Hæstiréttur íslands

Mál nr. 524/2006


Lykilorð

  • Kjarasamningur
  • Uppsögn


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. mars 2007.

Nr. 524/2006.

Innnes ehf.

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Hlöðveri Hlöðverssyni

(Lára Júlíusdóttir hrl.)

 

Kjarasamningur. Uppsögn.

Í málinu krafðist H greiðslu fjögurra mánaða launa í uppsagnarfresti úr hendi I. H sem var starfsmaður I var vikið fyrirvaralaust úr starfi með bréfi 30. september 2004. I tókst ekki sönnun þess að háttsemi H hefði valdið því að slík fyrirvaralaus uppsögn væri heimil. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að H ætti rétt á fjögurra mánaðar uppsagnarfresti á grundvelli kjarasamnings stéttarfélagsins Eflingar, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingar lífeyrisréttinda. Var krafa H um greiðslu vangoldinna launa því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara lækkunar á henni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi hafði starfað hjá Rydenskaffi hf. og síðar áfrýjanda í tæpa þrjá áratugi. Eins og fram kemur í héraðsdómi er ágreiningslaust að hann starfaði sem launþegi en ekki verktaki hjá fyrirtækjunum þrátt fyrir að uppsagnarbréf áfrýjanda 30. september 2004 hafi miðað við að svo væri og uppsögn stefnda látin taka gildi fyrirvaralaust án frekari skýringa í bréfinu. Í héraðsdómi eru raktar skýrslur nokkurra núverandi og fyrrverandi samstarfsmanna stefnda sem áfrýjandi telur sanna að stefndi hafi verið ölvaður við störf sín á því tímabili sem máli getur skipt. Ekki er fallist á með áfrýjanda að með framburðinum hafi sú sönnun tekist. Þá hefur áfrýjandi við flutning málsins fyrir Hæstarétti ekki andmælt því að miða beri við kjarasamning stéttarfélagsins Eflingar um réttarstöðu stefnda, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Hlöðvers Hlöðverssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 500.000 krónur.

Áfrýjandi, Innnes ehf., greiði í ríkissjóð málskostnað fyrir Hæstarétti 500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2006.

             Mál þetta höfðaði Hlöðver Hlöðversson, kt. 240949-2379, Þorláksgeisla 45, Reykjavík, með stefnu birtri í febrúar 2006 á hendur Innnesi ehf., kt. 650387-1399, Fossaleyni 21, Reykjavík.  Málið var dómtekið 16. fyrra mánaðar.

             Stefnandi krefst greiðslu á 1.374.628 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 343.657 krónum frá 1. nóvember 2004 til 1. desember 2004, af 687.314 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2005, af 1.030.971 krónu frá þeim degi til 1. febrúar 2005, en af 1.374.628 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn 7. mars sl.

             Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, til vara lækkunar á kröfum hans.  Þá krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt reikningi að fjárhæð 525.000 krónur. 

             Stefnandi réðst til starfa hjá Rydens-kaffi hf. á árinu 1978 og starfaði þar samfellt þar til rekstur félagsins var seldur stefnda, Innnesi, í janúar 2003.  Hann starfaði hjá stefnda til 30. september 2004.  Þann dag var honum sagt upp störfum.  Var honum afhent uppsagnarbréf, en megintexti þess er svohljóðandi:  „Með bréfi þessu segir Innnes upp þeim verktakasamningum við Hlöðver Hlöðversson kt. 240949-2379 bæði munnlegum og skriflegum.  Þar sem um verktakasamning er að ræða tekur uppsögnin gildi í dag...”

             Stefnandi var, eins og áður segir, ráðinn til Rydens-kaffis á árinu 1978.  Aðilar byggja báðir á því í málflutningi sínum að í gildi hafi verið samningur sem aðilar gerðu 5. mars 1996.  Samningurinn er nefndur Ráðningar- og starfssamningur og þar er stefnandi ráðinn sem þjónustustjóri, starfssvið hans skýrgreint og laun ákveðin.  Tekið er fram að hann sé ráðinn sem verktaki.  Þá segir að uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir. 

             Ekki er getið um ástæður uppsagnar í uppsagnarbréfinu.  Fram kom í aðila­skýrslu stefnanda að er honum var afhent bréfið hefði sér verið sagt að ástæða upp­sagnarinnar væri áfengisdrykkja hans. 

             Stefnandi hætti strax störfum.  Hann bar í skýrslu sinni fyrir dómi að sama dag hefði hann fengið taugaáfall og verið lagður inn á sjúkrahús.  Er hann kom af sjúkrahúsi í byrjun nóvember átti hann fund með stjórnendum stefnda sem buðu honum breytt starf með lægri launum.  Frammi liggur uppkast að nýjum ráðningar­samningi. 

             Stefnandi leitaði ekki til lögmanns fyrr en löngu síðar.  Ritaði lögmaður fyrir hann innheimtubréf 9. maí 2005.  Þar er krafist verktakagreiðslna í þrjá mánuði og vísað í áðurnefndan ráðningarsamning. 

             Lögmaður stefndu svaraði innheimtubréfinu 30. maí 2005.  Þar er fullyrt að samningur stefnanda við Rydens-kaffi hafi ekki gildi gagnvart stefnda.  Þá er fullyrt að stefnandi hafi ítrekað mætt drukkinn til vinnu og þannig vanefnt munnlegan samning aðila.  Hafi hann fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests. 

             Stefnandi staðfesti í skýrslu sinni fyrir dómi að Kristján Orri Ágústsson hefði gert við sig athugasemd um að það væri vínlykt af honum.  Hann kvað það geta verið, en ölvaður hefði hann ekki verið.  Hann hefði aldrei drukkið í vinnunni.  Kristján Orri hefði ekki minnst á uppsögn í samtali þeirra.  Er honum var sagt upp störfum hefði hann verið kallaður inn til þeirra Haraldar Jónssonar og Þóris Baldurssonar.  Þetta hafi verið á föstudegi, hann hafi verið að mæta til vinnu eftir frí.  Þeir hafi sagt sér að hann yrði að fara af því að hann væri alltaf drukkinn í vinnunni.  Það væri kvartað yfir því.  Sér hafi verið gert að yfirgefa vinnustaðinn strax.  Síðar þennan dag hefði hann fengið taugaáfall og verið lagður inn á geðdeild.  Hann hefði verið þar nærri þrjár vikur. 

             Aðspurður kvaðst stefnandi aldrei hafa verið drukkinn í vinnunni og að það hefði aldrei verið kvartað við sig. 

             Stefnandi sagði að eftir að hann kom af sjúkrahúsi hefði sér verið boðið breytt starf, hluti af því sem hann hefði gert áður.  Sér hefði ekki verið leyft að fara með upp­kast af samningnum með sér til að fara yfir og því hefði ekki orðið af þessari ráðningu.  Hann kvaðst hafa verið atvinnulaus frá því að stefndi sagði honum upp. 

             Haraldur Jónsson fjármálastjóri stefnda gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa hafið störf hjá stefnda haustið 2003.  Hann sagðist hafa heyrt sögusagnir um að það væri lykt af stefnanda.  Síðan kvað hann Kristján Orra Ágústsson hafa veitt honum áminningu eftir kvörtun frá viðskiptavini.  Kristján Orri hafi sagt sér að hann hefði bannað stefnanda að fara út á bílnum þann dag.  Síðar sama ár hefði komið önnur kvörtun frá viðskiptavini, sem starfsmenn hefðu sagt sér frá.  Hann sagði að á fundinum 9. nóvember hefði stefnanda verið boðið nýtt starf hjá félaginu.  Hann kvaðst hafa kannað hvort stefnandi væri með skriflegan ráðningarsamning.  Það hafi verið talið að svo væri, en samningurinn hefði ekki fundist.  Haraldur kvaðst, er stefnanda var sagt upp, ekki hafa vitað að hann hefði uppsagnarfrest. 

             Haraldur kvaðst ekki geta boðið sínum undirmönnum upp á það að starfsmenn væru drukknir á bifreið fyrirtækisins. 

             Kristján Orri Ágústsson, forstöðumaður hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa verið rekstrarstjóri og yfirmaður stefnanda.  Hann kvaðst muna sérstaklega eftir einu tilviki er áfengislykt hafi verið af stefnanda og hafi hann veitt honum tiltal.  Hann kvaðst hafa sagt honum að hann yrði að taka sig á, ella myndi hann missa vinnuna.  Stefnandi hafi sagt að hann hefði ekki verið að drekka.  Þetta hafi verið strax um morgun, milli klukkan átta og níu, snemma árs 2004.  Sérstaklega aðspurður kvaðst hann ekki hafa áminnt stefnanda skriflega. 

             Hermann Ástvaldsson, fyrrum starfsmaður Rydens-kaffis, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa hætt hjá fyrirtækinu í nóvember 2002.  Hann hefði verið næsti yfirmaður stefnanda.  Hermann sagði að oftar en einu sinni hafi verið áfengis­lykt af stefnanda.  Einu sinni hefði borist kvörtun frá viðskiptavini.  Þá hefðu hann og Gísli Örn Jónsson framkvæmdastjóri rætt við stefnanda um þetta.  Í framhaldi af því hefði hann farið í áfengismeðferð. 

             Haraldur Björnsson, starfsmaður hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa orðið var við oftar en einu sinni að áfengislykt væri af stefnanda.  Einu sinni hefði starfsmaður fyrirtækis sagt sér að hann hefði kvartað við yfirmann stefnanda.  Sjálfur hefði hann orðað það svo í samtölum við stefnanda að það væri slæmt að missa bílprófið. 

             Þórir Baldursson, framkvæmdastjóri Rydens-kaffis, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst kannast við að það hafi verið áfengislykt af stefnanda er hann starfaði hjá Rydens-kaffi, en hann kvaðst ekki hafa vitað til þess að hann hefði verið drukkinn í vinnunni. 

             Hannes Jóhannesson gaf skýrslu fyrir dómi, en hann var samstarfsmaður stefnanda.  Hann kvaðst ekki hafa séð að stefnandi hafi drukkið í vinnu.  Einu sinni hefði hann neitað að fara út með stefnanda þar sem hann taldi að hann væri ölvaður. 

             Málsástæður og lagarök stefnanda. 

             Stefnandi kveðst byggja á almennum reglum vinnuréttar og lögum nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. 

             Stefnandi telur að efni ráðningarsamningsins feli í sér að hann hafi verið laun­þegi hjá Rydens-kaffi og síðar stefnda.  Er stefndi yfirtók rekstur Rydens-kaffis 1. janúar 2003 hafi hann jafnframt tekið yfir ráðningarsamning stefnanda.  Byggist það á 3. gr. áðurnefndra laga nr. 72/2002. 

             Þá vísar stefnandi til þess að í samningi aðila sé uppsagnarfrestur ákveðinn þrír mánuðir.  Í samningnum sé jafnframt almenn tilvísun til kjarasamninga.  Rétt sé í þessu tilviki að miða við kjarasamning Eflingar.  Samkvæmt gr. 12.5 eigi starfsmaður, sem orðinn sé 55 ára gamall, rétt á fjögurra mánaða uppsagnarfresti eftir 10 ár hjá sama vinnuveitanda.  Stefnandi hafi verið orðinn 55 ára er honum var sagt upp. 

             Í stefnu er því mótmælt að áfengisneysla hafi haft áhrif á störf stefnanda og sagt að hann kannist ekki við að hafa verið áminntur vegna þess. 

             Upphaflega krafðist stefnandi greiðslu á fjögurra mánaða launum miðað við að laun hvern mánuð væru 427.853 krónur.  Við aðalmeðferð lækkaði stefnandi kröfu sína þar sem virðisaukaskattur væri innifalinn í áðurnefndri fjárhæð.  Segir hann nú að laun hvern mánuð hafi numið 343.657 krónum og krefst því greiðslu á 1.374.628 krónum.  Hann krefst dráttarvaxta af launum hvers mánaðar frá gjalddaga hverrar greiðslu. 

             Málsástæður og lagarök stefnda. 

             Í greinargerð var krafist frávísunar málsins, en fallið var frá þeirri kröfu við fyrirtöku.

             Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ítrekað verið ölvaður í vinnu sinni og m.a. ekið ölvaður á bíl fyrirtækisins.  Hafi hann stofnað öryggi sínu og annarra í hættu og skrumskælt ímynd fyrirtækisins.  Stefnandi hafi oft fengið viðvörun frá yfir­mönnum sínum og verið hótað fyrirvaralausri uppsögn ef hann léti ekki af áfengis­neyslu á vinnustað.  Stefnandi hafi ekki breytt siðum sínum og því kveðst stefndi hafa neyðst til að segja honum upp. 

             Stefndi telur að vegna framferðis stefnanda hafi sér verið heimilt að segja honum upp fyrirvaralaust.  Stefnandi hafi með framferði sínu fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests.  Forsendur hafi brostið fyrir störfum hans.  Hann hafi ekki getað sinnt starfi sínu drukkinn á bifreið fyrirtækisins.  Stefndi segir að sér hafi verið nauðugur sá kostur að segja stefnanda upp án fyrirvara.  Aðgerð sín hafi byggst á neyðarrétti í þeirri viðleitni að tryggja öryggi.  Vísar stefnandi hér til gr. 7.3.3. í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar o.fl. verkalýðsfélaga.

             Þá telur stefndi að stefnandi hafi vanefnt samning við sig með framferði sínu.  Heimilt hafi verið að segja honum upp, enda hefði hann oft verið varaður við. 

             Varakröfu um lækkun stefnukrafna styður stefndi við það að stefnandi geti ekki átt rétt til lengri uppsagnarfrests en þriggja mánaða, svo sem beinlínis sé tekið fram í samningnum. 

             Í greinargerð var einnig gerð athugasemd við að virðisaukaskattur væri innifalinn í stefnukröfu, en þess væri að engu getið.  Þessi athugasemd á ekki við eftir að stefnandi lækkaði kröfur sínar. 

             Þá byggir stefndi á því að hann hafi boðið stefnda annað starf á fundi 8. nóvember 2004.  Því boði hafi stefnandi hafnað.  Geti hann því ekki átt rétt á launum í uppsagnarfresti lengur en til þess dags. 

             Loks er í greinargerð skorað á stefnanda að leggja fram gögn um laun er hann hafi haft á uppsagnarfrestinum. 

             Stefndi vísar til meginreglna samningaréttar um vanefndir og riftun samninga vegna brostinna forsendna og ómöguleika.  Þá nefnir hann meginreglur um neyðarrétt til að forða tjóni. 

             Forsendur og niðurstaða. 

             Stefnanda var sagt upp störfum með einfaldri tilkynningu.  Af texta tilkynningarinnar kemur fram að stefndu hafa talið að stefnandi væri verktaki og hefði ekki uppsagnarfrest.  Fram kom í skýrslutökum að forsvarsmenn stefnda höfðu ekki undir höndum ráðningarsamning stefnanda og virðist þeim hafa verið ókunnugt um ákvæði hans um uppsagnarfrest. 

             Stefndi mótmælir því ekki að stefnandi hafi í reynd verið launþegi og að hann hafi verið bundinn af skriflegum ráðningarsamningi er Rydens-kaffi hafði gert við stefnanda. 

             Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi með vanefndum á ráðningarsamningi fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests.  

             Í lögum nr. 19/1979 er ekki veitt bein heimild til fyrirvaralausra slita ráðningarsamnings.  Almenna reglan er sú að slíkum samningum skal sagt upp með ákveðnum fyrirvara.  Í fræðunum er þó talið að slík heimild sé til.  Í sjómannalögum nr. 35/1985 er að finna heimildir í 23. og 24. gr. til fyrirvaralausra slita.  Má lýsa þeim reglum með orðunum veruleg vanefnd og brostnar forsendur.  Eru þessar heimildir taldar gilda í öllum vinnusamningum, þannig að unnt sé að slíta þeim fyrirvaralaust við aðstæður sem lýsa má með þessum hugtökum. 

             Stefnanda var aldrei veitt skrifleg áminning.  Sannað er með skýrslum for­svarsmanna stefnda og vitna að honum hefur verið veitt tiltal, sennilega oftar en einu sinni.  Tæmandi upplýsingar um hvað var nákvæmlega sagt í þeim samtölum liggja ekki fyrir.  Því er hins vegar ekki haldið fram að gerð hafi verið breyting á ráðningar­kjörum stefnanda. 

             Ósannað er að stefnandi hafi ítrekað verið ölvaður í starfi.  Í einu tilviki er sannað nægilega að stefnandi hafi verið ölvaður, er samstarfsmaður hans vildi ekki fara með honum í bíl.  Ekki er upplýst nákvæmlega hvenær þetta var. 

             Þessi óvissa um hvenær atvik áttu sér stað gerir málatilbúnað stefnda heldur ótrúverðugan.  Til hliðsjónar má vísa til 2. mgr. 24. gr. sjómannalaga, en vilji skip­stjóri víkja skipverja fyrirvaralaust úr skiprúmi hefur hann almennt sjö daga frest til þess.  Einnig má vísa til fordæmis í hrd. 1990-1427.  Þessi regla er í samræmi við almennar meginreglur.  Í viðvarandi samningssamböndum verður aðili að beita riftunarheimildum innan hæfilegs tíma, ella er litið svo á að þær falli niður.

             Stefndi hefur ekki bent á sérstakt atvik sem átt hafi sér stað skömmu áður en hann sagði stefnanda upp störfum.  Þó honum hafi einhvern tímann verið veitt tiltal breytir það ekki ráðningarkjörum, þ.á m. ákvæðum um uppsagnarfrest.  Er því ósannað að stefnda hafi hinn 30. september 2004 verið heimilt að segja stefnanda upp störfum fyrirvaralaust.  Þá er ósannað að uppsögnin geti helgast af einhvers konar neyðarrétti. 

             Stefnanda var sagt upp fyrirvaralaust og getur síðara boð stefnda um annað starf með öðrum launakjörum ekki breytt neinu í þessu máli.  Stefnandi krefst þess að uppsagnarfrestur verði reiknaður í samræmi við ákvæði í kjarasamningi stéttar­félagsins Eflingar.  Af framlögðum launaseðlum er ekki að sjá að stefnandi hafi verið í stéttarfélagi, en stefndi hefur sjálfur í málatilbúnaði sínum vísað til þessa kjara­samnings.  Verður því að kröfu stefnanda að beita ákvæði hans um starfslok í grein 12.5.  Samkvæmt því átti stefnandi rétt á fjögurra mánaða uppsagnarfresti.  Verður endanleg dómkrafa stefnanda því tekin til greina, með vöxtum eins og krafist er. 

             Stefnanda var veitt gjafsókn 7. mars 2006.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda ákveðst samtals 400.000 krónur, en þá er tekið tillit til virðisaukaskatts.  Eftir úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs, 325.000 krónur. 

             Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

             Stefndi, Innnes ehf., greiði stefnanda, Hlöðveri Hlöðverssyni, 1.374.628 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 343.657 krónum frá 1. nóvember 2004 til 1. desember 2004, af 687.314 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2005, af 1.030.971 krónu frá þeim degi til 1. febrúar 2005, en af 1.374.628 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

             Stefndi greiði 325.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.