Hæstiréttur íslands

Mál nr. 595/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 5

 

Miðvikudaginn 5. nóvember 2008.

Nr. 595/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er að líða í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 21. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Upplýst er fyrir Hæstarétti að varnaraðili hafi nú sent sóknaraðila yfirlýsingu um áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2008, sem um getur í hinum kærða úrskurði. Skýra verður úrskurðarorðin svo að varnaraðili skuli sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem hann hafði við birtingu nefnds héraðsdóms til að lýsa yfir áfrýjun hans, þannig að yfirlýsing um áfrýjun áður en sá frestur rann út bindi ekki sjálfkrafa enda á gæsluvarðhald yfir honum.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2008.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að dómfellda X verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga um meðferð opinberra mála er að líða, þó eigi lengur en til föstudagsins 21. nóvember nk. kl. 16:00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum í dag hafi dómfelldi verið dæmdur til fangelsisrefsingar vegna valdstjórnarbrota, auðgunarbrota og ítrekaðra umferðalagabrota.

Dómfelldi hafi nú setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 frá 11. ágúst sl. þar sem hann hafi verið ákærður fyrir mörg brot sem framin hafi verið á stuttum tíma. Nauðsynlegt þyki að dómfelldi sitji áfram í gæsluvarðhaldi þar til afstaða hans til dómsins liggi fyrir.  Með vísan til fyrirliggjandi dóms og með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106 gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist, að krafan nái fram að ganga.

Eins og að framan er rakið hefur dómfelldi setið í gæsluvarðahaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 frá 11. ágúst sl. þar sem hann hafði verið ákærður fyrir mörg brot sem framin voru á stuttum tíma.  Hann hefur nú verið dæmdur fyrir megin hluta þeirrar háttsemi sem honum var gefið að sök með dómi þeim sem upp var kveðinn í dag í málinu nr. S-1230/2008 og var hann dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar.  Dómfelldi hefur lýst því yfir að hann muni áfrýja dómnum til Hæstaréttar.  Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti samkvæmt 1. mgr. 153. gr. stendur svo og meðan mál er tilmeðferðar fyrir æðra dómi ef því er að skipta.  Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykja vera fyrir hendi skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að taka kröfuna til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Dómfelldi, X, kt. ]...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga um meðferð opinberra mála er að líða, þó eigi lengur en til föstudagsins 21. nóvember nk. kl. 16:00.