Hæstiréttur íslands

Mál nr. 49/2009


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Húsbrot
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. júní 2009.

Nr. 49/2009.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Marcin Labuhn

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

Robert Kulaga og

(Hilmar Ingimundarson hrl.

 Þórdís Bjarnadóttir hdl.)

Tomasz Roch Dambski

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

 

Líkamsárás. Húsbrot. Skaðabætur.

M, R og T voru ákærðir fyrir húsbrot og sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, í félagi við óþekkta karlmenn, ruðst í heimildarleysi inn í íbúðarhús og veist þar að sjö mönnum og slegið þá ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkama með hættulegum vopnum og bareflum. Ákærðu neituðu sök og báru við minnisleysi vegna ölvunar. Talið var sannað að ákærðu hefðu verið í því liði sem ruddist inn í íbúðarhúsið og barði á þeim sem þar voru fyrir. Töldust mennirnir allir hafa staðið saman að því að ryðjast inn í húsnæðið og ráðast þar á þá sem fyrir voru. Báru þeir því fulla refsiábyrgð á húsbrotinu og líkamsárásinni á alla mennina sjö enda þótt þeir hafi ekki allir orðið sannir að tilteknum áverkum við einstaka menn. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að M, R og T voru í hópi manna sem tókst á hendur ferð til þess beinlínis að ráðast á þá sem voru í íbúðarhúsinu með hættuleg vopn sem þeir beittu miskunnarlaus á varnalausa menn. Þá hlutu þrír af mönnunum beinbrot, þar á meðal hlaut einn þeirra lífshættulega áverka. Var refsing M, R og T hvers um sig ákveðin fangelsi í 2 ½ ár. Þá voru þeir dæmdir til að greiða sameiginlega miskabætur til brotaþola sem ákveðnar voru 300.000 krónur til fimm þeirra en 700.000 krónur til þess sem verst var leikinn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd og þeir dæmdir til greiðslu skaðabóta og nánar tilgreindra vaxta eins og í ákæru greinir til Bartosz Szyca, Grzegorz Adam Pelczar, Marcin Wasiluk, Pawel Tomaszewski, Piotr Wladyslaw Sierakowski og Zygmunt Klinkosz.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá krefjast þeir aðallega að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar. Auk þess krefst ákærði Marcin Labuhn að honum verði aðeins gert að greiða bætur til þeirra sem sannað telst að hann hafi valdið tjóni og þá óskipt með öðrum ákærðu sem einnig verði dæmdir vegna brota gegn sömu brotaþolum.

Þar sem héraðsdómi var áfrýjað eftir gildistöku laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fer um áfrýjun og meðferð málsins fyrir Hæstarétti eftir þeim. Samkvæmt 3. mgr. 196. gr. laganna er heimild til að leita endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um einkaréttarkröfu ekki í höndum ákæruvalds heldur í höndum ákærða og þess sem gert hefur kröfuna. Ríkissaksóknari lét birta áfrýjunarstefnu fyrir brotaþolum í samræmi við 4. mgr. 201. gr. sömu laga og gaf þeim kost á að bera fram ósk um réttargæslumann. Þeir hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og er því litið svo á að þeir krefjist staðfestingar ákvæða héraðsdóms um bætur.

I

Við aðalmeðferð málsins í héraði bar sjónarvottur, sem staddur var á svölum hússins nr. 10 við Austurberg í Reykjavík laugardaginn 22. mars 2008, að þremur bílum hafi verið ekið að húsinu og lagt á bifreiðastæði, þar sem stutt var að fara yfir að húsi að Keilufelli 35. Úr þeim hafi stigið sex til átta menn, sem hafi tekið ýmislegt úr farangursrými eins bílsins, meðal annars golfkylfu, og síðan gengið eftir göngustíg á milli húsanna og horfið sjónum, en bílstjórar orðið eftir. Tíu til fimmtán mínútum seinna hafi allir bílarnir verið horfnir.

Samkvæmt gögnum málsins voru á þessum tíma átta pólskir karlmenn staddir í stofu á neðri hæð hússins að Keilufelli 35. Skyndilega hafi hópur Pólverja ráðist inn og veist að þeim, meðal annars með því að beita bareflum, eins og lýst er í héraðsdómi. Eftir atlöguna, sem staðið hafi í um það bil 15 mínútur, hafi árásarmennirnir hlaupið vestur fyrir húsið og í bíla, sem þeir höfðu lagt við Austurberg. Lögregla fékk skráningarnúmer eins bílsins og var sá stöðvaður á suðurleið á Reykjanesbraut skömmu síðar. Þar voru ákærðu farþegar og fundust barefli í farangursgeymslu. Auk þeirra var síðar handtekinn Tomasz Krzysztof Jagiela, sem einnig var ákærður og hlaut dóm í héraði, sem hann unir.

Í héraðsdómi er skilmerkilega lýst áverkum þeirra er fyrir árásinni urðu. Einn þeirra, Zygmunt Klinkosz, var mjög illa leikinn, en fram er komið að hann hafi legið sofandi í rúmi í stofunni þegar atlagan hófst og hafi árásarmennirnir skipst á um að ráðast að honum. Blóðsýni voru tekin til DNA greiningar úr þeim, sem fyrir árás urðu, og fatnaði ákærðu. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar, sem lögð var fram í héraði, fannst meðal annars blóð með DNA sniði Zygmunt Klinkosz í fatnaði allra ákærðu. Við úrlausn málsins leit héraðsdómur fram hjá þessum sönnunargögnum þar sem hann taldi óvissu ríkja „um uppruna, meðhöndlun og merkingar“ á fatnaði ákærðu. Af hálfu ákæruvaldsins hefur þessu verið andmælt, enda hafi ákærðu ekki dregið í efa að um hafi verið að ræða fatnað sem þeir voru í við handtöku. Fallast verður á þessi andmæli, þar sem ekki verður séð að efni hafi verið til að víkja þessari rannsókn til hliðar eins og gert var, og verður á henni byggt við úrlausn málsins.

Í niðurstöðu héraðsdóms er rakið efni lögregluskýrslu um myndsakbendingu 5. apríl 2008, þar sem brotaþolinn Piotr Wladyslaw Sierakowski bar kennsl á myndir úr safni lögreglu af þremur mönnum, sem hann kvað hafa komið inn húsið og hafið barsmíðar, en það voru ákærðu Marcin Labuhn og Tomasz Roch Dambski, auk Tomasz Krzysztof Jagiela. Þrír verjendur sakborninga hafi verið viðstaddir og lögreglumaður sá sem annaðist hana komið fyrir dóm og staðfest skýrsluna. Í bókun í lok þinghalds í héraði 27. október 2008 segir: „Af hálfu ákærðu eru ekki bornar brigður á það að ljósmyndir sem sagðar eru hafa verið teknar á vettvangi og munum sem að hald var lagt á séu máli þessu viðkomandi. Það sama á við um uppdrætti sem eru í málinu og ljósmyndir af ákærðu og þau gögn sem varða sakbendingar í málinu. Ekkert af þessu sé véfengt.“ Samkvæmt þessu voru ekki bornar brigður á ofangreinda myndsakbendingu. Gat héraðsdómur þegar af þeirri ástæðu byggt á skýrslu um hana og gerðist ekki þörf að vísa um þetta til heimildar í 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Í málinu liggur fyrir að einn húsráðenda að Keilufelli 35 hafi í lögregluskýrslu vegna árásarinnar borið fram kæru um húsbrot. Verður því ekki fallist á með ákærðu að skilyrði hafi brostið til saksóknar fyrir brot gegn 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu, heimfærslu brota til refsiákvæða, refsingu ákærðu og sakarkostnað.

II

Svo sem fyrr segir hafa ákærðu krafist lækkunar á kröfum brotaþola, sem krafist hafa miskabóta úr hendi þeirra. Engin gögn hafa verið lögð fram um afleiðingar meiðsla brotaþolanna, sem voru margvísleg eins og í héraðsdómi greinir. Að öllu virtu eru miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur til hvers þeirra að frátöldu því að í hlut brotaþolans Zygmunt Klinkosz komi 700.000 krónur, en um vexti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Brotaþolar aðrir en Zygmunt Klinkosz kröfðust auk þess bóta fyrir lögfræðikostnað og var sú krafa tekin til greina í héraði. Sá þáttur í kröfum þeirra getur ekki komið til álita, enda var þessum brotaþolum skipaður réttargæslumaður í héraði og honum dæmd þóknun vegna starfa sinna sem lið í sakarkostnaði.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu, Marcin Labuhn, Robert Kulaga og Tomasz Roch Dambski, og sakarkostnað.

Ákærðu greiði óskipt Bartosz Szyca, Grzegorz Adam Pelczar, Marcin Wasiluk, Pawel Tomaszewski og Piotr Wladyslaw Sierakowski hverjum fyrir sig 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. mars 2008 til 11. maí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærðu óskipt Zygmunt Klinkoz 700.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2008 til 26. september sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu greiði hver um sig málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Jóhannesar Alberts Sævarssonar, Hilmars Ingimundarsonar og Sveins Andra Sveinssonar, 373.500 krónur til hvers. Ákærðu greiði sameignlega annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 214.426 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2008.

Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri  14. ágúst sl. á hendur fjórum pólskum ríkisborgurum, þeim ákærðu Marcin Labuhn, kt. 000000-0000, Gufunesi, Reykjavík, Robert Kulaga, kt. 000000-0000, Þórustíg 10, Reykjanesbæ, Tomasz Krysztof Jagiela, kt. 000000-0000, Ásabraut 14, Reykjanesbæ, og Tomasz Roch Dambski, kt. 000000-0000, Háteigsvegi 14, Reykjavík, fyrir húsbrot og sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa laugardaginn 22. mars 2008, í félagi við óþekkta karlmenn, ruðst í heimildarleysi inn í íbúðarhús við Keilufell 35 í Reykjavík og veist þar að Andrzej Piotr Wesolowski, Bartosz Szyca, Grzegorz Adam Pelczar, Marcin Wasiluk, Pawel Tomaszewski, Piotr Wladyslaw Sierakowski og Zygmunt Klinkosz, sem þar voru í stofu og slegið þá ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkama með hættulegum vopnum og bareflum, þ. á m. járnstöng, járnröri, hamri, sleggju, gaddakylfu, golfkylfu, hafnaboltakylfu, hnífi og öxi.

Meðal annars sló ákærði Tomasz Krzysztof Jagiela, með öxi eða hafnaboltakylfu, Marcin [Wasiluk] og Zygmunt Klinkosz í höfuð, ákærði Marcin Labuhn sló með barefli Andrzej Piotr Wesolowski, Piotr Waldyslaw Sierakowski og Zygmunt Klinkosz og ákærði Tomasz Roch Dambski sló með barefli Bartosz Szyca og Zygmunt Klinkosz.

Afleiðingar af árásinni urðu eftirfarandi:

Andrzej Piotr Wesolowski, kennitala 000000-0000, hlaut skurð á hnakka og mar yfir mjaðmarkamb.

Bartosz Szyca, kennitala 000000-0000, hlaut beinbrot á báðum höndum og útbreidda mjúkvefjaáverka.

Grzegorz Adam Pelczar, kennitala 000000-0000, hlaut skurð á höfði, opið sár á framhandlegg og yfirborðsáverka víðs vegar um líkamann.

Marcin Wasiluk, kennitala 000000-0000, hlaut tvo skurði aftan á hnakka og mar á handlegg.

Pawel Tomaszewski, kennitala 000000-0000, hlaut yfirborðsáverka víða um líkamann, mar á brjóstkassa og svöðusár á vinstra herðablaði.

Piotr Wladyslaw Sierakowski, kennitala 000000-0000, hlaut skurð, kúlu og yfirborðsáverka á höfði, brot á miðhandarbeini hægri handar og bólgur og mar á olnboga og hægri handlegg.

Zygmunt Klinkosz, kt. 000000-0000, hlaut nokkra skurði á höfði, þ. á m. 7 sm langan og djúpan skurð aftan á hnakka vinstra megin og annan 8 sm langan skurð í framhaldi af honum aftur fyrir á hnakka, bólgur í andlit, glóðaraugu, brotinn augnbotn og brotin andlitsbein, brot á vinstri handlegg, rifbrot og loftbrjóst.

Háttsemi ákærðu telst aðallega varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 231. gr. almennra hegningarlaga, en til vara, að undanskilinni háttsemi ákærða Tomasz Krzysztof Jagiela, við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga sbr. 1. mgr. 22. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Einkaréttarkröfur á hendur ákærðu:

Grzegorz Adam Pelczar, Piotr Wladyslaw Sierakowski og Bartosz Szyca, krefjast hver fyrir sig skaðabóta að fjárhæð krónur 1.368.075, og Pawel Tomaszewski og Marcin Wasiluk krefjast hvor fyrir sig skaðabóta að fjárhæð krónur 1.168.075. Í öllum tilvikum er krafist vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2008, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Zygmunt Klinkosz krefst miskabóta að fjárhæð kr. 3.500.000,  auk vaxta skv. 8. gr. sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 22. mars 2008  til þess dags er mánuður er liðinn frá því að krafan er kynnt ákærðu en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags auk greiðslu þóknunar við réttargæslu að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.

Nafnið Labuhn misritaðist fyrir nafnið Wasiluk í 2. mgr. verknaðarlýsingar í ákærunni.  Hefur sækjandinn leiðrétt þá misritun með bókun í þingbók.

Af hálfu ákærðu er krafist sýknu en til vara að refsingin verði svo væg sem lög framast leyfa.  Þá er þess krafist að bótaköfunum í málinu verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar til muna.  Loks er þess krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði.

Málavextir

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var það kl. 16.09, laugardaginn 22. mars sl., að maður að nafni Jóhann hringdi til lögreglu og tilkynnti um það að slagsmál væru við húsið Keilufell 35 í Reykjavík.  Væri þar staddur hópur manna vopnaður bareflum.  Þegar lögreglan kom á vettvang var þar fyrir maður að nafni Damian sem á heima í bílskúr við hús þetta.  Sagði hann hóp Pólverja hafa komið að húsinu og spurt hvort þar byggju Pólverjar.  Þegar þeim var sagt að svo væri hefðu þeir tekið fram barefli og ruðst inn í húsið.  Hefðu orðið mikil átök þessara manna við þá sem í húsinu voru.  Kvað Damian mennina hafa lagt á flótta þegar hann hrópaði að þeim að hann væri búinn að kalla á lögregluna en þá hefði hluti af hópnum verið kominn aftur út úr húsinu.  Hefðu þeir hlaupið vestur fyrir húsið og í tvo bíla sem þeir höfðu lagt við fjölbýlishús í Austurbergi.  Í skýrslu þessari segir ennfremur að húsmunir í Keilufelli 35 hefðu verið brotnir eða á víð og dreif um húsið.  Í húsinu hefðu verið 10 pólskir karlmenn og sjö þeirra, sem hefðu verið á neðri hæð hússins hefðu verið með áverka en þrír karlar hefðu verið sofandi á efri hæðinni, drukknir mjög.  Einn þeirra sem niðri voru, Marcin að nafni, hefði sagt að þeir sjö hefðu setið að drykkju og skyndilega heyrt mikinn fyrirgang og séð hóp manna, 10 eða 12 talsins, ryðjast inn á þá.  Væru menn þessir úr Keflavík og tengdust bruggmáli þar.  Kvað hann menn þessa ætla af landi brott 2. apríl nk.  Hefðu þeir verið með kylfur, járnrör, öxi og önnur barefli og látið bareflin ganga á öllum þeim sem fyrir voru.  Eftir það hefðu þeir snúið sér að því að skemma húsmuni þarna.   Jóhann, sá sem fyrr var nefndur, sagði að 10 til 12 manns hefðu komið að Keilufelli 35 í tveimur bílum og haft með sér barefli, járnrör, slaghamar, og sleggju.  Hefðu þeir farið inn í húsið og mikill hávaði orðið við það.  Kvaðst hann svo hafa séð mann hlaupa blóðugan í andliti um garðinn við húsið nr. 15.  Hefðu árásarmennirnir svo farið á brott með vopn sín í bílunum, hvítum Nissan Micra og gráum bíl, líklega af gerðinni Hyundai, með númerið  EA-658.

Í skýrslunni segir að mennirnir hefðu verið með margvíslega áverka og voru sex þeirra fluttir á slysadeild með lögreglu- og sjúkrabílum en einn þeirra kom sér þangað sjálfur.

Hvorki Jóhann né Damian, sem nefndir eru í skýrslunni, hafa verið yfirheyrðir í málinu.    

Samkvæmt læknisvottorði Más Kristjánssonar var Andrzej Piotr Wesolowski með ca 1 cm langan skurð á hnakka.  Þá var hann með mar og roða yfir mjaðmarkambinn vinstra megin og fann hann þar til eymsla. 

Samkvæmt læknisvottorði Más Kristjánssonar var Bartosz Szyca með opið beinbrot á miðhandarbeini II á vinstri hendi og lítilsháttar afrifubrot á fjarenda ulnar, hægra megin.  Einnig var hann með mjúkvefjaþykknun á vinstri fótlegg neðan við hné og ofanvert á læri hægra megin.

Samkvæmt læknisvottorði Más Kristjánssonar var Grzegorz Adam Pelczar með ca 4 cm skurð á höfði, ögn tættan. Á vinstri framhandlegg og vinstra læri, nær búk, var áberandi far sem myndaði munstur og var það talið vera eftir barefli.  Í farinu voru strik með um það bil eins cm bili og gæti verið um rör að ræða.  Þá var hann með eymsl á úlnlið og talsverða bólgu þar og roða.  Á hægri framhandlegg og handarbaki voru smá sár. Á vinstra læri, nær búk, var sams konar far og á vinstra framhandlegg, þ. e. striklaga far um 15  cm langt með þverstrikum á 1 cm bili.  Þá fann hann til eymsla á vinstra hné og var roði þar yfir hnéskelinni.

Samkvæmt læknisvottorði Más Kristjánssonar var Marcin Wasiluk með tvo 5 cm skurði á hnakka, sem lágu hornrétt hvor á annan. Þá var hann með smávegis mjúkvefjaáverka á hægri framhandlegg.  Þurfti að sauma hvorn skurð um sig með 5 – 6 sporum.

Samkvæmt læknisvottorði Más Kristjánssonar var Pawel Tomaszewski með yfirborðsáverka á vinstri fótlegg frá hné og niður undir ökla. Einnig var hann með mjúkvefjaáverka á vinstra framhandlegg utanvert.  Bentu  áverkarnir til þess að maðurinn hefði borið fyrir sig handlegg og fótlegg.  Á brjóstholi var roði og mar djúpt í vefjum og í kringum vinstra herðablað var svöðusár. Þá var mjúkvefssáverki vinstra megin á gagnauga sem náði yfir á nefbrú.

Samkvæmt læknisvottorði Más Kristjánssonar var Piotr Wladyslaw Sierakowski bólginn og aumur á hægra handarbaki og bólginn og marinn yfir öllum hægri framhandlegg, sérstaklega nær búknum. Þá var hann aumur um olnbogann.  Brot var á miðhandabeini, mikil eymsli yfir miðjum framhandlegg og olnboga. Þar var hann bólginn og marinn.  Hann var með kúlu á hægra gagnauga og grunnan skurð í miðri kúlunni. 

Samkvæmt pólsku læknisvottorði frá 22. október sl. hefur Piotr Wladyslaw verið í meðferð á göngudeild geðsjúkrahús vegna geðklofa frá 25. ágúst sl. Er hann óvinnufær af þessu sökum og þarf auk þess að vera í umsjá annarra.

Samkvæmt staðfestu læknisvottorði Guðmundar Gunnarssonar, var Zygmunt Klinkosz ekki með fulla meðvitund þegar hann kom á slysadeildina.  Hann var með 7-8 cm langan, djúpan skurð aftan til vinstra megin á hnakka og við tók álíka langur  skurður aftur á hnakka þannig að þetta myndaði V-laga skurð.  Annan minni skurð hafði hann hægra megin, um 2 cm fyrir ofan augabrún.  Þá var enn einn 3 cm langur skurður vinstra megin um 2 cm frá hárlínu.  Hann fann til eymsla yfir nefi og var mjög bólginn í andliti og með glóðaraugu á báðum augum.  Einnig fann hann til eymsla yfir andlitsbeinum.  Þá voru á honum fjölmargir marblettir, m.a. vinstra megin á framhandlegg og ofarlega, vinstra megin á brjóstkassa.  Loks var hann bæði bólginn og marinn á hægri upphandlegg.  Í ljós kom að hann var með brot í augnbotni vinstra megin, einnig með brot í sinus maxillaris (kinnkjálkaholu) og os maxillaris (efri kjálka) vinstra megin.  Framhaldleggsbrot um ulnu (olnbogabein) vinstra megin, dæmigerðan varnaráverka, og einnig með loftbrjóst og rifbrot vinstra megin.

Gerð hefur verið rannsókn á því hvernig farsímar ákærðu og Zilvinasar Balkeviciusar tengdust umræddan laugardag.  Hefur hún leitt í ljós að Tomasz Krysztof og Marcin hringdu hvor í síma hins einu sinni þennan morgun og að Tomasz Roch hringdi tvisvar í síma Tomaszar Krysztofs um morguninn án þess að vera svarað.  Síðar um daginn, frá klukkan 14.22 til klukkan rúmlega 16 voru þessir símar 12 sinnum í sambandi eða reynt að hringja þá saman, bæði fyrir og eftir atburðinn í Keilufelli.  Þá hefur komið í ljós að úr síma Roberts Kulaga var hringt einu sinni í síma Marcins fyrir hádegi og fjórum sinnum í síma Zilvinasar frá kl. 11.50 og 14.15.  Loks er þess að geta að komið er í ljós að margsinnis var hringt úr síma Tomaszar Krysztofs í síma meðákærðu og Zilvinasar eftir að þeir höfðu verið handteknir.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er húsið Keilufell 35 tvílyft, portbyggt og gulmálað timburhús, samtals 146,8 fermetrar að stærð og fylgir húsinu 45 fermetra bílskúr.  Var hvort tveggja leigt út til pólskra verkamanna.  Á jarðhæð er stofa og þar var svefnpláss fyrir fjóra.  Þar er auk þess eldhús, snyrting og þvottahús og íveruherbergi.  Anddyri er á öðrum húsgaflinum þaðan sem gengið er inn á gang og af gangi þessum inn í stofuna.  Þá eru einnig útidyr á þvottahúsinu.  Á hinum húsgaflinum eru dyr út í garð úr stofunni.  Á efri hæðinni var svefnpláss fyrir þrjá menn.  Gögnin bera það með sér að á neðri hæðinni hafa orðið átök.  Rúða í útihurð þvottahúss var brotin og virtist hafa verið brotin utan frá.  Húsmunir voru í mikilli óreiðu og talsvert blóð var á veggjum, gólfi og tveimur rúmum.  Þá var að sjá að sjónvarp hefði verið brotið með því að slá í skjáinn af afli.  Á gólfi fannst brotin golfkylfa og á hausnum var blettur sem virtist vera blóð.  Margar ljósmyndir voru teknar á vettvangi og fylgja þær málinu.

Fyrir liggur að þennan sama dag, nokkru eftir atburðinn, eða kl. 17.00 stöðvuðu lögreglumenn bílinn EA-658 á Reykjanesbraut með fjórum mönnum sem grunaðir voru um að eiga hér hlut að máli.  Voru þar á ferð ákærðu Marcin, Robert og Tomasz Roch auk ökumannsins, Zilvinas Balkevicius, sem er Lithái.  Lögreglan lýsti svo eftir ákærða Tomaszi Krysztof og gaf hann sig fram 27. mars sl.  Ákærðu voru allir látnir sæta gæsluvarðhaldi í byrjun en síðan farbanni að undanskyldum Tomaszi Krysztof, sem enn situr í gæsluvarðhaldi.   Í bílnum sem lögreglan stöðvaði fundust m.a. tvær járnstangir, rúmlega 50 sm langar, og var önnur úr kambstáli (steypustyrktarjárni), vafin gráu límbandi en hin var bútur af járnröri.  Þá var þar einnig sleggja, rúmlega 80 cm að lengd.  Munir þessir voru ljósmyndaðir þar sem þeir lágu í farangursgeymlu bílsins daginn eftir.  Var blóðbletti að sjá á sleggjunni og járninu sem var vafið límbandinu.  Loks voru þarna tveir hnífar.  Húsleit var gerð heima hjá ákærða Tomaszi Krysztof í Hrannargötu 5 í Keflavík og var þar lagt hald á ýmsa muni og fatnað.

Guðjón Grétarsson læknir skoðaði ákærðu Tomas Roch Dambski,  Robert Kulaga og Marcin Labuhn eftir að þeir voru handteknir.  Samkvæmt skýrslum hans um þá skoðun fundust engir áverkar á þeim.   Ákærði, Tomas Roch mældist 169 cm á hæð og 84 kg að þyngd, ákærði Robert Kulaga 184 cm á hæð og 94 kg að þyngd og ákærði Marcin 191 cm á hæð og 79 kg að þyngd.

Fatnaður sem hald var lagt á var tekinn til rannsóknar. Tveir blóðblettir fundust í síðerma hettupeysu, sem í rannsókninni er sögð vera af ákærða Tomaszi Krysztof, og einnig var blóðblettur í flíspeysu sem í rannsókninni er sögð vera af honum.  Þá fannst dreift blóðkám á báðum ermum síðerma hettupeysu, sem í rannsókninni er sögð vera af ákærða Marcin.  Í síðerma hettupeysu, sem í rannsókninni er sögð vera af ákærða Tomaszi Roch, fannst blóðkám á annarri erminni og einnig margir kámblettir á henni innanverðri hægra megin.  Þá fannst stór blóðblettur á öðrum skó sem í rannsókninni er sagður af honum.  Loks fundust margir blóðblettir á báðum skálmum á íþróttabuxum sem einnig eru sagðar af honum.  Á hægri ermi á leðurjakka sem í rannsókninni er sagður vera af ákærða Robert fundust blóðblettir, bæði framan- og aftanvert á erminni.  Fram er komið í málinu, að fatnaður hvers hinna ákærðu hafi verið settur í bréfpoka og pokarnir merktir þeim sem við átti.  Þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan er ekki vitað hver eða hverjir lögðu hald á fatnaðinn eða skóinn og gengu frá þessum munum  og merktu þá.  Í málinu eru nokkrar skýrslur um haldlagða muni, fatnað og skó, dagsettar nokkrum dögum eftir að hald var lagt á þá, að ætla verður, og vísast ekki gerðar af þeim sem sem að því stóðu.  Að því er varðar fatnað sem talinn var tilheyra ákærða Marcin sérstaklega virðist auk þess vera um að ræða misræmi við gögn varðandi rannsókn á fatnaði hans.  Þá er það komið fram í málinu að þeir sem rannsökuðu munina tóku við þeim í munageymslu lögreglunnar í merktum bréfpokum.  Verður að telja að óvissa ríki um uppruna, meðhöndlun og merkingar þessara sönnunargagna áður en þau voru tekin til rannsóknar.  Þetta atriði hefur ekki verið skýrt frekar með vitnisburði fyrir dómi.  Eru því ekki efni til þess að gera hér frekari grein fyrir þeim.  

Blóðsýni sem tekin voru af kylfunni og sleggjunni, sem að ofan greinir, voru send til DNA-greiningar hjá Rettsmedisinsk Institutt við háskólann í Osló. Þá voru send til samanburðar blóðsýni úr sjö þerra sem fyrir meiðslum urðu í Keilufelli 35.  Samkvæmt niðurstöðu stofnunarinnar var DNA-snið í blóðsýnum bæði af kylfunni og af sleggjunni sams konar og DNA-snið blóðsýna úr þeim Piotr Wladyslaw Sierakowski og  Zygmunt Klinkosz.  Þá reyndist DNA-snið í blóðsýni af kylfunni vera sams konar og DNA-snið blóðsýnis úr Bartosz Szyca.  Tekið er fram í álitsgerð rannsóknarstofunnar varðandi samanburðarsýni frá Zygmunt Klinkosz að aðeins hafi þar komið fram níu af þeim tíu lyklum sem notaðir séu við greininguna.  Þrátt fyrir það sé það mat rannsóknarstofunnar að slíkt hafi ekki áhrif á niðurstöður um samkenningu vettvangssýna við samanburðarsýnið.

Meðal gagna í málinu er mynddiskur með hreyfimyndum úr eftirlitsmyndavélum í “pólsku búðinni”, sbr. hér á eftir.  Má þar m.a. sjá mann sem getur verið ákærði Tomasz Krysztof en ekki er unnt að slá því föstu þar sem myndirnar eru óskýrar.

Ákærði Marcin Labuhn var yfirheyrður hjá lögreglu 23. mars sl.  Hann færðist undan því að svara spurningum um málið vegna þess hve hann væri í miklu uppnámi.  Hann sagðist þó hafa ekið til Reykjavíkur með Litháanum, og þeim Robert og Tomaszi og hefðu þeir verið að drekka bjór.  Í skýrslu sem tekin var af honum 10. apríl sl. bar hann hins vegar við við minnisleysi vegna áfengisdrykkju.

Ákærði Robert Kulaga var yfirheyrður 23. mars sl. hann kvaðst hafa komið til Íslands í nóvember á síðasta ári.  Hann kvaðst hafa verið á ferð um Reykjavík í bíl daginn áður með vinum sínum, Litháanum, Tomaszi og Marcin.  Kvaðst hann hafa verið blindfullur og ekki muna eftir því að hafa lent í átökum í ferðinni.  Þá kvaðst hann ekki vita neitt um vopn þau sem honum var sagt að fundist hefðu í bílnum.  Í skýrslu sem tekin var af ákærða 9. apríl kvaðst hann auk áfengisáhrifa hafa verið undir áhrifum kannabisefna umræddan dag.  Nóttina áður hefði hann setið að drykkju og um morguninn hefði hann farið heim til ákærða Tomasz Roch. Þar hefðu verið menn að nafni Marcin og Grzegorz og kærasta þess síðarnefnda.  Hefði verið ákveðið að fara til Reykjavíkur í bíl ákærða sem Litháinn Zilvinas hefði verið fenginn til þess að aka.  Hefðu þeir farið fjórir í bílnum, ákærði, Litháinn, Tomasz Roch og Marcin, að hann ætlar.  Hann kveðst hafa verið í sinni fyrstu ferð til Reykjavíkur og engan hafa þekkt þar og ekki átt sökótt við nokkurn mann þar.  Væri af og frá að hann hefði átt í átökum í þessari ferð. 

Ákærði Tomasz Krysztof var yfirheyrður hjá lögreglu 27. mars sl. og neitaði hann að tjá sig um sakarefnið.  Aftur var hann yfirheyrður 11. apríl sl. og neitaði þá einnig að segja nokkuð um það.  Hinn 5. maí sl. var hann enn á ný yfirheyrður að verjanda sínum viðstöddum og kannaðist hann þá við það að hafa verið í Keilufelli 35 í umrætt sin og að hafa barið mann sem þar var nokkrum sinnum með hafnaboltakylfu.  Hann kvaðst hafa verið drukkinn og ekki viti hann hverjir hafi verið för með honum en þarna hafi verið margt fólk.  Þó hafi verið þarna í för með honum maður að nafni Tomasz Roch og annar sem heiti Robert.  Hann kvaðst hafa þekkt með nafni tvo af íbúum hússins, Andrzej og Zygmunt og auk þess kannast við fleiri heimamenn í sjón.  Segist hann hafa farið frá Keflavík eftir að hringt var í hann og hann boðaður í pólsku búðina í Breiðholti og hefði einhver Pólverji skutlað honum þangað.  Hefðu þeir verið þrír í bílnum, þ. e. ákærði, bílstjórinn og Pólverji, sem hann vissi ekki deili á.  Í búðinni hefðu þeir hitt nokkra Pólverja.  Fyrir utan búðina hefði verið talað um að fara að húsinu í Keilufelli en ekki myndi hann hver hefði beðið hann um að fara þangað.  Ekki myndi hann heldur hverjir hefðu verið með honum í ferðinni frá búðinni í Keilufellið.  Þegar þangað kom hefðu þeir farið inn í húsið og þá hefði allt byrjað.  Hann neitaði því að heimsókn hans hefði verið út af fartölvu sem hann hefði verið sakaður um að hafa stolið.  Ákærða voru sýndar myndir af meðákærðu Tomaszi Roch og Robert og kvað hann þá hafa verið með sér í íbúðinni í Keilufelli.  Hann kvaðst ekki vita hvað hver aðhafðist þarna inni, nema það sem hann gerði sjálfur.  Þarna hefði verið margt fólk og mikil læti.  Hann sagði að einn af þeim sem komu með honum í bílnum í Keilufell hefði orðið eftir í bílnum þegar þeir fór þar úr honum en hinn maðurinn hefði farið með honum inn í húsið.  Kvaðst hann hafa tekið hafnaboltakylfu úr skottinu á einum bílnum og haft með sér inn.  Heldur hann að þrír bílar hafi verið í ferðinni.  Þarna inni hefði hann barið mann sem stóð svo að hann féll í stól.  Ekki kannaðist hann við að hafa barið liggjandi mann með öxi.  Hefðu þeir þrír svo farið aftur til Keflavíkur í bílnum eftir atburðinn í Keilufelli.   

Ákærði Tomasz Roch var yfirheyrður hjá lögreglu sunnudaginn 23. mars sl.  en hann kvaðst ekki muna eftir sér daginn áður vegna ölvunar.  Hann kvaðst muna það síðast að hafa verið við vodkadrykkju heima hjá sér og svo næst muna eftir sér í haldi lögreglunnar.  Í skýrslu hjá lögreglu 11. apríl kvaðst hann aðspurður kannast við meðákærðu en ekki vita hvort hann hefði verið í sambandi við þá umræddan laugardag.  Hann kvaðst ekki kannast við þá menn sem honum var sagt að hefðu verið í Keilufelli 35 í umrætt sinn.  Hann ítrekaði það að hann myndi ekki eftir sér á þeim tíma sem um ræðir og kvaðst ekki geta skýrt atriði úr rannsókninni sem borin voru undir hann.

Lögregla handtók einnig Litháa að nafni Zilvinas Balkevicius, búsettan í Keflavík, og hafði hann gunaðan um að hafa átt þátt í aðförinni að þeim sem voru í Keilufelli 35.  Hann var yfirheyrður hjá lögreglu daginn eftir atburðinn og aftur 24.  og 25. mars sl.  Hann kannaðist við að hafa ekið þremur Pólverjum í Keilufell.  Hefðu það verið vinnufélagi að nafni Robert, ennfremur hávaxinn, grannur maður og loks lítill þybbinn maður með skegg.  Robert hefði beðið hann um að aka þeim og hann dregist á að fara með þeim, þótt vinkona hans hefði beðið hann um að fara ekki.  Hefði hann fallist á að gera þetta þar sem Robert hefði hjálpað honum að flytja.  Hefðu þeir farið frá Ásabraut Keflavík í bíl, sem Robert var venjulega á, og þeir vísað honum veginn.  Hefðu þeir og hann talað saman blöndu af pólsku og rússnesku.  Hefðu þeir hinir verið að drekka í bílnum og verið ölvaðir.  Hefðu þeir hringt nokkur símtöl úr bílnum á leiðinni til Reykjavíkur.  Fyrst hefðu þeir farið úr bílnum við einhverja verslun og talað við einhvern og einn þeirra, líklega sá lágvaxni, farið inn og verslað þar.  Svo hefði ferðinni verið haldið áfram og verið keyrt um í einhverja hringi en loks verið numið staðar aftur þar sem þeir hinir hefðu farið úr bílnum.  Kvaðst hann hafa orðið eftir í bílnum og ekki séð hvort þeir tóku eitthvað með sér og ekki hafa séð nein vopn eða barefli.  Þeir hefðu svo komið hlaupandi til baka í bílinn og sagt honum að aka á brott.  Hefðu þeir verið skrítnir og með blóð á höndunum.  Í skýrslunni 25. mars kvaðst hann hafa spurt Róbert út í þetta og hann þá sagst hafa dottið.  Ekki er hinna getið í skýrslunni í þessu sambandi.  Í skýrslu 10. apríl sl. kvaðst hann hafa séð blóð á höndum Roberts og hafa spurt hann út í það en hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort blóð var á þeim hinum.

Grzegorz Adam Pelczar, einn þeirra sem voru fyrir í Keilufelli 35 var yfirheyrður hjá lögreglu laugardagskvöldið 22. mars sl.  Hljóð og mynd af skýrslunni voru tekin up.  Skýrði hann svo frá að um það bil viku áður hefði fartölvu og farsíma verið stolið heima hjá honum úr eigu manns að nafni Krystian Gajewski.  Um atburði þessa dags sagði hann að hann hefði komið heim úr vinnu um fjögurleytið.  Hann hefði setið og verið að drekka bjór þegar maður var skyndilega kominn inn í stofuna og á hæla honum hópur manna.  Hefði maðurinn boðið góðan dag en svo hefðu þeir tekið til við að berja alla sem þarna voru inni.  Kvað hann þennan mann hafa barið sig með einhvers konar stálbita en hann reynt að hlífa sér fyrir höggunum.  Hann sagði annan mann svo hafa veist að sér með golfkylfu og barið með henni tvö högg í höfuðið.  Þeir hefðu svo næst snúið sér að Zygmunt og eins hefði Piotr verið barinn enn þá reynt að bera fyrir sig höndina.  Hefði þá árásarmaðurinn sagt að enginn skyldi bera fyrir sig hönd gegn honum og barið enn fastar.  Hann kvaðst kannast við tvo af árásarmönnunum.

Grzegorz Adam gaf aðra skýrslu hjá lögreglunni 1. apríl sl. og sagði þá að kveikjan að þessum atburði væri líklega þjófnaður á fartölvu og væri maður að nafni Tomsz, sem ætti heima í Keflavík, grunaður um þjófnaðinn.  Hefði það verið hann sem fór fyrir þeim sem réðust inn á þá í Keilufelli.  Hann hefði heilsað þeim úr dyrunum og sagt: “Ég er kominn”.  Þá hefðu þeir hinir ruðst inn líka og einn þeirra veist að Andrzej og barið hann svo að hann féll ofan í rúm.  Grzegorz Adam sagði annan mann, snöggklipptan og dökkhærðan í blárri hettupeysu, hafa barið sig í höfuðið með steypustyrktarjárni en þegar hann bar hendurnar fyrir sig hefði maðurinn barið í þær á að giska tíu sinnum.  Þá sagði hann annan aðkomumann, meðan á þessu stóð, hafa ráðist að sér með golfkylfu og barið sig tvisvar báðum megin í höfuðið með henni.  Þá kvaðst hann hafa heyrt að Piotr var barinn þar sem hann lá á rúminu við hliðina.  Hann hefði svo heyrt einhvern öskra: “Þetta er nóg!¨ og mennirnir þá farið út.  Á leiðinni út hefðu þeir barið í spegil og í sjónvarpið og brotið hvort tveggja. 

Föstudaginn 4. apríl sl. voru Grzegorz Adam sýndar myndir úr ljósmyndasafni lögreglunnar.  Fór sakbendingin þannig fram að sett voru fyrir hann sex spjöld, hvert með myndum af níu karlmönnum.  Kvaðst hann í fyrstu ekki þekkja neinn þeirra sem á myndunum voru en benti svo á mynd af ákærða Tomasz Krysztof og kvað hann líkjast mjög Tomaszi þeim sem réðist inn til þeirra og var þar í fremstur í flokki.  Verjendur þriggja af þeim sem þá voru grunaðir voru viðstaddir sakbendinguna, þar á meðal verjendur ákærðu Roberts og Tomaszar Roch.

Pawel Tomaszewski, íbúi í Keilufelli 35, var yfirheyrður hjá lögreglu mánudaginn 24. mars sl.   Hljóð og mynd af skýrslunni voru tekin upp.  Skýrði hann svo frá að þeir vinirnir hefðu setið í stofunni þegar skyndilega voru að minnsta kosti þrír menn komnir inn í stofudyrnar hjá þeim og einn þeirra bauð góðan dag.  Þá hefðu menn ruðst inn í stofuna og byrjað að berja þá sem inni voru.  Taldi hann að í allt hefðu komið inn um tíu manns.  Einn mannanna hefði verið með öxi og þá hefðu menn verið með járn af ýmsu tagi, stálrör, golfkylfur.  Fyrst hefðu þeir barið í borðið en svo snúið sér að þeim sem þarna voru.  Kvaðst hann hafa reynt að fela sig en samt fengið högg á fótinn og dottið á rúmið.  Hefði hann verið barinn í bakið, aftan á höfuðið og einnig fengið högg á höndina.  Hefðu tveir menn barið á honum og beitt golfkylfu, hafnaboltakylfu.  Þá hefðu þrír menn barið Zygmunt með einhvers konar kylfu.  Hefði einn þeirra sagst mundu berja hann fyrir það sérstaklega að hann hefði borið hönd fyrir höfuð sér.  Hefðu höggin lent á höfði hans aftanverðu og reyndar alls staðar á honum.  Þá sagði hann að Marcin hefði fengið högg með öxinni.  Tveir menn hefðu náð að flýja út, Krystian og annar til.  Hefði árásin staðið í um 15 mínútur og mennirnir horfið á brott að því loknu.  Hann kvaðst kannast við einn af mönnunum, þann sem fór fyrir þeim hinum.  Ætti hann heima í Keflavík og hefði lent í bruggmáli.  Væri hann ljóshærður, bláeygur og líkast því að hann væri nefbrotinn, 26-30 ára, 1,70 – 1,76 á hæð.  Þá kvaðst hann örugglega myndu þekkja hina af myndum.  Annar hefði verið lágvaxnari með svart hár og brún augu, ekki yngri en 30 ára og ekki eldri en fertugur, á að giska 36 ára.  Þá hefði einn verið hávaxinn, 1,96 til 2 metrar, með lítillega framstæðar tennur, egglaga höfuð.  Þá hefðu verið þarna í hópnum tveir menn kraftalegir og klæddir herlituðum fötum.   

Pawel gaf aðra skýrslu hjá lögreglu 28. mars sl.  Sagðist hann hafa setið í svefnsófa ásamt þeim Bartosz og Grzegorz, sem sneri að stofudyrunum, og þá skyndilega séð að ákærði Tomasz Krysztof, sem hann þekkti í sjón, var í stofudyrunum og hélt á öxi og sagði: “Komið þið blessaðir, ég er mættur”.   Tveir eða þrír menn hefðu barið á Bartosz sem hefði borið fyrir sig hendurnar.  Þá hefði Grzegorz verið barinn í höfuðið aftan frá.  Sjálfur hefði hann verið barinn með golfkylfu um alla vinstri hlið líkamans og hefði kylfan brotnað við það.  Hefðu tveir menn verið þar að verki.  Hann hefði séð að Piotr og Zygmunt voru barðir.  Hefði Zygmunt verið sofandi í rúmi sínu þegar hann var barinn og hefði Tomasz Krysztof verið þar að verki og beitt öxarskallanum.  Þegar hann hætti hefðu tveir aðrir tekið við að berja Zygmunt sem enn lá í rúmi sínu.  Hefðu þeir reist hann við og haldið áfram barsmíðinni.  Annar þessara manna hefði verið áberandi hávaxinn, ljóshærður með útstæðar tennur en hinn lágvaxinn, brúnhærður með dökka skeggrót.  Hefðu þeir reist hann við nokkrum sinnum þegar hann leið út af og haldið áfram að berja hann.  Auk þess hefðu tveir þeirra haldið honum sitjandi uppi meðan sá þriðji sparkaði margsinnis í bringuna á honum.  Þá kvaðst hann hafa séð að Piotr var barinn með hamri þar sem hann lá á bakinu í rúminu.  Hefði hann fengið 6 – 7 högg af hamrinum en náð að grípa í hönd þess sem á hamrinum hélt.  Hefði einn árásarmannanna öskrað að hann væri að verja sig og þeir þá hert barsmíðina.  Þá hefði einn þeirra öskrað að búið væri að hringja í lögreglu og mennirnir þá haft sig á brott en þó hefðu þeir lagt íbúðina í rúst áður.

Mánudaginn 7. apríl sl. voru Pawel sýndar myndir úr ljósmyndasafni lögreglu.  Fór sakbendingin þannig fram að settar voru fyrir hann 159 myndir af hvítum, erlendum karlmönnum, fæddum á árunum 1965 til 1989.  Kvaðst hann vera “50 %” viss um að mynd af ákærða Tomaszi Roch væri af einum þeirra sem hefðu verið í húsinu.

Marcin Wasiluk, sem var staddur í Keilufelli 35 í umrætt sinn, gaf skýrslu hjá  hjá lögreglu laugardaginn 22. mars sl.   Hljóð og mynd af skýrslunni voru tekin upp.  Skýrði hann svo frá að hann hefði setið í stofunni ásamt þeim Bartosz, tveimur Krystianum, Grzegorz, Serge, Piotr og Pawel þegar þar birtust skyndilega menn vopnaðir alls kyns bareflum, þar á meðal kylfum og öxi.  Kvaðst hann hafa sagt að hann ætti ekki heima þarna og ætlað að forða sér út.  Hefði hann þá fengið högg með öxarskalla á höfuðið og vankast við það svo að hann féll í gólfið.  Þegar hann fékk mátt í fæturna af nýju hefði hann staðið á fætur og forðað sér út.  Hann kvaðst svo hafa séð þegar árásarmennirnir komu út úr húsinu og hefðu þeir verið fleiri en tíu talsins.  Hann kvaðst hafa kannast við einn af þessum mönnum, Tomasz úr Keflavík, sem hefði verið fremstur í flokkinum og með öxina.  Þá hefði hann einnig kannast við annan mann úr hópnum, sem ynni með honum, lágvaxinn mann, um fertugt, dökkhærðan með skegg og þrekvaxinn.  Önnur vopn sem menn þessir voru með hefðu verið bútar af steypustyrktarjárni.

Marcin var yfirheyrður aftur föstudaginn 28. mars sl. Hann kvað mennina hafa birst skyndilega í stofunni og hefði Tomasz Jagiela verið með öxi.  Kvað hann Tomasz hafa gengið að sér eins og hann ætlaði að beita henni á hann.  Hefði hann sagt við Tomasz að hann ætti ekki heima þarna og snúið baki í hann og gengið tvö skref í átt að svalahurðinni.  Hefði hann þá fengið högg í hnakkann, misst mátt og fallið  í gólfið.  Hann hefði svo komist á fætur aftur og forðað sér út.  Seinna hefði hann séð árásarmennina yfirgefa húsið, 10 – 15 talsins.  Þarna í hópnum hefði verið annar maður sem einnig heiti Tomasz.  Kvaðst hann hafa unnið með þeim manni í eina tíð. 

Mánudaginn 7. apríl voru Marcin sýndar myndir úr ljósmyndasafni lögreglunnar.  Fór myndbending þessi þannig fram að settar voru fyrir hann 159 myndir af hvítum, erlendum karlmönnum, fæddum á aldrinum 1965 til 1985.  Bar hann þá kennsl á mynd af ákærða Tomaszi Roch sem hann sagði verið á staðnum og kvaðst hann þekkja þann mann eftir að hafa unnið með honum.  Þá bar hann kennsl á mynd af ákærða Tomaszi Krysztof og sagðist viss um að hann hefði barið sig.

Auk framangreindra vitna gáfu fimm af þeim sem voru í Keilufelli 35 skýrslur hjá lögreglu, þeir Piotr Wladsyslaw Sierakowski, Bartosz Szyca, Krystian Michal Gajewski, Zygmunt Klinkosz og Andrzej Piotr Weselowski.  Menn þessir eru farnir af landi brott og hafa ekki komið fyrir dóm í málinu.  Eru ekki efni til þess að rekja skýrslur þessar að öðru leyti en því að laugardaginn 5. apríl voru Piotr Wladsyslaw Sierakowski sýndar myndir úr ljósmyndasafni lögreglunnar.  Þrír af verjendum ákærðu voru viðstaddir sakbendingu þessa.  Fór sakbendingin þannig fram að sett voru fyrir Piotr Wladyslaw sex spjöld, hvert með myndum af níu karlmönnum.  Bar hann kennsl á mynd af ákærða Tomasz Krysztof og sagði hann hafa farið fremstan í flokki árásarmannanna og hefði hann barið Marcin og Zygmunt.  Kvaðst hann þekkja ákærða í sjón og hefði hann séð hann áður í gula húsinu.  Þá bar hann kennsl á mynd af ákærða Marcin og sagði hann hafa barið sig með steypustyrktarjárni en einnig hefði maður þessi barið þá Grzegorz Pelczer og Andrzej.  Loks bar hann kennsl á mynd af ákærða Tomasz Roch og sagði hann hafa verið í gula húsinu í umrætt sinn og hefði hann verið með hafnaboltakylfu og barið þá Bartosz og Zygmunt með henni. 

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins. 

Ákærði Tomasz Krysztof kveðst hafa verið heima hjá sér við vodkadrykkju ásamt öðrum þennan dag.  Þá hafi einhver, sem hann ekki þekkti, hringt og beðið hann að koma til Reykjavíkur í pólsku búðina.  Kveðst hann hafa farið þangað og þá verið þar fyrir hópur Pólverja, þar á meðal Tomasz Roch.  Hafi einn þeirra spurt hvort hann vildi koma með þeim til þess að “redda” einhverju máli.  Hafi verið ekið að þessu húsi og allir tekið eitthvað úr bílskottinu og kveðst ákærði hafa tekið létta hafnaboltakylfu úr tré.  Hafi hann farið inn í húsið um opnar dyr og inn í stofu.  Hafi einhver strákur þá komið í átt til hans og kveðst ákærði hafa barið hann tvisvar með kylfunni.  Kveðst hann svo hafa farið á brott.  Hann hafi ekki séð að meðákærði Tomasz Roch kæmi þarna í Keilufellið.  Hafi hann ruglast í yfirheyrslunni hjá lögreglu um þetta atriði og það hafi verið mistök hjá sér að segja meðákærða hafa verið í förinni.  Honum er þá bent á að hann hafi í þessu sambandi bent á mynd af meðákærða og endurtekur hann að þetta hafi verið mistök hjá sér.   Í Keilufelli hafi verið hópur Pólverja en hann muni ekki hvað þeir heiti og kveðst ekki geta sagt frá neinu sérstöku varðandi þá.  Hann segir þá alla hafa farið þarna inn, boðna eða óboðna.  Hann viti ekki hvort átti við um þá hina en sjálfum hafi honum ekki verið boðið inn þarna.  Hann segist hafa barið manninn þarna tvisvar sinnum með kylfunni fyrir það að hann kom í áttina til hans og hann óttaðist að maðurinn myndi ráðast á hann.  Hafi þetta gerst fyrir innan stofudyrnar.  Kveðst hann halda að höggin hafi komið á upphandlegg mannsins eða bringu, en hann sé ekki viss um þetta.  Hafi átökin í íbúðinni þegar verið hafin áður en hann sló manninn.  Hann segist hafa komið í eigin bíl í Keilufellið, sem einhver annar hafi ekið, og segist ekki muna eða vilja muna hver það hafi verið.  Hafi bílnum verið lagt í stæði í næstu götu við.  Þá segist hann hafa ruglast í ríminu að því er varðar veru ákærða Roberts þarna í Keilufellinu.  Eftir að hann sló manninn kveðst hann hafa farið út og svo þaðan heim til sín til Keflavíkur.  Ákærði neitar því aðspurður að hafa barið Zygmunt Klinkosz með öxi.  Hann kveðst vera kunnugur í Keilufelli 35 enda hafi hann átt þar heima um skeið.  Hann kveðst hafa komið þar daginn áður að beiðni Andrzej Wesolowski sem hefði sagst vera með kaupanda að bílnum hans. 

Ákærði Marcin Labuhn segist ekki muna eftir ferðum sínum þann dag sem um ræðir.  Hefði hann verið drukkinn frá því um morguninn en segist þó muna eftir sér á leiðinni frá Reykjavík heim til Keflavíkur og kveðst hann mögulega hafa komið í Keilufell þennan dag.  Hafi þeir verið að drekka bjór á leiðinni og lögreglan hafi stöðvað för þeirra.  Með honum í bílnum hafi þá verið Tomasz, Robert og einhver Lithái.  Ákærði kveðst hafa orðið atvinnulaus þegar hann var handtekinn og hafa lítið unnið eftir það. 

Ákærði Robert hefur skýrt frá því að hann hefði verið búinn að vera undir áhrifum eiturlyfja og áfengis í þrjá daga þegar atburðurinn varð.  Hafi hann ekki þekkt fólkið sem bjó í Keilufelli og ekki átt sökótt við það.  Viti hann ekki hvar þetta gerðist heldur.  Kveðst hann hafa boðið lögreglunni að fara í sakbendingu til þess að hægt yrði að benda á hann, hefði hann gert eitthvað af sér.  Hann bendir á að hefðu einhver barefli komið við sögu ættu að vera fingraför hans á þeim.  Hann segist vita það eitt að hann hafi verið í bílnum sem hann var handtekinn í, þ. e. Hyunday Sonata-bíl.  Hann viti ekki hvernig á því stóð að hann var í bílnum og hann hafi verið ókunnugur í Reykjavík.  Það geti ekki verið rétt sem Zilinas segi um hans þátt, svo sem að hann hafi tekið að sér að aka bílnum að sinni beiðni og að hann hafi farið úr honum með tveimur öðrum og komið aftur í bílinn.  Hann rati ekki í Reykjavík, þekki ekki fólkið í Keilufelli, viti ekki hvar búðin sé og ekki einu sinni hvar Breiðholtið sé.  Hann kveðst hafa kannast við ákærðu fyrir þennan atburð, báða Tomaszana, sem bjuggu í sama húsi, svo og Marcin sem hann hafði kynnst lítillega í einu samkvæminu.  Um símagögnin í málinu segir hann að hann hafi verið í sambandi við Tomasz Jagiela um bílakaup. 

Ákærði Tomasz Roch hefur kosið að tjá sig ekki við aðalmeðferð málsins en við þingfestingu þess neitaði hann sakargiftum og kvaðst ekki hafa verið í Keilufelli 35 í umrætt sinn.

Vitnið Marcin Wasiluk hefur skýrt frá því að hann hafi verið gestkomandi í Keilufellinu þegar atburður málsins varð.  Hann kveðst ekki muna eftir atburðinum enda sé nú langt um liðið og hann sé með konu og barn og í vinnu.  Segist hann vera að reyna að gleyma þessum atburði.  Hann kveðst í umrætt sinn hafa verið að heimsækja Krystian sem þarna bjó, að hann heldur.  Hann segir einhvern hafa komið þarna inn og barið sig með öxi, að hann telur.  Hafi þessi maður verið í för með fleirum og haldi hann að menn þessir hafi verið pólskir, allt karlmenn, og þeir ruðst inn í húsið.  Ekki muni hann hvort þeir hafi allir verið með barefli.  Hafi hann ekki þekkt þetta fólk.  Hann kveðst hafa flúið út eftir að hann var barinn í höfuðið og því ekki séð aðra verða fyrir barsmíðum.  Hann kveðst hafa hlaupið út á enda götunnar og síðar hafi honum verið ekið á slysadeild í sjúkra- eða lögreglubíl.  Hann segist aðspurður ekki hafa orðið fyrir hótunum vegna málsins og ekki vita hvort hann sé hræddur við ákærðu í málinu.  Undir hann er borin skýrsla sem hann gaf hjá lögreglunni.  Hann kveðst muna eftir því að menn hefðu komið inn með vopn.  Þá segist hann ekki hafa séð þann Tomasz sem hann sagði frá í skýrslunni heldur hafi þeir talað saman eftir atburðinn sem þarna voru og komið sér saman að Tomasz þessi hefði verið í hópnum.  Hann kveðst minnast þess að hafa sagt við árásarmanninn, sem hélt á öxi, að hann ætti ekki heima þarna en maðurinn samt ráðist á sig og hann fallið í gólfið.  Hann kveðst ekki hafa séð að ráðist væri á aðra þarna.       

Vitnið Pawel Tomaszewski hefur greint frá því að hann hafi verið staddur heima hjá sér í Keilufelli 35 ásamt öðrum heimilismönnum, þeim Krystian, Andrzej, Zygmunt, Marcin, Grzegorz, Piotr og Bartosz.  Hafi þeir verið að matbúa fyrir páskana og vinir þeirra verið í heimsókn.  Muni þeir hafa verið níu talsins.  Hafi þeir einnig setið og horft á sjónvarp í stofunni og drukkið bjór.  Hafi hann verið búinn að drekka eitthvað af einni flösku og setið í sófa á milli þeirra Marcins og Grzegorz og þeir Zygmunt og Andrzej setið hvor í sínu rúminu.  Hafi þá maður, sem muni heita Tomasz og hann hafði séð þarna nokkrum sinnum áður og muni vera ákærður í málinu, birst óvænt þarna inni með öxi og heilsað þeim og sagt að þeir væru komnir.  Maður þessi sé lítill, ljóshærður og með flatt andlit og kveðst hann hafa séð hann í dómhúsinu.  Muni maður þessi hafa átt áður þarna heima í viku eða svo og hafa verið handtekinn fyrir áfengisbruggun.  Einhver þeirra, sem komu með Tomaszi, hafi sent dós í höfuðið á sér og kveðst hann þá hafa staðið á fætur og þá séð að Krystian hafði getað forðað sér á brott út um svaladyrnar.  Kveðst hann hafa ætlað að fylgja ráði hans en þá fengið þungt högg í bakið og síðan högg með hafnaboltakylfu í fæturna.  Við það hafi hann dottið á grúfu á rúm Zygmunts.  Hafi hann snúið sér á hliðina og borið hendurnar fyrir höfuð og andlit sér þegar einhver strákur fór þá að berja hann með golfkylfu.  Hafi barsmíðin varað þangað til golfkylfan brotnaði.  Þá hafi enn einn maðurinn tekið til við að berja hann með einhverju öðru barefli þar sem hann hafi legið hreyfingarlaus.  Hafi sú barsmíð varað í nokkrar mínútur.  Hann kveðst hafa getað séð þar sem hann lá hver barði hvern meðan á þessu stóð.  Hafi Zygmunt verið barinn mest og hafi allir árásarmennirnir skipst á að lumbra á honum.  Þar á meðal hafi tveir haldið honum sitjandi meðvitundarlausum og sá þriðji sett fótinn í andlit honum fjórum sinnum.  Þá hafi Piotr verið barinn en Piotr sagt við þá á meðan að hann hefði ekkert gert þeim og spurt hvað þeim gengi til.  Hafi þeir þá sagt að þeir gerðu þetta frítt og fyrir þær sakir einar að hann væri á lífi.  Andrzej hafi verið laminn einnig en hann kveðst þó ekki hafa séð það vel þar sem skápur var á milli.  Hann kveðst svo hafa séð Bartosz veifa höndunum og reyna að verja sig með þeim.  Einn árásarmannanna hafi þá sagt: “Sjáið, hann veitir mótspyrnu!”  Grzegorz hafi legið hjá Bartosz á sófanum og hafi tveir menn barið á honum.  Marcin, sem var þarna gestkomandi, hafi verið þar hjá og hafi hann verið barinn með öxi í höfuðið og hafi það gengið á í um 2 mínútur.  Hafi Marcin verið hreyfingarlaus meðan á þessu gekk.  Marcin hafi hins vegar komist á flótta út um svaladyrnar.  Hann giskar á að árásin hafi staðið yfir í 15 – 18 mínútur í allt.  Hafi einn af innrásarmönnunum svo sagt að þeir myndu koma aftur til þess að sækja peninga og skyldu þeir hafa peninga þá til reiðu.  Að lokum hafi þeir lagt alla íbúðina í rúst og farið.  Hann kveðst halda að mennirnir hafi verið 10 – 12 talsins og hann ekki heyrt þá tala aðra tungu en pólsku.  Hann segir mennina hafa verið með öxi, hafnaboltakylfu, spýtu með nöglum í og steypustyrktarjárn og virst ganga skipulega til verks.  Þeir sem fyrir voru hafi enga mótspyrnu veitt.  Sá, sem muni vera Tomasz bruggari og hann minni að hafi verið klæddur í hvítan íþróttagalla, hafi verið með öxina en hann geti ekki sagt nánar hvernig hver og einn hafi verið vopnaður.  Piotr hafi verið barinn með steypustyrktarjárni og Bartosz með spýtu.  Fyrir utan Tomasz hafi hann kannast við annan árásarmannanna í sjón og muni það vera vinur Tomaszar og sé sá dökkhærður, hávaxinn og sterkbyggður.  Sér vitnið ljósmyndir úr málinu af öðrum ákærðu en Tomaszi Krysztof og bendir hann á mynd af ákærða Tomasz Roch og segir hann hafa verið í hópi árásarmannanna.  Lögreglan hafi svo komið og þeim hinum verið ekið á spítala en sjálfur hafi hann farið þangað seinna með hjálp vinar síns.  Segist hann vera með ör á bakinu eftir kylfuna og öxina.  Hann segir Piotr hafa bilast á geði eftir þetta.  Hann kveðst hafa fengið að bera kennsl á ljósmyndir hjá lögreglunni og þá þekkt þar á mynd Tomasz og borið kennsl á tvo aðra sem hann vissi ekki hvað hétu.  Hafi hann verið viss um að þessir þrír hefðu komið þarna við sögu.  Hann segir að viðstaddir hafi verið lögreglumaður og túlkur.  Honum er bent á það að hann hafi þá þóst vera 50% viss um að einn mannanna hefði verið á staðnum.  Hann segist vera svo viss nú vegna þess að hann hafi séð manninn sjálfan eftir þetta í dómhúsinu og hina tvo einnig.   

Grzegorz Adam Pelczar hefur skýrt frá því að hann hafi verið staddur heima hjá sér í Keilufelli 35 þegar atburðurinn varð.  Hann hafi komið heim um klukkan 15.30 og hafi strákarnir, þ. e. Piotr Sierakowski, Andrzej, Krystian Gajewski, Marcin, annar Krystian til, Zygmunt og Bartosz Szyca, þá setið í stofunni og hann sest hjá þeim og fengið sér úr bjórflösku.  Skyndilega hafi maður að nafni Tomasz verið kominn og heilsað þeim og sagt “Ég er kominn”.  Hafi fleiri menn komið á eftir honum inn í stofuna, en ekki viti hann með vissu hversu margir þeir voru, 10 – 15 talsins ætlar hann.  Hafi þeir verið með barefli og vaðið að þeim sem fyrir voru og lumbrað á þeim. Hafi þetta verið steypustyrktarjárn, stór hamar, um 4 kg, og golfkylfa.  Hann segist hafa verið barinn margsinnis með steypustyrktarjárninu og fengið högg á höndina og í vinstri síðu.  Þá hafi hann verið sleginn tvisvar í höfuðið með golfkylfu og þá misst meðvitund.  Hann kveðst hafa séð að Andrzej hafi verið sleginn með hamrinum stóra í bakið.  Hann segir sér hafa liðið illa næstu tvær vikur eftir þennan atbur, bæði líkamlega og andlega og ekki getað hætt að hugsa um það sem gerst hafði.  Hann kveðst vera í sambandi við Piotr Sierakowski.  Hafi hann farið að hegða sér mjög undarlega eftir þessa árás og talað mikið við sjálfan sig og einhverja anda eða drauga.  Sé hann hjá geðlæknum í Póllandi og afhendir vitnið vottorð um heilsu hans.  Vitnið segist hafa kannast við þennan Tomasz í sjón frá því að hann hafði búið hjá þeim.  Sé hann skolhærður og um þrítugt.  Muni heimsóknin hafa tengst fartölvu sem stolið hafði verið heima hjá þeim.  Zygmunt hafi grunað Tomaz og félaga hans um þjófnaðinn og muni hann hafa borið þjófnaðinn upp á þá, eftir því sem hann heyrði, og löðrungað Tomasz.  Vitnið kannast við að hafa verið látinn skoða myndir af mönnum hjá lögreglu og þá borið kennsl á mynd af ákærða Tomasz Krysztof.  Honum er bent á það að í fyrstu skýrslu hjá lögreglu hafi hann sagst ekki þekkja árásarmennina.  Hann svarar því til að hann hafi verið nýkominn af spítalanaum þegar þetta var og verið miður sín.  Þá vill hann taka það fram að hann hafi ekki þekkt neinn af mönnunum persónulega. 

Vitnið Zilinas Balkevicius hefur skýrt frá því að ákærði Robert Kulaga hafi hringt og beðið sig að aka fyrir sig bíl og hafi hann gert það fyrir hann til þess að endurgjalda greiða.  Hafi þeir verið vinnufélagar.   Hann segist ekki hafa vitað hvað til stóð og einskis spurt. Hann segir þá hafa farið í bílinn allir fjórir í Keflavík og þeir hinir verið að drekka meðan hann ók þeim.  Hann segir ákærða Robert hafa setið frammi í hjá sér alla ferðina.  Hafi þeir farið til Reykjavíkur og þeir vísað honum þar til vegar.  Hann segist hafa talað við þá blöndu af rússnesku og ensku.    Í Reykjavík hafi verið farið á einhvern stað þar sem þeir hinir fóru út að versla en hann segist ekki hafa farið þar úr bílnum.  Næst hafi verið staðnæmst aftur einhvers staðar á milli fjölbýlishúsa þar sem þeir hinir fóru aftur út og var honum sagt að bíða á meðan í bílnum.  Eftir um 10 – 15 mínútur hafi þeir komið aftur.  Hann segist hafa séð blóð á höndum Roberts.  Hafi Robert hafi verið mjög drukkinn og þeir allir.  Auk Roberts hafi verið í bílnum lágvaxinn Pólverji og annar sem hafi verið hávaxinn.  Þeir hafi setið í aftursætinu.  Hafi honum verið sagt að aka af stað heim.  Hafi lögreglan svo stöðvað þá á þeirri leið.

Vitnið Halldór Pétur Andrésson, sem býr í Austurbergi 10, hefur skýrt frá því að hann hafi verið úti á svölum heima hjá sér í umrætt sinn og þá séð þrjá bíla koma í röð hvern á eftir öðrum og nema staðar á bílastæðinu þar hjá.  Út úr bílunum hafi stigið 6 – 8 menn, að hann giskar á, en bílstjórarnir hafi setið eftir.  Hafi mennirnir staðnæmst um stund á planinu og hafi flaska gengið á milli þeirra.  Hann segir mennina hafa tekið eitthvað úr skottinu á einum bílnum og minnir hann að þar á meðal hafi verið golfkylfa og eitthvað í poka.  Þeir hafi svo gengið yfir göngustíg og grindverk, sem þarna er, og horfið fyrir hornið á húsinu sem vitnið á heima í.  Stuttu seinna, um 10 – 15 mínútum, kveðst hann hafa litið út aftur og hafi bílarnir þá verið horfnir.

Már Kristjánsson sérfræðilæknir á slysa- og bráðadeild Landspítala hefur komið fyrir dóm.  Hann staðfestir vottorðin sem hann hefur gefið í málinu.  Um Marcin Wasiluk segir hann sérstaklega að sárin á höfði hans hafi samræmst því að geta verið eftir eggvopn.  Þá hafi hann borið áverka sem gátu verið eftir sljóan hlut, svo sem hafnaboltakylfu.  Um áverkana á Pawel Tomaszewski sé það að segja að þeir gætu verið eftir sljótt áhald, t. d. hafnaboltakylfu.  Að því er varðar Piotr Sierakowski og áverkana á honum sé það að segja að þeir gætu samræmst því að vera eftir sljótt áhald.  Séu áverkarnir á þessum þremur mönnum einnig dæmigerðir varnaráverkar.   Um áverka á Grzegorz Adam Pelczar segir hann að þeir virðist vera eftir fleiri en eina gerð barefla.  T. d. var þar að finna áverka sem gætu verið eftir rör eða annað barefli með upphleyptu mynstri, t. d. steypustyrktarjárn.  Bartosz Szyca hafi verið með opið beinbrot á mið handarbeini og handleggsbrot við úlnlið.  Andrzej Piotr Weselowski  hafi verið með áverka eftir tvö högg á mjöðminni sem líklegast voru til komnir eftir sljótt áhald. 

Guðmundur Gunnarsson læknir hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt í málinu.  Hann segir Zygmunt Klinkosz hafa verið með marga áverka þegar hann kom á slysadeildina.  Hafi þeir samræmst því að hann hefði orðið fyrir árás og verið sleginn mörgum sinnum, hvort sem var með hnefum eða bareflum.  Hafi hann verið með varnaráverka á handleggjum, áverka á höfði, andliti og brjóstkassa.  Hafi þetta verið nýlegir áverkar að sjá.  Hafi áverkarnir verið alvarlegir og lífshættulegir enda hafi maðurinn verið brotinn í andliti og heilinn því í hættu.  Hann kveður áverkana á handleggjum mannsins og á brjóstkassa hans hafa borið með sér að vera eftir þungt barefli, ekki hvasst. 

Rannsóknarlögreglumennirnir Björgvin Sigurðsson, Guðjón Grétarsson, Guðmundur H. Gunnarsson, Guðmundur Páll Jónsson, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Kristján Ingi Kristjánsson, Halldór Rósmundur Guðjónsson og Svanur Elísson svo og Sigurður Arnarson, sérfræðingur hjá lögreglustjóraembættinu, sem unnið hafa margvíslega rannsóknarvinnu í málinu, svo sem vettvangsskýrslur, ljósmyndun, uppdrætti, rannsókn muna, skýrslur af vitnum, töku sýna, sakbendingu, símarannsókn og frágang myndefnis, hafa komið fyrir dóm og staðfest og skýrt þau gögn sem frá þeim stafa.  Verður ekki komist hjá því að geta þess að ákæruvaldið var, þrátt fyrir meginreglur réttarfars um munnlega og milliliðalausa málsmeðferð, mótfallið því að sumir þessara manna kæmu fyrir dóm til þess að staðfesta gögn þessi og svara spurningum um þau. 

Niðurstaða

Sem fyrr segir er í málinu lögregluskýrsla um sakbendingu 5. apríl sl. þar sem Piotr Wladsyslaw Sierakowski bar kennsl á myndir úr safni lögreglu af þremur mönnum sem hefðu komið inn í Keilufelli 35 og barið þá sem þar voru fyrir, þeim Tomaszi Krysztof Jagiela, Marcin Labuhn og Tomaszi Roch Dambski.  Þrír af verjendum ákærðu voru viðstaddir sakbendingu þessa og lögreglumaður sá sem annaðist hana hefur komið fyrir dóm og staðfest skýrsluna.  Fram er komið að vitni þetta hafi veikst alvarlega á geði eftir atburðinn og sé nú statt í heimalandi sínu.  Dómurinn álítur því að heimilt sé að byggja á þessari skýrslu í málinu, sbr. 3. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Dómurinn telur sannað með framburði ákærða Tomaszar Krysztofs Jagiela, vætti Zilvinasar Balkeviciusar og þeirra vitna, sem voru í Keilufelli 35 og Austurbergi 10 og komið hafa fyrir dóm í málinu, auk fyrrgreindrar lögregluskýrslu og þeirra sönnunargagna sem grein hefur verið gerð fyrir, að hópur manna, sem ákærði Tomasz Krysztof fór fyrir, kom akandi á bílum sem námu staðar skammt frá Keilufelli 35, um kl. 16, laugardaginn 22. mars sl.  Þaðan fóru þeir gangandi í hóp að Keilufelli 35, ruddust þar inn óboðnir, réðust á þá sem voru í stofunni á neðri hæð hússins og börðu á þeim með ýmis konar bareflum.  Telur dómurinn það sannað með játningu Tomaszar Krysztofs og vitnanna í Keilufelli 35 að mennirnir hafi staðið saman að því að ryðjast inn í húsið og ráðast á mennina.  Ákærði Tomasz Krysztof hefur haldið því fram að hann hafi verið með hafnaboltakylfu.  Það er þó ekki í samræmi við frásögn vitnanna Pawels Tomaszewski og Marcins Wasiluk sem bera það að hann hafi verið með öxina.  Þeim tveim og Piotr Wladyslaw Sierakovski ber saman um að ákærði hafi barið þá Zygmunt og Marcin.  Telst vera sannað að hann hafi barið þá tvo með öxarskallanum.  Ákærði hefur hins vegar játað að hafa beitt hafnaboltakylfu á menn þarna inni.  Telst það ekki vera útilokað og er því byggt á því að hann hafi einnig beitt slíku vopni á mennina.  Þá er áverkunum, sem hlutust af þessari árás ákærða Tomaszar Krysztofs og annarra árásarmanna, ítarlega lýst í læknisvottorðunum og vitnisburðunum í málinu.  Áverkar þeir, sem ákærði Tomasz Krysztof og liðsmenn hans veittu Bartosz Szyca, Piotr Wladyslaw Sierakowski og Zygmunt Klinkosz, voru slíkir að þeir falla undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Loks hafa vitnin í Keilufelli 35 og að nokkru leyti ákærði Tomasz Krysztof lýst áhöldunum sem beitt var í árásinni og ber lýsingu vitnanna m. a. saman við blóðuga og brotna golfkylfu sem fannst á stofugólfinu svo og sleggju og bút af steypustyrktarjárni með blóði úr sumum þeirra sem urðu fyrir árásinni, auk rörbúts, en þetta þrennt síðastnefnda fannst í bílnum EA-658, eins og fram er komið.  Jafnframt voru för í áverkunum á Grzegorz Adam Pelczar þannig útlits að þau geta verið eftir steypustyrktarjárn.  Telur dómurinn að slá megi því föstu að hér sé kominn hluti af þeim áhöldum sem mennirnir voru barðir með.  Þá er að geta þess framburðar Halldórs Péturs Andréssonar í Austurbergi 10 að mennirnir, sem komu þar að, tóku m.a. golfkylfu úr farangursgeymslu eins bílsins.  Telur dómurinn að ákærði Tomasz Krysztof og aðrir árásarmenn hafi ráðist á mennina sjö með svo hættulegum vopnum og með þeim hætti að árásin á þá alla falli einnig undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga vegna aðferðarinnar.  Sem fyrr segir teljast mennirnir allir hafa staðið saman að því að ryðjast inn í Keilufell 35 og ráðast þar á þá sem fyrir voru.  Ber ákærði Tomasz Krysztof því fulla refsiábyrgð á húsbrotinu og líkamsárás á alla þá sjö menn sem tilgreindir eru í ákærunni, enda þótt hann sé aðeins orðinn sannur að áverkum við tvo tiltekna menn.   

Þegar ákærði Marcin Labuhn var yfirheyrður um atburði laugardagsins 22. mars bar hann við minnisleysi vegna ölvunar.  Í aðalmeðferð málsins hefur hann sagt að hann muni ekki eftir ferðum sínum þennan dag, nema því að hann hafi verið í bíl á leið frá Reykjavík til Keflavíkur og verið að drekka bjór á þeirri leið.  Muni hann að lögreglan hafi stöðvað bílinn og að í bílnum hafi einnig verið Tomasz og Robert svo og Lithái nokkur.  Geti hann hugsanlega hafa komið í Keilufell 35 þennan dag.  Ákærði Robert Kulaga hefur sagst hafa, þennan dag, farið í bíl til Reykjavíkur frá Keflavík ásamt ákærðu Tomaszi Roch og Marcin og Litháanum Zilvinas Balkevicius sem ók þeim.  Þá hefur Zilvinas Balkevicius sagt, bæði í skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi, að einn af Pólverjunum sem hann ók hafi verið hávaxinn og grannur, og getur það átt við ákærða Marcin.  Loks hefur hann sagt fyrir dómi, eins og áður er komið fram, að þeir sem hann ók hafi farið úr bílnum á áfangastað og komið svo hlaupandi til baka eftir 10 – 15 mínútur.   Þá bar Piotr Wladyslaw Sierakowski kennsl á mynd af ákærða og sagði hann hafa verið í Keilufelli 35 og það liggur einnig fyrir að ákærði var í bílnum sem var stöðvaður á Reykjanesbraut og áhöldin fundust í.  Loks er að geta þess framburðar Halldórs Péturs Andréssonar í Austurbergi 10 að menn þeir, sem komu þangað í bílunum þremur, hafi allir farið úr þeim að undanskildum bílstjórunum.  Þegar þetta er allt metið telur dómurinn það alveg vafalaust að ákærði Marcin hafi verið í liði því sem ruddist inn í Keilufell 35 og barði á þeim sem þar voru fyrir.  Piotr Wladsyslaw Sierakowski hefur sagt að ákærði hafi barið sig og þá Grzegorz og Andrzej með steypustyrktarjárni og slíkt vopn fannst í bílnum sem hann var í, eins og fyrr segir.  Telst þetta málsatriði því vera sannað.  Sem fyrr segir teljast mennirnir allir hafa staðið saman að því að ryðjast inn í Keilufell 35 og ráðast þar á þá sem fyrir voru.  Ber ákærði Marcin því fulla refsiábyrgð á húsbrotinu og líkamsárásinni á alla þá sjö menn sem tilgreindir eru í ákærunni, enda þótt hann sé aðeins orðinn sannur að áverkum við tvo tiltekna menn. 

Ákærði Robert Kulaga hefur neitað því að hafa verið með í förinni í Keilufell 35.  Hann hefur þó kannast við að hafa, þann dag sem um ræðir, farið í bíl til Reykjavíkur frá Keflavík ásamt ákærðu Tomaszi Roch og Marcin og Litháanum Zilvinas Balkevicius sem ók þeim.  Ákærði Tomasz Krysztof skýrði frá því í yfirheyrslu hjá lögreglu að meðákærði Robert hefði verið með honum í íbúðinni í Keilufelli 35 en fyrir dómi dró hann þetta til baka og sagðist hafa ruglast í ríminu varðandi Robert.  Þykir dóminum vera lítið leggjandi upp úr þessari breytingu hjá ákærða Tomaszi Krysztof.  Nefndur Zilvinas hefur skýrt frá því, bæði í yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi, að hann hafi ekið vinnufélaga sínum, ákærða Robert, og tveimur öðrum Pólverjum í Keilufell með viðkomu í verslun einni.  Hafi hann tekist þetta á hendur fyrir beiðni ákærða Roberts.  Hann sagði Robert og þá hina hafa farið úr bílnum á áfangastað og komið svo hlaupandi til baka eftir 10 – 15 mínútur.  Hefur hann auk þess sagt, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði hafi verið blóðugur um hendur, en sem fyrr segir fundust ekki áverkar á honum við læknisskoðun.  Þá er að geta þess framburðar Halldórs Péturs Andréssonar í Austurbergi 10 að menn þeir, sem komu þangað í bílunum þremur, hafi allir farið úr þeim að undanskildum bílstjórunum.  Loks liggur það fyrir að ákærði var ásamt þeim hinum í margnefndum bíl þegar lögreglan stöðvaði aksturinn á Reykjanesbraut, kl. 17 þennan umrædda dag, og að í farangursgeymslunni fundust áhöldin tvö sem vikið var að hér á undan og 50 cm rörbútur úr járni.  Þegar þetta er allt metið telur dómurinn það alveg vafalaust að ákærði hafi verið í liði því sem ruddist inn í Keilufell 35 og barði á þeim sem þar voru fyrir.  Sem fyrr segir teljast mennirnir allir hafa staðið saman að því að ryðjast inn í Keilufell 35 og ráðast þar á þá sem fyrir voru.  Ber ákærði Robert því fulla refsiábyrgð á húsbrotinu og líkamsárás á alla þá sjö menn sem tilgreindir eru í ákærunni, enda þótt ekki hafi sannast á hann neinn tiltekinn áverki við einstaka menn. 

Ákærði Tomasz Roch Dambski hefur neitað sök en jafnframt hefur hann sagt að hann muni ekki eftir sér vegna ölvunar daginn sem um ræðir.  Hann hefur neitað að tjá sig frekar um sakargiftirnar í aðalmeðferð málsins.  Ákærði Tomasz Krysztof sagði í skýrslu hjá lögreglu að Tomasz Roch hefði verið með honum í íbúðinni í Keilufelli 35 en fyrir dómi dró hann þetta til baka og kvaðst fyrir mistök hafa sagt ákærða hafa verið þarna.  Þykir dóminum vera lítið leggjandi upp úr þessari breytingu hjá ákærða Tomaszi Krysztof.  Zilvinas Balkevicius hefur sagt að einn af Pólverjunum sem hann ók með hafi verið lágvaxinn og þrekinn en það getur átt við ákærða Tomasz Roch.  Hann sagði ákærða Robert og þá hina hafa farið úr bílnum á áfangastað og hafa komið hlaupandi til baka eftir 10 – 15 mínútur.  Í yfirheyrslum hjá lögreglu sagði ákærði Robert þá Tomasz Roch, Marcin og Litháann hafa farið með sér í bílferð til Reykjavíkur.  Ákærði Marcin sagðist í lögregluyfirheyrslu daginn eftir atburðinn og síðar fyrir dómi hafa farið í bíl til Reykjavíkur og aftur til Keflavíkur með Litháa nokkrum og einnig Robert og Tomaszi.  Þá liggur það fyrir að ákærði var í bílnum sem var stöðvaður á Reykjanesbraut og áhöldin fundust í.  Pawel Tomaszewski, íbúi í Keilufelli, benti á ljósmynd af Tomaszi Roch hjá lögreglu og sagðist vera “50 % viss” um að hann hefði verið einn af þeim sem ruddust inn til þeirra.  Fyrir dómi hefur hann skoðað myndir þessar aftur og sagst vera viss um þetta enda hefði hann séð mann þennan í dómhúsinu og þá þekkt hann aftur.  Marcin Wasiluk sagði í yfirheyrslu hjá lögreglu þegar að kvöldi 22. mars að hann hefði þekkt einn af árásarmönnunum því sá væri vinnufélagi hans.  Væri hann lágvaxinn, þrekinn, um fertugt og dökkhærður með skegg.  Getur þessi lýsing átt við ákærða Tomasz Roch.  Þá bar hann kennsl á ákærða af ljósmynd hjá lögreglu.  Hann kvaðst þá þekkja hann eftir að hafa unnið með honum.  Fyrir dómi hefur hann dregið þennan framburð sinn til baka og sagt að þeir sem fyrir árásinni urðu hafi talað saman eftir atburðinn og komið sér saman um að ákærði hefði verið í árásarliðinu.  Kvaðst hann ekki hafa séð hann þar.  Dóminum þykir þessi nýi framburður vitnisins vera með ólíkindum og álítur að hann eigi sér aðra skýringu en vitnið hefur gefið.  Þykir mega líta fram hjá honum og byggja á fyrri skýrslum vitnisins um þetta málsatriði.  Enn er þess að geta að Piotr Wladyslaw Sierakowski bar kennsl á mynd af ákærða sem eins af þeim sem voru í Keilufelli 35.  Þá verður að geta þess framburðar Halldórs Péturs Andréssonar í Austurbergi 10 að menn þeir sem komu þangað í bílunum þremur hafi allir farið úr þeim að undanskildum bílstjórunum.  Loks er þess að geta að margsinnis um síðdegið 22. mars sl. var samband á milli síma ákærða og síma Tomaszar Krysztofs eða reynt að hringja þá saman, bæði fyrir og eftir atburðinn í Keilufelli 35.  Þegar þetta er allt metið telur dómurinn það alveg vafalaust að ákærði hafi verið í liði því sem ruddist inn í Keilufell 35 og barði á þeim sem þar voru fyrir.  Piotr Wladsyslaw Sierakowski segir ákærða hafa barið Bartosz og Zygmunt með hafnaboltakylfu en þess er gæta að slíkt vopn fannst ekki í bílnum sem hann var handtekinn í.  Þykir því ekki alveg óhætt að telja sannað að ákærði hafi unnið það tiltekna verk.  Sem fyrr segir teljast mennirnir allir hafa staðið saman að því að ryðjast inn í Keilufell 35 og ráðast þar á þá sem fyrir voru.  Ber ákærði Tomasz Roch því fulla refsiábyrgð á húsbrotinu og líkamsárás á alla þá sjö menn sem tilgreindir eru í ákærunni, enda þótt ekki hafi sannast á hann neinn tiltekinn áverki við einstaka menn. 

Tveir hnífar fundust í bílnum margnefnda en ekkert hefur komið fram í málinu um það að þeim hafi verið beitt í árásinni.  Telst það vera ósannað. 

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Sakferill ákærðu hefur ekki þýðingu í málinu.  Þegar þeim er mæld refsing verður að hafa í huga að þeir voru í hópi manna sem tókst á hendur ferð til þess beinlínis að ráðast á þá sem heima voru í Keilufelli 35.  Þá ber ennfremur að hafa í huga að þeir fóru þangað með hættuleg vopn sem þeir beittu miskunnarlaust á varnarlausa mennina.  Loks er að líta til þess að þrír af mönnunum hlutu beinbrot þar á meðal einn þeirra lífshættulega áverka.

Refsing ákærða Marcins þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ½ ár.  Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt frá 23. mars til 14. apríl sl., samtals 29 daga.

Refsing ákærða Roberts þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ½ ár.  Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt frá 23. mars til 14. apríl sl., samtals 29 daga.

Refsing ákærða Tomaszar Krysztofs þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ½ ár.  Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt frá 28. mars sl., samtals 262 daga.

Refsing ákærða Tomaszar Rochs þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ½ ár.  Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt frá 23. mars til 14. apríl sl., samtals 29 daga.

Þeir Grzegorz Adam Pelczar, Piotr Wladyslaw Sierakowski, Bartosz Szyca, Pawel Tomaszewski, Marcin Wasiluk og Zygmunt Klinkosz, hafa allir krafist skaðabóta úr hendi ákærðu fyrir miska.  Þá hafa þeir, að Zygmunt undanteknum, krafist bóta fyrir lögfræðikostnað.  Ákærðu hafa með verknaði sínum valdið mönnum þessum miklum miska.  Þegar miski mannanna er metinn verður bæði að líta til þess hversu mjög var misgert við þá þegar hópur vopnaðra manna ruddist inn á heimili þar sem þeir ýmist sváfu eða sátu í náðum og eins til áverkanna sem ákærðu veittu þeim.  Hefur áverkum mannanna verið lýst hér að framan. 

Miskabætur til Grzegorz Adams Pelczar þykja vera hæfilega metnar 600.000 krónur og bætur fyrir lögfræðikostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, 25.000 krónur.  Þá ber að dæma ákærðu til þess að greiða almenna vexti af bótafjárhæðinni samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 22. mars sl. til 11. maí sl. en eftir það dráttarvexti samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags.

Miskabætur til Piotrs Wladyslaws Sierakowski þykja vera hæfilega metnar 650.000 krónur og bætur fyrir lögfræðikostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, 25.000 krónur. Þá ber að dæma ákærðu til þess að greiða almenna vexti af bótafjárhæðinni frá 22. mars sl. til 11. maí sl. en eftir það dráttarvexti til greiðsludags.

Miskabætur til Bartosz Szyca þykja vera hæfilega metnar 650.000 krónur og bætur fyrir lögfræðikostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, 25.000 krónur.  Þá ber að dæma ákærðu til þess að greiða almenna vexti af bótafjárhæðinni frá 22. mars sl. til 11. maí sl. en eftir það dráttarvexti til greiðsludags.

Miskabætur til Pawels Tomaszewski þykja vera hæfilega metnar 600.000 krónur og bætur fyrir lögfræðikostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, 25.000 krónur. Þá ber að dæma ákærðu til þess að greiða almenna vexti af bótafjárhæðinni frá 22. mars sl. til 11. maí sl. en eftir það dráttarvexti til greiðsludags.

Miskabætur til Marcins Wasiluk þykja vera hæfilega metnar 600.000 krónur og bætur fyrir lögfræðikostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, 25.000 krónur. Þá ber að dæma ákærðu til þess að greiða almenna vexti af bótafjárhæðinni frá 22. mars sl. til 11. maí sl. en eftir það dráttarvexti til greiðsludags.

Miskabætur til Zygmunts Klinkosz þykja vera hæfilega metnar 1.500.000 krónur en kostnaður við að halda fram kröfunni er dæmdur sem réttargæslulaun.  Þá ber að dæma ákærðu til þess að greiða almenna vexti af bótafjárhæðinni frá 22. mars sl. til 26. september sl. en eftir það dráttarvexti til greiðsludags.

Dæma ber ákærðu til þess að greiða verjendum sínum málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti sem hér segir: Marcin, Jóhannesi Albert Sævarssyni hrl., 1.030.000 krónur, Robert, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 1.140.000 krónur, Tomasz Krysztof, þeim Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 1.080.000 krónur og Erlendi Þór Gunnarssyni hdl. 480.000 krónur, Tomasz Roch Dambski, þeim Fróða Steingrímssyni hdl., 660.000 krónur og Sveini Andra Sveinssyni hrl., 350.000 krónur.

Dæma ber ákærðu til þess óskipt að greiða réttargæslulaun að meðtöldum virðisaukaskatti sem hér segir: Feldísi L. Óskarsdóttur hdl., réttargæslumanni Zygmunts Klinkosz, 500.000 krónur og Grími Sigurðarsyni hdl., réttargæslumanni Bartoszar Szyca, Grzegorz Adams Pelczar, Marcins Wasiluk, Pawels Tomaszewski og Piotrs Wladyslaws Sierakowski, 400.000 krónur. 

Loks ber að dæma ákærðu til þess að greiða óskipt 499.300 krónur í annan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson, Eggert Óskarsson og Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærðu, Marcin Labuhn, Robert Kulaga og Tomasz Roch Dambski, sæti hver um sig fangelsi í 2 ½ ár.  Frá refsingu hvers þeirra dregst 29 daga gæsluvarðhaldsvist.

Ákærði, Tomasz Krysztof Jagiela sæti fangelsi í 3 ½ ár.  Frá refsingu hans dregst 262 daga gæsluvarðhaldsvist.

Ákærðu greiði óskipt Grzegorz Adam Pelczar 625.000 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 22. mars 2008 til 11. maí 2008 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærðu greiði óskipt Piotr Wladyslaw Sierakowski 675.000 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 22. mars 2008 til 11. maí 2008 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærðu greiði óskipt Bartosz Szyca 675.000 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 22. mars 2008 til 11. maí 2008 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærðu greiði óskipt Pawel Tomaszewski 625.000 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 22. mars 2008 til 11. maí 2008 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærðu greiði óskipt Marcin Wasiluk 625.000 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 22. mars 2008 til 11. maí 2008 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærðu greiði óskipt Zygmunt Klinkosz 1.500.000 krónur ásamt almennum vöxtum frá 22. mars 2008 til 26. september 2008 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærðu greiði verjendum sínum málsvarnarlaun sem hér segir: Marcin, Jóhannesi Albert Sævarssyni hrl., 1.030.000 krónur, Robert, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 1.140.000 krónur, Tomasz Krysztof, þeim Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 1.080.000 krónur og Erlendi Þór Gunnarssyni hdl. 480.000 krónur og Tomasz Roch, þeim Fróða Steingrímssyni hdl., 660.000 krónur og Sveini Andra Sveinssyni hrl., 350.000 krónur.

Ákærði greiði óskipt réttargæslulaun sem hér segir: Feldísi L. Óskarsdóttur hdl., réttargæslumanni Zygmunts Klinkosz, 500.000 krónur og Grími Sigurðarsyni hdl., réttargæslumanni Bartoszar Szyca, Grzegorz Adams Pelczar, Marcins Wasiluk, Pawels Tomaszewski og Piotrs Wladyslaws Sierakowski, 400.000 krónur. 

Ákærðu greiði óskipt 499.300 krónur í annan sakarkostnað.