um það bil eitt ár og hugsa svo málið upp á nýtt. Sérstaklega aðspurður um það, hver hefði verið kaupandi bifreiðarinnar í maí 2006, sagði vitnið að það mætti segja að þau systkinin hefðu verið „sameiginlegir kaupendur að þessum bíl.“ Hann kvaðst þó einn hafa greitt kaupverðið og hefði stefnandi því ekki orðið fyrir fjárhagslegum útlátum af viðskiptunum.

Í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnda, Benedikts Eyjólfssonar, kom fram að kaupandi bifreiðarinnar hefði verið Helgi Már Björnsson, bróðir stefnanda, en stefnandi hefði sjálf ekki komið nálægt viðskiptunum. Ástæða þess að stefnandi var skráð kaupandi á framlögðum reikningi vegna viðskiptanna, hefði verið sú að þar sem hún væri búsett erlendis, væri mögulegt að fá undanþágu frá greiðslu tolla af bifreiðinni.

Af framangreindu sýnist ljóst að aðkoma stefnanda að umræddum bifreiðaviðskiptum var einungis sú að nafn hennar væri skráð sem kaupandi bifreiðarinnar í þeim tilgangi að fá undanþágu frá greiðslu tolla af henni. Hins vegar hafi hún í raun ekki verið aðili að viðskiptunum, sem ágreiningur máls þessa lýtur að, og aldrei innt af hendi fjármuni vegna þeirra. Verður því ekki séð að stefnandi sé réttur aðili að stefnukröfunni sem samkvæmt stefnu er krafa um endurgreiðslu á kaupverði umræddrar bifreiðar. Verður því, þegar af þeirri ástæðu, með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að fallast á sýknukröfu stefnda í máli þessu vegna aðildarskorts.

Eftir þessum úrslitum verður stefnanda gert að greiða stefnda 525.000 krónur í málskostnað.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Bílabúð Benna ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Svövu Söndru Björnsdóttur, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 525.000 krónur í málskostnað.