Hæstiréttur íslands
Mál nr. 600/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Útlendingur
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 31. ágúst 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.
Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni.
Varnaraðili hefur játað að hafa framvísað hjá Þjóðskrá Íslands fölsuðu vegabréfi. Að því gættu eru ekki fyrir hendi rannsóknarhagsmunir til þess að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Aftur á móti er varnaraðili útlendingur með engin tengsl við landið eftir því sem fram er komið. Er því fullnægt skilyrðum b. liðar sömu málsgreinar. Verður talið fullnægjandi til að tryggja nærveru varnaraðila með því að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 31. ágúst 2016 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærði, útlendingur sem kveðst vera frá [...] og heita X, uppgefið fæðingarár [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 31. ágúst 2016, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að Lögregla hafi verið kölluð til að Þjóðskrá Íslands í gær þann 23. ágúst 2016 vegna gruns starfsmanna þar um að kærði hafi verið að framvísa fölsuðu vegabréfi frá [...] í þeim tilgangi að fá íslenska kennitölu vegna atvinnuleitar. Lögregla hafi komið á vettvang og hafi haft afskipti af kærða og haldlagt vegabréf sem hann hafi framvísað við starfsfólk.
Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að vegabréfið hafi verið breytifalsað samkvæmt skýrslu vegabréfarannsóknarstofu lögreglunnar á Suðurnesjum. Mynd af kærða og persónuupplýsingar hans hafi verið skeytt á vegabréfið.
Við yfirheyrslu lögreglu hafi kærði gefið upp nafnið X og hafi kvaðst vera fæddur á árinu [...] en að hann hafi ekki vitað fæðingardag sinn. Hann hafi kvaðst hafa verið á flakki um Evrópu í um 10 ár eftir að hann hafi yfirgefið [...] og þá mestmegnis á [...]. Hann hafi kvaðst hafa komið til Íslands frá [...] á þessu breytifalsaða vegabréfi þann 12. ágúst sl. í þeim tilgangi að leita að atvinnu hérlendis. Hann hafi kvaðst ekki hafa önnur skilríki og ekki hafa átt samskipti við yfirvöld í þeim Evrópulöndum sem hann hafi dvalist í fyrir Íslandsförina. Kærði hafi viðurkennt við skýrslutöku að hafa keypt fyrrgreint vegabréf af einhverjum manni á [...] fyrir 1000 evrur og sá maður hafi ákveðið fæðingardag hans sem hafi verið skráð í vegabréfið. Hann hafi framvísað vegabréfinu við starfsmann Þjóðskrár eftir að honum hefði verið bent á að fara þangað.
Lögregla hafi tekið fingraför af kærða og sé beðið eftir upplýsingum frá öðrum löndum til þess að staðreyna hvort að kærði sé sá sem hann hafi sagst vera. Það liggi fyrir framburður hans sjálfs að hann hafi verið ólöglega í Evrópu í um áratug og hafi verið í nokkrum löndum á þeim tíma. Ekki sé því vitað um forsögu kærða og hvernig hann hafi framfleytt sér á fyrrgreindum áratug en kærði hafi haft meðferðis til Íslands um 370 evrur. Verið sé einnig að afla upplýsinga frá alþjóðlegum lögreglustofnunum hvort hann hafi verið skráður í öðru Evrópulandi, s.s. með dvalarleyfi, og aðrar upplýsingar um hans hagi og afskipti erlendra lögregluyfirvalda af honum. Rannsókn lögreglu sé á frumstigi varðandi persónuhagi kærða og það sé því með öllu óljóst hver kærði sé.
Af framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri sig hafa rökstuddan grun fyrir því að kærði hafi gerst sekur um skjalafals og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir dómstólum. Ætla megi að kærði, muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar og koma sér með öðrum hætti undan málssókn eða fullnustu refsingar ef hann gangi laus. Einnig þurfi að staðreyna þarf framburð kærða að hann hafi ekki komið við sögu yfirvalda í öðrum Evrópulöndum og staðreyna hver kærði sé en kærði hafi ekki með nokkru móti getað sýnt fram á það með sannanlegum hætti.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 7. mgr. 29. gr. og h.-lið 57. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008 og a. og b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 31. ágúst 2016, kl. 16:00.
Niðurstaða
Rökstuddur grunur er um að kærði hafi gerst sekum um brot sem varðað geta fangelsisrefsingu ef sök er sönnuð, en rökstuddur grunur er um að hann hafi brotið gegn 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 29. gr. og h-lið 57. gr. útlendingalaga nr. 96/2002. Kærði hefur viðurkennt að hafa framvísað breyti fölsuðu vegabréfi sem hann hafi keypt af aðila í [...]. Engin gögn fundust í fórum kærða sem varpa ljósi á það hver hann er. Þá ber nauðsyn til að staðreyna framburð kærða um að hann hafi ekki komið við sögu yfirvalda í öðrum Evrópulöndum og hver kærði sé,en kærði hefur ekki getað sýnt fram á það með sannanlegum hætti. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður að telja að fyrir hendi séu rannsóknarhagsmunir til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.
Krafa sóknaraðila um gæsluvarðahald er því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, útlendingur sem kveðst vera frá [...] og heita [...], uppgefið fæðingarár [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 31. ágúst 2016, kl. 16:00.