Hæstiréttur íslands
Mál nr. 100/2006
Lykilorð
- Bifreið
- Árekstur
- Sakarskipting
|
|
Fimmtudaginn 2. nóvember 2006. |
|
Nr. 100/2006. |
Rúnar Þröstur Grímsson og Jóna Magnúsdóttir (Jón Einar Jakobsson hdl.) gegn Þorleifi Jónssyni og Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) og gagnsök |
Bifreiðir. Árekstur. Sakarskipting.
Þann 16. janúar 2004 varð árekstur bifreiða, sem ekið var suður Kringlumýrarbraut í Reykjavík. R ók bifreið sinni á miðakrein, af þremur akreinum, en ákvað að skipta yfir á vinstri akrein þar sem mun minna var af ökutækjum og umferðin gekk greiðar. Þ sagðist ekki hafa átt von á að ökutæki væri ekið svo skyndilega út á þá akrein sem hann ók um og keyrði hann því aftan á bifreið R. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, segir að meginorsök harkalegs áreksturs bifreiðanna hafi verið sú að R hafi ekki gætt þess áður en hann skipti um akrein að ganga úr skugga um að það væri að teknu tilliti til aðstæðna unnt án hættu fyrir aðra, sbr. 2. mgr. 17. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hins vegar var talið að Þ hefði mátt búast við að bifreiðar skiptu yfir á vinstri akreinina, líkt og hann hafði sjálfur gert skömmu fyrir áreksturinn. Einnig þótti sýnt að áreksturinn hefði að hluta orsakast af því að Þ hefði ekið of hratt miðað við aðstæður. Var sök hans því metin að einum þriðja en R og J báru tvo þriðju hluta sakarinnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2006. Þau krefjast þess aðallega að viðurkennd verði full og óskipt skaðabótaábyrgð gagnáfrýjenda vegna tjóns sem aðaláfrýjendur urðu fyrir við árekstur bifreiðanna NT 156 og YH 670 á Kringlumýrarbraut í Reykjavík 16. janúar 2004. Til vara krefjast þau að viðurkennt verði að bótaskyldu skuli skipt með aðilum þannig að bótaábyrgð gagnáfrýjenda verði aukin frá niðurstöðu héraðsdóms. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu fyrir sitt leyti 10. apríl 2006. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjenda og málskostnaðar á báðum dómstigum. Til vara krefjast þeir staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram ný gögn, meðal annars greinargerð Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors í vélaverkfræði þar sem hann svarar nokkrum spurningum aðaláfrýjenda um slysið 16. janúar 2004. Af hálfu gagnáfrýjenda er því mótmælt að greinargerðin hafi þýðingu í málinu þar sem hún sé byggð á umdeilanlegum forsendum sem meðal annars varði aðstæður á vettvangi. Vegna mótmæla af hálfu gagnáfrýjenda er ekki unnt að reisa niðurstöðu málsins á greinargerð þessari.
Veðurskilyrðum er lýst í gögnum málsins og kölluðu þau á sérstaka aðgát vegfarenda. Ekki verður talið að aðaláfrýjendum hafi tekist sönnun um að bifreiðinni YH 670 hafi verið ekið á svo miklum hraða miðað við aðstæður að fella beri alla sök á ökumann hennar. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að ökumaður bifreiðarinnar NT 156 eigi meginsök á árekstrinum og verður staðfest sú sakarskipting sem þar var ákveðin.
Af gögnum málsins má ráða að vitni að árekstri bifreiðanna og aðdraganda hans kunni að hafa verið að finna meðal ökumanna og farþega bifreiða sem óku á eftir bifreið aðaláfrýjenda á miðakrein götunnar. Ekki verður séð að slíkra vitna hafi verið leitað þegar lögregla rannsakaði tildrög áreksturs bifreiðanna. Rannsókninni er áfátt að þessu leyti. Með hliðsjón af þessu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2005.
Mál þetta var höfðað 9. maí 2005 og dómtekið 8. þ.m.
Stefnendur eru Rúnar Þ. Grímsson og Jóna Magnúsdóttir, bæði til heimilis Hegranesi 5, Garðabæ.
Stefndu eru Þorleifur Jónsson, Básbryggju 37, Reykjavík og Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6, Reykjavík.
Stefnendur krefjast þess að viðurkennd verði skylda stefndu in solidum til greiðslu bóta vegna umferðarslyss og árekstrar bifreiðanna NT-156 og YH-670 og fleiri bifreiða þann 16. janúar 2004 en til vara að sök og bótaskyldu verði skipt með eigendum bifreiðanna. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra en til vara að sök verði skipt og málskostnaður felldur niður.
I
Þann 16. janúar 2004 varð árekstur bifreiða, sem var ekið suður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, sunnan göngubrautar yfir Fossvoginn. Í hlut áttu bifreiðarnar (1) NT-156, Crysler Intrepid, eign stefnanda Jónu Magnúsdóttur sem var farþegi í umrætt sinn en stefnandinn Rúnar Þ. Grímsson var ökumaður, (2) YH-670, Porsche Cayenne, eign stefnda Þorleifs Jónssonar, sem ók henni í umrætt sinn, og var hún tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., (3) NR-719 og (4) LV-831. Óumdeilt er að ökumenn tveggja síðarnefndu bifreiðanna áttu ekki sök á óhappinu en ágreiningur er um sök ökumanna bifreiðanna NT-156 og YH-670.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík fóru lögreglumenn á vettvang kl. 17.43 föstudaginn 16. janúar 2004 samkvæmt beiðni lögreglunnar í Kópavogi.
Akstursskilyrðum er lýst þannig að myrkur hafi verið en góð lýsing, snjókoma og vegurinn hafi verið blautur og á honum ísing.
Undir fyrirsögninni „Atvikalýsing“ segir: „Öllum 4 ökutækjum var ekið til suðurs Kringlumýrarbraut. Ökutækjum 1, 3 og 4 var ekið á miðakrein af þrem en ökutæki 2 var ekið á akrein til hliðar vinstra megin (innst). Ökutækin 1, 3 og 4 voru kyrrstæð eða því sem næst í mikilli röð ökutækja. Ökutæki 2 var ekið á akrein þar sem mun minna var af ökutækjum.“ Samkvæmt vettvangsuppdrætti sneri bifreiðin NT-156 öndvert við akstursstefnu og bifreiðin YH-670 var uppi á umferðareyju sem aðskilur vegarhelmingana, þ.e. fyrir umferð til suðurs og norðurs. Því er lýst að mikið tjón hafi orðið á þessum bifreiðum; að aftanverðu (samkvæmt ljósmynd á vinstra afturhorni) og hægra framhorni á bifreiðinni NT-156 og hægra megin að framan á bifreiðinni YH-670. Lítið tjón er sagt hafa orðið á hinum tveimur bifreiðunum. Samkvæmt læknisvottorði Björgvins Magnúsar Óskarssonar, dags. 12. febrúar 2004, fékk stefnandinn Rúnar mikinn slink á háls og herðar og hafi hann síðan haft stöðugan verk í hálsi, herðum, öxlum og handleggjum, meira hægra megin. Ekki sé hægt að spá fyrir um afleiðingar slyssins. Hann hafi svarað vel meðferð með deyfingum og nálastungu. Oft komi fram afleiðingar slíkra “whiplash” slysa löngu síðar.
Í lögregluskýrslunni er haft eftir stefnandanum Rúnari að hann hafi ekið suður Kringlumýrarbraut á miðakrein og fyrir framan hann hafi verið fjöldi ökutækja sem fóru afar hægt yfir eða við það að vera kyrrstæð. Hann hafi gefið stefnumerki um breytingu á fyrirhuguðum akstri, litið í hliðarspegli og séð bifreiðina YH-670 langt fyrir aftan sig að hann taldi og því ákveðið að aka yfir á akreinina til hliðar við sig vinstra megin því að þar hafi verið mun minni umferð. Þegar hann hafi verið kominn á þá akrein og ekið töluverða vegalengd hafi hann ekki vitað fyrr en mikið og þungt högg hafi skollið á bifreið hans aftanverða. Hann hafi misst gjörsamlega stjórn á bifreiðinni sem hafi farið í tvo hringi við höggið og lent á vinstri hlið bifreiðarinnar NR-719.
Stefndi Þorleifur var ekki á vettvangi er lögreglan kom þar og hringdi lögreglumaðurinn, sem gerði skýrsluna, til hans um kvöldið. Hann kvaðst hafa verið á leið í Kópavog og ekið suður Kringlumýrarbraut. Hann hafi ekið eftir miðakreininni í röð fjölda ökutækja, sem fóru mjög hægt yfir, og hafi hann skipt um akrein og ekið á innstu akrein af þrem. Þar sem hann hafi tekið eftir því að til hliðar við sig á hinum akreinunum hafi verið mikil og mjög hæg umferð og sum ökutækin kyrrstæð „átti ég ekki von á að ökutæki væri ekið svona skyndilega út á þá akrein sem ég ók um og allt í einu sé ég að ökumaður í ökutæki 1 ekur út úr röðinni og í veg fyrir ökutæki mitt.“ Hann hafi hemlað, beygt til vinstri og ætlað að komast upp á eyju, sem skilur akstursáttirnar að, en þar sem yfirborð vegarkaflans hafi verið ísilagt hafi hann ekki náð að afstýra árekstri. Bifreið hans hafi skollið aftan á bifreiðinni NT-156 með þeim afleiðingum að hún hafi farið í það minnsta í tvo hringi og skollið á bifreiðinni NR-719 sem hafi verið kyrrstæð eða því sem næst á miðakreininni.
Í lögregluskýrslunni segir að ökumaður bifreiðarinnar NR-719, Ása Þórsdóttir, hafi verið farin af vettvangi með ungbörn í samráði við lögregluna í Kópavogi. Á vettvangi hafi verið farþeginn Ágúst, eiginmaður Ásu. Hann hafi sagst hafa setið í farþegasæti við hlið Ásu sem hafi ekið. Þau hafi verið kyrrstæð eða því sem næst í röð fjölda ökutækja á miðakrein Kringlumýrarbrautar til suðurs. Allt í einu hafi þau heyrt mikinn hávaða, aðeins fyrir aftan þau að hann teldi, eins og um árekstur væri að ræða og um leið hafi bifreiðin NT-156 skollið á bifreið þeirra aftanverða, snúist síðan í heilan hring á akreininni og lent aftur á bifreið þeirra og þá á framanvert vinstra framhorn. Síðan hafi bifreiðin NT-156 kastast stjórnlaust aftan á bifreiðina LV-831 sem hafi verið kyrrstæð eða því sem næst fyrir framan bifreið þeirra hjóna. Þá segir í skýrslunni að Ágúst hafi hringt í „skýrslugeranda“ að kvöldi sama dags. Hann hafi þá verið búinn að ræða atburðinn við Ásu, konu sína, og hafi hún sagst hafa séð þegar ökumaður bifreiðarinnar NT-156 hafi ekið af miðakrein og yfir á innstu akreinina rétt áður en áreksturinn varð.
Ágreiningi aðila um sök og þar með bótaskyldu var skotið til tjónanefndar tryggingafélaganna og síðan til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og var niðurstaða þeirra beggja sú að ökumaður NT-156 hafi átt alla sök á árekstrinum og segir um það í áliti úrskurðarnefndarinnar: „Af fyrirliggjandi gögnum og framburði vitna verður ekki annað ráðið en að A (NT-156) hafi ekið í veg fyrir B (YH-670) þegar hann skipti um akrein þannig að B átti ekki möguleika á því að forða árekstri.“
II
Um aðild er af hálfu stefnenda vísað til 18. gr. og 19. gr. laga nr. 91/1991 og 90. gr. og 97. gr. laga nr. 50/1987. Stefnandi Rúnar mótmæli að hann hafi „skyndilega“ sveigt bifreið sinni yfir á akreinina til vinstri heldur hafi hann ekið hægt og varlega í umrætt sinn. Á hinn bóginn hafi stefndi Þorleifur bersýnilega ekið of hratt og óvarlega miðað við aðstæður og orðið þannig valdur að tjóninu, sbr. 1. og 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, einkum að því er tekur til þess að sérstök skylda hvíli á ökumanni að aka nægilega hægt miðað við aðstæður þegar vegur er blautur eða háll. Samkvæmt lögregluskýrslu hafi stefndi Þorleifur gert sér grein fyrir að á miðakrein var þétt umferð sem fór hægt yfir og sjálfur hafi hann sveigt skömmu áður yfir á ystu akrein til vinstri. Hann hafi því mátt gera sér grein fyrir að aðrir gripu til sama ráðs. Bifreið stefnda hafi lent aftan á bifreið stefnenda sem sýni að bifreið stefnenda hafi ekki verið sveigt í veg fyrir stefnda heldur verið komin áleiðis eftir vinstri akrein þegar árekstur varð. Sú staðreynd og ekki síst sú játning stefnda Þorleifs að ísing hafi ráðið því að honum tókst ekki að draga úr hraða bifreiðar sinnar eða hemla og afstýra þar með árekstri sýni berlega fram á að stefndi eigi alla sök á
árekstrinum. Þá megi og draga þá ályktun að hraði á bifreið stefnda hafi verið of mikill miðað við aðstæður þegar litið sé til þess hve áreksturinn var harður og tjón mikið á bifreiðunum.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnenda er gerð varakrafa um að sök verði skipt með aðilum enda líti stefnendur svo á að ekki sé unnt að sýkna stefndu.
III
Sýknukrafa stefndu er reist á því að í umrætt sinn hafi stefnandi Rúnar ekið bifreiðinni NT-156 í veg fyrir bifreiðina YH-670 og eigi því sök á hvernig fór, sbr. 2. mgr. 17. gr. umferðarlaga: „Ökumaður skal, áður en hann ekur af stað frá vegarbrún, skiptir um akrein eða ekur á annan hátt til hliðar, ganga úr skugga um að það sé unnt án hættu eða óþarfa óþæginda fyrir aðra. Sama er ef ökumaður ætlar að stöðva ökutæki eða draga snögglega úr hraða þess.“ Ljóst sé að stefnandi (stefnendur) hafi sönnunarbyrði um að það, sem hann (þeir) haldi fram varðandi atburðarásina í umrætt sinn, teljist sannað. Sú sönnun hafi ekki tekist. Sérstaklega er mótmælt þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi ekið bifreið sinni töluverða vegalengd eftir innstu akreininni áður en árekstur varð enda fái hún ekki stuðning í gögnum málsins. Tilvísun í 36. gr. umferðalaga eigi ekki við í málinu þar sem ekki hafi verið um að ræða hindrun sem gera mátti ráð fyrir. Þvert á móti hafi stefnandi tekið sig skyndilega út úr röð bifreiða og skipt um akrein í veg fyrir YH-670 sem stefndi Þorleifur hafi ekið eftir aðalbraut á eðlilegum umferðarhraða og átt sér einskis ills von. Stefnandi hafi ekki gætt þeirrar meginreglu umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 4. gr.umferðarlaga, að sýna öðrum ökumönnum fyllstu tillitssemi í hvívetna í umrætt sinn en rík ástæða hafi verið til þess í ljósi akstursskilyrða, þ.e. ísingar og hálku.
Varakrafa stefndu um lækkun byggist á því að fallist dómurinn ekki á sýknukröfuna hljóti þau rök, sem sett séu fram henni til stuðnings, a.m.k. að leiða til þess að sök verði skipt og þá með meginsökina hjá stefnanda.
IV
Fyrir dómi kvað stefndi, Þorleifur Jónsson, bifreiðina NT 156 hafa verið þrjár fjórar bíllengdir fyrir framan sig er henni hafi verið ekið inn á innstu akreinina í veg fyrir sig. Hann kvaðst ekki hafa fylgst með hraðamæli en giskaði á að hann hefði ekið á um 60 km. hraða en hámarkshraði var 70 km/klst. Hann hafi haft fót við hemlafetil í stað bensíngjafar og verið við því búinn að slíkt gæti gerst, sveigt til vinstri að umferðareyjunni en bifreið hans, YH 670, runnið áfram vegna ísingar og lent á vinstra afturhorni bifr. NT 156 sem hafi við það snúist á veginum. Eftir áreksturinn kvaðst hann hafa rennt bifreið sinni upp á umferðareyjuna.
Stefnandinn, Rúnar Þ. Grímsson, kvaðst hafa skipt yfir á innstu akreinina til vinstri eftir að hafa gefið stefnumerki og talið það vera hættulaust þar sem hann hefði séð bifreið töluvert fyrir aftan sig á þeirri akrein. Hann kvaðst hafa verið búinn að aka áfram, í það minnsta eina bíllengd ef ekki meira, fram fyrir öftustu bifreiðina á miðakrein þegar bifreiðin YH 670 hafi lent aftan á bifreið hans og hafi það verið mikið högg.
Stefnandinn Jóna Magnúsdóttir kvaðst hafa setið við hlið eiginmanns síns sem ók bifreiðinni NT 156. Við akreinaskiptinguna hafi bifreið verið töluvert fyrir aftan þau (á innstu akreininni) þannig að hún hafi ekki talið hættu vera á ferðum og bifreið þeirra hafi verið “komin á skrið” er áreksturinn varð.
Vitnið Ása Þórsdóttir, ökumaður bifr. NR 719 í umrætt sinn, kvaðst hafa tekið eftir að þremur fjórum bíllengdum aftar hafi bifreið verið ekið yfir á innstu akreinina og í veg fyrir jeppabifreið sem var á leið niður brekkuna. Rétt í sama mund hafi hún heyrt hávaða og séð í baksýnisspegli bifreiðina, sem skipt hafði um akrein, koma að bifreið hennar. Dómskýrslan var tekin símleiðis, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991, samkvæmt þeirri skýringu vitnisins að hún kæmist ekki frá vinnustað sínum í Kópavogi af sérstökum ástæðum. Ekki verður fallist á andmæli sem lögmaður stefnenda setti fram gegn framburðinum, á grundvelli þess að ekki hefði átt að taka skýrslu af henni í gegnum síma þar sem skilyrði hafi skort til þess að þannig væri farið að, þegar af þeirri ástæðu að andmælin voru ekki sett fram fyrr en að aflokinni skýrslugjöf.
Niðurstaða málsins er sú að meginorsök harkalegs áreksturs bifr. NT-156 og YH-670, sem leiddi til þess að hin fyrrnefnda rakst á tvær aðrar bifreiðar, sé sú að stefnandinn Rúnar Þ. Grímsson hafi ekki gætt þess áður en hann skipti um akrein að ganga úr skugga um að það væri að teknu tilliti til aðstæðna unnt án hættu fyrir aðra, sbr. 2. mgr. 17. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndi, Þorleifur Jónsson, hafði skömmu áður skipt af miðakrein yfir á akreinina lengst til vinstri og mátti hann vera við því búinn að aðrir gerðu slíkt hið sama til að komast greiðar áfram. Sýnt þykir að áreksturinn hafi að hluta til orsakast af því að stefndi hafi ekið of hratt miðað við aðstæður, sbr. 1. mgr. og h-lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga. Sök hans er metin að einum þriðja hluta.
Samkvæmt þessu er fallist á varakröfu stefnenda að því marki að óskipt bótaábyrgð stefndu vegna umrædds áreksturs er viðurkennd að einum þriðja hluta. Dæma ber stefndu til að greiða stefnendum málskostnað sem er ákveðinn 150.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Viðurkennd er skylda stefndu, Þorleifs Jónssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar hf., til að greiða stefnendum, Rúnari Þresti Grímssyni og Jónu Magnúsdóttur, að einum þriðja hluta bætur vegna umferðarslyss og árekstrar bifreiðanna NT-156 og YH-670 og fleiri bifreiða þann 16. janúar 2004.
Stefndu greiði stefnendum 150.000 krónur í málskostnað.