Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Mánudaginn 8

 

Mánudaginn 8. september 2008.

Nr. 370/2008.

Klausturhólar ehf.

Fjárfestingafélagið Orka ehf. og

Kristján Sigurður Sverrisson

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

gegn

Viðari Marínóssyni

Elíasi Hákonarsyni

Stefáni Antonssyni og

Hjálmari Kristinssyni

(Björn Líndal hdl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

V, E, S og H höfðuðu mál fyrir héraðsdómi og kröfðust þess að K ehf., F ehf. og K yrðu dæmd til að greiða þeim 25.000.000 krónur vegna vangoldinnar kaupsamningsgreiðslu. Við meðferð málsins í héraði óskuðu V, E, S og H eftir því að málið yrði fellt niður og í kjölfarið af því úrskurðaði héraðsdómari að málskostnaður skyldi falla niður milli V, E, S, H og K ehf. en að hinir fyrrnefndu skyldu greiða F ehf. og K 200.000 krónur í málskostnað. Kröfðust F ehf. og K nú hærri málskostnaðar í héraði. Með vísan til 1. málsliðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, svo og þess að málið var fellt niður áður en það kom til munnlegs málflutnings og dóms, var talið að málskostnaður til F ehf. og K væri hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu máli þessu til Hæstaréttar með kæru sem stimpluð er um móttöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. júlí 2008 og barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2008, þar sem þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í máli varnaraðila á hendur sóknaraðilum, sem fellt var að öðru leyti niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilarnir Fjárfestingarfélagið Orka ehf. og Kristján Sigurður Sveinsson  krefjast þess aðallega að varnaraðilum verði gert að greiða þeim hvorum um sig 1.156.436 krónur í málskostnað, til vara lægri fjárhæð og að því fjárgengnu 682.555 krónur hvorum. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Sóknaraðilinn Klausturhólar ehf. krefst aðeins staðfestingar á ákvæði hins kærða úrskurðar um að fella niður málskostnað milli hans og varnaraðila. 

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til 3. mgr. 151. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991 er sóknaraðila Klausturhólum ehf. heimilt að kæra úrskurð héraðsdóms til staðfestingar að því er málskostnað hans varðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði óskuðu varnaraðilar eftir því við fyrirtöku málsins 25. júní 2008 að það yrði fellt niður. Sóknaraðilarnir Fjárfestingafélagið Orka ehf. og Kristján Sigurður Sveinsson kröfðust þá málskostnaðar sér til handa og var um fjárhæð kostnaðarins vísað til málskostnaðarreiknings sem lagður var fram. Þar er málskostnaðurinn reiknaður af stefnufjárhæð, og hefur hann að geyma þær fjárhæðir sem aðalkrafa þessara sóknaraðila greinir.

Með vísan til 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 bar héraðsdómara að verða við kröfu þessara aðila svo sem hann gerði. Um fjárhæð kröfunnar verður með vísan til 1. málsliðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sem og þess að málið var fellt niður áður en það kom til munnlegs málflutnings og dóms um meginefni þess talið að hæfilegur málskostnaður til hvors framangreindra sóknaraðila nemi 300.000 krónum og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað milli varnaraðila og sóknaraðilans Klausturhóla ehf. verður staðfest.

Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðilunum Fjárfestingafélaginu Orku ehf. og Kristjáni Sigurði Sverrissyni kærumálskostnað svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðilar, Viðar Marinósson, Elías Hákonarson, Stefán Antonsson og Hjálmar Kristinsson, greiði óskipt sóknaraðilunum Fjárfestingafélaginu Orku ehf. og Kristjáni Sigurði Sverrissyni 300.000 krónur hvorum í málskostnað.

Hinn kærði úrskurður er að öðru leyti staðfestur.

Varnaraðilar greiði óskipt sóknaraðilunum Fjárfestingafélaginu Orku ehf. og Kristjáni Sigurði Sverrissyni 75.000 krónur hvorum í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2008.

Í þinghaldi í dag er af hálfu stefnenda krafist niðurfellingar málsins. Af hálfu stefndu er krafist málskostnaðar en þó þannig að hann falli niður milli stefnenda og stefnda Klausturhóla ehf.

                Málið var höfðað 6. mars 2008 og krafist greiðslu 25.000.000 króna óskipt úr hendi stefndu auk vaxta og málskostnaðar. Af hálfu stefndu var krafist sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnenda. Stefnt er vegna vangoldinnar kaupsamningsgreiðslu vegna kaupsamnings milli stefnda Klausturhóla ehf. og stefnenda. Til tryggingar greiðslu var gefinn út tryggingarvíxill, samþykktur af stefnda Fjárfestingarfélaginu Orku ehf. og útgefinn af stefnda Kristjáni Sigurði Sverrissyni. Til lausnar málsins var gert samkomulag 28. apríl 2008 milli stefnda Klausturhóla ehf. og stefnenda málsins.  

Eftir úthlutun málsins til dómara hefur það nú verið þrívegis tekið fyrir á dómþingi.

Samkvæmt c-lið 1.mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 ber að fallast á kröfu stefnenda um niðurfellingu málsins. Á grundvelli 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar verður fallist á málskostnaðarkröfu stefndu. Ákveðið er að málskostnaður falli niður milli stefnda Klausturhóla ehf. og stefnenda en að stefnendur greiði óskipt stefndu, Fjárfestingarfélaginu Orku ehf. og Kristjáni S. Sverrissyni, málskostnað sem eftir umfangi málsins er ákveðinn 200.000 krónur.

Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Mál þetta er fellt niður.

Málskostnaður fellur niður milli stefnenda og stefnda, Klausturhóla ehf.

Stefnendur, Viðar Marínósson, Elías Hákonarson, Stefán Antonsson og Hjálmar Kristinsson, greiði óskipt stefndu, Fjárfestingarfélaginu Orku ehf. og Kristjáni S. Sverrissyni, 200.000 krónur í málskostnað.