Hæstiréttur íslands

Mál nr. 252/2007


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting
  • Andmælaréttur


         

Fimmtudaginn 14. febrúar 2008.

Nr. 252/2007.

Þorkell Halldórsson

(Gylfi Thorlacius hrl.)

gegn

Jóhannesi Haraldssyni

(Halldór H. Backman hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur. Sakarskipting. Andmælaréttur.

Þ krafðist skaðabóta vegna vinnuslyss frá J fyrrum vinnuveitanda sínum. Þ var við byggingarvinnu í þágu J þegar mótafleki losnaði frá vegg og féll yfir Þ. Ljóst var eftir slysið að flekinn hafði verið losaður og var það talin vera meginorsök slyssins. Var ekki vitað hver hefði verið þar að verki en var J talinn bera skaðabótaábyrgð vegna þessa. Óumdeilt var að Þ hafði klifrað sjálfur upp mótaflekann í stað þess að nota stiga. Var talið að hann hefði mátt gera sér grein fyrir hættunni samfara þessu og var honum því gert að bera þriðjung tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Varðandi tjón Þ var lögð fram matsgerð læknanna A og R auk álits örorkunefndar. Þar sem J hafði ekki verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar á meðan málið var til meðferðar hjá örorkunefnd varð ekki byggt á álitsgerð hennar heldur á matsgerð A og R. Upplýst var í málinu að þær greiðslur sem Þ hafði fengið greiddar í kjölfar slyssins og draga ber frá skaðabótum, sbr. 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, námu hærri fjárhæð en nam þeirri bótaskyldu sem á J hafði verið lögð samkvæmt framansögðu. Var J því sýknaður af kröfu Þ.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 25. apríl 2007 og var áfrýjað öðru sinni 9. maí 2007. Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.315.954 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. febrúar 2002 til 26. október 2005 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.

Aðspurður fyrir dómi lýsti áfrýjandi því, að almennt hefðu þeir ekki farið upp á steypumótin nema að búið væri að krækja í þau með krana til þess að „það myndi ekki eitthvað falla niður.“ Af þessu verður ráðið að hann átti, á þeim tíma sem slysið varð, að geta gert sér grein fyrir hættunni samfara því að klifra upp á steypumótið, sem ekki var þannig tryggt. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að áfrýjanda verði gert að bera þriðjung tjóns síns vegna eigin sakar.

Í greinargerð stefnda í héraði kemur fram að ekki hafi verið tekið tillit til þess af hálfu örorkunefndar að áfrýjandi hafði átt við „kvilla og verki að stríða í baki og vinstri öxl fyrir slys“. Eftir það voru lögð fram í héraði nokkur læknisfræðileg gögn og sjúkraskrá áfrýjanda hefur verið lögð fram í heild sinni fyrir Hæstarétt. Engar nýjar upplýsingar sem hér skipta máli er að finna í henni.

Af málsgögnum má sjá að áfrýjandi kvartar um „leiðni út í vinstri öxl“ fljótlega eftir slysið 2001 við Ragnar Gunnarsson lækni og í apríl 2003 „um verk í vinstri öxl“ við Jacek Kantorski lækni. Skráð er í sjúkragögnum að fyrir slysið tognaði áfrýjandi í mjóbaki í knattspyrnuleik í júlí 2000, var með verk á milli herðablaða í nóvember sama ár sem talinn var vöðvabólga, tognaði á vinstri öxl í janúar 2001, og fékk bylmingshögg á vinstri hönd í maí sama ár. Ekkert hefur komið fram um að áfrýjandi hafi orðið fyrir áfalli á vinstri öxl eftir slysið. Læknarnir Atli Þór Ólason og Ragnar Jónsson lýsa umkvörtunum áfrýjanda og eymslum við skoðun, og segja að eftir slysið hafi hann haft „óþægindi í brjósthrygg á milli herðablaða sem leiða upp í háls.“ Niðurstaða mats þeirra 5. nóvember 2003 ræðst hins vegar af því, að ekki verði séð að vinnuhæfni áfrýjanda hafi eða muni skerðast. Þeir leggja aftur á móti ekki mat á það hverjar líkamlegar afleiðingar slyssins hafi verið. Í álitsgerð örorkunefndar 13. september 2005 er tekin afstaða til þess að við slysið hafi áfrýjandi „hlotið tognunaráverka á vinstri öxl og mögulega væga tognun á hálsi og brjóstbaki, en auk þess … fjölmörg rifbrot bæði hægra og vinstra megin, mar á báðum lungum, blóð hægra megin í brjósthol og loftleka frá hægra lunga.“ Telja þeir að viðvarandi einkenni áfrýjanda vegna þessa hafi áhrif á möguleika hans til þess að afla sér atvinnutekna í framtíðinni og leiði til þeirrar örorku sem honum er metin. Bæði í mati læknanna tveggja og í álitsgerð örorkunefndar eru rakin þau gögn sem skipta máli úr heilsufarssögu áfrýjanda.

Það var niðurstaða hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að í álitsgerð örorkunefndar hafi ekki verið að finna fullnægjandi skýringar á því að umræddur áverki í vinstri öxl áfrýjanda hafi komið til vegna slyssins. Var það því niðurstaða dómsins að byggja ekki á álitsgerð nefndarinnar. Skilja verður hinn áfrýjaða dóm svo að leiðni út í vinstri öxl sem áfrýjandi kvartaði yfir við Ragnar Gunnarsson lækni árið 2001 segi ekkert um að hann hafi orðið fyrir áverka á vinstri öxl. Þegar litið er til vottorðs Jacek Kantorski læknis frá apríl 2003 er það hins vegar ofsagt í hinum áfrýjaða dómi að áfrýjandi hafi fyrst kvartað um verki í vinstri öxl í læknisskoðun hjá Sigurði Ásgeiri Kristjánssyni 15. júní 2004.

Stefndi byggir á því að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar á meðan málið var til meðferðar hjá örorkunefnd, sem starfar samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 549/1996 um breytingu á reglugerð um starfsháttu örorkunefndar, nr. 335 16. ágúst 1993, segir: „Skal örorkunefnd kynna aðilum fram komna beiðni og fylgigögn og gefa þeim kost á að koma skriflega á framfæri við nefndina gögnum og sjónarmiðum sínum varðandi matsmálið, innan hæfilegs frests.“ Þessarar skyldu var ekki gætt gagnvart stefnda og verður af þeim sökum ekki byggt á álitsgerð örorkunefndar. Ábending um þetta kom fram hjá stefnda þegar í greinargerð hans í héraði. Af því leiðir að það var á ábyrgð áfrýjanda að afla frekari sönnunar um tjón sitt með nýrri álitsgerð nefndarinnar eða mati. Ekki er um tölulegan ágreining að ræða og er því með þessum athugasemdum niðurstaða hins áfrýjaða dóms um tjón áfrýjanda staðfest.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Áfrýjandi, Þorkell Halldórsson, greiði stefnda, Jóhannesi Haraldssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12 desember 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. nóvember sl., er höfðað 8. febrúar 2006 af Þorkeli Halldórssyni, Leynisbrún 16, Grindavík, á hendur Jóhannesi Haraldssyni, Baðsvöllum 23, Grindavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.315.984 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 5. september 2001 til 26. september 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á dómkröfu stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar.

I.

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skaðabætur vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir þann 5. september 2001. Stefndi er húsasmíðameistari og rekur starfsemi sem slíkur í eigin nafni en stefnandi starfaði þá hjá honum sem byggingaverkamaður. Slysið átti sér stað þegar stefnandi, stefndi og annar starfsmaður stefnda, Hörður Jónsson, unnu við mótauppslátt við hús í byggingu að Heiðarhrauni 27 í Grindavík. Húsið mun vera parhús á einni hæð. Það gerðist með þeim hætti að stór og þungur mótafleki sem stefnandi klifraði upp losnaði frá vegg og féll til jarðar þannig að stefnandi varð undir honum og slasaðist talsvert. Greinir aðila málsins á um hver aðdragandi þessa atburðar var, hvernig aðstæður voru á vinnustaðnum og hvort aðbúnaður þar hafi verið forsvaranlegur og fyllsta öryggis gætt í skilningi laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þá deila aðilar einnig um hvaða varanlegu afleiðingar slysið hafi haft á heilsu stefnanda.

Í málinu liggur fyrir umsögn Vinnueftirlits ríkisins um slysið. Kemur fram í umsögninni að borist hafi tilkynning um slysið til Vinnueftirlitsins kl. 15:55 eða um 25 mínútum eftir að það hafi átt sér stað og að samstundis hafi verið farið á vettvang. Segir í niðurstöðu umsagnarinnar að orsakir slyssins megi meðal annars rekja til þess að stöðugleiki mótaflekans hafi ekki verið sem skyldi vegna rangrar stöðu stífa sem hafi haldið honum. Þar að auki kunni veðurlag að hafa haft einhver áhrif en á hafi gengið með nokkuð hvössum vindhviðum af suðvestri. Þá skuli nefnt að alls ekki sé ætlast til að menn klifri upp járngrind flekanna heldur skuli nota trausta stiga, en að alls ekki sé hægt að fullyrða að slíkt hefði forðað slysinu. 

Við aðalmeðferð málsins gáfu báðir aðilar skýrslu auk þess sem fyrrnefndur Hörður Jónsson kom fyrir dóminn sem vitni.

II.

Í stefnu er málsatvikum lýst með þeim hætti að umræddan dag hafi verið töluvert hvassviðri og gengið hafi á með vindhviðum. Unnið hafi verið við uppsteypu nýbyggingarinnar og hafi flekamótum verið stillt upp á steypta sökkulveggi, sem staðið hafi á þjappaðri jarðfyllingu. Flekamót þessi hafi verið um það bil 200 kg. að þyngd, 360 sentimetra löng og 260 sentimetra há. Uppsteypu útveggja byggingarinnar hafi að mestu verið lokið og steypa verið hörðnuð, en ekki hafi verið búið að fjarlægja flekamótin.

Jarðfyllingu í grunninum hafi ekki verið að fullu lokið og ekki hafi verið fyllt í sökkulinn þannig að jarðfyllingin væri samsíða efri brún sökklanna. Hafi yfirborð jarðfyllingarinnar því verið um 40 sentimetrum lægra en efri brún sökklanna. Flekamótunum hafi, eins og áður segir, verið raðað ofan á efri brún sökkulsins og hafi þeim verið haldið uppi með járnstífum, sem annars vegar hafi verið festar í járnstoðir á bakhlið flekamótanna og hins vegar hafi þær fengið stuðning í jarðfyllingunni, eða nánar tiltekið hafi spítukubbum verið staflað ofan á jarðfyllinguna og hafi stífurnar hvílt á þeim. Umræddar stífur séu almennt hannaðar til þess að styðjast við láréttan flöt, sem sé samsíða neðri brún flekamótanna, en vegna fyrrnefnds hæðarmismunar hafi þær verið talsvert brattari en hönnun þeirra hafi gert ráð fyrir. Hafi þetta valdið því að flekamótin hafi verið valtari en venja hafi verið til.

Slys stefnanda hafi átt sér þannig stað að stefndi, vinnuveitandi stefnanda, hafi beðið stefnanda að fara upp á umrædd steypumót til að sækja járn sem þar hafi verið. Við aðilaskýrslur kom fram að um hafi verið að ræða svokallað upphækkunarjárn um það bil 30 sentimetra langt. Hafi stefnandi í þessu skyni klifrað upp járngrindur utan á steypumótinu. Þegar stefnandi hafi verið við það að komast upp á mótið, hafi fyrrnefndar stífur gefið sig og mótið fallið aftur á bak og stefnandi einnig. Hafi stefnandi fallið af mótaflekanum og á trékassa sem staðið hafi á jarðfyllingunni innan um annað mótatimbur. Mótaflekinn hafi því næst lent ofan á stefnanda.

Mótaflekinn hafi lent á fótum og brjóstkassa stefnanda. Stefnandi hafi ekki misst meðvitund en hafi átt mjög erfitt um andardrátt. Hafi tveir samstarfsmenn stefnanda þegar komið að og hafi lyft flekamótinu af honum. Stefnandi hafi verið fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild og hafi hann reynst vera með fjölmörg rifbrot beggja megin og mar á báðum lungum. Jafnframt hafi verið blóð í hægra brjóstholi og loftleki í hægra lunga. Þá hafi stefnandi tognað á vinstri öxl og í hálsi og brjóstbaki. Eftir komuna á slysadeild hafi stefnandi verið fluttur á gjörgæsludeild og hafi hann legið á spítala í tæpar tvær vikur.

Vinnueftirlit ríkisins hafi verið kallað á slysstað og hafi komist að þeirri niðurstöðu að orskök slyssins hefði verið óstöðugleiki mótaflekans vegna rangrar stöðu stífanna, sem haldið hafi flekanum uppi. Þá hafi einnig verið talið óæskilegt að klifrað væri upp í járngrind flekanna og hefði verið eðlilegra að nota stiga til að komast upp á mótin. Að lokum hafi Vinnueftirlitið talið að veðuraðstæður hefðu hugsanlega átt þátt í slysinu.

Stefnandi kveður að vinnuslys hans hafi haft verulegar varanlegar afleiðingar á heilsufar hans. Eftir slysið hafi hann átt erfitt með að stunda erfiðisvinnu og geti ekki gengið í öll störf. Með matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar, 5. nóvember 2003 hafi varanlegur miski stefnanda vegna slyssins verið metinn 5%, en varanleg örorka engin. Stefnandi hafi verið talinn óvinnufær frá slysdegi til 11. nóvember 2001. Þá hafi hann verið talinn vera veikur í skilningi  3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í þrjá mánuði og þar af í tvær vikur rúmliggjandi. Stöðugleikatímapunktur hafi verið talinn 5. desember 2001.

Stefnandi kveðst hafa skotið niðurstöðu matslæknanna til Örorkunefndar samkvæmt 10 gr. skaðabótalaga og hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu í álitsgerð 13. september 2005 að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins væri 10% og varanlega örorka sömuleiðis 10%. Örorkunefnd hafi staðfest niðurstöðu matslæknanna á óvinnufærni, en hafi talið stefnanda veikan frá slysdegi til 1. janúar 2002 og þar af rúmliggjandi í 13 daga. Þá hafi nefndin talið stöðugleikatímapunkt vera 1. janúar 2002.

Með bréfi 26. september 2005 hafi lögmaður stefnanda krafið stefnda um greiðslu skaðabóta vegna slyssins, í samræmi við niðurstöður Örorkunefndar, að fjárhæð 4.919.967 krónur að meðtöldum vöxtum og lögmannskostnaði samkvæmt nánari sundurliðun.

Stefnandi kveður engin viðbrögð hafa borist frá stefnda vegna málsins og því hafi honum verið nauðsynlegt að höfða mál þetta.

Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á því að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti verið valdur að tjóni stefnanda og beri þar af leiðandi skaðabótaábyrgð á tjóni hans, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar um bótaábyrgð.

Sé á því byggt að í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, séu lagðar ríkar skyldur á vinnuveitanda og verkstjóra að tryggja öryggi starfsmanna á vinnustöðum. Samkvæmt 37. gr. laganna skuli haga vinnu þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Sambærilega reglu um aðstæður á vinnustað sé að finna í 42. gr. laganna og um notkun tækja og búnaðar í 46. gr.

Stefnandi kveðst jafnframt vísa til þess að ítarlega sé kveðið á um skyldur vinnuveitanda í þessum efnum í reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingavinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, einkum í A og B kafla viðauka IV með reglunum. Sé þar meðal annars kveðið á um skyldu vinnuveitanda til að tryggja stöðugleika mannvirkja sem sett séu upp á byggingavinnustað og skyldu til að nota búnað eingöngu við þær aðstæður sem hann sé hannaður til. Þá sé í 29. gr. kafla B í IV. viðauka reglna nr. 547/1996 lögð rík varúðarskylda á vinnuveitanda við uppsetningu og niðurtöku burðarvirkja eða styrktarstoða við húsbyggingar, auk þess sem kveðið sé sérstaklega á um að slíkar stoðir skuli teknar niður undir umsjá aðila sem til þess sé hæfur.

Um skyldur verkstjóra sé fjallað í 20.-23. gr. laga nr. 46/1980, en þar segi meðal annars að verkstjóri sé fulltrúi atvinnurekanda og beri ábyrgð á að aðbúnaður og öryggi sé fullnægjandi. Verkstjóri skuli einnig beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess svæðis sem hann stjórni séu fullnægjandi. Verði hann var við atriði sem valdið gætu hættu skuli hann tryggja að hættunni sé afstýrt.

Stefnandi kveðst byggja á því að slys stefnanda megi rekja til þess að stefndi hafi vanrækt lögboðnar skyldur sínar til að tryggja að aðstæður og öryggisráðstafanir á byggingasvæðinu væru fullnægjandi, sem og varúðar- og umsjónarskyldur sínar með störfum stefnanda.

Í fyrsta lagi sé ljóst að festingum steypumóts þess sem fallið hafi á stefnanda, eða stífum, hafi verið verulega ábótavant og notkun þeirra ekki í samræmi við hönnun þeirra. Hlaðið hafi verið undir stífurnar vegna hæðarmismunar og hafi það aukið enn á óstöðugleika mótsins. Stefndi beri ótvírætt fulla ábyrgð á allri uppsetningu umrædds steypumóts. Hafi stefnda mátt vera það ljóst að mótið hafi af þessu sökum verið mun valtara en undir eðlilegum kringumstæðum.

Í öðru lagi hafi stefnda og starfsmönnum hans mátt vera ljóst að beinlínis hafi verið hættulegt að senda stefnanda upp á steypumótið vegna óstöðugleika þess, ekki síst í ljósi fyrrnefnds frágangs á festingum þess.

Í þriðja lagi hafi veðuraðstæður verið með þeim hætti að hættulegt hafi verið að senda stefnanda í það verk er stefndi hafi gert vegna sterkra vindhviða.

Í fjórða lagi kveðst stefnandi vísa til þess að það hafi verið óforsvaranlegt af hálfu stefnda að láta stefnanda klifra upp í steypumótið, en það hafi engan veginn verið hannað til þess að klifrað væri upp eftir grindum þess. Hafi stefnda borið að leiðbeina stefnanda um að nota stiga við að komast upp á mótið og láta honum í té slíkan stiga. Hafi stefnda og starfsmönnum hans átt að vera það ljóst að stefnandi hafi enga reynslu haft af byggingastörfum og hafi því stefnda borið að sýna sérstaka aðgæslu við að leiðbeina stefnanda í störfum hans.

Stefnandi kveðst vísa til þess að samkvæmt afdráttarlausri niðurstöðu Vinnueftirlits ríkisins hafi framangreindir þættir verið meginorsök slyssins. Byggi stefnandi á því að samkvæmt framansögðu beri stefndi ábyrgð á öllum meginorsökum slyssins.

Stefndi sé trésmíðameistari, sem reki byggingastarfsemi í eigin nafni og hafi víðtæka reynslu af húsbyggingum og verkstjórn. Beri því að gera til hans ríkar kröfur varðandi umsjón með störfum starfsmanna sinna og að tryggt sé að verklag og aðstæður á byggingasvæðum hans sé í samræmi við eðlilegar og lögboðnar öryggiskröfur. Hafi stefnda mátt vera ljóst að umræddir steypuflekar væru þungir og háir og því veruleg hætta á því að mikið tjón hlytist af ef þeir féllu til jarðar. Verði einnig að telja að stefnda hefði verið í lófa lagið, án mikillar fyrirhafnar, að gera frekari ráðstafanir til að auka á stöðugleika steypumótanna, til dæmis með því að bæta fleiri stoðum við þau.

Stefnandi kveðst einnig byggja á því að stefndi beri samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar vinnuveitendaábyrgð á störfum annarra starfsmanna sinna, sem og verkstjóra og verði því að axla ábyrgð á störfum þeirra og ákvörðunum, þar með töldum þeim sem snúið hafi að því hvernig frágangi á steypumótum hafi verið háttað.

Að lokum kveðst stefnandi byggja á því að stefnda hafi borið sem byggingastjóra verksins að tryggja öryggi á vinnusvæðinu og kveðst í því sambandi vísa til 36. gr. laga nr. 46/1980.

Að öllu þessu virtu telur stefnandi að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti vanrækt lögfestar og ólögfestar skyldur sínar til aðgæslu og til að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Hafi það leitt til vinnuslyss stefnanda og hafi stefndi því bakað sér ótakmarkaða skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyssins.

Stefnandi telur að af gögnum málsins, meðal annars hinni afdráttarlausu niðurstöðu Vinnueftirlits ríkisins um orsök tjónsins, verði ekki séð að stefnandi hafi sýnt af sér óvarkárni eða gáleysi í málinu, eða að slysið verði rakið til óhappatilviljunar. Sé öllum hugsanlegum fullyrðingum stefnda í þá veru mótmælt sem röngum.

Stefnandi kveðst telja fullsannað að slys hans hafi átt sér stað með þeim hætti sem hér hafi verið lýst. Verði ekki á það fallist að lögfull sönnun hafi tekist um umrædda atburðarás sé á því byggt að hún hafi að minnsta kosti verið gerð svo líkleg með framburði stefnanda og vitna, auk niðurstöðu Vinnueftirlits ríkisins, að stefndi verði að sanna hið gagnstæða.

Stefndi reki atvinnustarfsemi í eigin nafni og hafi ekki tekið lögboðna ábyrgðartryggingu vegna tjóns starfsmanna sinna. Sé því nauðsynlegt að höfða mál á hendur honum persónulega vegna tjóns stefnanda.

Stefnandi kveður kröfu sína byggja á álitsgerð Örorkunefndar 13. september 2005.

Krafa stefnanda vegna bóta fyrir tímabundna örorku styðjist við 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Samkvæmt álitsgerð Örorkunefndar hafi tímabundið atvinnutjón stefnanda verið 100% frá 5. september 2001 til 11. nóvember 2001. Stefnandi hafi fengið greidd laun frá stefnda í september og október 2001, en hafi orðið fyrir tekjutapi frá 1. til 11. nóvember sama ár. Krafa um tímabundið tekjutap miðist við meðaltal launa í september (128.174 krónur) og október (123.390 krónur), sem sé 125.782 krónur. Miðað við framangreindar forsendur hafi stefnandi verið tekjulaus í 11. daga og sé því tímabundið tekjutap hans (125.782/30∙11) eða 46.120 krónur.

Krafa um þjáningabætur er sögð styðjast við 3. gr. skaðabótalaga og miðist hún við þjáningatímabil frá 5. september 2001 til 1. janúar 2002, þar af teljist stefnandi rúmliggjandi í 13 daga. Krafa um bætur fyrir varanlegan miska styðjist við 4. gr. skaðabótalaga og miðist við 10% miska.

Krafa um bætur fyrir varanlega örorku styðjist við 6. og 7. gr. skaðabótalaga og sé miðuð við 10% örorku. Frá örorkubótum dragist bætur úr launþegatryggingu 153.071 króna. Heildarkrafa vegna örorkutjóns sé því 3.066.571 króna, eða 3.219.642 krónur að frádregnum 153.071 krónu.

Við munnlegan málflutning lækkaði stefnandi kröfu sína vegna eingreiðslu örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 509.707 krónur.

Þá vísaði stefnandi og til þess við munnlegan málflutning að við ákvörðun málskostnaðar ætti að taka tillit til útlagðs kostnaðar hans að fjárhæð samtals 191.825 krónur. Væri þar um að ræða í fyrsta lagi kostnað við læknisvottorð frá Ragnari Gunnarssyni, heimilislækni, 8.500 krónur, öflun skattframtala stefnanda 1.355 krónur og greiðsla fyrir matsgerð Örorkunefndar 180.000 krónur.

Stefnandi kveðst sundurliða stefnukröfu sína með eftirtöldum hætti:

Tímabundið atvinnutjón

46.120 kr.

Þjáningabætur

130.650 kr.

Miskabætur

582.350 kr.

Örorkubætur

3.066.571 kr.

Frá dregst greiðsla frá Tryggingast. ríkisins

 

-509.707 kr.

Samtals

3.315.984,- kr.

 

Kröfu um vexti frá slysdegi kveðst stefnandi styðja við 16. gr. skaðabótalaga og kröfu um dráttarvexti við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi kveðst vísa máli sínu til stuðnings til 13., 20.-23., 37., 42. og 46. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þá vísar stefnandi til A og B hluta IV viðauka  við reglur nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingavinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, einkum í A hluta 2. gr. og í B hluta 1., 14. og 26. gr. Stefnandi kveðst einnig vísa til 1.-7. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991, um málskostnaðarkröfu til 130. gr. sömu laga og um dráttarvexti til III. kafla laga nr. 38/2001.

III.

Stefndi kveðst í greinargerð sinni mótmæla málatilbúnaði stefnanda í heild nema annað sé tekið fram. Kveður stefndi stefnanda, sem um árabil hafi starfað sem verkamann við ýmis störf, hafa verið starfsmann sinn er hann slasaðist í nýbyggingu sem verið var að reisa að Heiðarhrauni 27, Grindavík. Kveðst stefndi mótmæla því sérstaklega að stefnandi hafi verið ungur og óreyndur í byggingavinnu eða að ætlað reynsluleysi hans breyti nokkru um slysið eða ábyrgð á því.

Að sögn stefnda hafi atvik slyssins verið þau að stefnandi hafi verið að sækja járn sem hafi verið uppi á svokölluðu flekamóti. Stefnandi hafi sjálfur tekið ákvörðun um að príla upp sjálft mótið í stað þess að nota stiga sem verið hafi á vinnustaðnum. Á augabragði og áður en stefnda gæfist ráðrúm til að stöðva stefnanda, hafi stefnandi komið sér upp í mótið og hafi það fallið nánast samstundis niður með þeim afleiðingum að hann hafi meiðst. Þetta athæfi stefnanda hafi verið þvert á það sem honum hafi verið uppálagt af hálfu stefnda. Allir sem þarna hafi verið, þar á meðal stefnandi, hafi vitað að verið var að losa mótin frá veggjunum og því mikilvægara en ella að umgangast þau varlega og alls ekki að príla í þeim.

Í stefnu sé fjallað ítarlega um það hvernig frágangi á svokölluðum járnstífum hafi verið háttað á vinnustaðnum. Af því tilefni kveðst stefndi alfarið mótmæla að sá frágangur hafi verið óeðlilegur miðað við aðstæður eða að hann hafi með einhverjum hætti stuðlað að slysinu. Kveðst stefndi telja að slysið verði einvörðungu rakið til óvarkárni stefnanda sjálfs. Þannig hafi tilverknaður stefnanda eins valdið því að mótaflekinn féll niður og ef ekki hefði komið til þessara athafna hans hefði flekinn haldist örugglega á sínum stað og ekki orðið neinum til tjóns. Liggi það og í hlutarins eðli að frágangur járnstífanna hafi verið fullnægjandi með tilliti til notkunar þeirra og tilgangs, þó vera kunni að frágangur þeirra hafi verið ófullnægjandi til að tryggja öryggi stefnanda við þessar fráleitu athafnir hans. Það sé stefnda til efs að annar og hugsanlega betri frágangur á járnstífum hefði getað afstýrt slysinu miðað við athafnir stefnanda. Er slysið hafi orðið hafi stefnandi unnið hjá stefnda um nokkra hríð og hafi honum átt að vera fullkunnugt um þá sjálfsögðu og almennu skynsemi að príla ekki í flekamótum.

Í tengslum við umfjöllun þessa kveðst stefndi vísa á bug og mótmæla alfarið þeim ályktunum um orsakir slyssins sem fram komi í umsögn Vinnueftirlits ríkisins að svo miklu leyti sem þær tengist hugsanlegri ábyrgð stefnda. Í umsögninni sé einnig látið að því liggja að veður, þ.e. hvass vindur af suðvestri, gæti hafa haft áhrif á slysið. Stefndi kveðst í sjálfu sér ekki geta fullyrt um það en telur það allt að einu ljóst að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á veðurfari. Hafi veður verið ráðandi þáttur í slysinu hljóti það að teljast óhappatilvik í skilningi skaðabótaréttarins.

Stefndi kveðst og alfarið mótmæla því að hann hafi með einum eða öðrum hætti gerst brotlegur við ákvæði laga nr. 46/1980  um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eða reglur og reglugerðir settar í skjóli þeirra laga, þar með taldar reglur nr. 547/1996, sem vísað sé til í stefnu. Þá sé sjónarmiðum um ríka ábyrgð stefnda alfarið mótmælt, sem og sjónarmiðum um öfuga sönnunarbyrði, sem fram komi í stefnu.

Öll sú óvissa sem uppi sé um aðrar mögulegar orsakir slyssins verði einkum og sér í lagi rakin til þess að stefnandi hafi sýnt verulegt tómlæti við að koma á framfæri kröfu sinni. Af gögnum málsins verði ráðið að stefnandi hafi leitað sér aðstoðar lögmanns mjög skömmu eftir slysið, eins og sjá megi af gögnum málsins. Þrátt fyrir það hafi stefndi fyrst fengið veður af kröfu stefnanda um skaðabætur er hann hafi fengið bréf lögmanns stefnanda dagsett 26. september 2005, rúmum fjórum árum eftir slysið. Í millitíðinni hafi ónýst allir möguleikar stefnda á því að láta kanna nánar og afla frekari gagna um frágang mótanna og aðbúnað á vinnustaðnum að öðru leyti. Nú löngu síðar séu möguleikar stefnda á vörnum útilokaðir. Vettvangur slyssins sé löngu breyttur og þau takmörkuðu gögn sem til séu um aðbúnað á staðnum í alla staði ófullnægjandi og ónóg til að felld verði bótaábyrgð á stefnda í málinu. Stefnandi beri ábyrgð á þessu tómlæti sínu. Þá kveður stefndi að telji dómurinn ekki tilefni til að sýkna hann af þessum sökum þá sé að minnsta kosti á því byggt af hans hálfu að tómlæti stefnanda skerpi á sönnunarkröfum sem gera verði til stefnanda í málinu um orsakir slyssins og ætlaða sök og/eða bótaábyrgð stefnda.

Að framangreindu virtu kveðst stefndi byggja á því að slys það sem stefnandi hafi orðið fyrir verði eingöngu rakið til aðgæsluleysis hans sjálfs og þar með eigin sakar. Ósannað sé með öllu að orsakir slyssins verið raktar til nokkurs þess sem stefndi beri ábyrgð á að lögum. Hér skorti því á að grundvallarskilyrði skaðabótaréttarins séu uppfyllt þannig að stefndi verði dreginn til ábyrgðar í málinu. Telji dómurinn tilefni til að fallast á það með stefnanda að stefndi beri einhverja ábyrgð á slysinu, þá sé á því byggt að taka verði tillit til verulegrar eigin sakar hans.

Stefndi kveðst jafnframt mótmæla bótakröfum stefnanda tölulega. Í fyrsta lagi byggi stefndi á því að matsgerð Örorkunefndar sé ekki þess eðlis að hægt sé að byggja rétt á henni í málinu. Telji stefndi að niðurstaða nefndarinnar sé augljóslega röng og í andstöðu við grundvallarþætti málsins. Þvert á móti verði að telja að fyrri matsgerð, sem stefnandi aflaði, beri með sér réttari mælikvarða á ætlað tjón stefnanda. Í þeirri matsgerð komi fram, eins og raunar sé stutt af skattframtölum stefnanda, sem fyrir liggi í málinu, að slysið og ætlað tjón í kjölfar þess, hafi ekki haft nein áhrif á vinnugetu stefnanda. Þvert á móti virðist skattframtöl hans fyrir árin eftir slysið, þ.e. framtöl áranna 2003-2005, bera með sér að hæfi stefnanda til tekjuöflunar hafi á engan hátt skerst í slysinu. Telur stefndi þessar staðreyndir vera þess eðlis að ályktun Örorkunefndar um ætlaða fjárhagslega örorku og varanlegan miska stefnanda hljóti að verða virt að vettugi. Þannig beri að leggja til grundvallar áðurnefnda matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar, komi á annað borð til álita að dæma stefnanda bætur í málinu.

Kveður stefndi að engin læknisfræðileg gögn, önnur en téðar matsgerðir, liggi fyrir í málinu. Þannig hafi ekki verið lögð fram nein áverkavottorð né vottorð um fyrra heilsufar stefnanda. Sé þess vænst að úr þessu verði bætt.

Í tengslum við umfjöllun um sönnunargildi fyrirliggjandi matsgerða sé á það bent að reifun fyrra heilsufars stefnanda sé umtalsvert ítarlegri í matsgerð læknanna Atla Þórs og Ragnars heldur en í áliti Örorkunefndar. Þannig virðist sem ekki hafi verið tekið tillit til þess af hálfu Örorkunefndar að stefnandi hafi átt við kvilla og verki að stríða í baki og vinstri öxl fyrir slys það sem um er deilt. Á því ástandi sínu beri stefnandi sjálfur ábyrgð. Frekari athugasemdir við álitsgerð Örorkunefndar verði reifaðar við aðalmeðferð málsins.

Stefndi kveðst gera alvarlegar athugasemdir við það að honum hafi aldrei verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna og/eða koma að athugasemdum og gögnum við framkvæmd mats á ætluðu tjóni stefnanda. Sönnunargildi þessara matsgerða sé afar takmarkað í málinu og kveðst stefndi raunar telja að tjón stefnanda hljóti að teljast ósannað í raun. Til að forðast verulegan kostnað við öflun matsgerðar dómkvaddra matsmanna sé stefndi hins vegar reiðubúinn að fallast á áðurgreint mat læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar komi á annað borð til greina að dæma bætur að einhverju leyti í málinu.

Stefndi kveðst mótmæla kröfu stefnanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns sem ósannaðri, auk þess sem tölulegum grundvelli hennar sé mótmælt. Kröfu um þjáningabætur sé mótmælt, í fyrsta lagi þar sem krafan virðist ekki vera í samræmi við reiknireglur skaðabótalaga nr. 50/1993 og í öðru lagi vegna þess að krafist sé þjáningabóta fyrir tímabil þar sem stefnandi hafi ekki verið veikur í skilningi skaðabótalaga. Kröfu um útlagðan kostnað sé einnig mótmælt í heild sinni. Sér í lagi sé því mótmælt að á stefnda verði lagður sá kostnaður sem hlotist hafi af öflun álitsgerðar Örorkunefndar, 180.000 krónur. Til þessa kostnaðar hafi verið stofnað án þess að stefnda hafi verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna. Matsgerð Örorkunefndar sé að auki þess efnis að dómur verði trauðla byggður á henni. Loks kveðst stefndi telja að ekki sé útilokað að Vátryggingafélag Íslands hf. hafi þegar greitt þennan kostnað til stefnanda, ellegar að félagið muni eða skuli greiða þann kostnað. Allt að einu telji stefndi fráleitt að hann verði látinn greiða fyrir svo kostnaðarsama gagnaöflun eins og atvikum sé háttað.

Kröfugerð stefnanda taki tillit til greiðslu úr launþegatryggingu að fjárhæð 153.071 króna og séu í sjálfu sér ekki gerðar athugasemdir við það, aðrar en þær að stefndi telur óhjákvæmilegt að skora á stefnanda að leggja fram öll gögn um uppgjör úr þessari launþegatryggingu svo fyrir liggi sönnun þess hversu há fjárhæð hafi í raun verið greidd. Jafnframt sé áskorunin sett fram í þeim tilgangi að upplýst verði hvort frekari greiðsla hafi komið úr téðri launþegatryggingu, til að mynda á grundvelli niðurstöðu Örorkunefndar. Loks sé áskorunin sett fram í þeim tilgangi að upplýst verði um allan þann útlagða kostnað sem tryggingafélagið hafi greitt stefnanda og/eða lögmanni hans.

Með sama hætti og greiðsla úr launþegatryggingu komi til frádráttar bótakröfu stefnanda leiði það af 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að allar bætur  sem stefnandi kunni að hafa fengið eða ætti ella rétt á frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli laga nr. 117/1993 skuli einnig koma til frádráttar bótakröfunni. Stefndi minnist þess að hafa undirritað tilkynningu um slysið til Tryggingastofnunar ríkisins á skjali sem stefnandi hafi útbúið og dagsett hafi verið í janúar 2002. Skjali þessu hafi verið skilað til stofnunarinnar í því skyni að tryggja stefnanda bótarétt almannatrygginga. Skorað sé á stefnanda að upplýsa um bótagreiðslur til sín frá stofnuninni, ellegar bótarétt þaðan hafi greiðslur ekki borist.

Að lokum kveður stefndi óhjákvæmilegt að mótmæla vaxtakröfum stefnanda. Mál þetta hafi verið höfðað með stefnu sem birt hafi verið 8. febrúar 2006. Allir vextir fyrir þann dag árið 2002 séu því fyrndir samkvæmt lögum um fyrningu nr. 14/1905. Jafnframt mótmæli stefndi alfarið upphafsdegi dráttarvaxta samkvæmt kröfugerð stefnanda. Sé krafa stefnanda að því leyti ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og nánar verði reifað við aðalmeðferð málsins. Telji stefnandi að atvik málsins séu slík að dráttarvexti skuli ekki leggja á nema í fyrsta lagi frá dómsuppsögu, en ella að liðnum mánuði frá því að stefnda hafi sannanlega verið fengin gögn málsins í hendur við þingfestingu málsins, sbr. einkum 9. gr. áðurnefndra laga nr. 38/2001.

Stefndi kveðst styðja málatilbúnað sinn við meginreglur skaðabótaréttar, ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993, ákvæði laga nr. 14/1905, laga nr. 117/1993 og laga nr. 46/1980 eftir því sem við eigi. Jafnframt byggi hann á grunnreglum réttarfars um sönnunarbyrði og ákvæðum laga nr. 91/1991 um réttarfar og málskostnað. Þá vísar hann um vexti til laga nr. 38/2001.

IV.

Stefnandi hefur undir rekstri málsins orðið við áskorunum stefnda um gagnaframlagningu með þeim hætti að leggja fram þrjú læknisvottorð, eitt áverkavottorð og útprentun úr sjúkraskrá. Þá hefur hann einnig lagt fram gögn um tjónauppgjör við Vátryggingafélag Íslands hf. og greiðslukvittun vegna greiðslu örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Á grundvelli síðastnefnds skjals lækkaði hann kröfu sína eins og áður er nánar getið.

Eins og fram er komið varð slys stefnanda þann 5. september 2001 er hann var að störfum í þágu stefnda við byggingu parhúss að Heiðarhrauni 27 í Grindavík. Af myndum af vettvangi má ráða að húsið er á einni hæð. Stefndi var byggingameistari hússins og er ekki annað komið fram í málinu en að hann hafi sem slíkur haft allan veg og vanda af byggingu hússins. Þá er óumdeilt að stefndi var vinnuveitandi og verkstjóri stefnanda, en stefndi lýsti því í aðilaskýrslu sinni að hann hafi rekið sitt eigið byggingafyrirtæki í áratugi.

Stefnandi var tæplega 24 ára þegar slysið átti sér stað. Kvaðst hann í aðilaskýrslu sinni hafa klárað grunnskóla og þá farið að vinna ýmis verkamannastörf en við byggingavinnu hefði hann kannski unnið um það bil tvo mánuði áður en hann hóf störf hjá stefnda. Þegar slysið átti sér stað kvað hann sig hafa starfað hjá stefnda í rúman mánuð. Fær síðastnefnd fullyrðing stoð í framburði stefnda.

Af gögnum málsins og aðilaskýrslu stefnda má ráða að umrætt hús var steypt upp með mótaflekum. Þegar slysið átti sér stað hafði annar gafl og önnur hlið hússins verið steypt og búið að koma fyrir mótaflekum til uppsteypu seinni tveggja veggjanna. Ekki mun hafa verið hægt að komast inn í húsið nema með því að fara yfir mótin á stiga sem sjá má á myndum á vettvangi. Stefnandi var að störfum inni í húsinu ásamt vitninu Herði Jónssyni. Að sögn stefnda hafði hann brugðið sér frá stutta stund og var nýkominn til baka þegar slysið átti sér stað. Aðrir munu ekki hafa verið á vettvangi.

Óumdeilt er að stefndi klifraði upp mótafleka sem stóð upp við vegg sem þegar hafði verið steyptur í þeim tilgangi að ná í svokallað upphækkunarjárn sem staðsett var við efri brún flekans. Stefnandi notaði ekki stiga en klifraði eftir járngrindum sem eru á bakhlið flekans. Af fyrirliggjandi umsögn Vinnueftirlits ríkisins má ráða að umræddur fleki var 3.6 metrar á lengd og 2.6 metrar á hæð og er þyngd hans áætluð um 200 kílógrömm. Losnaði flekinn frá veggnum og féll yfir stefnanda. Varð stefnanda það til happs að hann féll á trékassa sem staðsettur var þarna og tók kassinn við hluta af þunga flekans. Þó betur hafi farið en á horfðist slasaðist stefnandi alvarlega eins og nánar verður lýst síðar. Þurfti tvo menn til að lyft flekanum af stefnanda. Aðilar eru sammála um að hvasst hafi verið og er því lýst þannig í framangreindri umsögn Vinnueftirlits ríkisins að gengið hafi á með nokkuð hvössum vindhviðum af suðvestri.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi mælt fyrir um það að hann skyldi fara upp í steypumótið til að ná í upphækkunarjárn eins og fyrr er lýst. Þessu hefur stefndi mótmælt og sagt að rétt sé að hann hafi falið stefnanda að ná í upphækkunarjárnið en hafi ekki ætlast til að hann næði í það þarna, enda hafi fleiri slík járn verið til reiðu, til að mynda í trékassa þeim er áður er minnst á að tekið hafi fallið af stefnanda. Vitnið Hörður staðfesti það að í umræddum kassa hafi meðal annars verið geymd slík járn. Vitnið mundi hins vegar ekki aðdraganda slyssins eða hvernig aðstæður voru nákvæmlega þegar það átti sér stað. Stefndi lýsti því svo að hann hafi beðið stefnanda að ná í umrætt járn en hafi svo brugðið sér frá. Þegar hann hafi komið til baka hafi stefnandi brugðist við og klifrað upp steypuflekann, sem hafi fallið nánast samstundis. Hafi þetta gerst hraðar en svo að stefndi hafi getað haft áhrif á hvernig stefnandi bar sig að. Aðila greinir því á um hvernig atvik voru og getur vitnisburður Harðar Jónssonar ekki veitt vísbendingar í þessu efni. Verður þó að telja að umrætt járn sé þess konar hlutur að það hafi líkurnar með sér, á vinnustað eins og þeim sem um ræðir, að völ hafi verið fleiri járna en þess sem staðsett var á umræddum mótafleka. Stefnandi ber sönnunarbyrði þess að honum hafi verið gefin fyrirmæli um að ná í upphækkunarjárnið með þeim hætti sem hann gerði. Hefur slík sönnun ekki tekist enda stendur samkvæmt framansögðu orð gegn orði.

Á hinn bóginn er einnig ósönnuð sú fullyrðing stefnda að hann hafi gefið starfsmönnum sínum fyrirmæli um að fara ekki upp í steypumótin án þess að nota stiga.

Liggur þá fyrir að skera úr um það hvort frágangur margnefnds mótafleka hafi verið forsvaranlegur eins og hér stóð á.  Við skýrslutökur við aðalmeðferð málsins var nánar skýrt hvernig frágangi mótafleka af þessari gerð er háttað. Liggur fyrir að þegar slegið er upp fyrir mótunum eru rekin í gegn um festingar á flekunum svokölluð spjót, sem tryggja stöðu flekans. Þá er flekinn einnig studdur af skástífum sem liggja frá bakhlið hans niður á jörð. Að sögn stefnda getur þurft að hlaða undir skástífurnar ef jarðvegur stendur lægra en neðri brún flekans. Mun svo hafa verið í þessu tilviki, en því er lýst í umsögn Vinnueftirlits ríkisins að jarðvegur hafi staðið 40 sentimetrum neðar en neðri brún flekans. Þá liggja einnig fyrir ljósmyndir af vettvangi, teknar af rannsókarlögreglumanni, sem sýna frágang með framangreindum hætti á öðrum mótafleka í byggingunni og segir í myndatexta að mótaflekinn sem féll muni hafa verið festur með líkum hætti. Deila aðilar meðal annars um það hvort forsvaranlegt hafi verið að hlaða þannig undir skástífurnar og heldur stefnandi því fram að sá frágangur hafi verið meginorsök þess hve mótaflekinn reyndist óstöðugur.

Í aðilaskýrslu sinni bar stefndi að honum hafi orðið ljóst eftir slysið að hin svonefndu spjót hafi verið slegin úr mótaflekanum og þá taldi hann að einnig hefði verið losað um stífurnar. Kvað hann fjarri að hann hefði gefið fyrirmæli um að þetta skyldi gert og að verklag hafi verið með þeim hætti að flekarnir hafi verið losaðir jafn óðum og þurfti að nota þá. Lokið hefði verið að mestu uppslætti á veggjum og ekki hafi verið þörf á umræddum mótafleka. Stefndi kvaðst ekki vita hver hefði losað flekann. Varð framburður stefnda ekki skilinn á annan veg en að hann teldi að flekinn hefði ekki getað fallið ef ekki hefði verið búið að slá úr honum spjótin og losa upp stífurnar. Með vísan til 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir verða að byggja á þessari lýsingu stefnda á aðstæðum og verður hún því lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Er það og mat sérfróðs meðdómanda að ekki sé líklegt að fleki af þessu tagi falli niður undan þunga manns nema hann hafi áður verið losaður, í það minnsta að einhverju leyti og að ekki sé líklegt að frágangur skástífa með þeim hætti sem að framan er lýst og sjá má af myndum af vettvangi gæti einn og sér verið orsök þess að umræddur fleki losnaði. Þá liggur og fyrir að útilokað er að flekinn losni nema hin svokölluðu spjót hafi í það minnsta verið losuð.

Í 42. gr. laga nr. 46/1980 er kveðið á um að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður að gætt sé þar fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Kemur og fram að fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Framangreindar skyldur hvíla á atvinnurekanda samkvæmt 13. gr. sömu laga og ber verkstjóri einnig skyldur í þessu efni, eins og nánar greinir í 21. til 23. gr. laganna. Í 2. gr. A hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingavinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, kemur fram að efni, búnaður og almennt hvers kyns hlutir á hreyfingu er geti haft áhrif á öryggi og heilbrigði starfsmanna skuli vera þannig úr garði gerðir að stöðugleiki þeirra sé tryggur. Þá kemur fram í B. hluta IV. viðauka sömu reglna, sem fjallar um sérstakar lágmarkskröfur sem gildi um vinnustaði á byggingarsvæðum, í 1. gr. að athafnasvæði skuli vera nægilega stöðug og traust til að það hæfi notkun þeirra og að mannvirki sem sett séu upp á byggingarvinnustað skuli vera stöðug og traust, meðal annars að teknu tilliti til utanaðkomandi áhrifa sem verka kunna á þau.

Samkvæmt því sem að framan greinir er það mat dómsins að margnefndur steypumótafleki hafi ekki verið festur nægilega tryggilega. Þykir ferð stefnanda upp flekann ekki hafa verið til þess fallinn að valda meira álagi á flekann en búast mátti við og hafi losun flekans án þess að gengið væri úr skugga um stöðugleika hans verið meginorsök slyssins. Breytir engu um ábyrgð stefnda, sem vinnuveitanda hvort það var hann sjálfur, eða aðrir starfsmenn hans, sem losuðu flekann og hvort það var gert í brýnni andstöðu við fyrirmæli stefnda sjálfs. Þá þykir það ekki breyta ábyrgð stefnda að þessu leyti þó óupplýst sé hver starfsmanna hans stóð þannig að verki. Verður því fallist á að stefndi beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda.

Á hinn bóginn verður ekki litið framhjá því að stefnandi hafði unnið við að slá frá umræddum mótum ásamt vinnufélaga sínum og stefnda. Er ekki annað komið fram en að aðeins þeir þrír hafi unnið við umrætt verk. Getur stefnanda vart hafa dulist að mótaflekar kynnu að hafa verið losaðir og verður að hafa í huga að spjót höfðu sannanlega verið losuð í viðkomandi mótafleka og hugsanlega höfðu skástífur einnig verið losaðar. Hafa verður þó í huga að sönnunarreglur leiða til þess að þó yfirlýsing stefnda um að stífurnar hafi verið losaðar bindi hann við sönnunarfærslu, verður sú yfirlýsing ekki notuð til sönnunar um eigin sök stefnanda, en um hana ber stefndi sönnunarbyrði. Verður að telja að þessi vanbúnaður mótaflekans hafi átt að blasa við stefnanda og í ljósi þess hefði honum mátt vera ljóst að tryggara hefði verið að nota stiga. Þá þykir ekki sýnt að stefnanda hafi verið nauðsynlegt að klifra upp mótaflekann til að ná í upphækkunarjárn, enda líklegt að fleiri slík hafi verið til staðar, eins og að framan greinir. Er þó á hinn bóginn til þess að líta að stefnandi hafði aðeins starfað um mánaðar skeið hjá stefnda og gat því vart talist vanur maður. Þá verður og að hafa í huga að í umsögn Vinnueftirlits ríkisins eru ekki talin efni til að fullyrða að notkun stiga hefði afstýrt slysinu. Að öllu framangreindu virtu verður stefnanda gert að bera þriðjung tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.

Ekki verður fallist á það með stefnda að krafa stefnanda geti talist niður fallin fyrir tómlæti. Verður séð af læknisvottorðum í málinu að stefnandi hefur verið að huga að réttindum sínum allt frá slysdegi og hefur fengið greiðslur frá Vátryggingafélagi Íslands hf. fyrst 25. janúar 2002 vegna læknisvottorða og síðast 23. apríl 2004 þegar félagið gaf út tjónskvittun og gerði svokallað lokauppgjörs vegna slyssins, en greiðslur félagsins eru vegna slysatryggingar launþega sem stefndi tók hjá því vegna starfsmanna sinna. Það athugast að stefndi hefur ekki í málinu uppi þá málsástæðu að viðtaka stefnanda á nefndu lokauppgjöri hafi fyrrt hann rétti til að krefjast frekari bóta vegna slyssins. Eru því ekki efni til að meta hvort yfirlýsing sem stefnandi gaf á nefnda tjónskvittun hafi áhrif á úrlausn málsins.

Ekki verður heldur fallist á þá málsástæðu stefnda að ætlaður seinagangur stefnanda í að halda fram rétti sínum eigi að hafa áhrif á mat á sönnunarbyrði í málinu. Lúta röksemdir stefnda einkum að því að hann hefði getað aflað frekari sönnunargagna um aðstæður á vettvangi ef hann hefði vitað af kröfu stefnanda fyrr. Stefndi kallaði til Vinnueftirlit ríkisins strax í kjölfar slyssins, eins og honum bar og var skýrsla gerð vegna atviksins. Var stefnda því í lófa lagið að gera athugasemdir við skýrsluna og óska frekari skoðunar á vinnusvæði sínu ef hann taldi skýrslunni ábótavant. Verður ábyrgð á ætluðum skorti á upplýsingum um aðstæður á slysstað ekki lögð á stefnanda, umfram þá sönnunarbyrði sem á tjónþola hvílir samkvæmt reglum skaðabótaréttar.

Eins og að framan greinir byggir stefnandi fjárkröfu sína í málinu á niðurstöðu álitsgerðar Örorkunefndar samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi hefur mótmælt því að álitsgerðin verði lögð til grundvallar en hefur jafnframt lýst því að hann geti fallist á, að fenginni niðurstöðu um bótaskyldu hans, að tekið verði mið af matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar. Stefndi gerði í greinargerð sinni áskilnað um að reifa nánar við munnlegan málflutning sjónarmið sín um gildi álitsgerðar Örorkunefndar og kom fram við munnlegan málflutning hjá lögmanni stefnda að byggt væri á því að ósannað væri að þeir áverkar sem lýst er í álitsgerð Örorkunefndar stöfuðu af slysinu, enda komi fram í sjúkrasögu stefnanda að hann hafi hlotið tognunaráverka á vinstri öxl nokkru fyrir slysið. Þá hafi hann í kjölfar slyssins ekki kvartað undan áverkum í vinstri öxl og þeirra sé ekki getið í matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar. Af hálfu stefnanda var málsástæðum þessum ekki mótmælt sem of seint fram komnum.

Í máli þessu liggja fyrir fjögur vottorð lækna, ljósrit úr sjúkraskrá stefnanda auk framangreindrar matsgerðar og álitsgerðar Örorkunefndar.

Í læknisvottorðum/áverkavottorðum dagsettum 31. október 2001, 9. janúar 2002, 15. apríl sama ár og 23. apríl 2003 er hvergi minnst á að stefnandi kvarti yfir eymslum eða áverkum á vinstri öxl. Aðeins kemur fram í áverkavottorði Ragnars Gunnarssonar 9. janúar 2002 að stefnandi kvarti um bakverki og sé verstur milli herðablaða með leiðni út í vinstri öxl. Þá er þess getið í umfjöllun um fyrra heilsufar í matsgerð Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar að stefnandi hafi fengið hnykk á vinstri öxl í janúar 2001. Ekki er minnst á það í síðastnefndri matsgerð að stefnandi hafi kvartað undan verkjum frá vinstri öxl. Í læknisvottorði Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar 30. nóvember 2004 er frá því greint að stefnandi kvarti yfir eymslum í brjóstbaki, hálsi og vinstri öxl og frá því greint að hann telji sig verstan í brjóstbaki, þ.e. á milli herðablaða. Varðandi vinstri öxl kveðist stefnandi geta látið smella í við ákveðnar hreyfingar og það braki mikið í hálsi. Í niðurstöðu álits Örorkunefndar er því slegið föstu að við margnefnt slys hafi stefnandi orðið fyrir tognunaráverka á vinstri öxl og mögulega væga tognun á hálsi og brjóstbaki, auk fjölmargra rifbrota. Skoðun er sögð leiða í ljós lítils háttar skekkju í brjósthrygg, eymsli yfir hægra rifjahylki og yfir hryggtindum og vöðvum á mótum brjóst- og hálshryggjar eða efst í brjósthrygg. Þá komi fram eymsli frá vinstri axlarhyrnulið og eymsli við hámarkshreyfingu í vinstri axlarlið.

Af framangreindu má ráða að áverki á vinstri öxl er veigamikill þáttur í ákvörðun Örorkunefndar á miskastigi og örorku stefnanda. Af læknisfræðilegum gögnum sem fyrir liggja í málinu verður ráðið að stefnandi hafði ekki uppi kvartanir um verki í vinstri öxl fyrr en í læknisskoðun hjá Sigurði Ásgeiri Kristjánssyni 15. júní 2004 eða tveimur árum og níu mánuðum eftir slysið.

Það er mat dómsins, sem skipaður er sérfróðum meðdómanda á sviði bæklunarskurðlækninga, að ekki verði talið á grundvelli fyrirliggjandi gagna að sýnt hafi verið fram á orsakatengsl milli vinnuslyss stefnanda og meins þess sem hann nú kennir á vinstri öxl. Í áliti Örorkunefndar er engar skýringar að finna á því hvers vegna nefndin telur nú að umræddur áverki hafi orðið við hið umdeilda slys og ekki er þar rökstutt hvernig standi á því að áverkans varð ekki vart fyrr en svo löngu eftir slysið. Er því óhjákvæmilegt annað en að líta framhjá áliti Örorkunefndar að öllu leyti við úrlausn málsins og leggja til grundvallar mat læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar. Samkvæmt því mati var stefnandi talinn hafa orðið fyrir algeru tímabundnu atvinnutjóni skv. 2. gr. skaðbótalaga frá 5. september til 11. nóvember 2001. Þá taldist hann eiga rétta á þjáningabótum skv. 3. gr. þannig að hann hafi verið rúmliggjandi frá slysdegi til 18. september 2001, en batnandi án þess að vera rúmliggjandi frá þeim degi til 5. desember 2001. Var síðastnefndur dagur talinn stöðugleikatímapunktur. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðbótalaga er í matinu sagður 5% en varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laganna engin. Er síðastnefnd niðurstaða um varanlega örorku í samræmi við fram lagðar upplýsingar um tekjur stefnanda í kjölfar slyssins, en ekki verður þar séð að tekjur hans hafi dregist saman.

Stefnandi krefst í málinu greiðslu á 46.120 krónum vegna tímabundins atvinnutjóns og verður samkvæmt framansögðu fallist á þá kröfu. Þá krefst stefnandi 130.650 króna í þjáningabætur, en sú krafa er miðuð við að stöðugleikatímapunktur hafi verið 1. janúar 2001 en en ekki 5. desember 2001 eins og lagt er til grundvallar í málinu. Miðað við síðastgreindan stöðugleikatímapunkt verður stefnandi talinn eiga rétt á greiðslu 104.130 króna vegna þessa kröfuliðar og er þá miðað við að hann hafi verið rúmliggjandi í þrettán daga og veikur án þess að vera rúmliggjandi í 78 daga. Krafa stefnanda um miskabætur að fjárhæð 582.350 krónur miðast við 10% miskastig. Þar sem lagt er til grundvallar að stefnandi hafi orðið fyrir 5% miska lækkar sú fjárhæð um helming og verður því 291.175 krónur. Það er eins og að framan greinir mat dómsins að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegri örorku og er kröfu hans þar að lútandi hafnað. Með vísan til framanritaðs nemur krafa stefnanda sem fallist er á alls 441.425 krónum og hefur krafan þá ekki sætt frádrætti vegna eigin sakar stefnanda. Vegna ákvæða 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga ber að draga frá bótum greiðslur þær sem upplýst er að stefnandi fékk, annars vegar úr slysatryggingu launþega 153.071 króna og hins vegar frá Tryggingastofnun ríkisins 509.707 krónur. Nema greiðslur þessar samanlagt 662.778 krónum, sem er hærri fjárhæð en nemur þeirri bótaskyldu sem á stefnda hefur verið lögð samkvæmt framansögðu. Telst stefnandi því hafa fengið tjón sitt fullbætt og verður stefndi því sýknaður af kröfu hans.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

             Dómurinn er kveðinn upp af Halldóri Björnssyni, settum héraðsdómara, ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni, verkfræðingi, og Ríkarði Sigfússyni, bæklunarskurðlækni.

D ó m s o r ð :

             Stefndi, Jóhannes Haraldsson, er sýkn af kröfu stefnanda, Þorkels Halldórssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.