Hæstiréttur íslands
Mál nr. 246/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 25. maí 2012. |
|
Nr. 246/2012. |
Lára
Bryndís Björnsdóttir (Dýrleif Kristjánsdóttir hdl.) gegn Styrktarsjóði
Bandalags háskólamanna (Bergþóra Ingólfsdóttir hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir.
Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L gegn S var
vísað frá dómi þar sem L var ekki talin hafa lögvarða hagsmuni af kröfu sinni.
Í málinu krafðist L þess að viðurkennt yrði með dómi að hún ætti aðild að S með
vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Talið var að andmæli S gegn kröfu L
varðaði efni kröfunnar en ekki form hennar og að L hefði lögvarða hagsmuni af
kröfu sinni. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir
héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði er sóknaraðili félagi í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga en varnaraðili er styrktarsjóður innan vébanda Bandalags háskólamanna. Stéttarfélag sóknaraðila sagði sig úr Bandalagi háskólamanna í árslok 2009. Sóknaraðili starfar á Landspítalanum og greiddi launagreiðandi hennar kjarasamningsbundin iðgjöld til varnaraðila. Hún hefur sótt um styrk hjá varnaraðila en verið synjað. Með málsókn þessari leitast hún við að fá viðurkennda aðild sína að varnaraðila og vísar til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Andmæli varnaraðila gegn kröfu sóknaraðila varða efni kröfunnar en ekki form. Sóknaraðili telst hafa lögvarða hagsmuni af kröfunni. Ber því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Lagt er fyrir héraðsdóm að taka mál þetta til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Styrktarsjóður Bandalags háskólamanna, greiði sóknaraðila, Láru Bryndísi Björnsdóttur, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2012.
Mál þetta, sem var tekið
til úrskurðar 20. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Láru
Bryndísi Björnsdóttur, Hólabergi 64, Reykjavík, á hendur Styrktarsjóði
Bandalags háskólamanna, Borgartúni 6, Reykjavík með stefnu birtri 8. desember
2011.
Stefnandi krefst þess að
viðurkennd verði með dómi aðild hennar að stefnda. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess
aðallega að málinu verði vísað frá dómi og til vara er krafist sýknu. Í báðum
tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í þessum þætti málsins er
krafa stefnda um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi hafnar
frávísunarkröfu stefnda og krefst þess að ákvörðun málskostnaðar bíði
efnisdóms.
Ágreiningsefni
Stefnandi er
hjúkrunarfræðingur og starfar á deild er heyrir undir
Landspítala-háskólasjúkrahús. Stefnandi hefur átt aðild að Félagi íslenskra
hjúkrunarfræðinga (hér eftir Fíh) frá júlí 2007. Hinn
21. september 2009 sagði Fíh sig úr BHM og tók
úrsögnin gildi frá og með áramótunum 2009/2010. Ágreiningur varð milli Fíh og BHM um fjárhagslegt uppgjör vegna úrsagnarinnar.
Málsaðilar samþykktu að gerðardómur yrði skipaður til að útkljá deilur þeirra,
en Fíh krafðist þess meðal annars að BHM myndi greiða
sér hlutdeild í hreinni eignamyndun stefnda. Með dómi 17. desember 2010 var BHM
sýknað af kröfum Fíh. Í stefnu segir að vegna
þessarar niðurstöðu gerðardómsins og þar sem honum verði ekki áfrýjað sé
nauðsynlegt að höfða mál þetta til viðurkenningar á rétti stefnanda til aðildar
að stefnda.
Málsástæður og lagarök stefndu um frávísun
Frávísunarkröfu sína
byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af kröfugerð
sinni sem og að áskilnaði 25. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt
Stefnandi eigi aðild að Fíh og sé hennar vegna greitt til styrktarsjóðs þess félags
en ekki til stefnda. Stefnandi hafi enga hagsmuni af því að fá dóm um aðild að
stefnda þar sem hún njóti réttinda í öðrum sambærilegum sjóði. Aðild stefnanda
að sjóði hjúkrunarfræðinga sé í samræmi við ákvæði kjarasamnings þess
stéttarfélags um greiðslur atvinnurekanda í sjóðinn og þannig einnig í samræmi
við ákvæði 6. gr. laga nr. 55/1989 um stéttarfélög og vinnudeilur. Yrði fallist
á kröfu stefnanda væri sú staða komin upp að stefnandi ætti aðild að tveimur
sams konar sjóðum á sama tíma.
Þá byggir stefndi á því
að málatibúnaður stefnanda snúist fremur um hagsmuni Fíh
en stefnanda og sé í raun tilraun Fíh til að fá
gerðardómsmálið endurupptekið. Fíh hafi sótt það fast
að fá leyst úr ágreiningi um tilkall til fjármuna úr hinum stefnda sjóði með
setningu gerðardóms. Samkvæmt lögum nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma sé
niðurstaða gerðardómsins bindandi.
Stefndi bendir á að
styrktarsjóði Fíh sé ætlað að starfa á meðan ekki
hafi verið leyst úr ágreiningi Fíh sem lúti að
stefnda. Í 2. gr. samþykkta styrktarsjóðsins sé vikið að því með hvaða hætti Fíh telji að þeim ágreiningi geti lokið og hver áhrif þess
yrðu. Komi þar berlega fram það markmið Fíh að fá
afhenta fjármuni úr hinum stefnda sjóði sem ráðstafa megi í samræmi við almenna
hagsmuni Fíh. Aðrar lyktir ágreinings Fíh í málinu virðast ekki tækar að mati stéttarfélagsins.
Að mati stefnda bera gögn
málsins og málatilbúnaður allur með sér að tilgangur málshöfðunarinnar hafi
ekkert með hagsmuni stefnanda að gera heldur sé sá einn að Fíh
fái afhenta fjármuni stefnda þvert á dóm gerðardómsins.
Eins og sakarefni málsins
sé hagað verði ekki betur séð en þess sé freistað með málshöfðun þessari að
krefja dómstólinn um lögfræðilegt álit á því hvort Fíh
eigi rétt til hlutdeildar í fjármunum stefnda. Það að málið sé sett í þann
búning að krefjast viðurkenningar á rétti stefnanda til aðildar að sjóðnum nægi
ekki í þessu samhengi þar sem ekki verði séð með hvaða hætti hagsmunir
stefnanda hafi verið fyrir borð bornir eða á rétti hennar brotið hvorki
samkvæmt ákvæðum kjarasamninga né laga. Þá hafi ekkert verið lagt fram í málinu
sem sýni hvaða réttindum stefnandi hafi glatað eða farið á mis við. Verði því
ekki séð að um tiltekið og afmarkað sakarefni sé að ræða sem varði stefnanda,
úrlausn kröfunnar hefur ekkert raunhæft gildi fyrir stefnanda. Skortur á
lögvörðum hagsmunum sé því ótvírætt til staðar sem leiðir til frávísunar
málsins skv. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 100. gr. sömu laga
Þá byggir stefnandi kröfu
um frávísun og á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991
sérstaklega e-liðar. Þvert á fyrirmæli lagaákvæðisins sé stefna málsins í svo
löngu máli að jafnað verði til skriflegs málflutnings auk þess sem
málatilbúnaður stefnanda sé svo óljós að til réttarspjalla horfi fyrir stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun
Stefnandi hafnar því að
komið geti til frávísunar málsins. Stefnandi telur kröfu sína eiga stoð í 70.
gr. stjórnarskrárinnar og fara eigi varlega í því að vísa málinu frá dómi vegna
skorts á lögvörðum hagsmunum. Stefnandi hafi hagsmuni af úrslaun um hvort hún
eigi aðild að stefnda og ráði það úrslitum um hvort hún eigi rétt á greiðslum
úr sjóðunum.
Stefnandi leggur áherslu
á það að styrktarsjóður Fíh sé í eðli sínu bráðabirgðasjóður
sem settur hafi verið á fót vegna deilnanna við stefnda. Aldrei komi til þess
að stefnandi geti fengið greitt úr báðum sjóðunum. Þá séu sjóðirnir ekki
sambærilegir þar sem stefndi sé mun fjárhagslega sterkari en styrktarsjóður Fíh.
Stefnandi mótmælir því að
málatilbúnaðurinn snúist um hagsmuni Fíh og um sé að
ræða tilraun til að fá niðurstöðu gerðardómsins endurskoðaða. Krafa stefnanda
sé allt annars eðlis en sú krafa er Fíh hafði fyrir
gerðardóminum og leyst var þar úr. Annars vegar sé um að ræða rétt Fíh sem stéttarfélags til fjárgreiðslna frá BHM og hins
vegar er um að ræða einstaklingsbundinn rétt stefnanda til aðildar að stefnda.
Þá hafnar stefnandi því
að verið sé að krefja dóminn lögfræðilegrar álitsgerðar um það hvort Fíh eigi rétt til hlutdeildar í fjármunum stefnda.
Stefnandi telur einnig að sýnt sé fram á hvernig hagsmunir hennar hafi verið
fyrir borð bornir og réttur brotinn á henni með því að hún eigi ekki aðild að
stefnda.
Niðurstaða
Samkvæmt
1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða dómstólar ekki
krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem nauðsynlegt er til
úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins getur sá sem
hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða
réttarsambands, leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum.
Eins
og fram kemur í dómum Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 554/2007 og 330/2008
hafa framangreind ákvæði verið skýrð þannig að sá sem leitar viðurkenningardóms
geti ekki fengið úrlausn um kröfu sína nema hann sýni fram á að hann hafi
lögvarinna hagsmuna að gæta, sem talist geti sérstakir fyrir hann og snerti
réttarsamband hans við þann sem hann beinir kröfu sinni að. Kröfugerð stefnanda
beinist ekki að lögmæti tiltekinna athafna eða ákvarðana stefnda, heldur miðar
hún að því að viðurkenna aðild stefnanda að stefnda. Eins og kröfugerð
stefnenda er orðuð felur hún ekki í sér að leyst verði úr ágreiningi aðila
heldur felur hún það eitt í sér, andstætt ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr.
91/1991, að leitað er lögfræðilegrar álitsgerðar dómsins. Þegar af þessari
ástæðu ber að vísa máli þessu frá dómi.
Með
vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða
stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í
úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir
héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu
er vísað frá dómi.
Stefnandi,
Lára Bryndís Björnsdóttir, greiði stefnda, Styrktarsjóði Bandalags háskólamanna
350.000 krónur í málskostnað.