Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/2004


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Brottrekstur úr starfi


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. maí 2004.

Nr. 3/2004.

Finnur Gíslason

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Hf. Eimskipafélagi Íslands

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Brottrekstur úr starfi.

Málið varðaði fyrirvaralausa brottvikningu F úr starfi vélstjóra á skipi E. Fyrir lá að F var veitt skrifleg aðvörun 15. september 1999 vegna áfengisneyslu í ferð, sem stóð frá 31. ágúst til 12. september sama ár, en þar kom fram að frekari agabrot vörðuðu fyrirvaralausri uppsögn úr starfi. E hélt því fram að F hafi aftur brotið á sama hátt af sér í ferð, sem stóð frá 10. til 23. janúar 2000, en við lok hennar var honum vikið úr starfi. Þessar ávirðingar áttu sér stoð í skýrslu, sem skipstjóri gerði 24. sama mánaðar, en hana staðfesti hann fyrir dómi. Nægilega þótti í ljós leitt að F hafi verið undir áhrifum áfengis í síðustu ferð sinni og var E sýknað af kröfum F, sbr. 3. mgr. 24. gr. sjómannalaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2004. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 845.162 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi varðar málið fyrirvaralausa brottvikningu áfrýjanda úr starfi vélstjóra á skipi stefnda. Fyrir liggur að áfrýjanda var veitt skrifleg aðvörun 15. september 1999 vegna áfengisneyslu í ferð, sem stóð frá 31. ágúst til 12. september sama ár, en þar kom fram að frekari agabrot vörðuðu fyrirvaralausri uppsögn úr starfi. Stefndi heldur því fram að áfrýjandi hafi aftur brotið á sama hátt af sér í starfi í ferð, sem stóð frá 10. til 23. janúar 2000, en við lok hennar var honum vikið úr starfi. Þessar ávirðingar eiga sér stoð í svokallaðri frábrigðaskýrslu, sem skipstjóri gerði 24. sama mánaðar, en þetta samtímagagn staðfesti hann við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Finnur Gíslason, greiði stefnda, Hf. Eimskipafélagi Íslands, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. september s.l., er höfðað með stefnu birtri 15. janúar s.l.

Stefnandi er Finnur Gíslason, kt. 210449-4189, Miklubraut 16, Reykjavík.

Stefndi er HF. Eimskipafélag Íslands, kt. 510169-1829, Pósthússtræti 2, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 845.162 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 2000 til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðslu­dags.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.

 

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefnandi hóf störf hjá stefnda sem vélstjóri á m/s Bakka­fossi í febrúar 1999.  Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis allan tímann í ferð skipsins sem hófst 31. ágúst 1999 og lauk í Reykjavík 12. september sama ár.  Með bréfi dagsettu 15. september sama ár, undirrituðu af Dagþóri Haraldssyni, starfsmanni stefnda, var vísað í áfengisneyslu stefnanda í umræddri ferð og honum gefin aðvörun um að yrði um frekari agabrot að ræða varðaði það fyrir­vara­lausri uppsögn.  Stefnandi ritar undir bréf þetta.  Mun tilefni þessa bréfs hafa verið upp­lýsingar sem skipstjórinn, Jón Ólafsson, og yfirvélstjóri, Sigurður Rafnsson, gáfu um­ræddum Dagþóri.  Samkvæmt svokallaðri frábrigðaskýrslu, undirritaðri af Jóni Ólafs­syni, skipstjóra 24. janúar 2000, var stefnandi frá vinnu vegna ölvunar í 7 daga í 14 daga ferð skipsins sem stóð frá 10. til 23. janúar sama ár.  Með vísan til ofan­greindrar skriflegrar aðvörunar og endurtekins agabrots var stefnanda sagt fyrir­vara­laust upp störfum hjá stefnda með bréfi dagsettu 27. janúar sama ár. 

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda dagsettu 17. febrúar 2000 var upp­sögn­inni mótmælt sem óréttmætri og var því jafnframt haldið fram að aðvörunarbréfið hafi verið óréttmætt og ólöglegt.  Með símbréfi starfsmanns stefnda dagsettu 23. febrúar sama ár til lögmanns stefnanda var honum tjáð að málið væri í höndum lögfræðings í starfs­þróunardeild félagsins.  Svarbréf lögfræðingsins er dagsett 8. maí sama ár og er því lýst yfir að ekki sé ástæða til að endurskoða afstöðu stefnda.  Óumdeilt er að ekkert gerðist síðan í málinu fyrr en með málshöfðun þessari 15. janúar s.l.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda á reglum vinnuréttar, kjarasamningi milli Vélstjórafélags Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands (nú Samtaka at­vinnu­lífsins) frá 1. apríl 1997 og sjómannalögum að því er uppsögn vélstjóra varðar.  Stefn­andi hafi átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti og hafi hin fyrirvaralausa uppsögn verið efnislega ólögmæt og hafi stefndi með engum hætti réttlætt hana.  Þá hafi stefndi ekki efnt vinnuréttarsambandið með því að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti.

Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu og hefur stefnandi fallist á athugasemdir stefnda í greinargerð og lækkað kröfugerð sína í samræmi við það.  Byggir stefnandi nú á því að grunnlaun stefnanda í þriggja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 9. gr. sjó­manna­laga, hefðu numið kr. 355.301, yfirvinna kr. 278.141 og greiðsla vegna frídaga kr. 133.702.  Að viðbættu 10,17% orlofi á heildarlaun sé krafa stefnanda því kr. 845.162.

Stefnandi vísar til kjarasamnings, 9. gr. sjómannalaga og orlofslaga.  Vaxtakrafa er reist á III. kafla laga nr. 25/1987 og 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga nr. 38/2001.  Máls­kostn­aðarkrafa er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að stefnandi hafi brotið alvarlega gegn skyld­um sínum gagnvart vinnuveitanda sínum.  Þrátt fyrir skýra, skriflega aðvörun, sem hann hafi sannanlega tekið við, hafi hann verið ófær til starfa sökum ölvunar í ferð skipsins 10. til 23. janúar 2000.

Byggt er á því að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga geti skipstjóri vikið skip­verja úr skiprúmi meðal annars ef hann er ítrekað drukkinn um borð, nema brot sé því alvarlegra, eða hann sé undir áhrifum fíkniefna um borð.  Ljóst sé að stefnandi hafi verið aðvaraður vegna ölvunar og honum gert ljóst að frekara agabrot myndi varða fyrir­varalausri brottvikningu úr starfi.  Stefnandi hafi verið frá vinnu sökum ölvunar í 7 daga af  14 í ferð skipsins frá 10. til 23. janúar 2000 og hafi stefndi ekki átt annan kost en að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi, sbr. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga.

Stefndi byggir á því að þar sem í ljós sé leitt að stefnanda hafi verið veitt skrifleg viðvörun og tilkynnt að frekari agabrot myndu varða fyrirvaralausri uppsögn, hafi stefnda verið fullkomlega heimilt að segja stefnanda upp starfi samkvæmt skýrum ákvæðum sjómannalaga eftir að stefnandi braut af sér á sama eða svipaðan hátt.  Eigi upp­sagnarákvæði kjarasamninga ekki við hér enda gildi ákvæði sjómannalaga um upp­sögn skipverja vegna brota í starfi.

Stefndi byggir á því að krafa stefnanda geti fyrst borið dráttarvexti frá þeim tíma er stefna var birt 15. janúar s.l.   Ekki verði litið svo á að bréf lögmanns stefnanda frá 17. febrúar 2000 hafi verið krafa í þeim skilningi að dráttarvextir leggist á einum mán­uði frá dagsetningu þess bréfs, enda hafi þeirri kröfu ekki verið fylgt eftir fyrr en tæpum þremur árum síðar.

Málskostnaðarkrafa stefnda er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða.

Óumdeilt er að stefnanda máls þessa var veitt skrifleg aðvörun 15. september 1999 vegna áfengisneyslu sinnar í ferð með m/s Bakkafossi skömmu áður.  Var honum til­kynnt að yrði um frekari agabrot að ræða varðaði það fyrirvaralausri uppsögn.  Stefn­andi hreyfði engum athugasemdum vegna þessa fyrr en með bréfi dagsettu 17. febrúar 2000, en þá hafði honum verið vikið fyrirvaralaust úr starfi vegna endurtekins aga­brots að mati stefnda.  Stefnandi hefur skýrt svo frá fyrir dómi að aðvörunin hafi varðað atvik er gerðist í Rotterdam er hann var á frívakt.  Þá mótmælti stefnandi því að hann hefði verið drukkinn í síðustu ferð sinni með skipinu, en hann kvað Jóhann Gíslason, yfirvélstjóra, alltaf hafa verið undir áhrifum áfengis og hefði hann þurft að ganga í störf hans að beiðni skipstjóra.  Jón Ólafsson, skipstjóri, kt. 010340-2419, skýrði svo frá fyrir dómi að áfengisneysla stefnanda hafi hamlað störfum hans um borð.  Þá staðfesti hann að stefnandi hefði verið undir áhrifum áfengis í þeim tveimur ferðum sem mál þetta snýst um.  Hann mundi ekki eftir því að stefnandi hafi kvartað undan ölvun annarra vélstjóra.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 getur skipstjóri vikið skip­verja úr skiprúmi meðal annars ef skipverji er ítrekað drukkinn um borð, nema brot sé því alvarlegra, eða er undir áhrifum fíkniefna um borð, sbr. 4. tl.  Stefnandi skrifaði undir umrætt aðvörunarbréf án nokkurs fyrirvara og án þess að gera athugasemdir við það fyrr en eftir að honum hafði verið vikið úr starfi.  Stefnanda hefur ekki tekist að sanna að umrædd aðvörun hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum og verður þeirri máls­ástæðu stefnanda að aðvörunin hafi verið óréttmæt og ólögleg því hafnað.  Stefn­andi kannast ekki við að hafa verið undir áhrifum áfengis í síðustu ferð sinni með skipinu.  Með vætti Jóns Ólafssonar, skipstjóra og öðrum gögnum málsins, þykir nægi­lega í ljós leitt að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis í síðustu ferð sinni.  Hafði hann þar með ítrekað brotið gegn starfsskyldum sínum og þar sem honum hafði verið gerð grein fyrir því að ítrekað brot myndi varða fyrirvaralausri uppsögn var stefndi í fullum rétti að víkja honum úr starfi.  Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. sjó­manna­laga á skipverji, sem vikið er úr skiprúmi samkvæmt þessari grein, ekki rétt á kaupi lengur en hann gegndi starfi sínu.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda kr. 100.000 í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, HF. Eimskipafélag Íslands, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Finns Gíslasonar í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda kr. 100.000 í málskostnað.