Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/2006


Lykilorð

  • Víxill
  • Fyrning


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. september 2006.

Nr. 90/2006.

Kaupþing banki hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

gegn

Sigurði Jóhannssyni og

Ingibjörgu Bjarnadóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Víxilmál. Fyrning.

K krafðist þess að S og I yrði óskipt gert að greiða sér 4.000.000 króna með dráttarvöxtum. S og I byggðu á því að krafa K á hendur þeim væri fyrnd samkvæmt 2. mgr. 70. gr. víxillaga nr. 93/1933. Áður hafði stefna verið birt af K á hendur S og I og var í fyrirkalli hennar skorað á stefndu að mæta til þings 25. maí 2005. Þann dag var málið ekki tekið fyrir í dómi. K hélt því fram að þingfesta hefði átt málið í héraði 22. júní 2005. Þar sem ekki var skorað á stefndu í fyrirkalli stefnunnar að mæta til þingfestingar þann dag var talið að þessi málsmeðferð ætti sér enga lagastoð og því fallist á með héraðsdómi að ekki væru skilyrði til að líta svo á að fyrningu hefði verið slitið gagnvart S og I samkvæmt 1. mgr., sbr. 5. mgr. 71. gr. víxillaga. Voru þau því sýkn af kröfu K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 4.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. ágúst 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara, verði héraðsdómi hrundið, að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.

Stefndu reisa vörn sína á þeirri málsástæðu að krafa áfrýjanda á hendur þeim hafi verið fyrnd samkvæmt 2. mgr. 70. gr. víxillaga nr. 93/1933 er mál þetta var höfðað með stefnu birtri 7. september 2005. Áfrýjandi byggir hins vegar á því að fyrning kröfunnar á hendur stefndu hafi rofnað við birtingu stefnu í fyrra máli milli aðila, en þar sem lögsókn hafi þá ekki verið til lykta leidd hafi nýr fyrningarfrestur hafist samkvæmt 5. mgr. 71. gr. víxillaga.

 Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi gaf áfrýjandi út stefnu á hendur stefndu og Fiskverkun SJB ehf. 20. apríl 2005 og var stefnan birt stefndu 23. maí 2005. Samkvæmt málflutningi áfrýjanda átti að þingfesta málið í héraði 22. júní 2005 og vísaði hann þar um til áritunar á stefnu um dagsetningu framlagningar á framhlið hennar.  Í fyrirkalli stefnunnar var hins vegar skorað á stefndu að mæta til þings 25. maí 2005. Þann dag var málið ekki tekið fyrir í dómi. Þessi málsmeðferð á sér ekki lagastoð og leiðir ekki til slita á fyrningu kröfunnar gagnvart stefndu samkvæmt 1. mgr., sbr. 5. mgr. 71. gr. víxillaga. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur að því er stefndu varðar.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kaupþing banki hf., greiði stefndu, Sigurði Jóhannssyni og Ingibjörgu Bjarnadóttur, hvoru um sig 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. desember 2005.

Stefnandi er Kaupþing Búnaðarbanki hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 19, Reykjavík, en stefndi eru Fiskverkun SJB ehf., kt. 451001-3370, Bjarmalandi 20, Sandgerði, en fyrirsvarsmaður þess er stefndi Sigurður Jóhannsson, kt. 210354-2639, Bjarmalandi 20, Sandgerði og einnig er stefnt Ingibjörgu Bjarnadóttur, kt. 240656-4779, sama stað.

Í þinghaldi 26. október sl. var ekki sótt þing af hálfu Fiskverkun SJB ehf., en fyrir stefnda Sigurð Jóhannsson og Ingibjörgu Bjarnadóttur sótti þing Kristján Stefánsson hrl. sem lagði fram greinargerð í málinu.

Umboðsmaður stefnanda er Karl Óttar Pétursson hdl. en umboðsmaður stefndu Sigurðar og Ingibjargar  er Kristján Stefánsson hrl.

I.  Dómkröfur.

1.  Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum skuld að fjárhæð 4.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 28. ágúst 2004 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning og leggist virðisaukaskattur á málflutnings-þóknunina.

2.  Af hálfu stefndu Ingibjargar Bjarnadóttur og Sigurðar Jóhannssonar er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða málskostnað, stefndu að skaðlausu að mati dómsins.

II.  Málavextir.

Á árinu 2002 afhentu stefndu stefnanda víxileyðublað handritað um fjárhæð 4.000.000 krónur og greiðslustað, og jafnframt var ritað á nafn greiðanda Fiskverkun SJB, Bjarnalandi 20, 245 Sandgerði, samþykktur af Sigurði Jóhannssyni, vegna Fiskverkunar ehf. og með áritun um útgefanda Ingibjörgu Bjarnadóttur, Bjarmalandi 20, Sandgerði og framsal hennar og svo er ritað nafn Sigurðar Jóhannssonar sem ábekings og ábyrgðarmanns.  Fram er komið að víxillinn hafi verið tryggingarvíxill til tryggingar tékkareiknings nr. 0318-26-1490 í Búnaðarbanka Íslands, aðalbanka, nú Kaupþing banki hf. og er tékkareikningurinn á nafni stefnda Fiskverkun SJB ehf.  Hinn 13. september 2004 nam vanskilaskuldin á tékkareikningnum 10.106.480 krónur.

Á svuntu víxilsins dskj. nr. 11 kemur fram útfyllingarheimild stefnanda er varðar útgáfudag og gjalddaga víxileyðublaðsins sem staðfest er af stefnda í Garðabæ 20. desember 2002, en heimildin gildir til 20. desember 2004, en hann hefur svo verið útfylltur með útgáfudag 2. júlí 2004 og gjalddaga 20. ágúst 2004. Vegna framangreindra vanskila var höfðað mál á hendur stefnda til greiðslu tryggingarvíxilsins, sem þingfest var 22. júní s.l. en birting hafði tekist fyrir öllum stefndu.  Mál þetta hafði svo verið fellt niður 29. júní s.á. að ósk stefnanda.

III.  Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir kröfu sína á framangreindum tryggingarvíxli og vanskilum á yfirdrætti tékkareiknings nr. 0318-26-1490.  Vísað er til þess, að stefndu hafi verið tilkynnt  um vanskilin með bréfum dags. 2. nóvember 2004, en vegna vanskilanna hafi verið nauðsynlegt að nota víxilinn.  Þá er vísað til þess, að hafist hafi nýr fyrningarfrestur þann 29. júní 2004, sbr. 71. gr. laga nr. 93/1933.

Vísað er til víxillaga nr. 93/1933 einkum VII. kafla laganna um greiðslufall og 17. kafla laga nr. 91/1991, en málið sé rekið skv. þeim kafla.  Kröfu sína um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi með vísun í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.  Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um kröfuna um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er vísað til laga nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.

2.  Stefndi Sigurður og Ingibjörg byggja á því að síðar hafi stefnandi með samkomulagi verið afhent fasteignaverð til tryggingar skuldum og átt í staðinn að afhenda víxileyðublaðið en það farist fyrir, en fallið var síðar frá þessari málsástæðu.

Þá er og byggt á því að ábyrgð stefndu sé fyrnd skv. ákvæðum 2. mgr. 70. gr. víxillaga nr. 93/11933.  Af hálfu stefndu Sigurðar og Ingibjargar er því haldið fram að birting stefnu rjúfi ekki fyrningu í þessu sambandi, en miða verði við að birting stefnu sé þáttur í málsókn, enda í víxillögum gert ráð fyrir að nýr fyrningarfrestur byrji að líða, er málið á hendur víxilskuldara var síðast fyrir rétti sbr. 5. mgr. 71. gr. víxillaga og rit Ólafs Lárussonar, prófessors Víxlar og tékkar, bls. 100-101 útgefið 1957.

Vitna stefndu til þess að mál á hendur þeim og stefndu sem höfðað hafi verið með stefnu útgefinni 20. apríl 2005 hafi ekki verið þingfest 25. maí sl. eins og mælt var fyrir í stefnu og réttaráhrif af þingfestingu málsins síðar, hafi engin réttaráhrif í málinu.  Þá hafa stefndu véfengt dskj. nr. 11, sem ekki hljóði upp á neina fjárhæð og vafasamt að það eigi við víxilinn í málinu.

IV. Niðurstöður.

Í máli þessu verður miðað við að víxillinn í því hafi verið fullgildur er hann var gjaldfelldur og í afhendingu stefndu á víxileyðublaðinu óútfylltu um útgáfudag gjalddaga o.fl. hafi falist umboð til víxilhafa til að fylla í eyðurnar.

Á víxileyðublaðið var bókað án afsagnar og verður því upphaf fyrningarfrestar miðaður við gjalddaga víxilsins þ.e. 20. ágúst 2004 og samkvæmt 2. mgr. 70. gr. víxillaga fyrnist víxilréttur gagnvart stefndu Sigurði og Ingibjörgu ári síðar, en 3 árum síðar gagnvart samþykkjanda víxilsins, Fiskverkun SJB ehf.

Álitamálið hér er hvort birting stefnunnar, sem útgefin var 20. apríl sl. hafi rofið fyrningu víxilréttar, en samkvæmt framlögðum birtingarvottorðum var stefnan birt fyrir stefndu á tímabilinu frá kl. 20:25 - 20:26 23. maí sl.  Samkvæmt áskorun í stefnunni skyldi málið þingfest í dómsal Héraðsdóms Reykjaness að Vatnsnesvegi 33 í Keflavík þann 25. maí 2005 og stefnufrestur skyldi vera þrír sólarhringar.  Einhvers misskilnings virðist gæta um þingfestingardag, því að í birtingarvottorðinu er ritað að síðasti birtingardagur sé 18. júní 2005 og málið er þingfest í Héraðsdómi Reykjaness að Vatnsnesvegi 33 í Keflavík 22. júní 2005 og er þá ekki sótt þing af hálfu stefndu.

Þegar virt eru saman ákvæði 1. mgr. og 5. mgr. 71. gr. víxillaga, verður að fallast á að birting stefnu verður að vera þáttur í málsókn, sem leiði a.m.k. til þingfestingar víxilmáls, þar sem stefndi eða stefndu eigi kost á að koma með mótbárur til að hún hafi þau áhrif að rjúfa fyrningu.

Þá er og til þess að líta að stefna frá 20. apríl sl. var ekki birt þremur sólarhringum fyrir tilgreindan þingfestingardag, sem hlaut að leiða til þess, að málinu hefði verið án kröfu vísað frá dómi 25. maí sl. eða síðar, ef það hefði ekki verið fellt niður af stefnanda.

Þessir annmarkar hafa það í för með sér, að stefnubirtingin hefur enga þýðingu um rof á fyrningu víxilréttarins.

Stefnan í málinu, sem útgefin var 27. ágúst sl. var birt fyrir stefndu 7. september sl. og var þá liðið meir en ár frá gjalddaga víxilsins og víxilrétturinn því skv. 2. mgr. 170. gr. víxillaga fyrndur gagnvart stefndu Sigurði Jóhannssyni og Ingibjörgu Bjarnadóttur og eru þau því sýknuð af kröfum stefnanda í málinu.

Hins vegar fyrnast víxilkröfur á hendur samþykkjanda á 3 árum frá gjalddaga og er því krafan á hendur stefnda Fiskverkun SJB ehf. ófyrnd og hún dæmd skv. framlögðum gögnum, þar sem ekki var sótt þing af hálfu stefnda Fiskverkun SJB ehf.

Ljóst er að af hálfu stefnda Fiskverkun SJB ehf. var víxillinn samþykktur til tryggingar á yfirdráttarskuld á tékkareikning nr. 1490 við Búnaðarbanka Íslands hf. í Garðabæ, sem var í vanskilum upp á 10.106.480 krónur og er því skilyrði til að taka kröfu stefnanda til greina að því er varðar stefnda Fiskverkun SJB ehf.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda Fiskverkun SJB ehf. til að greiða stefnanda 603.820 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Þá ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu Sigurði Jóhannssyni og Ingibjörgu Bjarnadóttur 617.520 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.

DÓMSORÐ

Stefnda, Fiskverkun SJB ehf., greiði stefnanda, Kaupþingi Búnaðarbanka hf., 4.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. ágúst 2004 til greiðsludags.

Stefndu Sigurður Jóhannsson og Ingibjörg Bjarnadóttir eru sýkn af kröfum stefnanda í málinu.

Stefndu Fiskverkun SJB ehf., greiði stefnanda 603.820 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Stefnandi greiði stefndu Sigurði Jóhannssyni og Ingibjörgu Bjarnadóttur 617.520 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.