Hæstiréttur íslands

Mál nr. 443/2016

Arnór Sigurvinsson (Magnús Davíð Norðdahl hdl.)
gegn
Vátryggingarfélagi Íslands hf. (enginn), Íbúðarlánasjóði (enginn), Ísafjarðarbæ (enginn) og Wouter Van Hoemissen (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A á hendur V hf., Í, ÍB og W var vísað frá dómi þar sem talið var að tilkynning A, þar sem krafist var ógildingar á nauðungarsölu, hefði borist eftir lögmæltan frest, 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þó svo að frumrit tilkynningarinnar hefði borist héraðsdómara eftir umræddan frest, lægi fyrir að A hefði sent honum tölvubréf innan frestsins með tilkynningunni í viðhengi og hefði dómarinn staðfest móttöku þess. Hefði tilkynningin því borist honum innan frestsins. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 27. maí 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Nauðungarsala á fasteigninni Aðalstræti 12, fastanúmer 212-5390, Þingeyri, fór fram 14. apríl 2016. Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 kemur fram að hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta geti leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu, en krafa þess efnis skal þá berast héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því að uppboði lauk. Fyrir liggur að lögmaður sóknaraðila sendi héraðsdómara tölvubréf 12. maí 2016, en í viðhengi þess var tilkynning þar sem krafist var ógildingar hinnar umdeildu nauðungarsölu. Héraðsdómarinn svaraði tölvubréfinu samdægurs og staðfesti að erindi lögmannsins hefði „verið móttekið“. Þó svo að frumrit tilkynningarinnar hafi ekki borist héraðsdómaranum fyrr en 17. maí 2016 liggur fyrir að hún barst dómaranum sannarlega 12. sama mánaðar, sem var innan þess frests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 27. maí 2016.

I

Mál þetta barst dóminum í tölvupósti 12. maí sl. með bréfi sóknaraðila dagsettu sama dag en frumrit bréfsins barst 17. maí 2016. Málið er tekið til úrskurðar í dag með vísan til 1. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Sóknaraðili er Arnór Sigurvinsson, Øvre Klasgarden 19, 6016 Ålesund, Noregi.

Sóknaraðili krefst þess að nauðungarsala sem fram fór á fasteigninni Aðalstræti 12, Þingeyri, með fastanúmerið 212-5390, 14. apríl sl., klukkan 11.00, verði ógilt með dómi.

II

Í bréfi sóknaraðila leitar hann úrlausnar dómstóla um gildi nauðungasölunnar, en heimild til þess er að finna í 1. mgr. 80. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Þar kemur fram að honum sem gerðarþola hafi ekki verið kunnugt um nauðungarsölu fasteignarinnar fyrr en hún var um garð gengin og samþykkisfrestur útrunninn. Af hálfu sýslumanns hafi honum ekki verið send tilkynning um fyrirtöku beiðni um nauðungasölu samkvæmt 16. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, ásamt afriti af beiðninni. Telur sóknaraðili að sýslumanni hafi borið af sjálfsdáðum að gæta að fyrirmælum laganna um undirbúning og framkvæmd nauðungarsölunnar og hefði með réttu átt að stöðva frekari aðgerðir. Það hafi hins vegar ekki verið gert og hafi fasteignin því verið seld nauðungasölu án vitundar sóknaraðila og sé því farið fram á ógildingu sölunnar.

Þá barst héraðsdómi bréf Tryggva Guðmundssonar hdl. vegna Wouter Van Hoemissen, kaupanda eignarinnar, dagsett 20. maí 2016. Þar er þess krafist að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi. Er þar á því byggt annars vegar að krafa sóknaraðila hafi borist að liðnum fresti samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 og hins vegar að fyrir liggi að sóknaraðila hafi borist tilkynning um nauðungarsölu.

III

Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 getur hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu þegar uppboði hefur verið lokið samkvæmt V. kafla laganna en krafa þess efnis skal þá berast héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því tímamarki sem á við hverju sinni. Uppboð eignarinnar fór fram 14. apríl 2016 og miðast upphaf framangreinds frests við það tímamark. Bréf sóknaraðila barst héraðsdómi með tölvupósti 12. maí 2016 og frumrit bréfsins barst dómnum 17. sama mánaðar en af umslagi sem bréfið barst í má ráða að það var póststimplað 13. maí sl. Við mat á því hvort krafan hafi komið innan frestsins ber að miða við það tímamark er dómnum barst krafan bréfleiðis en tilkynning til héraðsdóms í tölvupósti telst ekki vera nægileg. Var frestur samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laganna því liðinn þegar krafan barst héraðsdómi. Þá bera málsgögn með sér að sóknaraðili hafi móttekið tilkynningar frá sýslumanni vegna sölunnar.

Þegar frestur samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 er liðinn verður því aðeins, samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu að það sé samþykkt af hendi allra aðila að henni, sem hafa haft uppi kröfur fyrir sýslumanni og úrlausnin gæti varðað, svo og kaupanda að eigninni ef um hann er að ræða. Samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 skulu kröfu fylgja yfirlýsingar um samþykki fyrir rekstri málsins eigi það við. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/1991 segir að ákvæðið heimili engar undantekningar frá því að slíkar yfirlýsingar fylgi tilkynningu strax í byrjun. Af málsgögnum má ráða að Vátryggingafélag Íslands hf., Íbúðalánasjóður og Ísafjarðarbær hafi lýst kröfum vegna sölunnar. Ekki liggur fyrir samþykki þessara aðila. Þá má ætla af bréfi lögmanns kaupanda eignarinnar að slíkt samþykki fengist ekki af hans hálfu.

Með vísan til framangreinds er málinu vísað frá dómi.

Úrskurð þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.