Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2003


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur


Miðvikudaginn 28

 

Miðvikudaginn 28. maí 2003.

Nr. 47/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Gústav Reynholdt Gústavssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Miskabætur.

G var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa notfært sér þroskahömlun X til að hafa við hana samræði sem hún gat ekki spornað við sökum andlegra annmarka. Í héraðsdómi var með vísan til vitnisburðar X og þess að engum meðalgreindum manni, sem sæi X augliti til auglitis og ræddi við hana litla stund, gæti blandast hugur um að hún væri greindarskert, talið hafið yfir skynsamlegan vafa að G hefði notfært sér andlega annmarka X til að koma fram vilja sínum. Var G því sakfelldur fyrir brot gegn 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í Hæstarétti þótti sýnt að G hefði notfært sér trúnað X og að hún hefði litið á hann sem vin sinn. Þá þótti nægilega fram komið að brotið hefði ekki verið hugdetta G á vettvangi, heldur fyrirfram skipulagt og framið á ófyrirleitinn hátt. Vegna þessa, alvarleika brotsins og sakaferils G var honum gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða X 500.000 krónur í miskabætur

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. janúar 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 600.000 krónur.

Ákærði krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og bótakröfu vísað frá dómi, en til vara, að refsing verði milduð og að öllu eða verulegu leyti skilorðsbundin, svo og að bótakrafa verði lækkuð.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Sýnt er að ákærði hafi notfært sér trúnað kæranda við hann og að hún leit á hann sem vin sinn. Er og nægilega fram komið að brotið hafi ekki verið hugdetta ákærða á vettvangi, heldur fyrirfram skipulagt og framið á ófyrirleitinn hátt. Vegna þessa, alvarleika brotsins og sakaferils ákærða er refsing hans hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi. Fallist er á með héraðsdómi að ekki séu efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð E þroskaþjálfa og F stuðningsfulltrúa frá 16. apríl 2003, en þær báru vitni í héraði. Í vottorðinu kemur fram, að líðan kæranda hafi batnað eftir að atvik málsins gerðust vegna stuðnings við hana frá starfsmönnum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra [...], skóla- og fjölskylduskrifstofu og ættingjum. Samt sem áður eigi hún enn mjög erfitt með að treysta fólki og sé hrædd mæti hún karlmönnum á götu eða í verslunum. Hún sé sífellt á varðbergi heima hjá sér, fylgist með umferð bifreiða að húsinu og hleypi engum inn nema hún sé fullviss um hver það sé. Hún hafi ekki treyst sér til að taka þátt í samkomum, eins og til dæmis að fara í leikhús, bíó, þorrablót eða íþróttaviðburði. Þetta valdi því að hún sé mjög einangruð, einmana og vansæl. Auk þessa eigi hún erfitt með svefn og vakni oft upp við martraðir þar sem hún upplifi hótanir sem hún hafi orðið fyrir eftir atburðinn. Einnig hafi mun meira verið um fjarvistir hennar frá vinnu, sem hafi haft talsverð áhrif á fjárhag hennar.

Samkvæmt framangreindu og því, sem greinir í héraðsdómi varðandi bótakröfu kæranda, er sýnt að brot ákærða hefur valdið henni mikilli andlegri vanlíðan og félagslegri röskun. Að því gættu verður ákærði dæmdur til að greiða henni 500.000 krónur í miskabætur með vöxtum, eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gústav Reynholdt Gústavsson, sæti fangelsi 18 mánuði.

Ákærði greiði X 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. apríl 2002 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hákonar Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 20. desember 2002.

Mál þetta, sem var dómtekið 22. nóvember sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru útgefinni 20. ágúst 2002 á hendur ákærða, Gústav Reynholdt Gústavssyni, [...],

„fyrir kynferðisbrot, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 8. apríl 2002, á heimili [X], að [...], not­fært sér þroskahömlun [X] til að hafa við hana samræði sem hún gat ekki spornað við sökum andlegra annmarka sinna.

Telst þetta varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40, 1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

[X] krefst skaðabóta að fjárhæð kr. 615.000 auk vaxta frá 8. apríl 2002 til greiðsludags í samræmi við 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1989.“

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds og að framlagðri bóta­kröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði dæmdur í vægustu lögleyfða refsingu, sem verði bundin skilorði og að bótakrafan verði aðeins tekin til greina að óveru­legu leyti.  Þá er gerð krafa um greiðslu málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

I.

Að morgni þriðjudagsins 9. apríl 2002 um kl. 10 kom A stuðningsfulltrúi hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á [...] á heimili X [...].  X er þroskahömluð, en býr ein að [...] og nýtur til þess stuðnings félags­málayfirvalda.  A bar fyrir dómi að þegar hún hefði komið heim til X hefði X verið niðurdregin og henni greinilega liðið illa.  Að sögn A hefði henni ekki dulist að eitthvað hefði hent X.  Hún hefði gengið á X, sem hefði verið lengi að koma orðum að frásögn sinni og byrjað á því að tala um smithættu af kyn­sjúk­­dómum.  Hún hefði síðan skýrt grátandi frá því að ákærði hefði heimsótt hana kvöldið áður og haft meðferðis pakka, sem hann hefði ætlað að gefa henni fyrir að gæta barna hans.  Í pakkanum hefði verið eitthvert hjálpartæki ástarlífsins.  Ákærði hefði síðan haft samræði við hana og hún ekki þorað að sporna gegn því. 

A hringdi heiman frá X til B forstöðumanns svæðisskrifstofunnar og tilkynnti henni um atburðinn, en fór í framhaldi með X á fund B.  B bar fyrir dómi að X hefði verið óróleg og hrædd.  Hún hefði skýrt frá komu ákærða með pakkann og innihaldi hans og að hann hefði haft við hana samræði, sem hún hefði ekki þorað að sporna gegn. 

B tilkynnti lögreglunni á [...] um málið laust fyrir klukkan 13 sama dag.  X gekkst í framhaldi undir læknisskoðun, sem framkvæmd var af Jens A. Guðmundssyni kvensjúkdómalækni.  Í vottorði læknisins, sem dagsett er sama dag, kemur fram að X hafi verið svolítið erfið í samstarfi við skoðun, en samt sem áður verið með­vituð um nauðsyn hennar og tekið henni vel.  Við lauslega skoðun hafi ekki verið að sjá áverka­merki á húð.  Engin áverkamerki hafi heldur verið sýnileg á ytri kyn­færum og leg­ganga­skoðun ekki leitt neitt athugavert í ljós.  Í vottorði sama læknis frá 21. júní 2002 er því lýst að X hafi greinilega verið óttaslegin við komu á sjúkra­hús og í tilfinninga­legu uppnámi, sem erfitt hafi verið að meta nákvæm­lega vegna þroska­stigs hennar.  Kvensjúkdómalæknirinn var ekki kvaddur fyrir dóm vegna málsins. 

X gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu kl. 16:54 sama dag.  Hún kvaðst þekkja ákærða mjög vel og hafa heimsótt hann öðru hvoru til að sjá börnin hans, sem hún væri mjög hrifin af.  Kvöldið áður hefði hann hringt í hana og sagst vera að koma í heimsókn.  Hann hefði haft pakka meðferðis, sem hann hefði kallað gleðipakka og sagt vera fyrir hana.  Hún hefði haldið að í honum væru dýrastyttur eða eitthvað þess háttar, sem hann hefði ætlað að gefa henni í þakklætisskyni fyrir að hafa verið góð við börnin.  Í ljós hefði komið einhvers konar rafmagnstæki með túttu, sem hann hefði nuddað upp við brjóst hennar og kynfæri inni í stofu íbúðarinnar, eftir að hafa klætt hana úr fötunum og makað hana alla út í olíu.  Að sögn X hefði hún orðið hrædd, en ekki þorað að segja nei, enda hefði hún fundið áfengislykt af ákærða og talið að hann gæti lamið hana ef hann yrði illur.  Ákærði hefði síðan farið með hana inn í svefnherbergið hennar, látið hana bera olíu á nakinn líkama hans, þrábeðið hana að nudda getnaðar­lim hans og hún ekki þorað annað en að hlýða.  Ákærði hefði því næst lagt hana á bakið ofan á sæng í rúminu, sett getnaðar­liminn inn í fæðingarveg hennar og haft við hana samræði gegn vilja hennar.  Hún hefði fundið mikinn verk, æpt upp fyrir sig og ætlað að ýta honum frá, en ákærði hefði þá ýtt hönd hennar niður að síðu og sagt henni að loka augunum og slappa bara af.  Eftir að hafa fellt til hennar sæði hefði ákærði staðið á fætur, klætt sig og farið út.  X kvaðst í framhaldi hafa þurrkað sæði af sér og rúmfötunum með hand­klæði og rauðri rúllukragapeysu.  Aðspurð kvaðst X aldrei hafa haft áhuga á kynlífi og til þess dags ekki hafa haft samræði við nokkurn mann.

Ákærði var fyrst yfirheyrður af lögreglu kl. 18:47 sama dag.  Hann kvaðst hafa þekkt X frá því í september 2001 og sagði hana hafa komið af og til í heim­sókn til sín, síðast um kaffileyti daginn áður.  Að sögn ákærða hefði hann rekið hana út af heimilinu um kvöldmatarleytið og ekki séð hana síðan þá.  Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa komið heim til X og sagðist vera hneykslaður á ásökunum hennar í hans garð.  Ákærði var handtekinn í kjölfar skýrslugjafarinnar og vistaður í fanga­geymslu yfir nótt.

Lögregla framkvæmdi vettvangsrannsókn á heimili X sama kvöld og lagði meðal annars hald á handklæði, peysur og sængurföt í þágu rannsóknar málsins.  Einnig var lagt hald á bláan egglaga titrara, sem fannst í fataskáp í svefnherbergi X ásamt tveimur litlum plast­túpum, sem innihéldu einhvern vökva og plast­poka úr ruslafötu í eldhúsi, sem hún hafði bent á og sagt titrarann hafa verið í.  Ekki var gerð fingra­fararannsókn á titraranum, en handklæðið, fatnaðurinn og sængurfötin voru send til rannsóknar ásamt stroksýni, sem tekið hafði verið úr leggöngum X fyrr um daginn.  Sam­kvæmt niðurstöðum sérfræðirannsókna frá 19. apríl 2002 fundust dreifðar sæðis­frumur í nefndu strok­sýni, sem voru heillegar og bentu til þess að sáðfall hefði orðið tiltölulega skömmu áður en sýnið var tekið.  Rannsókn á bol og rauðri rúllukragapeysu í eigu X og sæðisprófun með sérstakri flúrskimun reyndist jákvæð og gáfu yfir­gnæfandi líkur á að um sæðisbletti væri að ræða.  Blettir og kám á sængurveri hennar gáfu ekki jákvæða svörun við sæðisforprófi.

Ákærði var yfirheyrður öðru sinni af lögreglu 10. apríl eftir dvöl í fanga­geymslu.  Hann kvaðst vilja breyta fyrri framburði og viðurkenndi að hafa farið í heim­sókn til X að kvöldi 8. apríl og haft við hana samræði.  Hún hefði sóst eftir samræði við hann og hann því haft við hana mök með fullum vilja hennar.  Ákærði kvaðst hafa gert sér grein fyrir andlegum annmörkum X, en ekki hafa gert sér grein fyrir þroskastigi hennar.  Hann sæi það hins vegar eftir á að þau hefðu gengið lengra en rétt hefði verið og sagðist hafa samviskubit vegna gjörða sinna og taldi sjálfsvirðingu sína hafa beðið hnekki.  Ákærði skýrði frá aðdraganda sam­ræðisins á annan veg en X og kvað hana hafa verið að horfa á klámfengið efni á myndbandi þegar hann hefði komið í heimsókn.  Þau hefðu horft á myndina saman og farið að ræða um málefni tengd kynlífi.  Í framhaldi hefði X sýnt honum einhvers konar titrara, sem hún hefði sagt vera sína eign.  Eftir þetta hefði atburða­rásin verið hröð.  Hún hefði sýnt honum hvernig ætti að nota titrarann og þau farið að nota hann til að gæla hvort við annað.  Sjálfur hefði hann örvast kyn­ferðislega og metið það svo að X væri kynferðislega soltin.  Hann hefði því spurt hvort þau ættu að fara inn í rúm til hennar og hún svarað því játandi.  Þar hefðu þau klætt sig úr fötunum, lagst nakin upp í rúmið og haft samfarir.  X hefði legið á bakinu og hann ofan á og hún stýrt getnaðarlim hans inn í leggöng sín.  Ákærði kvaðst ekki vita hvort honum hefði orðið sáðfall, en eftir að hafa viðhaft sam­fara­hreyfingar í nokkrar mínútur hefði áhugi hans minnkað og limur hans byrjað að linast.  Hann hefði því hætt samförunum, gegn vilja hennar, klætt sig og farið heim eftir að hafa kvatt hana í dyragættinni að íbúð hennar.  Hún hefði síðan kallað á eftir honum niður stiga og spurt hvort hún mætti heimsækja hann daginn eftir.

X kom fyrir dóm 11. apríl og gaf ítar­lega skýrslu um málsatvik, sem var hljóðrituð og tekin upp á myndband.  Hún skýrði frá aðdraganda að heimsókn ákærða á sama veg og fyrr og kvað hann hafa komið með pakka handa henni, sem hann hefði sagt vera þakklætisvott fyrir góðvild hennar í garð barna hans.  Hún hefði spurt hvort hún mætti opna pakkann, en ákærði sagst myndu gera það sjálfur.  Í pakkanum hefði verið poki með „klámtæki“ í.  Ákærði hefði síðan setið í stofunni um stund og horft á klámspólu, sem kunningi hennar úr [...], C, hefði komið með heim til hennar nokkru áður og skilið eftir í mynd­bands­tæki.  Að sögn X hefði hún ekki viljað hreyfa við spólunni og ekki þorað að segja starfs­mönnum svæðis­skrifstofunnar frá henni.  Því hefði spólan enn verið í tækinu þegar ákærði hefði komið heim til hennar.  Eftir nokkra stund hefði hann klætt hana úr að ofan­verðu, borið olíu á hana og nuddað hana með klámtækinu.  Í framhaldi hefði hann afklætt hana að fullu, borið olíuna milli fóta hennar og nuddað kynfæri hennar með tækinu.  Því næst hefði hann farið með hana inn í svefnherbergi, lagt hana ofan á sæng í rúminu, nuddað hana meira með tækinu og látið hana bera olíu á getnaðarlim hans og nudda liminn með tækinu og annarri hendi.  Ákærði hefði síðan sagt henni að slaka á og loka augunum.  Hún hefði verið óttaslegin og ekki viljað það og ætlað að ýta við honum með annarri hendi, en ákærði þá ýtt hendinni aðeins frá, sagt henni aftur að slappa af og hvíla sig og loka augunum og því næst haft við hana samræði, sem hefði verið sársaukafullt fyrir hana.  Ákærði hefði fengið fullnægingu og sæði fallið á hana og í rúmið.  Hann hefði síðan klætt sig og farið án þess að kveðja, en hún þurrkað sæði hans af sér og úr rúminu með fötum og handklæði.  Að sögn X hefði ákærði sagt henni að þegja og halda kjafti yfir því sem hefði gerst, en hún hefði ekki treyst sér til þess og sagt starfsmanni svæðis­skrifstofunnar allt af létta þegar hún hefði komið til hennar morguninn eftir.  X kvaðst varla trúa því að vinur hennar hefði komið svona fram við hana og sagðist aldrei myndu fara aftur í heimsókn til hans þótt hún elskaði börnin hans út af lífinu.  Aðspurð kvaðst X aldrei fyrr hafa prófað kynlíf með nokkrum manni.  Hún sagðist þó eiga kærasta í [...], en þau væru bæði hrædd við kynlíf og vildu hvorugt stunda það.

Ákærði var yfirheyrður á ný 14. júní 2002 og honum þá kynntar niðurstöður framangreindra sérfræðirannsókna.  Hann kvaðst ekki vefengja niðurstöðurnar og sagðist telja mjög líklegt að hann hefði fellt sæði til X umrætt sinn.

II.

Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa greint sinn haft samræði við X, en lýsti sig saklausan af ákæru þar sem hann hefði ekki notfært sér þroska­hömlun hennar og andlega annmarka til að koma fram vilja sínum.  Samræðið hefði verið með fullum vilja hennar.  Ákærði kvaðst hafa kynnst X í september 2001 gegnum barns­móður sína og fyrrverandi sambýlis­konu, en X hefði síðan vanið komur sínar á heimili hans og það meira en góðu hófi gegndi, enda hefði hann kvartað undan heimsóknum hennar við starfsmenn Skóla- og fjölskylduskrifstofu [...].  Aðspurður sagði ákærði að sér hefði verið ljóst á greindum tíma að X ætti við fötlun að stríða, hún væri barnaleg og safnaði leik­föngum, en þó væri hún að sumu leyti greind og gæti til dæmis tjáð sig á hollensku, dönsku og ensku.  Að sögn ákærða hefði hún oft talað um kynferðisleg málefni á heimili hans og ítrekað sóst eftir kynlífi með honum.  Umrætt kvöld hefði hann verið búinn að drekka um fimm áfenga bjóra á heimili sínu fram til kl. 21 og fundið til óveru­legra áfengisáhrifa þegar hann hefði ákveðið að fara út í hjólreiðatúr.  Hann hefði síðan ákveðið að heimsækja X, en hún hefði margoft verið búin að bjóða honum heim.  Er þangað kom hefði hann sest inn í stofu og veitt því athygli að kveikt hefði verið á sjónvarpi og í því klámfengið efni af myndbandsspólu.  Þau hefðu horft á myndefnið með öðru auganu og við það örvast kynferðislega og farið að ræða um kynlíf.  X hefði í framhaldi sýnt honum titrarann og byrjað að nudda honum yfir brjóst sín.  Síðan hefði eitt leitt af öðru, þau hefðu farið að fikta með tækið og nota það hvort á annað í stofunni og hann í framhaldi spurt hvort þau ættu að fara inn í rúm til hennar.  Hún hefði svarað því játandi og þau afklætt sig inni í svefn­herberginu.  Áður hefði X þó verið búin að klæða sig úr að ofan í stofunni.  Ákærði lýsti samförunum með sama hætti og hann hafði áður gert hjá lög­reglu og sagði sem fyrr að X hefði stýrt getnaðarlim hans inn í leggöng sín.  Hann hefði síðan orðið afhuga sam­förunum í miðjum klíðum, limur hans tekið að linast og hann þá hætt samförum við hana.  Ákærði kvaðst þó halda að honum hefði áður orðið sáðfall.  Eftir samneyti þeirra hefði hann farið fram og þegið hjá henni kaffi­sopa, en skömmu síðar farið heim.  Þegar þau hefðu kvaðst hefði hún kallað á eftir honum og spurt hvort hún mætti koma í heimsókn daginn eftir.  Ákærði vísaði því á bug að hann hefði sagt X að þegja um það sem hefði gerst á milli þeirra.

Vitnið C bar fyrir dómi að X hefði verið málkunnug sam­býliskonu hans og alloft komið á heimili þeirra í Hnífsdal.  C hefði einnig í nokkur skipti sótt X heim á [...].  Hann kvað sér vera minnisstætt að hún hefði eitt sinn verið í heimsókn hjá honum og sagst vilja vera hjá honum um nótt.  Sam­býliskona hans hefði þá verið að heiman.  Að sögn C hefði hann ekki getað skilið orð hennar öðru vísi en svo að hún hefði viljað eiga kynmök við hann.  C kvað rangt hjá X að hann hefði einhvern tíma komið með klámspólu heim til hennar, en sagðist sakna þriggja klámspólna, sem hefðu horfið af heimili hans í febrúar-mars 2002 og hefði hann X undir grun.  Þá hefði einnig horfið titrari, sem C lýsti aðspurður sem eftirlíkingu af getnaðarlim, líklega rauðum á lit.  Honum var í framhaldi sýndur hinn haldlagði, blái, egglaga titrari og kvaðst hann sam­­stundis kannast við að eiga einnig slíkan titrara, en ekki hafa verið orðinn þess áskynja að hann væri líka horfinn.  C var bent á fyrir dómi að hann hefði ekki minnst á hvarf á titrara í skýrslugjöf sinni hjá lögreglu 16. maí 2002 og svaraði hann því til að hann hefði fyrst orðið var við hvarfið daginn eftir skýrslugjöfina.  Honum var einnig kynnt að við nefnda skýrslugjöf hefði hann sagt X hafa sóst talsvert eftir samförum við hann, en nú fyrir dómi lýsti hann aðeins einu tilviki.  C gaf ekki ákveðin svör við þessu ósamræmi, en kvaðst líklega hafa munað betur eftir máls­at­vikum hjá lög­reglu.  Hann staðfesti í framhaldi frásögn sína hjá lögreglu um að kynni sín af X hefðu verið mjög á þann veg að hún hefði margsinnis sóst eftir kyn­lífi og mikið rætt um kynlífsmálefni.  Áður hafði C þó borið í réttinum að hann hefði aldrei heyrt hana minnast á slík málefni í hans eyru.  C kvaðst gera sér grein fyrir að X væri „vanþroska“.  Hún væri mjög barnaleg og þroska­heft; með þroska á við 14-15 ára barn að hans mati.  Aðspurður um kynni sín og tengsl við ákærða kvað C hann vera kunningja sinn frá gamalli tíð, en hjá lög­reglu hafði C sagst þekkja hann vel og sagði þá vera góða vini.

D er vinur ákærða frá barnæsku og hafði búið heima hjá honum um sex mánaða skeið þegar mál þetta kom upp.  D bar fyrir dómi að hann hefði þekkt nokkuð til X vegna heimsókna hennar og sagði hana hafa verið afar upp­áþrengjandi.  Hún hefði vanið komur sínar á heimili ákærða vegna kynferðislegs áhuga á honum og D, en ekki vegna áhuga á börnum ákærða.  Þeim hefði verið ami að heimsóknum hennar, en ekki tekið fyrir þær vegna þess að ákærði hefði vor­kennt henni.  X hefði haft mikinn áhuga á kynlífi, nánast aldrei talað um neitt annað en kynferðismál og gjarnan viljað ræða um reynslu sína á því sviði.  Hún hefði hælt sér af því að hinir og þessir hefðu haft sam­farir við hana og nafngreint einhvern „H“ í því sambandi, en jafnframt látið þess getið að sér fyndist orðið langt síðan að sá hefði hjálpað henni á þessu sviði.  Að sögn D hefði X sýnt honum og ákærða eilífa kynferðislega áreitni, káfað á kyn­færum þeirra utan klæða og sífellt beðið þá að hafa við sig kynmök eða „gera du-du við sig“ eins og D sagði hana hafa komist að orði.  D kvaðst hafa verið meðvitaður um að X ætti við fötlun að stríða og sagðist vita til þess að hún hefði þroska á við 7 ára gamalt barn.  Hann kvað hana oft hafa verið með leikföng meðferðis þegar hún hefði komið heim til þeirra.  D var fyrir dómi kynntur vitnisburður hans hjá lög­reglu 10. apríl 2002 og bent á að þá hefði hann sagt X hafa verið tíðan gest á heimili ákærða og oft hafa talað um hve vænt henni þætti um börn hans.  Einnig hefði hann neitað því aðspurður hjá lögreglu hvort einhverjir kynferðislegir tilburðir hefðu átt sér stað á milli hennar og ákærða á heimilinu og sagst geta fullyrt að svo hefði ekki verið.  X væri hins vegar gjörn á að strjúka fólki um höfuðið, bæði honum og ákærða, til að láta í ljós væntumþykju sína.  D gaf í framhaldi þá skýringu á sínum fyrri vitnisburði að hann hefði verið ölvaður við skýrslugjöfina hjá lögreglu og sagðist ráma í að yfirheyrandinn, Skúli Berg rannsóknarlögreglumaður, hefði eitthvað verið að reyna að hagræða vitnisburðinum fyrir hann og komið aftan að honum með einhver atriði. 

Skúli Berg var kallaður til vitnis í ljósi framangreinds vættis og sagði hann fráleitt að skýrsla hefði verið tekin af D undir áhrifum áfengis.  Frásögn hans hefði verið skráð eftir honum jafn harðan, hann lesið skýrsluna yfir og undirritað hana í viðurvist Skúla og annars lögreglumanns.

E þroskaþjálfi og F stuðningsfulltrúi báru vitni fyrir dómi, sem og A, sem áður er nefnd, en konurnar hafa allar komið að málefnum X og daglegum stuðningi við hana í starfi sínu hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á [...].  Þær báru efnislega á sama veg um að X væri nokkuð greindarskert og barnaleg í sér, en framkoma hennar geti verið ákveðin og hún virkað sterkari á fólk í fyrstu en hún sé í raun.  Hún sé afar hænd að börnum og sýni andúð á því að stunda kynlíf.  Hún eigi þó greindarskertan kærasta í [...], en segi sjálf að þau vilji ekki stunda kynlíf.  F og A báru ennfremur að líðan og hegðun X hefði breyst eftir reynslu hennar með ákærða.  Henni hefði liðið illa upp frá því og hún átt erfitt með að tala um þá reynslu.  Einnig hefði hún kvartað lengi á eftir um sársauka og eymsli, verið hrædd við að fara út á meðal fólks og óttast að vera ein.  F kvaðst vita að X hefði áður oft farið inn á heimili ákærða, sem hún hefði talað um sem vin sinn og bundið traust við hann.  Henni hefði og þótt ákaflega vænt um börnin hans.  Ákærði hefði verið búinn að kvarta yfir þessum heimsóknum og hún verið beðin um að draga úr þeim, en ekki sinnt þeim tilmælum.

Inga Bára Þórðardóttir sálfræðingur var fengin til að greindarprófa X í þágu rannsóknar málsins.  Í álitsgerð sálfræðingsins 6. maí 2002, sem hún staðfesti fyrir dómi kemur fram að hún hafi lagt fyrir X greindarpróf Wechslers handa full­orðnum, en niðurstöður prófsins ættu að sýna stöðu hennar samanborið við heil­brigða jafnaldra hennar.  Heildar­greindar­vísitala X hefði mælst 65 stig, sem teldist greindarskerðing.  Inga Bára gat þess fyrir dómi að prófið tæki mið af því að greindar­vísitala einstaklings í meðallagi sé 100 stig og einstaklingar sem mælist með greindarvísitölu undir 70-75 stigum teljist því greindar­skertir.  X hefði sam­kvæmt þessu greinst með milda þroskahömlun. 

X kom fyrir dóm að nýju við aðalmeðferð málsins og bar á sama veg og fyrr um helstu málsatvik.  Henni var kynntur framburður ákærða fyrir dómi og vitnis­burður C og D og henni gefinn kostur á að tjá sig um þau atriði, sem alls ekki samrýmdust hennar frásögn.  Hún kvað rangt að ákærði hefði staldrað við í íbúðinni eftir athæfi sitt og einnig að hún hefði átt orða­skipti við hann á stigapalli íbúðarinnar.  X mótmælti því einnig að hafa rætt um kynlíf við mennina þrjá og að hafa sóst eftir slíku með þeim.  Hún lýsti sem fyrr óbeit sinni og hræðslu á kynlífi og kvaðst aldrei hafa haft samræði við nokkurn mann fyrir hinn kærða atburð.  Hún hefði hins vegar átt kærasta í [...] í mörg ár, en þau hafi aldrei viljað lifa kynlífi.  Að sögn X hefðu ákærði og D á hinn bóginn gjarnan viljað ræða um kynferðisleg málefni þegar hún hefði verið gest­komandi heima hjá ákærða og þeir verið við skál, en henni hefði líkað það illa.  Aðspurð um kynni sín af „H í [...]“ kvaðst X þekkja hann og sagði hann í eitt skipti hafa haft við hana samræði.  Eftir það hefði hún ekki leyft honum að heimsækja hana.  Hún kvað ákærða og C fara með ósannindi um það með hvaða hætti egglaga titrarinn, sem hún kallaði „klámtækið“, hefði borist inn á heimili hennar og ítrekaði að ákærði hefði haft hann með sér umrætt kvöld.  Tækið hefði verið í kassa og pakkað í gjafapappír, sem hún hefði fleygt í sorp­rennu í fjöl­eignar­húsinu, þar sem hún býr.  Þá kvað hún það ósannindi að hún hefði tekið mynd­bands­spólur eða annað af heimili C.  Hann hefði komið með eina klámspólu í heim­sókn til hennar, horft á hana þar og skilið eftir í tækinu.  Kvaðst hún halda að C hljóti að hafa sagt ákærða frá því að spóluna væri þar að finna. 

III.

Samkvæmt 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem henni var breytt með 4. gr. laga nr. 40/1992, varðar það fangelsi allt að 6 árum ef maður not­færir sér geðveiki eða aðra andlega annmarka annars manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.

Ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt að hafa haft samræði við X á heimili hennar að [...] mánudagskvöldið 8. apríl 2002.  Hann neitar engu að síður sök í málinu og byggir málsvörn sína á því að samræðið hafi verið með hennar vilja og hann ekki notfært sér þroskahömlun hennar í því sambandi.  Ákærði kveðst hafa þekkt X frá því í september 2001 og segir hana í fjölmörg skipti hafa komið inn á heimili hans.  Honum hafi verið ljóst að hún ætti við andlega fötlun að stríða, hún væri barnaleg og safnaði leikföngum.  Sam­rýmist framburður ákærða um síðastgreind atriði vætti D fyrir dómi, en D bar að hann hefði vitað til þess að X hefði andlegan þroska á við 7 ára barn og sagði hana oft hafa haft leikföng meðferðis þegar hún hefði komið inn á heimili ákærða.

X var 47 ára gömul þegar hinn kærði atburður gerðist.  Samkvæmt áður­nefndu greindarprófi mældist heildargreindarvísitala hennar 65 stig í maí 2002 og telst hún því vera með væga eða milda þroskahömlun.  Í vitnisburði Ingu Báru Þórðardóttur sálfræðings, sem framkvæmdi nefnda prófun, kom fram það álit hennar að hver meðalgreindur maður, sem þekkti X, gæti ekki gengið þess dulinn að hún byggi við greindarskerðingu.  Inga Bára kvað rannsóknir sýna að einstaklingar með sambærilega greindarskerðingu og X leiti almennt eftir því að þóknast öðrum og hafi lítið mótstöðuafl gegn þrýstingi. 

X getur búið ein í íbúð, en nýtur mikils stuðnings frá starfsmönnum Svæðis­skrifstofu málefna fatlaðra, sem líta til með henni flesta daga vikunnar.  Fram­lagðar ljósmyndir í málinu, sem teknar voru við vett­vangs­rannsókn lögreglu daginn eftir hinn kærða atburð, bera með sér að íbúð X sé snyrtileg í alla staði.  Í stofu prýða innrammaðar myndir af hundum veggi og einnig má sjá bangsa, litla skraut­muni og dúkkuvagn á gólfi.  Svefnherbergi hennar er lítið og þar hefur hún raðað fjölda smástytta á skrifborð og í gluggakistu.  Á náttborði er gulur sparigrís og við hlið þess uppbúið rúm.  Er óumdeilt að ákærði hafði samræði við hana í rúmi þessu og að þau hafi legið ofan á sæng með sama sængurfatnaði og sést á ljós­myndunum.  Er hér um að ræða sængur- og koddaver með litprentaðri mynd af stubbunum eða „Teletubbies“, sem eru vinsælt sjónvarpsefni hér á landi hjá yngstu kynslóðinni.

Ákærði og X eru ein til frásagnar um hvað gerðist í íbúðinni umrætt kvöld.  Ber mikið á milli í lýsingu þeirra á atburðarás.  Í upphafi málsrannsóknar neitaði ákærði alfarið að hafa haft við hana samræði og kvaðst aldrei hafa komið inn í íbúð hennar.  Hann dró þann framburð til baka degi síðar og hefur allar götur síðan haldið fast við þann framburð að hann hefði skyndilega fengið þá hugmynd að skreppa til hennar í heimsókn umrætt kvöld.  Hún komið síðan honum til með því að sýna honum klámfengið myndefni í sjónvarpi og einnig örvað hann kynferðislega með tals­máta sínum og titrara, sem hún hefði dregið fram og nuddað yfir nakin brjóst sín inni í stofu.  Hefði þannig eitt leitt af öðru og svo farið að hann hefði spurt hvort þau ættu ekki að fara inn í svefnherbergi hennar.  X hefði tekið því vel, afklætt sig að neðan og lagst á bakið ofan á sængina sína og því næst stýrt getnaðarlim hans inn í leggöng sín. 

Framburður ákærða nýtur ekki beins stuðnings í gögnum málsins, en sam­­rýmist í sumum atriðum vitnisburði C og D fyrir dómi um að X hefði margsinnis sóst eftir kynlífi með þeim, hún verið sér­lega ágeng kynferðislega og verið tíðrætt um kynferðismál.  Dómurinn leggur þó ekki mikið upp úr sannleiksgildi vitnisburðar mannanna tveggja, sem eru vinir ákærða og hafa ýmist verið tvísaga eða reikulir í frásögn sinni um greind atriði.  Þykir því vitnis­­burður þeirra að þessu leyti ótrúverðugur og ber hann þess glögg merki að vera gefinn af hreinu skeytingarleysi og/eða til að fegra hlut ákærða og sverta mann­orð X að sama skapi.  Þannig bar vitnið D meðal annars að X hefði heimsótt ákærða, svo oft sem hún gerði, vegna kynferðislegs áhuga á honum og D, en ekki vegna áhuga á börnum ákærða.  Telur dómurinn að önnur gögn málsins hnekki þessum framburði vitnisins, en fyrir liggur að X hafði einstakt dálæti á börnunum og lét sér annt um vel­ferð þeirra.  Þá fer nefndur fram­burður C og D í bága við samhljóða vitnis­­burð E, F og A, sem þekkja X vel og báru fyrir dómi að ástundun kynlífs væri henni þvert um geð og ætti hún ekki vanda til að ræða um málefni tengd kynlífi nema á sak­lausan og barnslegan hátt.  Nefndu þær í því sambandi að X talaði oft um að fólk væri „sexí“ af ekki merkari ástæðu en þeirri að það væri í fallegri peysu eða eitthvað slíkt.  Með hliðsjón af því, sem nú hefur verið rakið, er það álit dómsins að nefndur vitnis­burður C og D fyrir dómi sé ótúverðugur og veiki fremur framburð ákærða, sem ekki var trúverðugur fyrir að mati dómsins.

X hefur á hinn bóginn verið staðföst í vitnisburði sínum og greint frá öllum helstu atvikum, sem máli skipta, á sama veg við rannsókn og meðferð málsins.  Frásögn hennar er skýr og greinargóð þrátt fyrir þroskahömlun hennar, sem óneitan­lega setur mark sitt á frásagnargetu hennar.  Hún hefur þó verið sjálfri sér samkvæm og aldrei hvikað frá þeim fram­burði að ákærði hafi hringt heim til hennar umrætt kvöld og boðað komu sína, að hann hafi haft meðferðis margumræddan titrara, sem hann hafi nuddað upp við olíuborin brjóst hennar og kynfæri, þvingað hana til að nudda getnaðar­lim hans og í framhaldi haft við hana samræði gegn vilja hennar. 

Vitnis­burður X fær stoð í vætti A og B, sem hlýddu á fyrstu frásögn hennar af atburðum morguninn eftir og báru fyrir dómi að hún hefði greinilega verið hrædd og miður sín þegar hún hefði skýrt þeim frá heimsókn ákærða með pakka kvöldið áður, innihaldi pakkans og því að hann hefði haft við hana samræði, sem hún hefði ekki þorað að sporna gegn.  Bendir lýsing vitnanna á ástandi X eindregið til þess að eitthvað alvarlegt hafi hent hana.  Hefur og ekkert komið fram í málinu um að rekja megi ástand hennar og líðan eftir atburðina til annarra atvika en samskipta hennar við ákærða, eins og hún lýsir þeim fyrir dómi. 

Dómendur hafa horft á mynd­bands­upptöku af dómsframburði X 11. apríl síðast­liðinn og hlýtt á vitnisburð hennar fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.  Með hliðsjón af framansögðu er það álit dómsins að vitnisburður hennar um atburði á heimili hennar umrætt kvöld sé áreiðanlegur og trú­verðugur í alla staði.  Þykir því eigi varhugavert að leggja hann til grundvallar í málinu, enda er framburður ákærða að sama skapi ótrúverðugur að mati dómsins.  Þykir hér engu breyta þótt X hafi ekki greint frá nánum kynnum sínum af áður­nefndum H fyrr en á hana var gengið, en í því sambandi verður að hafa í huga þroska­hömlun hennar.  Þess má geta, að tveir dómenda vita deili á nefndum H og einnig að hann á sjálfur við þroskahömlun að stríða. 

Það er ennfremur álit dómsins, eftir að hafa horft á myndbands­upp­tökuna og yfirheyrt X, að engum meðalgreindum manni, sem sér hana augliti til auglitis og ræðir við hana litla stund, geti blandast hugur um að hún sé greindarskert.  Ber útlit hennar, framkoma og orðfæri þetta ótvírætt með sér.  Ákærði hafði þekkt X um nokkurra mánaða skeið þegar mál þetta kom upp og vissi að hún ætti við andlega fötlun að stríða.  Umrætt kvöld fór hann undir áhrifum áfengis heim til hennar, án sér­staks tilefnis, en þangað hafði hann aldrei komið áður.  Hann hafði meðferðis titrara og notfærði sér að X er leiðitöm vegna greindarskerðingar sinnar.  Hann lét hana taka þátt í ýmsum kynferðis­legum athöfnum, sem hún þorði ekki að sporna við sökum hræðslu og hafði að lokum samræði við hana gegn vilja hennar. 

Með framan­greind atriði í huga telur dómurinn hafið yfir skyn­samlegan vafa að ákærði hafi notfært sér andlega annmarka X til að koma fram vilja sínum.  Hefur ákærði þannig gerst sekur um háttsemi þá, sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða miðað við verknaðarlýsingu. 

IV.

Ákærði er fertugur að aldri.  Hann á að baki langan sakarferil, sem nær aftur til ársins 1978.  Samkvæmt sakavottorði hefur hann sex sinnum verið dæmdur fyrir skjala­­fals og ýmis auðgunarbrot og hlotið samtals rúmlega fimm ára fangelsi; síðast í febrúar 1996 er hann var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað.  Þá hefur hann tíu sinum hlotið refsingu fyrir brot á umferðarlögum og öðrum sérrefsi­lögum; síðast í janúar 2002 er hann gekkst undir sektarrefsingu og sviptingu ökuréttar fyrir ölvunarakstur.

Brot það, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, er alvarlegt og beindist gegn mikil­­vægum hagsmunum.  Brotið var framið á heimili X, sem er greindar­skert og átti sér einskis ills von þegar hún bauð ákærða inn til sín umrætt kvöld, enda taldi hún ákærða vera vin sinn og hafði bundið traust við hann af barnslegri einfeldni.  Ákærði hafði það traust að engu og kom fram við hana á niðurlægjandi hátt er hann neyddi hana til að taka þátt í kyn­ferðis­athöfnum bæði inni í stofu íbúðarinnar og í svefn­herbergi, þar sem hann hafði við hana samræði og skeytti því engu þótt hún reyndi af veikum mætti að ýta honum frá sér.  Braut ákærði þannig gegn kynfrelsi og frið­helgi X.  Ákærði á sér engar málsbætur.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi, sem ekki eru efni til að skilorðsbinda að neinu leyti þegar litið er til alvarleika brotsins, aldurs ákærða og sakarferils.

V.

Af hálfu X hefur verið gerð krafa um greiðslu skaðabóta að fjárhæð krónur 15.000 vegna rúm­fatnaðar og peysu, sem lögregla lagði hald á undir rannsókn málsins og er á því byggt að X þyki ógeðfellt að nota nefndar eigur aftur.  Krafan er ekki studd neinum gögnum og ber þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá dómi að kröfu ákærða, sbr. 2. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. 

Einnig hefur verið gerð krafa um greiðslu miskabóta að fjárhæð krónur 600.000, sem reist er á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Með hliðsjón af sak­fellingu ákærða fyrir hið alvarlega kynferðisbrot á X skýlausan rétt til bóta úr hendi hans á grund­velli b-liðar 1. mgr. 26. gr. laganna, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  Ljóst er að brot það, sem ákærði er fundinn sekur um í málinu, er almennt til þess fallið að valda þeim, sem fyrir verður, sálrænum erfiðleikum.  Í máli þessu nýtur takmarkaðra gagna um andlega líðan og hagi X, en hún virðist ekki hafa notið sérstakrar meðferðar í kjölfar atferlis ákærða.  Verður því hér að styðjast við vitnisburð F og A, sem fyrr er nefndur, en þær báru fyrir dómi að líðan og hegðun X hefði breyst eftir atferli ákærða, henni liðið illa lengi á eftir, verið hrædd við að fara út á meðal fólks og óttast að vera ein.  Ekki liggja fyrir haldbærar upplýsingar um líðan hennar í dag.  Með framangreind atriði öll í huga þykja miskabætur til X hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.  Skal fjárhæðin bera almenna vexti, svo sem krafist er, samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. apríl 2002 til greiðsludags.

VI.

Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Er þar með talin þóknun Arnars Geirs Hinrikssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns X, sem ákveðst krónur 120.000 og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Björns Jóhannes­sonar héraðsdómslögmanns, sem ákveðast krónur 250.000.

Dómurinn er kveðinn upp af Erlingi Sigtryggssyni dómstjóra, sem dómsfor­manni og héraðs­dómurunum Ingveldi Einarsdóttur og Jónasi Jóhannssyni.

Jónas Jóhannsson tekur fram að hann telji refsingu ákærða hæfilega ákveðna 18 mánaða fangelsi, með hliðsjón af sakarferli hans og eðli og alvarleika brotsins. 

Dómsuppsaga hefur dregist vegna frátafa dómsformanns við önnur embættis­störf.

 

Dómsorð:

Ákærði, Gústav Reynholdt Gústavsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði greiði X 300.000 krónur í miskabætur með almennum vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 8. apríl 2002 til greiðsludags.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda 120.000 króna þóknun Arnars Geirs Hinrikssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns X og 250.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Jóhannes­sonar héraðsdómslögmanns.